Spurt og svarað um vindorku

Nýting vindorku eykst sífellt í heiminum. Á Íslandi er nýting hennar frekar stutt komin. Umræða um nýtingu vindorkunnar á Íslandi verður sífellt meiri og henni fylgja ýmsar vangaveltur um kosti hennar og galla. Hér á eftir eru algengar spurningar um vindorku og svör.

Síðan er í uppfærð eftir því sem við á og því geta bæst við spurningar og svör.

Vindorka er sú raforka sem búin er til með vindmyllum.

Rafmagn er náttúrufyrirbæri sem byggir á hreyfingu hlaðinna agna og til að búa það til þarf að beisla hreyfiorku þessarra hlöðnu agna. Hlutir í kyrrstöðu hafa stöðuorku en hlutir á hreyfingu hafa hreyfiorku. Til að framleiða rafmagn notum við hreyfiorkuna til að snúa hverfli/túrbínu. Hægt er að snúa túrbínunni með hreyfiorku frá mismunandi orkugjöfum.

Í vatnsaflsvirkjunum er rennsli vatns og fallhæð nýtt til að snúa túrbínunni og framleiða rafmagn. Í jarðhitavirkjunum er það þrýstingur jarðhitagufunar sem snýr túrbínunni og vindurinn snýr túrbínunni í vindmyllum.

Eftirspurn eftir  sjálfbærri orku eykst stöðugt þar sem hún er lykilforsenda þess að takast á við loftslagsvandann og skipta þar með jarðefnaeldsneytinu út fyrir græna orku.

Ríki heims hafa búið til ýmsa hvata til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, til dæmis að styðja beint við framleiðslu hennar eða með öðrum fjárhagslegum hvötum, en jafnframt með því að setja verðmiða á mengun með svonefndum losunarheimildum. Verð á losunarheimildum fer hækkandi þannig að samhliða eftirspurn eftir grænni orku er því einnig eftirspurn eftir hagkvæmri orku.

Vindorka er endurnýjanleg orka og með sífellt lægri stofnkostnaði er hún að festa sig í sessi sem samkeppnishæfur valkostur við jarðefnaeldsneyti án þess að þurfa fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera. Þess vegna fjölgar nú vindorkuverum víðs vegar um heiminn.

Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni en víða annars staðar. Framleiðsla vindorku hentar mjög vel með framleiðslu endurnýjanlegrar orku úr vatnsafli, sem er ráðandi hér á landi, þar sem hægt er að geyma vatn í lónum þegar vindurinn blæs en nýta vatnsaflið þegar vindskilyrði eru síðri. Vegna þess að stofnkostnaður við vindorkuver lækkar stöðugt verður vindorkan sífellt betri kostur til að svara eftirspurn eftir orku hér á landi og eykur líkur á hagstæðu og samkeppnishæfu orkuverði. Um leið er aukin framleiðsla grænnar orku tækifæri til að byggja upp sterkari iðnað og búa til verðmæt störf á Íslandi. Endurnýjanleg orka er þar að auki eftirsótt vara sem getur skilað Íslandi miklum gjaldeyristekjum og stuðlað að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.

Vindorkan hjálpar til við að svara áframhaldandi raforkuþörf, hvort sem það er þörf heimila og fyrirtækja til framtíðar, til að efla atvinnulíf og stuðla að nýjum, grænum störfum á Íslandi, en síðast en ekki síst til að fara í þriðju orkuskiptin þ.e. að skipta yfir í græna orku í öllum samgöngum, á landi, á sjó og í lofti og gera Íslands þar með 100% grænt.

Rétt er að minna á að raforka er á samkeppnismarkaði og því er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það fyrirfram í hvað orka frá einstökum orkukostum fer, en það er ljóst að framtíðin kallar á græna orku á öllum sviðum.

Áður en vindmyllur eru reistar verður að liggja fyrir samkomulag framkvæmdaaðila við eigendur þess lands sem þær verða reistar á. Landið getur ýmist verið í einkaeigu eða eigu opinberra aðila.

Til að fá heimild til að reisa og reka vindmyllu fer verkefnið í gegnum margvísleg skref í stjórnsýslunni. Segja má að sveitarfélög séu þar þýðingarmesta stjórnvaldið enda fara þau með skipulagsvaldið innan sinnan marka.

Á undirbúningsstigi fer framkvæmdin í gegnum umhverfismat á grundvelli laga nr. 106/2000. Í því mati er framkvæmdaaðila skylt að rannsaka og gera skilmerkilega grein fyrir verkefninu og umhverfisáhrifum s.s. áhrifum á náttúru og þá sem búa í umhverfi þess.

Framkvæmdin fer í gegnum skipulagsferli viðkomandi sveitarfélags og þarf að samrýmast bæði aðal- og deiliskipulagi. Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um skipulagstillöguna s.s. Umhverfisstofnun um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsvernd. Skipulagsstofnun leiðbeinir sveitarfélögum við skipulagsgerð og staðfestir aðal- og svæðisskipulag.

Áður en framkvæmdir hefjast þarf framkvæmdaleyfi sveitarfélags að vera til staðar. Við útgáfu framkvæmdaleyfis er gætt að því að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög.

Orkustofnun veitir hið eiginlega leyfi, svokallað virkjunarleyfi, til að reisa og reka vindorkuver skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði í leyfið.

Fram hafa komið áform um að fella leyfisveitingar vegna vindorkunýtingar inn í miðlæga verndar- og nýtingaráætlun stjórnvalda (rammaáætlun) sem unnin er af sérstakri verkefnastjórn. Þingmál þess efnis hafa ekki náð fram að ganga. Nokkrir vindorkukostir hafa farið í gegnum ferli hjá verkefnisstjórn Rammaáætlunar og verið settir í nýtingarflokk í fyrirliggjandi drögum að niðurstöðu verkefnastjórnar um 4. áfanga Rammaáætlunar.

Framkvæmdin sjálf tekur ekki langan tíma, eða um 1-2 ár eftir fyrirkomulagi framkvæmdar. Undirbúningur framkvæmdar tekur þó mun lengri tíma þar sem huga þarf að mörgum þáttum. Stunda þarf umfangsmiklar rannsóknir við undirbúning, gera umhverfismat á framkvæmdinni og hanna vindorkuverið. Framkvæmdin fer samhliða í gegnum alla nauðsynlega stjórnsýslu og leyfisveitingarferli. Framkvæmdaraðili þarf einnig að panta og fá afhentar vindmyllur frá framleiðanda.

Vindmyllur hafa almennt engin áhrif á frjálsa för fólks um landssvæði eftir að byggingartíma er lokið og vindorkuverið komið í rekstur. Algengt er að landbúnaður sé í góðu sambýli við vindmyllur. Dæmi eru um að landsvæði verði enn aðgengilegri en áður vegna þess að samhliða uppbyggingu vindmylla eru lagðir nýir vegir að viðkomandi svæðum. Einnig eru dæmi um að vindorkuver, eins og önnur framleiðsla grænnar orku, séu beinlínis aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Allar tegundir orkuvinnslu hafa einhver áhrif á umhverfi sitt, en framleiðsla endurnýjanlegrar orku er sú umhverfisvænsta. Kolefnisfótspor vindorkunýtingar snýr fyrst og fremst að framleiðslu á vindmyllunum sjálfum. Framleiðsla rafmagns með vindmyllum er kolefnishlutlaus og stuðlar einnig að minni losun gróðurhúsalofttegunda, sem svo stuðlar að betri lífsskilyrðum fyrir menn og dýr. Útreikningar benda til að kolefnisfótspor orkuframleiðslu með vindorku sé um 99% minna en kolaorkuvera, 98% minna en gasorkuvera og 75% minna en sólarorkuvera.

Áhrif vindmylla á fuglalíf hafa verið rannsökuð ítarlega víða erlendis og slík áhrif eru eitt af þeim atriðum sem höfð eru til hliðsjónar í leyfisveitingaferli vegna vindmylla. Rannsóknirnar hafa sýnt að margfalt algengara er að fuglar skaðist t.d. vegna aksturs bifreiða, vegna áflugs á hús, vegna katta og vegna efnanotkunar í landbúnaði heldur en vegna vindmylla. Vindmyllur eru því hlutfallslega almennt lítill áhættuþáttur fyrir fugla.

Í umhverfismati er farið ítarlega gegnum alla umhverfisþætti og þá jafnframt gerðar kröfur um ítarlegar rannsóknir og síðan mótvægisaðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifunum.

Vindmyllur gefa frá sér hljóð, aðallega vegna þess að vængir þeirra kljúfa loftið og eins getur heyrst suð. Þá kemur einnig snúningshljóð frá túrbínunni sjálfri sem er eins og lágt vélarhljóð.

Áætluð áhrif hljóðs eru tekin inn í leyfisferli vindorkuvers. Samkvæmt 11. kafla byggingareglugerðar um hljóðvist skulu byggingar og önnur mannvirki þannig hönnuð að heilsu sé ekki spillt af völdum hávaða. Enn fremur skal tryggt að fólk í næsta nágrenni geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði.

Undir vindmyllunni er hljóðið hæst en það dofnar hratt út eftir því sem fjær er farið. Í um 1,0-1,5 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu er hljóðstig komið niður fyrir þau mörk, 40 dB, sem skilgreind eru fyrir kyrrlát svæði utan þéttbýlis í reglugerð um hávaða, það er svæðum ætluðum til útivistar. 40 dB samsvara hefðbundnum ísskáp.

Við meiri vindhraða en 8 m/s er vindur orðinn ráðandi hljóðgjafi og því sé litið á 8 m/s sem versta tilvik við mat á áhrifum vindmyllanna á hljóðvist.

Með því að skipuleggja vel staðsetningu vindmylla er hægt að draga úr eða koma í veg fyrir hávaðamengun gagnvart byggð. Með tækniþróun og reynslu hefur náðst töluverður árangur í því að minnka hljóð frá þeim og sífellt er unnið að því að lágmarka þau enn frekar.

Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár.

Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar vindmyllur samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig græna orku sem framleidd er á sama svæði.

Þá er sá möguleiki fyrir hendi að þær séu teknar niður og svæðið fært sem næst fyrra horfi. Nýting vindorku er þannig afturkræf auðlindanýting og bindur ekki hendur framtíðarkynslóða.

Þegar líftími vindmylla rennur út eftir 20-25 ár frá uppsetningu þeirra eru þær jafnan teknar niður. Það ræðst af vilja landeigenda, virkjunaraðila og yfirvalda hvort nýjar vindmyllur séu þá settar upp eða svæði fært aftur sem næst fyrra horfi.

Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg.

Úr sér gengin vindmyllublöð hafa verið urðuð en í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verð lagt bann við slíkri urðun árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur.

Vindorkuframleiðsla á landi er langt komin með að geta verið fyllilega samkeppnishæf við aðra orkugjafa, en vindorkuframleiðsla á sjó á töluvert lengra í land.

Tæknin er ekki eins langt komin og kostnaðurinn þar af leiðandi miklu meiri sem hefur áhrif á verð orkunnar. Skilyrði fyrir vindmyllum á sjó eru einnig mismunandi eftir löndum og fer það eftir dýpt sjávarins. Á Íslandi er sjórinn djúpur og því er kostnaðarsamt að reisa vindmyllur þar. Að auki kostar meira að tengja og keyra orkuver á sjó en á landi og áhrif á fugla, fiskistofna og náttúru eru sambærileg og hjá vindorkuverum á landi.
Vindorkuframleiðsla á sjó verður sennilega sífellt hagkvæmari kostur þegar fram líða stundir en hvort hún verði raunhæfur kostur við Íslandsstrendur er óljóst.

Tölum saman um græna framtíð

Áherslur Samorku fyrir alþingiskosningar 2021 from Samorka on Vimeo.

Orku- og veituþjónusta er sú grunnþjónusta sem allt samfélagið byggir á og er undirstaða lífsgæða í landinu. Skilvirkur orku- og veitugeiri er einnig forsenda þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og til að nýta þau sóknarfæri sem gefast nú þegar eftirspurn eftir grænum lausnum eykst um allan heim.

Samorka vildi því kynna helstu tækifæri og viðfangsefni sem blasa við í þessum málaflokki í aðdraganda alþingiskosninga.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, kynnti helstu tækifæri og viðfangsefni sem blasa við í orku- og veitumálum í aðdraganda alþingiskosninga í beinni útsendingu á Facebook og heimasíðu Samorku.

 

Áherslurnar er einnig að finna á nýrri vefsíðu Samorku.

Hér má nálgast áherslurnar á pdf formi:

Samorka-Kosningaaherslur21

 

Fundinn í heild sinni má sjá hér:

Carbfix og ON fá 600 milljóna loftslagsstyrk

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.

Carbfix og Orka náttúrunnar, dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur, hafa hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins (Innovation Fund) í verkefnið Silfurberg. Styrkurinn er einn sá hæsti sem veittur hefur verið til loftslagsverkefnis hér á landi og nemur um 3,9 milljónum evra, sem svara til tæplega 600 milljóna króna. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni er styrkt af sjóðnum.

Markmið Silfurbergs-verkefnisins er að byggja nýja hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem mun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar sem síðan verður dælt niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með Carbfix tækninni. Þar með mun Orka náttúrunnar skipa sér í fremsta flokk grænnar jarðvarmanýtingar með sporlausri framleiðslu rafmagns og varma.

Carbfix hefur þróað tækni fyrir varanlega bindingu koldíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007 í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir. Tæknin krefst einungis rafmagns og vatns og hefur starfsemin óveruleg umhverfisáhrif. Tæknin felur í sér að leysa koldíoxíð í vatni og dæla niður í basaltberggrunninn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar. Með þessu móti er koldíoxíðið varanlega bundið í steindum djúpt í berggrunninum og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Einnig er hægt að beita aðferðinni fyrir aðrar gastegundir á borð við brennisteinsvetni, en það hefur einnig verið fangað frá virkjuninni og dælt niður frá árinu 2014.

Samorkuþingi frestað

Samorkuþingi, sem fram átti að fara í lok september á Akureyri, hefur verið frestað til maí 2022.

Aðildarfyrirtæki Samorku flokkast undir samfélagslega mikilvæga innviði og frá upphafi faraldurs hefur heilsa og öryggi starfsfólks sett í forgang. Starfsfólkið sinnir mikilvægri grunnþjónustu, rafmagni, hitaveitu, fráveitu og vatnsveitu, sem samfélagið allt reiðir sig á. Nú er ljóst að ekki verður hægt að safna fólki saman á þennan fjölmennasta viðburð í orku- og veitugeiranum og stefna þannig heilsu allra og grunnþjónustu samfélagsins í hættu.

Allar nánari upplýsingar um nýjar dagsetningar verða sendar út þegar þær liggja fyrir.

Sumarlokun Samorku

Skrifstofa Samorku lokar í tvær vikur vegna sumarlokunar Húss atvinnulífsins frá 19. júlí – 2. ágúst. Starfsfólk Samorku er í sumarfríi á meðan en ef nauðsynlega þarf að ná í okkur má hringja í farsíma.

Skrifstofan opnar aftur þriðjudaginn 3. ágúst.

Gleðilegt sumar!

Skráning hafin á Samorkuþing

Samorkuþing 2021 verður haldið dagana 30. september – 1. október í Hofi á Akureyri. Nú skal haldið upp á 25 ára afmælisþing samtakanna sem fór á frest árið 2020 – og er ætlunin enn að gera Samorkuþingið hið allra öflugasta hingað til.

Boðið verður uppá fjölbreytta dagskrá með metnaðarfullum erindum og vinnustofum þar sem fjallað verður um alla þætti starfsemi aðildarfyrirtækja Samorku: Hitaveitur, vatnsveitur, fráveitur, framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku – frá mörgum hliðum – allt frá auðlindum, framkvæmdum, stoðstarfsemi og til samskipta við viðskiptavini.

Einnig verður glæsileg vöru- og þjónustusýning helstu samstarfsaðila orku- og veitugeirans.

Að venju verður hátíðarkvöldverður ásamt skemmtun og maka- og gestaferð, auk þess sem boðið verður upp á netagerð fyrir nýliða og ungt fólk í geiranum.

Allar nánari upplýsingar um þingið og skráningarform má finna hér.

Finnur Beck ráðinn til Samorku

Finnur Beck, lögfræðingur, hefur verið ráðinn forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja.

Finnur starfaði sem lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015 til 2020 og var um tíma settur forstjóri félagsins.

Finnur var áður meðal annars héraðsdómslögmaður hjá Landslögum og hefur sinnt stundakennslu við HR í Alþjóðlegum og evrópskum orkurétti og Fjármunarétti.

Í starfi sínu hjá HS Orku var Finnur fulltrúi félagsins í ýmsum nefndum og ráðum hjá Samorku. Hann þekkir því vel til samtakanna, þjónustu þeirra við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja.

„Orku- og veitugeirinn er ein af grunnstoðum íslensks samfélags og framundan eru stór verkefni sem tengjast nýútkominni orkustefnu, orkuskiptum og loftslagsmálum meðal annars. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni með öflugu teymi hjá Samorku“, segir Finnur.

Finnur hefur þegar hafið störf.

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna 2021

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 6. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á sa@sa.is merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins
• Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
• Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
• Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
• Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
• Innra umhverfi er öruggt
• Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
• Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins
• Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
• Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Dagskrá verður birt er nær dregur.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Umhverfisframtak ársins 2020: Netpartar from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins kynntur í dag

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins verður formlega kynntur á rafrænum fundi í dag, miðvikudag, kl.15:00. Fundurinn verður í beinu streymi á Facebook og á Vimeo kl 15. Loftslagsvegvísir atvinnulífsins gefur yfirsýn yfir núverandi stöðu, auðveldar atvinnugreinunum að setja sínar loftslagsaðgerðir í stærra samhengi og hvetur atvinnulífið til frekari aðgerða.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpar fundinn. Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, kynnir vegvísinn ásamt Eggerti Benedikt Guðmundssyni, forstöðumanni Grænvangs.

Fjölmargir aðilar standa að útgáfunni: Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Bændasamtök Íslands auk Grænvangs.

Óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna verði eytt

Hreint neysluvatn er einn af hornsteinum heilbrigðis og lífsgæða. Vatnið okkar er ein helsta auðlind landsins og aðgengi að því hér á landi er afar gott og gæði þess mikil.

Vatnsveitur á Íslandi sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða drykkjarvatni á sanngjörnu verði. Þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki noti mikið vatn er kostnaður vegna kaldavatnsnotkunar langlægstur hér á landi þegar höfuðborgir á Norðurlöndum eru bornar saman.

Sterkir og öruggir innviðir eru okkur mikilvægir og mikil sátt ríkir um uppbyggingu þeirra og rekstur. Til þess að vatnsveitur geti áfram sinnt hlutverki sínu til framtíðar þarf að tryggja vatnsveitum nægilegt fjármagn svo þær geti staðið undir rekstrinum og fjárfestingum til framtíðar. Það er meðal annars gert með því að innheimta þjónustugjald og mikilvægt er að það gjald endurspegli raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna.

Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“.

Eins og kunnugt er hefur komið upp ágreiningur um túlkun hugtaksins fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga og í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gengið út frá því að hann taki eingöngu til vaxtakostnaðar af lánum. Þetta er sérstakt í ljósi þess að enginn ágreiningur hefur verið um það hingað til að fjármagnskostnaður tekur bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigin fjár.

Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmæti núverandi vatnsgjalds byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð.

Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, s.s. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Hollandi svo einhver dæmi séu nefnd, er einnig gert ráð fyrir arði af rekstri í gjaldskrám vatnsveitna.

Mikilvægt er að eigendum vatnsveitna sé tryggð eðlileg arðsemi þess eigin fjár sem sett er í veitukerfin þannig að ekki sé hikað við að ráðast í fjárfestingar og úrbætur. Slíkir hagrænir hvatar til fjárfestingar tryggja að fyrirtækjum séu búin þau skilyrði að geta fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma.

Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku hafa lengi átt í viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins um gerð leiðbeininga um forsendur við gerð gjaldskrár vatnsveitna þannig að þær séu skýrar og þar með að þessi grundvallar skilningur á hugtakinu fjármagnskostnaður sé viðurkenndur og þeirri óvissu sem nú er uppi í rekstri vatnsveitna sé eytt.