16. janúar 2026 ESB-styrkir til að efla áfallaþol í boði fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki Evrópusambandið hefur opnað fyrir umsóknir um styrki upp á samtals 15 milljónir evra, jafnvirði um 2.2 milljarða króna, úr Internal Security Fund (ISF) til að styðja við innleiðingu CER-tilskipunarinnar um áfallaþol ómissandi innviða. (Critical Entities Resilience). Markmiðið er að styrkja þetta áfallaþol gagnvart ýmiskonar fjölþáttaógnum og kerfislægum truflunum. Ísland er fullgilt þátttökuland í þessu ferli og því geta íslenskir aðilar, þ.á.m. orku- og veitufyrirtæki sótt um þessa styrki og tekið þátt í verkefnum sem þeim tengjast. Evrópusambandið segir það forgangsmál að styrkja áfallaþol ómissandi innviða í samræmi við á stefnumótun sem það hefur sett fram. Árangur á þessu sviði skipti höfuðmáli fyrir efnahag og samfélög í aðildarríkjunum. Daglegt líf byggist m.a. á öruggu framboði orku og drykkjarvatns, auk heilbrigðis- og fjármálaþjónustu, samgangna og fleiri þátta. Samorka og aðildarfyrirtæki samtakanna hafa lagt mikla áherslu á umræðu og stefnumótun um aukið áfallaþol og íslenskt stjórnvöld hafa einnig stigið skref í þessa átt, m.a. með útgáfu á áfangaskýrslu um samfélagslegt áfallaþol á grundvelli sjö viðmiða Atlantshafsbandalagsins. Frestur til að skila inn umsóknum í Internal Security Fund Evrópusambandsins rennur út 31. mars n.k.. Mat umsókna fer fram í apríl og maí og tilkynnt verður um niðurstöður í júní. Hér að neðan er hægt að lesa fréttatilkynningu Evrópusambandsins þar sem finna má hlekki á frekari upplýsingar, þar á meðal umsóknargátt og hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni á netinu. https://home-affairs.ec.europa.eu/news/commission-provide-eur-15-million-support-critical-entities-resilience-2025-12-10_en: ESB-styrkir til að efla áfallaþol í boði fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki
13. janúar 2026 Opið fyrir umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 9. febrúar 2026. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig teljast styrkhæfar framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020. Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar má nálgast hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu: urn@urn.is og á vef stjórnarráðsins, stjornarradid.is.