Viðskiptavinir Fallorku velji nýjan raforkusala fyrir 10. desember

Mikilvægt er að viðskiptavinir Fallorku velji sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember næstkomandi. Orkusalan hefur samið um kaup á söluhluta Fallorku, dótturfélags Norðurorku á Akureyri. Samningurinn felur í sér að Orkusalan taki við sölu og þjónustu til viðskiptavina Fallorku og kaupi jafnframt raforku­framleiðslu Fallorku til framtíðar.

Fallorka hefur tilkynnt að félagið hætti allri sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja frá og með 1. janúar 2026 og einbeiti sér framvegis að framleiðslu raforku. Þetta þýðir að allir viðskiptavinir Fallorku þurfa að velja sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember, hvort sem það er Orkusalan eða annar aðili á raforkumarkaði. Nánar um þetta má lesa í frétt á vef Fallorku. 

Samkvæmt lögum er dreifiveitum (Rarik, Norðurorka, HS Veitur, Veitur, Orkubú Vestfjarða) ekki heimilt að selja rafmagn eða koma að vali á raforkusala fyrir hönd viðskiptavina sinna. Þær mega aðeins dreifa rafmagni til viðskiptavina sem hafa valið og gert samning við raforkusala. Ef enginn söluaðili raforku er skráður er þeim ekki heimilt að afhenda rafmagn og lokað verður fyrir rafmagnið þar til nýr raforkusali hefur verið valinn.

Að láta opna á ný eftir lokun felur í sér töluverðan kostnað fyrir neytandann.

Það er einfalt að skipta

Við viljum hvetja þá viðskiptavini sem hingað til hafa keypt rafmagn af Fallorku til að ganga frá samningi við nýjan raforkusala sem allra fyrst (og fyrir 10. desember), svo tryggt verði að ekki verði rof á þjónustu þegar Fallorka hættir sölu um komandi áramót. Skiptin sjálf eru einföld. Viðskiptavinum nægir að hafa samband við þann raforkusala sem þeir vilja kaupa raforku af, til dæmis í gegnum vef eða þjónustuver þess fyrirtækis. Nýr raforkusali sér um að tilkynna breytingarnar fyrir þeirra hönd. Nánar um val á raforkusala má lesa hér á heimasíðu Samorku.

Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026

Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026 verður haldið í Hljómahöll í Reykjanesbæ dagana 7. – 8. maí.

Framkvæmda- og tæknikeppni verður á sínum stað þar sem eitt lið aðildarfélaga verður krýnt Fagmeistari Samorku.

Þá verður vöru- og þjónustusýning frá samstarfsaðilum orku- og veitugeirans. Verið er að útbúa teikningar fyrir sýningu og verða básar settir í sölu um leið og hægt er. Frekari upplýsingar veitir Lovísa, lovisa@samorka.is.

Samorka hefur tekið frá fjölda hótelherbergja um allan Reykjanesbæ. Hægt er að bóka þau núna. Vinsamlegast skoðið afbókunarskilmála vel.

Hótel Keflavík: 30 herbergi í boði
Gisting í einstaklingsherbergi: 29.800 kr.
Gisting í tveggja manna herbergi: 36.800 kr.
Gisting í tveggja manna herbergi (fyrir einn): 33.800 kr.

Morgunverður er innifalinn í verði. Vinsamlegast látið bókunarnúmerið 75012525 fylgja þegar herbergi eru pöntuð úr þessari bókun.

Courtyard by Marriott: 100 herbergi (frátekin til febrúar 2026)

Einstaklingsherbergi: 21.300 kr.
Tveggja manna herbergi: 23.800 kr.

Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Senda má bókanir á netfangið reservations@courtyardkeflavikairport.is og vísa til Samorku.

Park Inn by Radisson: 90 herbergi frátekin

Eins manns herbergi: 25.900 kr.
Tveggja manna herbergi: 29.900 kr.

Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Bókunarnúmer: 137887664

Styrkur Íslands liggur í grænni orku

Eitt megin framlag Íslands til loftslagsmála hefur verið nægt framboð af endurnýjanlegri orku til að svara þörf orkusækins iðnaðar sem annars þyrfti að knýja starfsemi sína með jarðefnaeldsneyti, með neikvæðari áhrifum á andrúmsloftið og náttúru. Uppbygging grænnar orkuframleiðslu til eflingar stóriðju er eitt farsælasta skref sem þjóðin hefur tekið, bæði í þágu loftslagsmála og fyrir velferð þjóðarinnar. Græn orkuframleiðsla er einn af hornsteinum ímyndar landsins og grundvöllur atvinnulífs og lífsgæða í landinu.

Evrópa gefur í en Ísland hikstar

Eftirspurn eftir orku hefur aukist hratt á undanförnum árum, einkum eftir grænni orku. Evrópusambandið hefur í þessu samgengi sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi og ráðist í umfangsmikla uppbyggingu grænnar orku og innviða. Í nýjustu tilskipanir Evrópusambandsins á sviði endurnýjanlegrar orku er lögð áhersla á hraðari leyfisveitingar og einfaldað regluverk þannig að leyfisveitingaferli fyrir græn orkuverkefni á landi taki að hámarki tvö ár. Með þessu er ESB ekki einungis að bregðast við loftslagsvánni, heldur einnig að byggja upp orkuöryggi, fjölga grænum störfum, örvar fjárfestingu og styrkir heilt yfir samkeppnishæfni álfunnar.

Þessi þróun getur að öðru óbreyttu haft áhrif á samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að orkuskiptum og undirstöðum núverandi stóriðju, svo ekki sé minnst á annan orkusækinn iðnað, svo sem gagnaver og landeldi. Ísland hefur lengi notið samkeppnisforskots vegna yfirburða á sviði endurnýjanlegrar orku, en þegar nágrannalönd okkar byggja hratt upp sambærilega innviði og auka grænt orkuframboð sitt, dregur það úr sérstöðu íslenska orkumarkaðarins. Ef ekki verður brugðist við með markvissum hætti, m.a. með því að einfalda reglur, hraða leyfisveitingum og tryggja skýra forgangsröðun í framkvæmdum, gæti Ísland misst hluta þess forskots sem hefur hingað til laðað að fjárfestingar og verkefni á sviði grænnar orku. Þegar hafa heyrst vitnisburðir frá íslenskum fyrirtækjum að þeirra orkuskipti hafi stöðvast vegna þess að þau fá ekki nauðsynlega raforku og frá fulltrúum gagnavera sem viljað efla starfsemi sína á Íslandi en geta það ekki og opna þá í öðrum löndum. Verði aðgengi að grænni raforku á Íslandi ekki einfaldað getur það á endanum leitt til þess að fjárfestingar og atvinnumöguleikar þurfi frá að hverfa til annarra landa.

Umhverfisáherslur og dafnandi atvinnulíf eru ekki andstæður. Fyrirtæki heimsins eru að leita lausna við þeirra losun og Evrópa ætlar að vera hluti af lausninni. Sterk staða Íslands í loftslagsmálum er ekki lögmál heldur ástand sem þarf að viðhalda á markvissan hátt.

Nauðsyn skýrara og skilvirkara regluverks

Í drögum að nýrri atvinnustefnu fyrir Ísland er lögð áhersla á að ýta undir vöxt í orkusæknum iðnaði og loftslagsgeiranum, sem er samheiti yfir atvinnugreinar á sviði endurnýjanlegrar orku og kolefnisstjórnunnar. Þar kemur einnig fram að stærsta framlag Íslands til loftslagsmála felist í sölu endurnýjanlegrar raforku til útflutningsgreina. Til þess að þessi stefna raungerist þarf að huga vel að þeim leyfisferlum og oft pólitísku nálaraugum sem fyrirtæki þurfa að þræða til þess að fá að hefja framleiðslu grænnar orku.

Títt hefur verið rætt um þau rúmlega 20 ár sem tók að veita Hvammsvirkjun framkvæmdaleyfi. Hefur nú verið brugðist við því ástandi með tveimur frumvörpum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Annað þeirra, svokallað einföldunarfrumvarp, tekst á við þann frumskóg sem leyfisveitingaferlin eru orðin að og mun auka gagnsæi, skilvirkni og fyrirsjáanleika í leyfisveitingum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en komst ekki út úr fyrstu nefnd. Það var aftur lagt fyrir þingið þann 18. nóvember sl. og bíður nú frekari meðferðar.

Aðgerðir Evrópusambandsins til að einfalda regluverk til að greiða fyrir orkuskiptum eru ekki aðeins umhverfismál, þær eru einnig skref til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og auka viðnámsþrótt samfélaga. Til að viðhalda forskoti okkar eða að minnsta kosti standa jafnfætis í þessari þróun þarf Ísland að innleiða sambærilegar aðgerðir og tryggja að orkuiðnaðurinn fái að dafna innan skilvirks og framsækins regluverks.

Opinberar aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki þurrka út samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja heldur verður að líta til þeirra tækifæra þar sem Ísland getur lagt sín lóð á vogarskálarnar á hátt sem gagnast bæði umhverfinu og þjóðfélaginu.

Mánudaginn 24. nóvember verður Umhverfisdagur atvinnulífsins haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Þar er yfirskriftin Frá yfirlýsingum til árangurs og verður athyglinni beint að mikilvægi þess að efla samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfis- og loftslagsmálum. Ráðherrar, leiðtogar íslensks atvinnulífs og fleiri sérfræðingar taka þátt í dagskrá.

Höfundur er Sverrir Falur Björnsson, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 21. nóvember 2025.

Desemberfundur 2025

Árlegur desemberfundur Samorku verður haldinn fimmtudaginn 4. desember kl. 15.00 – 17.00 á Hilton Reykjavík Nordica.

Dagskrá verður að venju helguð innra starfi Samorku:

Opnun desemberfundar – Sólrún Kristjánsdóttir, stjórnarformaður

HOP: Ný handbók og ný nálgun í öryggismálum – Hörður Lindberg Pétursson, Öryggisráði Samorku

Hagsmunagæsla Samorku í Brussel – tilgangur, væntingar, virðið hingað til
– Lovísa Árnadóttir ræðir við Svein Helgason, verkefnastjóra erlends samstarfs hjá Samorku og Kristínu Lindu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar

Framtíðargjaldskrá dreifiveitna – Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Rarik og í gjaldskrárhópi Samorku

Störum jólaljósin á: Öryggi orkuinnviða og breytt ógnalandslag – Vigdís Eva Líndal, leiðtogi upplýsingaöryggis hjá Orkuveitunni og í Netöryggisráði Samorku

Rabbað við ráðherra
– Jóhann Páll Jóhannsson, orku-, umhverfis- og loftslagsráðherra í óformlegu spjalli við Finn Beck framkvæmdastjóra Samorku og aðra fundargesti

Að dagskrá lokinni færum við okkur niður á Vox HOME þar sem boðið verður upp á jólalegan pinnamat og Kvartettinn Barbari skemmtir okkur með vel völdum „rakarastofu“-jólalögum. 

Athugið að fundurinn er aðeins opinn félagsfólki Samorku (starfsfólki aðildarfyrirtækja).

Hægt er að skrá sig eingöngu á fundinn eða á bæði fund og jólaskemmtun.

    Ég mæti á Desemberfund Samorku (verð 3.500)
    Ég mæti á jólaskemmtun með pinnamat og skemmtiatriði (verð 8.900)
    Ég tek með gest/maka á jólaskemmtun (verð 8.900)

    Vestfirðir eru heitur reitur

    Á Vestfjörðum hefur verið notast við rafkyntar hitaveitur í stað hefðbundinna jarðhitaveitna, því lítið hefur fundist í gegnum tíðina af nægilega heitu vatni sem gæti nýst til húshitunar. En með tækniframförum og myndarlegu átaki stjórnvalda í jarðhitaleit á svæðinu hefur vonin aldeilis kviknað um að þetta geti breyst, íbúm á svæðinu til mikilla hagsbóta.

    Elena Dís Víðisdóttir, verkfræðingur á orkusviði hjá Orkubúi Vestfjarða, ræðir uppganginn og stemninguna á Vestfjörðum við Lovísu Árnadóttur og hvernig Vestfirðir eru heitur reitur, líka hvað varðar jarðhita.

    SnerpaPower handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025

    Teymi SnerpuPower ásamt fulltrúum Samorku

    Fyrirtækið SnerpaPower hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2025. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og varaformaður stjórnar Samorku, afhenti verðlaunin á opnum fundi í Hörpu í gær.  Óháð dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi SnerpuPower úr hópi tilnefninga til verðlaunanna. 

    Hugbúnaður fyrirtækisins er skýjalausn byggð á gervigreind og rauntímagögnum sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu.

    Lausnin notar háþróuð spá- og hermilíkön með allt að 99,9% nákvæmni og hefur þegar sýnt fram á mælanlegan árangur með sparnaði upp á 5–10 MWh á hverri klukkustund, sem samsvarar allt að 44 GWh á ári og samdrætti í losun um 40 þúsund tonn CO₂.

    Í greinargerð dómnefndar kemur fram að SnerpaPower sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 fyrir framúrskarandi árangur í að nýta íslenskt hugvit til að auka sjálfbærni í orku og veitugeiranum, bæta orkunýtni og styrkja samkeppnishæfni græns iðnaðar.

    Nýsköpunarverðlaun Samorku 2025: Óskað eftir tilnefningum

    Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

    Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á opnum fundi í Hörpu í nóvember. Þetta verður í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent.

    Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

    • Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
    • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

    Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

    Óskað er eftir því að eftirfarandi form sé fyllt út við tilnefningu þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Hægt verður að tilnefna til Nýsköpunarverðlaunanna til og með 12. október. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

    Vinsamlegast fyllið út þetta form: https://forms.office.com/e/WL9FWJA1rm

    Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

    Handhafi Nýsköpunarverðlaunanna 2024 var Carbon Recycling International.

    2023: Atmonia

    2022: Alor

    2021: Laki Power

    Umhverfis-, orku- og loftslagsmál fyrirferðarmikil í þingmálaskrá

    Mál tengd umhverfis-, orku- og loftslagsmálum verða fyrirferðarmikil á komandi þingvetri. Ráðherra málaflokksins hyggst leggja fram 16 frumvörp og 4 þingsályktanir, næst flest mál allra ráðherra.  

    Mörg þessara mála hafa verið lögð fram áður eða kynnt í samráðsgátt. Búast má við einhverjum breytingum á þessum málum frá því þau voru lögð fram á fyrra þingi, en hér má sjá yfirlit yfir nokkur þessara mála:   

    • REMIT; frumvarp til breytinga á raforkulögum sem lýtur að hátternisreglum á raforkumarkaði, banni við markaðsmisnotkun og skilgreiningu innherjaupplýsinga svo fátt eitt sé nefnt. Sjá fyrra frumvarp hér.   
    • Einföldunarfrumvarp, frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til að einfalda stjórnsýsluferla orkumála og stíga skref í átt að afgreiðslu leyfa á einum stað. Sjá fyrra frumvarp hér 
    • Ramminn einfaldaður og skilvirkni bætt, sjá fyrra frumvarp hér 
    • Stefna um öflun raforku, lagabreyting á raforkulögum og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun um að leggja eigi fram þingsályktun um stefnu um öflun raforku til næstu 10 ára og taka eigi mið af henni í rammaáætlun, sjá frumvarp í samráðsgátt hér 
    • Lög um lofslagsmál, ný heildarlög um skipulag og stjórnsýslu loftslagsmála, sjá frumvarp í samráðsgátt hér  

    Þá boðar ráðherra einnig ný mál og má þar helst nefna:  

    • Vindorka, frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem markaður verður rammi um hagnýtingu vindorku.  
    • Verkefni og sjálfstæði Raforkueftirlitsins  
    • Lög um stjórn vatnamála, skýra á ákvæði laganna m.a. málsmeðferðarreglur um heimild til breytinga á vatnshloti.  

    Ráðherra umhverfis-, orku og loftslagsmála hyggst einnig leggja fram nokkrar þingsályktunartillögur og snúa flestar þeirra að einstökum áföngum rammaáætlunar, en ráðherra hefur boðað eftirfarandi breytingar frá fyrirliggjandi tillögum verkefnisstjórnar:  

    • 3. áfangi, Kjalalda og Héraðsvötn fari í bið en ekki í verndarflokk  
    • 5. áfangi, Hamarsvirkjun fari í bið en ekki í verndarflokk  
    • 5. áfangi, Garpsdalur – vindorka, fari í nýtingu en ekki bið. 9 önnur vindorkuverkefni eru í bið samkvæmt tillögunum.  

    Þá eru ýmis mál sem tengjast orku- og veitumálum sem lúta stjórn annarra ráðuneyta, má þar t.d. nefna:  

    • Sveitastjórnarlög, innviðaráðherra mun leggja fram frumvarp um yfirgripsmiklar breytingar á sveitastjórnarlögum sem snerta m.a. aðildarfyrirtæki Samorku í tengslum við atvinnuþátttöku sveitarfélaga.  
    • Fasteignamat orkumannvirkja, innviðaráðherra stefnir á að leggja fram í febrúar frumvarp sem miðar að því að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags.  
    • Raflínunefnd, frumvarp til breytinga á skipulagslögum frá félags- og húsnæðismálaráðherra.   

    Samorka mun fylgjast grannt með framgangi allra þessara mála og eiga hér eftir sem hingað til virkt samtal við stjórnvöld um nauðsynlega uppbyggingu í orku- og veitumálum.  

    Opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna

    Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar en 20. október 2025.

    Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins mánudaginn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica.

    Tveir verðlaunaflokkar

    Veitt verða tvenn verðlaun:

    • Umhverfisfyrirtæki ársins
    • Framtak ársins

    Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hvorn flokk en einnig er heimilt að tilnefna sama fyrirtækið í báða flokka.

    Skilyrði og rökstuðningur

    Dómnefnd velur úr innsendum tilnefningum en til að þær teljist gildar þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og ítarlegur rökstuðningur að fylgja með. Aðeins skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra geta hlotið tilnefningu.

    Sameiginlegt framtak atvinnulífsins

    Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa:

    • Samtök atvinnulífsins
    • Samtök iðnaðarins
    • Samorka
    • Samtök ferðaþjónustunnar
    • Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu
    • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
    • Samtök verslunar og þjónustu

    Hér má tilnefna fyrirtæki: Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – Tilnefningar

    Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum

    Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða.

    Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku

    Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum.

    Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði:

    • Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar.
    • Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land.
    • Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar.
    • Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna.

    Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: