19. nóvember 2024 Horfðu á kosningafund Samorku Hvernig stöndum við við loftslagsskuldbindingar og verðum óháð jarðefnaeldsneyti eins og orkustefna Íslands til ársins 2050 segir til um? Hér er hægt að horfa á kosningafund, Grænt Ísland til framtíðar, með frambjóðendum 10 flokka sem fór fram 19. nóvember í Kaldalóni í Hörpu. Þar var farið yfir orku- og veitumálin og stefnu flokkanna í þeim málaflokki.
Fróðleikur Vantar þig yfirsýn yfir orku- og veitumál? Viltu leita þér frekari upplýsinga um orkuskipti? Viltu vita hvað eitthvað orð þýðir sem þú heyrðir í frétt um veitumál? Hér finnur þú vonandi það sem þú ert að leita að.
1. nóvember 2024 Kosið um græna framtíð Podcast: Play in new window | Download (Duration: 48:21 — 46.5MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Orku- og veitumálin verða sennilega í brennidepli fyrir alþingiskosningarnar í lok mánaðarins, enda mörg brýn verkefni í málaflokknum á borði stjórnvalda. Kosningabaráttan mun snúast um hver hefur grænu sýnina, sýnina sem leggur grunninn að næsta vaxtarskeiði fyrir Ísland, því orka er súrefni atvinnulífsins og forsenda allrar verðmætasköpunar. Þetta segja þau Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku og Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, sem eru viðmælendur þáttarins að þessu sinni.
16. október 2024 Kjósum um græna framtíð Eftir tíðindi helgarinnar af vettvangi stjórnmálanna virðist ljóst að sýn stjórnarflokkanna á orkumál þjóðarinnar og möguleika til grænnar framtíðar hafi haft umtalsverð áhrif á málalyktir. Það er ekkert nýtt að orkumál marki skil á milli flokka og hugmyndafræðilegur ágreiningur sé um það hvernig Ísland, líkt og önnur ríki, megi best ná markmiðum sínum um efnahagslega uppbyggingu og samdrátt í losun koltvísýrings. Orkumál eru efnahagsmál Ítrekað hefur verið á það bent að orkumál eru efnahagsmál. Orkan er súrefni og grundvallarforsenda blómlegrar atvinnustarfsemi sem án orku fær ekki þrifist. Til þessa hefur hún fengist með samspili notkunar á grænni orku en ekki síður með brennslu á jarðefnaeldsneyti sem unnið er með ósjálfbærum hætti og til tjóns fyrir loftslagið. Ísland stefnir að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis þannig að íslenskt samfélag verði knúið og kynt með innlendri grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Þau umskipti þurfa að fara fram án þess að dregið verði úr samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Í því felst að næg græn orka þarf að vera til staðar á Íslandi á samkeppnishæfu verði til að iðnaður og heimili geti byggt upp starfsemi sína og skapað tækifæri fyrir land og þjóð. Stórar fjárfestingar framundan Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að fjárfesta þurfi fimm hundruð milljörðum króna í orkutengdum framkvæmdum. Þar á meðal er uppbygging og styrking flutningskerfisins, uppbygging dreifiveitna fyrir snjalla og notendavæna framtíð og ný orkuframleiðsla. Tryggja þarf að innlendir sem erlendir fjárfestar geti komið að þessari uppbyggingu, fjölbreytni verði í bæði framkvæmdaraðilum og orkukostum sem ráðist verður í og að öflug samkeppni verði áfram tryggð í orkuframleiðslu og orkusölu, iðnaði og heimilum til hagsbóta. Skýrt verkefni stjórnmálanna Markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum byggjast á starfsemi og árangri fyrirtækja í orkugeiranum og nauðsynlegt er að sú starfsemi geti þróast í takt við nýjustu tæknibreytingar, aukna snjallvæðingu og fjölbreyttari viðskiptalausnir. Langur listi mikilvægra þingmála frá umhverfis- orku og loftslagsráðherra sem fyrir lá í haust ber vott um þessa þörf og það fjölbreytta starf sem unnið hefur verði á þessu sviði á kjörtímabilinu. Nauðsynlegt er að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum haldi áfram á þeirri braut að einfalda leyfisveitingar og styðja við gróskumikið umhverfi innviðauppbyggingar. Þannig tryggjum við nýtingu auðlinda í þágu þjóðarinnar. Tækifærin eru til staðar Ísland er í einstakri stöðu meðal ríkja heims. Landið okkar býr yfir náttúruauðlindum sem hægt er með skynsamri og ábyrgri nýtingu að leggja grunn að orkusjálfstæði, orkuöryggi og samkeppnishæfu orkuframboði til orkuskipta og grænnar uppbyggingar. Við búum yfir langri og farsælli reynslu af nýtingu þeirra, vel menntuðu starfsfólki og kröftugum orku- og veitufyrirtækjum sem vinna ötullega að orkukerfi framtíðarinnar. Verkefni dagsins á þessu sviði eru grundvöllur framtíðarinnar með tilliti til loftslagsins og hagsældar þjóðarinnar. Kjósum um græna framtíð.
10. október 2024 Umtalsverð fasteignagjöld sveitarfélaga af vindorkuverum Núverandi skattframkvæmd vegna fasteignagjalda gæti árlega skilað sveitarfélögum milljörðum í fasteignagjöld á líftíma vindorkuverkefna samkvæmt greiningu sem Deloitte hefur unnið fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja. Deloitte áætlar að fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuvers yfir 25 ára tímabil gætu numið 1,6 – 3,5 milljörðum króna. Áætluð fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuverks gætu numið 65-139 milljónir króna á ári. Fjárhæðarbilið helgast af því að reglur um fasteignaskatta leiða til mismunandi álagningar gagnvart ólíkum tegundum vindmylla. Í skýrslu Deloitte er í fjórum mismunandi dæmum áætluð árleg fasteignagjöld á hvert MW og eru þau á bilinu 700 þúsund – 1,4 milljónir króna, eftir mismundi stærð og umfangi vindmyllu „Greining Deloitte dregur fram að núverandi kerfi fasteignagjalda virkar, skilar fasteignagjöldum til sveitarfélaga og mun skila umtalsverðum fjárhæðum. Það er enda eðlilegt að sveitarfélag hafi efnahagslegan ávinning af framkvæmdum og grænni orkuvinnslu innan marka þeirra,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. „Niðurstaða Deloitte undirstrikar enn fremur að ekki er ástæða til að láta vinnu stjórnvalda varðandi fasteignagjöld eða jöfnunarsjóð sveitarfélaga tefja fyrir grænum orkuverkefnum þar sem fyrirtæki telja grundvöll fyrir byggingu þeirra og sveitarfélag hafa hug á uppbyggingu.“ „Umræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga á ekki að standa í vegi fyrir stjórnsýslumeðferð og leyfisveitingum vegna vindorkuverkefna. Það er hins vegar eðlilegt að ríki og sveitarfélög, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, eigi og leiði samtalið um fjármögnun sveitarfélaga til lykta án þess að það hafi neikvæð áhrif á uppbyggingu grænnar orkuvinnslu.“ Samantekt Deloitte má nálgast hér fyrir neðan. 24-10-08 Samorka – Fasteignaskattar_LokaDownload
9. október 2024 Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024: Óskað eftir tilnefningum Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á opnum fundi þann 12. desember í Grósku. Þetta verður í fjórða sinn sem verðlaunin eru afhent. Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á: Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa. Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is til og með 6. nóvember. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál. Árið 2023 hlaut Atmonia Nýsköpunarverðlaun Samorku.
9. október 2024 Auglýst eftir umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda Opnað hefur verið á ný fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 30. nóvember 2024. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastsmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020. Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar má finna á vef Stjórnarráðsins.
Umhverfisdagur atvinnulífsins 2024 Umhverfisdagur atvinnulífsins 2024 verður haldinn þriðjudaginn 22. október á Hilton Nordica kl. 13:00 – 15:50 undir yfirskriftinni Atvinnulífið leiðir. Dagurinn er sameiginlegt verkefni SA, SAF, Samorku, SFF, SFS, SI og SVÞ. Skráning er á heimasíðu SA. Dagurinn í ár er tileinkaður leiðandi atvinnulífi á sviði grænna lausna. Hin árlegu umhverfisverðlaun atvinnulífsins verða veitt hátíðlega fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. Í kjölfarið taka við tvær lotur af lifandi og skemmtilegum málstofum og í ár gefst gestum tækifæri til að velja um eina af fjórum málstofum í hvorri lotu. Þar munu fjölbreyttir fulltrúar aðildarsamtaka koma saman til að ræða stöðu atvinnulífsins, áskoranir og horfur til framtíðar. Kaffi og tengslamyndum verður á milli málstofa. Lota 1 (kl. 14:00 – 14:40): Fjármagn í grænan farveg – erum við á réttri leið? Mikil vinna hefur átt sér stað innan fjármálafyrirtækja á síðustu árum um að leita leiða til að beina fjármagni í átt að verkefnum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif. En hvar er sú vegferð stödd í dag, hvar eru helstu hindranirnar og hvar liggja tækifærin til framtíðar? Mikil vinna hefur átt sér stað innan fjármálafyrirtækja á síðustu árum um að leita leiða til að beina fjármagni í átt að verkefnum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif. En hvar er sú vegferð stödd í dag, hvar eru helstu hindranirnar og hvar liggja tækifærin til framtíðar? Umræðustjóri: Andrea Sigurðardóttir (Viðskiptastjóri Morgunblaðsins)Inngangserindi: Bjarni Herrera (forstjóri og stofnandi Accrona og rithöfundur Supercharging Sustainability).Þátttakendur í málstofu: Heiðar Guðjónsson (fjárfestir), Hreiðar Bjarnason (framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hjá Landsbankanum), Harpa Jónsdóttir (framkvæmdastjóri LSR). Kolefnisspor og markaðssetning Er kolefnisspor vöru orðin partur af markaðssetningu og samkeppnishæfni, hver er staðan og áskoranir í þeim efnum og skiptir þetta máli fyrir verslun og neytendur. Umræðustjóri: Hildur Hauksdóttir (sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi).Þátttakendur í málstofu: Hafdís Inga Hilmarsdóttir (Verkefnastjóri á sviði sjálfbærnimála hjá Krónunni), Hrefna Kristín Halldórsdóttir (Forstöðumaður gæða- og innkaupalausna hjá Origo), Ægir Páll Friðbertsson (Forstjóri Iceland Seafood). Bransasögur úr sjálfbærnifrumskóginum Sérfræðingur og þátttakendur ræða reynslu af innleiðingu upplýsingagjafar um sjálfbærnimál, hvernig byrjaði þetta, hvað kom á óvart, hvað var erfitt og hvað einfalt, í hverju felst flækjustigið, hvert er viðhorfið eftir að verkinu er “lokið” og hvernig sjá þátttakendur fyrir sér að verkefnið horfi við fjárfestum, stærri fyrirtækjum og smærri birgjum. Umræðustjóri: Dr. Hafþór Ægir Sigurjónsson (Forstöðumaður sjálfbærniteymis KPMG)Þátttakendur í málstofu: Fyrirtækin Festi og Dagar fara yfir vegferð sína í sjálfbærnimálum. Sveigjanlegur orkumarkaður Framtíð raforkumarkaðar á Íslandi, áhrif á íslensk fyrirtæki og þau tækifæri sem felast í virkum orkumarkaði og sveigjanlegri starfsemi. Umræðustjóri: Bjarni Már Gylfason (Upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi)Þátttakendur í málstofu: Katrín Olga Jóhannesdóttir (Framkvæmdastjóri Elmu Orkuviðskipta), Ólafur Davíð Guðmundsson (Tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni), Íris Baldursdóttir (Framkvæmdastjóri og annar stofnenda Snerpu Power), Björn Brynjúlfsson (Framkvæmdastjóri Borealis Data Center). Lota 2 (kl. 15:10- 15:50) Grænir hvatar, grænni framkvæmdir Rætt verður um tækifæri í grænni framkvæmdastöðum og árangur í því að skila framkvæmdastað sem næst upprunalegu ástandi. Fulltrúar verkkaupa og fyrirtækja í byggingar- og mannvirkjaiðnaði sem hafa haft frumkvæði að framkvæmdum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif, deila reynslu sinni. Farið verður yfir tækifæri, áskoranir og hindranir sem torvelda umhverfisvænar framkvæmdir og hvað þarf til að ryðja þessum hindrunum úr vegi. Umræðustjóri: Jóhanna Klara Stefánsdóttir (Sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum Iðnaðarins)Þátttakendur í málstofu: Sigríður Ósk Bjarnadóttir (Framkvæmdastjóri umhverfismála hjá eignarhaldsfélaginu Hornsteini ehf.), Atli Þór Jónsson (Framkvæmdastjóri Borgarverks), Eiður Páll Birgisson (Landslagsarkitekt og meðeigandi Landslags), Baldur Hauksson (Deildarstjóri Tækniþróunar hjá Orkuveitunni). Erum við hætt við orkuskiptin? Áskoranir tengdar orkuskorti Hvernig standa orkuskiptin og hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir? Ný raforkuspá Landsnets, orkuskortur og horfur í orkugeiranum. Hvernig er jafnvægið milli orkuframleiðslu og orkunotkunar? Umræðustjóri: Almar Barja (Fagsviðsstjóri Samorku)Þátttakendur í málstofu: Gnýr Guðmundsson (Forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti), Tinna Traustadóttir (Framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun) Guðrún Halla Finnsdóttir (Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli) Græn framtíð á hjólum; endurnýting varahluta í bílaiðnaði Hvernig höfum við stuðlað að auknu framboði notaðra varahluta í ökutæki? Hver er núverandi staða og hverjar eru helstu áskoranir og tækifæri. Umræðustjóri: Gunnar Sveinn Magnússon (Meðeigandi og yfirmaður sjálfbærni- og loftslagsmála hjá Deliotte á Íslandi).Þátttakendur í málstofu: Aðalheiður Kristín Jóhannsdóttir (Netpartar), Björk Theodórsdóttir (Forstöðumaður munatjóna hjá Vís), Jóhannes Jóhannesson (Verkefnastjóri fræðslumála hjá BL), Sandra B. Jóhannsdóttir (Framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs) Hvað er með þessar kolefniseiningar? Hvað eru kolefninseiningar og kolefnisbinding? Hvernig geta fyrirtækin nýtt sér vottaðar einingar í sinni vegferð í átt að kolefnishlutleysi og hvað ber að varast? Umræðustjóri: Alexandra Kjeld (Umhverfisverkfræðingur hjá Eflu)Þátttakendur í málstofu: Hilmar Gunnlaugsson (Stjórnarformaður Yggdrasil)
4. júlí 2024 Verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu Samorka leitar að metnaðarfullum og kraftmiklum verkefnastjóra stefnumótunar og hagsmunagæslu Viltu taka þátt í móta rekstrarumhverfi orku- og veitustarfsemi á Íslandi og stuðla þannig að grænu Íslandi til framtíðar? Samorka óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf verkefnastjóra stefnumótunar og hagsmunagæslu. Um er að ræða spennandi starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða stefnumótun, innleiðingu stefnu og hagsmunagæslu samtakanna á sviði orku- og veitumálefna. Viðkomandi mun taka þátt í mótun starfsumhverfis orku- og veitugeirans og eiga í miklum samskiptum við kröftug aðildarfélög, stjórnvöld og haghafa samtakanna. Helstu verkefni: Samstarf og samskipti við opinberar stofnanir, önnur samtök og haghafa varðandi áherslur Samorku í orku- og veitutengdum málefnum. Þátttaka í norrænu og evrópsku samstarfi á sviði orku- og veitumálefna og miðlun efnis til aðildarfélaga. Umsjón með stefnumótun, innleiðingu stefnu og eftirfylgni með verkefnum. Þátttaka í gerð kynningarefnis og kynningar á stefnu og áherslum Samorku. Umsjón með tilteknum fag- og málefnahópum sem starfa á vettvangi samtakanna. Menntunar- og hæfniskröfur: Háskólamenntun á sviði lög-, hag- eða stjórnmálafræði eða önnur háskólamenntun sem nýtist í starfi. Þekking, reynsla og innsýn í starfsemi rekstrar- og lagaumhverfi orku- og veitugeirans er kostur. Reynsla af starfi hjá hagsmunasamtökum, stjórnsýslu eða sambærilegum störfum er kostur. Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Færni og lipurð í mannlegum samskiptum. Mjög góð hæfni í textagerð og reynsla af miðlun upplýsinga. Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku. Um Samorku: Hjá Samorku starfar metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og eru samtökin aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Stefna Samorku er að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum í átt að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og að Ísland verði knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Samorka er atvinnugreinasamtök aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin. Umsóknarfrestur er til og með 22. júlí 2024. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.Nánari upplýsingar um starfið veita Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is) og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku (finnur@samorka.is). Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið.