113 þúsund heimsóttu virkjanir 2014

Nokkur orkufyrirtæki hafa byggt upp gestastofur til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2014 var gestafjöldi í nokkrum af helstu gestastofunum um 113 þúsund gestir. Þar af voru um 94 þúsund sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af fræðimönnum við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, en þar segir að hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hérlendis veki athygli ferðamanna. Um 12.500 heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun og Kröfluvirkjun, tæplega 5.800 heimsóttu orkuverið á Reykjanesi og sýninguna Orkuverið Jörð og um 700 tóku þátt í skipulögðum gönguferðum um Reykjanes sem styrktar eru af Bláa lóninu, HS Orku og HS Veitum.

Rannsóknin fjallar um áhrif vindmylla í Búrfellslundi á ferðaþjónustu og íbúa og var unnin í samstarfi við Landsvirkjun. Rannsókninni stýrðu Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, og Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræði við sama skóla. Ofangreindar upplýsingar um heimsóknir í gestastofur orkufyrirtækja má nálgast í skjalinu hér á vef Landsvirkjunar (sjá kafla 2.2, bls. 17 (22 í rafrænu skjali).

Dalvíkurbyggð hefur látið gera skýrslu um smávirkjanir

Að frumkvæði sveitarfélagsins hefur Mannvit gert úttekt og lagt fram skýrslu um helstu virkjunarkosti í byggðarlaginu. Efni fundarins var fyrst og fremst kynning á skýrslunni, sem höfundar hennar önnuðust. Þá voru einnig flutt erindi um raforkuöryggi í Eyjafirði, raforkuflutning, raforkumarkaðinn, tækifæri fyrir smávirkjanir, beislun vindorkunnar og tengingar smávirkjana við orkukerfið.

Dagskrá fundarins og skýrslu Mannvits er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar: Smellið hér

Fundurinn var fjölsóttur og fram kom mikill áhugi fundarmanna um beislun orkunnar í héraði, en einnig voru skiptar skoðanir á flutningi raforku milli landshluta.

Samorka þakkar Dalvíkurbyggð fyrir það frumkvæði sem sveitarfélagið sýnir með gerð og kynningu þessa verkefnis.