2. september 2025 Fulltrúar Landsnets heimsóttu skrifstofu Samorku í Brussel Skrifstofa Samorku í Brussel fékk góða gesti frá Landsneti í heimsókn i dag, 2. september. Ragna Árnadóttir forstjóri, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri áttu þá fund með Sveini Helgasyni, verkefnastjóra erlends samstarfs, sem sagði gestunum frá starfi sínu sem fulltrúi Samorku í Brussel. Mikilvægi flutningskerfis raforku í orkuskiptum Evrópu og stefna Evrópusambandsins á því sviði var líka til umræðu. „Það var ánægjulegt að fá þau Rögnu, Einar Snorra og Guðmund Inga í heimsókn hingað á Norrænu orkuskrifstofuna í Brussel þar sem Samorka er með aðstöðu. Mitt markmið er að leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið og liður í því er að taka á móti fulltrúum þeirra,“ sagði Sveinn um heimsóknina. „Fyrir mig er líka mikilvægt að heyra hvaða mál brenna á stjórnendum í íslenska orku- og veitugeiranum. Það nýtist mér m.a. í að fylgjast með þróun löggjafar og regluverks Evrópusambandsins sem er tekin upp í íslenska löggjöf og mótar þannig starfsumhverfi Landsnets og annarra fyrirtækja í þessum geira.“ F.v. Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri. Hraðari uppbygging flutningskerfis raforku í Evrópu er í raun hryggjarstykkið í orkuskiptum álfunnar og eitt af stærstu verkefnunum sem Evrópusambandið og aðildarríki þess standa frammi fyrir. Árangur á því sviði er svo ein meginforsendan fyrir því að ná markmiðum ESB í loftslagsmálum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst í lok ársins senda frá sér margvíslegar tillögur til að efla og styrkja flutningskerfið og tengda innviði undir samheitinu „European Grids Package.“ Samorka er hluti af sterku neti evrópskra hagsmunasamtaka í orku- og veitugeiranum, m.a. í gegnum aðild að ENTSO-E, sambandi flutningsfyrirtækja rafmagns í Evrópu sem eru með höfuðstöðvar í Brussel. Landsnet vinnur náið með ENTSO-E á ýmsum sviðum.
2. september 2025 Jón Gunnarsson ráðinn verkefnastjóri greininga Jón Gunnarsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri greininga hjá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja. Jón er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í iðnaðarverkfræði og stjórnun (Industrial Engineering and Management) frá DTU – Technical University of Denmark í Kaupmannahöfn. Jón kemur til Samorku frá Landsvirkjun þar sem hann starfaði í innkaupum. Jón hóf störf þann 1. september og er hann boðinn hjartanlega velkominn á skrifstofuna.
29. ágúst 2025 Opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar en 22. september 2025. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í nóvember , sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica. Tveir verðlaunaflokkar Veitt verða tvenn verðlaun: Umhverfisfyrirtæki ársins Framtak ársins Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hvorn flokk en einnig er heimilt að tilnefna sama fyrirtækið í báða flokka. Skilyrði og rökstuðningur Dómnefnd velur úr innsendum tilnefningum en til að þær teljist gildar þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og ítarlegur rökstuðningur að fylgja með. Aðeins skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra geta hlotið tilnefningu. Sameiginlegt framtak atvinnulífsins Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa: Samtök atvinnulífsins Samtök iðnaðarins Samorka Samtök ferðaþjónustunnar Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi Samtök verslunar og þjónustu Hér má tilnefna fyrirtæki: Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 – Tilnefningar
26. ágúst 2025 Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða. Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum. Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði: Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar. Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land. Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar. Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna. Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: Umsögn Samorku Atvinnustefna S.144.2025Download
20. ágúst 2025 Umsögn Samorku: Orku- og veituinnviðir eru ómissandi Samorka telur að skýrt þurfi að koma fram í lögum um almannavarnir að raforka (framleiðsla, flutningur og dreifing), hitaveita, vatnsveita og fráveita séu ómissandi innviðir. Þetta er meðal helstu athugasemda í umsögn Samorku um drög að frumvarpi til nýrra laga um almannavarnir sem birt var í samráðsgátt. Dómsmálaráðherra hyggst leggja frumvarpið fram á haustþingi en það felur í sér heildarendurskoðun á núverandi lögum um almannavarnir. Fyrirhuguð lagasetning á að taka til „samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar ástands sem ógnar eða kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum,“ eins og segir í frumvarpsdrögunum. Samkvæmt þeim eru verulegar skyldur lagðar á ábyrgðaraðila ómissandi innviða, t.d. í fyrirbyggjandi aðgerðum, greiningu á áhættu og gerð viðbragðsáætlana. Samorka telur að fulltrúar orku- og veitufyrirtækja þurfi að eiga fasta aðild að samráðshópi ríkislögreglustjóri um almannavarnir, til viðbótar við forstjóra Landsnets. Lögin þurfi einnig að kveða skýrt á um að fullur trúnaður gildi um hverskyns viðkvæmar upplýsingar sem ábyrgðaraðilum ómissandi innviða er skylt að deila með stjórnvöldum, þ.á.m. ríkislögreglustjóra. Þá megi setja spurningamerki við að birta opinberlega viðbragðsáætlanir. Sömuleiðis þurfi að skýra það í lögum hver beri kostnað af því að leggja í umfangsmiklar framkvæmdir og aðrar aðgerðir í forvarnarskyni, til að bregðast við almannavarnarstigi og halda uppi ómissandi innviðum þegar áföll ríða yfir eða hætta steðjar að. Jafnframt þurfi að kveða skýrt á um ferli við ákvarðanatöku, t.d. samráð og samskipti hins opinbera við ábyrgðaraðila ómissandi innviða. Loks telur Samorka mikilvægt að rýna tilskipun Evrópusambandsins um áfallaþol ómissandi innviða sem taka þarf upp í íslenska löggjöf í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Meta þurfi hvaða áhrif innleiðing tilskipunarinnar kann að hafa á lög um almannavarnir. Hér er hægt að lesa umsögn Samorku í heild. Frumvarpsdrögin og aðrar umsagnir, m.a. frá Veitum, HS Orku, HS veitum og Landsneti þar sem ýmsar athugasemdir eru gerðar við frumvarpsdrögin, má lesa á Samráðsgátt: Samráðsgátt | Mál: S-114/2025
13. ágúst 2025 Svikapóstur um ógreiddan rafmagnsreikning Samorka varar við svikapósti þar sem fólk er beðið að greiða ógreiddan rafmagnsreikning með þar til gerðum kóða á greiðslusíðu. Hér má sjá mynd af tölvupósti sem fór til viðskiptavina veitufyrirtækis í morgun. Póstur þessi er ekki frá raforkusalanum, hlekkurinn leiðir ekki inn á vefsíðu raforkusalans og Samorka bendir fólki á að smella alls ekki á hlekkinn og gefa ekki upp neinar persónu- og/eða fjárhagsupplýsingar. Samorka hvetur fólk til að hafa samband við þjónustuver viðkomandi raforkusala ef vafi leikur á um áreiðanleika tölvupósta. Einkenni netsvika eru gjarnan undarlegt eða óvenjulegt netfang, einkennilegt málfar, beiðni um kortanúmer eða innskráningu með skilríkjum og tilkynning um inneign eða skuld sem fólk á ekki von á. Ef þú lentir í svikum og gafst upp kortanúmer, aðrar bankaupplýsingar eða leyfðir innskráningu með rafrænum skilríkjum þá skaltu gera þetta strax: – Frysta öll greiðslukort í bankaappinu þínu. – Skrá út öll innskráð tæki í bankaappinu. – Hringja strax í neyðarþjónustu bankans þíns.
12. ágúst 2025 Brýnt að styrkja dreifiveitur Evrópu gegn loftslagsvá Orkukerfi Evrópu standa frammi fyrir vaxandi hættu af völdum loftslagsbreytinga og brýnt er að efla viðnámsþol dreifikerfa raforku til að bregðast við öfgum í veðurfari og öðrum afleiðingum hlýnunar jarðar. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins. Í skýrslunni er kallað er eftir samræmdum aðgerðum á vettvangi Evrópusambandsins til að tryggja öryggi raforkunetsins í framtíðinni. Áhættan aukist gríðarlega Áhrif loftslagsbreytinga eru þegar farin að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir orkukerfi. Yfir 300 manns létu lífið í Evrópu árið 2024 vegna flóða og illviðris og þessi ógn á aðeins eftir að valda meira tjóni verði ekkert að gert. Evrópa er nú þegar sú heimsálfa þar sem loftslagshlýnun er hröðust. Sérfræðingar vara við fleiri hitabylgjum, tíðara ofsaveðri og meira vatnstjóni sem ógni getu dreifikerfa raforku til að tryggja raforku þegar hamfarir af þessu tagi ganga yfir. Stormurinn Éowyn sem gekk yfir Bretland og Írland í janúar á þessu ári leiddi t.d. til þess að ein milljón írskra heimila voru um tíma án rafmagns, nokkuð sem sýnir glögglega hversu innviðir af þessu tagi geti verið viðkvæmir fyrir áföllum. Þríþætt stefna til að byggja upp viðnámsþol Eurelectric kynnir í skýrslu sinni þríþætta nálgun sem dreifiveitur (DSOs) ættu að fylgja: Greining á áhættu og staðbundnum áhrifum – Með því að nýta loftslagslíkön IPCC og innlendar gagnagrunnsupplýsingar geta veitufyrirtæki greint veikleika og forgangsraðað endurbótum. Styrking dreifikerfa – Hún getur falið í sér notkun hitaþolinna kapla, vatnsheldar undirstöður og þéttara net til að tryggja varaafhendingu við rof. Í sumum tilvikum er ráðlagt að leggja raflínur í jörðu eða að undirstöður séu nægilega háar til að bregðast við flóðahættu. Skipulögð neyðarviðbrögð – Dreifiveitur þurfa að hafa aðgang að nauðsynlegum varahlutum. Viðbragðshópar þurfa að vera til reiðu og mikilvægt er að veiturnar eigi góða samvinna við viðbragðsaðila til að gera megi við tjón með skjótum hætti í kjölfar hamfara. Dæmi um árangursríkar aðgerðir Í skýrslunni eru nefnt fjölmörg dæmi víðsvegar að úr Evrópu um árangursríkar aðgerðir til úrbóta: Sikiley: Í kjölfar hitabylgju sem leiddi til víðtæks rafmagnsleysis árið 2023, innleiddi e-distribuzione veitufyrirtækið sérstaka áætlun til að bæta þéttleika dreifikerfisins og skipta út eldri jarðstrengjum. Írland: ESB Networks, sem er bæði flutnings-og dreifiveita, gerði umfangsmikla áhættugreiningu og setti upp varnir fyrir sérstaklega mikilvægan tækjabúnað í háspennustöðvum til að draga úr flóðahættu. Valencia, Spánn: Eftir söguleg flóð í október 2024 fjárfesti dreifiveitan I-DE 100 milljón evra í Project IL-LUMINA, þar sem lögð var áhersla á stafræna vöktun og endurhönnun kerfisins. Stefnumótandi ráðleggingar til stjórnvalda Eurelectric hvetur Evrópusambandið og aðildarríki til að grípa til eftirfarandi aðgerða: Breyta lögum og reglum í aðildarríkjum til að umbuna fyrir fjárfestingu í aðlögun raforkukerfa að loftslagsbreytingum. Tryggja að í NECP-áætlanagerð, þ.e. orku- og loftslagsáætlunum, sé að finna skýra kafla um viðnámsþol dreifikerfa. Fjárfestingar í viðnámsþrótti verði hluta af þróunaráætlunum dreifikerfa (DNDPs). Setja loftslagsviðmið í opinber innkaupaferli, m.a. samkvæmt reglugerð ESB um kolefnishlutlausan iðnað (Net Zero Industry Act). Mikilvæg fjárfesting til framtíðar Gert er ráð fyrir að stjórnendur evrópskra dreifikerfa raforku þurfi árlega að leggja í fjárfestingar upp á 67 milljarða evra, frá 2030 til 2050. Þar af þarf verulegur hluti að renna í aðlögun að ríkjandi veðurfari í framtíðinni. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að búnaður sem er settur upp í dag þurfi að geta staðist aðstæður ársins 2075 og að aðgerðir þoli enga bið. „Þessum ákvörðunum má ekki slá á frest,“ segir í lok skýrslu Eurelectric. Sjá hlekk á skýrsluna: https://www.eurelectric.org/publications/strengthening-climate-resilience-strategies-for-enhancing-dso-resilience-against-climate-change/
6. ágúst 2025 Mikilvægast að styrkja bakbeinið í flutningskerfi raforku Orkuskipti og aukin eftirspurn eftir raforku kallar á mikla samvinnu í uppbyggingu raforkuinnviða. Kerfisáætlun Landnets hefur það hlutverk að áætla hvar og hvenær nýjar línur verða byggðar upp eða styrktar og þannig tryggja öruggan flutning raforku á milli landshluta. En uppbyggingin er umfangsmikil og mikilvægt að forgangsraða þeim verkefnum sem skila mestum ávinningi. Í þættinum fara þær Arngunnur Einarsdóttir sérfræðingur í viðskiptaþróun hjá Landsneti og Guðrún Margrét Jónsdóttir sérfræðingur í kerfisþróun hjá Landsneti yfir hvernig sú forgangsröðun verður til og mikilvægi samráðsvettvangsins sem kerfisáætlun er. Hægt er að hlusta og/eða horfa á þáttinn á öllum hlaðvarpsveitum.
28. júlí 2025 Aðildarríki ESB fá gula spjaldið frá Brussel Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þrýstir nú á öll aðildarríkin nema eitt (Danmörku) að innleiða sem fyrst í landslög tilskipanir um að efla hlut endurnýjanlegrar orku í orkunotkun innan ESB. Sú aukning er hluti af „Green Deal“ sáttmálanum og er nauðsynleg til að ná metnaðarfullum markmiðum á þessu sviði innan fimm ára. Framkvæmdastjórnin hefur því sent ríkjunum 26 formlegt áminningarbréf og getur síðan gripið til frekari aðgerða. Árið 2023 samþykktu aðildaríki ESB að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í heildar orkunotkun upp í 42.5% árið 2030. Hann var 24.5% árið 2023 samkvæmt Eurostat og hafði þá næstum því þrefaldast frá 2004 þegar hlutfall grænnar orku af orkunotkuninni var aðeins 9.6%. En betur má ef duga skal og það er vissulega töluvert stökk að fara upp í 42.5% eftir aðeins fimm ár. Þetta skýrir eflaust ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að gefa 26 af aðildarríkjunum gula spjaldið. Frestur ríkjanna til að innleiða viðeigandi tilskipanir rann út í maí s.l. og í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar frá 24. júlí kemur fram að ríkin 26 fái nú tvo mánuði til að klára innleiðinguna. Geri þau það ekki fá þau enn strangari viðvörun og eiga jafnvel von á háum sektum ef þau bæta ekki ráð sitt, samkvæmt frétt Politico. Innleiðing nauðsynlegrar löggjafar er forsenda fyrir því að efla hreina orkuframleiðslu innan Evrópusambandsins og minnka enn frekar losun gróðurhúsalofttegunda í orkugeiranum. Hann er nú ábyrgur fyrir um 75% af heildar losun innan ESB, segir Politico og vitnar í framkvæmdastjórn ESB sem einnig minnir á að meiri endurnýjanleg orka innan sambandsins styrki orkuöryggi. Tilkynning framkvæmdastjórnar ESB: Commission takes action to ensure complete and timely transposition of EU directives: Aðildarríki ESB fá gula spjaldið frá Brussel
16. júlí 2025 Djúpborun: Tæknilegt ævintýri sem getur skipt sköpum Að bora djúpt ofan í jarðlögin til að ná í orku er eitthvð sem unnið hefur verið að árum saman hér á landi. Með þessu væri hægt að ná í meiri orku á sömu jarðhitasvæðum og þannig nýta jarðhitaauðlindina enn betur. En það fylgja því tæknilegar áskoranir að ætla sér að bora svona djúpt ofan í jörðina. Í þættinum ræðir Sigurður H. Markússon, leiðtogi djúpnýtingar hjá Orkuveitunni, um djúpborunarverkefnin hér á landi og hvernig árangur í þeim efnum getur skipt sköpum, ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur á alþjóðavísu. Nálgast má þáttinn á hlaðvarpsveitum og á sumum þeirra sem bæði hljóð og mynd.