Kjósum um græna framtíð

Eftir tíðindi helgarinnar af vettvangi stjórnmálanna virðist ljóst að sýn stjórnarflokkanna á orkumál þjóðarinnar og möguleika til grænnar framtíðar hafi haft umtalsverð áhrif á málalyktir. Það er ekkert nýtt að orkumál marki skil á milli flokka og hugmyndafræðilegur ágreiningur sé um það hvernig Ísland, líkt og önnur ríki, megi best ná markmiðum sínum um efnahagslega uppbyggingu og samdrátt í losun koltvísýrings.

Orkumál eru efnahagsmál

Ítrekað hefur verið á það bent að orkumál eru efnahagsmál. Orkan er súrefni og grundvallarforsenda blómlegrar atvinnustarfsemi sem án orku fær ekki þrifist. Til þessa hefur hún fengist með samspili notkunar á grænni orku en ekki síður með brennslu á jarðefnaeldsneyti sem unnið er með ósjálfbærum hætti og til tjóns fyrir loftslagið. Ísland stefnir að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis þannig að íslenskt samfélag verði knúið og kynt með innlendri grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Þau umskipti þurfa að fara fram án þess að dregið verði úr samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Í því felst að næg græn orka þarf að vera til staðar á Íslandi á samkeppnishæfu verði til að iðnaður og heimili geti byggt upp starfsemi sína og skapað tækifæri fyrir land og þjóð.

Stórar fjárfestingar framundan

Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að fjárfesta þurfi fimm hundruð milljörðum króna í orkutengdum framkvæmdum. Þar á meðal er uppbygging og styrking flutningskerfisins, uppbygging dreifiveitna fyrir snjalla og notendavæna framtíð og ný orkuframleiðsla. Tryggja þarf að innlendir sem erlendir fjárfestar geti komið að þessari uppbyggingu, fjölbreytni verði í bæði framkvæmdaraðilum og orkukostum sem ráðist verður í og að öflug samkeppni verði áfram tryggð í orkuframleiðslu og orkusölu, iðnaði og heimilum til hagsbóta.

Skýrt verkefni stjórnmálanna

Markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum byggjast á starfsemi og árangri fyrirtækja í orkugeiranum og nauðsynlegt er að sú starfsemi geti þróast í takt við nýjustu tæknibreytingar, aukna snjallvæðingu og fjölbreyttari viðskiptalausnir. Langur listi mikilvægra þingmála frá umhverfis- orku og loftslagsráðherra sem fyrir lá í haust ber vott um þessa þörf og það fjölbreytta starf sem unnið hefur verði á þessu sviði á kjörtímabilinu. Nauðsynlegt er að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum haldi áfram á þeirri braut að einfalda leyfisveitingar og styðja við gróskumikið umhverfi innviðauppbyggingar. Þannig tryggjum við nýtingu auðlinda í þágu þjóðarinnar.

Tækifærin eru til staðar

Ísland er í einstakri stöðu meðal ríkja heims. Landið okkar býr yfir náttúruauðlindum sem hægt er með skynsamri og ábyrgri nýtingu að leggja grunn að orkusjálfstæði, orkuöryggi og samkeppnishæfu orkuframboði til orkuskipta og grænnar uppbyggingar. Við búum yfir langri og farsælli reynslu af nýtingu þeirra, vel menntuðu starfsfólki og kröftugum orku- og veitufyrirtækjum sem vinna ötullega að orkukerfi framtíðarinnar. Verkefni dagsins á þessu sviði eru grundvöllur framtíðarinnar með tilliti til loftslagsins og hagsældar þjóðarinnar. Kjósum um græna framtíð.

Í samkeppni um vindinn

Framtíðarsýnin er samfélag knúið áfram af 100% grænni orku. Jafnt og öruggt aðgengi allra að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði. Snjallt og sveigjanlegt orkukerfi þar sem engu er sóað. Þetta er bara brot af þeirri framtíðarsýn sem birtist okkur í Orkustefnu til ársins 2050. Hún er skýr, falleg og óumdeild. Leiðin þangað er hins vegar ekki bein og breið og fjölmörg mál sem þarf að leysa úr á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu á næstu árum. Mikil og snörp umræða hefur verið um vindorku undanfarnar vikur í tengslum við virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund og áform um uppbyggingu í vindorku víðar um land. Mörgum vex í augum hvaða áhrif vindorkuver munu hafa á náttúru og umhverfi á meðan aðrir hafa áhyggjur af því að erlendir aðilar komi að orkuframleiðslu á Íslandi, enn aðrir hafa áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er þá bara það helsta talið til. Þetta eru verkefni sem þarf að ræða og leysa.

Mikilvæg skref hafa nú þegar verið stigin. Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024-2038 leggur áherslu á orkuskiptin, kolefnishlutleysi, uppbyggingu í grænni orku og þar með talið nýtingu vindorku. Við afgreiðslu Landsskipulagsstefnu á Alþingi greiddu 45 þingmenn henni atkvæði og enginn sagði „nei“. Stjórnvöld hafa sett markmið og undirgengist skuldbindingar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Alþingi mun á haustmánuðum taka til meðferðar í annað sinn þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í raun má segja að Alþingi, stjórnsýslan, atvinnuvegir landsins og almenningur allur sé á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi – rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Græna byltingin

Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Græna byltingin í Evrópu er keyrð áfram í öflugu markaðshagkerfi þar sem kraftar samkeppninnar fá að njóta sín. Nýjum lausnum og leiðum við orkuöflun og orkunýtni fleygir enda fram víðast hvar. Meginstef grænu byltingarinnar er að Evrópa verði alfarið knúin grænni orku og virk samkeppni á raforkumarkaði tryggi hag neytenda og samkeppnishæfni álfunnar – rétt eins og framtíðarsýnin fyrir Ísland árið 2050 birtist okkur.

Í nýútgefnum Raforkuvísum Orkustofnunar eru birtar tölur um áætlaðar fjárfestingar raforkugeirans fyrir árin 2024 – 2028. Þar kemur fram að heildarfjárfestingar fyrir þetta tímabil eru um 500 milljarðar.

Það er því full ástæða til að sjá það sem fagnaðarefni að bæði innlendir og erlendir aðilar séu tilbúnir að koma að orkuframleiðslu hér á landi á næstu árum og áratugum. Orkan sem verður framleidd mun svo nýtast til að mæta framtíðarorkuþörf þjóðarinnar, bæði heimila landsins, fyrirtækja og iðnaðar.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi. Rétt eins og kröftug samkeppni hefur leitt af sér nýjungar og lækkað vöruverð á öðrum mörkuðum – mun væntanlega það sama gerast á þessum markaði.

Hvað með vind á hafi?

Í umræðunni eru hugmyndir um fjölda annarra orkukosta og möguleika til orkuöflunar og orkunýtni, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna birtuorku, vindorku á hafi, virkjun sjávarfalla og kjarnorku. Þá fleygir fram tækni í tengslum við rafhlöðulausnir og orkunýtni. Víða í Evrópu er mikil uppbygging og þróun í gangi varðandi alla þessa orkukosti og orkutækni og væntanlega mun flest af því berast hingað til lands fyrr en síðar. Í dag er því þó þannig farið að það er langtum dýrara að framleiða rafmagn með vindorku á hafi og kjarnorku en með vind eða sól á landi. Verkefni um vindorku á hafi og kjarnorku verða því nánast eingöngu að veruleika í dag með miklum ríkisstyrkjum og stuðningi. Víðast hvar í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld sett skýrar áætlanir um hve mikið þurfi að auka grænorkuframleiðslu á næstu árum. Þá er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum gríðarlegum fjármunum varið af hálfu hins opinbera til að auka grænorkuframleiðslu til að tryggja orkusjálfstæði og orkuskiptin.

Það er lykilatriði í áframhaldandi samkeppnishæfni samfélags okkar að öflugir fjárfestar og fyrirtæki sjái sér hag í að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og það geti farið fram án umfangsmikilla ríkisstyrkja.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur Samorku skrifaði greinina, sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 11. september 2024.

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn

Rafmagnsframleiðsla með vindi er þrautreynd og örugg leið til að framleiða rafmagn á umhverfisvænan og árangursríkan hátt. Í nágrannalöndum okkar stendur vindorka undir stórum hluta raforkuþarfar og áform eru um að hraða uppbyggingu hennar í nágrannalöndum okkar til að tryggja aukið framboð, raforkuöryggi og ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda í hverju landi fyrir sig.

Á Íslandi liggja sömu verkefni fyrir. Við þurfum að tryggja raforkuöryggi heimila og fyrirtækja svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna og um leið þarf græna orku í orkuskiptin þar sem jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir græna orku s.s. í samgöngum.

Vindorka er þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver hraðar en þekkist við nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru. Vindorka er því góð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert.

Vandað til verka

Vindorkuverkefni þurfa líkt og önnur að standast mjög strangar kröfur um rannsóknir og umhverfismat áður en þau geta hlotið leyfi. Má þar nefna rannsóknir á gróðurfari, fugla- og vatnalífi og fleira. Um 35 vindorkuverkefni eru til skoðunar í dag hér á landi sem eru mislangt komin í þessu ferli og engin vissa enn um hver þeirra verða að veruleika.

Áhrif vindorkunýtingar eru fyrst og fremst sjónræn og því þarf að vanda staðarval vel. Vindmyllur geta verið ríflega 150 metra háar með spaða í hæstu stöðu og framleiða á bilinu 4-7 MW. Það er því hægt að raða upp ákveðnum fjölda eftir hagkvæmni og hentugleika á hverjum stað.

Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár. Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig framleiðslu grænnar orku á sama svæði. Einnig er hægt að taka þær niður og færa svæðið sem næst fyrra horfi. Þannig bindur vindorkunýting ekki hendur framtíðarkynslóða.

Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg. Í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verði lagt bann við að urða blöðin árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur.

Sameiginlegur ávinningur

Mikill ávinningur felst í því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Í dag notar íslenskt samfélag um milljón tonn af olíu á ári og það kostar okkur 100 milljarða á hverju ári! Með því að nota græna orku framleidda innanlands í stað innfluttrar olíu myndum við fá hreinna loft, meiri fjármuni í okkar sameiginlegu sjóði og aukið sjálfstæði frá öðrum þjóðum með því að vera sjálfum okkur nóg um orku. Af vindmyllum eru greidd fasteignagjöld sem renna til þess sveitarfélags sem það starfar í. Stjórnvöld hafa svo í hendi sér hvernig þau skipta á milli sveitarfélaga sem þannig verða til.

Það er ekki einfalt verkefni að þróa og byggja upp orkuverkefni. Það er því fagnaðarefni að öflug, reynd fyrirtæki og einstaklingar, innanlands sem utan, sýni framþróun vindorku á Íslandi áhuga og séu tilbúin til að leggja í miklar fjárfestingar.

Á heimasíðu Samorku má nálgast algengar spurningar um vindorku og svör og auk þess má hlusta á þáttinn Spurt og svarað um vindorku í hlaðvarpi Samorku, Lífæðar landsins, á öllum hlaðvarpsveitum.

Höfundur greinarinnar er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Greinin birtist fyrst 4. september á visir.is.

Verkefnið endalausa?

Verkefnið endalausa?

Öll þekkjum við orðfærið að ramma eitthvað inn. Ná skýrt og skilmerkilega utan um tiltekið viðfangsefni. Allt frá síðasta áratug síðustu aldar hefur þess verið freistað að ramma inn möguleika þjóðarinnar og heimildir til orkuvinnslu í gegnum svokallaða verndar- og orkunýtingaráætlun, betur þekkt sem rammaáætlun. Þrátt fyrir hartnær 30 ára sögu virðist verkefninu hvergi nærri lokið. Kannski sér aldrei fyrir endann á því. Það er áhugavert í ljósi markmiða stjórnvalda um að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna innlenda orku fyrir árið 2040.

Langt er um liðið

Á vef rammaáætlunar má finna forsögu hennar. Sérstakur starfshópur á vegum umhverfisráðuneytisins skilaði áliti í mars 1995 með tillögu um gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls. Þetta var um það leyti og internetnotkun breiddist út og vefurinn Amazon umbylti stafrænum viðskiptum.

Í kjölfar umfjöllunar umhverfisþings árið 1996 var samþykkt að vinna framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun til aldamóta og samkvæmt henni átti að gera rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og ljúka gerð áætlunarinnar fyrir lok árs árið 2000. Vart þarf að taka fram að það tókst alls ekki. Sama ár setti Apple fyrsta iPodinn á markað.

Verkefnið útvíkkað

Hér er of langt mál að rekja allar raunir rammaáætlunar en allt frá aldamótum hefur lítið þokast í mörgum áföngum hennar. Aðferðafræðin hefur tekið ýmsum breytingum og hefur ekki verið eins á milli áfanga við mat á virkjunarkostum. Aðferðafræðin var gerð enn flóknari með nýjum lögum árið 2011, nokkrum árum eftir að fyrsti iPhone  síminn kom fram.  Frá því að lögin voru sett árið 2011 þá hefur ein virkjun verið byggð að undangenginni fullri meðferð rammaáætlunar. Síðan þá hefur gildissvið rammaáætlunar  líka verið útvíkkað og tekur nú einnig  til vindorkunýtingar.

Hægt hefur gengið að fá tillögur að orkuvinnslu samþykktar að lokinni pólitískri meðferð á Alþingi. Virðist þar einu gilda þó greiningar fremstu sérfræðinga hjá flutningsfyrirtæki þjóðarinnar sýni váleg merki um afl- og orkujöfnuð í íslenska orkukerfinu. Jafnvel þó orkuvinnsluverkefni hljóti náð fyrir augum verkefnisstjórnar og Alþings geta í núverandi kerfi svo liðið rúm 10 ár þar til heimildir fást til að hefja framkvæmdir. Meðferð rammaáætlunar er ófyrirsjáanleg, kostnaðarsöm fyrir fyrirtæki og samfélagið og fullreynt virðist að hún sé einhver lykill í því að almenn sátt náist um orkuvinnslu.

Finnum ferla sem þjóna markmiðum

Sérstakur hópur á vegum umhverfis- orku og loftslagsráðherra vinnur nú að endurskoðun rammaáætlunarkerfisins svo sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Ljóst er að bútasaumur á núverandi kerfi dugir ekki ef Íslandi á að lánast að fara í orkuskipti og viðhalda samkeppnishæfni landsins. Nýtt kerfi þarf að taka mið af breyttum forsendum og markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Þau sem halda fram nauðsyn eða mikilvægi þessarar miklu opinberu áætlunargerðar verða að færa rök fyrir því hvers vegna Ísland, eitt ríkja, geti ekki komið upp grænni orkuvinnslu með umhverfismati og skipulagsferli líkt og þau ríki sem við jafnan berum okkur saman við. Meira að segja Norðmenn, hvaðan hugmyndin um rammaáætlun var víst komin, luku sinni rammaáætlun 2016 sem tók einvörðungu til vatnaflsnýtingar.

Hið nýja stjórnsýslukerfi þarf að vera skilvirkt og hagkvæmt, einfalt og almennt skýrt fyrirskrifað í lögum. Mikilvægt er að sveitarfélög sem vilja verði gert kleift að sýna frumkvæði og ábyrgð í loftslagsmálum með skipulagsvaldi sínu. Hið nýja kerfi þarf að fela í sér vandað umhverfismat, standast viðmið um góða stjórnsýslu, brjóta niður aðgangshindranir og leggja grunn að árangri i orkuskiptum með tilheyrandi þjóðhagslegum ávinningi. Þannig verður orkuskiptum náð örugglega og samkeppnishæfni landsins tryggð fyrir framtak fólks og fyrirtækja og tilstuðlan framsýnna stjórnmálamanna.

Grein eftir Finn Beck framkvæmdastjóra Samorku
Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 3. júlí 2024.

Tökum réttu skrefin

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku skrifar:

Íslenskt samfélag og atvinnulíf byrjar árið 2024 í þröngri stöðu þegar litið er til orkubúskaps þjóðarinnar. Þá hafa jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga stefnt orkuöryggi íbúa á Suðurnesjum í hættu. Stjórnendur og starfsfólk HS Veitna, HS Orku og Grindavíkurbæjar, sem reka innviði á svæðinu, hafa sýnt ótrúlega elju og útsjónarsemi í að verja innviði og tryggja órofa framleiðslu og þjónustu. Sama gildir um Landsnet sem rekur þar flutningskerfi raforku.

Þrátt fyrir ítrekaðar vandaðar greiningar um hættu á orkuskorti og áralangar viðvaranir fyrirtækja í orkumálum virðist íslenskt samfélag nú hafa steytt á skeri. Í greinargerð með frumvarpi til neyðarlaga um raforku sem lagt var fram á Alþingi í desember er rakið hvernig eftirspurn eftir orku er nú meiri en öll raforkuframleiðslan getur staðið undir m.a. vegna stöðu í lónum. Mikilvæg fyrirtæki í íslensku atvinnulífi munu í vetur sæta skerðingum á orkuafhendingu sem leiðir til skertrar starfsemi og ný orkusækin verkefni geta við þessar aðstæður trauðla komist í framkvæmd. Við slíkar aðstæður blasir við efnahagslegt tjón fyrir íslenskt samfélag. Tjón sem hefði mátt með margs konar aðferðum hugsanlega afstýra.

Samfélagið stendur nú frammi fyrir því að þurfa að bregðast við orkuskorti sem líklega mun vara um nokkurt skeið. Í því felst m.a. að gera ráðstafanir til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja og koma á fót skilvirkni í viðskiptum með raforku. Í þessum aðstæðum er rétt að horfa til reynslu annarra ríkja og lítt skoðaðra tækifæra til að þróa raforkumarkaðinn enn frekar með þátttöku notenda, stórra sem smárra, sem vilja og geta dregið úr raforkunotkun þegar þörfin er mest. Markmið slíkra aðgerða þarf að vera jákvæð áhrif á neytendur, styðja við orkunýtni, styðja við orkuskipti, senda fjárfestingamerki til markaðarins og tryggja raforkuframboð með sem minnstum tilkostnaði.

Mikilvægt er að á árinu 2024 komist Ísland nær nágrannalöndum okkar í að búa orku- og veitufyrirtækjum umgjörð sem greiðir götu góðra verkefna á sviði orkumála. Margt mætti telja til en hér nægir að nefna fjögur meginatriði.

Í fyrsta lagi þarf að auka skilvirkni í stjórnsýslu og einfalda ferla vegna orkutengdra verkefna. Ísland mun ekki ná orkuskiptamarkmiðum á meðan verkefni á því sviði sofa inni hjá stjórnsýslustofnunum eða sæta ekki málsmeðferðarhraða sem tekur mið af mikilvægi þeirra. Í öðru lagi þarf að setja í lög reglur um einfalda og skilvirka meðferð vindorkukosta sem framsækin fyrirtæki hafa verið að þróa þrátt fyrir að löggjöf hér hafi litlu svarað um hvort eða hvernig þeir skuli afgreiddir. Fyrir tilstuðlan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafa birst tillögur starfshóps um einföldun á afgreiðslu vindorkukosta en á nýju ári bíður það Alþingis að koma slíku kerfi á. Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að ljúka vinnu um skattaumgjörð orkuvinnslu. Höfuðmarkmið þeirrar vinnu verður að vera  skattaumgjörð sem tekur mið af afkomu orkuvinnslu, tryggir jafnræði orkuvinnslufyrirtækja, heggur á hnút í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað þetta snertir og hefur ekki of neikvæð áhrif á fjárfestingar í orkuvinnslu. Í fjórða lagi þarf að fara fram heildarendurskoðun á rammaáætlun. Þó mikilvægt skref hafi verið stigið við afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar er ljóst að kerfið er of flókið, seinvirkt og ekki til þess fallið að orkufyrirtæki fari hratt af stað með hagkvæmustu verkefni þegar markaðsforsendur eru fyrir hendi eða fyrirsjáanlegar.

Á árinu 2024 munu orku- og veitufyrirtæki halda áfram að undirbúa íslenskt samfélag undir orkuskiptin og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Íslenskur orku- og veitugeiri hefur sjálfur sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og styður heilshugar við sama markmið stjórnvalda. Í loftslagsvegvísi atvinnulífsins er að finna margvíslegar aðgerðir þessara fyrirtækja og orkufyrirtæki eru raunar í fremstu röð í að þróa leiðir til að binda eða vinna með kolefni sem losað er í samfélaginu. Veitufyrirtæki munu halda áfram að þróa vatns- og fráveitur sem veita fólki og fyrirtækjum fyrsta flokks þjónustu en setja umhverfið í öndvegi.

Orku- og veitufyrirtæki munu á árinu 2024 halda áfram vinnu við að tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu aðgengi að öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum orku- og veituinnviðum.

Samorka óskar aðildarfyrirtækjum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2024.

Ár umbrota og orkuskorts

Árið 2023 var óvenjulegt þegar litið er til orku- og veitustarfsemi. Í fyrsta lagi stefndu náttúruhamfarir grundvallarinnviðum í hættu á Reykjanesskaga og þar með íbúabyggð fyrir nálægt 30.000 manns. Þetta kallaði á útsjónarsemi og óvenjulegar ráðstafanir orku- og veitufyrirtækja á svæðinu, sveitarfélaga og einstakar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Allt gert til að freista þess að tryggja órofna starfsemi í þágu fólks og fyrirtækja á svæðinu. Raunir Grindvíkinga en líka æðruleysi þeirra hljóta að vera öllum ofarlega í huga um þessi áramót.

Í öðru lagi raungerðist undir lok árs alvarleg staða og raforkuskortur sem í mörg ár hefur verið varað við. Raforkuþörf eykst með vexti hagkerfisins, í takt við umbreytingu orkuskipta og staða vatnslóna vatnsaflsvirkjana getur haft mikil áhrif. Þessi staða var fyrirséð. Raunar hafði Samorka auk fyrirtækja í orku- og veitustarfsemi og stjórnvöld um árabil sett fram greiningar sem drógu fram þessa áhættu. Staðan nú endurspeglar mikilvægi þess að umgjörð orkugeirans verði endurskoðuð í heild og honum m.a. mörkuð mun skilvirkari og fyrirsjáanlegri stjórnsýsla án þess að dregið verði úr kröfum til umhverfismats og -verndar. Að sama skapi þarf að huga að raforkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja, hafa jákvæð áhrif gagnvart neytendum, styðja við orkunýtni og orkuskipti og tryggja gagnsæjan og öflugan viðskiptavettvang með raforku sem sendir rétt fjárfestingamerki til markaðarins og notenda. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar gert, meðvituð um mikilvægi grænnar orku og knýjandi þarfar til að skipta út jarðefnaeldsneyti.  Skilvirk og vönduð stjórnsýsla og skilvirkur og öflugur markaður með raforku mun skila okkur hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Þessu til viðbótar er mikilvægt að stjórnvöld ráði til lykta skattaumgjörð orkuvinnslu og komi á fót einfaldari umgjörð um vindorku, hvort tveggja verkefni sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett í forgang.

Á árinu unnu aðildarfyrirtæki Samorku að margvíslegum framförum. Á sviði flutnings og dreifingu raforku er unnið að orkuskiptum, bæði verkefnum sem hafa raungerst en einnig mikilvægum áætlunum til að mæta loftslags- og orkuskiptamarkmiðum stjórnvalda. Óvenjulega mikil kuldatíð var sumum hitaveitum áskorun á meðan leit að heitu vatni var viðfangsefnið hjá öðrum. Að tryggja fólki og fyrirtækjum örugga, hagkvæma og sjálfbæra orku- og veituinnviði er stöðugt verkefni sem mörg taka sem gefnum hlut.  Orku- og veitufyrirtækin í landinu munu halda ótrauð áfram því verkefni á árinu 2024.

Samorka þakkar samstarfið á árinu og óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 27. desember.

Verndum mikilvæga innviði

Einstakir atburðir eiga sér nú stað á Reykjanesi. Skjálftavirkni og yfirvofandi hætta á eldgosi hafa lamað hluta byggðar og hugur allra Íslendinga er með Grindvíkingum sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Í námunda við mestu jarðhræringarnar eru orku- og veituinnviðir sem þjóna lykilhlutverki á Reykjanesskaganum öllum.

Orkuverið í Svartsengi sér nálægt 30.000 manns á Reykjanesskaga fyrir lífsnauðsynjum og lífsgæðum. Það hefur þjónað byggðinni á Suðurnesjum í áratugi og byggst upp samhliða vexti á svæðinu. Í orkuverinu er framleidd raforka, heitt og kalt vatn og dreifikerfi HS Veitna og Grindavíkurbæjar kemur þessu til endanotenda. Þá eru á Suðurnesjum aðrir samfélagslega mikilvægir innviðir s.s. línur og strengir til flutnings raforku auk lagna sem flytja heitt vatn. Starfsfólk allra þeirra fyrirtækja sem reka þessa innviði hefur, líkt og aðrir viðbragðsaðilar í stjórnkerfinu, unnið mikið starf og sýnt aðdáunarverða elju í að mæta þeim áskorunum sem uppi eru.

Komi til alvarlegrar röskunar á starfsemi orkuversins í Svartsengi, hvað þá varanlegs tjóns, verða áhrifin ekki bundin við Grindavík heldur Reykjanesskagann allan. Rofni vatns- eða hitaveita, tímabundið eða varanlega, er ljóst að áhrifin verða mikil á heimili fólks og starfsemi fyrirtækja á öllum Suðurnesjum. Sama gildir ef verulegt tjón verður á flutningsmannvirkjum raforku.

Verkefni stjórnvalda gerast ekki mikið umfangsmeiri og mikilvægt er að stjórnmálamenn hefji sig yfir dægurþras og forgangsraði með hliðsjón af þeim miklu sameiginlegu hagsmunum sem nú er stefnt í hættu.

Samorka fagnar skjótum viðbrögðum stjórnvalda við þeirri vá sem nú steðjar að byggð og innviðum á Reykjanesi með því að leggja fram frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Markmið frumvarpsins er að verja mikilvæga innviði og aðra almannahagsmuni á Reykjanesskaga fyrir hugsanlegum eldsumbrotum.

Með frumvarpinu er ráðherra sem fer með málefni almannavarna, við tiltekin skilyrði, veitt heimild til að heimila fyrirbyggjandi aðgerðir gegn áhrifum eldsumbrota. Slík heimild verður vitaskuld alltaf byggð á besta mati færustu vísindamanna í náttúruvísindum og sérfræðinga sem geta metið hvað raunhæft er að reyna til að sporna gegn náttúruöflunum.  Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ákvæði í sérlögum um framkvæmdir víki við slíkar aðstæður.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er það frumskylda ríkisvaldsins að vernda mikilvæga innviði samfélagsins og aðra almannahagsmuni fyrir tjóni af völdum náttúruvár.

Tryggja þarf heimildir svo unnt sé að hefja framkvæmdir til að fyrirbyggja, afstýra eða draga úr tjóni á mikilvægum innviðum áður en það kann að reynast of seint. Er þar sérsaklega vísað til orkuversins í Svartsengi og eftir atvikum dreifi- og flutningslagna á því svæði sem nú steðjar hætta að. Samorka styður áform um að frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga verði að lögum svo skjótt sem verða má.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. nóvember 2023.

Nýjar lausnir fyrir nýja tíma

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, skrifar:

Nýsköpunarverðlaun Samorku voru veitt í þriðja sinn á dögunum. Um árleg verðlaun er að ræða, þar sem óskað er eftir tilnefningum frá framúrskarandi fyrirtækjum sem vinna að orku- og veitutengdum lausnum eða nýta orku, heitt vatn, neysluvatn eða fráveitu í sinni nýsköpun. Að þessu sinni hlutu fjögur fyrirtæki tilnefningu sem hafa ólík tengsl við orku- og veitustarfsemi.

Verðlaunin féllu í hlut fyrirtækisins Atmonia, sem þróar róttæka og sjálfbæra tækni til að nýta efnahvata við rafefnafræðilega framleiðslu á ammóníaki án losunar gróðurhúsalofttegunda. Ammoníak er nauðsynlegt efni í áburðarframleiðslu og tryggir matvælaöryggi víða um heim. Einnig er hugsanlegt að nýta ammoníak sem rafeldsneyti á skip og flugvélar.

Mikilvægt er að hvetja fyrirtæki eins og Atmonia til dáða, því það er til mikils að vinna takist þeim ætlunarverk sitt að framleiða ammoníak á umhverfisvænan hátt. Hefðbundin framleiðsla ammóníaks veldur nú 1-2% af útblæstri koltvísýrings í heiminum. Þá má gera ráð fyrir að talsvert dragi úr útblæstrinum til viðbótar takist að nýta ammoníak í stað jarðefnaeldsneytis.

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Íslensk orku- og veitufyrirtæki hafa sýnt það í verki að þau leggja rækt við nýsköpun og hafa fært fram lausnir og hugvit sem vekur athygli og á erindi langt út fyrir landsteinana. Nægir að nefna bindingu koltvísýrings, beinan stuðning við nýsköpun í öllum landshlutum og starfsemi auðlinda- og jarðhitagarða þar sem myndaður er grundvöllur fyrir enn betri sjálfbæra nýtingu og frumkvöðlastarf. 

Nú sem aldrei fyrr þarf nýsköpun á vettvangi orku- og veitumála að vera í forgrunni, enda er orku- og veitugeirinn lykilaðili í því að af orkuskiptum geti orðið og Ísland haldi forystu sinni sem græn þjóð. Rétt eins og aðrar atvinnugreinar þarf orku- og veitugeirinn nýjar lausnir fyrir nýja tíma og þarf að þróast í takt við tækniframfarir, hagnýtingu gervigreindar og frekari nútímavæðingu.

Þá þarf að virkja sem flest til góðra verka, því stóru verkefni orkuskiptanna verða ekki leyst á borði orku- og veitufyrirtækjanna einum saman. Metnaðarfull, skilvirk og góð umgjörð að frjóu umhverfi þarf að vera til staðar af hálfu stjórnvalda þar sem hugvit, þróun og framtak fólks og fyrirtækja getur dafnað.

Efla þarf iðn- og verknám og nám í raungreinum til þess að við eigum mannauð og þekkingu til að takast á við þær róttæku breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í orku- og veitustarfsemi á næstu tveimur áratugum eða svo. Nýtt, fullkomið og verðugt húsnæði undir starfsemi Tækniskólans, sem boðað er er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, mun marka nýtt skeið í menntamálum.

Mikilvægi nýsköpunar fyrir orku- og veitustarfsemi er ótvírætt og rétt að minna reglulega á það. Með henni verður lagður grunnur að því ná loftslagsmarkmiðum og skipta út mengandi eldsneyti fyrir græna sjálfbæra orku. 

Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 27. september 2023.

Orku- og veitumál í brennidepli á árinu

Upplýsingafulltrúi Samorku skrifar:

Orku- og veitumál eru mikilvægur málaflokkur sem kemur við sögu í daglegu lífi landsmanna á hverjum einasta degi. Öflugt starfsfólk vinnur að því hörðum að færa heimilum og fyrirtækjum heitt og kalt vatn, rafmagn og góða fráveituþjónustu.

Stundum erum við þó minnt á að það dugir ekki alltaf til. Á árinu höfum við dæmi um bæði raforkuskort og skort á heitu vatni, sem hefur áhrif á fólk og fyrirtæki. En hvað veldur?

Gott aðgengi að orku er ekki sjálfgefið. Orkumál eru flókinn málaflokkur sem krefst þess að horft sé til lengri tíma, jafnvel áratuga fram í tímann. Langan tíma tekur að rannsaka, þróa og byggja nýja orkukosti. Ef við ætlum okkur eitthvað eftir 10-20 ár, þurfa stjórnvöld að veita tilskilin leyfi til þess með löngum og nægum fyrirvara.

Orkuöryggi og orkusjálfstæði hefur einnig fengið meira vægi eftir að hörmulegt stríð braust út í Úkraínu á árinu og áhrif þess birtast meðal annars í mikilli orkukrísu um alla Evrópu. Þó við séum að mörgu leyti í forréttindastöðu á Íslandi því við framleiðum sjálf langstærstan hluta þeirrar orku sem samfélagið þarf, þá eru allar samgöngur háðar innfluttri olíu og óljóst er um framboð af rafmagni, heitu vatni og rafeldsneyti í náinni framtíð.

Eins og laga- og regluverkið hefur þróast síðustu ár hefur það því miður ekki stuðlað að orkuöryggi í landinu til framtíðar litið. Rammaáætlun, með bæði nýjum raforkukostum og háhitasvæðum til hitaveitunýtingar, var loks afgreidd á árinu eftir að hafa velkst um í kerfinu í næstum því áratug, sem er alltof langur tími að bíða niðurstöðu um nýtingu eða vernd.

Á meðan fjölgar íbúum í landinu og atvinnulífið vex og blómstrar. Samkvæmt nýjum upplýsingavef Samorku, Samtaka iðnaðarins, Landsvirkjunar og EFLU, orkuskipti.is, sem opnaði á árinu, er 60% allrar orku sem notuð er á Íslandi heitt vatn sem nýtt er til húshitunar, baðlóna og annarrar neyslu. Samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060 mun eftirspurn atvinnulífsins eftir jarðvarma aukast mikið. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. En eins og kom í ljós nú undir lok ársins eru hitaveiturnar þegar margar hverjar í vandræðum með að anna núverandi eftirspurn þrátt fyrir að hafa unnið að aukinni heitavatnsöflun árum saman. Regluverkið um háhitasvæðin hefur tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum og auka þarf stuðning við jarðhitaleit á köldum svæðum.

Sviðsmyndir hvað varðar orkuþörf fyrir samfélagið voru kynntar í byrjun mars í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lét vinna með tilliti til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið var að draga fram staðreyndir og upplýsingar á grundvelli faglegra sjónarmiða. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á það sem nemur rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.  

Að stjórnvöld setji metnaðarfull markmið í loftslagsmálum er eðlilegt í landi þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í allri orkunotkun er það hæsta í heimi. En það er samt sem áður stórt verkefni að að hætta að nota þau milljón tonn af jarðefnaeldsneyti sem við flytjum inn á hverju ári fyrir árið 2040 og uppfylla orkuþörfina með öðrum umhverfisvænni orkugjöfum. Til viðbótar þarf auðvitað að sinna almennri orkuþörf heimila og atvinnulífs. Ávinningurinn getur hins vegar verið mjög mikill. Samkvæmt nýrri greiningu EFLU á orkuskipti.is getur fjárhagslegur ávinningur orðið 1.400 milljarðar til ársins 2060 og orkusjálfstæði landsins væri tryggt.

En hvaðan orkan að koma sem á að skipta bensíni og olíu út? Sú nauðsynlega umræða er auðvitað þegar hafin, sem er jákvætt og mikilvægt er að fá sem flesta að borðinu. Flestir virðast sammála um að jarðefnaeldsneytislaust Ísland sé markmið sem er þess virði að vinna að þó að skiptar skoðanir séu um réttu leiðina að því.

Á árinu var vindorka rædd mikið enda hafa komið fram margar hugmyndir hér á landi um vindorkukosti til nýtingar og fyrstu vindlundirnir voru afgreiddir úr rammaáætlun. Að mati Samorku er vindorka eðlileg viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Hingað til hefur skort á fullnægjandi lagaumgjörð um vindorkunýtingu, en von er á tillögu frá stjórnvöldum snemma á næsta ári. Samorka hefur talað fyrir því að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. 

Þá verður þess vonandi ekki langt að bíða að rafeldsneytisframleiðsla ryðji sér til rúms hér á landi enda verður það nauðsynlegur orkugjafi eftir því sem orkuskiptum fleygir fram, þá fyrir stærri farartæki svo sem skip og flugvélar. Ísland er í einstakri stöðu til að framleiða grænt rafeldsneyti til eigin þarfa og ná þannig markmiðum um full orkuskipti með tilheyrandi verðmæta- og þekkingarsköpun.   

Rétt er að hafa í huga að græna orkan getur ekki skilað sér þangað sem hennar er þörf nema að öflugs flutnings- og dreifikerfis njóti við. Samorka hefur árum saman bent á að nauðsynlegt sé að styrkja uppbyggingu og viðhald þess svo orkuskiptin gangi vel fyrir sig og fjölbreytt atvinnuuppbygging geti blómstrað um allt land.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu hafa það hlutverk að sinna þörfum landsmanna um rafmagn, heitt og kalt vatn og fráveitu. Framundan eru spennandi verkefni í þessum málaflokkum. Við hvetjum alla til að kynna sér orku- og veitugeirann sem framtíðarstarfsvettvang. Nýjar niðurstöður úr könnun á líðan starfsfólks hjá 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins sýna að mikil starfsánægja, hátt menntunarstig og þekking einkenna geirann, en 90% starfsfólks er ánægt með starfið sitt sem er hærra en þekkist á almennum vinnumarkaði og 40% hefur unnið í 11 ár eða lengur. Þetta sýnir að það er vel þess virði að slást í hópinn!

Samorka óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við hlökkum til að eiga áfram líflegt samtal um orku- og veitumál árið 2023.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. janúar 2023.

Litið um öxl um áramót

Fráfarandi framkvæmdastjóri skrifar:

Þegar við lítum yfirárið 2022 er ljóst að orku- og veitumál hafa verið í brennidepli. Válynd veður í byrjun árs, vatnsskortur í lónum og skortur á heitu vatni minnir á hve mikilvægt er að hafa orkuöryggi í forgangi og hve langt er frá því að lagaumgjörðin eins og hún hefur þróast síðustu árin stuðli að því.

Í byrjun mars var kynnt skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lét vinna með það að markmiði að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna í þessum mikilvæga málaflokki, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.

Markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 setur orku- og veitufyrirtækjum landsins fyrir ærið verkefni því það er hlutverk þeirra að sinna þörfum samfélagsins fyrir orku og orkuinnviði. Uppbygging orku- og veituinnviða tekur langan tíma og því þarf að sýna mikla framsýni og fyrirhyggju í þessum efnum. Þótt skiptar skoðanir séu um hvað framtíðin beri í skauti sér er ljóst að vaxandi samfélag, þróttmikið atvinnulíf og árangur í loftslagsmálum kallar á stóraukna eftirspurn eftir grænni orku og innviðauppbyggingu sem huga þarf að strax í dag. Ef eitthvað er þá er hraðinn í orkuskiptum nú þegar þannig að veiturnar þurfa að hafa sig allar við og enn er ekki fyrirséð hvaðan græna orkan í orkuskiptin á að koma. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og Alþingi ætla að gera það sem þarf til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir, meðal annars með því að gera orku- og veitufyrirtækjunum kleift að sinna sínu hlutverki nógu hratt og vel.

Nýting vindorku á Íslandi var mikið í sviðsljósinu á árinu og von er á tillögum að lagaumgjörð um hana í febrúar. Samorka hefur talað fyrir því að umgjörðin hér á landi greiði fyrir nýtingu hennar sem eðlilegri viðbót við græna orkuframleiðslu í þágu loftslagsmarkmiða, orkuskipta og orkusjálfstæðis. Umgjörðin þurfi að taka tillit til eiginleika vindorkunýtingar án þess að veittur sé afsláttur af því að taka tillit til náttúrunnar.

Nú undir lok ársins vakti Samorka athygli á stöðu hitaveitna um allt land sem margar hverjar eru komnar að þolmörkum með að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Gangi eftirspurnarspá Orkustofnunar til ársins 2060 eftir er hætta á að heitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Hitaveiturnar hafa í gegnum árin unnið sleitulaust að aukinni heitavatnsöflun en þar hefur regluverkið um háhitasvæðin tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum. Þá er mikilvægt að stuðningur við jarðhitaleit á svonefndum köldum svæðum verði aukinn til muna.

Ekki er hægt að gera upp árið án þess að minnast á orkukrísuna sem skapast hefur í orkumálum í Evrópu. Af henni þurfum við að draga lærdóm því orkuöryggi, orkusjálfstæði og hagstætt orkuverð er ekki sjálfgefið, ekki heldur hér á landi. Lykilatriðið er að tryggja nægt framboð af innlendri grænni orku (heitu vatni, rafmagni og rafeldsneyti) og byggja upp trausta innviði til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Við hjá Samorku treystum því að samtalið um orku- og veitumálin haldi áfram af krafti á nýju ári og að niðurstaða fáist í ýmis stór mál sem snerta allt samfélagið. Þar á meðal þarf að halda áfram stuðningi við uppbyggingu fráveitna um allt land ásamt því að eyða óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna og þeim heimiluð eðlileg arðsemi eigin fjár svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Eitt brýnasta verkefnið að mati Samorku er uppbygging og viðhald flutnings- og dreifikerfis raforku því aðeins með sterku, áfallaþolnu kerfi sem lágmarkar töp skilar græna orkan sér þangað sem hennar er þörf. Þar hefur flókin lagaumgjörð á ýmsan hátt staðið í vegi fyrir raunverulegum umbótum. Úr þessu þarf að bæta til þess að metnaðarfull markmið um orkuöryggi og árangur í loftslagsmálum verði að veruleika.

Í vetrarhörkum nú um hátíðarnar er rétt að minnast þess að í orku- og veitugeiranum vinnur öflugt starfsfólk sem vinnur hörðum höndum að því á hverjum einasta degi að færa fólki lífsgæðin sem felast í heita vatninu, heilnæmu drykkjarvatni, góðri fráveitu og grænu rafmagni. Oft eru verkefnin unnin við erfiðar aðstæður úti í óblíðri náttúru. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og ýmsar áskoranir er 90% starfsfólks ánægt í vinnunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar félagsins Kvenna í orkumálum, sem er töluvert meiri starfsánægja en gengur og gerist á vinnumarkaðnum. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem staðfesta svo sannarlega að það er gott að vinna í orku- og veitugeiranum enda horfum við björtum augum til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Innherja 2. janúar 2023.