11. september 2025 Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu sinni „State of the Union“ í Evrópuþinginu þann 10. september. Hún sagði m.a. að lykillinn að lægra orkuverði væri að efla hreina orku sem framleidd er innan ESB. Þá væri afar brýnt að fjárfesta og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. Sambandið væri að undirbúa aðgerðir til að sú yrði raunin, m.a. að hraða leyfisveitingum. „Við erum á réttri leið til sjálfstæðis í orkumálum en orkureikningar eru enn of háir og valda milljónum íbúa áhyggjum. Og orkukostnaður fyrirtækja er enn of hár,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu. Hún sagði kominn tíma til að aðildarríki ESB losuðu sig við rússneskt jarðefnaeldsneyti. Í sumar setti sambandið fram áætlun um að hætta alfarið kaupum á rússnesku gasi og olíu fyrir lok ársins 2027. Rétt er að hafa í huga að tekjur af orkusölu eru afar mikilvægar fyrir stjórnvöld í Moskvu til að fjármagna innrásarstríðið Rússlands gegn Úkraínu. Ursula von der Leyen lagði líka mikla áherslu á samkeppnishæfni í stefnuræðu sinni, ekki síst í tækni og iðnaði sem byggja á hreinni orku. ESB er með í gangi margvíslega stefnumótun og aðgerðir til að hraða þeirri uppbyggingu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar sagði líka að ESB væri á beinu brautinni að ná því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% árið 2030, miðað við losun árið 1990. Ljóst er að orkuöryggi og sjálfstæði er mikilvægur liður í því sem Ursula von der Leyen kallaði „stund sjálfstæðis Evrópu.“ Hún sagði að Evrópubúar þyrftu að sjálfir að axla ábyrgð á sínu öryggi og vörnum ásamt því að hafa stjórn á þeirri tækni og orkulindum sem knýja áfram efnahags- og atvinnulíf álfunnar. Mynd: ESB. Hér er hægt að lesa ræðuna í heild á ensku: https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/speech_25_2053 Read more: Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu
10. september 2025 Óskað eftir endurgjöf um stefnumótun um húshitun og kælingu Framkvæmdastjórn ESB óskar nú eftir endurgjöf almennings- og hagsmunaðila um stefnumótun í hitun og kælingu eða „Heating and Cooling Strategy.“ Hluti af stefnunni er fyrirhuguð aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar um eflingu jarðvarma innan ESB – „Geothermal Action Plan.“ Framkvæmdastjórnin hefur lagt áherslu á að efla samþættingu orkukerfa til að hrinda orkuskiptum í framkvæmd og auka orkunýtni. Evrópsk hagsmunasamtök og fleiri hafa fagnað aðgerðaáætluninni um jarðvarma sem samin er í framhaldi af niðurstöðu ráðherraráðs ESB og samþykkt Evrópuþingsins. Íslensk fyrirtæki eru í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. Samorka fylgist einnig grannt með þessu máli ásamt íslenskum stjórnvöldum. Almenn samráðsgátt ESB um stefnumótunina, þ.á.m. jarðvarmaáætlunina, er opin til 20. nóvember n.k. Hún er kjörið tækifæri til að koma á framfæri ábendingum og upplýsingum sem haft gætu áhrif á stefnu ESB á vinnslustigi svo meiri líkur séu á að hún sé íslenskum orkufyrirtækjum til hagsbóta og efli nýtingu þessarar endurnýjanlegu orku í Evrópu. Sjá hér að neðan hlekk á samráðsgáttina: https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy_en
2. september 2025 Fulltrúar Landsnets heimsóttu skrifstofu Samorku í Brussel Skrifstofa Samorku í Brussel fékk góða gesti frá Landsneti í heimsókn i dag, 2. september. Ragna Árnadóttir forstjóri, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri áttu þá fund með Sveini Helgasyni, verkefnastjóra erlends samstarfs, sem sagði gestunum frá starfi sínu sem fulltrúi Samorku í Brussel. Mikilvægi flutningskerfis raforku í orkuskiptum Evrópu og stefna Evrópusambandsins á því sviði var líka til umræðu. „Það var ánægjulegt að fá þau Rögnu, Einar Snorra og Guðmund Inga í heimsókn hingað á Norrænu orkuskrifstofuna í Brussel þar sem Samorka er með aðstöðu. Mitt markmið er að leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið og liður í því er að taka á móti fulltrúum þeirra,“ sagði Sveinn um heimsóknina. „Fyrir mig er líka mikilvægt að heyra hvaða mál brenna á stjórnendum í íslenska orku- og veitugeiranum. Það nýtist mér m.a. í að fylgjast með þróun löggjafar og regluverks Evrópusambandsins sem er tekin upp í íslenska löggjöf og mótar þannig starfsumhverfi Landsnets og annarra fyrirtækja í þessum geira.“ F.v. Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri. Hraðari uppbygging flutningskerfis raforku í Evrópu er í raun hryggjarstykkið í orkuskiptum álfunnar og eitt af stærstu verkefnunum sem Evrópusambandið og aðildarríki þess standa frammi fyrir. Árangur á því sviði er svo ein meginforsendan fyrir því að ná markmiðum ESB í loftslagsmálum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst í lok ársins senda frá sér margvíslegar tillögur til að efla og styrkja flutningskerfið og tengda innviði undir samheitinu „European Grids Package.“ Samorka er hluti af sterku neti evrópskra hagsmunasamtaka í orku- og veitugeiranum, m.a. í gegnum aðild að ENTSO-E, sambandi flutningsfyrirtækja rafmagns í Evrópu sem eru með höfuðstöðvar í Brussel. Landsnet vinnur náið með ENTSO-E á ýmsum sviðum.
28. júlí 2025 Aðildarríki ESB fá gula spjaldið frá Brussel Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þrýstir nú á öll aðildarríkin nema eitt (Danmörku) að innleiða sem fyrst í landslög tilskipanir um að efla hlut endurnýjanlegrar orku í orkunotkun innan ESB. Sú aukning er hluti af „Green Deal“ sáttmálanum og er nauðsynleg til að ná metnaðarfullum markmiðum á þessu sviði innan fimm ára. Framkvæmdastjórnin hefur því sent ríkjunum 26 formlegt áminningarbréf og getur síðan gripið til frekari aðgerða. Árið 2023 samþykktu aðildaríki ESB að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í heildar orkunotkun upp í 42.5% árið 2030. Hann var 24.5% árið 2023 samkvæmt Eurostat og hafði þá næstum því þrefaldast frá 2004 þegar hlutfall grænnar orku af orkunotkuninni var aðeins 9.6%. En betur má ef duga skal og það er vissulega töluvert stökk að fara upp í 42.5% eftir aðeins fimm ár. Þetta skýrir eflaust ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að gefa 26 af aðildarríkjunum gula spjaldið. Frestur ríkjanna til að innleiða viðeigandi tilskipanir rann út í maí s.l. og í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar frá 24. júlí kemur fram að ríkin 26 fái nú tvo mánuði til að klára innleiðinguna. Geri þau það ekki fá þau enn strangari viðvörun og eiga jafnvel von á háum sektum ef þau bæta ekki ráð sitt, samkvæmt frétt Politico. Innleiðing nauðsynlegrar löggjafar er forsenda fyrir því að efla hreina orkuframleiðslu innan Evrópusambandsins og minnka enn frekar losun gróðurhúsalofttegunda í orkugeiranum. Hann er nú ábyrgur fyrir um 75% af heildar losun innan ESB, segir Politico og vitnar í framkvæmdastjórn ESB sem einnig minnir á að meiri endurnýjanleg orka innan sambandsins styrki orkuöryggi. Tilkynning framkvæmdastjórnar ESB: Commission takes action to ensure complete and timely transposition of EU directives: Aðildarríki ESB fá gula spjaldið frá Brussel
11. júlí 2025 20 orkugerðir teknar upp í EES samninginn Alls voru 20 orkugerðir teknar upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel í dag, 11. júlí. Hann var fyrsti fundurinn undir formennsku Íslands, bæði í Fastanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og í sameiginlegu EES-nefndinni næstu sex mánuði. Sú nefnd er helsti samstarfsvettvangur EES-EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Lichtenstein og Evrópusambandsins, enda er hlutverk nefndarinnar að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel og nýr formaður lagði sérstaka áherslu á að af þeim 55 gerðum sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundinum voru 20 orkugerðir. Þeirra á meðal eru tilskipanir ESB um orkunýtni, endurnýjanlega orkugjafa og orkunýtni bygginga. Þetta eru yfirgripsmiklar tilskipanir og/eða breytingar á fyrri tilskipunum og upptaka þeirra í samninginn hefur verið lengi í vinnslu í samráðsferli EFTA- EES ríkjanna og Evrópusambandsins. Þær verða nú innleiddar í íslenska löggjöf og hafa því áhrif á starfsumhverfi orkufyrirtækja hér á landi. Kristján Andri þakkaði EES-EFTA ríkjunum og ESB fyrir gott samstarf og fyrir að leggjast á eitt í að hrinda í framkvæmd þessari jákvæðu þróun á sviði orkumála, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá EFTA. Stuðningur við Omnibus-einföldunartillögur ESB EES-EFTA ríkin kynntu einnig sameiginlegt álit sitt á svokölluðum Omnibus-einföldunarpakka ESB. Í álitinu lýsa ríkin stuðningi við þær tillögur sem snúast um að einfalda reglur og draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Þó að við styðjum almennt OMNIBUS-einföldunartillögurnar sem lagðar hafa verið fram hingað til, viljum við einnig undirstrika mikilvægi þess að tryggt verði að þær grafi ekki undan lykilmarkmiðum sem tengjast loftslagsmálum, umhverfismálum og félagslegum réttindum,“ er haft eftir Kristjáni Andra Stefánssyni sendiherra í fréttatilkynningu EFTA. Á fundi Fastanefndar EFTA í gær, 10. júlí kynnti Ísland einnig formennskuáætlun sína þar sem lögð er áhersla á öryggi, samkeppnishæfni og þátttöku EES-EFTA ríkjanna í áætlunum Evrópusambandsins. Sjá nánar frétt á heimasíðu EFTA um fundinn: EEA Joint Committee incorporates important energy files | European Free Trade Association
1. júlí 2025 Danir leggja áherslu á endurnýjanlega orku og samkeppnishæfni í forsæti ráðherraráðs ESB Danmörk tók við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins (Ráðinu) í dag 1. júlí og gegnir því hlutverki næstu sex mánuði, eða til áramóta. Danir fá þannig tækifæri til að móta stefnu ESB á lykilsviðum, þar á meðal í loftslags-, orku- og umhverfismálum. Danmörk hefur lengi verið leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og endurnýjanlegrar orku. Dönsk stjórnvöld hyggjast því nýta formennskuna til að hraða orkuskiptum og grænu byltingunni innan Evrópu auk þess að leggja áherslu á að ESB standi við metnaðarfull loftslagsmarkmið. Danir takast einnig á við mörg önnur viðfangsefni næstu sex mánuði í forsæti ráðherraráðsins og það gera þeir undir yfirskriftinni „A strong Europe in a changing world.“ Evrópumálaráðherra Danmerkur, Marie Bjerre, kynnir áherslur danskra stjórnvalda í forsæti ráðherraráðs ESB. Ráðherraráðið er ein af helstu valdastofnunum ESB ásamt leiðtogaráðinu, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórninni. Valdastaða ráðherraráðsins endurspeglast framar öðru í löggjafarvaldinu sem það fer með ásamt Evrópuþinginu. Ljóst er að stjórnvöld í Kaupmannahöfn vilja nota þetta forystuhlutverk sitt til að efla samkeppnishæfni Evrópu og tryggja jafnframt öryggi álfunnar í viðsjárverðum heimi. „Öflugri varnir Evrópu og að losna við íþyngjandi regluverk en vinna um leið áfram að orkuskiptum – þetta eru forgangsmál fyrir Danmörku meðan við erum í forsæti ráðherraráðsins,“ sagði Evrópumálaráðherra Danmerkur, Marie Bjerre, þegar hún kynnti áherslur danskra stjórnvalda næstu sex mánuði, á fréttamannfundi þann 19. júní s.l. Fréttaskýrendur segja að Danir vilji ekki hvika frá markmiðum Græna sáttmála ESB (Green Deal). Þeir telji að sjálfbærni og samkeppnishæfni geti fyllilega farið saman en meðal aðildarríkja ESB eru uppi mismunandi sjónarmið og sambandið er að reyna að finna jafnvægi milli þeirra. Höfuðstöðvar ráðherraráðs ESB í Brussel þar sem Danir hafa nú tekið við formennsku Þann 2. júlí er búist við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynni löggjafartillögu sína um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins um 90% miðað við árið 1990. Fréttaskýrendur og sérfræðingar telja að þetta markmið hafi veruleg áhrif á stefnumótun og atvinnulíf innan Evrópusambandsins, m.a. ákvarðanir um fjárfestingar stórra fyrirtækja og einnig sprotafyrirtækja. Hagsmunasamtök á borð við Nordenergi, sem Samorka er aðili að, hafa lagt áherslu á að staðið verði við markmiðið og sendu m.a. Wopke Hoekstra umhverfismálastjóra ESB bréf þess efnis. „Til að Danmörk og Evrópa í heild verði ekki eins háð jarðefnaeldsneyti og til að styrkja samkeppnishæfni þá eru grænu orkuskiptin lausnin, ekki vandamálið,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur nýlega í viðtali við Newsweek tímaritið. „Öflugri framleiðsla á okkar eigin hreinu orku og fjárfestingar í orkuinnviðum eru grundvallarforsendur til að styrkja álfuna okkar. Um leið minnkum við losun gróðurhúsaloftegunda og tökumst á við loftslagsbreytingar,“ bætti danski forsætisráðherrann við. Hún og aðrir danskir ráðherrar munu reglulega beita sér í að vinna stefnumálum Dana fylgi innan ESB og þess má einnig geta að orkumálastjóri ESB er nú danskur, Dan Jørgensen. Evrópusambandið hyggst hætta að kaupa rússneskt gas fyrir árslok 2027 sem eykur enn þrýsting á að efla orkuframleiðslu innan álfunnar. Þá leggur ESB áherslu á að styrkja verulega flutnings- og dreifikerfi raforku. Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, benda einnig á að Danir sjái rafvæðingu sem leið til að tryggja orkuöryggi, samkeppnishæfni og orkuskipti. Samorka er aðili að Eurelectric. Tákn formennsku Dana. Ísland er vissulega ekki í Evrópusambandinu en í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) innleiða íslensk stjórnvöld löggjöf og regluverk ESB um orku, loftslags og umhverfismál. Áherslur Dana í forsæti ráðherraráðsins skipta því máli fyrir starfs- og rekstrarumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja og atvinnulífsins í heild. Samorka mun því fylgjast grannt með hvernig dönskum stjórnvöldum miðar í að ná markmiðum sínum meðan á formennsku þeirra stendur. Fulltrúi Samorku í Brussel er með starfsaðstöðu á Norrænu orkuskrifstofunni en þar eru einnig fulltrúar sambærilegra samtaka í Danmörku – Green Power Denmark – og stórra danskra fyrirtækja á sviði endurnýjanlegrar orku.
27. júní 2025 Nýjar reglur ESB styðja við orkuskipti og hreina iðnvæðingu Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt nýjar reglur um ríkisaðstoð í tengslum við markmið og áætlanir um hreina iðnaðarstefnu – Clean Industrial Deal State Aid Framework (CISAF). Reglurnar leysa af hólmi eldri reglur og gilda til ársloka 2030. Reglurnar koma til með að snerta hagsmuni Íslands enda gilda samkeppnisreglur ESB hér á landi í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Nýju reglurnar kunna einnig að hafa áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja til að mynda í tengslum við niðurgreiðslur á raforkuverði til stórnotenda. Markmið CISAF er að gera aðildarríkjum ESB kleift að hraða orkuskiptum, styðja við hreina tækni og afkolun iðnaðar, án þess að raska samkeppni á innri markaði. Reglurnar einfalda veitingu ríkisaðstoðar á fimm megin sviðum: endurnýjanlegri orku, stuðningi við orkufrek fyrirtæki, núverandi iðnaðarframleiðslu, framleiðslugetu í hreinni tækni og áhættudreifingu fjárfestinga. Þær eiga að efla samkeppnishæfni Evrópu í ljósi aukinnar samkeppni frá Bandaríkjunum og Kína. Meðal nýjunga er svokölluð „hraðleið“ fyrir verkefni tengd hreinni orku, t.d. vetni og sólarorku. Reglurnar ná líka yfir stuðning við nýtingu jarðhita, m.a. jarðhitavirkjanir. Ríki fá aukið svigrúm til að veita stuðning að hámarki 200 milljónir evra eða meira, m.a. með samkeppnisútboðum. Heimilt verður, með tilteknum skilyrðum, að niðurgreiða raforkukostnað orkufreks iðnaðar, niður að allt að 50 evrum/MWh, gegn því að fyrirtækin fjárfesti í afkolun fyrir helming stuðningsupphæðarinnar. Að auki geta ríki nýtt sér skattaívilnanir og aðra fjárhagslega hvata til að örva eftirspurn eftir hreinni tækni og draga úr fjárfestingaráhættu. Nýju reglurnar eiga að tryggja samræmi milli efnahagslegra hvata og loftslagsmarkmiða ESB og gera fyrirtækjum kleift að gera áætlanir til lengri tíma. Fjárfestar, bæði úr opinbera og einkageiranum, geta nú líka tekið ákvarðanir byggðar á reglum sem gilda a.m.k. fimm ár fram í tímann. Nánar um nýju reglurnar: https://competition-policy.ec.europa.eu/about/contribution-clean-just-and-competitive-transition/clean-industrial-deal-state-aid-framework-cisaf_en
23. júní 2025 Viðnámsþróttur vatns og ríkidæmi Íslands Podcast: Play in new window | Download (Duration: 28:17 — 22.5MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Birna Guttormsdóttir, sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir að ný stefna ESB um viðnámsþrótt vatns (European Water Resilient Strategy) sé yfirgripsmikil enda við margvíslegar áskoranir að glíma. „Stærsta markmiðið með stefnunni er að laga þessa brotnu hringrás vatnsins,“ segir í Birna í viðtali við Svein Helgason í Brussel, í hlaðvarpi Samorku. Birna Guttormsdóttir, sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn ESB. Birna segir að Íslendingar standi svolítið með pálmann í höndunum á þessu sviði því landið sé ríkt af vatni. Hinsvegar sé mikilvægt að þekkja vel auðlindina og gera sér grein fyrir hvert skuli stefna í framtíðinni. Sveinn Helgason ræðir við Birnu í þættinum. Birna starfar á umhverfissviði framkvæmdastjórnarinnar í teymi sem vinnur að ferskvatnsstjórnun og hefur átt töluverðan þátt í að móta stefnuna um viðnámsþrótt vatns sem kynnt var 4. júní s.l. Stefnan hefur m.a. tengingar við svokallaða vatnatilskipun og fráveitutilskipun ESB.
18. júní 2025 Miklir möguleikar í nýtingu jarðhita í Evrópu Fulltrúar jarðhitageirans í Evrópu segja mikilvægt að væntanleg aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um að efla nýtingu jarðhita ýti undir fjárfestingar í þessum geira. Þetta kom fram á jarðvarmaráðstefnu í Brussel þann 17. júní. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB tóku undir að hægt væri að auka verulega vinnslu jarðvarma á meginlandinu til að framleiða raforku, til húshitunar og kælingar. Fulltrúi pólskra stjórnvalda sagði einnig frá áætlunum að auka stórlega nýtingu jarðhita þar í landi. Paula Rey Garcia sagði frá áherslum framkvæmdastjórnar ESB í nýtingu jarðvarma. Hagsmunasamtök jarðhitageirans í Evrópu „European Geothermal Energy Council” (EGEC) skipulögðu ráðstefnuna sem bar yfirskriftina „Geothermal Cities – How can the EU‘s Geothermal Action Plan unlock investments?“ Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur nú að undirbúningi fyrrnefndrar aðgerðaáætlunar og hyggst birta hana snemma á næsta ári. Dan Jørgensen, orkumálastjóri ESB sagði í mars s.l. að jarðvarmi hafi mikilvægu hlutverki að gegna í orkuskiptum innan Evrópusambandsins. Hinsvegar hafi greinin þurft að glíma við hindranir, t.d. vegna leyfisveitinga og skorts á fjármagni. Fulltrúar á ráðstefnu EGEC hvöttu til þess að þeim hindrunum verði rutt úr vegi því þannig mætti vekja þennan „sofandi risa“ í þágu orkuskiptanna. Embættismenn framkvæmdastjórnarinnar sögðust meðvitaðir um mikilvægi þess að hrinda umbótum í framkvæmd í samráði við aðildarríki ESB. Aðgerðaáætlunin fylgir í kjölfar niðurstöðu ráðherraráðs ESB frá í desember 2024 sem lagði áherslu á að jarðhiti sé traustur, hagstæður og grænn orkugjafi til að hita hús, fyrir kælingu og til að framleiða rafmagn. Pallborðsumræður á ráðstefnunni voru líflegar enda viðfangsefnin áhugaverð. Pólland hefur verið leiðandi í auka veg jarðhitanýtingar innan Evrópusambandsins og fulltrúi pólskra stjórnvalda á ráðstefnunni sagði m.a. frá fyrirætlunum um að bora tugi nýrra borhola víðsvegar í landinu á næstu árum. Fulltrúar borga í Evrópu sögðu frá verkefnum sem snúast um jarðhitanýtingu og einstök fyrirtæki kynntu hvað þau eru að gera – í bortækni, hitaveitu og mörgu öðru. Kortlagning jarðhita í Evrópu og aðgengi að þeim gögnum var efni eins fyrirlestrar og nauðsyn þess að efla þekkingu og kunnáttu gekk eins og rauður þráður í gegnum ráðstefnuna. Þar hefur íslenski jarðhitageirinn auðvitað mikið fram að færa. Þá kom einnig fram að nýting jarðvarma auki orkuöryggi því hann sé auðlind í nærsamfélaginu. Evrópusambandið leggur nú þunga áherslu á að í framtíðinni standi aðildarríkin sem mest á eigin fótum í orkuöflun og ef rétt er á málum haldið getur jarðvarmi verið þar mikilvæg stoð. Ráðstefnan í Brussel sýndi fram á að mikill áhugi er á frekari nýtingu jarðhita og nú þarf pólitískan stuðning og meira fjármagn til að láta verkin tala. Fulltrúi Samorku sat ráðstefnuna en samtökin eru aðili að EGEC. Skilaboðin frá EGEC um kosti nýtingar jarðhita eru skýr.
13. júní 2025 Endurnýjanleg orka lykill að samkeppnishæfri Evrópu Samorka á ráðstefnu ESB í Brussel um orkumál Dan Jørgensen, orkumálastjóri Evrópusambandsins flytur opnunarræðu sína á European Sustainable Energy Week. „Við þurfum að hverfa frá því að vera háð jarðefnaeldsneyti og framleiða okkar eigin endurnýjanlega orku.“ Þetta var megin boðskapur Dan Jørgensen, orkumálastjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við upphaf ráðstefnu ESB um endurnýjanlega orku „European Sustainable Energy Week“ sem fram fór í Brussel 10.-12. júní. Öryggi, loftslagsbreytingar og samkeppnishæfni eru þrjár helstu áskoranirnar sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir og græn orkuskipti eru svarið við þeim að mati Jørgensen. „Loftslagsbreytingar eru nú þegar staðreynd og það er siðferðileg skylda okkar að spyrna þar við fótum,“ sagði hann einnig í opnunarræðu sinni á ráðstefnunni sem fulltrúi Samorku sat. Wopke Hoekstra loftslagsmálastjóri Evrópusambandsins í ræðustóli á ráðstefnunni. Loftslagsmálastjóri Evrópusambandsins Wopke Hoekstra talaði á svipuðum nótum þegar hann ávarpaði ráðstefnuna á öðrum degi hennar. Þörf væri á sérstakri „Marshall-áætlun“ í orkumálum enda gríðarlegar fjárfestingar nauðsynlegar í þeim geira. Þar nefndi Hoekstra t.d. uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku, tengingar yfir landamæri og meiri getu til að geyma orku. ESB þyrfti að leggja enn frekari áherslu á endurnýjanlega orkugjafa til að berjast gegn loftslagsvánni og öfgar í veðurfari væru nú þegar að valda gríðarlegu tjóni. Orkuskiptin og áfallaþol mikilvægra innviða í ljósi nýrra ógna var viðfangsefni málstofu á ráðstefnunni þar sem þátt tóku fulltrúar Atlantshafsbandalagsins, Evrópusambandsins og orkufyrirtækja í Evrópu. Þátttakendur sögðu að öryggi og getan til að bregðast skjótt við aðsteðjandi hættum eigi að vera órjúfanlegur hluti af allri áætlanagerð í orkugeiranum. Fjárfesting í öryggi skili sér líka margfalt til baka. Þá sé mikilvægt að halda fleiri æfingar og auka þjálfun á þessu sviði. Umræðan í málstofunni var að mörgu leyti af svipuðum toga og í lokamálstofu Samorkuþings þar sem fjallað var öryggismál og vernd orku- og veituinnviða í ljósi þróunar alþjóðamála, einkum í Evrópu. Fulltrúar Atlantshafsbandalagsins, ESB og orkufyrirtækja í málstofu um öryggi, áfallaþol innviða og nýjar ógnir. Þessi ráðstefna á vegum framkvæmdastjórnar ESB var mjög fjölbreytt og á henni var ekki síst litið til framtíðar, fjallað um tækninýjungar og loftslagsmálin voru einnig í brennidepli. Meðal ræðumanna var Selwin Hart sem stýrir loftslagsaðgerðateymi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann kallaði líka eftir hraðari orkuskiptum og skýrri framtíðarsýn á krossgötum í loftslagsmálum. Hagsmunamál orkugeirans voru að sjálfsögðu ofarlega á baugi á ráðstefnunni, þar á meðal að einfalda og hraða leyfisveitingaferli vegna framkvæmda svo ekki þurfi að bíða árum saman eftir niðurstöðu.