Orkukostir færðir aftur í nýtingarflokk

Nú er til umfjöllunar á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun. Í því samhengi er ástæða til að minna á að við afgreiðslu 2. áfanga rammaáætlunar á Alþingi í janúar 2013 voru sex orkukostir færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Um er að ræða Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Hágönguvirkjun I og II og Skrokkölduvirkjun. Áður höfðu tólf orkukostir verið færðir í átt frá nýtingu til verndar í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta.

Samorka hefur ítrekað gagnrýnt þessa meðhöndlun á faglegum niðurstöðum 2. áfanga verkefnisstjórnar. Undir þá gagnrýni hafa ýmsir aðrir tekið, t.d. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Samorka hefur þó aldrei haldið því fram að Alþingi hefði ekki lagalega heimild til að gera umræddar breytingar. Forsenda sáttar um málaflokkinn hefði hins vegar, að mati Samorku, falist í því að fylgt yrði faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar.

Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley
Tveir aðrir orkukostir, Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley, höfðu talsverða sérstöðu í niðurstöðum verkefnisstjórnar og í umfjöllun nefndarálits þáverandi meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, þar sem tiltekin gögn höfðu misfarist í fórum verkefnisstjórnar og ákveðnum fyrirvörum því ekki svarað. Báðir fengu kostirnir engu að síður jákvæða umfjöllun í verkefnisstjórn og í kjölfarið hefur komið í ljós að þegar lágu fyrir gögn sem svara með jákvæðum hætti fyrrnefndum fyrirvörum. Í skipunarbréfi núverandi verkefnisstjórnar, dags. 25. mars 2013, var henni gert að skila áfangaskýrslu innan árs þar sem sérstaklega skyldi gerð grein fyrir ofangreindum átta orkukostum. Síðar var gefinn út viðauki við skipunarbréfið, dags. 12. júlí 2013, þar sem verkefnisstjórn var falið að fjalla svo fljótt sem auðið væri um umrædda átta kosti.

Samkvæmt breytingartillögu við þingsályktunartillöguna sem nú er til umfjöllunar á Alþingi verða alls fimm af þessum átta orkukostum færðir í nýtingarflokk. Að mati Samorku væri rétt að færa alla átta kostina í nýtingarflokk, en sex þeirra hafði þegar verið raðað þangað fyrir afgreiðslu Alþingis í janúar 2013 og um hina tvo gilda afar sérstakar aðstæður og ekki efni til að viðkomandi kostum sé haldið í biðstöðu til fjölda ára.

Nýtingarflokkur ekki sama og virkjunarframkvæmdir
Rétt er að minna á, að röðun orkukosts í nýtingarflokk rammaáætlunar þýðir ekki að hafist verði handa við að virkja. Að lokinni röðun í nýtingarflokk tekur við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, auk skipulagsferla og ferla leyfisveitinga. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða.