Fráveitur

Góð fráveita er mikilvæg almannaþjónusta sem fáir geta hugsað sér að vera án. Víða um heim er það stórt samfélagslegt vandamál að fráveituþjónusta er léleg eða alls ekki til staðar, en hérlendis búum við sem betur fer við betri aðstæður.

GÓÐ ÞJÓNUSTA Á GÓÐU VERÐI

Innan Samorku starfa 27 fráveitur víðsvegar um landið. Veitufyritæki í Samorku reka fráveitur af öllum stærðum og gerðum, allt frá fráveitum höfuðborgarsvæðisins yfir í byggðarlög með færri en 100 einstaklinga. Rekstur rotþróa er einnig stórt og mikilvægt verkefni fyrir margar veitur, sérlega á dreifbýlari svæðum.

Starfsemi fráveitu felur í sér að flytja frárennsli heimila og atvinnustarfsemi, regnvatn eða bráðinn snjó út í viðtaka, með viðkomu í hreinsistöð þar sem við á. Það er mikið verk að tryggja að rekstur fráveitukerfa sé í góðu lagi og er að mörgu að huga. Þannig geta ýmis efni sem losuð eru í fráveitukerfi haft slæm áhrif á lagnir og tækjabúnað, og þar með möguleg slæm áhrif á umhverfi og heilsufar fólks. Hið mikilvæga verkefni fráveitna er að gera þetta á sem bestan hátt, til gagns fyrir umhverfi landsins, íbúana og samfélagið allt.

Til að vernda gæði sjávar við Ísland kveða reglur á um að skólp skuli vera hreinsað áður en því er veitt í viðtaka. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávarins í kringum Ísland.

 

ÞRÓUN FRÁVEITU

Samorka_MG_0353

Starfsemi fráveitu er í stöðugri þróun og má þar til dæmis nefna að hérlendis eru notaðar margar mismunandi lausnir við hreinsun skólps, til að mynda mismunandi útfærslur af vélrænni hreinsun skólps og svo eru einnig notaðar náttúrulegar lífrænar lausnir Þá má einnig nefna uppbyggingu „náttúrulegrar fráveitu“, eða blágrænna ofanvatnslausna, sem fela í sér að nýta regnvatn og annað ofanvatn á umhverfisvænan og staðbundinn hátt. Þeirra á meðal má nefna græn þök, tjarnir, svelgi og regngarða, en þessar útfærslur á fráveitu auka vægi gróðurs og vatns í þéttbýli.

Spurt og svarað

Ekki er mælt með því að nota klósett eins og ruslafötu. Mikil vinna og kostnaður felast í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Með því að minnka magn óæskilegra hluta/efna sem við sendum í fráveituna getum við lækkað kostnað verulega. Þetta á einnig við um eldhúsvaska. Ekki er mælt með að hella steikingarfitu, sósum og smjöri í vaskinn, því þetta getur stíflað dælurnar. Það sem helst stíflar dælur eru eldhúsbréf, trefjaklútar, smokkar, dömubindi, tíðatappar og eyrnapinnar. Hendum þessu frekar í ruslið!

Kröfur um hreinsun fráveituvatns á Íslandi er að finna í reglugerð 798/1999 um fráveitur og skólp, en hún byggir á tilskipun Evrópusambandsins um hreinsun skólps frá þéttbýli.

Mismikillar hreinsunar er krafist eftir því hversu viðtakinn er vel til þess fallinn að þynna eða eyða mengun. Þar sem viðtakinn er góður er krefist eins þreps hreinsun, sem er minnsta hreinsunin. Almenna reglan er tveggja þrepa hreinsun og í sértilfellum þarf að hreinsa skólp enn frekar ef viðtakinn er viðkvæmur. Hér á Íslandi er eins þreps hreinsun algengust.

Blágrænnar ofanvatnslausnir eru möguleg leið til að meðhöndla ofanvatn sem fellur til jarðar. Blágrænar ofanvatnslausnir eru einhvers konar náttúruleg fráveita – þær líkja eftir náttúrulegum ferlum vatnsins eins og það var áður en umhverfinu var breytt með byggð. Til dæmis er notast við landslagshönnun eins og læki og tjarnir í stað niðurgrafinna lagna.

Ofanvatninu er safnað og því leyft að síast í jörðu eins mikið og hægt er. Afgangnum er svo veitt í burtu og ýmsir mengunarvaldar hreinsaðir úr vatninu.

Blágrænar ofanvatnslausnir hafa í för með sér umtalsverða kosti svo sem: minni usla vegna mengunar í ám og vötnum, minna álag á fráveitukerfi, lægri byggingar- og rekstrarkostnað og aukið fegurðar- og notagildi almenningsrýma.