Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun

Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur eru meðal þeirra sem skrifa undir bréf EGEC , European Geothermal Energy Council, til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að stórefla nýtingu jarðhita í Evrópu með sérstakri aðgerðaáætlun sem framkvæmdastjórnin er nú með í smíðum.

Bréfið var sent 11. desember s.l. og stílað á Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB og fleiri háttsetta embættismenn í framkvæmdastjórninni. Undir það skrifar fjöldi fyrirtækja, stofnana og samtaka um alla Evrópu. EGEC minnir á að jarðhiti hafi mikla möguleika á að styrkja orkuöryggi Evrópu, auka samkeppnishæfni álfunnar og lækka orkuverð til almennings.  Aðgerðaáætlunin um nýtingu jarðhita á að vera hluti af svokallaðri „Heating and Cooling Strategy“ sem Evrópusambandið hyggst birta á fyrsta ársfjórðungi 2026.

Í bréfinu er lögð áhersla á að með skýrri stefnumótun og pólitískum skuldbindingum ráðamanna sé hægt að auka fjárfestingar, efla nýsköpun og einfalda ferli leyfisveitinga til að jarðhiti verði ein af forsendum fyrir orkuskiptum í Evrópu og orkusjálfstæði álfunnar.

Samorka er aðili að EGEC og tekur virkan þátt í starfi samtakanna auk þess að miðla upplýsingum af þessum vettvangi til aðildarfyrirtækja sem nýta jarðhita til orkuöflunar og vinnslu. Ráðstefnan Our Climate Future í Brussel í haust beindi einnig sjónum að forystuhlutverki Íslands í jarðhitanýtingu með þátttöku fulltrúa íslenskra fyrirtækja, Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB, auk margra fleiri.

Sjá einnig heimasíðu EGEC: https://www.egec.org/news/ : Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun

ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í dag umfangsmikla stefnumótun og aðgerðir til að efla flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. „European Grids Package“ er yfirskrift þessara tillagna sem m.a. fela í sér breytingar á tilskipunum ESB. „Samtengd og samtvinnað orkukerfi er grundvöllur sterkrar og sjálfstæðrar Evrópu,“ er haft eftir Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB í fréttatilkynningu. Teresa Ribera, einn varaforseta framkvæmdastjórnarinnar segir markmiðið að allir hlutar Evrópu uppskeri ávinning af orkubyltingunni með ódýrari og hreinni orku, minna þurfi að treysta á innflutt jarðefnaeldsneyti, orkuöryggi aukist og sömuleiðis viðnám gegn verðsveiflum.

Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir að fjárfesta þurfi um 1.2 trilljónir Evra í flutnings- og dreifikerfi raforku á næstu fimmtán árum, stórefla þurfi flutning á rafmagni yfir landamæri og einnig byggja upp dreifiveitur. Í því skyni eru lagðar fram tillögur um hvernig ýta megi undir fjárfestingar ásamt því að efla áfallaþol og öryggi þessara innviða. ESB leggur líka mikla áherslu á að hraða leyfisveitingum vegna uppbyggingar flutnings- og dreifikerfisins og verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku. Markmiðið er að leyfisveitingaferlið taki almennt ekki lengri tíma en tvö ár og hámark þrjú ár í flóknari verkefnum. Þetta er áskorun sem er svo sannarlega fyrir hendi hér á landi og þannig ályktaði aðalfundur Samorku fyrr á þessu ári um nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, og stytta leyfisveitingaferla uppbyggingu orku- og veituinnviða. 

Framkvæmdastjórn ESB leggur til breytingar á gildandi tilskipunum m.a. um endurnýjanlega orku. Þessar löggjafartillögur fara  nú fyrir Evrópuþingið og ráðherraráð Evrópusambandsins (Council). Jafnframt ætlar framkvæmdastjórnin að vinna náið með aðildarríkjum ESB og öðrum haghöfum til að hrinda í framkvæmd orkuverkefnum sem ná yfir landamæri. Þessar aðgerðir og stefnumótun eiga einnig að styrkja aukna samvinnu við ríki utan ESB, þar á meðal á Evrópska efnahagssvæðinu. Samorka mun fylgjast grannt með þessu máli enda hafa breytingar á löggjöf og reglum ESB áhrif á starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja þegar þær eru teknar upp í samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið (EES) og innleiddar í íslenska löggjöf.

Fréttatilkynningu ESB um „European Grids Package“ og hlekkir á meðfylgjandi skjöl er að finna hér:

Commission proposes upgrade of the EU’s energy infrastructure to lower bills and boost independence: ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku

Vatn og viðnámsþróttur þess í forgangi hjá ESB

Mikil þátttaka var í „Water Resilience Forum,“ ráðstefnu á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel þann 8. desember, þar sem rætt var um hvernig tryggja megi íbúum Evrópu aðgang að nægu og góðu vatni. Umhverfismálastjóri Evrópusambandsins, Jessika Roswall, lagði áherslu á að vatnið væri eitt af helstu forgangsmálum framkvæmdastjórnarinnar, Í sama streng tók Teresa Ribera, varaforseti og benti á hvernig vatn væri einn af hornsteinum í hreinni iðnaðaruppbyggingu í álfunni.

Aðrir frummælendur töluðu um hvernig flóð en einnig þurrkar og vatnsskortur væru meðal áskorana í Evrópu, nokkuð sem yrði að skoða í ljósi loftslagsbreytinga. Hinsvegar þyrftum við líka að nýta vatnsauðlindir okkar með skilvirkari hætti. Gestir á ráðstefnunni heyrðu líka reynslusögu frá Svíþjóð þar sem vatnsból mengaðist með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúa.

Veitufyrirtæki innan vébanda Samorku leggja áherslu á örygga og góða þjónustu, verndun vatnsbóla og nýsköpun. Samorka tekur líka virkan þátt í starfi EurEau, samtaka fyrirtæki á þessu sviði í Evrópu, sem eru með höfuðstöðvar í Brussel.

Ráðstefnan „Water Resilence Forum“ er haldin í framhaldi af stefnumótun Evrópusambandsins um viðnámsþrótt vatns „Water Resilence Strategy.“ Ljóst er að mörg krefjandi verkefni eru framundan á þessu sviði enda er vatnið lífæð okkar allra. Lög og reglur sem verða til á vettvangi Evrópusambandsins hafa áhrif á starfsumhverfi íslenskra veitufyrirtækja sem sjá almenningi og fyrirtækjum fyrir drykkjarvatni en sinna líka fráveitu. Samorka fylgist því grannt með þessum viðfangsefnum og liður í þeirri vinnu var að sækja þessa ráðstefnu í Brussel.

Orkuskipti, áfallaþol og samkeppnishæfni í brenndidepli á orkuráðstefnu ESB og Noregs

Orkuskipti með áfallaþol og samkeppnishæfni í brennidepli var yfirskrift sjöundu orkuráðstefnu Evrópusambandsins og Noregs sem fulltrúi Samorku sat í Brussel 21. nóvember s.l. Fulltrúar ESB og norskra stjórnvalda lögðu þar áherslu á mikilvægi samstarfs þessara aðila í orkumálum sem eina af megin forsendunum fyrir orkuöryggi Evrópu.

Anders Eide, sendiherra Noregs gagnvart ESB bauð gesti velkomna en síðan tók til máls Dan Jørgensen orkumálastjóri ESB. Hann lagði áherslu á að Noregur væri mikilvægur samstarfsaðili ESB í orkumálum, m.a. stærsti seljandinn á gasi til aðildarríkja sambandsins, að ógleymdri olíu. Jørgensen ræddi líka um væntanlegar tillögur framkvæmdastjórnar ESB um uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku – svokallaðan „EU Grid Package.“ Terje Aasland orkumálaráðherra Noregs sagði í sinni ræðu að orkuskiptin yrðu að eiga sér stað jafnt og þétt með nýsköpun og samvinnu að leiðarljósi. „Orka er velsæld – orka er öryggi“ sagði Aasland. Orkumálastjórinn og ráðherrann áttu einnig fund sama dag og ráðstefnan var haldin.

Pablo Hevia-Koch frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA) beindi síðan sjónum að öld raforkunnar sem nú væri að renna upp. Hún myndi byggjast á því hversu hratt væri hægt að byggja upp flutningskerfi og tengingar milli landa. Í þrennum pallborðsumræðum var rætt um styrkingu áfallaþols í orkugeiranum, mikilvægi markaðslausna í viðskiptum með rafmagn og verkefni í kolefnisbindingu. Þar tóku þátt fulltrúar norskra orkufyrirtækja, alþjóðastofnana á borð við ESB og NATO en einnig fleiri sérfræðingar og fulltrúar hagsmunasamtaka.

Samorka vinnur náið með Renewables Norway og öðrum norrænum samtökum í orkugeiranum á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel. Ráðstefnan var gott tækifæri til að fræðast um helstu áskoranir og tækifæri í samskiptum ESB og Noregs og hvaða máli þetta samstarf skiptir í alþjóða- og öryggismálum, m.a. fyrir Ísland.

Hér er hægt að lesa meira um dagskrá ráðstefnunnar og viðfangsefni:

7th EU-Norway energy conference: Navigating the energy transition with resilience and competitiveness in focus – Energy: Orkuskipti, áfallaþol og samkeppnishæfni í brenndidepli á orkuráðstefnu ESB og Noregs

Vegvísir ESB um stafræna væðingu og gervigreind í orkugeiranum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að undirbúa vegvísi fyrir stafræna væðingu og notkun gervigreindar í orkugeiranum eða   „Strategic Roadmap for digitalisation and AI in the energy sector.“ Framkvæmdastjórnin stefnir á að birta vegvísinn á fyrsta fjórðungi næsta árs, 2026 og frestur til að skila inn umsögnum í samráðsgátt um málið rennur út 5. nóvember n.k.   

Markmiðið með vegvísinum er að nýta þá möguleika sem felast í stafrænni tækni, þ.á.m. gervigreind svo efla megi orkugeirann eins og segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Ursula von der Leyen, hefur undirstrikað mikilvægi þess að lækka orkuverð, minnka notkun jarðefnaeldsneytis og tryggja að neytendur njóti ávinnings af orkuskiptum og stafrænni umbreytingu.  

Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen, fékk því það verkefni að setja fram og fá samþykktan fyrrnefndan vegvísi. Hann byggir á eða mun njóta góðs af áætlunum ESB og lagasetningu á þessu og tengdum sviðum sem þegar eru fyrir hendi eða eru í bígerð, s.s. um gervigreind, orkunýtni, uppbyggingu flutningskerfis raforku, rafvæðingu og hitun og kælingu, svo fátt eitt sé nefnt. Í þessari stefnumótun á einnig að fjalla um ört vaxandi og mikla orkunotkun gagnavera og hvernig hægt sé að með sjálfbærum hætti að gera þau hluta af orkukerfinu.

Allir áhugasamir sem vilja lýsa sínum sjónarmiðum eða leggja til gögn og upplýsingar, geta sent inn umsagnir í samráðsgáttina um vegvísinn til 5. nóvember n.k.  Hana er að finna hér:

Artificial intelligence and digitalisation for energy – a roadmap: Vegvísir ESB um stafræna væðingu og gervigreind í orkugeiranum

Tilkynning framkvæmdastjórnar ESB um væntanlegan vegvísi og samráðsgátt:

https://energy.ec.europa.eu/news/strategic-roadmap-digitalisation-and-ai-energy-sector-consultations-opened-2025-08-06_en: Vegvísir ESB um stafræna væðingu og gervigreind í orkugeiranum

Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Þingmenn á Evrópuþinginu lýstu eindregnum stuðningi við stóraukna nýtingu jarðhita í umræðum í dag 16. október. Þeir sögðu að þessi endurnýjanlega orkulind væri mjög vannýtt í álfunni en ryðja þyrfti hindrunum úr vegi til að efla vinnslu á jarðhita til húshitunar og fleiri nota. Einn þingmaður benti á Ísland sem dæmi um land þar sem hægt væri að hafa fjárhagslegan hagnað af jarðhitanýtingu. Umræðan var á vegum orkunefndar Evrópuþingsins.

Þingmenn sem tóku til máls sögðu að hægt væri að finna jarðhita og nýta hann víða í Evrópu ekki síst þegar borað er dýpra þar sem hitinn er meiri. Lághitinn væri auðvitað nýtanlegur og varmadælur bar einnig á góma. Mikilvægt væri að efla rannsóknir og kortlagningu jarðhita, skýra og bæta ferli leyfisveitinga og tryggja að nærsamfélagið væri með í ráðum þegar ráðist væri í boranir og vinnslu.

Í umræðunni kom líka fram að hægt væri að auka orkuöryggi og stórminnka notkun á gasi til hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. ESB hefur einmitt sett sér það markmið að hætta alfarið að kaupa gas af Rússlandi fyrir lok ársins 2027. Margir þingmanna bentu á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun til jarðhitaverkefna þar sem upphafskostnaður væri gjarnan töluverður, áhætta fyrir hendi og ákveðin óvissa um árangur. Uppskeran gæti þó að sama skapi verið mikil.

Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er einnig að undirbúa aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári.  Hún er hluti af víðtækari stefnu um hitun og kælingu. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands í jarðhitanýtingu.

Evrópuþingmenn binda greinilega vonir við aðgerðaáætlunina og spurðu fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar á nefndarfundinum um helstu áherslur í henni. Þau svör fengust að samráð vegna vinnslu áætlunarinnar væri í fullum gangi og athyglin beindist einmitt að leyfisveitingum og fjármögnun auk þess sem tekið yrði mið af jarðhitaverkefnum í Evrópu sem gengið hafa vel.

Landsvirkjun og Orka náttúrunnar sendu einnig inn umsagnir í samráðsgáttina ásamt íslenskum stjórnvöldum. Vonir eru bundnar við að þær upplýsingar, dæmi um verkefni og almenn sjónarmið gagnist sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar sem voru líka þátttakendur í pallborðsumræðum á Our Climate Future-ráðstefnunni í Brussel um nýtingu jarðhita, þriðjudaginn 14. október s.l.

Með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í pallborði voru stjórnendur íslenskra orkufyrirtækja sem eru í forystu í nýtingu jarðhita – Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og HS Orku auk stjórnarformanns Samorku, Sólrúnar Kristjánsdóttur.

Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen sagði í opnunarræðu ráðstefnunnar að Ísland vísaði veginn í nýtingu jarðhita og möguleikarnir væru miklir á þessu sviði. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sagði að Ísland væri tilbúið til samstarfs með því að deila reynslu og þekkingu á nýtingu  jarðhita. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra bauð gesti velkomna og deildi m.a. með fundargestum frásögn af hraunhitaveitunni í heimabæ sínum Vestmannaeyjum.

Sjá hér að neðan upptöku af umræðum Evrópuþingmanna um jarðhita, 16. október. Umræðan stendur í um 50 mínútur og byrjar ca. 35 mínútur inn í upptökuna:

Committee on Industry, Research and Energy Ordinary meeting – Multimedia Centre: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Hér er einnig hægt að skoða umsagnir sem Samorka, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og íslensk stjórnvöld sendu inn í samráðsgátt ESB vegna stefnu um hitun og kælingu – þ.á.m. jarðhita:

https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy/feedback_en?p_id=20290: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Opnun Brussel-skrifstofu formlega fagnað

Samorka fagnaði opnun skrifstofu sinnar í Brussel með því að bjóða til móttöku á Norrænu orkuskrifstofunni þar sem starfsmaður Samorku hefur aðsetur.

Í móttökunni voru samankomnir fulltrúar íslenskra orku- og veitufyrirtækja en einnig fulltrúar systursamtaka Samorku á hinum Norðurlöndunum og fleiri.  Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Sólrún Kristjánsdóttir stjórnarformaður og Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fluttu ávörp og lögðu áherslu á mikilvægt þess að stíga þetta skref til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og gæta íslenskra hagsmuna. 

Löggjöf og regluverk sem upprunin er hjá ESB mótar starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja því hún er að stórum hluta tekin upp íslenska löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samorka leggur því ríka áherslu á að að vakta vel þessa hröðu þróun, skilja hana og miðla til aðildarfyrirtækja.

Það er líka mikilvægt að koma sjónarmiðum orku- og veitugeirans á framfæri, t.d. um að efla nýtingu jarðhita á evrópska vísu. Ísland er í forystu á því sviði með áratuga reynslu og þekkingu í að nýta þennan orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu.  

Öflugt jarðhitaþing í Zürich

Fulltrúi Samorku tók þátt í Evrópska Jarðhitaþinginu, European Geothermal Congress, sem haldið var Zürich í Sviss frá 6.- 10. október. Þátttakendur voru hátt í 1200 talsins frá yfir 40 löndum. Á þingið mætti öflugur hópur frá Íslandi, yfir 20 fulltrúar orku-, tækni- og ráðgjafarfyrirtækja, háskóla og fleiri til að segja frá því sem við höfum fram að færa og til að læra af öðrum þátttakendum.

Þrír af fjölmörgum fulltrúum frá Íslandi á ráðstefnunni.

„Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu og lét svo sannarlega til sín taka hér,“ sagði Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, sem sat ráðstefnuna. „Það er mikilvægt til að efla enn frekar nýtingu þessarar endurnýjanlegu orkulindar á alþjóðavísu og metnaðurinn er fyrir hendi víða um heim. Þannig er Evrópusambandið t.d. að undirbúa sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands á þessu sviði.“

European Geothermal Energy Council – Evrópsku jarðhitasamtökin – héldu ráðstefnuna og á  aðalfundi samtakanna var tilkynnt um nýja stjórn þar sem Miklos Antics er forseti.  Það var athyglisvert að svissnesku gestgjafarnir ætla sér stóra hluti í jarðhita og í vettvangsferð síðasta dag þingsins kom glögglega í ljós hversu rannsóknir og vísindi gegna þar mikilvægu hlutverki. Næsta Evrópska jarðhitaþingið verður haldið í Búdapest í Ungverjalandi árið 2028.

Ný stjórn EGEC – Evrópsku jarðhitasamtakanna.

Sveinn tók nokkra íslenska þátttakendur tali á ráðstefnunni og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan.

Samorka sækir evrópskt jarðhitaþing í Sviss

Fulltrúi Samorku sækir Evrópska jarðhitaþingið – European Geothermal Congress – sem fram fer í Zurich í Sviss frá 6.-10. október n.k. Samtök jarðhitageirans í álfunni – European Geothermal Energy Council (EGEC) skipuleggja þingið sem búast má við að yfir 1200 manns sæki. 

Þátttakendur koma úr röðum stjórnenda og sérfræðinga fyrirtækja í þessum geira, úr hópi þeirra sem móta stefnu og setja reglur um nýtingu jarðhita, vísindafólk og aðrir haghafar. Ráðstefnugestir koma ekki aðeins frá Evrópu heldur einnig víðar að úr heiminum. Samorka er meðlimur í EGEC og með ráðningu starfsmanns með aðsetur í Brussel hefur verið lögð enn frekari áhersla á að efla þátttöku í starfi samtakanna. Ísland er í fremstu röð í heiminum í nýtingu og vinnslu jarðhita til húshitunar, orkuframleiðslu og annarra nota. Mikil tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki vegna vaxandi áhuga á jarðvarmanýtingu í Evrópu. Aðild að EGEC skiptir líka máli nú þegar Evrópusambandið undirbýr t.d. aðgerðaáætlun um  eflingu jarðvarma. Hún á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári framkvæmdastjórn ESB hefur opnað almenna samráðsgátt vegna málsins. 

Nýting jarðhita verður líka í sviðsljósinu þegar Our Climate Future ráðstefnan verður haldin í Brussel þann 14. október n.k.  Þar koma saman fulltrúar íslenskra stjórnvalda, Evrópusambandsins og síðast en ekki síst öflugur hópur fólks úr íslenska jarðhitageiranum til að ræða hvernig þessi græna orkulind getur hraðað orkuskiptum, aukið samkeppnishæfni Evrópu,  stuðlað að því að tryggja orkuöryggi álfunnar og síðast en ekki síst að loftslagsmarkmið náist. 

Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu sinni „State of the Union“ í Evrópuþinginu þann 10. september. Hún sagði m.a. að lykillinn að lægra orkuverði væri að efla hreina orku sem framleidd er innan ESB. Þá væri afar brýnt að fjárfesta og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. Sambandið væri að undirbúa aðgerðir til að sú yrði raunin, m.a. að hraða leyfisveitingum.

„Við erum á réttri leið til sjálfstæðis í orkumálum en orkureikningar eru enn of háir og valda milljónum íbúa áhyggjum. Og orkukostnaður fyrirtækja er enn of hár,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu. Hún sagði kominn tíma til að aðildarríki ESB losuðu sig við rússneskt jarðefnaeldsneyti.  Í sumar setti sambandið fram áætlun um að hætta alfarið kaupum á rússnesku gasi og olíu fyrir lok ársins 2027. Rétt er að hafa í huga að tekjur af orkusölu eru afar mikilvægar fyrir stjórnvöld í Moskvu til að fjármagna innrásarstríðið Rússlands gegn Úkraínu.

Ursula von der Leyen lagði líka mikla áherslu á samkeppnishæfni í stefnuræðu sinni, ekki síst í tækni og iðnaði sem byggja á hreinni orku.  ESB er með í gangi margvíslega stefnumótun og aðgerðir til að hraða þeirri uppbyggingu. Forseti framkvæmdastjórnarinnar sagði líka að ESB væri á beinu brautinni að ná því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 55% árið 2030, miðað við losun árið 1990.

Ljóst er að orkuöryggi og sjálfstæði er mikilvægur liður í því sem Ursula von der Leyen kallaði „stund sjálfstæðis Evrópu.“  Hún sagði að Evrópubúar þyrftu að sjálfir að axla ábyrgð á sínu öryggi og vörnum ásamt því að hafa stjórn á þeirri tækni og orkulindum sem knýja áfram efnahags- og atvinnulíf álfunnar.

Mynd: ESB. Hér er hægt að lesa ræðuna í heild á ensku:

https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/speech_25_2053

Read more: Ursula von der Leyen lagði áherslu á orkumál í stefnuræðu á Evrópuþinginu