16. júlí 2025 Djúpborun: Tæknilegt ævintýri sem getur skipt sköpum Að bora djúpt ofan í jarðlögin til að ná í orku er eitthvð sem unnið hefur verið að árum saman hér á landi. Með þessu væri hægt að ná í meiri orku á sömu jarðhitasvæðum og þannig nýta jarðhitaauðlindina enn betur. En það fylgja því tæknilegar áskoranir að ætla sér að bora svona djúpt ofan í jörðina. Í þættinum ræðir Sigurður H. Markússon, leiðtogi djúpnýtingar hjá Orkuveitunni, um djúpborunarverkefnin hér á landi og hvernig árangur í þeim efnum getur skipt sköpum, ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur á alþjóðavísu. Nálgast má þáttinn á hlaðvarpsveitum og á sumum þeirra sem bæði hljóð og mynd.
11. júlí 2025 20 orkugerðir teknar upp í EES samninginn Alls voru 20 orkugerðir teknar upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel í dag, 11. júlí. Hann var fyrsti fundurinn undir formennsku Íslands, bæði í Fastanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og í sameiginlegu EES-nefndinni næstu sex mánuði. Sú nefnd er helsti samstarfsvettvangur EES-EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Lichtenstein og Evrópusambandsins, enda er hlutverk nefndarinnar að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel og nýr formaður lagði sérstaka áherslu á að af þeim 55 gerðum sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundinum voru 20 orkugerðir. Þeirra á meðal eru tilskipanir ESB um orkunýtni, endurnýjanlega orkugjafa og orkunýtni bygginga. Þetta eru yfirgripsmiklar tilskipanir og/eða breytingar á fyrri tilskipunum og upptaka þeirra í samninginn hefur verið lengi í vinnslu í samráðsferli EFTA- EES ríkjanna og Evrópusambandsins. Þær verða nú innleiddar í íslenska löggjöf og hafa því áhrif á starfsumhverfi orkufyrirtækja hér á landi. Kristján Andri þakkaði EES-EFTA ríkjunum og ESB fyrir gott samstarf og fyrir að leggjast á eitt í að hrinda í framkvæmd þessari jákvæðu þróun á sviði orkumála, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá EFTA. Stuðningur við Omnibus-einföldunartillögur ESB EES-EFTA ríkin kynntu einnig sameiginlegt álit sitt á svokölluðum Omnibus-einföldunarpakka ESB. Í álitinu lýsa ríkin stuðningi við þær tillögur sem snúast um að einfalda reglur og draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Þó að við styðjum almennt OMNIBUS-einföldunartillögurnar sem lagðar hafa verið fram hingað til, viljum við einnig undirstrika mikilvægi þess að tryggt verði að þær grafi ekki undan lykilmarkmiðum sem tengjast loftslagsmálum, umhverfismálum og félagslegum réttindum,“ er haft eftir Kristjáni Andra Stefánssyni sendiherra í fréttatilkynningu EFTA. Á fundi Fastanefndar EFTA í gær, 10. júlí kynnti Ísland einnig formennskuáætlun sína þar sem lögð er áhersla á öryggi, samkeppnishæfni og þátttöku EES-EFTA ríkjanna í áætlunum Evrópusambandsins. Sjá nánar frétt á heimasíðu EFTA um fundinn: EEA Joint Committee incorporates important energy files | European Free Trade Association
11. júlí 2025 Vöxtur í nýtingu jarðhita í Evrópu Vöxtur er í nýtingu og leit að jarðhita í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu sem European Geothermal Energy Council (EGEC), samtök evrópska jarðhitageirans, kynntu þann 11. júlí. Forysta EGEC bindur miklar vonir við væntanlega aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í jarðhita. Í skýrslu EGEC kemur m.a. fram að alls voru 147 jarðhitavirkjanir í rekstri í Evrópu í lok 2024 og um 50 til viðbótar eru í undirbúningi á mismunandi þróunarstigum. Hitaveitur í Evrópu (Geothermal District Heating and Cooling) eru nú rúmlega 400 talsins og áætlanir eru uppi um að bæta um 500 við, sem nemur þá meira en tvöföldun á fjöldanum. Jarðhitaholur í Póllandi Sala á jarðvarmadælum dróst saman á árinu 2024 en vonir standa til að hún aukist aftur, m.a. með aðgerðaáætlun ESB í jarðhita (Geothermal Action Plan) sem framkvæmdastjórn ESB hyggst kynna snemma á næsta ári. Leit að jarðhita og tengdar rannsóknir eru í miklu vexti, samkvæmt skýrslunni. Þar á meðal er ætlunin að bora fjölmargar holur í tengslum við þær nýju jarðhitavirkjanir sem eru á teikniborðinu eða eru lengra komnar í undirbúningi. „Leiðin liggur upp á við í jarðhitageiranum, með nýjum borverkefnum, virkjunum og hitaveitum,“ er haft eftir Miklos Antics forseta EGEC í fréttatilkynningu frá samtökunum sem Samorka er aðili að. Antics leggur einnig áherslu á mikilvægi aðgerðaáætlunar ESB til að jarðhiti fái m.a. viðurkenningu sem einn hornsteina orkuskipta. Philippe Dumas, framkvæmdastjóri EGEC telur að aðgerðaáætlunin geti t.d. verið í lykilhlutverki í að einfalda leyfisveitingar fyrir ný jarðhitaverkefni. Það ætti um leið að ýta undir áhuga fjárfesta. Jarðhitavirkjun í Rúmeníu
11. júlí 2025 Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk. Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ „Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni. Ráðherrann stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl. Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur. Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.
11. júlí 2025 Hæstiréttur staðfestir ógildingu á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Rétturinn dæmdi að samkvæmt þágildandi lögum um stjórn vatnamála hafi Umhverfisstofnun verið óheimilt að leyfa breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna virkjunarinnar. Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í júní en segir þó ljóst að framkvæmdum seinki og kostnaður aukist. Landeigendur við Þjórsá höfðu málið á hendur Landsvirkjun og íslenska ríkinu og kröfðust þess að heimildir og leyfi fyrir virkjuninni yrðu felld úr gildi. Mynd: Landsvirkjun Í dómi Hæstaréttar kemur fram að breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpi til laga um stjórn vatnamála frá árinu 2011 hafi verið afdrifaríkar. Lögin voru sett til að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins. Niðurstaða réttarins er að lokaútgáfa 18. greinar laganna útiloki í raun veitingu leyfa til að breyta vatnshlotum vegna nýrra framkvæmda eins og vatnsaflsvirkjana. Upphaflega heimilaði frumvarpið slíkar “nýjar breytingar” með undanþágu Umhverfisstofnunar ef önnur skilyrði laganna væru uppfyllt. Í skýringum með lagagreininni voru vatnsaflsvirkjanir tilteknar sem dæmi um breytingar af þessu tagi. Við þinglega meðferð var greininni hinsvegar breytt þannig að undanþágur væru einungis mögulegar vegna t.d. mengunar eða loftslagsbreytinga, en ekki vegna nýrra framkvæmda. Hæstiréttur telur því að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna Hvammsvirkjunar og þá væri um leið brostinn grundvöllur fyrir virkjanaleyfi Orkustofnunar Landsvirkjun og ríkið héldu því fram niðurstaða héraðsdóms fengi með engu móti staðist enda væri stjórnvöldum þá óheimilt að veita ný leyfi til nýtingar á vatnsaflsauðlindum til raforkuframleiðslu hér á landi eins og gert hafi verið á liðnum áratugum. Jafnframt færi það þvert gegn þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað í orkumálum, m.a. með því að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk. Hæstiréttur segir hinsvegar ljóst að umhverfisnefnd Alþingis “lagði til þá efnisbreytingu á lögunum að vatnshloti yrði ekki breytt vegna áhrifa af nýjum framkvæmdum. Gat þá ekki leikið vafi á að þar með var girt fyrir breytingar á vatnshloti vegna byggingar nýrra vatnsaflsvirkjana,” eins og segir í dómnum. Hæstiréttur bendir líka á að lög verði að vera skiljanleg og borgarar verði að geta treyst því að vilji löggjafans birtist í skýru orðalagi lagatexta. Það stoði því ekki fyrir Landsvirkjun og ríkið að halda því fram Alþingi hafi í raun ætlað að komast að allt annarri niðurstöðu með lagasetningunni. Skipti þá engu máli þó sannfærandi rök hafi verið færð fyrir því. Þá sé það ekki hlutverk dómstóla að leiðrétta slík mistök heldur löggjafans. “Löggjöf verður hverju sinni að endurspegla áherslur og markmið stjórnvalda í orkuskiptum, rafvæðingu og loftslagsmálum.” segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. “Önnur Evrópuríki í þessu skyni endurbætt löggjöf sína, einfaldað og eflt stjórnsýsluferla til að þjóna betur markmiðum sínum.” Finnur segir svo virðast sem Alþingi hafi árið 2011 gert alvarleg mistök sem nú hafi alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu orkumála í landinu. Þetta undirstriki skýrt það sem Samorka hafi lagt áherslu á: “Alla löggjöf þarf að vanda vel svo hún vinni með en ekki gegn markmiðum um orkuöryggi og orkuskipti.” Í kjölfar þess að héraðsdómur felldi virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi í janúar á þessu ári lagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fram frumvarp um breytingu á raforkulögum og um stjórn vatnamála til að eyða lagaóvissu. Þannig yrði hafið yfir allan vafa að fyrrnefnd 18. grein laga um stjórn vatnamála taki til breytinga á vatnshloti, vegna framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjanir. Frumvarpið varð að lögum í júní og á grundvelli þeirrar lagasetningar hyggst Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Landsvirkjun segir í fréttatilkynningu að síðustu áætlanir hafi gert ráð fyrir gangsetningu virkjunarinnar árið 2030 en töfin sem dómur Hæstaréttar hafi í för með sér gæti þýtt umtalsverða seinkun til viðbótar. Viðbótarkostnaður vegna þessa og vegna tafa á undanförnum árum hlaupi á milljörðum. Mest sé þó tapið fyrir íslenskt samfélag sem verði af þeim verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað.
18. júní 2025 Miklir möguleikar í nýtingu jarðhita í Evrópu Fulltrúar jarðhitageirans í Evrópu segja mikilvægt að væntanleg aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um að efla nýtingu jarðhita ýti undir fjárfestingar í þessum geira. Þetta kom fram á jarðvarmaráðstefnu í Brussel þann 17. júní. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB tóku undir að hægt væri að auka verulega vinnslu jarðvarma á meginlandinu til að framleiða raforku, til húshitunar og kælingar. Fulltrúi pólskra stjórnvalda sagði einnig frá áætlunum að auka stórlega nýtingu jarðhita þar í landi. Paula Rey Garcia sagði frá áherslum framkvæmdastjórnar ESB í nýtingu jarðvarma. Hagsmunasamtök jarðhitageirans í Evrópu „European Geothermal Energy Council” (EGEC) skipulögðu ráðstefnuna sem bar yfirskriftina „Geothermal Cities – How can the EU‘s Geothermal Action Plan unlock investments?“ Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur nú að undirbúningi fyrrnefndrar aðgerðaáætlunar og hyggst birta hana snemma á næsta ári. Dan Jørgensen, orkumálastjóri ESB sagði í mars s.l. að jarðvarmi hafi mikilvægu hlutverki að gegna í orkuskiptum innan Evrópusambandsins. Hinsvegar hafi greinin þurft að glíma við hindranir, t.d. vegna leyfisveitinga og skorts á fjármagni. Fulltrúar á ráðstefnu EGEC hvöttu til þess að þeim hindrunum verði rutt úr vegi því þannig mætti vekja þennan „sofandi risa“ í þágu orkuskiptanna. Embættismenn framkvæmdastjórnarinnar sögðust meðvitaðir um mikilvægi þess að hrinda umbótum í framkvæmd í samráði við aðildarríki ESB. Aðgerðaáætlunin fylgir í kjölfar niðurstöðu ráðherraráðs ESB frá í desember 2024 sem lagði áherslu á að jarðhiti sé traustur, hagstæður og grænn orkugjafi til að hita hús, fyrir kælingu og til að framleiða rafmagn. Pallborðsumræður á ráðstefnunni voru líflegar enda viðfangsefnin áhugaverð. Pólland hefur verið leiðandi í auka veg jarðhitanýtingar innan Evrópusambandsins og fulltrúi pólskra stjórnvalda á ráðstefnunni sagði m.a. frá fyrirætlunum um að bora tugi nýrra borhola víðsvegar í landinu á næstu árum. Fulltrúar borga í Evrópu sögðu frá verkefnum sem snúast um jarðhitanýtingu og einstök fyrirtæki kynntu hvað þau eru að gera – í bortækni, hitaveitu og mörgu öðru. Kortlagning jarðhita í Evrópu og aðgengi að þeim gögnum var efni eins fyrirlestrar og nauðsyn þess að efla þekkingu og kunnáttu gekk eins og rauður þráður í gegnum ráðstefnuna. Þar hefur íslenski jarðhitageirinn auðvitað mikið fram að færa. Þá kom einnig fram að nýting jarðvarma auki orkuöryggi því hann sé auðlind í nærsamfélaginu. Evrópusambandið leggur nú þunga áherslu á að í framtíðinni standi aðildarríkin sem mest á eigin fótum í orkuöflun og ef rétt er á málum haldið getur jarðvarmi verið þar mikilvæg stoð. Ráðstefnan í Brussel sýndi fram á að mikill áhugi er á frekari nýtingu jarðhita og nú þarf pólitískan stuðning og meira fjármagn til að láta verkin tala. Fulltrúi Samorku sat ráðstefnuna en samtökin eru aðili að EGEC. Skilaboðin frá EGEC um kosti nýtingar jarðhita eru skýr.
8. maí 2025 Meiri endurnýjanleg orka til hitunar og kælingar er lykill að orkuskiptum innan ESB Evrópskur samstarfsvettvangur um tækni og nýsköpun vegna sjálfbærrar hitunar og kælingar1 stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 7. maí sem bar yfirskriftina „Collaborative Pathways to Sustainable Heating and Cooling“ eða „Samstarfsleiðir að sjálfbærri hitun og kælingu.“ Þeir sem sátu ráðstefnuna komu úr ýmsum áttum, s.s. sérfræðingar úr vísindasamfélaginu, fulltrúar fyrirtækja, hagsmunasamtaka og sérfræðingar frá Evrópusambandinu. Árið 2023 stóðu endurnýjanlegir orkugjafar undir 26.2% af heildarorkunotkun vegna hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. Vera má að sú tala hafi hækkað eitthvað síðan en það er greinilega verk að vinna að auka hlut grænna orkugjafa og minnka þá um leið notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki síst þegar Evrópusambandið ætlar í áföngum að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi fyrir árslok 2027. Orka sem notuð er til hitunar og kælingar er um helmingur af heildarorkunotkun í aðildarríkjum Evrópusambandsins. ESB hefur því lagt ríka áherslu á að minnka kolefnislosun í þessum geira með því að hraða orkuskiptum enda sé það forsenda fyrir því að ná markmiðum ESB í orku- og loftslagsmálum. Beatrice Coda frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Evrópusambandsins. Fyrirlesarar á ráðstefnunni litu margir til framtíðar, kynntu nýjungar á þessu sviði og ræddu einnig helstu áskoranir og tækifæri í pallborðsumræðum. Athyglisvert er að sjá hvernig ólíkir orkugjafar eru notaðir til hitunar og kælingar i Evrópu Þar má helst nefna sólarorku, lífefnaeldsneyti og varmadælur og svo auðvitað jarðhita. Nýsköpun á þessu sviði veltur m.a. á framlögum frá Evrópusambandinu og fulltrúi ESB á ráðstefnunni var einmitt frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnar ESB, Beatrice Coda. Hún benti m.a. á að Horizon Europe, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, hefði veitt verulegu fé til fjölmargra verkefna til að styðja við þróun endurnýjanlegra orkulausna fyrir hitun og kælingu. Íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskólar geta sótt um styrki úr Horizon og hefur orðið vel ágengt, m.a. í að fá styrki til nýtingar jarðhita. Fulltrúar víða að sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður voru líflegar. Þá hyggst Evrópusambandið efla hlut jarðvarma með sérstakri aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi og á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Samorka mun fylgjast grannt með því ferli enda er Ísland í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma og hefur því margt fram að færa. Meira um ráðstefnuna: 100% RHC Event 2025 – RHC Stefnumótun ESB um hitun og kælingu: Heating and cooling
25. apríl 2025 Fjórar nýjar umsagnir frá Samorku Samorka hefur skilað inn umsögnum um fjögur mál í vikunni. Þetta eru umsagnir um breytingar á raforkulögum (raforkuviðskipti), einföldun og samræmingu leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála, breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og svo tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna. Allar umsagnir Samorku má finna hér.
10. apríl 2025 Orkumál í lykilhlutverki hjá nýrri Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins Íslenskir fulltrúar meðal þátttakenda í Vatnsaflsdeginum 2025 í Brussel Vatnsafl er mikilvægt fyrir sveigjanleika sjálfbærra orkukerfa í Evrópu og orkumál eru í lykilhlutverki í stefnu nýrrar Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fram til ársins 2029. Þetta kom m.a. fram í máli Thomas Schleker, sem fer málefni vatnsafls á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnarinnar (DG RTD), þegar hann bauð gesti velkomna á Vatnsaflsdaginn í Brussel, þann 8. apríl. Skipuleggjandi ráðstefnunnar var The European Technology and Innovation Platform (ETIP) on Hydropower. https://etip-hydropower.eu/ Markmið vatnsaflsdagsins er að vera sameiginlegur vettvangur fyrir hagmunaaðila í vatnsaflsgeiranum og þá sem fara með þennan málaflokk og móta stefnu í honum innan Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og á Evrópuþinginu. Tomas Schleker sagði Framkvæmdastjórn ESB leggja ríka áherslu á að auka samkeppnishæfni Evrópu og fjárfestingar í nýsköpun, ekki síst í hreinni orku. Schleker nefndi þar m.a. Samkeppnishæfnisjóðinn (European Competitiveness Fund) og Clean Industrial Deal. Þetta tvennt ásamt margvíslegri annarri stefnumótun og lagasetningu væri lykillinn að því að ná metnaðarfullum markmiðum Evrópusambandsins í orku, umhverfis- og loftslagsmálum á næstu áratugum. Frummælendur og þátttakendur í pallborðsumræðum á ráðstefnunni undirstrikuðu að vatnsafl væri áreiðanleg orkulind til rafmagnsframleiðslu. Hægt væri að „geyma vatnsafl“ og nýta þá þann forða til að framleiða meira rafmagn þegar aðrir endurnýjanlegir orkugjafar væru ekki skila sínu, s.s. vind- og sólarorka. Ljóst er að mikill kraftur er í vatnsorkugeiranum í Evrópu og fjárfest hefur verið í stórum verkefnum. Loftslagsbreytingar hafa líka mismunandi áhrif á rekstrarskilyrði atvinnugreinarinnar og gera má ráð fyrir að þau verði mun neikvæðari sunnar í álfunni heldur en þegar norðar dregur. Þátttakendur í ráðstefnunni sögðu líka mikilvægt að vatnsaflsgeirinn starfaði í sátt við umhverfið og nærsamfélagið Ólafur Arnar Jónsson forstöðumaður Nærsamfélags og náttúru hjá Landsvirkjun lagði áherslu á þetta þegar hann tók þátt í pallborðsumræðum á Vatnsaflsdeginum. Hann sagði að gagnsæi væri lykilatriði til að ávinna sér traust. Að heimamenn á hverjum stað, hagsmunaaðilar og aðrir hefðu t.d. greiðan aðgang að niðurstöðum rannsókna og upplýsingum um þau áhrif sem framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar kynnu á að hafa á náttúruna og fleira sem máli skipti. Það er líka ljóst að óvissa í alþjóðamálum hefur áhrif á orkugeirann og sýnir raunar enn frekar fram á mikilvægi hans fyrir öryggi samfélaga og ríkja. Þessi óvissa eykur líka þrýsting á Evrópusambandið að vera sjálfu sér nægt um orku – að ná markmiðinu um orkusjálfstæði. Staðan er enn sú að ríki Evrópusambandsins flytja inn um 60% af þeirri frumorku sem þau nota, að því er fram kom í máli eins frummælenda. Annar íslenskur þátttakandi í Vatnsaflsdeginum var Birna Guttormsdóttir frá Umhverfisstofnun, nú sérfræðingur á umhverfissviði Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (DG ENV). Hún sagði margvíslegar stórar áskoranir framundan en vatnsaflsgeirinn gæti bætt sig enn frekar í sjálfbærni og vatnsbúskap – verið meira „water-wise“ eins og hún komst að orði. „Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að það sem er gott fyrir náttúruna er gott fyrir atvinnurekstur og viðskipti,“ sagði Birna sem vinnur að stórum verkefnum á sviði stefnumótunar, reglna og lagasetningar, m.a. í vatnamálum. Eins tók Heiki Bergmann stjórnarmaður í HS Orku þátt í pallborðsumræðunum, svo það má segja að á ráðstefnunni hafi verið þriðji „íslenski“ fulltrúinn. Skipuleggjandi Brussel Vatnsaflsdagsins, ETIP Hydropower, hefur sett sér það markmið að sameina þá sem tala fyrir nýtingu vatnsafls í Evrópu – þannig að þessi geiri tali með einni röddu. Ráðstefnan sýndi líka að þeir sem starfa innan vatnsorkugeirans og sérfræðingar sem honum tengjast hafa mikinn metnað í að vanda til verka. Það sýndu fjölbreytt framsöguerindi og líflegar pallborðsumræður.
7. febrúar 2025 Til umsagnar: Netmálar vegna nýrra tenginga við dreifiveitu og stórar fjárfestingar vegna útmötunar Dreifiveitur rafmagns kynna til umsagnar Netmála 1.0 – Skilmálar um viðbótarkostnað vegna nýrra tenginga við dreifiveitu og stórar fjárfestingar vegna útmötunar. Í netmálanum felast skilmálar sem gilda fyrir allar dreifiveitur rafmagns um hvernig staðið skuli að útreikningi á viðbótarkostnaði vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á kerfi dreifiveitu í tengslum við afhendingu til notenda. Netmálinn er unninn á grundvelli raforkulaga og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, með síðari breytingum, sérstaklega 2. gr. reglugerðar 302/2022 – Kerfisframlag vegna nýrra tenginga við dreifiveitu. Umsagnarferlið stendur til 14. mars 2025. Vinsamlegast skilið umsögnum til Samorku, netfang: katrinh@samorka.is Netmáli 1.0_Umsagnarferli_febrúar2025Download Viðauki2_Netmáli1.0_Sýnidæmi_Umsagnarferli2025Download Viðauki1_Netmáli1.0_Notkunaráætlun_Umsagnarferli2025Download