Hröð þróun til rafvæðingar

Helmingur allrar raforku í heiminum verður framleidd úr vind- og sólarorku árið 2040 og hækkar upp í 70% árið 2050. Raforkuþörf heimsins tvöfaldast til ársins 2050 og raforka verður að langstærstum hluta kolefnishlutlaus sama ár.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu DNV, Energy Transition Outlook: New Power Systems.

Í skýrslunni kemur fram að flutningskerfi raforku leiki algjört lykilhlutverk svo þetta geti orðið að veruleika. Flutningsgeta þeirra þurfi að tvöfaldast og innleiða þurfi nýjar lausnir til snjallvæðingar. Þá er einnig lögð áhersla á rafeldsneyti og orkugeymslur auk þess að endurskoða þurfi orkumarkaði svo þeir séu nægilega sveigjanlegir.

DNV telur að samkeppnishæfni þjóða komi til með að ráðast af getuþeirra til að aðlagast þessum breyttu orkukerfum og aukinni raforkuþörf hratt og vel.

Lesa má skýrslu DNV hér.

Viljayfirlýsing um orkuskipti og orkuöryggi

Landsnet, ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Vestmannaeyjabær, HS Veitur og aðilar úr atvinnulífinu í Vestmannaeyjum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið afhendingaröryggi og leiðir í átt að fullum orkuskiptum.

Fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir raforku mun aukast verulega í Vestmannaeyjum í ljósi stefnu stjórnvalda í orkuskiptum. Til að það verði hægt þarf að leggja tvo nýja rafstrengi, Vestmannaeyjastrengi 4 og 5. Viðskiptalegar forsendur eru fyrir lagningu beggja strengjanna samtímis og mikill vilji og áhugi iðnaðar í Vestmannaeyjum til að vaxa og stuðla að orkuskiptum. 

Tekið við undirriturn yfirlýsingarinnar
Undirritun yfirlýsingarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir ánægjulegt að geta fylgt eftir þeim tillögum sem fram komu í nýútgefinni skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem varða málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

„Við höfum séð það í vetur og Eyjamenn hafa fundið fyrir því undanfarna vetur að orkuöryggi er ábótavant í Vestmannaeyjum. Það var ein af ábendingum í skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem við koma mínu ráðuneyti síðasta haust að tryggja þurfi orkuöryggi Eyjamanna. Það er ánægjulegt að sjá að Landsnet ætlar að bregðast við stöðunni með því að flýta lagningu strengja til Vestmannaeyja og hefja framkvæmdir á næsta ári. Þetta er mikilvægur þáttur í því að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.“  

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að lagning strengjanna sé lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi í Eyjum.

„Raforkuöryggi skiptir íbúa og fyrirtæki í Eyjum miklu máli. Því hefur verið ábótavant eins og kom bersýnilega í ljós þegar bilun varð  í VM3.  Ef horfa á til orkuskipta í Vestmannaeyjum þá verður að tryggja öruggan flutning raforku og hringtengingu. Þessir tveir nýju strengir tryggja það öryggi og eru þeir braut til orkuskipta. Það er afar ánægjulegt að Landsnet skuli hafa flýtt þessu verkefni og ætli að klára það árið 2025.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nú þegar hafi verið ákveðið að flýta lagningu á nýju Vestmannaeyjastrengjunum og tryggja þannig afhendingaröryggi raforku í Vestmannaeyjum.

„ Ákvörðun um lagningu á nýjum Vestmannaeyjastreng hefur verið í umræðunni um tíma og höfum við nú þegar ákveðið að flýta framkvæmdum og leggja strengina samhliða sumarið 2025 til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í Vestmannaeyjum og um leið að stuðla að orkuskiptum í Eyjum.  Það er líka æskilegt að leggja tvo strengi samtímis og verður fjárfestingin þannig arðbærari til lengra tíma litið. Það kom berlega í ljós síðasta vetur þegar Vestmannaeyjastrengur 3 bilaði hvað það getur verið erfitt að eiga við bilanir á sjó, á svæði sem er erfitt viðureignar og því mikilvægt að geta tryggt að hægt sé að flytja raforku inn á svæðið.“

Páll Erland forstjóri HS Veitna segir tilkomu tveggja nýrra rafstrengja Landsets vera stórt skref í að auka raforkuöryggi í Vestmannaeyjum og að traustir raforkuinnviðir, bæði flutnings- og dreifikerfin, séu forsenda orkuskipta bæði heimila og atvinnulífs.

„HS Veitur ætla að vinna að árangri í loftslagsmálum í Vestmannaeyjum með fjárfestingu í raforkuinnviðum þannig að hægt verði að tengja nýju rafstrengina VM4 og VM5 við dreifikerfi HS Veitna, sem er forsenda þess að þeir nýtist heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum við orkuskipti og vöxt atvinnulífs.“   

Hér er hægt að nálgast viljayfirlýsinguna.