11. júlí 2025 Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk. Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ „Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni. Ráðherrann stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl. Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur. Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.
13. maí 2015 Orkukostir færðir aftur í nýtingarflokk Nú er til umfjöllunar á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun. Í því samhengi er ástæða til að minna á að við afgreiðslu 2. áfanga rammaáætlunar á Alþingi í janúar 2013 voru sex orkukostir færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Um er að ræða Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Hágönguvirkjun I og II og Skrokkölduvirkjun. Áður höfðu tólf orkukostir verið færðir í átt frá nýtingu til verndar í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta. Samorka hefur ítrekað gagnrýnt þessa meðhöndlun á faglegum niðurstöðum 2. áfanga verkefnisstjórnar. Undir þá gagnrýni hafa ýmsir aðrir tekið, t.d. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Samorka hefur þó aldrei haldið því fram að Alþingi hefði ekki lagalega heimild til að gera umræddar breytingar. Forsenda sáttar um málaflokkinn hefði hins vegar, að mati Samorku, falist í því að fylgt yrði faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar. Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley Tveir aðrir orkukostir, Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley, höfðu talsverða sérstöðu í niðurstöðum verkefnisstjórnar og í umfjöllun nefndarálits þáverandi meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þar sem tiltekin gögn höfðu misfarist í fórum verkefnisstjórnar og ákveðnum fyrirvörum því ekki svarað. Báðir fengu kostirnir engu að síður jákvæða umfjöllun í verkefnisstjórn og í kjölfarið hefur komið í ljós að þegar lágu fyrir gögn sem svara með jákvæðum hætti fyrrnefndum fyrirvörum. Í skipunarbréfi núverandi verkefnisstjórnar, dags. 25. mars 2013, var henni gert að skila áfangaskýrslu innan árs þar sem sérstaklega skyldi gerð grein fyrir ofangreindum átta orkukostum. Síðar var gefinn út viðauki við skipunarbréfið, dags. 12. júlí 2013, þar sem verkefnisstjórn var falið að fjalla svo fljótt sem auðið væri um umrædda átta kosti. Samkvæmt breytingartillögu við þingsályktunartillöguna sem nú er til umfjöllunar á Alþingi verða alls fimm af þessum átta orkukostum færðir í nýtingarflokk. Að mati Samorku væri rétt að færa alla átta kostina í nýtingarflokk, en sex þeirra hafði þegar verið raðað þangað fyrir afgreiðslu Alþingis í janúar 2013 og um hina tvo gilda afar sérstakar aðstæður og ekki efni til að viðkomandi kostum sé haldið í biðstöðu til fjölda ára. Nýtingarflokkur ekki sama og virkjunarframkvæmdir Rétt er að minna á, að röðun orkukosts í nýtingarflokk rammaáætlunar þýðir ekki að hafist verði handa við að virkja. Að lokinni röðun í nýtingarflokk tekur við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, auk skipulagsferla og ferla leyfisveitinga. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða.