11. apríl 2025 REMIT: Hvað er það? Podcast: Play in new window | Download (Duration: 30:38 — 27.3MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More REMIT er umfjöllunarefni í nýjasta hlaðvarpsþætti Samorku. Þar ræðir Katrín Helga, lögfræðingur Samorku, við þær Hönnu Björgu Konráðsdóttur og Ninnu Ýr Sigurðardóttur hjá Raforkueftirlitinu, um nýjar reglur sem munu taka gildi á næstunni um viðskipti á raforkumarkaði. Þær fjalla um tilurð reglnanna og uppruna þeirra í Evrópu og hvaða þýðingu þær hafa fyrir íslenskar aðstæður. Frá upptöku þáttarins.
20. mars 2025 483 milljarða fjárfestingar til ársins 2030 Orku- og veitufyrirtæki landsins munu fjárfesta fyrir 483 milljarða króna á næstu fimm árum. Þetta kemur fram í könnun sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna og kynnt var á ársfundi samtakanna þann 19. mars. 483 milljarðar jafngilda tvöföldum kostnaði nýs Landsspítala eða tíföldum kostnaði Fjarðarheiðarganga. Stærstur hluti fjárfestinganna fer í framleiðslu, flutning og dreifingu raforku eða 300 milljarðar króna. Fjárfestingar hitaveitna nema 93 milljörðum, fráveitna 49 milljörðum og vatnsveitna 40 milljörðum. Sameiginlega eiga þær að tryggja nauðsynlega uppbyggingu, viðhald og framþróun innviða í samræmi við orkuskipti, fólksfjölgun og aukna eftirspurn í samfélaginu eftir öruggri og sjálfbærri þjónustu. „Ljóst er að horft er til orku- og veitufyrirtækja til að leika lykilhlutverk í baráttunni gegn loftslagsvánni og í að tryggja orkusjálfstæði Íslands. Þessar áætlanir sýna hversu stór verkefni eru framundan og hversu mikilvæg fjárfesting í innviðum er fyrir framtíðina,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. Sólrún Kristjánsdóttir, sem kjörin var nýr stjórnarformaður Samorku í dag, tekur undir og segir:„Þessar fjárfestingar eru ekki aðeins nauðsynlegar til að tryggja að innviðir okkar haldist í takt við þróun samfélagsins heldur felast í þeim stórtæk efnahagsleg tækifæri. Sterkir og traustir orku- og veituinnviðir eru grundvöllur atvinnulífs, lífsgæða og umhverfisverndar.“
19. mars 2025 Aðalfundur Samorku kallar eftir aðgerðum í orkumálum Aðalfundur Samorku leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir orku- og veitumannvirkja til að tryggja orkuöryggi, viðnámsþrótt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þetta kemur fram í ályktun samtakanna sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna í dag. Fjárfestingar og uppbygging orku- og veituinnviða er nauðsynleg til að stuðla að áframhaldandi velsæld samfélagsins og vexti. Óvissa á alþjóðavettvangi og hröð þróun í Evrópu er hvatning fyrir Ísland til að styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum. Samorka leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi að hagkvæmir kostir í nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái framgang, horft verði til vindorku sem mögulegrar þriðju stoðar í orkuframleiðslu landsins, ásamt því að bregðast við vaxandi þörf fyrir heitt vatn. Orka sem öryggismál Samorka bendir á að orka sé lykilþáttur í öryggi þjóðarinnar. Til að draga úr áhættu vegna ytri áfalla þarf orkukerfið að vera fjölbreyttara og dreifðara, með aukinni innlendri sjálfbærri orku. Þá er brýnt að tryggja vöktun og vernd mikilvægra orku- og veituinnviða landsins. Aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja framtíðina Samorka leggur áherslu á mikilvægi vatnsverndar og góðrar umgengni um þá verðmætu auðlind sem felst í fersku neysluvatni. Þá kemur fram að miklar breytingar séu framundan í umgjörð fráveitu og þar þurfi að taka mið af íslenskum aðstæðum um leið og víða þurfi að gera betur í hreinsun skólps frá þéttbýli og uppbyggingu blágrænna ofanvatnslausna. Aðalfundurinn undirstrikar nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, stytta leyfisveitingaferla og tryggja aðkomu sveitarfélaga í uppbyggingu orku- og veituinnviða. Með skýrum markmiðum og réttri stefnu getur Ísland áfram verið í fremstu röð í sjálfbærri, grænni framtíð og tækifæri og lífsgæði tryggð fyrir land og þjóð. Samorka_ÁlyktunAðalfundar_2025Download
19. mars 2025 Sólrún nýr formaður Samorku Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, var í dag kjörin stjórnarformaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, til tveggja ára. Hún tekur við embættinu af Kristínu Lindu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar sem gegnt hefur stöðunni síðustu tvö ár. Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Aðalsteinn Þórhallsson framkvæmdastjóri HEF Veitna og Ríkarður Ríkarðsson framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun koma allir nýir inn í stjórn samtakanna. Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar, Páll Erland forstjóri HS Veitna og Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs hjá Landsneti. Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar var kjörinn varamaður í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Björk Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar taka sæti í varastjórn og áfram eru þau Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku og Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum varamenn. Stjórn Samorku er þannig skipuð að loknum aðalfundi 2025: Sólrún Kristjánsdóttir Veitur – stjórnarformaður Árni Hrannar Haraldsson ON Magnús Kristjánsson Orkusölunni Páll Erland HS Veitur Aðalsteinn Þórhallsson HEF Veitur Ríkarður Ríkarðsson Landsvirkjun Guðlaug Sigurðardóttir Landsnet Til vara í stjórn: Björk Þórarinsdóttir HS Orka Eyþór Björnsson, Norðurorka Hjörvar Halldórsson, Skagafjarðarveitur Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitur Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun
24. febrúar 2025 Skráning hafin á Samorkuþing Opnað hefur verið fyrir skráningu á Samorkuþing, sem fram fer í Hofi á Akureyri dagana 22. – 23. maí. Þingið er það stærsta sem haldið er í orku- og veitugeiranum á Íslandi og gert er ráð fyrir mikilli aðsókn. Við mælum með að athuga með gistingu sem fyrst, þar sem allt það sem Samorka átti frátekið er nú orðið uppselt. Vinsamlegast fyllið inn í formið hér fyrir neðan til að skrá ykkur á þingið. ATHUGIÐ: Skráningarform fyrir sýnendur er hér.
7. febrúar 2025 Til umsagnar: Netmálar vegna nýrra tenginga við dreifiveitu og stórar fjárfestingar vegna útmötunar Dreifiveitur rafmagns kynna til umsagnar Netmála 1.0 – Skilmálar um viðbótarkostnað vegna nýrra tenginga við dreifiveitu og stórar fjárfestingar vegna útmötunar. Í netmálanum felast skilmálar sem gilda fyrir allar dreifiveitur rafmagns um hvernig staðið skuli að útreikningi á viðbótarkostnaði vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á kerfi dreifiveitu í tengslum við afhendingu til notenda. Netmálinn er unninn á grundvelli raforkulaga og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, með síðari breytingum, sérstaklega 2. gr. reglugerðar 302/2022 – Kerfisframlag vegna nýrra tenginga við dreifiveitu. Umsagnarferlið stendur til 14. mars 2025. Vinsamlegast skilið umsögnum til Samorku, netfang: katrinh@samorka.is Netmáli 1.0_Umsagnarferli_febrúar2025Download Viðauki2_Netmáli1.0_Sýnidæmi_Umsagnarferli2025Download Viðauki1_Netmáli1.0_Notkunaráætlun_Umsagnarferli2025Download
21. janúar 2025 Áhrif loftslagsbreytinga á veituinnviði Podcast: Play in new window | Download (Duration: 40:05 — 38.3MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Veituinnviðir og þá sérstaklega fráveituinnviðir eru viðkvæmir fyrir flóðum, aukinni rigningu og öðrum loftslagsbreytingum. Í þættinum heyrum við dæmi um nýleg áhlaup á fráveitur vegna öfga í veðurfari, fræðumst við um þær aðgerðir sem verið er að ráðast í til að aðlagast eða draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, heyrum um mikilvægi þess að styrkir til fráveituframkvæmda verði áfram veittir og virku samtali þegar kemur að skipulagsmálum og frekari uppbyggingu veituinnviða. Gestir þáttarins eru: Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF Veitna, Ágúst Þór Bragason, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar hjá Árborg pg Hlöðver Stefán Þorgeirsson, ráðgjafi í fráveitumálum. Þáttastjórnandi er Almar Barja, fagsviðsstjóri Samorku. Aðalsteinn, Hlöðver, Ágúst og Almar við upptöku þáttarins
21. janúar 2025 Beint streymi frá Veðri og veitum Bein útsending frá opnum fundi Samorku um áhrif loftslagsbreytinga á veituinnviði. Veituinnviðir og þá sérstaklega fráveituinnviðir eru viðkvæmir fyrir flóðum, aukinni rigningu og öðrum loftslagsbreytingum. Á fundinum munum við fræðast um þær áskoranir sem veitur um allt land standa frammi fyrir og þær aðgerðir sem verið er að ráðast í til að aðlagast eða draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Fram koma: Hildigunnur Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofunnar Hlöðver Stefán Þorgeirsson, ráðgjafi í fráveitumálum Pétur Krogh Ólafsson, forstöðumaður Sjálfbærni og viðskiptaþróunar hjá Veitum Ágúst Þór Bragason, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar hjá Árborg Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF Veitna
15. janúar 2025 Ganga þarf lengra í grundvallarbreytingum á rammaáætlun Rætt var um stöðu rammaáætlunar og reynslu af henni á fjölsóttum fundi Samorku þann 14. janúar. Þar var farið yfir nýjar tillögur frá starfshópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um endurskoðun á lögum um rammaáætlun og þau sem hafa unnið með rammaáætlun í gegnum tíðina sögðu frá vanköntum á því að vinna með það flókna og þunga kerfi sem hún hefur reynst vera. Með framsögu á fundinum fóru Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og formaður starfshóps ráðuneytisins, Katrín Helga Hallgrímsdóttir lögfræðingur Samorku, Ketill Sigurjónsson framkvæmdastjóri Zephyr Iceland og Jón Kjartan Ágústsson sérfræðingur í skipulagsmálum hjá Orkuveitunni. Framsögufólk tók svo þátt í pallborði undir stjórn Finns Beck framkvæmdastjóra Samorku en þá bættust einnig við þau Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Magnús Ásbjörnsson framkvæmdastjóri Reykjavík Geothermal. Vegna tæknilegra örðugleika í fundarsalnum var ekki hægt að streyma fundinum né nota glærur. Hér fyrir neðan er því upptaka af fundinum og glærur framsögufólks fyrir áhugasöm. Hilmar kynnti vinnu starfshópsins og fyrirkomulag vinnu hans, kosti og galla við rammaáætlun og niðurstöðu um að halda rammaáætlun en auka skilvirkrni hennar. Út fyrir rammann – Kynning formanns starfshóps um endurskoðun rammaáætlunarDownload Í erindi Samorku voru tillögur um nýtt orkuþróunarskipulag kynntar og rök færð fyrir því að framtíðarfyrirkomulag ætti að miða að því að orkuvinnsla verði háð sambærilegu regluverki og önnur atvinnustarfsemi í landinu. Út fyrir rammann – Kynning SamorkuDownload Í erindi Ketils var farið yfir af hverju rammaáætlun og vindorka fer ekki saman. Út fyrir rammann – Kynning Zephyr IcelandDownload Jón Kjartan fór yfir hvernig rammaáætlun tekur ekki mið af eðli jarðhita, þar sem kröfur fyrir rammann eru óraunhæfar, óvissa mikill og sömuleiðis kostnaður auk þess sem fyrirsjáanleiki er enginn. Út fyrir rammann – Kynning OrkuveitunarDownload Karitas Guðjónsdóttir ljósmyndari smellti myndum af framsögufólki og fundargestum og hér má sjá þær. Myndir frá opnum fundi Samorku 14. janúar um stöðu rammaáætlunar og reynslu af henni
12. desember 2024 CRI hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024 Carbon Recycling International, eða CRI, hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti verðlaunin á opnum fundi Samorku í dag. Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi CRI úr hópi átta tilnefninga til verðlaunanna. Kristjana M. Kristjánsdóttir hjá CRI tekur við verðlaununum úr höndum ráðherra. CRI hefur verið leiðandi í nýsköpun á orkusviði frá árinu 2006 með þróun nýrrar tækni, Emissions-to-Liquids (ETL), sem breytir koltvísýringi úr iðnaði og vetni í raf-metanól. Þetta eldsneyti er sérstaklega mikilvægt fyrir orkuskipti í skipum og flugvélum, þar sem ekki er hægt að nýta rafmagn með beinum hætti, og minnar þannig losun gróðurhúsalofttegunda. CRI var fyrsta fyrirtækið í heimi til að selja rafeldsneyti með sjálfbærnivottun og fyrsta fyrirtækið til að framleiða og afhenda rafmetanól til notkunar sem skipaeldsneyti árið 2021. CRI hefur þegar sannað gildi tækni sinnar á alþjóðavísu í verksmiðjum samstarfsaðila, þar sem endurvinnsla CO₂ nemur nú um 310,000 tonnum árlega, sem mun aukast í 565,000 tonn með nýjustu verksmiðjunni, sem er hluti af stærsta rafeldsneytisverkefni á heimsvísu. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Með því að bjóða lausnir sem stuðla að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, er CRI leiðandi í að umbreyta áskorunum samtímans í verðmætasköpun. Fyrirtækið er verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2024 fyrir framúrskarandi árangur í nýtingu auðlinda og stuðning við sjálfbærni í orku- og veitugeiranum.“ Frá vinstri: Áslaug Arna Sigubjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ómar Sigurbjörnsson, Kristjana M. Kristjánsdóttir og Gunndís Eva Reykdal Baldursdóttir frá CRI og Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku. Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs CRI: „Við erum ákaflega stolt og glöð yfir því að hafa hlotið Nýsköpunarverðlaun Samorku í ár. Verðlaunin eru ekki aðeins viðurkenning fyrir CRI heldur veita þau vonandi innblástur fyrir önnur fyrirtæki og einstaklinga til að leggja í nýsköpun og þróa lausnir sem skipta máli, bæði heima og erlendis.” Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku: „Öflug nýsköpun er lykilatriði í þeim áskorunum og verkefnum sem blasa við okkur og heiminum öllum þegar skipta á út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku. Án nýsköpunar munu markmið um orkuskipti og aukna sjálfbærni ekki nást. Þá er einnig mikilvægt að fólk mennti sig til starfa í orku- og veitustarfsemi og hæft, hugvitssamt fólk sjái orku- og veitugeirann sem spennandi starfsvettvang.“ Með Nýsköpunarverðlaununum vill Samorka vekja athygli á íslensku hugviti og framúrskarandi starfi sem unnið er í orku- og veitutengdri starfsemi hér á landi sem getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið. Hér er hægt að horfa á Nýsköpunarfundinn í heild sinni.