Meiri endurnýjanleg orka til hitunar og kælingar er lykill að orkuskiptum innan ESB 

Evrópskur samstarfsvettvangur um tækni og nýsköpun vegna sjálfbærrar hitunar og kælingar1 stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 7. maí sem bar yfirskriftina „Collaborative Pathways to Sustainable Heating and Cooling“ eða „Samstarfsleiðir að sjálfbærri hitun og kælingu.“ 

Þeir sem sátu ráðstefnuna komu úr ýmsum áttum, s.s. sérfræðingar úr vísindasamfélaginu, fulltrúar fyrirtækja, hagsmunasamtaka og sérfræðingar frá Evrópusambandinu.  Árið 2023 stóðu endurnýjanlegir orkugjafar undir 26.2% af heildarorkunotkun vegna hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. Vera má að sú tala hafi hækkað eitthvað síðan en það er greinilega verk að vinna að auka hlut grænna orkugjafa og minnka þá um leið notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki síst þegar Evrópusambandið ætlar í áföngum að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi fyrir árslok 2027. Orka sem notuð er til hitunar og kælingar er um helmingur af heildarorkunotkun í aðildarríkjum Evrópusambandsins. ESB hefur því lagt ríka áherslu á að minnka kolefnislosun í þessum geira með því að hraða orkuskiptum enda sé það forsenda fyrir því að ná markmiðum ESB í orku- og loftslagsmálum.  

Beatrice Coda frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Evrópusambandsins. 

Fyrirlesarar á ráðstefnunni litu margir til framtíðar, kynntu nýjungar á þessu sviði og ræddu einnig helstu áskoranir og tækifæri í pallborðsumræðum.  Athyglisvert er að sjá hvernig ólíkir orkugjafar eru notaðir til hitunar og kælingar i Evrópu Þar má helst nefna sólarorku, lífefnaeldsneyti og varmadælur og svo auðvitað jarðhita.  Nýsköpun á þessu sviði veltur m.a. á framlögum frá Evrópusambandinu og fulltrúi ESB á ráðstefnunni var einmitt  frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnar ESB, Beatrice Coda. Hún benti m.a. á að Horizon Europe, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, hefði veitt verulegu fé til fjölmargra verkefna til að styðja við þróun endurnýjanlegra orkulausna  fyrir hitun og kælingu. Íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskólar geta sótt um styrki úr Horizon og hefur orðið vel ágengt, m.a. í að fá styrki til nýtingar jarðhita. 

Fulltrúar víða að sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður voru líflegar. 

Þá hyggst Evrópusambandið efla hlut jarðvarma með sérstakri aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi og á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Samorka mun fylgjast grannt með því ferli enda er Ísland í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma og hefur því margt fram að færa. 

Meira um ráðstefnuna: 100% RHC Event 2025 – RHC 

Stefnumótun ESB um hitun og kælingu: Heating and cooling 

Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita

Loftslags- og orkusjóður auglýsir einn milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita.

Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025.

Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar.
  2. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir
  3. Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum.
  4. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu.   

Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna.  

Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni.

Umsóknarfrestur er til 1. maí 2025.

Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.

Styrkir til jarðhitaleitar

Ákveðið hefur verið að ráðast í átak í jarðhitaleit og frekari nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Átakinu er ætlað að styðja við
loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar, sem og markmið í orkumálum í fjármálaáætlun 2024-
2028; um tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn, aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í
orkubúskap Íslands og jöfnun orkukostnaðar á landsvísu.

Átakið miðar að því að veita stuðning við verkefni sem hafa það að markmiði að hefja nýtingu
jarðhita til almennrar húshitunar, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til
húshitunar. Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatn
sem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlæga
varmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar.

Áhersla er lögð á að styrkja verkefni þar sem nokkur þekking á jarðhita viðkomandi svæðis er
fyrir hendi og snúa þá að því að hefja nýtingu eða frekari rannsóknum með vísan í fyrri
niðurstöður.

Umsóknafrestur er til 3. júlí 2023.  

Til ráðstöfunar eru 450 m.kr.  

Orkusjóði hefur verið falin umsjón með auglýsingu og umsýslu styrkjanna. Umsóknir skulusendar til Orkusjóðs í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: https://gattin.os.is  

Hér má finna reglur um Jarðhitaleitarstyrki

Hugum að hitaveitunni til framtíðar

Auður Agla Óladóttir, jarðfræðingur, er ein skýrsluhöfunda um stöðu hitaveitna á Íslandi sem unnin var af ÍSOR fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Hún lendir sífellt oftar í því að fólk vill spjalla við hana um hitaveitur á hliðarlínunni á fótboltamótunum í kjölfar skerðinga á heitu vatni í vetur. Mögulega hafi fólk verið vakið til umhugsunar um að jarðhitaauðlindin er ekki sjálfgefin. Auður Agla er talskona hitaveitunnar fram í fingurgóma og ræðir hér niðurstöður skýrslunnar og alls konar annað er viðkemur jarðhitaauðlindinni.

Hitaveitur komnar í hámarks afkastagetu

Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist mjög mikið á skömmum tíma. Staðan er nú orðin þannig að núverandi vinnslusvæði eru komin í hámarks afkastagetu og það er því stór áskorun fyrir hitaveitur að anna þessari eftirspurn. Þá blasir við að hún eigi enn eftir að aukast mikið samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060. Jarðhitaleit, leyfisveitingar og rannsóknir taka langan tíma og því engin lausn í sjónmáli. Komið geti til skerðinga á heitu vatni á köldustu dögum ársins.

Um þetta var fjallað á opnum fundi Samorku fimmtudaginn 17. nóvember undir yfirskriftinni Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?

Fulltrúar þriggja hitaveitna kynntu stöðuna eins og hún er í dag og hvernig aukin eftirspurn hefur haft áhrif á starfsemi þeirra. Þá kynnti Orkustofnun jarðvarmaspána og nýja orkunýtnitilskipun Evrópusambandsins. Að lokum var hvatt til vitunarvakningar meðal almennings um að fara vel með heita vatnið og sóa því ekki að óþörfu.

Upptöku af fundinum má sjá neðst í færslunni.

Hér má sjá svipmyndir frá fundinum í Hörpu. Ljósmyndir: BIG

Rammaáætlun afgreidd eftir níu ára bið

Þriðji áfangi áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, var í dag afgreiddur á Alþingi. Níu ár eru liðin frá því að vinna verkefnisstjórnar hófst við þriðja áfanga, sem hefur ekki tekist að samþykkja fyrr en nú.

Alþingi afgreiddi áfangann með nokkrum breytingum frá upprunalegri tillögu verkefnisstjórnar. Alls voru sjö kostir færðir í biðflokk. Fjór­ir þeirra voru áður í vernd­ar­flokki rammaáætlunar og þrír í nýtingarflokki. Vindorkukosturinn Búrfellslundur færðist í nýtingarflokk, en hann var áður í biðflokki.

Þannig eru í fyrsta skipti vindorkukostir í nýtingarflokki gildandi rammaáætlunar. Um er að ræða Búrfellslund (120 MW) og Blöndulund (100 MW). Landsvirkjun er virkjunaraðili þeirra beggja.

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Mikilvægt framfaraskref fyrir byggðina í Hornafirði var stigið á dögunum þegar Hitaveita Hornafjarðar var formlega tekin í notkun.

Lagningu nýrrar hitaveitu fyrir Höfn og hluta Nesja er nú að ljúka. Heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var hleypt á stærstan hluta Hafnar síðastliðinn vetur en nú hefur dreifikerfi verið lagt í þann hluta sem áður var með beina rafhitun. Nú eiga því allir íbúar Hafnar möguleika á því að tengjast hitaveitunni.

Hluti hópsins við borholuhús RARIK í Hoffelli.

Síðustu áratugi hefur verið rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta hitaveitu á Höfn og voru ¾ húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn sem nýtt var í dreifikerfi veitunnar. Síðustu ár hefur verð á ótryggðri raforku hækkað verulega og framboð á henni verið mikilli óvissu háð. Því var forsenda fyrir óbreyttum rekstri fjarvarmaveitunnar ekki lengur fyrir hendi.

Matthildur Ásmundsdóttir bæjarstjóri, Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri og Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK.

Hitaveita Hornafjarðar er í eigu RARIK sem hefur sett mikla vinnu og fjármuni í leit að heitu vatni á undanförnum árum. Skipulögð leit að virkjanlegum jarðhita í Austur Skaftafellssýslu hefur staðið yfir frá því upp úr 1990 og hafa verið boraðar samtals 54 rannsóknaholur og fimm 1100 til 1750 metra djúpar vinnsluholur í landi Hoffells. Frá 1992 til 2002 kostuðu sveitarfélagið Hornafjörður og Orkustofnun jarðhitaleitina en RARIK kom að verkefninu 2002. Fram til 2006 voru boraðar 33 rannsóknaholur en eftir að RARIK keypti jarðhitaréttindin í Hoffelli 2012 hefur verið boruð 21 rannsóknahola til viðbótar og áðurgreindar fimm vinnsluholur.

Nánari upplýsingar um nýju hitaveituna í Hornafirði má sjá á heimasíðu RARIK.

Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku

Sara Björk, landsliðskona í knattspyrnu, tekur þátt í heimsmeistarakeppninni í endurnýjanlegri orku. Fetar hún í fótspor samherja síns hjá frönsku meisturunum Lyon, Ada Hegerberg, sem setti keppnina á vegum Energi Norge.

Keppnin var sett af stað til að minna á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum og gera úr því góðlátlega keppni á milli landa. Samorka ákvað að taka áskorun Energi Norge og taka þátt.

Ísland stendur vel að vígi í þessari heimsmeistarakeppni. Ísland framleiðir eingöngu endurnýjanlega orku, en jarðefnaeldsneyti er enn notað í samgöngur. Alls er 83% af allri orku sem notuð er innanlands endurnýjanleg. Það er hins vegar hægt að fara alla leið.

Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu og loftslaginu hlíft við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum.

Frekari upplýsingar um hvar Ísland stendur í orkumálum má sjá hér.

 

Nýir forstöðumenn hjá Veitum

Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu.

Hrefna Hallgrímsdóttir er nýr forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum og Diljá Rudolfsdóttir er nýr forstöðumaður snjallvæðingar.

Hrefna tekur við stóru búi en Veitur reka þrettán hitaveitur sem þjóna um 65% íslensku þjóðarinnar. Fimm hitaveitnanna eru á Vesturlandi, sjö á Suðurlandi og sú langstærsta er á höfuðborgarsvæðinu. Heita vatnið í hana er fengið frá virkjunum systurfélagsins Orku náttúrunnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og úr borholum Veitna á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ.

Hrefna útskrifaðist með B.Sc í vélaverkfræði frá Háskóla Reykjavíkur árið 2013 og hefur starfað hjá Elkem Ísland síðustu 12 ár sem framkvæmdastjóri og leiðtogi.

 

Diljá Rudólfsdóttir, forstöðukona snjallvæðingar og stafrænnar þróunar.

Diljá mun vinna að gerð hermilíkana af veitukerfum sem nýta má til að gera rekstur þeirra hagkvæmari

og öruggari og tengja þau nýju snjallmælakerfi sem Veitur munu taka í notkun á næstu árum. Einnig mun hún leggja áherslu á notkun gervigreindar og snjallvæðingar í þjónustu við viðskiptavini Veitna.

Diljá útskrifaðist með B.Sc. gráðu í gervigreind (Artificial Intelligence) frá Háskólanum í Edinborg árið 2013. Hún hefur síðan unnið við stafræna innleiðingu og snjallvæðingu hjá fjármálafyrirtækjum og bönkum í Skotlandi, m.a. hjá lífeyrissjóðnum Standard Life, Tesco Bank og Fortune 500 fyrirtækinu FIS sem býður upp á margvíslegar fjármála- og hugbúnaðarlausnir og þjónustu.