Kallað eftir erindum á NORDIWA 2025

Norræna fráveituráðstefnan verður haldin í Osló dagana 23. – 25. september. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndunum. Nú er óskað eftir tillögum að erindum á ráðstefnuna og við hvetjum sérfræðinga og ráðgjafa hér á landi til að senda inn. 

Ráðstefnan er samstarfsverkefni fráveitusamtaka á Norðurlöndum, þar á meðal Samorku, og er haldin í 19. sinn í haust.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu NORDIWA.

Ganga þarf lengra í grundvallarbreytingum á rammaáætlun

Rætt var um stöðu rammaáætlunar og reynslu af henni á fjölsóttum fundi Samorku þann 14. janúar. Þar var farið yfir nýjar tillögur frá starfshópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um endurskoðun á lögum um rammaáætlun og þau sem hafa unnið með rammaáætlun í gegnum tíðina sögðu frá vanköntum á því að vinna með það flókna og þunga kerfi sem hún hefur reynst vera.

Með framsögu á fundinum fóru Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og formaður starfshóps ráðuneytisins, Katrín Helga Hallgrímsdóttir lögfræðingur Samorku, Ketill Sigurjónsson framkvæmdastjóri Zephyr Iceland og Jón Kjartan Ágústsson sérfræðingur í skipulagsmálum hjá Orkuveitunni.

Framsögufólk tók svo þátt í pallborði undir stjórn Finns Beck framkvæmdastjóra Samorku en þá bættust einnig við þau Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Magnús Ásbjörnsson framkvæmdastjóri Reykjavík Geothermal.

Vegna tæknilegra örðugleika í fundarsalnum var ekki hægt að streyma fundinum né nota glærur. Hér fyrir neðan er því upptaka af fundinum og glærur framsögufólks fyrir áhugasöm.

Hilmar kynnti vinnu starfshópsins og fyrirkomulag vinnu hans, kosti og galla við rammaáætlun og niðurstöðu um að halda rammaáætlun en auka skilvirkrni hennar.

Í erindi Samorku voru tillögur um nýtt orkuþróunarskipulag kynntar og rök færð fyrir því að framtíðarfyrirkomulag ætti að miða að því að orkuvinnsla verði háð sambærilegu regluverki og önnur atvinnustarfsemi í landinu.

Í erindi Ketils var farið yfir af hverju rammaáætlun og vindorka fer ekki saman.

Jón Kjartan fór yfir hvernig rammaáætlun tekur ekki mið af eðli jarðhita, þar sem kröfur fyrir rammann eru óraunhæfar, óvissa mikill og sömuleiðis kostnaður auk þess sem fyrirsjáanleiki er enginn.

Karitas Guðjónsdóttir ljósmyndari smellti myndum af framsögufólki og fundargestum og hér má sjá þær.

Veður og veitur – opinn fundur

 

Samorka býður á fræðandi opinn fund um áhrif loftslagsbreytinga á veituinnviði þriðjudaginn 21. janúar kl. 9.00 – 10.30 á Grand hótel Reykjavík.

Veituinnviðir og þá sérstaklega fráveituinnviðir eru viðkvæmir fyrir flóðum, aukinni rigningu og öðrum loftslagsbreytingum. Á fundinum munum við fræðast um þær áskoranir sem veitur um allt land standa frammi fyrir og þær aðgerðir sem verið er að ráðast í til að aðlagast eða draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Fram koma:

Hildigunnur Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofunnar

Hlöðver Stefán Þorgeirsson, ráðgjafi í fráveitumálum

Pétur Krogh Ólafsson, forstöðumaður Sjálfbærni og viðskiptaþróunar hjá Veitum

Ágúst Þór Bragason, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar hjá Árborg

Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF Veitna

 

Fundurinn er ókeypis og opinn öllum. Boðið verður upp á léttan morgunverð. Vinsamlegast skráið ykkur á fundinn svo hægt sé að áætla fjölda og veitingar.

    Ég vil gerast áskrifandi að fréttabréfi Samorku á netfangið mitt

     

    Áhyggjur af flokkun tíu vindorkuverkefna

    Samorka lýsir yfir áhyggjum af þeim niðurstöðum sem birtast í drögum að tillögum verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar um flokkun tíu vindorkuverkefna. Í tillögunum eru verkefnin öll sett í biðflokk

    Þetta kemur fram í umsögn Samorku um tillögurnar sem nú liggja til umsagnar í Samráðsgátt.

    Vegna samkeppnisréttarsjónarmiða tekur Samorka í umfjöllun sinni ekki afstöðu til flokkunar einstakra
    virkjunarkosta, heldur eru settar fram almennar athugasemdir við rammaáætlun, verkefni og mat
    verkefnisstjórnar og faghópa.

    Umsögn Samorku má lesa hér.

    Lærdómar ársins og leiðin fram á við í orkumálum

    Nú þegar árið fer að líða að lokum er rétt að líta yfir farinn veg í orku- og veitugeiranum og draga lærdóm af áskorunum og árangri ársins. Það er óumdeilt að árið hefur verið krefjandi en um leið frjósamt þegar litið er til framfara og tækifæra. 

    Tíð eldsumbrot á Reykjanesskaga héldu áfram að reyna á viðbragð, fagmennsku og útsjónarsemi allra aðila sem komu að orku- og veiturekstri þar á beinan og óbeinan hátt. Á svæðinu eru mikilvægir innviðir fyrir þjóðina alla sem nauðsynlegt er að starfi óraskað. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðum allra sem að málinu koma og þó að gosin hafi á endanum orðið sjö og ferlar að miklu leyti orðnir þrautreyndir eru engin tvö gos eins og hverjum viðburði verður að taka alvarlega.   

    Orka hreyfir við stjórnmálum 

    Á síðari hluta ársins fóru augu samfélagsins að beinast í auknum mæli að orkumarkaðnum. Lengi hefur gengið illa að greiða fyrir frekari orkuframleiðslu á Alþingi og var það m.a. farið að valda streitu innan stjórnarsambandsins. Þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti á endanum slit ríkisstjórnarinnar þann 13. október vísaði hann til þess að orkumál hefðu verið á meðal þeirra mála sem ekki hefði nást sátt um. Við var búist að í kosningabaráttunni myndi umræða um orkumál skapa stóran sess en raunin varð önnur. Ljóst varð að þjóðin er að mestu leyti sammála um stöðuna í orkumálum. Að auka þurfi orkuframleiðslu er ekki umdeilt á meðal almennings og engir stórir pólitískir sigrar voru þangað að sækja. Sást vilji þjóðarinnar skýrast í því að flokkar sem settu aukna orkuframleiðslu ofarlega á sínar stefnuskrár enduðu á þingi á meðan þau sem létu málefnið mæta afgangi gerðu það ekki. 

    Greiða þarf fyrir nýrri orkuöflun 

    Orkuframleiðsla hefur reyndar alls ekki fengið þann sess sem hún ætti að hafa innan Alþingis og hefur það orðið til þess að orkuframboð hefur ekki aukist í samræmi við vöxt hagkerfisins og fólksfjölgun. Ein afleiðing þess er sífellt meiri uggur á meðal almennings varðandi orkuöryggi sitt og orkuverð. Krafan um skammtímalausnir eins og markaðsinngrip eru farnar að heyrast en það þarf bara að líta til reynslu Evrópuríkjanna í orkukrísunni í fyrir nokkrum árum til að læra að þó þannig inngrip geti virst freistandi í dag þá fylgir þeim óhagræði sem getur dregið langan dilk á eftir sér. Aðgerðir í evrópsku orkukrísunni voru til skamms tíma og verð á evrópskum mörkuðum kost aftur í jafnvægi. 

    Áhersla á orku hjá nýrri ríkisstjórn 

    Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og í stefnuyfirlýsingu hennar birtist skilningur á mikilvægi nýrrar orkuöflunar. Mikil fjárfesting í orkuframleiðslu og flutnings og dreifikerfum er framundan og skýr sýn á verkefnið þarf að vera til staðar svo að þessi fjárfesting fari fram á sem hagkvæmastan hátt.  

    Á síðustu vikum ársins kynnti starfshópur um breytingar á rammaáætlun niðurstöður vinnu sinnar. Eftir háleit markmið fráfarandi ríkisstjórnar um endurskoðun rammaáætlunar má segja að afraksturinn hafi ekki staðist væntingar. Framlagðar breytingatillögur ganga skammt.  

    Í beinu framhaldi af þessari kynningu skilaði verkefnastjórn rammaáætlunar af sér mati á 10 vindorkukostum þar sem enginn þeirra fékk framgengi í virkjunarkost. Rökstuðningur fyrir niðurstöðunum var allskyns og innra samræmi í aðferðarfræði faghópa ekki alltaf. Af miklu er að taka í orkumálum á Íslandi og ef áðurnefnd markmið eiga að nást og þá duga þessi vinnubrögð skammt.  

    Aukið gagnsæi á raforkumarkaði 

    Mikilvægt er þó að draga einnig fram það jákvæða sem gerðist á árinu og má þar nefna tilkomu skipulegra viðskiptavettvanga. Með þeim varð engin eðlisbreyting, enda hafa viðskipti verið frjáls á milli aðila síðan í upphafi aldarinnar. Hins vegar urðu viðskipti með raforku tíðari og gagnsærri á slíkum vettvöngum. Fram komu mikilvægar upplýsingar um raforkumarkaðinn, svo sem framboð, eftirspurn og verð sem eru nú aðgengilegar öllum. Enda hefur umræða um orkumál sprungið út í samræmi við það. Frekari löggjöf um viðskipti á raforkumörkuðum mun stuðla að auknu traustu til þessara viðskipta og auka gagnsæi enn frekar.   

    Bjartari framtíð 

    Framtíðin er björt í orku- og veitugeiranum. Nýlegir fundir á heitu vatni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og Ísafirði eru sérlega góðar fréttir fyrir bæjarfélögin þar og mun vera innspýting í vöxt viðskipta og lífsgæða. Einnig voru veitt virkjunarleyfi fyrir tvær tiltölulega stórar virkjanir á árinu, Hvammsvirkjun og Búrfellslund, samtals um 215MW. Búrfellslundur verður fyrsta stóra vindorkuvirkjunin sem mun rísa en vindorka mun vafalaust spila stórt hlutverk í íslensku orkuskiptunum.  

    Árið í orkumálum hefur umfram allt verið lærdómsríkt. Á nýju ári tekur við ný ríkisstjórn og óska henni allir velfarnaðar. Vert er að minna nýja leiðtoga á að það þarf metnaðarfullar aðgerðir, bæði  í fjárfestingu og stefnumótun til að Ísland viðhaldi stöðu sinni sem leiðandi afl í grænni orku og nái að klára orkuskiptin á sem hagkvæmastan máta. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að tryggja að græn orka verði áfram burðarás lífsgæða og hagvaxtar í landinu. Án hennar verður verðmætasköpun á Íslandi ekki aukin. 

    Samorka vill þakkar öllum fyrir árið sem er nú að líða og óskum ykkur velfarnaðar á því næsta. 

    Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samoku. Greinin birtist fyrst á Innherja 27. desember 2024.

    Opnunartími um hátíðirnar

    Það verður jólagír í Húsi atvinnulífsins og þar með á skrifstofu Samorku á milli jóla og nýárs.

    Hús atvinnulífsins verður opið á milli 9 – 15 virka daga. Starfsfólk Samorku verður við vinnu en einhver blanda verður það af heimavinnu og viðveru á skrifstofu. Það er því heppilegast að hafa samband á undan sér.

    Gleðilega hátíð!

    Opnað fyrir umsóknir í Vísinda- og frumkvöðlasjóð Orkuveitunnar

    Opnað hefur verið fyrir umsóknir í VOR – Vísinda- og frumkvöðlasjóð Orkuveitunnar fyrir árið 2024.

    Sjóðurinn leggur að þessu sinni áherslu á að styrkja verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð sem er aðal stefnumarkmið Orkuveitunnar. Sérstaklega er stefnt að því að styrkja verkefni sem styðja aukna orkuframleiðslu, ábyrga auðlindanýtingu, öflug veitukerfi, kolefnishlutleysi og virðisaukandi lausnir. Í boði er að sækja um styrki fyrir lokaverkefni í tæknifræði-, meistara- og doktorsnámi en einnig fyrir frumkvöðla-, nýsköpunar- og rannsóknarverkefni einstaklinga eða fyrirtækja🧬🧪

    Hægt er að sækja um hér til og með 21. janúar 2025.

    Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við vor@or.is.

    CRI hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024

    Carbon Recycling International, eða CRI, hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti verðlaunin á opnum fundi Samorku í dag.  Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum valdi CRI úr hópi átta tilnefninga til verðlaunanna.

    Kristjana M. Kristjánsdóttir hjá CRI tekur við verðlaununum úr höndum ráðherra.

    CRI hefur verið leiðandi í nýsköpun á orkusviði frá árinu 2006 með þróun nýrrar tækni, Emissions-to-Liquids (ETL), sem breytir koltvísýringi úr iðnaði og vetni í raf-metanól. Þetta eldsneyti er sérstaklega mikilvægt fyrir orkuskipti í skipum og flugvélum, þar sem ekki er hægt að nýta rafmagn með beinum hætti, og minnar þannig losun gróðurhúsalofttegunda. CRI var fyrsta fyrirtækið í heimi til að selja rafeldsneyti með sjálfbærnivottun og fyrsta fyrirtækið til að framleiða og afhenda rafmetanól til notkunar sem skipaeldsneyti árið 2021.

    CRI hefur þegar sannað gildi tækni sinnar á alþjóðavísu í verksmiðjum samstarfsaðila, þar sem endurvinnsla CO₂ nemur nú um 310,000 tonnum árlega, sem mun aukast í 565,000 tonn með nýjustu verksmiðjunni, sem er hluti af stærsta rafeldsneytisverkefni á heimsvísu.

    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Með því að bjóða lausnir sem stuðla að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, er CRI leiðandi í að umbreyta áskorunum samtímans í verðmætasköpun. Fyrirtækið er verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku 2024 fyrir framúrskarandi árangur í nýtingu auðlinda og stuðning við sjálfbærni í orku- og veitugeiranum.“

    Frá vinstri: Áslaug Arna Sigubjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ómar Sigurbjörnsson, Kristjana M. Kristjánsdóttir og Gunndís Eva Reykdal Baldursdóttir frá CRI og Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku.

    Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs CRI: „Við erum ákaflega stolt og glöð yfir því að hafa hlotið Nýsköpunarverðlaun Samorku í ár. Verðlaunin eru ekki aðeins viðurkenning fyrir CRI heldur veita þau vonandi innblástur fyrir önnur fyrirtæki og einstaklinga til að leggja í nýsköpun og þróa lausnir sem skipta máli, bæði heima og erlendis.”

    Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku: „Öflug nýsköpun er lykilatriði í þeim áskorunum og verkefnum sem blasa við okkur og heiminum öllum þegar skipta á út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku. Án nýsköpunar munu markmið um orkuskipti og aukna sjálfbærni ekki nást. Þá er einnig mikilvægt að fólk mennti sig til starfa í orku- og veitustarfsemi og hæft, hugvitssamt fólk sjái orku- og veitugeirann sem spennandi starfsvettvang.“

    Með Nýsköpunarverðlaununum vill Samorka vekja athygli á íslensku hugviti og framúrskarandi starfi sem unnið er í orku- og veitutengdri starfsemi hér á landi sem getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið.

    Hér er hægt að horfa á Nýsköpunarfundinn í heild sinni.

    Nýsköpunarverðlaun Samorku: Bein útsending

    Nýsköpunarverðlaun Samorku verða afhent í fjórða sinn á opnum fundi í Grósku fimmtudaginn 12. desember kl. 15.

    Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhendir Nýsköpunarverðlaunin.

    Á fundinum að þessu sinni verður sjónum beint að þeim tækifærum sem liggja úti í hinum stóra heimi fyrir sérþekkingu íslenskra fyrirtækja á sviði orku- og veitumála.

    Dagskrá:

    Tækifæri í orkugeira í umbreytingu – Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun
    Jarðhitinn og íslenskt hugvit – Kristín Vala Matthíasdóttir, CTO hjá Baseload Capital
    Mikilvægi samstarfs í nýsköpun – Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuklasans

    Nýsköpunarverðlaun afhent – Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

    Opnað fyrir sölu bása á Samorkuþingi 2025

    Samorkuþing verður haldið í Hofi á Akureyri dagana 22. – 23. maí 2025. Fyrirtækjum gefst kostur á að taka þátt í vöru- og þjónustusýningu þingsins á þar til gerðu sýningarsvæði.

    Samorkuþing er fagráðstefna sem haldin er á þriggja ára fresti á Akureyri. Það er stærsta ráðstefna Samorku og eru gestir frá öllum aðildarfyrirtækjum Samork í raforku-, flutnings- og vatnsmiðlastarfsemi. Árin á milli eru haldin fagþing, sem eru helguð raforkustarfsemi annars vegar og hita-, vatns- og fráveitum hins vegar.

    Gestir Samorkuþings eru að stærstum hluta starfsfólk aðildarfyrirtækja Samorku. Þar eru forstjórar fyrirtækja í raforkumálum, framkvæmdastjórar, millistjórnendur, innkaupastjórar og almennt starfsfólk. Eins má gera ráð fyrir erlendum gestum, gestum úr stjórnsýslu og fleira.

    Aðsókn á þing hjá Samorku hafa farið vaxandi ár frá ári enda hafa þau fest sig í sessi sem hápunktur fræðslu- og þekkingarmiðlunar fyrir aðildarfyrirtæki Samorku. Við gerum ráð fyrir á sjötta hundrað gestum á þingið á næsta ári. Bás á vöru- og þjónustusýningu er því mjög sýnilegur þessum tiltekna markhópi og gott tækifæri til að kynna fyrirtækið.

    Tölvupóstur hefur þegar verið sendur út á þau fyrirtæki sem hafa tekið þátt í vöru- og þjónustusýningum með okkur síðustu ár, en viljir þú fá frekari upplýsingar er best að senda póst á lovisa@samorka.is.