2. maí 2025 Gott grunnvatn er forgangsmál Verndun og gæði gunnvatns í Evrópu er eitt af forgangsmálum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði fulltrúi hennar á fundi í Brussel þann 29. apríl. Framkvæmdastjórnin vinnur nú að „Stefnu um viðnámsþrótt vatns“ eða „European Water Resilience Strategy“. Opið samráðsferli skilaði hátt í sex hundruð umsögnum eða framlögum og haldnir voru þrír hringborðsfundir undir lok mars. Ný stefnumótunarskýrsla „Grunnvatn í Evrópu – hornsteinn viðnámsþróttar,“ var kynnt á fundinum en að honum stóð sendinefnd þýska sambandsríkisins Hessen gagnvart Evrópusambandinu. Höfundar skýrslunnar leggja fram margvíslegar tillögur um hvernig bæta megi verndun grunnvatns og tryggja gæði þess. Taka þurfi með í reikninginn áhrif loftslagsbreytinga og styrkja fyrrnefnda stefnumótun ESB um viðnámsþrótt vatns. Skýrslan byggir á víðtækum rannsóknargögnum um vatnsból í Þýskalandi, Króatíu og Spáni. Höfundar segja að grunnvatn hafi aldrei verið mikilvægara fyrir fólk, samfélög og vistkerfi. Hinsvegar sé ólíklegt að markmið Vatnatilskipunar Evrópusambandsins (EU Water Framework Directive) náist fyrir árið 2027. Isaac Ojea Jimenez, sérfræðingur á umhverfissviði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá sjónarmiðum ESB. Þátttakendur í pallborðsumræðum á fundinum komu úr ýmsum áttum, s.s. vísindamenn fulltrúar hagsmunasamtaka á borð við EurEeu og sérfræðingur frá umhverfissviði framkvæmdastjórnar ESB sem hefur þessi mál á sinni könnu. Hann sagði m.a. að bæta þyrfti eftirlit með grunnvatni, upplýsingamiðlun og samhæfingu auk þess að takast á við mengun. Þess væri að vænta að framkvæmdastjórnin leggi stefnuna fram nú á öðrum ársfjórðungi og að Evrópuþingið taki hana fyrir. Evrópustefnan um viðnámsþrótt vatns á að vernda hringrás vatnsins, tryggja nægilegt framboð af hreinu vatni á hagstæðu verði fyrir alla og samkeppnishæfni vatnsgeirans í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stefnan leggur áherslu á fimm megin svið – stjórnsýslu og innleiðingu, innviði, fjármögnun og fjárfestingu, öryggi og loks fyrirtæki í vatnsgeiranum, nýsköpun og menntun. Stefna, lagasetning og reglur Evrópusambandsins á þessu sviði hafa víðtæk áhrif á hér á landi með lögum og reglum sem íslensk stjórnvöld innleiða í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur þannig verið innleidd með tilheyrandi breytingum á stjórn vatnamála og nú vinnur Evrópusambandið að uppfærslu og nánari útfærslu neysluvatnstilskipunarinnar (EU Drinking Water Directive). Aðildarfyrirtæki og félög innan Samorku hafa skýra hagsmuni af því að vita hvað er handan við hornið hjá Evrópusambandinu í vatnamálum og Samorka vill að sama skapi upplýsa þau um það sem er á döfinni. Samorka er aðili að EurEau og vinnur þannig að því að tryggja hagsmuni íslenskra vatns- og fráveitna í Brussel. Fanny Frick-Trzebitzky (t.v.) kynnti rannsókina og Silke Wettach (t.h.) fréttakona stýrði pallborðsumræðum. Þá má rifja upp að í desember s.l. fékk Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Í þessum hópi eru m.a. fjölmörg sveitarfélög og veitufyrirtæki innan Samorku. Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku með Oliver Loebel, framkvæmdastjóra EurEau, sem var meðal þátttakenda í pallborðsumræðunum. Tenglar með frekari upplýsingum: Meira um „European Water Resilience Strategy.“ „Evrópustefnu um viðnámsþrótt vatns.“ https://environment.ec.europa.eu/news/call-evidence-begins-eu-water-resilience-strategy-2025-02-04_en https://www.europarl.europa.eu/legislative-train/theme-sustaining-our-quality-of-life-food-security-water-and-nature/file-european-water-resilience-strategy Stefnumótunarskýrsla ISOE – The Institute for Social-Ecological Research. „Groundwater in Europe – Cornerstone for Resilience.“ https://www.isoe.de/en/publication/groundwater-in-europe-cornerstone-for-resilience Frétt um styrk sem Umhverfisstofnun fékk frá ESB til að tryggja vatnsgæði: https://www.ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2024/12/11/3-5-milljarda-styrkur-til-ad-tryggja-vatnsgaedi-a-Islandi Skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu um viðnámsþrótt vatns https://www.eea.europa.eu/is/highlights/mengun-ofnotkun-og-loftslagsbreytingar-ogna
25. apríl 2025 Fjórar nýjar umsagnir frá Samorku Samorka hefur skilað inn umsögnum um fjögur mál í vikunni. Þetta eru umsagnir um breytingar á raforkulögum (raforkuviðskipti), einföldun og samræmingu leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála, breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og svo tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna. Allar umsagnir Samorku má finna hér.
NORDIWA 2024 Norræna vatnsveituráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn dagana 18. – 20. september 2024. Að ráðstefnunni standa norræn vatnsveitusamtök. Nánari upplýsingar um dagskrá og annað fyrirkomulag má sjá á heimasíðu ráðstefnunnar.
16. júní 2021 Óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna verði eytt Hreint neysluvatn er einn af hornsteinum heilbrigðis og lífsgæða. Vatnið okkar er ein helsta auðlind landsins og aðgengi að því hér á landi er afar gott og gæði þess mikil. Vatnsveitur á Íslandi sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða drykkjarvatni á sanngjörnu verði. Þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki noti mikið vatn er kostnaður vegna kaldavatnsnotkunar langlægstur hér á landi þegar höfuðborgir á Norðurlöndum eru bornar saman. Sterkir og öruggir innviðir eru okkur mikilvægir og mikil sátt ríkir um uppbyggingu þeirra og rekstur. Til þess að vatnsveitur geti áfram sinnt hlutverki sínu til framtíðar þarf að tryggja vatnsveitum nægilegt fjármagn svo þær geti staðið undir rekstrinum og fjárfestingum til framtíðar. Það er meðal annars gert með því að innheimta þjónustugjald og mikilvægt er að það gjald endurspegli raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“. Eins og kunnugt er hefur komið upp ágreiningur um túlkun hugtaksins fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga og í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gengið út frá því að hann taki eingöngu til vaxtakostnaðar af lánum. Þetta er sérstakt í ljósi þess að enginn ágreiningur hefur verið um það hingað til að fjármagnskostnaður tekur bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigin fjár. Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmæti núverandi vatnsgjalds byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, s.s. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Hollandi svo einhver dæmi séu nefnd, er einnig gert ráð fyrir arði af rekstri í gjaldskrám vatnsveitna. Mikilvægt er að eigendum vatnsveitna sé tryggð eðlileg arðsemi þess eigin fjár sem sett er í veitukerfin þannig að ekki sé hikað við að ráðast í fjárfestingar og úrbætur. Slíkir hagrænir hvatar til fjárfestingar tryggja að fyrirtækjum séu búin þau skilyrði að geta fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku hafa lengi átt í viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins um gerð leiðbeininga um forsendur við gerð gjaldskrár vatnsveitna þannig að þær séu skýrar og þar með að þessi grundvallar skilningur á hugtakinu fjármagnskostnaður sé viðurkenndur og þeirri óvissu sem nú er uppi í rekstri vatnsveitna sé eytt.
5. maí 2021 Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna gróðureldanna í Heiðmörk í gærkvöldi. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna aukinnar hættu á mengunarslysum, sem skapast getur vegna mikillar umferðar stórra ökutækja er bera með sér töluvert magn eldsneytis inn á vatnsverndarsvæðið. Auk vatnsverndar var gripið til annarra varúðarráðstafana svo verja mætti mannvirki og búnað vatnsbólanna. Vatnstankar voru settir á yfirfall til að bleyta upp í yfirborði í nágrenni vatnstökumannvirkja og sett var upp brunanhanatenging sem slökkvilið gæti notað í Vatnsendakrikum, einum af þremur vatnstökustöðum Veitna í Heiðmörk, sem slökkvilið gat notað við slökkvistarf. Fyrir voru nokkrir brunahanar í Heiðmörk sem settir voru upp fyrir nokkrum árum vegna hættu á gróðureldum. Mönnun í stjórnstöð var aukin ef færa þyrfti vatnstöku á milli svæða og/eða stýra framleiðslunni handvirkt. Snör handtök viðbragðsaðila komu í veg fyrir að nýta þyrfti þessar ráðstafanir. Neysluvatn höfuðborgarbúa er tekið úr borholum á vatnstökusvæðunum í Heiðmörk og er ekki talið að gróðureldar á yfirborði af þessari stærðargráðu og á þessum stað hafi mælanleg áhrif á vatnsgæði. Veitur hafa nýverið sett upp efnavöktunarbúnað á báðum aðalvatnslögnum frá Heiðmörk til að vakta í rauntíma möguleg áhrif eldgoss á Reykjanesi á efnasamsetningu vatns. Sá búnaður getur einnig nýst til að meta hugsanlegar breytingar, á þeim þáttum er hann mælir, af öðrum völdum, t.d. gróðurelda. Eins og ávallt verður fylgst vel með gæðum vatnsins og ef talin er ástæða til verður sýnataka aukin frá reglubundu eftirliti. Frétt frá Veitum.
1. desember 2020 Veitur snjallmæla mælakerfi raf-, hita- og vatnsveitu Veitur hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf- hita- og vatnsveitu. Samningurinn hljóðar upp á um 2 milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn (NB-IoT) frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland. Veitur áforma að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi. Því fylgir ýmis ávinningur: • Viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn. • Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt. • Veitur munu fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði. • Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti. Samningurinn leggur áherslu á sameiginleg markmið fyrirtækjanna tveggja, m.a. um snjalla og stafræna framtíð, aukna sjálfbærni og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Markmiðin ríma við þá framtíðarsýn er birtist í stefnum Veitna um hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins, stöðugar umbætur í umhverfismálum og að það er framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum og virkni samfélagsins.
20. ágúst 2019 Veitur leiðrétta vatnsgjöld ársins 2016 Veitur hafa leiðrétt vatnsgjöld ársins 2016 í kjölfar úrskurðar í vor. Leiðréttingin nær til vatnsveitnanna í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Í flestum tilvikum gengur leiðréttingin til lækkunar á vatnsgjöldum með gjalddaga nú í september. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „…standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.“ Í vor komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjald á tiltekna íbúð í Reykjavík vegna ársins 2016, sem kært var til ráðuneytisins, hafi verið of hátt. Þótt Veitum þyki úrskurðurinn óljós um sumt var ákveðið að una niðurstöðunni og voru vatnsgjöldin því endurreiknuð með tilliti til hennar. Það leiddi til þess að gjaldið hefur verið leiðrétt hjá öllum viðskiptavinum áðurnefndra vatnsveitna. Nánari upplýsingar um tilhögun leiðréttingarinnar má finna á heimasíðu Veitna.
8. maí 2019 Fjármagnskostnaður taki bæði til lánsfjár og bundins eigin fjár Þann 15. mars s.l. kvað Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið upp úrskurð um að álagning Veitna ohf. á vatnsgjaldi væri ólögmæt. Ágreiningsefnið í málinu er fyrst og fremst um það hvaða felst í hugtakinu fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Lögin sjálf skilgreina hugtakið ekki, en hins vegar er almennur skilningur sá að fjármagnskostnaður taki bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigi fjár. Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að niðurstaða ráðuneytisins byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og einnig í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð. Ekki er dregið í efa að þessum rétti til arðs eru settar ákveðnar skorður og þess vegna gert ráð fyrir því í vatnsveitulögunum að ráðherra setji reglugerð hér að lútandi. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Reglur hér að lútandi hafa hins vegar verið settar um raforkudreifingu og því ákváðu Veitur að hafa hliðsjón af þeim reglum í tilfelli gjaldskrár vatnsveitunnar. Er þá á því byggt að gera megi ráð fyrir því að svipuð sjónarmið liggi til grundvallar um ákvörðun arðs í sérleyfisstarfssemi hvort sem um raforkudreifingu er að ræða eða rekstur vatnsveitu. Mikilvægt er að hafa í huga að í umfjöllun fræðimanna um hæfilegan arð af bundnu eigin fé í fyrirtækjum sveitarfélaga er lögð áhersla á mikilvægi þess að um er að ræða raunverulegan kostnað og að með skilyrðingu um arð komi hvatar sem tryggi skynsamlegt eigið fé á móti lánsfé. Slíkt auki jafnfram líkur á fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum og þeim sé haldið við af ábyrgð. Stjórn Samorku og ráðgjafaráð veitufyrirtækja hafa fjallað um málið og er niðurstaðan sú að óska eftir því við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að þegar í stað verði sett reglugerð um forsendur arðs af bundnu eigin fé og þar með viðurkennt að fjármagnskostnaður taki til bæði lánsfjár og bundins eigin fjár í vatnsveitum sveitarfélaga. Telji ráðuneytið að ástæða sé til þess að jafnframt séu gerðar breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélag þá verði það gert hið fyrsta. Stjórn Samorku óskar einnig eftir því að ráðuneytið fari að svo stöddu ekki í boðaða frumkvæðisathugun á gjaldskrám allra vatnsveitna sveitarfélaga í landinu. Áður en til þess kemur er mikilvægt að tekin sé afstaða til þeirra röksemda sem Samorka hefur sett fram í málinu og þar með að forsendur séu nú þegar fyrir hendi fyrir ráðherra að gefa út reglugerð sem veitir leiðsögn um hvað sé hæfilegur arður af bundnu eigni frá, enda ljóst að löggjafarviljinn stendur til þeirrar heimildar.
22. mars 2019 Dagur kalda vatnsins Hreint neysluvatn er mikil auðlind Í dag 22. mars er alþjóðlegur dagur kalda vatnsins. Þema dagsins í ár er aðgengi að neysluvatni. Á Íslandi búum við við afar gott aðgengi að hreinu neysluvatni, sem stuðlar að heilbrigði allra landsmanna. Vatnið er okkar helsta auðlind. Meðalnotkun heimilis í Reykjavík er 165 lítrar af köldu vatni á dag á hvern einstakling, sem er það hæsta sem gerist á Norðurlöndunum. Vatnsnotkun í iðnaði er miklu meiri en heimilisnotkun. Sérstaklega á þetta við um fiskiðnaðinn þar sem mikið vatn er notað til að þvo og kæla fiskinn. Til fiskeldis, iðnaðar, neysluvatns, húshitunar og fleira nýtast 10 rúmmetrar af ferskvatni á sekúndu, eða um tvöfalt rennslu Elliðaánna. Það magn er þó minna en 1% auðlindarinnar á landinu. Milljarðar manna um allan heim búa ekki svo vel að hafa aðgengi að hreinu neysluvatni og er það eitt af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að breyta því fyrir árið 2030. Á vef Samorku fá finna fleiri upplýsingar um vatnið okkar. Til hamingju með dag kalda vatnsins!
14. nóvember 2018 Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum. Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi. Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%. Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.