332 tillögur um samdrátt í losun atvinnugreina

Ellefu atvinnugreinar hafa nú afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.   

Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:  
 
„Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt — stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna  með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til  að halda verkefninu áfram.”    
 

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að sett markmið náist. Ennfremur er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varðar regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti.   

Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á legg, en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum er að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir.  

Á Grænþingi í Hröpu í gær kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var: 

  • Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku 
  •  Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda
  •  Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni
  •  Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu
  •  Nýsköpun og rannsóknir
  •  Bætt hringrás

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa, sem hafa margir hverjir mælanleg markmið . Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.   

Hægt er að nálgast vegvísana inn á www.loftslagsvegvisar.is.   

Nýr upplýsingavefur um rafbíla

Stöðug fjölgun rafbíla kallar á ýmsar áskoranir, s.s. varðandi drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, ekki síst í fjölbýli. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HSM, hefur opnað nýjan upplýsingavef um rafbíla og hleðslu þeirra.

Á síðunni má finna yfirgripsmiklan fróðleik um drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, sér í lagi í fjölbýli og hægt er að horfa á fræðslumyndbönd um hleðsluaðferðir, hleðslutíma, drægni, aflþörf, hleðslu í nýjum og eldri byggingum, leyfismál, kröfur og öryggismál.

 

Ekkert nema tækifæri!

Rafbílavæðingin er á fleygiferð! Í janúar síðastliðnum voru nýskráðir fólksbílar sem knúnir eru áfram af rafmagni í fyrsta sinn fleiri en bensín- og díselbílar samanlagt. Þetta þýðir að við Íslendingar erum í 2. sæti í heiminum í hlutfalli hreinna rafbíla af nýskráðum bílum. Þá er uppbygging innviða fyrir hreinorkubíla í fullum gangi og það stefnir í að Ísland verði þar í forystuhlutverki.

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir 2030, m.v. losun 2005. Samorka hefur undanfarið unnið að greiningum á því hvað þessar skuldbindingar þýða fyrir orku- og veitufyrirtækin; hversu mikla hleðsluinnviði þarf að byggja upp, hvaða áhrif þetta hefur á flutnings- og dreifikerfin og hversu mikla nýja orkuframleiðslu þarf til. Þá hefur þróun orkuskiptanna verið mikilvægur þáttur í greiningum okkar, þ.e.a.s. hversu margir hreinorkubílar þurfa að koma í staðinn fyrir bensín- og díselbíla. Niðurstaðan er sú að síðasti jarðefnaeldsneytisbíllinn þarf helst að hafa verið seldur í gær. Við erum á fleygiferð, en þurfum að auka hraðann.

Að við þurfum að auka hraðann eru góðar fréttir. Ávinningurinn í loftslagsmálum er augljós, en það sem hefur vantað í umræðuna hérlendis er hversu jákvæð rafbílavæðingin er fyrir aðra þætti íslensks samfélags, sérlega þegar kemur að atvinnusköpun og styrk efnahagslífsins. Þannig sýndi nýleg greining frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík að rafbílavæðingin er:

  • Þjóðhagslega hagkvæm
  • Hagkvæm fyrir íslenska neytendur
  • Lykilatriði til að árangur náist hérlendis í loftslagsmálum
  • Kostnaðarhlutlaus fyrir íslenska ríkið ef rétt er staðið að málum

Í nýlegri yfirferð Bloomberg NEF um stöðu rafbílavæðingar á alþjóðavettvangi vöktu meginskilaboð þeirra athygli: Í rafbílavæðingunni felast ekkert nema tækifæri – og þau ríki sem grípa þetta tækifæri munu sjá sprengingu í fjölda nýrra fyrirtækja og nýrra hálaunastarfa. Þessi fyrirtæki munu meðal annars starfa að uppbyggingu hleðsluinnviða, snjallvæðingu, sinna ýmis konar þjónustu og hanna nýjar þjónustuleiðir í kringum gerbreyttar ferðavenjur.

Nú þegar mikil umræða er hérlendis um efnahagslega viðspyrnu í kjölfar Covid-19 þá hlýtur þetta að verða ein megináhersla stjórnvalda og þjóðarinnar: Nýtum tækifærin og förum úr öðru sæti rafbílavæðingarinnar í það fyrsta!

 

Grein eftir Sigurjón Norberg Kjærnested. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.