Meiri endurnýjanleg orka til hitunar og kælingar er lykill að orkuskiptum innan ESB 

Evrópskur samstarfsvettvangur um tækni og nýsköpun vegna sjálfbærrar hitunar og kælingar1 stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 7. maí sem bar yfirskriftina „Collaborative Pathways to Sustainable Heating and Cooling“ eða „Samstarfsleiðir að sjálfbærri hitun og kælingu.“ 

Þeir sem sátu ráðstefnuna komu úr ýmsum áttum, s.s. sérfræðingar úr vísindasamfélaginu, fulltrúar fyrirtækja, hagsmunasamtaka og sérfræðingar frá Evrópusambandinu.  Árið 2023 stóðu endurnýjanlegir orkugjafar undir 26.2% af heildarorkunotkun vegna hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. Vera má að sú tala hafi hækkað eitthvað síðan en það er greinilega verk að vinna að auka hlut grænna orkugjafa og minnka þá um leið notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki síst þegar Evrópusambandið ætlar í áföngum að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi fyrir árslok 2027. Orka sem notuð er til hitunar og kælingar er um helmingur af heildarorkunotkun í aðildarríkjum Evrópusambandsins. ESB hefur því lagt ríka áherslu á að minnka kolefnislosun í þessum geira með því að hraða orkuskiptum enda sé það forsenda fyrir því að ná markmiðum ESB í orku- og loftslagsmálum.  

Beatrice Coda frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Evrópusambandsins. 

Fyrirlesarar á ráðstefnunni litu margir til framtíðar, kynntu nýjungar á þessu sviði og ræddu einnig helstu áskoranir og tækifæri í pallborðsumræðum.  Athyglisvert er að sjá hvernig ólíkir orkugjafar eru notaðir til hitunar og kælingar i Evrópu Þar má helst nefna sólarorku, lífefnaeldsneyti og varmadælur og svo auðvitað jarðhita.  Nýsköpun á þessu sviði veltur m.a. á framlögum frá Evrópusambandinu og fulltrúi ESB á ráðstefnunni var einmitt  frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnar ESB, Beatrice Coda. Hún benti m.a. á að Horizon Europe, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, hefði veitt verulegu fé til fjölmargra verkefna til að styðja við þróun endurnýjanlegra orkulausna  fyrir hitun og kælingu. Íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskólar geta sótt um styrki úr Horizon og hefur orðið vel ágengt, m.a. í að fá styrki til nýtingar jarðhita. 

Fulltrúar víða að sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður voru líflegar. 

Þá hyggst Evrópusambandið efla hlut jarðvarma með sérstakri aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi og á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Samorka mun fylgjast grannt með því ferli enda er Ísland í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma og hefur því margt fram að færa. 

Meira um ráðstefnuna: 100% RHC Event 2025 – RHC 

Stefnumótun ESB um hitun og kælingu: Heating and cooling 

Gott grunnvatn er forgangsmál

Verndun og gæði gunnvatns í Evrópu er eitt af forgangsmálum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði fulltrúi hennar á fundi í Brussel þann 29. apríl. Framkvæmdastjórnin vinnur nú að „Stefnu um viðnámsþrótt vatns“ eða „European Water Resilience Strategy“. Opið samráðsferli skilaði hátt í sex hundruð umsögnum eða framlögum og haldnir voru þrír hringborðsfundir undir lok mars.

Ný stefnumótunarskýrsla „Grunnvatn í Evrópu – hornsteinn viðnámsþróttar,“ var kynnt á fundinum en að honum stóð sendinefnd þýska sambandsríkisins Hessen gagnvart Evrópusambandinu. Höfundar skýrslunnar leggja fram margvíslegar tillögur um hvernig bæta megi verndun grunnvatns og tryggja gæði þess. Taka þurfi með í reikninginn áhrif loftslagsbreytinga og styrkja fyrrnefnda stefnumótun ESB um viðnámsþrótt vatns. Skýrslan byggir á víðtækum rannsóknargögnum um vatnsból í Þýskalandi, Króatíu og Spáni. Höfundar segja að grunnvatn hafi aldrei verið mikilvægara fyrir fólk, samfélög og vistkerfi. Hinsvegar sé ólíklegt að markmið Vatnatilskipunar Evrópusambandsins (EU Water Framework Directive) náist fyrir árið 2027. 

Isaac Ojea Jimenez, sérfræðingur á umhverfissviði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá sjónarmiðum ESB.

Þátttakendur í pallborðsumræðum á fundinum komu úr ýmsum áttum, s.s. vísindamenn fulltrúar hagsmunasamtaka á borð við EurEeu og sérfræðingur frá umhverfissviði framkvæmdastjórnar ESB sem hefur þessi mál á sinni könnu. Hann sagði m.a. að bæta þyrfti eftirlit með grunnvatni, upplýsingamiðlun og samhæfingu auk þess að takast á við mengun. Þess væri að vænta að framkvæmdastjórnin leggi stefnuna fram nú á öðrum ársfjórðungi og að Evrópuþingið taki hana fyrir. 

Evrópustefnan um viðnámsþrótt vatns á að vernda hringrás vatnsins, tryggja nægilegt framboð af hreinu vatni á hagstæðu verði fyrir alla og samkeppnishæfni vatnsgeirans í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stefnan leggur áherslu á fimm megin svið – stjórnsýslu og innleiðingu, innviði, fjármögnun og fjárfestingu, öryggi og loks fyrirtæki í vatnsgeiranum, nýsköpun og menntun. 

Stefna, lagasetning og reglur Evrópusambandsins á þessu sviði hafa víðtæk áhrif á hér á landi með lögum og reglum sem íslensk stjórnvöld innleiða í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur þannig verið innleidd með tilheyrandi breytingum á stjórn vatnamála og nú vinnur Evrópusambandið að uppfærslu og nánari útfærslu neysluvatnstilskipunarinnar (EU Drinking Water Directive). Aðildarfyrirtæki og félög innan Samorku hafa skýra hagsmuni af því að vita hvað er handan við hornið hjá Evrópusambandinu í vatnamálum og Samorka vill að sama skapi upplýsa þau um það sem er á döfinni. Samorka er aðili að EurEau og vinnur þannig að því að tryggja hagsmuni íslenskra vatns- og fráveitna í Brussel. 

Fanny Frick-Trzebitzky (t.v.) kynnti rannsókina og Silke Wettach (t.h.) fréttakona stýrði pallborðsumræðum.

Þá má rifja upp að í desember s.l. fékk Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Í þessum hópi eru m.a. fjölmörg sveitarfélög og veitufyrirtæki innan Samorku. 

Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku með Oliver Loebel, framkvæmdastjóra EurEau, sem var meðal þátttakenda í pallborðsumræðunum.

Tenglar með frekari upplýsingum: 

Meira um „European Water Resilience Strategy.“ „Evrópustefnu um viðnámsþrótt vatns.“ 

https://environment.ec.europa.eu/news/call-evidence-begins-eu-water-resilience-strategy-2025-02-04_en

https://www.europarl.europa.eu/legislative-train/theme-sustaining-our-quality-of-life-food-security-water-and-nature/file-european-water-resilience-strategy

Stefnumótunarskýrsla ISOE – The Institute for Social-Ecological Research. „Groundwater in Europe – Cornerstone for Resilience.“ 

https://www.isoe.de/en/publication/groundwater-in-europe-cornerstone-for-resilience

Frétt um styrk sem Umhverfisstofnun fékk frá ESB til að tryggja vatnsgæði: 

https://www.ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2024/12/11/3-5-milljarda-styrkur-til-ad-tryggja-vatnsgaedi-a-Islandi

Skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu um viðnámsþrótt vatns 

https://www.eea.europa.eu/is/highlights/mengun-ofnotkun-og-loftslagsbreytingar-ogna

Orkumál í lykilhlutverki hjá nýrri Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Íslenskir fulltrúar meðal þátttakenda í Vatnsaflsdeginum 2025 í Brussel

Vatnsafl er mikilvægt fyrir sveigjanleika sjálfbærra orkukerfa í Evrópu og orkumál eru í lykilhlutverki í stefnu nýrrar Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fram til ársins 2029. Þetta kom m.a. fram í máli Thomas Schleker, sem fer málefni vatnsafls á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnarinnar (DG RTD), þegar hann bauð gesti velkomna á Vatnsaflsdaginn í Brussel, þann 8. apríl.

Skipuleggjandi ráðstefnunnar var The European Technology and Innovation Platform (ETIP) on Hydropower. https://etip-hydropower.eu/ Markmið vatnsaflsdagsins er að vera sameiginlegur vettvangur fyrir hagmunaaðila í vatnsaflsgeiranum og þá sem fara með þennan málaflokk og móta stefnu í honum innan Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og á Evrópuþinginu.

Tomas Schleker sagði Framkvæmdastjórn ESB leggja ríka áherslu á að auka samkeppnishæfni Evrópu og fjárfestingar í nýsköpun, ekki síst í hreinni orku. Schleker nefndi þar m.a. Samkeppnishæfnisjóðinn (European Competitiveness Fund) og Clean Industrial Deal. Þetta tvennt ásamt margvíslegri annarri stefnumótun og lagasetningu væri lykillinn að því að ná metnaðarfullum markmiðum Evrópusambandsins í orku, umhverfis- og loftslagsmálum á næstu áratugum.

Frummælendur og þátttakendur í pallborðsumræðum á ráðstefnunni undirstrikuðu að vatnsafl væri áreiðanleg orkulind til rafmagnsframleiðslu. Hægt væri að „geyma vatnsafl“ og nýta þá þann forða til að framleiða meira rafmagn þegar aðrir endurnýjanlegir orkugjafar væru ekki skila sínu, s.s. vind- og sólarorka. Ljóst er að mikill kraftur er í vatnsorkugeiranum í Evrópu og fjárfest hefur verið í stórum verkefnum. Loftslagsbreytingar hafa líka mismunandi áhrif á rekstrarskilyrði atvinnugreinarinnar og gera má ráð fyrir að þau verði mun neikvæðari sunnar í álfunni heldur en þegar norðar dregur.

Þátttakendur í ráðstefnunni sögðu líka mikilvægt að vatnsaflsgeirinn starfaði í sátt við umhverfið og nærsamfélagið Ólafur Arnar Jónsson forstöðumaður Nærsamfélags og náttúru hjá Landsvirkjun lagði áherslu á þetta þegar hann tók þátt í pallborðsumræðum á Vatnsaflsdeginum. Hann sagði að gagnsæi væri lykilatriði til að ávinna sér traust. Að heimamenn á hverjum stað, hagsmunaaðilar og aðrir hefðu t.d. greiðan aðgang að niðurstöðum rannsókna og upplýsingum um þau áhrif sem framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar kynnu á að hafa á náttúruna og fleira sem máli skipti.

Það er líka ljóst að óvissa í alþjóðamálum hefur áhrif á orkugeirann og sýnir raunar enn frekar fram á mikilvægi hans fyrir öryggi samfélaga og ríkja. Þessi óvissa eykur líka þrýsting á Evrópusambandið að vera sjálfu sér nægt um orku – að ná markmiðinu um orkusjálfstæði. Staðan er enn sú að ríki Evrópusambandsins flytja inn um 60% af þeirri frumorku sem þau nota, að því er fram kom í máli eins frummælenda.

Annar íslenskur þátttakandi í Vatnsaflsdeginum var Birna Guttormsdóttir frá Umhverfisstofnun, nú sérfræðingur á umhverfissviði Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (DG ENV). Hún sagði margvíslegar stórar áskoranir framundan en vatnsaflsgeirinn gæti bætt sig enn frekar í sjálfbærni og vatnsbúskap – verið meira „water-wise“ eins og hún komst að orði. „Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að það sem er gott fyrir náttúruna er gott fyrir atvinnurekstur og viðskipti,“ sagði Birna sem vinnur að stórum verkefnum á sviði stefnumótunar, reglna og lagasetningar, m.a. í vatnamálum.

Eins tók Heiki Bergmann stjórnarmaður í HS Orku þátt í pallborðsumræðunum, svo það má segja að á ráðstefnunni hafi verið þriðji „íslenski“ fulltrúinn.

Skipuleggjandi Brussel Vatnsaflsdagsins, ETIP Hydropower, hefur sett sér það markmið að sameina þá sem tala fyrir nýtingu vatnsafls í Evrópu – þannig að þessi geiri tali með einni röddu. Ráðstefnan sýndi líka að þeir sem starfa innan vatnsorkugeirans og sérfræðingar sem honum tengjast hafa mikinn metnað í að vanda til verka. Það sýndu fjölbreytt framsöguerindi og líflegar pallborðsumræður.