REMIT: Hvað er það?

REMIT er umfjöllunarefni í nýjasta hlaðvarpsþætti Samorku. Þar ræðir Katrín Helga, lögfræðingur Samorku, við þær Hönnu Björgu Konráðsdóttur og Ninnu Ýr Sigurðardóttur hjá Raforkueftirlitinu, um nýjar reglur sem munu taka gildi á næstunni um viðskipti á raforkumarkaði. Þær fjalla um tilurð reglnanna og uppruna þeirra í Evrópu og hvaða þýðingu þær hafa fyrir íslenskar aðstæður. 

Frá upptöku þáttarins.

Orkumál í lykilhlutverki hjá nýrri Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Íslenskir fulltrúar meðal þátttakenda í Vatnsaflsdeginum 2025 í Brussel

Vatnsafl er mikilvægt fyrir sveigjanleika sjálfbærra orkukerfa í Evrópu og orkumál eru í lykilhlutverki í stefnu nýrrar Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fram til ársins 2029. Þetta kom m.a. fram í máli Thomas Schleker, sem fer málefni vatnsafls á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnarinnar (DG RTD), þegar hann bauð gesti velkomna á Vatnsaflsdaginn í Brussel, þann 8. apríl.

Skipuleggjandi ráðstefnunnar var The European Technology and Innovation Platform (ETIP) on Hydropower. https://etip-hydropower.eu/ Markmið vatnsaflsdagsins er að vera sameiginlegur vettvangur fyrir hagmunaaðila í vatnsaflsgeiranum og þá sem fara með þennan málaflokk og móta stefnu í honum innan Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og á Evrópuþinginu.

Tomas Schleker sagði Framkvæmdastjórn ESB leggja ríka áherslu á að auka samkeppnishæfni Evrópu og fjárfestingar í nýsköpun, ekki síst í hreinni orku. Schleker nefndi þar m.a. Samkeppnishæfnisjóðinn (European Competitiveness Fund) og Clean Industrial Deal. Þetta tvennt ásamt margvíslegri annarri stefnumótun og lagasetningu væri lykillinn að því að ná metnaðarfullum markmiðum Evrópusambandsins í orku, umhverfis- og loftslagsmálum á næstu áratugum.

Frummælendur og þátttakendur í pallborðsumræðum á ráðstefnunni undirstrikuðu að vatnsafl væri áreiðanleg orkulind til rafmagnsframleiðslu. Hægt væri að „geyma vatnsafl“ og nýta þá þann forða til að framleiða meira rafmagn þegar aðrir endurnýjanlegir orkugjafar væru ekki skila sínu, s.s. vind- og sólarorka. Ljóst er að mikill kraftur er í vatnsorkugeiranum í Evrópu og fjárfest hefur verið í stórum verkefnum. Loftslagsbreytingar hafa líka mismunandi áhrif á rekstrarskilyrði atvinnugreinarinnar og gera má ráð fyrir að þau verði mun neikvæðari sunnar í álfunni heldur en þegar norðar dregur.

Þátttakendur í ráðstefnunni sögðu líka mikilvægt að vatnsaflsgeirinn starfaði í sátt við umhverfið og nærsamfélagið Ólafur Arnar Jónsson forstöðumaður Nærsamfélags og náttúru hjá Landsvirkjun lagði áherslu á þetta þegar hann tók þátt í pallborðsumræðum á Vatnsaflsdeginum. Hann sagði að gagnsæi væri lykilatriði til að ávinna sér traust. Að heimamenn á hverjum stað, hagsmunaaðilar og aðrir hefðu t.d. greiðan aðgang að niðurstöðum rannsókna og upplýsingum um þau áhrif sem framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar kynnu á að hafa á náttúruna og fleira sem máli skipti.

Það er líka ljóst að óvissa í alþjóðamálum hefur áhrif á orkugeirann og sýnir raunar enn frekar fram á mikilvægi hans fyrir öryggi samfélaga og ríkja. Þessi óvissa eykur líka þrýsting á Evrópusambandið að vera sjálfu sér nægt um orku – að ná markmiðinu um orkusjálfstæði. Staðan er enn sú að ríki Evrópusambandsins flytja inn um 60% af þeirri frumorku sem þau nota, að því er fram kom í máli eins frummælenda.

Annar íslenskur þátttakandi í Vatnsaflsdeginum var Birna Guttormsdóttir frá Umhverfisstofnun, nú sérfræðingur á umhverfissviði Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (DG ENV). Hún sagði margvíslegar stórar áskoranir framundan en vatnsaflsgeirinn gæti bætt sig enn frekar í sjálfbærni og vatnsbúskap – verið meira „water-wise“ eins og hún komst að orði. „Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að það sem er gott fyrir náttúruna er gott fyrir atvinnurekstur og viðskipti,“ sagði Birna sem vinnur að stórum verkefnum á sviði stefnumótunar, reglna og lagasetningar, m.a. í vatnamálum.

Skipuleggjandi Brussel Vatnsaflsdagsins, ETIP Hydropower, hefur sett sér það markmið að sameina þá sem tala fyrir nýtingu vatnsafls í Evrópu – þannig að þessi geiri tali með einni röddu. Ráðstefnan sýndi líka að þeir sem starfa innan vatnsorkugeirans og sérfræðingar sem honum tengjast hafa mikinn metnað í að vanda til verka. Það sýndu fjölbreytt framsöguerindi og líflegar pallborðsumræður.

Innlend orka sem vörn gegn ytri ógnum

Í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2026-2030 er gert ráð fyrir hækkun útgjaldaramma til almannaöryggis. Í ljósi þróunar í alþjóðamálum hafa ríki Evrópu jafnframt kynnt breyttar áherslur og aukningu í fjárveitingum til varnarmála, til uppbyggingar og öryggis mikilvægra innviða. Viðnámsþróttur gegn hvers konar vá eða raunum er sem rauður þráður í stefnumótun Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja. Íslensk stjórnvöld vinna nú að greiningu á viðnámsþoli íslensks samfélags og gert ráð fyrir að lagabreytinga verði þörf.

Varnaráhrif gegn ytri ógnum

Eitt meginmarkmið Evrópu er að gera álfuna sjálfstæða um orkuöflun. Innrás Rússlands í Úkraínu sýndi glöggt hversu útsett samfélög sem reiða sig á innflutta orku eru fyrir alvarlegum röskunum á orkuflutningi og verðhækkunum. Ísland er í dag að mestu knúið og kynt með orku sem aflað er innanlands. Alls er 85% allrar orkunotkunar fengin með þessum hætti. Aðeins um 15% orkunnar eru hins vegar fengin með innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Íslenska hagkerfið er því ekki jafn viðkvæmt fyrir alþjóðlegri þróun á eldsneytismörkuðum og mörg önnur ríki.

Tækifærin í frekari rafvæðingu

Ljóst er að ákveðnir hlutar atvinnulífsins s.s. flug og stærri skip verða ekki knúnir með grænni orku á allra næstu árum. En þó eru fjölmörg tækifæri ónýtt eða skammt undan. Má þar nefna frekari rafvæðingu í samgöngum á landi og nýtingu grænnar orku fyrir þungflutninga, á vinnuvélar og minni báta. Með markvissum skrefum er því unnt að minnka enn frekar útsetningu íslensk hagkerfis gagnvart ytri ógnum og neikvæðri þróun í alþjóðakerfinu. Þá eru ótalin hin jákvæðu áhrif sem fást fram í formi minni losunar koltvísýrings og betri nýtingu orku en fengist getur með brennslu jarðefnaeldsneytis.

Mikilvæg uppbygging flutnings- og hleðsluinnviða

Björninn er ekki unninn með orkuöflun einvörðungu. Byggja þarf upp, endurnýja og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku svo þau geti borið meiri orkuflutning til mæta þörfum rafvædds samfélags. Nýta þarf nýjustu tækni til að dreifa áhættu og tryggja áfallaþol flutnings- og dreifikerfa og gera þeim kleift að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar. Til þess þarf t.a.m. skilvirka stjórnsýslu sem hamlar ekki uppbyggingu.

Ómissandi innviðir

Þegar horft er til viðnámsþróttar samfélagsins má ekki gleyma öðrum grundvallarinnviðum. Alla daga reiðir samfélagið sig á órofa þjónustu veitufyrirtækja sem reka hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Þó mörg taki starfsemi þeirra sem gefnum hlut standa þau frammi fyrir stórum áskorunum. Breytingar á loftslagi, ásókn í byggingarland nærri innviðum og íþyngjandi skipulags- og leyfisveitingarferli eru einungis hluti af áskorunum sem veitufyrirtækin standa frammi fyrir. Standa þarf vörð um þessa mikilvægu innviði og tryggja öryggi þeirra til langs tíma.

Framtíðaröryggi orkukerfisins og innviða Íslands

Nú er tími til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar og hugsa til framtíðar. Með skynsamlegum fjárfestingum og framsýnni stefnu í uppbyggingu innviða er hægt að skapa öruggara, sjálfstæðara og umhverfisvænna samfélag sem stendur traustum fótum, minna háð ytri þrýstingi og sveiflum í orkumálum heimsins. Að tryggja öryggi innviða er ekki aðeins praktískt skref – það er grundvallaratriði fyrir framtíð landsins og velsæld komandi kynslóða.

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudagur 9. apríl 2025.

Sveinn Helgason ráðinn verkefnastjóri erlends samstarfs

Sveinn Helgason hefur verið ráðinn verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, með starfsstöð í Brussel og einnig í Reykjavík. 

Þessi nýja staða hjá samtökunum er liður í að efla enn frekar samstarf þeirra við erlend systursamtök, vöktun á þróun Evrópureglna, hagsmunagæslu og upplýsingamiðlun á þessu sviði.

„Sú löggjöf og regluverk sem mótar starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja er að stórum hluta upprunnin frá Evrópusambandinu og tekin upp hér á landi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er því mikilvægt að vakta vel þá hröðu þróun, skilja hana og miðla til okkar aðildarfyrirtækja,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. „Ísland hefur líka alla burði til að styrkja styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum. Þá kemur sér vel að hafa fulltrúa í Brussel til að koma á framfæri okkar sjónarmiðum og leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið.

Sveinn er þrautreyndur í upplýsingamiðlun, stjórnsýslu og alþjóðlegu samstarfi. Það er því fengur að ráðingu hans,“ bætti Finnur við.

Sveinn var um árabil fréttamaður og þáttastjórnandi hjá RÚV og fjallaði þá töluvert um orkumál. Undanfarin ár hefur hann starfað við upplýsingamiðlun hjá fjölþjóðaliðum Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi og Litháen og í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel, lengst af sem útsendur sérfræðingur utanríkisráðuneytisins. Sveinn var einnig sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu í þrjú og hálft ár og hafði þá m.a. málefni Landhelgisgæslunnar á sinni könnu.

„Ég hef brennandi áhuga á orku- og veitumálum og er ánægður með að vera kominn í samhentan hóp starfsmanna Samorku til að takast á við spennandi verkefni, bæði hér úti í Brussel og heima,“ segir Sveinn. „Þjóðaröryggi og þrautseigja samfélaga byggja ekki síst á öflugum orku- og veitugeira og þar stendur Ísland vel að vígi. Það er mikilvægt nú þegar óvissa ríkir í alþjóðamálum. Ég vil nýta mín reynslu og hæfni til vinna náið með aðildarfyrirtækjum Samorku því sóknarfærin eru fyrir hendi og orka og veitur er allra hagur,“ sagði Sveinn ennfremur.

Hann verður með vinnuaðstöðu á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel þar sem norræn systursamtök Samorku eru einnig til húsa.

Sveinn er með meistaragráðu í opinberri stefnumótun (Public Policy) frá George Mason háskólanum í Bandaríkjunum og með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Sveinn hóf störf 1. apríl. 

Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita

Loftslags- og orkusjóður auglýsir einn milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita.

Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025.

Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  2. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir
  3. Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  4. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni.

Umsóknarfrestur er til 1. maí 2025.

Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.

483 milljarða fjárfestingar til ársins 2030

Orku- og veitufyrirtæki landsins munu fjárfesta fyrir 483 milljarða króna á næstu fimm árum. Þetta kemur fram í könnun sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna og kynnt var á ársfundi samtakanna þann 19. mars.

483 milljarðar jafngilda tvöföldum kostnaði nýs Landsspítala eða tíföldum kostnaði Fjarðarheiðarganga.

Stærstur hluti fjárfestinganna fer í framleiðslu, flutning og dreifingu raforku eða 300 milljarðar króna. Fjárfestingar hitaveitna nema 93 milljörðum, fráveitna 49 milljörðum og vatnsveitna 40 milljörðum. Sameiginlega eiga þær að tryggja nauðsynlega uppbyggingu, viðhald og framþróun innviða í samræmi við orkuskipti, fólksfjölgun og aukna eftirspurn í samfélaginu eftir öruggri og sjálfbærri þjónustu.

„Ljóst er að horft er til orku- og veitufyrirtækja til að leika lykilhlutverk í baráttunni gegn loftslagsvánni og í að tryggja orkusjálfstæði Íslands. Þessar áætlanir sýna hversu stór verkefni eru framundan og hversu mikilvæg fjárfesting í innviðum er fyrir framtíðina,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Sólrún Kristjánsdóttir, sem kjörin var nýr stjórnarformaður Samorku í dag, tekur undir og segir:
„Þessar fjárfestingar eru ekki aðeins nauðsynlegar til að tryggja að innviðir okkar haldist í takt við þróun samfélagsins heldur felast í þeim stórtæk efnahagsleg tækifæri. Sterkir og traustir orku- og veituinnviðir eru grundvöllur atvinnulífs, lífsgæða og umhverfisverndar.“

Það helsta úr starfi Samorku 2024

Ársskýrsla Samorku fyrir árið 2024 er komin út. Skýrslan er rafræn eins og síðustu ár og þar er hægt að fræðast um það helsta úr rekstri og starfi Samorku á liðnu ári.

Þar má lesa um innra starfið, málsvarahlutverkið, innlent og alþjóðlegt samstarf, Fagþing raforku og aðra opna fundi á vegum samtakanna svo eitthvað sé nefnt.

Ársskýrsla Samorku 2024

Aðalfundur Samorku kallar eftir aðgerðum í orkumálum

Aðalfundur Samorku leggur ríka áherslu á nauðsyn þess að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir orku- og veitumannvirkja til að tryggja orkuöryggi, viðnámsþrótt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Þetta kemur fram í ályktun samtakanna sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna í dag. Fjárfestingar og uppbygging orku- og veituinnviða er nauðsynleg til að stuðla að áframhaldandi velsæld samfélagsins og vexti. Óvissa á alþjóðavettvangi og hröð þróun í Evrópu er hvatning fyrir Ísland til að styrkja stöðu sína sem leiðandi þjóð í grænni orkunýtingu og loftslagsmálum.  

Samorka leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi að hagkvæmir kostir í nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái framgang, horft verði til vindorku sem mögulegrar þriðju stoðar í orkuframleiðslu landsins, ásamt því að bregðast við vaxandi þörf fyrir heitt vatn. 

Orka sem öryggismál

Samorka bendir á að orka sé lykilþáttur í öryggi þjóðarinnar. Til að draga úr áhættu vegna ytri áfalla þarf orkukerfið að vera fjölbreyttara og dreifðara, með aukinni innlendri sjálfbærri orku. Þá er brýnt að tryggja vöktun og vernd mikilvægra orku- og veituinnviða landsins. 

Aðgerðir nauðsynlegar til að tryggja framtíðina

Samorka leggur áherslu á mikilvægi vatnsverndar og góðrar umgengni um þá verðmætu auðlind sem felst í fersku neysluvatni. Þá kemur fram að miklar breytingar séu framundan í umgjörð fráveitu og þar þurfi að taka mið af íslenskum aðstæðum um leið og víða þurfi að gera betur í hreinsun skólps frá þéttbýli og uppbyggingu blágrænna ofanvatnslausna.  

Aðalfundurinn undirstrikar nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, stytta leyfisveitingaferla og tryggja aðkomu sveitarfélaga í uppbyggingu orku- og veituinnviða. Með skýrum markmiðum og réttri stefnu getur Ísland áfram verið í fremstu röð í sjálfbærri, grænni framtíð og tækifæri og lífsgæði tryggð fyrir land og þjóð.  

Sólrún nýr formaður Samorku

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, var í dag kjörin stjórnarformaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, til tveggja ára. Hún tekur við embættinu af Kristínu Lindu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar sem gegnt hefur stöðunni síðustu tvö ár.

Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Aðalsteinn Þórhallsson framkvæmdastjóri HEF Veitna og Ríkarður Ríkarðsson framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun koma allir nýir inn í stjórn samtakanna.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar, Páll Erland forstjóri HS Veitna og Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs hjá Landsneti.

Hjörvar Halldórsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs Skagafjarðar var kjörinn varamaður í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Björk Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs HS Orku og Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar taka sæti í varastjórn og áfram eru þau Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku og Hrefna Hallgrímsdóttir forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum varamenn.

Stjórn Samorku er þannig skipuð að loknum aðalfundi 2025:

  • Sólrún Kristjánsdóttir Veitur – stjórnarformaður
  • Árni Hrannar Haraldsson ON 
  • Magnús Kristjánsson Orkusölunni 
  • Páll Erland HS Veitur 
  • Aðalsteinn Þórhallsson HEF Veitur  
  • Ríkarður Ríkarðsson Landsvirkjun 
  • Guðlaug Sigurðardóttir Landsnet 

Til vara í stjórn: 

  • Björk Þórarinsdóttir HS Orka 
  • Eyþór Björnsson, Norðurorka
  • Hjörvar Halldórsson, Skagafjarðarveitur 
  • Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitur 
  • Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun