Kosið um græna framtíð

Orku- og veitumálin verða sennilega í brennidepli fyrir alþingiskosningarnar í lok mánaðarins, enda mörg brýn verkefni í málaflokknum á borði stjórnvalda.

Kosningabaráttan mun snúast um hver hefur grænu sýnina, sýnina sem leggur grunninn að næsta vaxtarskeiði fyrir Ísland, því orka er súrefni atvinnulífsins og forsenda allrar verðmætasköpunar. Þetta segja þau Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku og Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, sem eru viðmælendur þáttarins að þessu sinni.

Jarðhræringar I: Þegar verstu sviðsmyndir raungerast

Góður undirbúningur fyrir jarðhræringar skipti sköpum þegar eldgos á Reykjanesskaga hófust. Enginn átti þó von á að verstu sviðsmyndirnar myndu raungerast.

Í þættinum er farið yfir þá miklu vinnu sem farið hefur í undirbúning, viðbragð og lausnir til að verja mikilvæga orku- og veituinnviði á fyrsta eldgosatímabili í þúsundir ára.

Viðmælendur eru þeir Guðmundur Helgi Albertsson verkstjóri á rafmagnssviði á Suðurnesjum, Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets og Jóhannes Steinar Kristjánsson umsjónarmaður viðhalds hjá HS Orku.

Jarðhræringar II: Hamfarir fyrir fólk og fyrirtæki

Jarðhræringar á Reykjanesi hafa reynt gríðarlega á orku- og veituinnviði þjóðarinnar, en hafa ekki síður reynt á fólkið sem staðið hefur í ströngu við að halda þeim gangandi.

Petra Lind Einarsdóttir mannauðsstjóri HS Orku er gestur þáttarins og ræðir hún við Lovísu Árnadóttur um mannleg áhrif hamfaranna á starfsfólkið og á daglegan rekstur fyrirtækisins.

Jarðhræringar III: Upplýsingamiðlun þegar mikið liggur við

Þegar fyrirtæki glíma við krísur er mikilvægt að réttar og ábyrgar upplýsingar komist hratt og vel til hagaðila, fjölmiðla og almennings. Það getur verið krefjandi í mikilli óvissu og undir miklu álagi eins og í jarðhræringunum á Reykjanesi og hvað þá þegar allir eru orðnir sín eigin fréttastofa með snjallsíma í vasanum.

Upplýsingafulltrúarnir Birna Lárusdóttir hjá HS Orku, Sigrún Inga Ævarsdóttir hjá HS Veitum og Steinunn Þorsteinsdóttir hjá Landsneti, fara yfir mikilvægi góðra samskipta í þættinum og reynslu sína af að miðla upplýsingum til réttra aðila þegar mikið liggur við.

Myndböndin sem vísað er til í þættinum má sjá á Vimeo síðu Samorku.

Ný tækifæri til orkuöflunar

Er eitthvað vit í að nýta sólarorku á Íslandi?
Hvað er vindorka á smærri skala?
Munu heimili og fyrirtæki í framtíðinni hafa eitthvað hlutverk í nýrri orkuöflun?

Þetta eru nokkrar spurningar sem starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrra tókst á við í nýrri skýrslu sem út kom fyrr á árinu. Í þessum þætti Lífæða landsins eru niðurstöður skýrslunnar ræddar við Ásmund Friðriksson þingmann og Gunnlaugu Helgu Ásgeirsdóttur Msc. í sjálfbærum orkuvísindum, en þau sátu bæði í starfshópnum.

Þáttastjórnendur eru Finnur Beck og Lovísa Árnadóttir.

Skýrsluna má lesa á heimasíðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.

Rætt um rammann

Breyta þarf því ferli hvernig við skilgreinum landsvæði til verndunar eða til orkunýtingar. Núverandi ferli hefur einfaldlega ekki náð þeim árangri sem lagt var upp með fyrir aldarfjórðungi síðan, hvorki til orkunýtingar eða til verndunar. Í þætti dagsins ræða Harpa Pétursdóttir forstöðukona nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni og Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun um rammaáætlun, hvað það er sem er ekki að virka í því ferli og hvernig líta þarf til aukinnar þekkingar, breyttra forsenda og breytts samfélags þegar stjórnvöld hefja nú ferli við að endurskoða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Katrín, Jóna, Lovísa og Harpa við upptöku þáttarins.

Þáttastjórnendur: Katrín Helga Hallgrímsdóttir og Lovísa Árnadóttir.

Bretta þarf upp ermar til að ná settum markmiðum – Guðlaugur Þór Þórðarson

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir stjórnmálin hafa brugðist í grænorkumálum og sofið hafi verið á verðinum í gegnum tíðina. Staðan í orkuöryggi þjóðarinnar sé alvarlegri en fólk átti sig á. Þó sé ekki öll nótt úti enn, en bretta þurfi upp ermar til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum. Ísland hafi alla burði til að verða mekka græns hugvits.

Guðlaugur Þór og Lovísa Árnadóttir fara yfir víðan völl í orkumálunum í þessum þætti.

Þátturinn var tekinn upp 9. nóvember, degi áður en Grindavík var rýmd vegna yfirvofandi eldgosahættu.

Frumskógur leyfisveitinga

Að fá leyfi til virkjanaframkvæmda er langt og strangt ferli. Eins og staðan er í dag tekur það að lágmarki um 12 ár en dæmi eru um mun lengri tíma. Að margra mati er hægt að stytta ferlið talsvert og gera það skilvirkara án þess að slá af gæðakröfum. Það sé hreinlega nauðsynlegt nú þegar við hlaupum í kappi við tímann til að standast þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir í loftslagsmálum.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs hjá HS Orku og Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun eru viðmælendur þáttarins. Þau fara yfir þennan frumskóg leyfisveitinga dagsins í dag og ræða hvernig gera mætti betur.

Full orkuskipti möguleg árið 2050

Fullum orkuskiptum verður ekki náð árið 2040 eins og markmið stjórnvalda segja til um samkvæmt nýrri raforkuspá sem Landsnet gaf út í gær, 24. ágúst 2023. En góðu fréttirnar eru þær að við getum enn orðið jarðefnaeldsneytislaus árið 2050, að því gefnu að allt vinni saman; markaðurinn, uppbyggingin, ábyrg notkun og takmörkun á umhverfisáhrifum.

Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunarsviðs hjá Landsneti og og Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti eru viðmælendur þáttarins í dag. Við ætlum að ræða nýju raforkuspána og þörfina á nýrri nálgun og nýrri hugsun í orkumálum þjóðarinnar til framtíðar.

Hægt er að skoða raforkuspá Landsnets hér.

Hagfræðin hennar ömmu og auðlindanýting í Svartsengi

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi eru lykilorð í orku- og veitugeiranum um allan heim um þessar mundir, en fyrir Alberti Albertssyni eru þetta einfaldlega ný orð yfir hagfræðina hennar ömmu. Að bera nægilegan kærleik í brjósti fyrir því sem jörðin gefur okkur að ekkert fari til spillis. Þessa hugmyndafræði drakk Albert í sig frá blautu barnsbeini og nýtti í gegnum áratuga starfsferil á Suðurnesjunum, fyrst hjá Hitaveitu Suðurnesja og síðar hjá HS Orku, þar sem þetta leiðarljós var virkjað í Auðlindagarðinum sem gengur út á þekkingarmiðlun og fullnýtingu auðlindastrauma.

Albert, sem er nýsestur í helgan stein, er gestur þáttarins að þessu sinni og við ræðum um hvernig veganestið frá ömmu hefur verið lykilatriði í auðlindanýtingu í Svartsengi.