13. nóvember 2025 Öflugur ársfundur Nordenergi haldinn í Svíþjóð Mikilvægi rafvæðingar í orkuskiptum með fjölbreyttum endurnýjanlegum orkugjöfum er meðal forgangsmála hjá Green Power Denmark sem tók við formennsku í Nordenergi-samstarfinu af Renewables Norway á ársfundi í Svíþjóð 10.-12. nóvember. Nordenergi er samstarfsvettvangur norrænna landssambanda í græna orkugeiranum og sóttu þeir Finnur Beck framkvæmdastjóri og Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs ársfundinn fyrir hönd Samorku. Útbreiðsla endurnýjanlegra orkugjafa er um leið lykillinn að því að ná loftslagsmarkmiðum, styrkja samkeppnishæfni Evrópu og tryggja orkuöryggi álfunnar. Á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel eru aðildarsambönd Nordenergi síðan undir einu þaki, vinna að hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu og starfa með hagsmunasamtökunum í evrópska orkugeiranum. Norðurlöndin geta því talað með einni röddu, bæði í Brussel og á öðrum vettvangi. Fulltrúar á ársfundinum heimsóttu fyrst höfuðstöðvar Göteborg Energi í Gautaborg en héldu síðan til bæjarins Varberg þar sem fundurinn fór fram. Orkufyrirtækið Varberg Energi leggur mikla áherslu á nýsköpun og hefur t.d. sett upp 14 MW rafhlöðugarð sem Nordenergi-hópurinn heimsótti. Loks kynntu fundarmenn sér starfsemi Ringhals-kjarnorkuversins sem er skammt frá Varberg og sænska orkufyrirtækið Vattenfall rekur. Ársfundur Nordenergi verður næst haldinn í Finnlandi og árið 2027 verður Samorka síðan í gestgjafahlutverkinu. Hér að neðan er einnig hlekkur til að lesa meira um rafhlöðugarð Varberg Energy. https://www.varbergenergi.se/om-oss/var-verksamhet/natbatterier: Öflugur ársfundur Nordenergi haldinn í Svíþjóð
7. nóvember 2025 SnerpaPower handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 Teymi SnerpuPower ásamt fulltrúum Samorku Fyrirtækið SnerpaPower hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2025. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og varaformaður stjórnar Samorku, afhenti verðlaunin á opnum fundi í Hörpu í gær. Óháð dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi SnerpuPower úr hópi tilnefninga til verðlaunanna. Hugbúnaður fyrirtækisins er skýjalausn byggð á gervigreind og rauntímagögnum sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu. Lausnin notar háþróuð spá- og hermilíkön með allt að 99,9% nákvæmni og hefur þegar sýnt fram á mælanlegan árangur með sparnaði upp á 5–10 MWh á hverri klukkustund, sem samsvarar allt að 44 GWh á ári og samdrætti í losun um 40 þúsund tonn CO₂. Í greinargerð dómnefndar kemur fram að SnerpaPower sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2025 fyrir framúrskarandi árangur í að nýta íslenskt hugvit til að auka sjálfbærni í orku og veitugeiranum, bæta orkunýtni og styrkja samkeppnishæfni græns iðnaðar.
28. október 2025 Þingsályktun um varnir og öryggi kallar eftir auknu áfallaþoli samfélagsins Utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu í varnar- og öryggismálum, þar sem m.a. er lögð áhersla á að efla áfallaþol íslensk samfélags. Þannig þurfi t.d. að tryggja aðgang að orku á tímum spennuástands eða átaka. Markmið stefnunnar er að tryggja sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar, friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins gegn hernaðarlegri ógn, eins og segir í tillögu ráðherra. Framkvæmd stefnunnar á að taka mið af ógnarmati og þróun öryggismála hverju sinni. Hún byggist á 13 áherslum, þ.á.m. um meira áfallaþol. Dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og embætti ríkislögreglustjóra hafa tekið höndum saman um að meta áfallaþol íslensks samfélags með hliðsjón af sjö grunnviðmiðum Atlantshafsbandalagsins. Fer vinnan fram í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti, stofnanir og einkaaðila að því er fram kemur í greinargerð með þessari tillögu til þingsályktunar. Þar segir að mikilvægt sé að tryggja skilvirka innleiðingu og eftirlit með áfallaþoli í góðu samstarfi stjórnvalda, sveitarstjórna og einkaaðila. Þessi vinna og áætlanagerð á að ná til orkuvinnviða en einnig samgangna, fjarskipta, fæðuaðfanga, heilbrigðisþjónustu og fleiri sviða. Þingsályktunin er lögð fram í framhaldi af skýrslu samráðshóps þingmanna um inntak og áherslur i varnar- og öryggismálum sem Samorka hefur einnig sagt frá. https://samorka.is/orka-og-innvidir-i-nyrri-skyrslu-um-varnir-og-oryggi/: Þingsályktun um varnir og öryggi kallar eftir auknu áfallaþoli samfélagsins Tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um stefnu í öryggis- og varnarmálum má finna í heild sinni hér: https://www.althingi.is/altext/157/s/0251.html: Þingsályktun um varnir og öryggi kallar eftir auknu áfallaþoli samfélagsins
2. september 2025 Fulltrúar Landsnets heimsóttu skrifstofu Samorku í Brussel Skrifstofa Samorku í Brussel fékk góða gesti frá Landsneti í heimsókn i dag, 2. september. Ragna Árnadóttir forstjóri, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri áttu þá fund með Sveini Helgasyni, verkefnastjóra erlends samstarfs, sem sagði gestunum frá starfi sínu sem fulltrúi Samorku í Brussel. Mikilvægi flutningskerfis raforku í orkuskiptum Evrópu og stefna Evrópusambandsins á því sviði var líka til umræðu. „Það var ánægjulegt að fá þau Rögnu, Einar Snorra og Guðmund Inga í heimsókn hingað á Norrænu orkuskrifstofuna í Brussel þar sem Samorka er með aðstöðu. Mitt markmið er að leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið og liður í því er að taka á móti fulltrúum þeirra,“ sagði Sveinn um heimsóknina. „Fyrir mig er líka mikilvægt að heyra hvaða mál brenna á stjórnendum í íslenska orku- og veitugeiranum. Það nýtist mér m.a. í að fylgjast með þróun löggjafar og regluverks Evrópusambandsins sem er tekin upp í íslenska löggjöf og mótar þannig starfsumhverfi Landsnets og annarra fyrirtækja í þessum geira.“ F.v. Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri. Hraðari uppbygging flutningskerfis raforku í Evrópu er í raun hryggjarstykkið í orkuskiptum álfunnar og eitt af stærstu verkefnunum sem Evrópusambandið og aðildarríki þess standa frammi fyrir. Árangur á því sviði er svo ein meginforsendan fyrir því að ná markmiðum ESB í loftslagsmálum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst í lok ársins senda frá sér margvíslegar tillögur til að efla og styrkja flutningskerfið og tengda innviði undir samheitinu „European Grids Package.“ Samorka er hluti af sterku neti evrópskra hagsmunasamtaka í orku- og veitugeiranum, m.a. í gegnum aðild að ENTSO-E, sambandi flutningsfyrirtækja rafmagns í Evrópu sem eru með höfuðstöðvar í Brussel. Landsnet vinnur náið með ENTSO-E á ýmsum sviðum.
26. ágúst 2025 Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða. Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum. Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði: Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar. Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land. Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar. Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna. Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: Umsögn Samorku Atvinnustefna S.144.2025Download
12. ágúst 2025 Brýnt að styrkja dreifiveitur Evrópu gegn loftslagsvá Orkukerfi Evrópu standa frammi fyrir vaxandi hættu af völdum loftslagsbreytinga og brýnt er að efla viðnámsþol dreifikerfa raforku til að bregðast við öfgum í veðurfari og öðrum afleiðingum hlýnunar jarðar. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins. Í skýrslunni er kallað er eftir samræmdum aðgerðum á vettvangi Evrópusambandsins til að tryggja öryggi raforkunetsins í framtíðinni. Áhættan aukist gríðarlega Áhrif loftslagsbreytinga eru þegar farin að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir orkukerfi. Yfir 300 manns létu lífið í Evrópu árið 2024 vegna flóða og illviðris og þessi ógn á aðeins eftir að valda meira tjóni verði ekkert að gert. Evrópa er nú þegar sú heimsálfa þar sem loftslagshlýnun er hröðust. Sérfræðingar vara við fleiri hitabylgjum, tíðara ofsaveðri og meira vatnstjóni sem ógni getu dreifikerfa raforku til að tryggja raforku þegar hamfarir af þessu tagi ganga yfir. Stormurinn Éowyn sem gekk yfir Bretland og Írland í janúar á þessu ári leiddi t.d. til þess að ein milljón írskra heimila voru um tíma án rafmagns, nokkuð sem sýnir glögglega hversu innviðir af þessu tagi geti verið viðkvæmir fyrir áföllum. Þríþætt stefna til að byggja upp viðnámsþol Eurelectric kynnir í skýrslu sinni þríþætta nálgun sem dreifiveitur (DSOs) ættu að fylgja: Greining á áhættu og staðbundnum áhrifum – Með því að nýta loftslagslíkön IPCC og innlendar gagnagrunnsupplýsingar geta veitufyrirtæki greint veikleika og forgangsraðað endurbótum. Styrking dreifikerfa – Hún getur falið í sér notkun hitaþolinna kapla, vatnsheldar undirstöður og þéttara net til að tryggja varaafhendingu við rof. Í sumum tilvikum er ráðlagt að leggja raflínur í jörðu eða að undirstöður séu nægilega háar til að bregðast við flóðahættu. Skipulögð neyðarviðbrögð – Dreifiveitur þurfa að hafa aðgang að nauðsynlegum varahlutum. Viðbragðshópar þurfa að vera til reiðu og mikilvægt er að veiturnar eigi góða samvinna við viðbragðsaðila til að gera megi við tjón með skjótum hætti í kjölfar hamfara. Dæmi um árangursríkar aðgerðir Í skýrslunni eru nefnt fjölmörg dæmi víðsvegar að úr Evrópu um árangursríkar aðgerðir til úrbóta: Sikiley: Í kjölfar hitabylgju sem leiddi til víðtæks rafmagnsleysis árið 2023, innleiddi e-distribuzione veitufyrirtækið sérstaka áætlun til að bæta þéttleika dreifikerfisins og skipta út eldri jarðstrengjum. Írland: ESB Networks, sem er bæði flutnings-og dreifiveita, gerði umfangsmikla áhættugreiningu og setti upp varnir fyrir sérstaklega mikilvægan tækjabúnað í háspennustöðvum til að draga úr flóðahættu. Valencia, Spánn: Eftir söguleg flóð í október 2024 fjárfesti dreifiveitan I-DE 100 milljón evra í Project IL-LUMINA, þar sem lögð var áhersla á stafræna vöktun og endurhönnun kerfisins. Stefnumótandi ráðleggingar til stjórnvalda Eurelectric hvetur Evrópusambandið og aðildarríki til að grípa til eftirfarandi aðgerða: Breyta lögum og reglum í aðildarríkjum til að umbuna fyrir fjárfestingu í aðlögun raforkukerfa að loftslagsbreytingum. Tryggja að í NECP-áætlanagerð, þ.e. orku- og loftslagsáætlunum, sé að finna skýra kafla um viðnámsþol dreifikerfa. Fjárfestingar í viðnámsþrótti verði hluta af þróunaráætlunum dreifikerfa (DNDPs). Setja loftslagsviðmið í opinber innkaupaferli, m.a. samkvæmt reglugerð ESB um kolefnishlutlausan iðnað (Net Zero Industry Act). Mikilvæg fjárfesting til framtíðar Gert er ráð fyrir að stjórnendur evrópskra dreifikerfa raforku þurfi árlega að leggja í fjárfestingar upp á 67 milljarða evra, frá 2030 til 2050. Þar af þarf verulegur hluti að renna í aðlögun að ríkjandi veðurfari í framtíðinni. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að búnaður sem er settur upp í dag þurfi að geta staðist aðstæður ársins 2075 og að aðgerðir þoli enga bið. „Þessum ákvörðunum má ekki slá á frest,“ segir í lok skýrslu Eurelectric. Sjá hlekk á skýrsluna: https://www.eurelectric.org/publications/strengthening-climate-resilience-strategies-for-enhancing-dso-resilience-against-climate-change/
16. júlí 2025 Djúpborun: Tæknilegt ævintýri sem getur skipt sköpum Að bora djúpt ofan í jarðlögin til að ná í orku er eitthvð sem unnið hefur verið að árum saman hér á landi. Með þessu væri hægt að ná í meiri orku á sömu jarðhitasvæðum og þannig nýta jarðhitaauðlindina enn betur. En það fylgja því tæknilegar áskoranir að ætla sér að bora svona djúpt ofan í jörðina. Í þættinum ræðir Sigurður H. Markússon, leiðtogi djúpnýtingar hjá Orkuveitunni, um djúpborunarverkefnin hér á landi og hvernig árangur í þeim efnum getur skipt sköpum, ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur á alþjóðavísu. Nálgast má þáttinn á hlaðvarpsveitum og á sumum þeirra sem bæði hljóð og mynd.
11. júlí 2025 20 orkugerðir teknar upp í EES samninginn Alls voru 20 orkugerðir teknar upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel í dag, 11. júlí. Hann var fyrsti fundurinn undir formennsku Íslands, bæði í Fastanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og í sameiginlegu EES-nefndinni næstu sex mánuði. Sú nefnd er helsti samstarfsvettvangur EES-EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Lichtenstein og Evrópusambandsins, enda er hlutverk nefndarinnar að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel og nýr formaður lagði sérstaka áherslu á að af þeim 55 gerðum sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundinum voru 20 orkugerðir. Þeirra á meðal eru tilskipanir ESB um orkunýtni, endurnýjanlega orkugjafa og orkunýtni bygginga. Þetta eru yfirgripsmiklar tilskipanir og/eða breytingar á fyrri tilskipunum og upptaka þeirra í samninginn hefur verið lengi í vinnslu í samráðsferli EFTA- EES ríkjanna og Evrópusambandsins. Þær verða nú innleiddar í íslenska löggjöf og hafa því áhrif á starfsumhverfi orkufyrirtækja hér á landi. Kristján Andri þakkaði EES-EFTA ríkjunum og ESB fyrir gott samstarf og fyrir að leggjast á eitt í að hrinda í framkvæmd þessari jákvæðu þróun á sviði orkumála, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá EFTA. Stuðningur við Omnibus-einföldunartillögur ESB EES-EFTA ríkin kynntu einnig sameiginlegt álit sitt á svokölluðum Omnibus-einföldunarpakka ESB. Í álitinu lýsa ríkin stuðningi við þær tillögur sem snúast um að einfalda reglur og draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Þó að við styðjum almennt OMNIBUS-einföldunartillögurnar sem lagðar hafa verið fram hingað til, viljum við einnig undirstrika mikilvægi þess að tryggt verði að þær grafi ekki undan lykilmarkmiðum sem tengjast loftslagsmálum, umhverfismálum og félagslegum réttindum,“ er haft eftir Kristjáni Andra Stefánssyni sendiherra í fréttatilkynningu EFTA. Á fundi Fastanefndar EFTA í gær, 10. júlí kynnti Ísland einnig formennskuáætlun sína þar sem lögð er áhersla á öryggi, samkeppnishæfni og þátttöku EES-EFTA ríkjanna í áætlunum Evrópusambandsins. Sjá nánar frétt á heimasíðu EFTA um fundinn: EEA Joint Committee incorporates important energy files | European Free Trade Association
11. júlí 2025 Vöxtur í nýtingu jarðhita í Evrópu Vöxtur er í nýtingu og leit að jarðhita í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu sem European Geothermal Energy Council (EGEC), samtök evrópska jarðhitageirans, kynntu þann 11. júlí. Forysta EGEC bindur miklar vonir við væntanlega aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í jarðhita. Í skýrslu EGEC kemur m.a. fram að alls voru 147 jarðhitavirkjanir í rekstri í Evrópu í lok 2024 og um 50 til viðbótar eru í undirbúningi á mismunandi þróunarstigum. Hitaveitur í Evrópu (Geothermal District Heating and Cooling) eru nú rúmlega 400 talsins og áætlanir eru uppi um að bæta um 500 við, sem nemur þá meira en tvöföldun á fjöldanum. Jarðhitaholur í Póllandi Sala á jarðvarmadælum dróst saman á árinu 2024 en vonir standa til að hún aukist aftur, m.a. með aðgerðaáætlun ESB í jarðhita (Geothermal Action Plan) sem framkvæmdastjórn ESB hyggst kynna snemma á næsta ári. Leit að jarðhita og tengdar rannsóknir eru í miklu vexti, samkvæmt skýrslunni. Þar á meðal er ætlunin að bora fjölmargar holur í tengslum við þær nýju jarðhitavirkjanir sem eru á teikniborðinu eða eru lengra komnar í undirbúningi. „Leiðin liggur upp á við í jarðhitageiranum, með nýjum borverkefnum, virkjunum og hitaveitum,“ er haft eftir Miklos Antics forseta EGEC í fréttatilkynningu frá samtökunum sem Samorka er aðili að. Antics leggur einnig áherslu á mikilvægi aðgerðaáætlunar ESB til að jarðhiti fái m.a. viðurkenningu sem einn hornsteina orkuskipta. Philippe Dumas, framkvæmdastjóri EGEC telur að aðgerðaáætlunin geti t.d. verið í lykilhlutverki í að einfalda leyfisveitingar fyrir ný jarðhitaverkefni. Það ætti um leið að ýta undir áhuga fjárfesta. Jarðhitavirkjun í Rúmeníu
11. júlí 2025 Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk. Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ „Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni. Ráðherrann stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl. Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur. Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.