Virðið í vatninu

Vatn er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir allt líf, heldur er það undirstaða samfélags og alls atvinnulífs. Samkvæmt alþjóðlegum gögnum er aðeins um 2,5% af vatni jarðar ferskvatn og þar af er aðeins 0,3% aðgengilegt til neyslu. Þetta þýðir að aðeins örlítið brot af vatni heimsins er raunverulega nýtt í þágu samfélags og atvinnulífs. Ríkulegar vatnsauðlindir Íslands og tryggt aðgengi að heilnæmu hagkvæmu vatni er lykilþáttur í samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. 

Íslensku tækifærin 

Talið er að það séu um 86 milljónir rúmkílómetra af vatni á jörðinni, en aðeins um 35 milljónir rúmkílómetra eru ferskvatn. Af þessu eru um 70% bundin í jöklum og snjó, 29% í grunnvatni og aðeins tæpt 1% í vötnum og ám. Ísland er gæfuríkt að búa vel af þessari lífsnauðsynlegu auðlind. Endurnýjanlegar ferskvatnsauðlindir á íbúa hér á landi eru tæpir 450 þúsund rúmmetrar, langmest allra landa í heiminum. Álag á vatnsbúskap er aðeins 0,39% af tiltækum ferskvatnsauðlindum, lægst allra landa í Evrópu. Til samanburðar er álagið í Danmörku 25,27% og í Þýskalandi 35,35%. Þetta sýnir að Ísland býr yfir einstökum vatnsauðlindum og hefur tækifæri til að nýta þær með sjálfbærum hætti. 

Hreint vatn er ekki heppni 

Mörg taka vatni og vatnsveitum sem sjálfsögðum hlut. Fólk opnar fyrir kranann og býst við að fá hreint vatn en að baki krananum og um alla byggð liggja flóknir innviðir og tugmilljarða fjárfestingar til að færa fólki og fyrirtækjum þau lífsgæði sem felast í vatninu. Þegar óvænt mengun eða röskun á starfsemi vatnsveitu á sér stað verður fólk fljótt meðvitað um hversu viðkvæm vatnsveitan getur verið. Starfsmenn vatnsveitna vinna oft við krefjandi aðstæður til að tryggja rekstraröryggi og gæði vatns. Til grundvallar hvers konar vatnsnýtingu þurfa að liggja rannsóknir og greiningar sem tryggja að vatnsnýting sé sjálfbær og falli vel að fyrirliggjandi nýtingu. Rétt eins og með aðra auðlindanýtingu er það forsenda að nýtingin sé sjálfbær. Með lögum um stjórn vatnamála hefur verið komið á fót kerfi sem tryggir rannsóknir og vöktun vatnsauðlindarinnar í samvinnu stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings 

Stórar og mikilvægar fjárfestingar 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 6 kveður á um að tryggja skuli aðgengi fyrir öll að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir árið 2030. Fyrirtæki og sveitarfélög bera ábyrgð á að nýta vatnsauðlindir á sjálfbæran hátt og fjárfesta í innviðum sem tryggja öryggi, gæði vatnsins og samfellda þjónustu. Íslendingar búa við öflugar vatnsveitur sem reknar eru af sveitarfélögum og veitufyrirtækjum en það er ekki sjálfgefið að svo verði um alla tíð. Áskoranir á borð við loftslagsbreytingar, aukna mengun og vaxandi eftirspurn krefjast þess að fyrirtæki og stjórnvöld taki virkan þátt í verndun vatnsins. Það er mikilvægt að hafa í huga að á bak við vatnsveiturnar liggja verðmætir innviðir sem þurfa reglulegt viðhald og nýfjárfestingar til að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar. Áætlað endurstofnvirði vatnsveitna á Íslandi er 230 milljarðar króna samkvæmt innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins sem kom út fyrr á árinu. Í skýrslunni kemur einnig fram að framtíðarhorfur vatnsveitna séu neikvæðar og að uppsöfnuð innviðaskuld sé nú 19 milljarðar króna. Þessar tölur minna á mikilvægi þess að stjórnvöld búi vatnsveitum umgjörð sem hvetur til reglulegrar endurnýjunar, nýfjárfestinga, nýsköpunar og framsýni í rekstri – skort hefur á endurnýjun á þessari umgjörð.  

Opinberar reglur tryggi virka vernd vatnsins 

Vatnsveitur þurfa að hafa skýrar heimildir til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda vatnsból og vatnsveitur frá hvers konar ytri ógnum. Það er óforsvaranlegt að óhöpp sem á flesta mælikvarða myndu teljast lítil geti ógnað vatnbólum og valdið verulegri röskun í veitingu vatns til fólks og fyrirtækja. Af öðrum ógnum má telja loftslagsbreytingar og stærri mengunarslys. Opinberar reglur leggja mikla ábyrgð á vatnsveitur en tryggja ekki í öllum tilfellum getu þeirra til að meta og ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til vatnsverndar. Þá er nauðsynlegt að fjárhagslegt rekstrarumhverfi vatnsveitna tryggi getu þeirra til að vinna markvisst í viðhaldi og nýfjárfestingum. Þessu verður að breyta. 

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Hún birtist fyrst í viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 22. október 2025.

Hvernig hugsar þú um hreint vatn?

Vissir þú að hver íbúi í landinu notar um það bil 150 lítra af vatni á dag?

Þegar iðnaður er talinn með notum við 9.190 lítra á hverri sekúndu. Það er eins og tvöfaldar Elliðaárnar á hverri sekúndu. Eða fimm þúsund dæmigerðar vatnskönnur á hverri sekúndu. Eða rúmlega 170.000 Kópavogslaugar, sem er stærsta sundlaug landsins, á ári. Af hreinu og góðu vatni. Þvílík lífsgæði!

Vatnið er grunnforsenda heilbrigðis, lífsgæða og samfélagslegrar þróunar. Við á Íslandi erum vissulega heppin að eiga eins góða vatnsauðlind og raun ber vitni, en það þarf meira en heppni til að auðlindir landsins skili sér í samfélags- og efnahagslegum gæðum. Það þarf stöðugt að gæta, vernda og sinna innviðum þeirra af ábyrgð og ekki þarf mikið til að eitthvað fari verulega úrskeiðis.

Loftslagsbreytingar, aukin landnýting, stækkun byggðar og fólksfjölgun er meðal þess sem hefur skapað aukið álag á vatnsból víða um land og getur aukið hættu á mengun. Þá geta væringar og óstöðugleiki á alþjóðavettvangi einnig haft áhrif á öryggi mikilvægra innviða eins og vatnsveitna.

Um þessar áskoranir verður rætt á opnum fundi Samorku miðvikudaginn 22. október. Yfirskriftin er Verndum vatnið og verður þar fjallað um vatnsvernd, öryggi og áfallaþol vatnsveitna.

Hlutverk vatnsveitna

Hér á landi hafa veitufyrirtæki það lögbundna hlutverk að byggja upp og sinna öflugum vatnsveitum sem þjóna heimilum og atvinnulífi um allt land.  Ýmsar hindranir standa þó í vegi þeirra, til dæmis flókin leyfisveitingaferli sem seinka nauðsynlegum framkvæmdum eins og Samorka hefur oft bent á. Markviss stefnumótun, samvinna ólíkra aðila og skýrar heimildir veitufyrirtækja til að sinna lögbundnu hlutverki sínu er nauðsynleg til að tryggja komandi kynslóðum áframhaldandi aðgengi að öruggu neysluvatni og svo að hægt sé að styðja við öflugt atvinnulíf um allt land.

Gott skipulag tryggir betri árangur

Mikilvægt er að veitufyrirtæki fái greiða og tímanlega aðkomu að skipulagsmálum svo hægt sé að hanna og byggja upp veitukerfi sem standast kröfur framtíðarinnar og standa vörð um öryggi vatnsbóla, sem styðja við lífsgæði og atvinnulíf á hverjum stað. Ákvarðanir um skipulag nýrra hverfa verða að taka mið af vatnsvernd og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Þar þarf að gæta jafnvægis milli þarfa samfélagsins og verndar náttúrunnar. Jafn mikilvægt er að huga að og greina veituinniviði ef til stendur að breyta eða þétta hverfi.

Fjárfestingaumgjörð vatnsveitna þarf að styðja við reglubundið viðhald og endurnýjun innviða, svo tryggja megi áfram vatnsgæði í fremstu röð og örugga dreifingu til allra landsmanna. Einnig þarf að horfa heildstætt á nýtingu vatns, þar sem tryggt er að vatn sem nýtt er í atvinnuskyni eða framleiðslu ógni ekki hagsmunum almennings.

Við berum öll ábyrgð

Það skiptir einnig miklu máli að við sem einstaklingar gerum okkur sér grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að því að stuðla að hreinu og heilnæmu vatni til framtíðar. Dagleg hegðun okkar, eins og að skilja eftir rusl, aka utan vega eða nota efni sem geta mengað jarðveg getur haft bein áhrif á vatnsgæði. Það er því mikilvægt að halda því á lofti að hreint vatn er ekki sjálfsagt mál heldur verðmæt auðlind sem við berum öll ábyrgð á.

Vatnið okkar er lífæð samfélagsins. Með góðu skipulagi, virðingu, varkárni og langtímasýn í meðferð þess tryggjum við að komandi kynslóðir njóti áfram þeirra lífsgæða sem hreint og gott neysluvatn er.

Grein eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is mánudaginn 20. október 2025.

Þingið á lokametrum en flest orku- og veitutengd mál enn óafgreidd

Þinglok nálgast og enn er margt óunnið í mikilvægum orku- og veitumálum. Þegar ný ríkisstjórn kynnti þingmálaskrá sína fyrir 156. löggjafarþing síðastliðið vor tók Samorka saman lista yfir tíu þingmál sem hafa beina snertingu við hagsmuni orku- og veitusviðsins. Sex þessara mála höfðu verið lögð fram af fyrri ráðherra, fjögur voru ný. Nú þegar líður að þinglokum hefur aðeins hluti þeirra hlotið fulla meðferð.

Af tíu málum voru sjö lögð fram en þrjú sátu eftir, þar á meðal umfjöllun um fimm  virkjunarkosti í fimmta áfanga rammaáætlunar. Þau þrjú sem ekki náðu fram eru því að öllum líkindum áfram í biðstöðu, þar til nýtt þing tekur við.

Orku og veitutengd mál á þingmálalista yfirstandandi þings. Mál lituð bleikum hafa ekki verið lögð fram á yfirstandandi þingi.

Tvö mál hafa verið samþykkt

Af þeim sjö málum sem lögð voru fram hefur Alþingi samþykkt tvö. Annars vegar breytingar á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála sem veita Umhverfis- og Orkustofnun heimild til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna. Þar með var brugðist við lagalegri óvissu sem skapaðist eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar vegna skorts á lagaheimild.

Hins vegar var samþykkt afhúðunarfrumvarp til breytinga á lögum um umhverfismat, sem færir íslenskt regluverk nær evróputilskipuninni sem lögin byggjast á.

Fimm mál í nefnd eða biðstöðu

Önnur mál eru ýmist í þingnefndum eða bíða umræðu. Þar á meðal eru tillögur um raforkuöryggi, einföldun leyfisveitinga og breytingar á viðskiptakerfi með raforku. Einnig bíða endurskoðun á þriðja áfanga rammaáætlunar og skýrari málsmeðferðarreglur fyrir áætlunarferlið frekari afgreiðslu.

Samorka sendi inn umsagnir um þrjú mál í júní; um áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga, um áform um endurskoðun sveitarstjórnarlaga og um drög að forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB. Hægt er að lesa allar umsagnir Samorku hér.

Losar Alþingi um leyfisveitinga-flækjuna?

Á bak við hverja virkjun, hverja jarðvinnu og hverja raflínu liggur langt og strangt ferli skipulags og leyfisveitinga. Í orku- og veitumálum hafa leyfisveitingar og skipulagsmál, á vegum ríkis og sveitarfélaga, orðið að þröskuldi sem hægir á orkuskiptum, fjárfestingum og samkeppnishæfni þjóðarinnar. Ísland hefur ekki efni á að viðhalda slíku ástandi mikið lengur.

Í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála hefur á undanförnum árum verið unnið hörðum höndum að því að móta löggjöf til einföldunar á leyfisveitingaferlum og hafa þó nokkur frumvörp í þá veru farið í gegnum samráð í samráðsgátt stjórnvalda og verið lögð fyrir Alþingi sem lagafrumvörp. Búast má við að á síðustu dögum þingsins verði teknar ákvarðanir um það hvaða þingmál hljóta afgreiðslu og hvaða þingmál þurfa að bíða til næsta vetrar. Þar sem nokkuð góð sátt virðist vera meðal þingflokka um mikilvægi þess að á Íslandi verði hægt að virkja orku til að stuðla að orkuskiptum, viðhalda samkeppnishæfni þjóðarinnar og mæta ört vaxandi samfélagi má ætla, eða að minnsta kosti vona, að þau lagafrumvörp sem snúa að einföldun leyfisveitinga komist í gegnum þingið að þessu sinni.

Um alla Evrópu er verið að stíga mikilvæg skref til að tryggja að lönd komist í gegnum orkuskiptin, að kolefnishlutleysi verði náð á næstu áratugum og að Evrópa verði óháð jarðaefnaeldsneyti frá ríkjum sem ekki er hægt að treysta með tilliti til öryggis- og varnarmála.

Frá Þýskalandi má finna gott dæmi um raunverulegan árangur í þessum efnum. Þannig tókst Þjóðverjum að margfalda leyfisveitingar fyrir vindorku – úr innan við 2 GW árið 2022 í næstum 15 GW árið 2024. Þetta var ekki tilviljun, heldur afrakstur yfirgripsmikillar lagasetningar og markvissra aðgerða; umsóknarferli voru stytt, ábyrgð skýrð, málsmeðferðarreglur einfaldaðar og endurnýjanleg orka skilgreind sem almannahagsmunamál. Settar voru skýrar kröfur um landnýtingu til að tryggja að land yrði nýtt undir vindorku og sveitarstjórnarstigið tæki ábyrgð og bæri skyldur í þeim efnum. Með breytingum á fjölda laga og skýrri stefnumótun stjórnvalda fór kerfið að virka og leyfi eru nú afgreidd fljótt og örugglega.

Á Íslandi eru nú nokkur frumvörp í þinglegri meðferð sem varða einföldun regluverks, rammaáætlun og stjórnsýslu leyfisveitinga. Flest þeirra mála hafa verið í vinnslu í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála síðan á síðasta kjörtímabili og ættu að njóta víðtæks þingsstuðnings. Þá verður að undirstrika að í núverandi kerfi rammaáætlunar er það á ábyrgð þingsins að orkunýtingarflokkkur rammaáætlunar mæti ávallt þörfum þjóðarinnar um orkuframleiðslu og orkuöryggi til lengri tíma.

Að samþykkja þessi frumvörp nú – áður en Alþingi fer í sumarhlé – væri tákn um vilja og skynsemi, að stjórnsýsla og lagasetning geti unnið með framtíðarsýn þjóðarinnar, en ekki á móti henni. Við vitum hvert við viljum fara. Til að komast þangað þurfum við stjórnsýslu sem virkar – og löggjafarvald sem treystir henni til þess.

Grein eftir Katrínu Helgu Hallgrímsdóttur, lögfræðing Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 11. júní 2025.

Innlend orka sem vörn gegn ytri ógnum

Í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2026-2030 er gert ráð fyrir hækkun útgjaldaramma til almannaöryggis. Í ljósi þróunar í alþjóðamálum hafa ríki Evrópu jafnframt kynnt breyttar áherslur og aukningu í fjárveitingum til varnarmála, til uppbyggingar og öryggis mikilvægra innviða. Viðnámsþróttur gegn hvers konar vá eða raunum er sem rauður þráður í stefnumótun Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja. Íslensk stjórnvöld vinna nú að greiningu á viðnámsþoli íslensks samfélags og gert ráð fyrir að lagabreytinga verði þörf.

Varnaráhrif gegn ytri ógnum

Eitt meginmarkmið Evrópu er að gera álfuna sjálfstæða um orkuöflun. Innrás Rússlands í Úkraínu sýndi glöggt hversu útsett samfélög sem reiða sig á innflutta orku eru fyrir alvarlegum röskunum á orkuflutningi og verðhækkunum. Ísland er í dag að mestu knúið og kynt með orku sem aflað er innanlands. Alls er 85% allrar orkunotkunar fengin með þessum hætti. Aðeins um 15% orkunnar eru hins vegar fengin með innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Íslenska hagkerfið er því ekki jafn viðkvæmt fyrir alþjóðlegri þróun á eldsneytismörkuðum og mörg önnur ríki.

Tækifærin í frekari rafvæðingu

Ljóst er að ákveðnir hlutar atvinnulífsins s.s. flug og stærri skip verða ekki knúnir með grænni orku á allra næstu árum. En þó eru fjölmörg tækifæri ónýtt eða skammt undan. Má þar nefna frekari rafvæðingu í samgöngum á landi og nýtingu grænnar orku fyrir þungflutninga, á vinnuvélar og minni báta. Með markvissum skrefum er því unnt að minnka enn frekar útsetningu íslensk hagkerfis gagnvart ytri ógnum og neikvæðri þróun í alþjóðakerfinu. Þá eru ótalin hin jákvæðu áhrif sem fást fram í formi minni losunar koltvísýrings og betri nýtingu orku en fengist getur með brennslu jarðefnaeldsneytis.

Mikilvæg uppbygging flutnings- og hleðsluinnviða

Björninn er ekki unninn með orkuöflun einvörðungu. Byggja þarf upp, endurnýja og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku svo þau geti borið meiri orkuflutning til mæta þörfum rafvædds samfélags. Nýta þarf nýjustu tækni til að dreifa áhættu og tryggja áfallaþol flutnings- og dreifikerfa og gera þeim kleift að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar. Til þess þarf t.a.m. skilvirka stjórnsýslu sem hamlar ekki uppbyggingu.

Ómissandi innviðir

Þegar horft er til viðnámsþróttar samfélagsins má ekki gleyma öðrum grundvallarinnviðum. Alla daga reiðir samfélagið sig á órofa þjónustu veitufyrirtækja sem reka hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Þó mörg taki starfsemi þeirra sem gefnum hlut standa þau frammi fyrir stórum áskorunum. Breytingar á loftslagi, ásókn í byggingarland nærri innviðum og íþyngjandi skipulags- og leyfisveitingarferli eru einungis hluti af áskorunum sem veitufyrirtækin standa frammi fyrir. Standa þarf vörð um þessa mikilvægu innviði og tryggja öryggi þeirra til langs tíma.

Framtíðaröryggi orkukerfisins og innviða Íslands

Nú er tími til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar og hugsa til framtíðar. Með skynsamlegum fjárfestingum og framsýnni stefnu í uppbyggingu innviða er hægt að skapa öruggara, sjálfstæðara og umhverfisvænna samfélag sem stendur traustum fótum, minna háð ytri þrýstingi og sveiflum í orkumálum heimsins. Að tryggja öryggi innviða er ekki aðeins praktískt skref – það er grundvallaratriði fyrir framtíð landsins og velsæld komandi kynslóða.

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudagur 9. apríl 2025.

Samorka – sterk samtök í 30 ár

Árið 2025 markar tímamót fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, því á árinu fagna þau 30 ára afmæli. Samorka hefur gegnt lykilhlutverki í að tryggja að orku- og veitugeirinn á Íslandi eigi sér sterkan málsvara í samtali við stjórnvöld og samfélag. Þessi þátttaka er mikilvægari en nokkru sinni fyrr í ljósi þeirra áskorana sem íslenskt samfélag og orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir.

Orku- og veitugeirinn er burðarás í íslensku samfélagi, ekki aðeins vegna þess að hann tryggir sjálfbæra og hreina orku, heldur einnig vegna þess að hann styður við markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040. Í orku- og veitufyrirtækjum starfa landsins bestu sérfræðingar á sínum sviðum sem vinna ötullega að því að endurnýja, uppfæra og þróa nýja orku- og veituinniviði sem skapa lífsgæði og leggja grunn að nýrri verðmætasköpun. Samorka hefur verið leiðandi í að miðla tæknilegri þekkingu fyrirtækja í geiranum og skapa vettvang fyrir stefnumótandi umræðu um framtíð orku- og veitukerfa landsins.

Umfangsmiklar fjárfestingar

Í tilefni af afmælinu verður í dag haldinn opinn ársfundur í Hörpu, þar sem áhersla verður lögð á framtíðarsýn og áskoranir orku- og veitugeirans. Á fundinum verða kynntar tölur um fyrirhugaðar fjárfestingar orku- og veitufyrirtækja næstu 5 árin. Meðal dagskrárliða verða erindi frá lykilfólki í geiranum, pallborðsumræður og tækifæri til að fagna þessum tímamótum með léttum veitingum og tónlist. Fundinum verður streymt beint á heimasíðu Samorku, samorka.is.

Græn framtíð

Á stórum tímamótum er mikilvægt að líta til framtíðar. Samorka mun halda áfram að vinna að því að stuðla að skilvirkri stjórnsýsluumgjörð um orku- og veituinnviði, stuðla að nýsköpun og menntun á starfssviðum aðildarfélaga og vinna að því að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku, knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með
sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands.

Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 19. mars.

Lærdómar ársins og leiðin fram á við í orkumálum

Nú þegar árið fer að líða að lokum er rétt að líta yfir farinn veg í orku- og veitugeiranum og draga lærdóm af áskorunum og árangri ársins. Það er óumdeilt að árið hefur verið krefjandi en um leið frjósamt þegar litið er til framfara og tækifæra. 

Tíð eldsumbrot á Reykjanesskaga héldu áfram að reyna á viðbragð, fagmennsku og útsjónarsemi allra aðila sem komu að orku- og veiturekstri þar á beinan og óbeinan hátt. Á svæðinu eru mikilvægir innviðir fyrir þjóðina alla sem nauðsynlegt er að starfi óraskað. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðum allra sem að málinu koma og þó að gosin hafi á endanum orðið sjö og ferlar að miklu leyti orðnir þrautreyndir eru engin tvö gos eins og hverjum viðburði verður að taka alvarlega.   

Orka hreyfir við stjórnmálum 

Á síðari hluta ársins fóru augu samfélagsins að beinast í auknum mæli að orkumarkaðnum. Lengi hefur gengið illa að greiða fyrir frekari orkuframleiðslu á Alþingi og var það m.a. farið að valda streitu innan stjórnarsambandsins. Þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti á endanum slit ríkisstjórnarinnar þann 13. október vísaði hann til þess að orkumál hefðu verið á meðal þeirra mála sem ekki hefði nást sátt um. Við var búist að í kosningabaráttunni myndi umræða um orkumál skapa stóran sess en raunin varð önnur. Ljóst varð að þjóðin er að mestu leyti sammála um stöðuna í orkumálum. Að auka þurfi orkuframleiðslu er ekki umdeilt á meðal almennings og engir stórir pólitískir sigrar voru þangað að sækja. Sást vilji þjóðarinnar skýrast í því að flokkar sem settu aukna orkuframleiðslu ofarlega á sínar stefnuskrár enduðu á þingi á meðan þau sem létu málefnið mæta afgangi gerðu það ekki. 

Greiða þarf fyrir nýrri orkuöflun 

Orkuframleiðsla hefur reyndar alls ekki fengið þann sess sem hún ætti að hafa innan Alþingis og hefur það orðið til þess að orkuframboð hefur ekki aukist í samræmi við vöxt hagkerfisins og fólksfjölgun. Ein afleiðing þess er sífellt meiri uggur á meðal almennings varðandi orkuöryggi sitt og orkuverð. Krafan um skammtímalausnir eins og markaðsinngrip eru farnar að heyrast en það þarf bara að líta til reynslu Evrópuríkjanna í orkukrísunni í fyrir nokkrum árum til að læra að þó þannig inngrip geti virst freistandi í dag þá fylgir þeim óhagræði sem getur dregið langan dilk á eftir sér. Aðgerðir í evrópsku orkukrísunni voru til skamms tíma og verð á evrópskum mörkuðum kost aftur í jafnvægi. 

Áhersla á orku hjá nýrri ríkisstjórn 

Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og í stefnuyfirlýsingu hennar birtist skilningur á mikilvægi nýrrar orkuöflunar. Mikil fjárfesting í orkuframleiðslu og flutnings og dreifikerfum er framundan og skýr sýn á verkefnið þarf að vera til staðar svo að þessi fjárfesting fari fram á sem hagkvæmastan hátt.  

Á síðustu vikum ársins kynnti starfshópur um breytingar á rammaáætlun niðurstöður vinnu sinnar. Eftir háleit markmið fráfarandi ríkisstjórnar um endurskoðun rammaáætlunar má segja að afraksturinn hafi ekki staðist væntingar. Framlagðar breytingatillögur ganga skammt.  

Í beinu framhaldi af þessari kynningu skilaði verkefnastjórn rammaáætlunar af sér mati á 10 vindorkukostum þar sem enginn þeirra fékk framgengi í virkjunarkost. Rökstuðningur fyrir niðurstöðunum var allskyns og innra samræmi í aðferðarfræði faghópa ekki alltaf. Af miklu er að taka í orkumálum á Íslandi og ef áðurnefnd markmið eiga að nást og þá duga þessi vinnubrögð skammt.  

Aukið gagnsæi á raforkumarkaði 

Mikilvægt er þó að draga einnig fram það jákvæða sem gerðist á árinu og má þar nefna tilkomu skipulegra viðskiptavettvanga. Með þeim varð engin eðlisbreyting, enda hafa viðskipti verið frjáls á milli aðila síðan í upphafi aldarinnar. Hins vegar urðu viðskipti með raforku tíðari og gagnsærri á slíkum vettvöngum. Fram komu mikilvægar upplýsingar um raforkumarkaðinn, svo sem framboð, eftirspurn og verð sem eru nú aðgengilegar öllum. Enda hefur umræða um orkumál sprungið út í samræmi við það. Frekari löggjöf um viðskipti á raforkumörkuðum mun stuðla að auknu traustu til þessara viðskipta og auka gagnsæi enn frekar.   

Bjartari framtíð 

Framtíðin er björt í orku- og veitugeiranum. Nýlegir fundir á heitu vatni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og Ísafirði eru sérlega góðar fréttir fyrir bæjarfélögin þar og mun vera innspýting í vöxt viðskipta og lífsgæða. Einnig voru veitt virkjunarleyfi fyrir tvær tiltölulega stórar virkjanir á árinu, Hvammsvirkjun og Búrfellslund, samtals um 215MW. Búrfellslundur verður fyrsta stóra vindorkuvirkjunin sem mun rísa en vindorka mun vafalaust spila stórt hlutverk í íslensku orkuskiptunum.  

Árið í orkumálum hefur umfram allt verið lærdómsríkt. Á nýju ári tekur við ný ríkisstjórn og óska henni allir velfarnaðar. Vert er að minna nýja leiðtoga á að það þarf metnaðarfullar aðgerðir, bæði  í fjárfestingu og stefnumótun til að Ísland viðhaldi stöðu sinni sem leiðandi afl í grænni orku og nái að klára orkuskiptin á sem hagkvæmastan máta. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að tryggja að græn orka verði áfram burðarás lífsgæða og hagvaxtar í landinu. Án hennar verður verðmætasköpun á Íslandi ekki aukin. 

Samorka vill þakkar öllum fyrir árið sem er nú að líða og óskum ykkur velfarnaðar á því næsta. 

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samoku. Greinin birtist fyrst á Innherja 27. desember 2024.

Kjósum um græna framtíð

Eftir tíðindi helgarinnar af vettvangi stjórnmálanna virðist ljóst að sýn stjórnarflokkanna á orkumál þjóðarinnar og möguleika til grænnar framtíðar hafi haft umtalsverð áhrif á málalyktir. Það er ekkert nýtt að orkumál marki skil á milli flokka og hugmyndafræðilegur ágreiningur sé um það hvernig Ísland, líkt og önnur ríki, megi best ná markmiðum sínum um efnahagslega uppbyggingu og samdrátt í losun koltvísýrings.

Orkumál eru efnahagsmál

Ítrekað hefur verið á það bent að orkumál eru efnahagsmál. Orkan er súrefni og grundvallarforsenda blómlegrar atvinnustarfsemi sem án orku fær ekki þrifist. Til þessa hefur hún fengist með samspili notkunar á grænni orku en ekki síður með brennslu á jarðefnaeldsneyti sem unnið er með ósjálfbærum hætti og til tjóns fyrir loftslagið. Ísland stefnir að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis þannig að íslenskt samfélag verði knúið og kynt með innlendri grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Þau umskipti þurfa að fara fram án þess að dregið verði úr samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Í því felst að næg græn orka þarf að vera til staðar á Íslandi á samkeppnishæfu verði til að iðnaður og heimili geti byggt upp starfsemi sína og skapað tækifæri fyrir land og þjóð.

Stórar fjárfestingar framundan

Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að fjárfesta þurfi fimm hundruð milljörðum króna í orkutengdum framkvæmdum. Þar á meðal er uppbygging og styrking flutningskerfisins, uppbygging dreifiveitna fyrir snjalla og notendavæna framtíð og ný orkuframleiðsla. Tryggja þarf að innlendir sem erlendir fjárfestar geti komið að þessari uppbyggingu, fjölbreytni verði í bæði framkvæmdaraðilum og orkukostum sem ráðist verður í og að öflug samkeppni verði áfram tryggð í orkuframleiðslu og orkusölu, iðnaði og heimilum til hagsbóta.

Skýrt verkefni stjórnmálanna

Markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum byggjast á starfsemi og árangri fyrirtækja í orkugeiranum og nauðsynlegt er að sú starfsemi geti þróast í takt við nýjustu tæknibreytingar, aukna snjallvæðingu og fjölbreyttari viðskiptalausnir. Langur listi mikilvægra þingmála frá umhverfis- orku og loftslagsráðherra sem fyrir lá í haust ber vott um þessa þörf og það fjölbreytta starf sem unnið hefur verði á þessu sviði á kjörtímabilinu. Nauðsynlegt er að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum haldi áfram á þeirri braut að einfalda leyfisveitingar og styðja við gróskumikið umhverfi innviðauppbyggingar. Þannig tryggjum við nýtingu auðlinda í þágu þjóðarinnar.

Tækifærin eru til staðar

Ísland er í einstakri stöðu meðal ríkja heims. Landið okkar býr yfir náttúruauðlindum sem hægt er með skynsamri og ábyrgri nýtingu að leggja grunn að orkusjálfstæði, orkuöryggi og samkeppnishæfu orkuframboði til orkuskipta og grænnar uppbyggingar. Við búum yfir langri og farsælli reynslu af nýtingu þeirra, vel menntuðu starfsfólki og kröftugum orku- og veitufyrirtækjum sem vinna ötullega að orkukerfi framtíðarinnar. Verkefni dagsins á þessu sviði eru grundvöllur framtíðarinnar með tilliti til loftslagsins og hagsældar þjóðarinnar. Kjósum um græna framtíð.

Í samkeppni um vindinn

Framtíðarsýnin er samfélag knúið áfram af 100% grænni orku. Jafnt og öruggt aðgengi allra að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði. Snjallt og sveigjanlegt orkukerfi þar sem engu er sóað. Þetta er bara brot af þeirri framtíðarsýn sem birtist okkur í Orkustefnu til ársins 2050. Hún er skýr, falleg og óumdeild. Leiðin þangað er hins vegar ekki bein og breið og fjölmörg mál sem þarf að leysa úr á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu á næstu árum. Mikil og snörp umræða hefur verið um vindorku undanfarnar vikur í tengslum við virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund og áform um uppbyggingu í vindorku víðar um land. Mörgum vex í augum hvaða áhrif vindorkuver munu hafa á náttúru og umhverfi á meðan aðrir hafa áhyggjur af því að erlendir aðilar komi að orkuframleiðslu á Íslandi, enn aðrir hafa áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er þá bara það helsta talið til. Þetta eru verkefni sem þarf að ræða og leysa.

Mikilvæg skref hafa nú þegar verið stigin. Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024-2038 leggur áherslu á orkuskiptin, kolefnishlutleysi, uppbyggingu í grænni orku og þar með talið nýtingu vindorku. Við afgreiðslu Landsskipulagsstefnu á Alþingi greiddu 45 þingmenn henni atkvæði og enginn sagði „nei“. Stjórnvöld hafa sett markmið og undirgengist skuldbindingar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Alþingi mun á haustmánuðum taka til meðferðar í annað sinn þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í raun má segja að Alþingi, stjórnsýslan, atvinnuvegir landsins og almenningur allur sé á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi – rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Græna byltingin

Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Græna byltingin í Evrópu er keyrð áfram í öflugu markaðshagkerfi þar sem kraftar samkeppninnar fá að njóta sín. Nýjum lausnum og leiðum við orkuöflun og orkunýtni fleygir enda fram víðast hvar. Meginstef grænu byltingarinnar er að Evrópa verði alfarið knúin grænni orku og virk samkeppni á raforkumarkaði tryggi hag neytenda og samkeppnishæfni álfunnar – rétt eins og framtíðarsýnin fyrir Ísland árið 2050 birtist okkur.

Í nýútgefnum Raforkuvísum Orkustofnunar eru birtar tölur um áætlaðar fjárfestingar raforkugeirans fyrir árin 2024 – 2028. Þar kemur fram að heildarfjárfestingar fyrir þetta tímabil eru um 500 milljarðar.

Það er því full ástæða til að sjá það sem fagnaðarefni að bæði innlendir og erlendir aðilar séu tilbúnir að koma að orkuframleiðslu hér á landi á næstu árum og áratugum. Orkan sem verður framleidd mun svo nýtast til að mæta framtíðarorkuþörf þjóðarinnar, bæði heimila landsins, fyrirtækja og iðnaðar.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi. Rétt eins og kröftug samkeppni hefur leitt af sér nýjungar og lækkað vöruverð á öðrum mörkuðum – mun væntanlega það sama gerast á þessum markaði.

Hvað með vind á hafi?

Í umræðunni eru hugmyndir um fjölda annarra orkukosta og möguleika til orkuöflunar og orkunýtni, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna birtuorku, vindorku á hafi, virkjun sjávarfalla og kjarnorku. Þá fleygir fram tækni í tengslum við rafhlöðulausnir og orkunýtni. Víða í Evrópu er mikil uppbygging og þróun í gangi varðandi alla þessa orkukosti og orkutækni og væntanlega mun flest af því berast hingað til lands fyrr en síðar. Í dag er því þó þannig farið að það er langtum dýrara að framleiða rafmagn með vindorku á hafi og kjarnorku en með vind eða sól á landi. Verkefni um vindorku á hafi og kjarnorku verða því nánast eingöngu að veruleika í dag með miklum ríkisstyrkjum og stuðningi. Víðast hvar í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld sett skýrar áætlanir um hve mikið þurfi að auka grænorkuframleiðslu á næstu árum. Þá er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum gríðarlegum fjármunum varið af hálfu hins opinbera til að auka grænorkuframleiðslu til að tryggja orkusjálfstæði og orkuskiptin.

Það er lykilatriði í áframhaldandi samkeppnishæfni samfélags okkar að öflugir fjárfestar og fyrirtæki sjái sér hag í að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og það geti farið fram án umfangsmikilla ríkisstyrkja.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur Samorku skrifaði greinina, sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 11. september 2024.

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn

Rafmagnsframleiðsla með vindi er þrautreynd og örugg leið til að framleiða rafmagn á umhverfisvænan og árangursríkan hátt. Í nágrannalöndum okkar stendur vindorka undir stórum hluta raforkuþarfar og áform eru um að hraða uppbyggingu hennar í nágrannalöndum okkar til að tryggja aukið framboð, raforkuöryggi og ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda í hverju landi fyrir sig.

Á Íslandi liggja sömu verkefni fyrir. Við þurfum að tryggja raforkuöryggi heimila og fyrirtækja svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna og um leið þarf græna orku í orkuskiptin þar sem jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir græna orku s.s. í samgöngum.

Vindorka er þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver hraðar en þekkist við nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru. Vindorka er því góð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert.

Vandað til verka

Vindorkuverkefni þurfa líkt og önnur að standast mjög strangar kröfur um rannsóknir og umhverfismat áður en þau geta hlotið leyfi. Má þar nefna rannsóknir á gróðurfari, fugla- og vatnalífi og fleira. Um 35 vindorkuverkefni eru til skoðunar í dag hér á landi sem eru mislangt komin í þessu ferli og engin vissa enn um hver þeirra verða að veruleika.

Áhrif vindorkunýtingar eru fyrst og fremst sjónræn og því þarf að vanda staðarval vel. Vindmyllur geta verið ríflega 150 metra háar með spaða í hæstu stöðu og framleiða á bilinu 4-7 MW. Það er því hægt að raða upp ákveðnum fjölda eftir hagkvæmni og hentugleika á hverjum stað.

Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár. Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig framleiðslu grænnar orku á sama svæði. Einnig er hægt að taka þær niður og færa svæðið sem næst fyrra horfi. Þannig bindur vindorkunýting ekki hendur framtíðarkynslóða.

Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg. Í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verði lagt bann við að urða blöðin árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur.

Sameiginlegur ávinningur

Mikill ávinningur felst í því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Í dag notar íslenskt samfélag um milljón tonn af olíu á ári og það kostar okkur 100 milljarða á hverju ári! Með því að nota græna orku framleidda innanlands í stað innfluttrar olíu myndum við fá hreinna loft, meiri fjármuni í okkar sameiginlegu sjóði og aukið sjálfstæði frá öðrum þjóðum með því að vera sjálfum okkur nóg um orku. Af vindmyllum eru greidd fasteignagjöld sem renna til þess sveitarfélags sem það starfar í. Stjórnvöld hafa svo í hendi sér hvernig þau skipta á milli sveitarfélaga sem þannig verða til.

Það er ekki einfalt verkefni að þróa og byggja upp orkuverkefni. Það er því fagnaðarefni að öflug, reynd fyrirtæki og einstaklingar, innanlands sem utan, sýni framþróun vindorku á Íslandi áhuga og séu tilbúin til að leggja í miklar fjárfestingar.

Á heimasíðu Samorku má nálgast algengar spurningar um vindorku og svör og auk þess má hlusta á þáttinn Spurt og svarað um vindorku í hlaðvarpi Samorku, Lífæðar landsins, á öllum hlaðvarpsveitum.

Höfundur greinarinnar er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Greinin birtist fyrst 4. september á visir.is.