Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita

Loftslags- og orkusjóður auglýsir einn milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita.

Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025.

Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  2. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir
  3. Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  4. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni.

Umsóknarfrestur er til 1. maí 2025.

Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.

483 milljarða fjárfestingar til ársins 2030

Orku- og veitufyrirtæki landsins munu fjárfesta fyrir 483 milljarða króna á næstu fimm árum. Þetta kemur fram í könnun sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna og kynnt var á ársfundi samtakanna þann 19. mars.

483 milljarðar jafngilda tvöföldum kostnaði nýs Landsspítala eða tíföldum kostnaði Fjarðarheiðarganga.

Stærstur hluti fjárfestinganna fer í framleiðslu, flutning og dreifingu raforku eða 300 milljarðar króna. Fjárfestingar hitaveitna nema 93 milljörðum, fráveitna 49 milljörðum og vatnsveitna 40 milljörðum. Sameiginlega eiga þær að tryggja nauðsynlega uppbyggingu, viðhald og framþróun innviða í samræmi við orkuskipti, fólksfjölgun og aukna eftirspurn í samfélaginu eftir öruggri og sjálfbærri þjónustu.

„Ljóst er að horft er til orku- og veitufyrirtækja til að leika lykilhlutverk í baráttunni gegn loftslagsvánni og í að tryggja orkusjálfstæði Íslands. Þessar áætlanir sýna hversu stór verkefni eru framundan og hversu mikilvæg fjárfesting í innviðum er fyrir framtíðina,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Sólrún Kristjánsdóttir, sem kjörin var nýr stjórnarformaður Samorku í dag, tekur undir og segir:
„Þessar fjárfestingar eru ekki aðeins nauðsynlegar til að tryggja að innviðir okkar haldist í takt við þróun samfélagsins heldur felast í þeim stórtæk efnahagsleg tækifæri. Sterkir og traustir orku- og veituinnviðir eru grundvöllur atvinnulífs, lífsgæða og umhverfisverndar.“

Það helsta úr starfi Samorku 2024

Ársskýrsla Samorku fyrir árið 2024 er komin út. Skýrslan er rafræn eins og síðustu ár og þar er hægt að fræðast um það helsta úr rekstri og starfi Samorku á liðnu ári.

Þar má lesa um innra starfið, málsvarahlutverkið, innlent og alþjóðlegt samstarf, Fagþing raforku og aðra opna fundi á vegum samtakanna svo eitthvað sé nefnt.

Ársskýrsla Samorku 2024

Aðalfundur Samorku kallar eftir aðgerðum í orkumálum

Aðalfundur Samorku leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir orku- og veitumannvirkja til að tryggja orkuöryggi, viðnámsþrótt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þetta kemur fram í ályktun samtakanna sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna í dag. Fjárfestingar og uppbygging orku- og veituinnviða er nauðsynleg til að stuðla að áframhaldandi velsæld samfélagsins og vexti. Óvissa á alþjóðavettvangi og hröð þróun í Evrópu er hvatning fyrir Ísland til að styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum.  

Samorka leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi að hagkvæmir kostir í nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái framgang, horft verði til vindorku sem mögulegrar þriðju stoðar í orkuframleiðslu landsins, ásamt því að bregðast við vaxandi þörf fyrir heitt vatn. 

Orka sem öryggismál

Samorka bendir á að orka sé lykilþáttur í öryggi þjóðarinnar. Til að draga úr áhættu vegna ytri áfalla þarf orkukerfið að vera fjölbreyttara og dreifðara, með aukinni innlendri sjálfbærri orku. Þá er brýnt að tryggja vöktun og vernd mikilvægra orku- og veituinnviða landsins. 

Aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja framtíðina

Samorka leggur áherslu á mikilvægi vatnsverndar og góðrar umgengni um þá verðmætu auðlind sem felst í fersku neysluvatni. Þá kemur fram að miklar breytingar séu framundan í umgjörð fráveitu og þar þurfi að taka mið af íslenskum aðstæðum um leið og víða þurfi að gera betur í hreinsun skólps frá þéttbýli og uppbyggingu blágrænna ofanvatnslausna.  

Aðalfundurinn undirstrikar nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, stytta leyfisveitingaferla og tryggja aðkomu sveitarfélaga í uppbyggingu orku- og veituinnviða. Með skýrum markmiðum og réttri stefnu getur Ísland áfram verið í fremstu röð í sjálfbærri, grænni framtíð og tækifæri og lífsgæði tryggð fyrir land og þjóð.  

Sólrún nýr formaður Samorku

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, var í dag kjörin stjórnarformaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, til tveggja ára. Hún tekur við embættinu af Kristínu Lindu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar sem gegnt hefur stöðunni síðustu tvö ár.

Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Aðalsteinn Þórhallsson framkvæmdastjóri HEF Veitna og Ríkarður Ríkarðsson framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun koma allir nýir inn í stjórn samtakanna.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar, Páll Erland forstjóri HS Veitna og Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs hjá Landsneti.

Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar var kjörinn varamaður í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Björk Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar taka sæti í varastjórn og áfram eru þau Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku og Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum varamenn.

Stjórn Samorku er þannig skipuð að loknum aðalfundi 2025:

  • Sólrún Kristjánsdóttir Veitur – stjórnarformaður
  • Árni Hrannar Haraldsson ON 
  • Magnús Kristjánsson Orkusölunni 
  • Páll Erland HS Veitur 
  • Aðalsteinn Þórhallsson HEF Veitur  
  • Ríkarður Ríkarðsson Landsvirkjun 
  • Guðlaug Sigurðardóttir Landsnet 

Til vara í stjórn: 

  • Björk Þórarinsdóttir HS Orka 
  • Eyþór Björnsson, Norðurorka
  • Hjörvar Halldórsson, Skagafjarðarveitur 
  • Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitur 
  • Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun 

Samorka – sterk samtök í 30 ár

Árið 2025 markar tímamót fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, því á árinu fagna þau 30 ára afmæli. Samorka hefur gegnt lykilhlutverki í að tryggja að orku- og veitugeirinn á Íslandi eigi sér sterkan málsvara í samtali við stjórnvöld og samfélag. Þessi þátttaka er mikilvægari en nokkru sinni fyrr í ljósi þeirra áskorana sem íslenskt samfélag og orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir.

Orku- og veitugeirinn er burðarás í íslensku samfélagi, ekki aðeins vegna þess að hann tryggir sjálfbæra og hreina orku, heldur einnig vegna þess að hann styður við markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040. Í orku- og veitufyrirtækjum starfa landsins bestu sérfræðingar á sínum sviðum sem vinna ötullega að því að endurnýja, uppfæra og þróa nýja orku- og veituinniviði sem skapa lífsgæði og leggja grunn að nýrri verðmætasköpun. Samorka hefur verið leiðandi í að miðla tæknilegri þekkingu fyrirtækja í geiranum og skapa vettvang fyrir stefnumótandi umræðu um framtíð orku- og veitukerfa landsins.

Umfangsmiklar fjárfestingar

Í tilefni af afmælinu verður í dag haldinn opinn ársfundur í Hörpu, þar sem áhersla verður lögð á framtíðarsýn og áskoranir orku- og veitugeirans. Á fundinum verða kynntar tölur um fyrirhugaðar fjárfestingar orku- og veitufyrirtækja næstu 5 árin. Meðal dagskrárliða verða erindi frá lykilfólki í geiranum, pallborðsumræður og tækifæri til að fagna þessum tímamótum með léttum veitingum og tónlist. Fundinum verður streymt beint á heimasíðu Samorku, samorka.is.

Græn framtíð

Á stórum tímamótum er mikilvægt að líta til framtíðar. Samorka mun halda áfram að vinna að því að stuðla að skilvirkri stjórnsýsluumgjörð um orku- og veituinnviði, stuðla að nýsköpun og menntun á starfssviðum aðildarfélaga og vinna að því að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku, knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með
sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands.

Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 19. mars.

Skráning hafin á Samorkuþing

Opnað hefur verið fyrir skráningu á Samorkuþing, sem fram fer í Hofi á Akureyri dagana 22. – 23. maí.

Þingið er það stærsta sem haldið er í orku- og veitugeiranum á Íslandi og gert er ráð fyrir mikilli aðsókn.

Við mælum með að athuga með gistingu sem fyrst, þar sem allt það sem Samorka átti frátekið er nú orðið uppselt.

Vinsamlegast fyllið inn í formið hér fyrir neðan til að skrá ykkur á þingið.

ATHUGIÐ: Skráningarform fyrir sýnendur er hér.

Ný barnabók um endurnýjanlega orku

Barnabókin Okkar dulda orka kom út á dögunum á vegum Baseload Power Iceland í samvinnu við Samorku.

Í bókinni kynnumst við söguhetjunum Glóð, Blæ, Sunnu, Sæ og Bergi sem kenna okkur hvernig nýting á endurnýjanlegri orku getur komið jörðinni í betra jafnvægi. Bókin er ætluð sem vitundarvakning á heimsvísu um mikilvægi jarðvarmans sem endurnýjanlegs orkugjafa.

Bókin veitir einstakt tækifæri til að ræða við börn á skemmtilegan og upplýsandi hátt um mikilvægi orkunnar í daglegu lífi, sem og um hvaðan endurnýjanleg orka kemur.

Það var Samorku sönn ánægja að styrkja útgáfu bókarinnar, enda mikilvægt að auka vitund um þær endurnýjanlegu auðlindir sem við búum að og nýtum hér á landi í þágu samfélagsins.

Bókin fæst í völdum bókabúðum Pennans Eymundssonar og Forlagsins.

Haldið var útgáfuhóf í Elliðaárstöð fimmtudaginn 13. febrúar og fangaði ljósmyndarinn Karitas Guðjónsdóttir stemninguna.

Arion banki og Alda hlutu viðurkenningu á Menntadegi atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Arion banki er Menntafyrirtæki ársins og Alda hlýtur Menntasprotann 2025. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór á Hilton Nordica í dag.

Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þvert á atvinnugreinar og var haldinn í tíunda sinn í ár.

Þetta er í tólfta sinn sem dagurinn er haldinn. Yfirskrift menntadagsins í ár var Störf á tímamótum.

Allar nánari upplýsingar um daginn má sjá á heimasíðu SA.