17. október 2025 Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita Þingmenn á Evrópuþinginu lýstu eindregnum stuðningi við stóraukna nýtingu jarðhita í umræðum í dag 16. október. Þeir sögðu að þessi endurnýjanlega orkulind væri mjög vannýtt í álfunni en ryðja þyrfti hindrunum úr vegi til að efla vinnslu á jarðhita til húshitunar og fleiri nota. Einn þingmaður benti á Ísland sem dæmi um land þar sem hægt væri að hafa fjárhagslegan hagnað af jarðhitanýtingu. Umræðan var á vegum orkunefndar Evrópuþingsins. Þingmenn sem tóku til máls sögðu að hægt væri að finna jarðhita og nýta hann víða í Evrópu ekki síst þegar borað er dýpra þar sem hitinn er meiri. Lághitinn væri auðvitað nýtanlegur og varmadælur bar einnig á góma. Mikilvægt væri að efla rannsóknir og kortlagningu jarðhita, skýra og bæta ferli leyfisveitinga og tryggja að nærsamfélagið væri með í ráðum þegar ráðist væri í boranir og vinnslu. Í umræðunni kom líka fram að hægt væri að auka orkuöryggi og stórminnka notkun á gasi til hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. ESB hefur einmitt sett sér það markmið að hætta alfarið að kaupa gas af Rússlandi fyrir lok ársins 2027. Margir þingmanna bentu á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun til jarðhitaverkefna þar sem upphafskostnaður væri gjarnan töluverður, áhætta fyrir hendi og ákveðin óvissa um árangur. Uppskeran gæti þó að sama skapi verið mikil. Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er einnig að undirbúa aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Hún er hluti af víðtækari stefnu um hitun og kælingu. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands í jarðhitanýtingu. Evrópuþingmenn binda greinilega vonir við aðgerðaáætlunina og spurðu fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar á nefndarfundinum um helstu áherslur í henni. Þau svör fengust að samráð vegna vinnslu áætlunarinnar væri í fullum gangi og athyglin beindist einmitt að leyfisveitingum og fjármögnun auk þess sem tekið yrði mið af jarðhitaverkefnum í Evrópu sem gengið hafa vel. Landsvirkjun og Orka náttúrunnar sendu einnig inn umsagnir í samráðsgáttina ásamt íslenskum stjórnvöldum. Vonir eru bundnar við að þær upplýsingar, dæmi um verkefni og almenn sjónarmið gagnist sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar sem voru líka þátttakendur í pallborðsumræðum á Our Climate Future-ráðstefnunni í Brussel um nýtingu jarðhita, þriðjudaginn 14. október s.l. Með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í pallborði voru stjórnendur íslenskra orkufyrirtækja sem eru í forystu í nýtingu jarðhita – Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og HS Orku auk stjórnarformanns Samorku, Sólrúnar Kristjánsdóttur. Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen sagði í opnunarræðu ráðstefnunnar að Ísland vísaði veginn í nýtingu jarðhita og möguleikarnir væru miklir á þessu sviði. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sagði að Ísland væri tilbúið til samstarfs með því að deila reynslu og þekkingu á nýtingu jarðhita. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra bauð gesti velkomna og deildi m.a. með fundargestum frásögn af hraunhitaveitunni í heimabæ sínum Vestmannaeyjum. Sjá hér að neðan upptöku af umræðum Evrópuþingmanna um jarðhita, 16. október. Umræðan stendur í um 50 mínútur og byrjar ca. 35 mínútur inn í upptökuna: Committee on Industry, Research and Energy Ordinary meeting – Multimedia Centre: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita Hér er einnig hægt að skoða umsagnir sem Samorka, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og íslensk stjórnvöld sendu inn í samráðsgátt ESB vegna stefnu um hitun og kælingu – þ.á.m. jarðhita: https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy/feedback_en?p_id=20290: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita
24. september 2025 Um milljarði úthlutað í jarðhitaleit Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt niðurstöður úr jarðhitaleitarátaki sem opnað var í vor. Markmið átaksins er að stuðla að aukinni nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notast við rafmagn eða olíu. Alls bárust 48 umsóknir frá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og aðilum í þeirra umboði. Verkefnin voru fjölbreytt en heildarkostnaður verkefna sem sótt var um nam 6.093 m.kr. og sótt var um 4.082 m.kr. í styrki. Alls hljóta 18 verkefni styrk: 8 verkefni sem snúa að jarðhitarannsóknum 8 verkefni sem tengjast uppsetningu varmadælna 2 verkefni sem miða að uppbyggingu varmageymslna Mögulegur ávinningur af verkefnunum er verulegur. Með frekari borunum, varmadælum og varmageymslum gæti allt að 80 GWh af vetrarraforku losnað á næstu árum. Þá gæti árangur í jarðhitaleit bætt við um 40 GWh. Mat umsókna var í höndum Loftlags- og orkusjóðs í samvinnu við Umhverfis- og orkustofnun. Hér má sjá verkefnin sem fengu úthlutað úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um úthlutunina og forsendur fyrir henni má sjá í skýrslu Umhverfis- og orkustofnunar; Jarðhiti jafnar leikinn.
26. ágúst 2025 Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða. Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum. Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði: Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar. Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land. Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar. Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna. Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: Umsögn Samorku Atvinnustefna S.144.2025Download
11. júlí 2025 Vöxtur í nýtingu jarðhita í Evrópu Vöxtur er í nýtingu og leit að jarðhita í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu sem European Geothermal Energy Council (EGEC), samtök evrópska jarðhitageirans, kynntu þann 11. júlí. Forysta EGEC bindur miklar vonir við væntanlega aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í jarðhita. Í skýrslu EGEC kemur m.a. fram að alls voru 147 jarðhitavirkjanir í rekstri í Evrópu í lok 2024 og um 50 til viðbótar eru í undirbúningi á mismunandi þróunarstigum. Hitaveitur í Evrópu (Geothermal District Heating and Cooling) eru nú rúmlega 400 talsins og áætlanir eru uppi um að bæta um 500 við, sem nemur þá meira en tvöföldun á fjöldanum. Jarðhitaholur í Póllandi Sala á jarðvarmadælum dróst saman á árinu 2024 en vonir standa til að hún aukist aftur, m.a. með aðgerðaáætlun ESB í jarðhita (Geothermal Action Plan) sem framkvæmdastjórn ESB hyggst kynna snemma á næsta ári. Leit að jarðhita og tengdar rannsóknir eru í miklu vexti, samkvæmt skýrslunni. Þar á meðal er ætlunin að bora fjölmargar holur í tengslum við þær nýju jarðhitavirkjanir sem eru á teikniborðinu eða eru lengra komnar í undirbúningi. „Leiðin liggur upp á við í jarðhitageiranum, með nýjum borverkefnum, virkjunum og hitaveitum,“ er haft eftir Miklos Antics forseta EGEC í fréttatilkynningu frá samtökunum sem Samorka er aðili að. Antics leggur einnig áherslu á mikilvægi aðgerðaáætlunar ESB til að jarðhiti fái m.a. viðurkenningu sem einn hornsteina orkuskipta. Philippe Dumas, framkvæmdastjóri EGEC telur að aðgerðaáætlunin geti t.d. verið í lykilhlutverki í að einfalda leyfisveitingar fyrir ný jarðhitaverkefni. Það ætti um leið að ýta undir áhuga fjárfesta. Jarðhitavirkjun í Rúmeníu
18. júní 2025 Miklir möguleikar í nýtingu jarðhita í Evrópu Fulltrúar jarðhitageirans í Evrópu segja mikilvægt að væntanleg aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um að efla nýtingu jarðhita ýti undir fjárfestingar í þessum geira. Þetta kom fram á jarðvarmaráðstefnu í Brussel þann 17. júní. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB tóku undir að hægt væri að auka verulega vinnslu jarðvarma á meginlandinu til að framleiða raforku, til húshitunar og kælingar. Fulltrúi pólskra stjórnvalda sagði einnig frá áætlunum að auka stórlega nýtingu jarðhita þar í landi. Paula Rey Garcia sagði frá áherslum framkvæmdastjórnar ESB í nýtingu jarðvarma. Hagsmunasamtök jarðhitageirans í Evrópu „European Geothermal Energy Council” (EGEC) skipulögðu ráðstefnuna sem bar yfirskriftina „Geothermal Cities – How can the EU‘s Geothermal Action Plan unlock investments?“ Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur nú að undirbúningi fyrrnefndrar aðgerðaáætlunar og hyggst birta hana snemma á næsta ári. Dan Jørgensen, orkumálastjóri ESB sagði í mars s.l. að jarðvarmi hafi mikilvægu hlutverki að gegna í orkuskiptum innan Evrópusambandsins. Hinsvegar hafi greinin þurft að glíma við hindranir, t.d. vegna leyfisveitinga og skorts á fjármagni. Fulltrúar á ráðstefnu EGEC hvöttu til þess að þeim hindrunum verði rutt úr vegi því þannig mætti vekja þennan „sofandi risa“ í þágu orkuskiptanna. Embættismenn framkvæmdastjórnarinnar sögðust meðvitaðir um mikilvægi þess að hrinda umbótum í framkvæmd í samráði við aðildarríki ESB. Aðgerðaáætlunin fylgir í kjölfar niðurstöðu ráðherraráðs ESB frá í desember 2024 sem lagði áherslu á að jarðhiti sé traustur, hagstæður og grænn orkugjafi til að hita hús, fyrir kælingu og til að framleiða rafmagn. Pallborðsumræður á ráðstefnunni voru líflegar enda viðfangsefnin áhugaverð. Pólland hefur verið leiðandi í auka veg jarðhitanýtingar innan Evrópusambandsins og fulltrúi pólskra stjórnvalda á ráðstefnunni sagði m.a. frá fyrirætlunum um að bora tugi nýrra borhola víðsvegar í landinu á næstu árum. Fulltrúar borga í Evrópu sögðu frá verkefnum sem snúast um jarðhitanýtingu og einstök fyrirtæki kynntu hvað þau eru að gera – í bortækni, hitaveitu og mörgu öðru. Kortlagning jarðhita í Evrópu og aðgengi að þeim gögnum var efni eins fyrirlestrar og nauðsyn þess að efla þekkingu og kunnáttu gekk eins og rauður þráður í gegnum ráðstefnuna. Þar hefur íslenski jarðhitageirinn auðvitað mikið fram að færa. Þá kom einnig fram að nýting jarðvarma auki orkuöryggi því hann sé auðlind í nærsamfélaginu. Evrópusambandið leggur nú þunga áherslu á að í framtíðinni standi aðildarríkin sem mest á eigin fótum í orkuöflun og ef rétt er á málum haldið getur jarðvarmi verið þar mikilvæg stoð. Ráðstefnan í Brussel sýndi fram á að mikill áhugi er á frekari nýtingu jarðhita og nú þarf pólitískan stuðning og meira fjármagn til að láta verkin tala. Fulltrúi Samorku sat ráðstefnuna en samtökin eru aðili að EGEC. Skilaboðin frá EGEC um kosti nýtingar jarðhita eru skýr.
8. maí 2025 Meiri endurnýjanleg orka til hitunar og kælingar er lykill að orkuskiptum innan ESB Evrópskur samstarfsvettvangur um tækni og nýsköpun vegna sjálfbærrar hitunar og kælingar1 stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 7. maí sem bar yfirskriftina „Collaborative Pathways to Sustainable Heating and Cooling“ eða „Samstarfsleiðir að sjálfbærri hitun og kælingu.“ Þeir sem sátu ráðstefnuna komu úr ýmsum áttum, s.s. sérfræðingar úr vísindasamfélaginu, fulltrúar fyrirtækja, hagsmunasamtaka og sérfræðingar frá Evrópusambandinu. Árið 2023 stóðu endurnýjanlegir orkugjafar undir 26.2% af heildarorkunotkun vegna hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. Vera má að sú tala hafi hækkað eitthvað síðan en það er greinilega verk að vinna að auka hlut grænna orkugjafa og minnka þá um leið notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki síst þegar Evrópusambandið ætlar í áföngum að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi fyrir árslok 2027. Orka sem notuð er til hitunar og kælingar er um helmingur af heildarorkunotkun í aðildarríkjum Evrópusambandsins. ESB hefur því lagt ríka áherslu á að minnka kolefnislosun í þessum geira með því að hraða orkuskiptum enda sé það forsenda fyrir því að ná markmiðum ESB í orku- og loftslagsmálum. Beatrice Coda frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Evrópusambandsins. Fyrirlesarar á ráðstefnunni litu margir til framtíðar, kynntu nýjungar á þessu sviði og ræddu einnig helstu áskoranir og tækifæri í pallborðsumræðum. Athyglisvert er að sjá hvernig ólíkir orkugjafar eru notaðir til hitunar og kælingar i Evrópu Þar má helst nefna sólarorku, lífefnaeldsneyti og varmadælur og svo auðvitað jarðhita. Nýsköpun á þessu sviði veltur m.a. á framlögum frá Evrópusambandinu og fulltrúi ESB á ráðstefnunni var einmitt frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnar ESB, Beatrice Coda. Hún benti m.a. á að Horizon Europe, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, hefði veitt verulegu fé til fjölmargra verkefna til að styðja við þróun endurnýjanlegra orkulausna fyrir hitun og kælingu. Íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskólar geta sótt um styrki úr Horizon og hefur orðið vel ágengt, m.a. í að fá styrki til nýtingar jarðhita. Fulltrúar víða að sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður voru líflegar. Þá hyggst Evrópusambandið efla hlut jarðvarma með sérstakri aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi og á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Samorka mun fylgjast grannt með því ferli enda er Ísland í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma og hefur því margt fram að færa. Meira um ráðstefnuna: 100% RHC Event 2025 – RHC Stefnumótun ESB um hitun og kælingu: Heating and cooling
25. apríl 2025 Fjórar nýjar umsagnir frá Samorku Samorka hefur skilað inn umsögnum um fjögur mál í vikunni. Þetta eru umsagnir um breytingar á raforkulögum (raforkuviðskipti), einföldun og samræmingu leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála, breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og svo tillögur að flokkun tíu vindorkuverkefna. Allar umsagnir Samorku má finna hér.
26. mars 2025 Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita Loftslags- og orkusjóður auglýsir einn milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita. Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025. Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði: Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu. Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna. Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni. Umsóknarfrestur er til 1. maí 2025. Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is Allar nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.
2. júní 2023 Styrkir til jarðhitaleitar Ákveðið hefur verið að ráðast í átak í jarðhitaleit og frekari nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Átakinu er ætlað að styðja viðloftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar, sem og markmið í orkumálum í fjármálaáætlun 2024-2028; um tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn, aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa íorkubúskap Íslands og jöfnun orkukostnaðar á landsvísu. Átakið miðar að því að veita stuðning við verkefni sem hafa það að markmiði að hefja nýtingujarðhita til almennrar húshitunar, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía tilhúshitunar. Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatnsem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlægavarmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar. Áhersla er lögð á að styrkja verkefni þar sem nokkur þekking á jarðhita viðkomandi svæðis erfyrir hendi og snúa þá að því að hefja nýtingu eða frekari rannsóknum með vísan í fyrriniðurstöður. Umsóknafrestur er til 3. júlí 2023. Til ráðstöfunar eru 450 m.kr. Orkusjóði hefur verið falin umsjón með auglýsingu og umsýslu styrkjanna. Umsóknir skulusendar til Orkusjóðs í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: https://gattin.os.is Hér má finna reglur um Jarðhitaleitarstyrki
31. maí 2023 Hugum að hitaveitunni til framtíðar Podcast: Play in new window | Download (Duration: 27:42 — 34.1MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Auður Agla Óladóttir, jarðfræðingur, er ein skýrsluhöfunda um stöðu hitaveitna á Íslandi sem unnin var af ÍSOR fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Hún lendir sífellt oftar í því að fólk vill spjalla við hana um hitaveitur á hliðarlínunni á fótboltamótunum í kjölfar skerðinga á heitu vatni í vetur. Mögulega hafi fólk verið vakið til umhugsunar um að jarðhitaauðlindin er ekki sjálfgefin. Auður Agla er talskona hitaveitunnar fram í fingurgóma og ræðir hér niðurstöður skýrslunnar og alls konar annað er viðkemur jarðhitaauðlindinni.