Full orkuskipti möguleg árið 2050

Fullum orkuskiptum verður ekki náð árið 2040 eins og markmið stjórnvalda segja til um samkvæmt nýrri raforkuspá sem Landsnet gaf út í gær, 24. ágúst 2023. En góðu fréttirnar eru þær að við getum enn orðið jarðefnaeldsneytislaus árið 2050, að því gefnu að allt vinni saman; markaðurinn, uppbyggingin, ábyrg notkun og takmörkun á umhverfisáhrifum.

Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunarsviðs hjá Landsneti og og Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti eru viðmælendur þáttarins í dag. Við ætlum að ræða nýju raforkuspána og þörfina á nýrri nálgun og nýrri hugsun í orkumálum þjóðarinnar til framtíðar.

Hægt er að skoða raforkuspá Landsnets hér.

Hlaðvarp
Nýtt af nálinni

Hagfræðin hennar ömmu og auðlindanýting í Svartsengi

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi eru lykilorð í orku- og veitugeiranum um allan heim um þessar mundir, en fyrir Alberti Albertssyni eru þetta einfaldlega ný orð yfir hagfræðina hennar ömmu. Að bera nægilegan kærleik í brjósti fyrir því sem jörðin gefur okkur að ekkert fari til spillis. Þessa hugmyndafræði drakk Albert í sig frá blautu barnsbeini og nýtti í gegnum áratuga starfsferil á Suðurnesjunum, fyrst hjá Hitaveitu Suðurnesja og síðar hjá HS Orku, þar sem þetta leiðarljós var virkjað í Auðlindagarðinum sem gengur út á þekkingarmiðlun og fullnýtingu auðlindastrauma.

Albert, sem er nýsestur í helgan stein, er gestur þáttarins að þessu sinni og við ræðum um hvernig veganestið frá ömmu hefur verið lykilatriði í auðlindanýtingu í Svartsengi.

Hlaðvarp

Blámi í stafni orkuskipta fyrir vestan

Hagkerfi Vestfjarða er algörlega háð jarðefnaeldsneyti. Lífið snýst að miklu leyti um sjávarútveg, en svo eru ferðaþjónusta og skemmtiferðaskip í mikilli sókn og samfélagið reiðir sig á vöruflutninga inn og út af svæðinu. Fyrir Þorstein Másson, framkvæmdastjóra Bláma, er þetta ekkert annað en tækifæri til sóknar í notkun grænnar orku.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. 

Þorsteinn Másson er viðmælandi þáttarins og við förum yfir víðan völl um samfélag í örum vexti, ávinning af orkuskiptum fyrir vestan og mikilvægi þess að efla mannauð og þekkingu fyrir orkuskiptin á svæðinu og á Íslandi öllu.

Hlaðvarp

Hugum að hitaveitunni til framtíðar

Auður Agla Óladóttir, jarðfræðingur, er ein skýrsluhöfunda um stöðu hitaveitna á Íslandi sem unnin var af ÍSOR fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Hún lendir sífellt oftar í því að fólk vill spjalla við hana um hitaveitur á hliðarlínunni á fótboltamótunum í kjölfar skerðinga á heitu vatni í vetur. Mögulega hafi fólk verið vakið til umhugsunar um að jarðhitaauðlindin er ekki sjálfgefin. Auður Agla er talskona hitaveitunnar fram í fingurgóma og ræðir hér niðurstöður skýrslunnar og alls konar annað er viðkemur jarðhitaauðlindinni.

Hitaveita
Hlaðvarp

Umbylting orku- og veitukerfa framundan

Orkuskiptin framundan skapa fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt samfélag, en um leið eru þau ákaflega krefjandi verkefni. Að afla nægrar orku sem á að koma í stað jarðefnaeldsneytis er út af fyrir sig stórt verkefni en það er ekki síður stórt fyrir flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu. Styrkja þarf kerfin umtalsvert til að mæta því stóraukna álagi sem fylgir aukinni rafvæðingu samfélagsins og sú uppbygging er mjög dýr.

Í þættinum förum við yfir af hverju þetta er svona flókið verkefni fyrir flutnings- og dreififyrirtæki raforku og heyrum niðurstöður frumgreiningar Samorku á afl- og fjárfestingarþörf fyrir orkuskiptin.

Viðmælendur þáttarins eru Hlín Benediktsdóttir, yfirmaður undirbúnings framkvæmda hjá Landsneti, Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóri kerfisstýringar hjá RARIK og Almar Barja, fagsviðsstjóri Samorku.

Hlaðvarp

Sveitastelpan sem knýr framtíð loftslagsmála

Hér á landi er gróska fyrirtækja sem vinnur að orku- og veitutengdri nýsköpun og eitt þeirra er Alor, handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku árið 2022, sem vinnur að þróun nýrrar tegundar rafhlaðna.

Eftirspurn eftir rafhlöðum mun margfaldast á næstu árum, en gallinn er sá að þær sem við þekkjum í dag eru ekkert sérstaklega umhverfisvænar. Alor ætlar sér að breyta því.

Framkvæmdastýra Alor er Linda Fanney Valgeirsdóttir, menntaður lögfræðingur með nýsköpunarblóð í æðum sem nýlega lenti á lista StartUp Basecamp yfir konur sem knýja framtíð loftslagsmála í heiminum.

Í þætti dagsins ætlum við að kynnast henni aðeins betur og heyra meira um umhverfisvænu og sjálfbæru rafhlöðurnar sem fyrirtækið vinnur að.  

Lovísa Árnadóttir, þáttastjórnandi og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor.
Hlaðvarp

Spurt og svarað um vindorku

Það fer sjálfsagt ekki framhjá neinum að það er nokkuð vindasamt á Íslandi. Það þarf ekki að vera neikvætt, allavega ekki þegar kemur að því að nýta vind til framleiðslu á raforku.

Þrátt fyrir að nýting vindorku sé vel þekkt í nágrannalöndum okkar og þróunin hafi verið mjög hröð síðustu ár er umræða um nýtingu tiltölulega ný hér á landi og hvergi í heiminum eru gerðar jafnmiklar kröfur um rannsóknir og undirbúning fyrir vindorkuverkefni.

Í þættinum er farið yfir helstu vangaveltur um vindorkunýtingu með Helga Hjörvar, sem situr í sérfræðingahópi Samorku um vindorku og vinnur að þróun vindorkuverkefna hér á landi.

Hlaðvarp

Matarkista Íslands í sókn

Tækifæri til matvælaframleiðslu allt árið um kring á Suðurlandi eru fjölmörg. Til staðar er græn orka, gott ræktarland og staðgóð þekking í þágu nýsköpunar á þessu sviði. Til þess að virkja þessi tækifæri þarf bara að kveikja hugmyndirnar! Og það er einmitt aðalhlutverk Sveins Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra Orkídeu, sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Sveinn Aðalsteinsson er viðmælandi þáttarins.

Hlaðvarp
Nýtt af nálinni

Piss, kúkur, klósettpappír og allt hitt

Fráveitan veitir þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Hún er mikilvægt heilbrigðis- og hreinlætismál í heiminum öllum.

Fráveitan flytur frárennsli og skólp heimila og fyrirtækja, og regnvatn frá götum og lóðum í sjó með viðkomu í hreinsistöð.

Það er mörg horn að líta, til dæmis að bregðast við þéttingu byggðar og hvar fráveitan á að vera, loftslagsbreytingar og að fá fólk til að hætta að nota klósettið eins og ruslafötu.

Viðmælendur þáttarins eru Fjóla Jóhannesdóttir og Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingar í fráveitu hjá Veitum og ræða um þessi verkefni sem þau fást við daglega.

19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins. Af því tilefni bjóða Veitur í sögugöngu um fráveitu í miðborginni þriðjudaginn 22. nóvember kl. 17. Nánari upplýsingar um gönguna má sjá á Facebook.

Fráveita
Hlaðvarp

Frumkvöðlaflugeldasýning á Norðurlandi

Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Markmið verkefnisins er að bæta nýtingu orkuauðlinda og auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi.

Í þætti dagsins ætlum við að heyra meira um Eim, hvað þau eru að fást við og ekki síst kynnast framkvæmdastjóranum betur, Sesselju Ingibjörgu Barðdal Reynisdóttur, sem segir að frumkvöðlar séu eins og rakettur, saman geti þeir myndað fallega flugeldasýningu.

Lífæðar landsins er hlaðvarp Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Í þættinum verður fjallað um orku- og veitumál frá hinum ýmsu hliðum.

Hlaðvarp