Finnur Beck ráðinn framkvæmdastjóri Samorku

Finnur Beck hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Finnur hefur verið forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku frá miðju ári 2021. Þar áður starfaði Finnur sem lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015 til 2020 og var um tíma settur forstjóri félagsins. Finnur hefur m.a. starfað sem héraðsdómslögmaður hjá Landslögum og hefur sinnt stundakennslu í lögfræði við Háskólann í Reykjavík á sviði fjármunaréttar, stjórnskipunarréttar og alþjóðlegs og evrópsks orkuréttar.

„Orku- og veitumálin eru mikilvægur málaflokkur sem snertir samfélagið allt. Framundan eru spennandi verkefni við að tryggja áfram heitt og kalt vatn, grænt rafmagn og góða fráveituþjónustu ásamt því að vinna með stjórnvöldum að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni með aðildarfélögum okkar og öflugu teymi Samorku “, segir Finnur.

Berglind Rán Ólafsdóttir, stjórnarformaður Samorku: „Finnur hefur umfangsmikla reynslu úr orku- og veitugeiranum. Hann þekkir einnig vel til Samorku, þjónustunnar við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja. Það er því fagnaðarefni að ganga frá ráðningu Finns sem framkvæmdastjóra.“

Finnur tekur þegar í stað við stöðu framkvæmdastjóra Samorku af Páli Erland.

Fréttir

Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?

Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku:

Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Það eru alls 43 TWst sem er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Á meðan nágrannalönd okkar kynda húsin sín að stórum hluta með innfluttu jarðefnaeldsneyti notum við heita vatnið okkar, sem er stór liður í því hversu langt við erum komin í að vera óháð öðrum þjóðum um orku.

Mikilvægi jarðhitans fyrir íslenskt samfélag lá ekki alltaf í augum uppi. Árhundruðum saman grunaði engan hversu mikill auður væri fólginn djúpt í jarðlögum undir landinu. Fyrst um sinn var jarðhitinn nýttur á stöku stað til þvotta og baða en eftir að við byrjuðum að leiða heitt vatn inn í húsin okkar fyrir um 100 árum varð efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur fljótt ljós.

Á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa góðan aðgang að heitu vatni sem hitaveitur landsins sjá um að færa okkur. Í dag eru vel yfir 90% húsa á Íslandi hituð með hitaveitu og allir þekkja lífsgæðin sem fylgja því að fara í góða sturtu, í heitt bað eða skella sér í sund.

Nú vitum við einnig hversu mikill ávinningurinn fyrir loftslagið er. Vegna nýtingu jarðhita til húshitunar höfum við komið í veg fyrir árlega losun 20 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er rúmlega fjórfalt það sem Ísland losar í dag.

Það er ekki sjálfgefið að búa að slíkri auðlind og geta nýtt hana. Það var mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og krafðist mikillar framsýni. Það krefst ekki síður mikillar vinnu að viðhalda þeim mikla árangri og ávinningi sem hitaveitan hefur fært okkur. Því þó að orkuskiptum í húshitun sé formlega lokið, þá þarf að viðhalda þeim í takt við vöxt samfélagsins.

Gert er ráð fyrir að íbúum á Íslandi hafi fjölgað um 22% árið 2050 miðað við árið 2021 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verði yfir 450.000. Hæsta spá Hagstofunnar gerir svo ráð fyrir að aukningin frá 2021 verði um 70% til ársins 2070 og verði þá rúmlega 625.000.

Þessi aukni mannfjöldi mun kalla á samsvarandi aukningu í notkun heits vatns. Samkvæmt jarðhitaspá Orkustofnunar hefur meðalnotkun heimila aukist jafnt og þétt síðustu ár, þrátt fyrir miklar framfarir í einangrun húsa og aukinnar notkunar gólfhita.

Hlutur atvinnulífs í eftirspurn eftir jarðvarma mun einnig aukast töluvert miðað við spá Orkustofnunar. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Spáin gerir ráð fyrir að þarfir atvinnulífsins taki fram úr jarðvarmanotkun heimila þegar fram líða stundir.

Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. Hitaveiturnar neyðist því til að leita sífellt lengra að nýjum vinnslusvæðum með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Auk þess er jarðhitaauðlindin viðkvæm og jarðhitasvæði sem henta til nýtingar eru ekki óþrjótandi. Það tekur ár og stundum áratugi að finna heppileg svæði til nýtingar, bora rannsóknarholur og rannsaka hver afkastageta svæðisins er. Eins og staðan er í dag eiga hitaveiturnar fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun og við blasir að til skerðinga getur komið í kuldaköstum þegar borholur hafa ekki undan.

Hitaveiturnar starfa í þágu viðskiptavina sinna og er því umhugað að nýta þær auðlindir og fjármuni sem þeim hefur verið treyst fyrir á sem bestan hátt. Við getum öll tekið þátt í því að fara vel með heita vatnið og þar með lágmarka umhverfisáhrif og kostnað. Ennfremur þurfa stjórnvöld að styðja við jarðhitaleit um allt land svo við getum haldið áfram að njóta þeirra forréttinda sem heita vatnið okkar er.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. nóvember 2022.

Fréttir
Greinar

Hitaveitur komnar í hámarks afkastagetu

Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist mjög mikið á skömmum tíma. Staðan er nú orðin þannig að núverandi vinnslusvæði eru komin í hámarks afkastagetu og það er því stór áskorun fyrir hitaveitur að anna þessari eftirspurn. Þá blasir við að hún eigi enn eftir að aukast mikið samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060. Jarðhitaleit, leyfisveitingar og rannsóknir taka langan tíma og því engin lausn í sjónmáli. Komið geti til skerðinga á heitu vatni á köldustu dögum ársins.

Um þetta var fjallað á opnum fundi Samorku fimmtudaginn 17. nóvember undir yfirskriftinni Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?

Fulltrúar þriggja hitaveitna kynntu stöðuna eins og hún er í dag og hvernig aukin eftirspurn hefur haft áhrif á starfsemi þeirra. Þá kynnti Orkustofnun jarðvarmaspána og nýja orkunýtnitilskipun Evrópusambandsins. Að lokum var hvatt til vitunarvakningar meðal almennings um að fara vel með heita vatnið og sóa því ekki að óþörfu.

Upptöku af fundinum má sjá neðst í færslunni.

Hér má sjá svipmyndir frá fundinum í Hörpu. Ljósmyndir: BIG

Fréttir
Hitaveita

Hugum að hitaveitunni

 

 

Samorka býður til morgunfundar um málefni hitaveitna, stöðu jarðhitaauðlindarinnar og forðamála fimmtudaginn 17. nóvember í Kaldalóni, Hörpu, kl. 9 – 10.30. Boðið verður upp á morgunhressingu frá 8.30.

Dagskrá:

Staðan tekin hjá veitunum
Veitur: Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og þróunar hjá OR
Selfossveitur: Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri
Norðurorka: Hjalti Steinn Gunnarsson, fagstjóri hitaveitu

Hvernig geta stjórnvöld stutt við sjálfbæra þróun hitaveitna? Marta Rós Karlsdóttir, sviðsstjóri sjálfbærrar orkunýtingar hjá Orkustofnun

Almar Barja, fagsviðsstjóri hjá Samorku, tekur saman tölfræði um hitaveitur og gefur hollráð til sparnaðar

Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Allir eru velkomnir á fundinn og aðgangur er ókeypis, en skráningar er óskað í forminu hér fyrir neðan. Fundinum verður einnig streymt. Gott er að merkja við „going“ við viðburðinn á Facebook til að fá áminningu þegar streymið hefst.

     

    Óskað eftir erindum á NORDIWA 2023

    Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna sem haldin verður í Gautaborg í Svíþjóð dagana 5. -7. september 2023.

    Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndunum þar sem koma saman; sérfræðingar og framkvæmdastjórar fráveitna, háskólasamfélagið og rannsakendur ásamt helstu ráðgjöfum á sviði fráveitu og fleiri sem hafa áhuga og þekkingu á innviðum veitna.

    NORDIWA er nú haldin í 18. sinn og að skipulagingu koma samtök rekstraraðila fráveitna á Norðurlöndunum, þar á meðal Samorka.

    Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 27. janúar 2023. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna, helstu umfjöllunarefni og hvernig eigi að senda inn tillögur eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

    Fráveita
    Fréttir

    Orkuskipti.is opnuð

    Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla opnuðu í dag nýjan upplýsingavef https://orkuskipti.is/ á opnum fundi í Kaldalóni í Hörpu.

    Á vefnum eru aðgengilegar upplýsingar um orkunotkun, orkuskipti og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Ný greining Eflu um efnahagsleg áhrif orkuskipta var einnig kynnt á fundinum.

    Helstu punktar:

    • Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.
    • Orkuskipti eru nauðsynleg til að ná þessum markmiðum og stuðla um leið að auknu orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands.
    • Orkuskipti ganga út á að hætta að nota óendurnýjanlega orkugjafa eins og olíu og nota þess í stað endurnýjanlega orkugjafa eins og vatn, jarðvarma, vind og sól.
    • Ísland notar um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna sem jafngildir verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í 6 mánuði.
    • Af innfluttri olíu skiptist notkunin í 52% fyrir flugvélar, 26% fyrir skip, 15% fyrir stærri ökutæki og 7% fyrir bíla.
    • Jarðhitinn er helsti orkugjafi Íslands. Um 60% af frumorkunotkuninni er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Um 25% frumorkunotkunar er raforka sem ýmist er unnin úr vatnsafli eða jarðhita. 15% frumorkunotkunar er olía.
    • Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar er 60% raforka og 40% olía. Ísland telst nettó innflytjandi á orku þar sem orkuframleiðsla hér á landi dugar ekki fyrir orkunotkun.
    • Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 getur numið 1.400 milljörðum króna sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár.
    • Heildarumfang fjárfestinga í raforkukerfinu vegna orkuskipta er talið vera um 800 milljarðar króna sem samsvarar byggingu 10 nýrra Landspítala.
    • Orkuskiptin munu draga verulega úr losun Íslands eða sem nemur 88 milljónum tonna CO2 ígilda. Verðmæti þess eru um 500 milljarðar króna.

    Myndir/BIG.

    Fréttir

    Páll Erland frá Samorku til HS Veitna

    Páll Erland hefur verið ráðinn forstjóri HS Veitna og hefur störf á nýju ári 2023. Hann tekur við forstjórastöðunni af Júlíusi Jónssyni, sem lætur nú af störfum eftir 40 ára starf fyrir HS Veitur.

    Páll hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Samorku frá ársbyrjun 2017. Áður en hann kom til starfa hjá samtökunum var hann framkvæmdastjóri Veitna hjá Orkuveitu Reykjavíkur í sjö ár og framkvæmdastjóri virkjana og sölusviðs og síðar Orku náttúrunnar í fimm ár.

    Staða framkvæmdastjóra Samorku verður auglýst innan skamms.

    Fréttir

    Nýr upplýsingavefur opnaður á þriðjudag

    Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla hafa tekið höndum saman um að opna nýjan upplýsingavef um orkunotkun Íslands, orkuskipti og áhrif þeirra í Kaldalóni í Hörpu þriðjudaginn 18. október kl. 14-15.30.

    Yfirskrift fundarins er Orkuskipti – hvað þarf til að ná fullum orkuskiptum og hver gæti efnahagslegur ávinningur Íslands verið? Á fundinum verður vefurinn opnaður og ný greining um efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum kynnt.

    Þátttakendur í dagskrá:

    • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
    • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI
    • Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
    • Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI
    • Haukur Ásberg Hilmarsson, hagfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá Eflu
    • Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku
    • Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku

    Á fundinum verður vefurinn opnaður og kynnt ný greining um efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum.

    Skráningar er óskað á si.is.

    Fréttir
    Viðburðir

    Samtöl atvinnulífsins: Sjálfbærni, hringrás og ný verðmæti

    Umhverfismánuður atvinnulífsins er nú hafinn með Samtölum atvinnulífsins en þriðji þáttur mánaðarins hefst nú kl. 10:00.

    Þar ræðir Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku við Sigurð H. Markússon forstöðumann nýsköpunar hjá Landsvirkjun sem fer yfir sjálfbærni, hringrás og ný verðmæti hjá Landsvirkjun.

    Þátturinn hefst í streymi hér kl. 10:00 og er um 20 mínútur.

    Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi hringrásarhagkerfinu. Hringrásarhagkerfið snýst um hvernig nýta má hráefni á sem skilvirkastan hátt og fyrirbyggja t.a.m. sóun og losun gróðurhúsalofttegunda með breyttum áherslum í vöru- og þjónustuhönnun. Rannsóknir sýna að búast má við að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið og landsframleiðslu. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins.

    Fréttir