11. júlí 2025 Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk. Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ „Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni. Ráðherrann stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl. Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur. Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.
11. júlí 2025 Hæstiréttur staðfestir ógildingu á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Rétturinn dæmdi að samkvæmt þágildandi lögum um stjórn vatnamála hafi Umhverfisstofnun verið óheimilt að leyfa breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna virkjunarinnar. Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í júní en segir þó ljóst að framkvæmdum seinki og kostnaður aukist. Landeigendur við Þjórsá höfðu málið á hendur Landsvirkjun og íslenska ríkinu og kröfðust þess að heimildir og leyfi fyrir virkjuninni yrðu felld úr gildi. Mynd: Landsvirkjun Í dómi Hæstaréttar kemur fram að breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpi til laga um stjórn vatnamála frá árinu 2011 hafi verið afdrifaríkar. Lögin voru sett til að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins. Niðurstaða réttarins er að lokaútgáfa 18. greinar laganna útiloki í raun veitingu leyfa til að breyta vatnshlotum vegna nýrra framkvæmda eins og vatnsaflsvirkjana. Upphaflega heimilaði frumvarpið slíkar “nýjar breytingar” með undanþágu Umhverfisstofnunar ef önnur skilyrði laganna væru uppfyllt. Í skýringum með lagagreininni voru vatnsaflsvirkjanir tilteknar sem dæmi um breytingar af þessu tagi. Við þinglega meðferð var greininni hinsvegar breytt þannig að undanþágur væru einungis mögulegar vegna t.d. mengunar eða loftslagsbreytinga, en ekki vegna nýrra framkvæmda. Hæstiréttur telur því að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna Hvammsvirkjunar og þá væri um leið brostinn grundvöllur fyrir virkjanaleyfi Orkustofnunar Landsvirkjun og ríkið héldu því fram niðurstaða héraðsdóms fengi með engu móti staðist enda væri stjórnvöldum þá óheimilt að veita ný leyfi til nýtingar á vatnsaflsauðlindum til raforkuframleiðslu hér á landi eins og gert hafi verið á liðnum áratugum. Jafnframt færi það þvert gegn þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað í orkumálum, m.a. með því að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk. Hæstiréttur segir hinsvegar ljóst að umhverfisnefnd Alþingis “lagði til þá efnisbreytingu á lögunum að vatnshloti yrði ekki breytt vegna áhrifa af nýjum framkvæmdum. Gat þá ekki leikið vafi á að þar með var girt fyrir breytingar á vatnshloti vegna byggingar nýrra vatnsaflsvirkjana,” eins og segir í dómnum. Hæstiréttur bendir líka á að lög verði að vera skiljanleg og borgarar verði að geta treyst því að vilji löggjafans birtist í skýru orðalagi lagatexta. Það stoði því ekki fyrir Landsvirkjun og ríkið að halda því fram Alþingi hafi í raun ætlað að komast að allt annarri niðurstöðu með lagasetningunni. Skipti þá engu máli þó sannfærandi rök hafi verið færð fyrir því. Þá sé það ekki hlutverk dómstóla að leiðrétta slík mistök heldur löggjafans. “Löggjöf verður hverju sinni að endurspegla áherslur og markmið stjórnvalda í orkuskiptum, rafvæðingu og loftslagsmálum.” segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. “Önnur Evrópuríki í þessu skyni endurbætt löggjöf sína, einfaldað og eflt stjórnsýsluferla til að þjóna betur markmiðum sínum.” Finnur segir svo virðast sem Alþingi hafi árið 2011 gert alvarleg mistök sem nú hafi alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu orkumála í landinu. Þetta undirstriki skýrt það sem Samorka hafi lagt áherslu á: “Alla löggjöf þarf að vanda vel svo hún vinni með en ekki gegn markmiðum um orkuöryggi og orkuskipti.” Í kjölfar þess að héraðsdómur felldi virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi í janúar á þessu ári lagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fram frumvarp um breytingu á raforkulögum og um stjórn vatnamála til að eyða lagaóvissu. Þannig yrði hafið yfir allan vafa að fyrrnefnd 18. grein laga um stjórn vatnamála taki til breytinga á vatnshloti, vegna framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjanir. Frumvarpið varð að lögum í júní og á grundvelli þeirrar lagasetningar hyggst Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Landsvirkjun segir í fréttatilkynningu að síðustu áætlanir hafi gert ráð fyrir gangsetningu virkjunarinnar árið 2030 en töfin sem dómur Hæstaréttar hafi í för með sér gæti þýtt umtalsverða seinkun til viðbótar. Viðbótarkostnaður vegna þessa og vegna tafa á undanförnum árum hlaupi á milljörðum. Mest sé þó tapið fyrir íslenskt samfélag sem verði af þeim verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað.
4. júlí 2025 Þingið á lokametrum en flest orku- og veitutengd mál enn óafgreidd Þinglok nálgast og enn er margt óunnið í mikilvægum orku- og veitumálum. Þegar ný ríkisstjórn kynnti þingmálaskrá sína fyrir 156. löggjafarþing síðastliðið vor tók Samorka saman lista yfir tíu þingmál sem hafa beina snertingu við hagsmuni orku- og veitusviðsins. Sex þessara mála höfðu verið lögð fram af fyrri ráðherra, fjögur voru ný. Nú þegar líður að þinglokum hefur aðeins hluti þeirra hlotið fulla meðferð. Af tíu málum voru sjö lögð fram en þrjú sátu eftir, þar á meðal umfjöllun um fimm virkjunarkosti í fimmta áfanga rammaáætlunar. Þau þrjú sem ekki náðu fram eru því að öllum líkindum áfram í biðstöðu, þar til nýtt þing tekur við. Orku og veitutengd mál á þingmálalista yfirstandandi þings. Mál lituð bleikum hafa ekki verið lögð fram á yfirstandandi þingi. Tvö mál hafa verið samþykkt Af þeim sjö málum sem lögð voru fram hefur Alþingi samþykkt tvö. Annars vegar breytingar á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála sem veita Umhverfis- og Orkustofnun heimild til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna. Þar með var brugðist við lagalegri óvissu sem skapaðist eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar vegna skorts á lagaheimild. Hins vegar var samþykkt afhúðunarfrumvarp til breytinga á lögum um umhverfismat, sem færir íslenskt regluverk nær evróputilskipuninni sem lögin byggjast á. Fimm mál í nefnd eða biðstöðu Önnur mál eru ýmist í þingnefndum eða bíða umræðu. Þar á meðal eru tillögur um raforkuöryggi, einföldun leyfisveitinga og breytingar á viðskiptakerfi með raforku. Einnig bíða endurskoðun á þriðja áfanga rammaáætlunar og skýrari málsmeðferðarreglur fyrir áætlunarferlið frekari afgreiðslu. Samorka sendi inn umsagnir um þrjú mál í júní; um áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga, um áform um endurskoðun sveitarstjórnarlaga og um drög að forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB. Hægt er að lesa allar umsagnir Samorku hér.
20. júní 2024 Hröð þróun til rafvæðingar Helmingur allrar raforku í heiminum verður framleidd úr vind- og sólarorku árið 2040 og hækkar upp í 70% árið 2050. Raforkuþörf heimsins tvöfaldast til ársins 2050 og raforka verður að langstærstum hluta kolefnishlutlaus sama ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu DNV, Energy Transition Outlook: New Power Systems. Í skýrslunni kemur fram að flutningskerfi raforku leiki algjört lykilhlutverk svo þetta geti orðið að veruleika. Flutningsgeta þeirra þurfi að tvöfaldast og innleiða þurfi nýjar lausnir til snjallvæðingar. Þá er einnig lögð áhersla á rafeldsneyti og orkugeymslur auk þess að endurskoða þurfi orkumarkaði svo þeir séu nægilega sveigjanlegir. DNV telur að samkeppnishæfni þjóða komi til með að ráðast af getuþeirra til að aðlagast þessum breyttu orkukerfum og aukinni raforkuþörf hratt og vel. Lesa má skýrslu DNV hér.
20. febrúar 2024 Viljayfirlýsing um orkuskipti og orkuöryggi Landsnet, ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Vestmannaeyjabær, HS Veitur og aðilar úr atvinnulífinu í Vestmannaeyjum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið afhendingaröryggi og leiðir í átt að fullum orkuskiptum. Fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir raforku mun aukast verulega í Vestmannaeyjum í ljósi stefnu stjórnvalda í orkuskiptum. Til að það verði hægt þarf að leggja tvo nýja rafstrengi, Vestmannaeyjastrengi 4 og 5. Viðskiptalegar forsendur eru fyrir lagningu beggja strengjanna samtímis og mikill vilji og áhugi iðnaðar í Vestmannaeyjum til að vaxa og stuðla að orkuskiptum. Undirritun yfirlýsingarinnar Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir ánægjulegt að geta fylgt eftir þeim tillögum sem fram komu í nýútgefinni skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem varða málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. „Við höfum séð það í vetur og Eyjamenn hafa fundið fyrir því undanfarna vetur að orkuöryggi er ábótavant í Vestmannaeyjum. Það var ein af ábendingum í skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem við koma mínu ráðuneyti síðasta haust að tryggja þurfi orkuöryggi Eyjamanna. Það er ánægjulegt að sjá að Landsnet ætlar að bregðast við stöðunni með því að flýta lagningu strengja til Vestmannaeyja og hefja framkvæmdir á næsta ári. Þetta er mikilvægur þáttur í því að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.“ Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að lagning strengjanna sé lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi í Eyjum. „Raforkuöryggi skiptir íbúa og fyrirtæki í Eyjum miklu máli. Því hefur verið ábótavant eins og kom bersýnilega í ljós þegar bilun varð í VM3. Ef horfa á til orkuskipta í Vestmannaeyjum þá verður að tryggja öruggan flutning raforku og hringtengingu. Þessir tveir nýju strengir tryggja það öryggi og eru þeir braut til orkuskipta. Það er afar ánægjulegt að Landsnet skuli hafa flýtt þessu verkefni og ætli að klára það árið 2025.“ Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nú þegar hafi verið ákveðið að flýta lagningu á nýju Vestmannaeyjastrengjunum og tryggja þannig afhendingaröryggi raforku í Vestmannaeyjum. „ Ákvörðun um lagningu á nýjum Vestmannaeyjastreng hefur verið í umræðunni um tíma og höfum við nú þegar ákveðið að flýta framkvæmdum og leggja strengina samhliða sumarið 2025 til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í Vestmannaeyjum og um leið að stuðla að orkuskiptum í Eyjum. Það er líka æskilegt að leggja tvo strengi samtímis og verður fjárfestingin þannig arðbærari til lengra tíma litið. Það kom berlega í ljós síðasta vetur þegar Vestmannaeyjastrengur 3 bilaði hvað það getur verið erfitt að eiga við bilanir á sjó, á svæði sem er erfitt viðureignar og því mikilvægt að geta tryggt að hægt sé að flytja raforku inn á svæðið.“ Páll Erland forstjóri HS Veitna segir tilkomu tveggja nýrra rafstrengja Landsets vera stórt skref í að auka raforkuöryggi í Vestmannaeyjum og að traustir raforkuinnviðir, bæði flutnings- og dreifikerfin, séu forsenda orkuskipta bæði heimila og atvinnulífs. „HS Veitur ætla að vinna að árangri í loftslagsmálum í Vestmannaeyjum með fjárfestingu í raforkuinnviðum þannig að hægt verði að tengja nýju rafstrengina VM4 og VM5 við dreifikerfi HS Veitna, sem er forsenda þess að þeir nýtist heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum við orkuskipti og vöxt atvinnulífs.“ Hér er hægt að nálgast viljayfirlýsinguna.