4. september 2024 Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn Rafmagnsframleiðsla með vindi er þrautreynd og örugg leið til að framleiða rafmagn á umhverfisvænan og árangursríkan hátt. Í nágrannalöndum okkar stendur vindorka undir stórum hluta raforkuþarfar og áform eru um að hraða uppbyggingu hennar í nágrannalöndum okkar til að tryggja aukið framboð, raforkuöryggi og ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda í hverju landi fyrir sig. Á Íslandi liggja sömu verkefni fyrir. Við þurfum að tryggja raforkuöryggi heimila og fyrirtækja svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna og um leið þarf græna orku í orkuskiptin þar sem jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir græna orku s.s. í samgöngum. Vindorka er þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver hraðar en þekkist við nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru. Vindorka er því góð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Vandað til verka Vindorkuverkefni þurfa líkt og önnur að standast mjög strangar kröfur um rannsóknir og umhverfismat áður en þau geta hlotið leyfi. Má þar nefna rannsóknir á gróðurfari, fugla- og vatnalífi og fleira. Um 35 vindorkuverkefni eru til skoðunar í dag hér á landi sem eru mislangt komin í þessu ferli og engin vissa enn um hver þeirra verða að veruleika. Áhrif vindorkunýtingar eru fyrst og fremst sjónræn og því þarf að vanda staðarval vel. Vindmyllur geta verið ríflega 150 metra háar með spaða í hæstu stöðu og framleiða á bilinu 4-7 MW. Það er því hægt að raða upp ákveðnum fjölda eftir hagkvæmni og hentugleika á hverjum stað. Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár. Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig framleiðslu grænnar orku á sama svæði. Einnig er hægt að taka þær niður og færa svæðið sem næst fyrra horfi. Þannig bindur vindorkunýting ekki hendur framtíðarkynslóða. Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg. Í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verði lagt bann við að urða blöðin árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur. Sameiginlegur ávinningur Mikill ávinningur felst í því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Í dag notar íslenskt samfélag um milljón tonn af olíu á ári og það kostar okkur 100 milljarða á hverju ári! Með því að nota græna orku framleidda innanlands í stað innfluttrar olíu myndum við fá hreinna loft, meiri fjármuni í okkar sameiginlegu sjóði og aukið sjálfstæði frá öðrum þjóðum með því að vera sjálfum okkur nóg um orku. Af vindmyllum eru greidd fasteignagjöld sem renna til þess sveitarfélags sem það starfar í. Stjórnvöld hafa svo í hendi sér hvernig þau skipta á milli sveitarfélaga sem þannig verða til. Það er ekki einfalt verkefni að þróa og byggja upp orkuverkefni. Það er því fagnaðarefni að öflug, reynd fyrirtæki og einstaklingar, innanlands sem utan, sýni framþróun vindorku á Íslandi áhuga og séu tilbúin til að leggja í miklar fjárfestingar. Á heimasíðu Samorku má nálgast algengar spurningar um vindorku og svör og auk þess má hlusta á þáttinn Spurt og svarað um vindorku í hlaðvarpi Samorku, Lífæðar landsins, á öllum hlaðvarpsveitum. Höfundur greinarinnar er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Greinin birtist fyrst 4. september á visir.is.
20. ágúst 2024 Vindorka til umræðu í Kastljósi Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku og Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps voru gestir Kastljóss mánudaginn 19. ágúst. Til umræðu var vindorkunýting á Íslandi, lagaumgjörð hennar, áhrif á ferðaþjónustu, skipting tekna af orkuvinnslunni og fleira. Skjáskot úr þætti Kastljóss mánudaginn 19. ágúst. Í máli Finns kom meðal annars fram að Búrfellslundur væri dæmi um hvernig rammaáætlun hafi ekki tekist að ná sátt um orkuverkefni eins og upphaflega var lagt upp með, hann fer í gegnum 12 ára feril, ítarlegar rannsóknir á mörgum mismunandi sviðum en samt sem áður er ekki nægileg sátt. Finnur sagði einnig að rammaáætlun væri ekki að þjóna heildarhagsmunum þjóðarinnar, því orkuverkefni taka þar svo langan tíma að útilokað er að við náum loftslagsmarkmiðum. Þáttinn í heild sinni má sjá hér.
20. júní 2024 Hröð þróun til rafvæðingar Helmingur allrar raforku í heiminum verður framleidd úr vind- og sólarorku árið 2040 og hækkar upp í 70% árið 2050. Raforkuþörf heimsins tvöfaldast til ársins 2050 og raforka verður að langstærstum hluta kolefnishlutlaus sama ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu DNV, Energy Transition Outlook: New Power Systems. Í skýrslunni kemur fram að flutningskerfi raforku leiki algjört lykilhlutverk svo þetta geti orðið að veruleika. Flutningsgeta þeirra þurfi að tvöfaldast og innleiða þurfi nýjar lausnir til snjallvæðingar. Þá er einnig lögð áhersla á rafeldsneyti og orkugeymslur auk þess að endurskoða þurfi orkumarkaði svo þeir séu nægilega sveigjanlegir. DNV telur að samkeppnishæfni þjóða komi til með að ráðast af getuþeirra til að aðlagast þessum breyttu orkukerfum og aukinni raforkuþörf hratt og vel. Lesa má skýrslu DNV hér.
15. júní 2022 Rammaáætlun afgreidd eftir níu ára bið Þriðji áfangi áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, var í dag afgreiddur á Alþingi. Níu ár eru liðin frá því að vinna verkefnisstjórnar hófst við þriðja áfanga, sem hefur ekki tekist að samþykkja fyrr en nú. Alþingi afgreiddi áfangann með nokkrum breytingum frá upprunalegri tillögu verkefnisstjórnar. Alls voru sjö kostir færðir í biðflokk. Fjórir þeirra voru áður í verndarflokki rammaáætlunar og þrír í nýtingarflokki. Vindorkukosturinn Búrfellslundur færðist í nýtingarflokk, en hann var áður í biðflokki. Þannig eru í fyrsta skipti vindorkukostir í nýtingarflokki gildandi rammaáætlunar. Um er að ræða Búrfellslund (120 MW) og Blöndulund (100 MW). Landsvirkjun er virkjunaraðili þeirra beggja.
Spurt og svarað um vindorku Nýting vindorku eykst sífellt í heiminum. Á Íslandi er nýting hennar frekar stutt komin. Umræða um nýtingu vindorkunnar á Íslandi verður sífellt meiri og henni fylgja ýmsar vangaveltur um kosti hennar og galla. Hér á eftir eru algengar spurningar um vindorku og svör. Síðan er í uppfærð eftir því sem við á og því geta bæst við spurningar og svör. Hvað er vindorka? Vindorka er sú raforka sem búin er til með vindmyllum. Rafmagn er náttúrufyrirbæri sem byggir á hreyfingu hlaðinna agna og til að búa það til þarf að beisla hreyfiorku þessarra hlöðnu agna. Hlutir í kyrrstöðu hafa stöðuorku en hlutir á hreyfingu hafa hreyfiorku. Til að framleiða rafmagn notum við hreyfiorkuna til að snúa hverfli/túrbínu. Hægt er að snúa túrbínunni með hreyfiorku frá mismunandi orkugjöfum. Í vatnsaflsvirkjunum er rennsli vatns og fallhæð nýtt til að snúa túrbínunni og framleiða rafmagn. Í jarðhitavirkjunum er það þrýstingur jarðhitagufunar sem snýr túrbínunni og vindurinn snýr túrbínunni í vindmyllum. Af hverju er nýting vindorku að aukast í heiminum? Eftirspurn eftir sjálfbærri orku eykst stöðugt þar sem hún er lykilforsenda þess að takast á við loftslagsvandann og skipta þar með jarðefnaeldsneytinu út fyrir græna orku. Ríki heims hafa búið til ýmsa hvata til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, til dæmis að styðja beint við framleiðslu hennar eða með öðrum fjárhagslegum hvötum, en jafnframt með því að setja verðmiða á mengun með svonefndum losunarheimildum. Verð á losunarheimildum fer hækkandi þannig að samhliða eftirspurn eftir grænni orku er því einnig eftirspurn eftir hagkvæmri orku. Vindorka er endurnýjanleg orka og með sífellt lægri stofnkostnaði er hún að festa sig í sessi sem samkeppnishæfur valkostur við jarðefnaeldsneyti án þess að þurfa fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera. Þess vegna fjölgar nú vindorkuverum víðs vegar um heiminn. Af hverju er verið að íhuga vindorkunýtingu á Íslandi? Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni en víða annars staðar. Framleiðsla vindorku hentar mjög vel með framleiðslu endurnýjanlegrar orku úr vatnsafli, sem er ráðandi hér á landi, þar sem hægt er að geyma vatn í lónum þegar vindurinn blæs en nýta vatnsaflið þegar vindskilyrði eru síðri. Vegna þess að stofnkostnaður við vindorkuver lækkar stöðugt verður vindorkan sífellt betri kostur til að svara eftirspurn eftir orku hér á landi og eykur líkur á hagstæðu og samkeppnishæfu orkuverði. Um leið er aukin framleiðsla grænnar orku tækifæri til að byggja upp sterkari iðnað og búa til verðmæt störf á Íslandi. Endurnýjanleg orka er þar að auki eftirsótt vara sem getur skilað Íslandi miklum gjaldeyristekjum og stuðlað að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Í hvað á að nota orkuna sem vindmyllur framleiða? Vindorkan hjálpar til við að svara áframhaldandi raforkuþörf, hvort sem það er þörf heimila og fyrirtækja til framtíðar, til að efla atvinnulíf og stuðla að nýjum, grænum störfum á Íslandi, en síðast en ekki síst til að fara í þriðju orkuskiptin þ.e. að skipta yfir í græna orku í öllum samgöngum, á landi, á sjó og í lofti og gera Íslands þar með 100% grænt. Rétt er að minna á að raforka er á samkeppnismarkaði og því er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það fyrirfram í hvað orka frá einstökum orkukostum fer, en það er ljóst að framtíðin kallar á græna orku á öllum sviðum. Hver ákveður hvar leyfilegt er að reisa vindmyllur? Áður en vindmyllur eru reistar verður að liggja fyrir samkomulag framkvæmdaaðila við eigendur þess lands sem þær verða reistar á. Landið getur ýmist verið í einkaeigu eða eigu opinberra aðila. Til að fá heimild til að reisa og reka vindmyllu fer verkefnið í gegnum margvísleg skref í stjórnsýslunni. Segja má að sveitarfélög séu þar þýðingarmesta stjórnvaldið enda fara þau með skipulagsvald innan sinnan marka. Á undirbúningsstigi fer framkvæmdin í gegnum umhverfismat á grundvelli laga nr. 106/2000. Í því mati er framkvæmdaaðila skylt að rannsaka og gera skilmerkilega grein fyrir verkefninu og umhverfisáhrifum s.s. áhrifum á náttúru og þá sem búa í umhverfi þess. Framkvæmdin fer í gegnum skipulagsferli viðkomandi sveitarfélags og þarf að samrýmast bæði aðal- og deiliskipulagi. Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um skipulagstillöguna s.s. Umhverfisstofnun um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsvernd. Skipulagsstofnun leiðbeinir sveitarfélögum við skipulagsgerð og staðfestir aðal- og svæðisskipulag. Áður en framkvæmdir hefjast þarf framkvæmdaleyfi sveitarfélags að vera til staðar. Við útgáfu framkvæmdaleyfis er gætt að því að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög. Orkustofnun veitir hið eiginlega leyfi, svokallað virkjunarleyfi, til að reisa og reka vindorkuver skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði í leyfið. Í núgildandi rammaáætlun sem samþykkt var 15. júní 2022 af Alþingi eru tveir vindorkunýtingarkostir í orkunýtingarflokki, annars vegar Búrfellslundur með uppsett afl 120 MW (440 GWst á ári) og Blöndulundur með uppsett afl 100 MW (350 GWst á ári). Hvað tekur langan tíma að byggja vindorkuver? Framkvæmdin sjálf tekur ekki langan tíma, eða um 1-2 ár eftir fyrirkomulagi framkvæmdar. Undirbúningur framkvæmdar tekur þó mun lengri tíma þar sem huga þarf að mörgum þáttum. Stunda þarf umfangsmiklar rannsóknir við undirbúning, gera umhverfismat á framkvæmdinni og hanna vindorkuverið. Framkvæmdin fer samhliða í gegnum alla nauðsynlega stjórnsýslu og leyfisveitingarferli. Framkvæmdaraðili þarf einnig að panta og fá afhentar vindmyllur frá framleiðanda. Hamla vindorkuver frjálsri för fólks um landsvæði? Vindmyllur hafa almennt engin áhrif á frjálsa för fólks um landssvæði eftir að byggingartíma er lokið og vindorkuverið komið í rekstur. Algengt er að landbúnaður sé í góðu sambýli við vindmyllur. Dæmi eru um að landsvæði verði enn aðgengilegri en áður vegna þess að samhliða uppbyggingu vindmylla eru lagðir nýir vegir að viðkomandi svæðum. Einnig eru dæmi um að vindorkuver, eins og önnur framleiðsla grænnar orku, séu beinlínis aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Hvaða áhrif hafa vindmyllur á fuglalíf, annað dýralíf og náttúru? Allar tegundir orkuvinnslu hafa einhver áhrif á umhverfi sitt, en framleiðsla endurnýjanlegrar orku er sú umhverfisvænsta. Kolefnisfótspor vindorkunýtingar snýr fyrst og fremst að framleiðslu á vindmyllunum sjálfum. Framleiðsla rafmagns með vindmyllum er kolefnishlutlaus og stuðlar einnig að minni losun gróðurhúsalofttegunda, sem svo stuðlar að betri lífsskilyrðum fyrir menn og dýr. Útreikningar benda til að kolefnisfótspor orkuframleiðslu með vindorku sé um 99% minna en kolaorkuvera, 98% minna en gasorkuvera og 75% minna en sólarorkuvera. Áhrif vindmylla á fuglalíf hafa verið rannsökuð ítarlega víða erlendis og slík áhrif eru eitt af þeim atriðum sem höfð eru til hliðsjónar í leyfisveitingaferli vegna vindmylla. Rannsóknirnar hafa sýnt að margfalt algengara er að fuglar skaðist t.d. vegna aksturs bifreiða, vegna áflugs á hús, vegna katta og vegna efnanotkunar í landbúnaði heldur en vegna vindmylla. Vindmyllur eru því hlutfallslega almennt lítill áhættuþáttur fyrir fugla. Í umhverfismati er farið ítarlega gegnum alla umhverfisþætti og þá jafnframt gerðar kröfur um ítarlegar rannsóknir og síðan mótvægisaðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifunum. Kemur hávaði frá vindmyllum? Vindmyllur gefa frá sér hljóð, aðallega vegna þess að vængir þeirra kljúfa loftið og eins getur heyrst suð. Þá kemur einnig snúningshljóð frá túrbínunni sjálfri sem er eins og lágt vélarhljóð. Áætluð áhrif hljóðs eru tekin inn í leyfisferli vindorkuvers. Samkvæmt 11. kafla byggingareglugerðar um hljóðvist skulu byggingar og önnur mannvirki þannig hönnuð að heilsu sé ekki spillt af völdum hávaða. Enn fremur skal tryggt að fólk í næsta nágrenni geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði. Undir vindmyllunni er hljóðið hæst en það dofnar hratt út eftir því sem fjær er farið. Í um 1,0-1,5 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu er hljóðstig komið niður fyrir þau mörk, 40 dB, sem skilgreind eru fyrir kyrrlát svæði utan þéttbýlis í reglugerð um hávaða, það er svæðum ætluðum til útivistar. 40 dB samsvara hefðbundnum ísskáp. Við meiri vindhraða en 8 m/s er vindur orðinn ráðandi hljóðgjafi og því sé litið á 8 m/s sem versta tilvik við mat á áhrifum vindmyllanna á hljóðvist. Með því að skipuleggja vel staðsetningu vindmylla er hægt að draga úr eða koma í veg fyrir hávaðamengun gagnvart byggð. Með tækniþróun og reynslu hefur náðst töluverður árangur í því að minnka hljóð frá þeim og sífellt er unnið að því að lágmarka þau enn frekar. Hver er líftími vindorkuvera? Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár. Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar vindmyllur samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig græna orku sem framleidd er á sama svæði. Þá er sá möguleiki fyrir hendi að þær séu teknar niður og svæðið fært sem næst fyrra horfi. Nýting vindorku er þannig afturkræf auðlindanýting og bindur ekki hendur framtíðarkynslóða. Hvað verður um vindmyllurnar í lok líftíma þeirra? Þegar líftími vindmylla rennur út eftir 20-25 ár frá uppsetningu þeirra eru þær jafnan teknar niður. Það ræðst af vilja landeigenda, virkjunaraðila og yfirvalda hvort nýjar vindmyllur séu þá settar upp eða svæði fært aftur sem næst fyrra horfi. Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg. Úr sér gengin vindmyllublöð hafa verið urðuð en í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verð lagt bann við slíkri urðun árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur. Er ekki betra að byggja vindmyllur á hafi úti? Vindorkuframleiðsla á landi er langt komin með að geta verið fyllilega samkeppnishæf við aðra orkugjafa, en vindorkuframleiðsla á sjó á töluvert lengra í land. Tæknin er ekki eins langt komin og kostnaðurinn þar af leiðandi miklu meiri sem hefur áhrif á verð orkunnar. Skilyrði fyrir vindmyllum á sjó eru einnig mismunandi eftir löndum og fer það eftir dýpt sjávarins. Á Íslandi er sjórinn djúpur og því er kostnaðarsamt að reisa vindmyllur þar. Að auki kostar meira að tengja og keyra orkuver á sjó en á landi og áhrif á fugla, fiskistofna og náttúru eru sambærileg og hjá vindorkuverum á landi. Vindorkuframleiðsla á sjó verður sennilega sífellt hagkvæmari kostur þegar fram líða stundir en hvort hún verði raunhæfur kostur við Íslandsstrendur er óljóst.