23. október 2025 Það þarf að tryggja öryggi vatnsbóla Vatnsvernd og áskoranir við vatnsöflun, öryggi og áfallaþol vatnsveituinnviða var til umfjöllunar á opnum fundi Samorku, Verndum vatnið, á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 22. október. Vatnsveitur eru dæmi um grunnþjónustu í samfélaginu sem við getum einfaldlega ekki verið án. Á fundinum var veitt góð innsýn inn í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði og hvernig hægt er að takast á við þær. Hægt er að sjá upptökur af erindum neðst í þessari færslu. Jón Gunnarsson, verkefnastjóri greininga hjá Samorku sýndi fram á vatnsríkidæmi okkar Íslendinga en líka hvað við notum vatn ótæpilega miðað við nágrannaþjóðir á hinum Norðurlöndunum. Jón Gunnarsson var með skemmtilegar staðreyndir um vatnsnotkun á Íslandi Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna og formaður stjórnar Samorku lagði áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um vatnsbólin og útivistarmöguleika í Heiðmörk með markvissum forvörnum og deiliskipulagi. Sólrún Kristjánsdóttir kynnti áherslur Veitna hvað varðar vatnsvernd í Heiðmörk Glúmur Björnsson jarðfræðingur sagði síðan frá áskorunum sem HEF veitur standa frammi fyrir við vatnsöflun á Austurlandi. Glúmur sagði frá ólíkum áskorunum minni veitna og stærri Tor Gunnar Jantsch, sviðsstjóri hjá Oslo Vann – vatnsveitu Osló-borgar – flutti loks mjög athyglisvert erindi um mikilvægi þess að tryggja vatnsöflun fyrir borgarbúa og hvernig nýjar ógnir kalla á auknar öryggisráðstafanir til að vernda þessa innviði. Tor Gunnar vakti fundargesti til umhugsunar um öryggi mikilvægra innviða. Í pallborði sagði Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, mikilvægt að skilgreina vel þessa ómissandi innviði, þá sem við getum ekki verið án í 24 tíma, og setja stíft regluverk um þá. Það blasi við að það þurfi að tryggja að vatnsból séu örugg og tók heilshugar undir viðmið Veitna í Heiðmörk. Runólfur í pallborðsumræðum Kristinn Harðarson framkvæmdastjóri framleiðslusviðs HS Orku ræddi meðal annars vatnsból fyrirtækisins á miðju jarðhræringasvæði og hvernig baráttan við eldgos hefur hjálpað til við að vera undirbúinn fyrir áföll. Marianne og Kristinn í pallborðsumræðum Marianne Jensdóttir Fjeld, verkefnastjóri stjórnar vatnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun ræddi meðal annars um hvernig grunnvatn er á höndum og ábyrgð margra aðila í stjórnsýslunni; Umhverfis- og orkustofnun, Heilbrigðiseftirlit, sveitarfélögin, MAST, Veðurstofa Íslands og þess vegna mjög mikilvægt að styrkja samtal og samvinnu þessara aðila. Sjá má fleiri ljósmyndir frá fundinum á Facebooksíðu Samorku. Ljósmyndari: Hulda Margrét Óladóttir. Erindi Jóns: Erindi Sólrúnar: Erindi Tors Gunnars: Upptaka af pallborðsumræðum: Upptaka af fundinum í heild sinni:
21. október 2025 Hvernig hugsar þú um hreint vatn? Vissir þú að hver íbúi í landinu notar um það bil 150 lítra af vatni á dag? Þegar iðnaður er talinn með notum við 9.190 lítra á hverri sekúndu. Það er eins og tvöfaldar Elliðaárnar á hverri sekúndu. Eða fimm þúsund dæmigerðar vatnskönnur á hverri sekúndu. Eða rúmlega 170.000 Kópavogslaugar, sem er stærsta sundlaug landsins, á ári. Af hreinu og góðu vatni. Þvílík lífsgæði! Vatnið er grunnforsenda heilbrigðis, lífsgæða og samfélagslegrar þróunar. Við á Íslandi erum vissulega heppin að eiga eins góða vatnsauðlind og raun ber vitni, en það þarf meira en heppni til að auðlindir landsins skili sér í samfélags- og efnahagslegum gæðum. Það þarf stöðugt að gæta, vernda og sinna innviðum þeirra af ábyrgð og ekki þarf mikið til að eitthvað fari verulega úrskeiðis. Loftslagsbreytingar, aukin landnýting, stækkun byggðar og fólksfjölgun er meðal þess sem hefur skapað aukið álag á vatnsból víða um land og getur aukið hættu á mengun. Þá geta væringar og óstöðugleiki á alþjóðavettvangi einnig haft áhrif á öryggi mikilvægra innviða eins og vatnsveitna. Um þessar áskoranir verður rætt á opnum fundi Samorku miðvikudaginn 22. október. Yfirskriftin er Verndum vatnið og verður þar fjallað um vatnsvernd, öryggi og áfallaþol vatnsveitna. Hlutverk vatnsveitna Hér á landi hafa veitufyrirtæki það lögbundna hlutverk að byggja upp og sinna öflugum vatnsveitum sem þjóna heimilum og atvinnulífi um allt land. Ýmsar hindranir standa þó í vegi þeirra, til dæmis flókin leyfisveitingaferli sem seinka nauðsynlegum framkvæmdum eins og Samorka hefur oft bent á. Markviss stefnumótun, samvinna ólíkra aðila og skýrar heimildir veitufyrirtækja til að sinna lögbundnu hlutverki sínu er nauðsynleg til að tryggja komandi kynslóðum áframhaldandi aðgengi að öruggu neysluvatni og svo að hægt sé að styðja við öflugt atvinnulíf um allt land. Gott skipulag tryggir betri árangur Mikilvægt er að veitufyrirtæki fái greiða og tímanlega aðkomu að skipulagsmálum svo hægt sé að hanna og byggja upp veitukerfi sem standast kröfur framtíðarinnar og standa vörð um öryggi vatnsbóla, sem styðja við lífsgæði og atvinnulíf á hverjum stað. Ákvarðanir um skipulag nýrra hverfa verða að taka mið af vatnsvernd og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Þar þarf að gæta jafnvægis milli þarfa samfélagsins og verndar náttúrunnar. Jafn mikilvægt er að huga að og greina veituinniviði ef til stendur að breyta eða þétta hverfi. Fjárfestingaumgjörð vatnsveitna þarf að styðja við reglubundið viðhald og endurnýjun innviða, svo tryggja megi áfram vatnsgæði í fremstu röð og örugga dreifingu til allra landsmanna. Einnig þarf að horfa heildstætt á nýtingu vatns, þar sem tryggt er að vatn sem nýtt er í atvinnuskyni eða framleiðslu ógni ekki hagsmunum almennings. Við berum öll ábyrgð Það skiptir einnig miklu máli að við sem einstaklingar gerum okkur sér grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að því að stuðla að hreinu og heilnæmu vatni til framtíðar. Dagleg hegðun okkar, eins og að skilja eftir rusl, aka utan vega eða nota efni sem geta mengað jarðveg getur haft bein áhrif á vatnsgæði. Það er því mikilvægt að halda því á lofti að hreint vatn er ekki sjálfsagt mál heldur verðmæt auðlind sem við berum öll ábyrgð á. Vatnið okkar er lífæð samfélagsins. Með góðu skipulagi, virðingu, varkárni og langtímasýn í meðferð þess tryggjum við að komandi kynslóðir njóti áfram þeirra lífsgæða sem hreint og gott neysluvatn er. Grein eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is mánudaginn 20. október 2025.
26. ágúst 2025 Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða. Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum. Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði: Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar. Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land. Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar. Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna. Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: Umsögn Samorku Atvinnustefna S.144.2025Download
11. júlí 2025 Hæstiréttur staðfestir ógildingu á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Rétturinn dæmdi að samkvæmt þágildandi lögum um stjórn vatnamála hafi Umhverfisstofnun verið óheimilt að leyfa breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna virkjunarinnar. Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í júní en segir þó ljóst að framkvæmdum seinki og kostnaður aukist. Landeigendur við Þjórsá höfðu málið á hendur Landsvirkjun og íslenska ríkinu og kröfðust þess að heimildir og leyfi fyrir virkjuninni yrðu felld úr gildi. Mynd: Landsvirkjun Í dómi Hæstaréttar kemur fram að breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpi til laga um stjórn vatnamála frá árinu 2011 hafi verið afdrifaríkar. Lögin voru sett til að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins. Niðurstaða réttarins er að lokaútgáfa 18. greinar laganna útiloki í raun veitingu leyfa til að breyta vatnshlotum vegna nýrra framkvæmda eins og vatnsaflsvirkjana. Upphaflega heimilaði frumvarpið slíkar “nýjar breytingar” með undanþágu Umhverfisstofnunar ef önnur skilyrði laganna væru uppfyllt. Í skýringum með lagagreininni voru vatnsaflsvirkjanir tilteknar sem dæmi um breytingar af þessu tagi. Við þinglega meðferð var greininni hinsvegar breytt þannig að undanþágur væru einungis mögulegar vegna t.d. mengunar eða loftslagsbreytinga, en ekki vegna nýrra framkvæmda. Hæstiréttur telur því að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna Hvammsvirkjunar og þá væri um leið brostinn grundvöllur fyrir virkjanaleyfi Orkustofnunar Landsvirkjun og ríkið héldu því fram niðurstaða héraðsdóms fengi með engu móti staðist enda væri stjórnvöldum þá óheimilt að veita ný leyfi til nýtingar á vatnsaflsauðlindum til raforkuframleiðslu hér á landi eins og gert hafi verið á liðnum áratugum. Jafnframt færi það þvert gegn þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað í orkumálum, m.a. með því að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk. Hæstiréttur segir hinsvegar ljóst að umhverfisnefnd Alþingis “lagði til þá efnisbreytingu á lögunum að vatnshloti yrði ekki breytt vegna áhrifa af nýjum framkvæmdum. Gat þá ekki leikið vafi á að þar með var girt fyrir breytingar á vatnshloti vegna byggingar nýrra vatnsaflsvirkjana,” eins og segir í dómnum. Hæstiréttur bendir líka á að lög verði að vera skiljanleg og borgarar verði að geta treyst því að vilji löggjafans birtist í skýru orðalagi lagatexta. Það stoði því ekki fyrir Landsvirkjun og ríkið að halda því fram Alþingi hafi í raun ætlað að komast að allt annarri niðurstöðu með lagasetningunni. Skipti þá engu máli þó sannfærandi rök hafi verið færð fyrir því. Þá sé það ekki hlutverk dómstóla að leiðrétta slík mistök heldur löggjafans. “Löggjöf verður hverju sinni að endurspegla áherslur og markmið stjórnvalda í orkuskiptum, rafvæðingu og loftslagsmálum.” segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. “Önnur Evrópuríki í þessu skyni endurbætt löggjöf sína, einfaldað og eflt stjórnsýsluferla til að þjóna betur markmiðum sínum.” Finnur segir svo virðast sem Alþingi hafi árið 2011 gert alvarleg mistök sem nú hafi alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu orkumála í landinu. Þetta undirstriki skýrt það sem Samorka hafi lagt áherslu á: “Alla löggjöf þarf að vanda vel svo hún vinni með en ekki gegn markmiðum um orkuöryggi og orkuskipti.” Í kjölfar þess að héraðsdómur felldi virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi í janúar á þessu ári lagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fram frumvarp um breytingu á raforkulögum og um stjórn vatnamála til að eyða lagaóvissu. Þannig yrði hafið yfir allan vafa að fyrrnefnd 18. grein laga um stjórn vatnamála taki til breytinga á vatnshloti, vegna framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjanir. Frumvarpið varð að lögum í júní og á grundvelli þeirrar lagasetningar hyggst Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Landsvirkjun segir í fréttatilkynningu að síðustu áætlanir hafi gert ráð fyrir gangsetningu virkjunarinnar árið 2030 en töfin sem dómur Hæstaréttar hafi í för með sér gæti þýtt umtalsverða seinkun til viðbótar. Viðbótarkostnaður vegna þessa og vegna tafa á undanförnum árum hlaupi á milljörðum. Mest sé þó tapið fyrir íslenskt samfélag sem verði af þeim verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað.
23. júní 2025 Viðnámsþróttur vatns og ríkidæmi Íslands Podcast: Play in new window | Download (Duration: 28:17 — 22.5MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Birna Guttormsdóttir, sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir að ný stefna ESB um viðnámsþrótt vatns (European Water Resilient Strategy) sé yfirgripsmikil enda við margvíslegar áskoranir að glíma. „Stærsta markmiðið með stefnunni er að laga þessa brotnu hringrás vatnsins,“ segir í Birna í viðtali við Svein Helgason í Brussel, í hlaðvarpi Samorku. Birna Guttormsdóttir, sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn ESB. Birna segir að Íslendingar standi svolítið með pálmann í höndunum á þessu sviði því landið sé ríkt af vatni. Hinsvegar sé mikilvægt að þekkja vel auðlindina og gera sér grein fyrir hvert skuli stefna í framtíðinni. Sveinn Helgason ræðir við Birnu í þættinum. Birna starfar á umhverfissviði framkvæmdastjórnarinnar í teymi sem vinnur að ferskvatnsstjórnun og hefur átt töluverðan þátt í að móta stefnuna um viðnámsþrótt vatns sem kynnt var 4. júní s.l. Stefnan hefur m.a. tengingar við svokallaða vatnatilskipun og fráveitutilskipun ESB.
10. júní 2025 Evrópusambandið kynnir stefnu um viðnámsþrótt vatns Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti þann 4. júní nýja Evrópska stefnu um viðnámsþrótt vatns (European Water Resilience Strategy). Hún hefur það að markmiði að vernda og endurheimta vatnshringrásina, tryggja öllum hreint vatn á viðráðanlegu verði auk þess að byggja upp sjálfbæra og samkeppnishæfa vatnstengda efnahagsstarfsemi í Evrópu með góðan viðnámsþrótt. Birna Guttormsdóttir, sem nú starfar sem sérfræðingur hjá Framkvæmdstjórninni, hefur verið í lykilhlutverki við að undirbúa stefnuna á undanförnum mánuðum. Stefnan er yfirgripsmikil og hefur það hlutverk að styðja aðildarríki ESB við skilvirka stjórnun á nýtingu vatns bæði með innleiðingu núverandi vatnslöggjafar ESB og með yfir 30 sérstökum aðgerðum. Aðildarríkin, héraðsstjórnir og sveitarfélög, en einnig almenningur og fyrirtæki, eru í lykilhlutverki við að hrinda stefnunni í framkvæmd. „Vatn er ekki bara auðlind, það er okkar líflína. Öfgar í veðurfari valda því hins vegar að álag á þessa auðlind er mikið og nú þegar glíma 30% af landssvæðum í Evrópu við árlegan vatnsskort,“ segir Jessika Roswall, sem fer með umhverfismál, viðnámsþrótt vatns og málefni samkeppnishæfs hringrásarhagkerfis, í framkvæmdastjórninni. „Vatn er sameiginleg auðlind og því sameiginleg ábyrgð, við verðum öll að byrja að nota vatn á skilvirkari hátt,“ bætti Roswall við þegar hún kynnti stefnuna ásamt Teresu Ribera, einum af varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, Jessika Roswall og Teresu Ribera kynna stefnuna um viðnámsþrótt vatns á fréttamannafundi í Brussel, 4. júní. Stefnan hefur eins og fyrr sagði tengingu við aðrar vatnsgerðir ESB en þar ber helst að nefna vatnatilskipunina og fráveitutilskipunina. Það er því ástæða fyrir íslensk stjórnvöld, Samorku og haghafa hér á landi að fylgjast með framkvæmd hennar. Þær 30 aðgerðir sem lagðar eru til í stefnunni fela m.a. í sér: · Skipulagðar samræður við aðildarríki ESB um framkvæmd lagaramma sambandsins. · Fjárfestingaráætlun að verðmæti yfir 15 milljarða evra með stuðningi frá EIB (Evrópska fjárfestingabankanum), · Áætlun um stafræna umbreytingu og gervigreind í vatnsstjórnun, · Stofnun evrópskrar vatnsakademíu og nýsköpunarstefnu fyrir vatnsþol, · Sterkara rauntímaviðvörunarkerfi gegn flóðum og þurrkum. Frá og með desember 2025 verður haldið sérstakt þing um viðnámsþrótt vatns annað hvert ár til að fylgjast með framvindu stefnunnar og stefnt er á að gera áfangamat á henni árið 2027.
2. maí 2025 Gott grunnvatn er forgangsmál Verndun og gæði gunnvatns í Evrópu er eitt af forgangsmálum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði fulltrúi hennar á fundi í Brussel þann 29. apríl. Framkvæmdastjórnin vinnur nú að „Stefnu um viðnámsþrótt vatns“ eða „European Water Resilience Strategy“. Opið samráðsferli skilaði hátt í sex hundruð umsögnum eða framlögum og haldnir voru þrír hringborðsfundir undir lok mars. Ný stefnumótunarskýrsla „Grunnvatn í Evrópu – hornsteinn viðnámsþróttar,“ var kynnt á fundinum en að honum stóð sendinefnd þýska sambandsríkisins Hessen gagnvart Evrópusambandinu. Höfundar skýrslunnar leggja fram margvíslegar tillögur um hvernig bæta megi verndun grunnvatns og tryggja gæði þess. Taka þurfi með í reikninginn áhrif loftslagsbreytinga og styrkja fyrrnefnda stefnumótun ESB um viðnámsþrótt vatns. Skýrslan byggir á víðtækum rannsóknargögnum um vatnsból í Þýskalandi, Króatíu og Spáni. Höfundar segja að grunnvatn hafi aldrei verið mikilvægara fyrir fólk, samfélög og vistkerfi. Hinsvegar sé ólíklegt að markmið Vatnatilskipunar Evrópusambandsins (EU Water Framework Directive) náist fyrir árið 2027. Isaac Ojea Jimenez, sérfræðingur á umhverfissviði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá sjónarmiðum ESB. Þátttakendur í pallborðsumræðum á fundinum komu úr ýmsum áttum, s.s. vísindamenn fulltrúar hagsmunasamtaka á borð við EurEeu og sérfræðingur frá umhverfissviði framkvæmdastjórnar ESB sem hefur þessi mál á sinni könnu. Hann sagði m.a. að bæta þyrfti eftirlit með grunnvatni, upplýsingamiðlun og samhæfingu auk þess að takast á við mengun. Þess væri að vænta að framkvæmdastjórnin leggi stefnuna fram nú á öðrum ársfjórðungi og að Evrópuþingið taki hana fyrir. Evrópustefnan um viðnámsþrótt vatns á að vernda hringrás vatnsins, tryggja nægilegt framboð af hreinu vatni á hagstæðu verði fyrir alla og samkeppnishæfni vatnsgeirans í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stefnan leggur áherslu á fimm megin svið – stjórnsýslu og innleiðingu, innviði, fjármögnun og fjárfestingu, öryggi og loks fyrirtæki í vatnsgeiranum, nýsköpun og menntun. Stefna, lagasetning og reglur Evrópusambandsins á þessu sviði hafa víðtæk áhrif á hér á landi með lögum og reglum sem íslensk stjórnvöld innleiða í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur þannig verið innleidd með tilheyrandi breytingum á stjórn vatnamála og nú vinnur Evrópusambandið að uppfærslu og nánari útfærslu neysluvatnstilskipunarinnar (EU Drinking Water Directive). Aðildarfyrirtæki og félög innan Samorku hafa skýra hagsmuni af því að vita hvað er handan við hornið hjá Evrópusambandinu í vatnamálum og Samorka vill að sama skapi upplýsa þau um það sem er á döfinni. Samorka er aðili að EurEau og vinnur þannig að því að tryggja hagsmuni íslenskra vatns- og fráveitna í Brussel. Fanny Frick-Trzebitzky (t.v.) kynnti rannsókina og Silke Wettach (t.h.) fréttakona stýrði pallborðsumræðum. Þá má rifja upp að í desember s.l. fékk Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Í þessum hópi eru m.a. fjölmörg sveitarfélög og veitufyrirtæki innan Samorku. Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku með Oliver Loebel, framkvæmdastjóra EurEau, sem var meðal þátttakenda í pallborðsumræðunum. Tenglar með frekari upplýsingum: Meira um „European Water Resilience Strategy.“ „Evrópustefnu um viðnámsþrótt vatns.“ https://environment.ec.europa.eu/news/call-evidence-begins-eu-water-resilience-strategy-2025-02-04_en https://www.europarl.europa.eu/legislative-train/theme-sustaining-our-quality-of-life-food-security-water-and-nature/file-european-water-resilience-strategy Stefnumótunarskýrsla ISOE – The Institute for Social-Ecological Research. „Groundwater in Europe – Cornerstone for Resilience.“ https://www.isoe.de/en/publication/groundwater-in-europe-cornerstone-for-resilience Frétt um styrk sem Umhverfisstofnun fékk frá ESB til að tryggja vatnsgæði: https://www.ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2024/12/11/3-5-milljarda-styrkur-til-ad-tryggja-vatnsgaedi-a-Islandi Skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu um viðnámsþrótt vatns https://www.eea.europa.eu/is/highlights/mengun-ofnotkun-og-loftslagsbreytingar-ogna
25. apríl 2025 Fjórar nýjar umsagnir frá Samorku Samorka hefur skilað inn umsögnum um fjögur mál í vikunni. Þetta eru umsagnir um breytingar á raforkulögum (raforkuviðskipti), einföldun og samræmingu leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála, breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og svo tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna. Allar umsagnir Samorku má finna hér.
NORDIWA 2024 Norræna vatnsveituráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn dagana 18. – 20. september 2024. Að ráðstefnunni standa norræn vatnsveitusamtök. Nánari upplýsingar um dagskrá og annað fyrirkomulag má sjá á heimasíðu ráðstefnunnar.
16. júní 2021 Óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna verði eytt Hreint neysluvatn er einn af hornsteinum heilbrigðis og lífsgæða. Vatnið okkar er ein helsta auðlind landsins og aðgengi að því hér á landi er afar gott og gæði þess mikil. Vatnsveitur á Íslandi sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða drykkjarvatni á sanngjörnu verði. Þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki noti mikið vatn er kostnaður vegna kaldavatnsnotkunar langlægstur hér á landi þegar höfuðborgir á Norðurlöndum eru bornar saman. Sterkir og öruggir innviðir eru okkur mikilvægir og mikil sátt ríkir um uppbyggingu þeirra og rekstur. Til þess að vatnsveitur geti áfram sinnt hlutverki sínu til framtíðar þarf að tryggja vatnsveitum nægilegt fjármagn svo þær geti staðið undir rekstrinum og fjárfestingum til framtíðar. Það er meðal annars gert með því að innheimta þjónustugjald og mikilvægt er að það gjald endurspegli raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“. Eins og kunnugt er hefur komið upp ágreiningur um túlkun hugtaksins fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga og í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gengið út frá því að hann taki eingöngu til vaxtakostnaðar af lánum. Þetta er sérstakt í ljósi þess að enginn ágreiningur hefur verið um það hingað til að fjármagnskostnaður tekur bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigin fjár. Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmæti núverandi vatnsgjalds byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, s.s. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Hollandi svo einhver dæmi séu nefnd, er einnig gert ráð fyrir arði af rekstri í gjaldskrám vatnsveitna. Mikilvægt er að eigendum vatnsveitna sé tryggð eðlileg arðsemi þess eigin fjár sem sett er í veitukerfin þannig að ekki sé hikað við að ráðast í fjárfestingar og úrbætur. Slíkir hagrænir hvatar til fjárfestingar tryggja að fyrirtækjum séu búin þau skilyrði að geta fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku hafa lengi átt í viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins um gerð leiðbeininga um forsendur við gerð gjaldskrár vatnsveitna þannig að þær séu skýrar og þar með að þessi grundvallar skilningur á hugtakinu fjármagnskostnaður sé viðurkenndur og þeirri óvissu sem nú er uppi í rekstri vatnsveitna sé eytt.