Kafað dýpra í Orkuspá Íslands

Samorka býður til opins tæknifundar þar sem kafað verður dýpra í Orkuspá Íslands, sem kom út á vegum Umhverfis- og orkustofnunar, Landsnets og Raforkueftirlitsins á dögunum.

Fundurinn verður haldinn þann 21. janúar kl. 14 á Hilton Reykjavík Nordica.

Hvað felst í Orkuspá Íslands og hversu mikið má lesa út úr henni? Á fundinum köfum við dýpra í spána, ferlið á bak við hana og þær forsendur sem móta niðurstöðurnar.

Spáin dregur upp mynd af stöðu orkumála og kallar á umræðu um hvernig hún er túlkuð og hvaða hlutverki hún gegnir í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda. Á fundinum verður farið meira í tæknilegar hliðar orkuspárinnar og er opinn öllum áhugasömum sem vilja skilja orkuspána betur og taka þátt í upplýstri umræðu.

Fram koma:

Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson – Teymisstjóri í Teymi orkuskipta og orkunýtni hjá Umhverfis- og orkustofnun

Arngunnur Einarsdóttir – Sérfræðingur í þróun á viðskiptaumhverfi hjá Landsneti

Ingvar Þór Þorsteinsson – Sérfræðingur á skrifstofu forstjóra hjá Umhverfis- og orkustofnun

Við vonumst eftir lifandi umræðum á fundinum og við hvetjum því fundargesti að bera upp spurningar.

Boðið verður upp á streymi frá fundinum og verður líka hægt að spyrja spurninga þaðan.

Óskað er eftir skráningu á fundinn í skráningarformið hér fyrir neðan svo hægt sé að áætla veitingar og fjölda sæta, þau sem ætla eingöngu að horfa í streymi eru beðin um að haka í þann möguleika. Hlekkur á streymið verður svo sendur þegar nær dregur á netföng þeirra sem skrá sig.

    Ég fylgist eingöngu með í streymi

    Opið fyrir umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda

    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 9. febrúar 2026.

    Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

    Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig teljast styrkhæfar framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.

    Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

    Nánari upplýsingar má nálgast hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu: urn@urn.is og á vef stjórnarráðsins, stjornarradid.is.

    Hafdís Helga ráðin upplýsingafulltrúi Samorku

    Hafdís Helga Helgadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Samorku. Hafdís kemur til Samorku frá RÚV þar sem hún hefur starfað síðastliðin átta ár við fréttamennsku og fjölbreytta dagskrárgerð, nú síðast sem umsjónarmaður Morgunútvarps Rásar 2.

    Hafdís Helga hefur þegar hafið störf.

    Hafdís er með BA-gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands. 

    „Orku- og veitumálin eru stórkostlega spennandi um þessar mundir og framtíðin kallar á lifandi og ábyrgt samtal um þau. Ég er bæði glöð og spennt að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri umræðu sem upplýsingafulltrúi Samorku. Það er mikill heiður að starfa með öllu því einstaka fagfólki sem vinnur að sjálfbærri framtíð í orku- og veitumálum landsins,“ segir Hafdís.

    Samorka býður Hafdísi hjartanlega velkomna.

    Stækkun orkuvers í skugga jarðhræringa

    Þann 1. desember var sjöundi áfangi Svartsengis, orkuvers HS Orku, tekinn í notkun og jókst þar með framleiðslugeta þess um þriðjung. Það er í sjálfu sér fréttnæmt að við bætist uppsett afl hér á landi, en í þessu tilfelli er það ekki síður vegna þess að orkuverið var stækkað á tímum jarðhræringa og mikillar óvissu. Stóðst framkvæmdin þó allar verk- og tímaáætlanir.

    Rafn Magnús Jónsson yfirverkefnisstjóri HS Orku og Yngvi Guðmundsson yfirverkfræðingur HS Orku ræða við Lovísu Árnadóttur um þetta ótrúlega verkefni í nýjasta þætti Lífæða landsins.

    Þátturinn er aðgengilegur hér á heimasíðu Samorku en einnig á Spotify, bæði í hljóð og mynd.

    Ný handbók um öryggi og öryggismenningu

    Samorka, í samstarfi við Öryggisráð Samorku, hefur nú gefið út íslenska útgáfu af HOP-handbók (Human & Organizational Performance) fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og öll þau sem vinna með öryggi og rekstur innviða.

    Slys eiga sér sjaldnast eina orsök heldur eru samspil af mörgum ólíkum þáttum, þar á meðal hinum mannlega. HOP er ný nálgun á öryggi og öryggismenningu þar sem áhersla er lögð á að rýna aðstæður þar sem erfið vinna er unnin, að læra af því hvernig vinnan fer raunverulega fram og reyna þannig að fyrirbyggja alvarleg slys.

    Handbókin er öflugt verkfæri fyrir stjórnendur, millistjórnendur og þau sem vinna sjálf verkefnin á vinnustað. Það er von Samorku að bókin nýtist sem handbók bæði fyrir aðildarfyrirtæki Samorku en einnig í öðrum iðnaði og rekstri. Öryggi þeirra sem vinna fyrir og með orku- og veitufyrirtækjum skiptir okkur líka máli. Með þessari handbók leggjum við okkar af mörkum til að efla öryggismenningu á Íslandi.

    Sækja HOP handbókina

    Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026

    Fagþing hita-, vatns- og fráveitna 2026 verður haldið í Hljómahöll í Reykjanesbæ dagana 7. – 8. maí.

    Framkvæmda- og tæknikeppni verður á sínum stað þar sem eitt lið aðildarfélaga verður krýnt Fagmeistari Samorku.

    Þá verður vöru- og þjónustusýning frá samstarfsaðilum orku- og veitugeirans. Sala bása hefst fimmtudaginn 22. janúar kl. 9. Frekari upplýsingar veitir Hafdís Helga, hafdis@samorka.is.

    Samorka hefur tekið frá fjölda hótelherbergja um allan Reykjanesbæ. Hægt er að bóka þau núna. Vinsamlegast skoðið afbókunarskilmála vel.

    Hótel Keflavík: 30 herbergi í boði
    Gisting í einstaklingsherbergi: 29.800 kr.
    Gisting í tveggja manna herbergi: 36.800 kr.
    Gisting í tveggja manna herbergi (fyrir einn): 33.800 kr.

    Morgunverður er innifalinn í verði. Vinsamlegast látið bókunarnúmerið 75012525 fylgja þegar herbergi eru pöntuð úr þessari bókun.

    Courtyard by Marriott: 100 herbergi (frátekin til febrúar 2026)

    Einstaklingsherbergi: 21.300 kr.
    Tveggja manna herbergi: 23.800 kr.

    Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Senda má bókanir á netfangið reservations@courtyardkeflavikairport.is og vísa til Samorku.

    Park Inn by Radisson: 90 herbergi frátekin

    Eins manns herbergi: 25.900 kr.
    Tveggja manna herbergi: 29.900 kr.

    Morgunverðarhlaðborð er innifalið í verði. 800 króna gistináttaskattur á hverja nótt ekki innifalinn í verði. Bókunarnúmer: 137887664

    Styrkur Íslands liggur í grænni orku

    Eitt megin framlag Íslands til loftslagsmála hefur verið nægt framboð af endurnýjanlegri orku til að svara þörf orkusækins iðnaðar sem annars þyrfti að knýja starfsemi sína með jarðefnaeldsneyti, með neikvæðari áhrifum á andrúmsloftið og náttúru. Uppbygging grænnar orkuframleiðslu til eflingar stóriðju er eitt farsælasta skref sem þjóðin hefur tekið, bæði í þágu loftslagsmála og fyrir velferð þjóðarinnar. Græn orkuframleiðsla er einn af hornsteinum ímyndar landsins og grundvöllur atvinnulífs og lífsgæða í landinu.

    Evrópa gefur í en Ísland hikstar

    Eftirspurn eftir orku hefur aukist hratt á undanförnum árum, einkum eftir grænni orku. Evrópusambandið hefur í þessu samgengi sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi og ráðist í umfangsmikla uppbyggingu grænnar orku og innviða. Í nýjustu tilskipanir Evrópusambandsins á sviði endurnýjanlegrar orku er lögð áhersla á hraðari leyfisveitingar og einfaldað regluverk þannig að leyfisveitingaferli fyrir græn orkuverkefni á landi taki að hámarki tvö ár. Með þessu er ESB ekki einungis að bregðast við loftslagsvánni, heldur einnig að byggja upp orkuöryggi, fjölga grænum störfum, örvar fjárfestingu og styrkir heilt yfir samkeppnishæfni álfunnar.

    Þessi þróun getur að öðru óbreyttu haft áhrif á samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að orkuskiptum og undirstöðum núverandi stóriðju, svo ekki sé minnst á annan orkusækinn iðnað, svo sem gagnaver og landeldi. Ísland hefur lengi notið samkeppnisforskots vegna yfirburða á sviði endurnýjanlegrar orku, en þegar nágrannalönd okkar byggja hratt upp sambærilega innviði og auka grænt orkuframboð sitt, dregur það úr sérstöðu íslenska orkumarkaðarins. Ef ekki verður brugðist við með markvissum hætti, m.a. með því að einfalda reglur, hraða leyfisveitingum og tryggja skýra forgangsröðun í framkvæmdum, gæti Ísland misst hluta þess forskots sem hefur hingað til laðað að fjárfestingar og verkefni á sviði grænnar orku. Þegar hafa heyrst vitnisburðir frá íslenskum fyrirtækjum að þeirra orkuskipti hafi stöðvast vegna þess að þau fá ekki nauðsynlega raforku og frá fulltrúum gagnavera sem viljað efla starfsemi sína á Íslandi en geta það ekki og opna þá í öðrum löndum. Verði aðgengi að grænni raforku á Íslandi ekki einfaldað getur það á endanum leitt til þess að fjárfestingar og atvinnumöguleikar þurfi frá að hverfa til annarra landa.

    Umhverfisáherslur og dafnandi atvinnulíf eru ekki andstæður. Fyrirtæki heimsins eru að leita lausna við þeirra losun og Evrópa ætlar að vera hluti af lausninni. Sterk staða Íslands í loftslagsmálum er ekki lögmál heldur ástand sem þarf að viðhalda á markvissan hátt.

    Nauðsyn skýrara og skilvirkara regluverks

    Í drögum að nýrri atvinnustefnu fyrir Ísland er lögð áhersla á að ýta undir vöxt í orkusæknum iðnaði og loftslagsgeiranum, sem er samheiti yfir atvinnugreinar á sviði endurnýjanlegrar orku og kolefnisstjórnunnar. Þar kemur einnig fram að stærsta framlag Íslands til loftslagsmála felist í sölu endurnýjanlegrar raforku til útflutningsgreina. Til þess að þessi stefna raungerist þarf að huga vel að þeim leyfisferlum og oft pólitísku nálaraugum sem fyrirtæki þurfa að þræða til þess að fá að hefja framleiðslu grænnar orku.

    Títt hefur verið rætt um þau rúmlega 20 ár sem tók að veita Hvammsvirkjun framkvæmdaleyfi. Hefur nú verið brugðist við því ástandi með tveimur frumvörpum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Annað þeirra, svokallað einföldunarfrumvarp, tekst á við þann frumskóg sem leyfisveitingaferlin eru orðin að og mun auka gagnsæi, skilvirkni og fyrirsjáanleika í leyfisveitingum. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en komst ekki út úr fyrstu nefnd. Það var aftur lagt fyrir þingið þann 18. nóvember sl. og bíður nú frekari meðferðar.

    Aðgerðir Evrópusambandsins til að einfalda regluverk til að greiða fyrir orkuskiptum eru ekki aðeins umhverfismál, þær eru einnig skref til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og auka viðnámsþrótt samfélaga. Til að viðhalda forskoti okkar eða að minnsta kosti standa jafnfætis í þessari þróun þarf Ísland að innleiða sambærilegar aðgerðir og tryggja að orkuiðnaðurinn fái að dafna innan skilvirks og framsækins regluverks.

    Opinberar aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki þurrka út samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja heldur verður að líta til þeirra tækifæra þar sem Ísland getur lagt sín lóð á vogarskálarnar á hátt sem gagnast bæði umhverfinu og þjóðfélaginu.

    Mánudaginn 24. nóvember verður Umhverfisdagur atvinnulífsins haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Þar er yfirskriftin Frá yfirlýsingum til árangurs og verður athyglinni beint að mikilvægi þess að efla samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfis- og loftslagsmálum. Ráðherrar, leiðtogar íslensks atvinnulífs og fleiri sérfræðingar taka þátt í dagskrá.

    Höfundur er Sverrir Falur Björnsson, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 21. nóvember 2025.

    Desemberfundur 2025

    Árlegur desemberfundur Samorku verður haldinn fimmtudaginn 4. desember kl. 15.00 – 17.00 á Hilton Reykjavík Nordica.

    Dagskrá verður að venju helguð innra starfi Samorku:

    Opnun desemberfundar – Sólrún Kristjánsdóttir, stjórnarformaður

    HOP: Ný handbók og ný nálgun í öryggismálum – Hörður Lindberg Pétursson, Öryggisráði Samorku

    Hagsmunagæsla Samorku í Brussel – tilgangur, væntingar, virðið hingað til
    – Lovísa Árnadóttir ræðir við Svein Helgason, verkefnastjóra erlends samstarfs hjá Samorku og Kristínu Lindu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar

    Framtíðargjaldskrá dreifiveitna – Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Rarik og í gjaldskrárhópi Samorku

    Störum jólaljósin á: Öryggi orkuinnviða og breytt ógnalandslag – Vigdís Eva Líndal, leiðtogi upplýsingaöryggis hjá Orkuveitunni og í Netöryggisráði Samorku

    Rabbað við ráðherra
    – Jóhann Páll Jóhannsson, orku-, umhverfis- og loftslagsráðherra í óformlegu spjalli við Finn Beck framkvæmdastjóra Samorku og aðra fundargesti

    Að dagskrá lokinni færum við okkur niður á Vox HOME þar sem boðið verður upp á jólalegan pinnamat og Kvartettinn Barbari skemmtir okkur með vel völdum „rakarastofu“-jólalögum. 

    Athugið að fundurinn er aðeins opinn félagsfólki Samorku (starfsfólki aðildarfyrirtækja).

    Hægt er að skrá sig eingöngu á fundinn eða á bæði fund og jólaskemmtun.

      Ég mæti á Desemberfund Samorku (verð 3.500)
      Ég mæti á jólaskemmtun með pinnamat og skemmtiatriði (verð 8.900)
      Ég tek með gest/maka á jólaskemmtun (verð 8.900)

      Vestfirðir eru heitur reitur

      Á Vestfjörðum hefur verið notast við rafkyntar hitaveitur í stað hefðbundinna jarðhitaveitna, því lítið hefur fundist í gegnum tíðina af nægilega heitu vatni sem gæti nýst til húshitunar. En með tækniframförum og myndarlegu átaki stjórnvalda í jarðhitaleit á svæðinu hefur vonin aldeilis kviknað um að þetta geti breyst, íbúm á svæðinu til mikilla hagsbóta.

      Elena Dís Víðisdóttir, verkfræðingur á orkusviði hjá Orkubúi Vestfjarða, ræðir uppganginn og stemninguna á Vestfjörðum við Lovísu Árnadóttur og hvernig Vestfirðir eru heitur reitur, líka hvað varðar jarðhita.

      SnerpaPower handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025

      Teymi SnerpuPower ásamt fulltrúum Samorku

      Fyrirtækið SnerpaPower hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2025. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og varaformaður stjórnar Samorku, afhenti verðlaunin á opnum fundi í Hörpu í gær.  Óháð dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi SnerpuPower úr hópi tilnefninga til verðlaunanna. 

      Hugbúnaður fyrirtækisins er skýjalausn byggð á gervigreind og rauntímagögnum sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu.

      Lausnin notar háþróuð spá- og hermilíkön með allt að 99,9% nákvæmni og hefur þegar sýnt fram á mælanlegan árangur með sparnaði upp á 5–10 MWh á hverri klukkustund, sem samsvarar allt að 44 GWh á ári og samdrætti í losun um 40 þúsund tonn CO₂.

      Í greinargerð dómnefndar kemur fram að SnerpaPower sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 fyrir framúrskarandi árangur í að nýta íslenskt hugvit til að auka sjálfbærni í orku og veitugeiranum, bæta orkunýtni og styrkja samkeppnishæfni græns iðnaðar.