Tökum réttu skrefin

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku skrifar:

Íslenskt samfélag og atvinnulíf byrjar árið 2024 í þröngri stöðu þegar litið er til orkubúskaps þjóðarinnar. Þá hafa jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga stefnt orkuöryggi íbúa á Suðurnesjum í hættu. Stjórnendur og starfsfólk HS Veitna, HS Orku og Grindavíkurbæjar, sem reka innviði á svæðinu, hafa sýnt ótrúlega elju og útsjónarsemi í að verja innviði og tryggja órofa framleiðslu og þjónustu. Sama gildir um Landsnet sem rekur þar flutningskerfi raforku.

Þrátt fyrir ítrekaðar vandaðar greiningar um hættu á orkuskorti og áralangar viðvaranir fyrirtækja í orkumálum virðist íslenskt samfélag nú hafa steytt á skeri. Í greinargerð með frumvarpi til neyðarlaga um raforku sem lagt var fram á Alþingi í desember er rakið hvernig eftirspurn eftir orku er nú meiri en öll raforkuframleiðslan getur staðið undir m.a. vegna stöðu í lónum. Mikilvæg fyrirtæki í íslensku atvinnulífi munu í vetur sæta skerðingum á orkuafhendingu sem leiðir til skertrar starfsemi og ný orkusækin verkefni geta við þessar aðstæður trauðla komist í framkvæmd. Við slíkar aðstæður blasir við efnahagslegt tjón fyrir íslenskt samfélag. Tjón sem hefði mátt með margs konar aðferðum hugsanlega afstýra.

Samfélagið stendur nú frammi fyrir því að þurfa að bregðast við orkuskorti sem líklega mun vara um nokkurt skeið. Í því felst m.a. að gera ráðstafanir til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja og koma á fót skilvirkni í viðskiptum með raforku. Í þessum aðstæðum er rétt að horfa til reynslu annarra ríkja og lítt skoðaðra tækifæra til að þróa raforkumarkaðinn enn frekar með þátttöku notenda, stórra sem smárra, sem vilja og geta dregið úr raforkunotkun þegar þörfin er mest. Markmið slíkra aðgerða þarf að vera jákvæð áhrif á neytendur, styðja við orkunýtni, styðja við orkuskipti, senda fjárfestingamerki til markaðarins og tryggja raforkuframboð með sem minnstum tilkostnaði.

Mikilvægt er að á árinu 2024 komist Ísland nær nágrannalöndum okkar í að búa orku- og veitufyrirtækjum umgjörð sem greiðir götu góðra verkefna á sviði orkumála. Margt mætti telja til en hér nægir að nefna fjögur meginatriði.

Í fyrsta lagi þarf að auka skilvirkni í stjórnsýslu og einfalda ferla vegna orkutengdra verkefna. Ísland mun ekki ná orkuskiptamarkmiðum á meðan verkefni á því sviði sofa inni hjá stjórnsýslustofnunum eða sæta ekki málsmeðferðarhraða sem tekur mið af mikilvægi þeirra. Í öðru lagi þarf að setja í lög reglur um einfalda og skilvirka meðferð vindorkukosta sem framsækin fyrirtæki hafa verið að þróa þrátt fyrir að löggjöf hér hafi litlu svarað um hvort eða hvernig þeir skuli afgreiddir. Fyrir tilstuðlan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafa birst tillögur starfshóps um einföldun á afgreiðslu vindorkukosta en á nýju ári bíður það Alþingis að koma slíku kerfi á. Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að ljúka vinnu um skattaumgjörð orkuvinnslu. Höfuðmarkmið þeirrar vinnu verður að vera  skattaumgjörð sem tekur mið af afkomu orkuvinnslu, tryggir jafnræði orkuvinnslufyrirtækja, heggur á hnút í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað þetta snertir og hefur ekki of neikvæð áhrif á fjárfestingar í orkuvinnslu. Í fjórða lagi þarf að fara fram heildarendurskoðun á rammaáætlun. Þó mikilvægt skref hafi verið stigið við afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar er ljóst að kerfið er of flókið, seinvirkt og ekki til þess fallið að orkufyrirtæki fari hratt af stað með hagkvæmustu verkefni þegar markaðsforsendur eru fyrir hendi eða fyrirsjáanlegar.

Á árinu 2024 munu orku- og veitufyrirtæki halda áfram að undirbúa íslenskt samfélag undir orkuskiptin og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Íslenskur orku- og veitugeiri hefur sjálfur sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og styður heilshugar við sama markmið stjórnvalda. Í loftslagsvegvísi atvinnulífsins er að finna margvíslegar aðgerðir þessara fyrirtækja og orkufyrirtæki eru raunar í fremstu röð í að þróa leiðir til að binda eða vinna með kolefni sem losað er í samfélaginu. Veitufyrirtæki munu halda áfram að þróa vatns- og fráveitur sem veita fólki og fyrirtækjum fyrsta flokks þjónustu en setja umhverfið í öndvegi.

Orku- og veitufyrirtæki munu á árinu 2024 halda áfram vinnu við að tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu aðgengi að öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum orku- og veituinnviðum.

Samorka óskar aðildarfyrirtækjum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2024.

Ár umbrota og orkuskorts

Árið 2023 var óvenjulegt þegar litið er til orku- og veitustarfsemi. Í fyrsta lagi stefndu náttúruhamfarir grundvallarinnviðum í hættu á Reykjanesskaga og þar með íbúabyggð fyrir nálægt 30.000 manns. Þetta kallaði á útsjónarsemi og óvenjulegar ráðstafanir orku- og veitufyrirtækja á svæðinu, sveitarfélaga og einstakar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Allt gert til að freista þess að tryggja órofna starfsemi í þágu fólks og fyrirtækja á svæðinu. Raunir Grindvíkinga en líka æðruleysi þeirra hljóta að vera öllum ofarlega í huga um þessi áramót.

Í öðru lagi raungerðist undir lok árs alvarleg staða og raforkuskortur sem í mörg ár hefur verið varað við. Raforkuþörf eykst með vexti hagkerfisins, í takt við umbreytingu orkuskipta og staða vatnslóna vatnsaflsvirkjana getur haft mikil áhrif. Þessi staða var fyrirséð. Raunar hafði Samorka auk fyrirtækja í orku- og veitustarfsemi og stjórnvöld um árabil sett fram greiningar sem drógu fram þessa áhættu. Staðan nú endurspeglar mikilvægi þess að umgjörð orkugeirans verði endurskoðuð í heild og honum m.a. mörkuð mun skilvirkari og fyrirsjáanlegri stjórnsýsla án þess að dregið verði úr kröfum til umhverfismats og -verndar. Að sama skapi þarf að huga að raforkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja, hafa jákvæð áhrif gagnvart neytendum, styðja við orkunýtni og orkuskipti og tryggja gagnsæjan og öflugan viðskiptavettvang með raforku sem sendir rétt fjárfestingamerki til markaðarins og notenda. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar gert, meðvituð um mikilvægi grænnar orku og knýjandi þarfar til að skipta út jarðefnaeldsneyti.  Skilvirk og vönduð stjórnsýsla og skilvirkur og öflugur markaður með raforku mun skila okkur hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Þessu til viðbótar er mikilvægt að stjórnvöld ráði til lykta skattaumgjörð orkuvinnslu og komi á fót einfaldari umgjörð um vindorku, hvort tveggja verkefni sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett í forgang.

Á árinu unnu aðildarfyrirtæki Samorku að margvíslegum framförum. Á sviði flutnings og dreifingu raforku er unnið að orkuskiptum, bæði verkefnum sem hafa raungerst en einnig mikilvægum áætlunum til að mæta loftslags- og orkuskiptamarkmiðum stjórnvalda. Óvenjulega mikil kuldatíð var sumum hitaveitum áskorun á meðan leit að heitu vatni var viðfangsefnið hjá öðrum. Að tryggja fólki og fyrirtækjum örugga, hagkvæma og sjálfbæra orku- og veituinnviði er stöðugt verkefni sem mörg taka sem gefnum hlut.  Orku- og veitufyrirtækin í landinu munu halda ótrauð áfram því verkefni á árinu 2024.

Samorka þakkar samstarfið á árinu og óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 27. desember.

Verndum mikilvæga innviði

Einstakir atburðir eiga sér nú stað á Reykjanesi. Skjálftavirkni og yfirvofandi hætta á eldgosi hafa lamað hluta byggðar og hugur allra Íslendinga er með Grindvíkingum sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Í námunda við mestu jarðhræringarnar eru orku- og veituinnviðir sem þjóna lykilhlutverki á Reykjanesskaganum öllum.

Orkuverið í Svartsengi sér nálægt 30.000 manns á Reykjanesskaga fyrir lífsnauðsynjum og lífsgæðum. Það hefur þjónað byggðinni á Suðurnesjum í áratugi og byggst upp samhliða vexti á svæðinu. Í orkuverinu er framleidd raforka, heitt og kalt vatn og dreifikerfi HS Veitna og Grindavíkurbæjar kemur þessu til endanotenda. Þá eru á Suðurnesjum aðrir samfélagslega mikilvægir innviðir s.s. línur og strengir til flutnings raforku auk lagna sem flytja heitt vatn. Starfsfólk allra þeirra fyrirtækja sem reka þessa innviði hefur, líkt og aðrir viðbragðsaðilar í stjórnkerfinu, unnið mikið starf og sýnt aðdáunarverða elju í að mæta þeim áskorunum sem uppi eru.

Komi til alvarlegrar röskunar á starfsemi orkuversins í Svartsengi, hvað þá varanlegs tjóns, verða áhrifin ekki bundin við Grindavík heldur Reykjanesskagann allan. Rofni vatns- eða hitaveita, tímabundið eða varanlega, er ljóst að áhrifin verða mikil á heimili fólks og starfsemi fyrirtækja á öllum Suðurnesjum. Sama gildir ef verulegt tjón verður á flutningsmannvirkjum raforku.

Verkefni stjórnvalda gerast ekki mikið umfangsmeiri og mikilvægt er að stjórnmálamenn hefji sig yfir dægurþras og forgangsraði með hliðsjón af þeim miklu sameiginlegu hagsmunum sem nú er stefnt í hættu.

Samorka fagnar skjótum viðbrögðum stjórnvalda við þeirri vá sem nú steðjar að byggð og innviðum á Reykjanesi með því að leggja fram frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Markmið frumvarpsins er að verja mikilvæga innviði og aðra almannahagsmuni á Reykjanesskaga fyrir hugsanlegum eldsumbrotum.

Með frumvarpinu er ráðherra sem fer með málefni almannavarna, við tiltekin skilyrði, veitt heimild til að heimila fyrirbyggjandi aðgerðir gegn áhrifum eldsumbrota. Slík heimild verður vitaskuld alltaf byggð á besta mati færustu vísindamanna í náttúruvísindum og sérfræðinga sem geta metið hvað raunhæft er að reyna til að sporna gegn náttúruöflunum.  Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ákvæði í sérlögum um framkvæmdir víki við slíkar aðstæður.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er það frumskylda ríkisvaldsins að vernda mikilvæga innviði samfélagsins og aðra almannahagsmuni fyrir tjóni af völdum náttúruvár.

Tryggja þarf heimildir svo unnt sé að hefja framkvæmdir til að fyrirbyggja, afstýra eða draga úr tjóni á mikilvægum innviðum áður en það kann að reynast of seint. Er þar sérsaklega vísað til orkuversins í Svartsengi og eftir atvikum dreifi- og flutningslagna á því svæði sem nú steðjar hætta að. Samorka styður áform um að frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga verði að lögum svo skjótt sem verða má.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. nóvember 2023.

Nýjar lausnir fyrir nýja tíma

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, skrifar:

Nýsköpunarverðlaun Samorku voru veitt í þriðja sinn á dögunum. Um árleg verðlaun er að ræða, þar sem óskað er eftir tilnefningum frá framúrskarandi fyrirtækjum sem vinna að orku- og veitutengdum lausnum eða nýta orku, heitt vatn, neysluvatn eða fráveitu í sinni nýsköpun. Að þessu sinni hlutu fjögur fyrirtæki tilnefningu sem hafa ólík tengsl við orku- og veitustarfsemi.

Verðlaunin féllu í hlut fyrirtækisins Atmonia, sem þróar róttæka og sjálfbæra tækni til að nýta efnahvata við rafefnafræðilega framleiðslu á ammóníaki án losunar gróðurhúsalofttegunda. Ammoníak er nauðsynlegt efni í áburðarframleiðslu og tryggir matvælaöryggi víða um heim. Einnig er hugsanlegt að nýta ammoníak sem rafeldsneyti á skip og flugvélar.

Mikilvægt er að hvetja fyrirtæki eins og Atmonia til dáða, því það er til mikils að vinna takist þeim ætlunarverk sitt að framleiða ammoníak á umhverfisvænan hátt. Hefðbundin framleiðsla ammóníaks veldur nú 1-2% af útblæstri koltvísýrings í heiminum. Þá má gera ráð fyrir að talsvert dragi úr útblæstrinum til viðbótar takist að nýta ammoníak í stað jarðefnaeldsneytis.

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Íslensk orku- og veitufyrirtæki hafa sýnt það í verki að þau leggja rækt við nýsköpun og hafa fært fram lausnir og hugvit sem vekur athygli og á erindi langt út fyrir landsteinana. Nægir að nefna bindingu koltvísýrings, beinan stuðning við nýsköpun í öllum landshlutum og starfsemi auðlinda- og jarðhitagarða þar sem myndaður er grundvöllur fyrir enn betri sjálfbæra nýtingu og frumkvöðlastarf. 

Nú sem aldrei fyrr þarf nýsköpun á vettvangi orku- og veitumála að vera í forgrunni, enda er orku- og veitugeirinn lykilaðili í því að af orkuskiptum geti orðið og Ísland haldi forystu sinni sem græn þjóð. Rétt eins og aðrar atvinnugreinar þarf orku- og veitugeirinn nýjar lausnir fyrir nýja tíma og þarf að þróast í takt við tækniframfarir, hagnýtingu gervigreindar og frekari nútímavæðingu.

Þá þarf að virkja sem flest til góðra verka, því stóru verkefni orkuskiptanna verða ekki leyst á borði orku- og veitufyrirtækjanna einum saman. Metnaðarfull, skilvirk og góð umgjörð að frjóu umhverfi þarf að vera til staðar af hálfu stjórnvalda þar sem hugvit, þróun og framtak fólks og fyrirtækja getur dafnað.

Efla þarf iðn- og verknám og nám í raungreinum til þess að við eigum mannauð og þekkingu til að takast á við þær róttæku breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í orku- og veitustarfsemi á næstu tveimur áratugum eða svo. Nýtt, fullkomið og verðugt húsnæði undir starfsemi Tækniskólans, sem boðað er er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, mun marka nýtt skeið í menntamálum.

Mikilvægi nýsköpunar fyrir orku- og veitustarfsemi er ótvírætt og rétt að minna reglulega á það. Með henni verður lagður grunnur að því ná loftslagsmarkmiðum og skipta út mengandi eldsneyti fyrir græna sjálfbæra orku. 

Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 27. september 2023.

Orku- og veitumál í brennidepli á árinu

Upplýsingafulltrúi Samorku skrifar:

Orku- og veitumál eru mikilvægur málaflokkur sem kemur við sögu í daglegu lífi landsmanna á hverjum einasta degi. Öflugt starfsfólk vinnur að því hörðum að færa heimilum og fyrirtækjum heitt og kalt vatn, rafmagn og góða fráveituþjónustu.

Stundum erum við þó minnt á að það dugir ekki alltaf til. Á árinu höfum við dæmi um bæði raforkuskort og skort á heitu vatni, sem hefur áhrif á fólk og fyrirtæki. En hvað veldur?

Gott aðgengi að orku er ekki sjálfgefið. Orkumál eru flókinn málaflokkur sem krefst þess að horft sé til lengri tíma, jafnvel áratuga fram í tímann. Langan tíma tekur að rannsaka, þróa og byggja nýja orkukosti. Ef við ætlum okkur eitthvað eftir 10-20 ár, þurfa stjórnvöld að veita tilskilin leyfi til þess með löngum og nægum fyrirvara.

Orkuöryggi og orkusjálfstæði hefur einnig fengið meira vægi eftir að hörmulegt stríð braust út í Úkraínu á árinu og áhrif þess birtast meðal annars í mikilli orkukrísu um alla Evrópu. Þó við séum að mörgu leyti í forréttindastöðu á Íslandi því við framleiðum sjálf langstærstan hluta þeirrar orku sem samfélagið þarf, þá eru allar samgöngur háðar innfluttri olíu og óljóst er um framboð af rafmagni, heitu vatni og rafeldsneyti í náinni framtíð.

Eins og laga- og regluverkið hefur þróast síðustu ár hefur það því miður ekki stuðlað að orkuöryggi í landinu til framtíðar litið. Rammaáætlun, með bæði nýjum raforkukostum og háhitasvæðum til hitaveitunýtingar, var loks afgreidd á árinu eftir að hafa velkst um í kerfinu í næstum því áratug, sem er alltof langur tími að bíða niðurstöðu um nýtingu eða vernd.

Á meðan fjölgar íbúum í landinu og atvinnulífið vex og blómstrar. Samkvæmt nýjum upplýsingavef Samorku, Samtaka iðnaðarins, Landsvirkjunar og EFLU, orkuskipti.is, sem opnaði á árinu, er 60% allrar orku sem notuð er á Íslandi heitt vatn sem nýtt er til húshitunar, baðlóna og annarrar neyslu. Samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060 mun eftirspurn atvinnulífsins eftir jarðvarma aukast mikið. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. En eins og kom í ljós nú undir lok ársins eru hitaveiturnar þegar margar hverjar í vandræðum með að anna núverandi eftirspurn þrátt fyrir að hafa unnið að aukinni heitavatnsöflun árum saman. Regluverkið um háhitasvæðin hefur tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum og auka þarf stuðning við jarðhitaleit á köldum svæðum.

Sviðsmyndir hvað varðar orkuþörf fyrir samfélagið voru kynntar í byrjun mars í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lét vinna með tilliti til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið var að draga fram staðreyndir og upplýsingar á grundvelli faglegra sjónarmiða. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á það sem nemur rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.  

Að stjórnvöld setji metnaðarfull markmið í loftslagsmálum er eðlilegt í landi þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í allri orkunotkun er það hæsta í heimi. En það er samt sem áður stórt verkefni að að hætta að nota þau milljón tonn af jarðefnaeldsneyti sem við flytjum inn á hverju ári fyrir árið 2040 og uppfylla orkuþörfina með öðrum umhverfisvænni orkugjöfum. Til viðbótar þarf auðvitað að sinna almennri orkuþörf heimila og atvinnulífs. Ávinningurinn getur hins vegar verið mjög mikill. Samkvæmt nýrri greiningu EFLU á orkuskipti.is getur fjárhagslegur ávinningur orðið 1.400 milljarðar til ársins 2060 og orkusjálfstæði landsins væri tryggt.

En hvaðan orkan að koma sem á að skipta bensíni og olíu út? Sú nauðsynlega umræða er auðvitað þegar hafin, sem er jákvætt og mikilvægt er að fá sem flesta að borðinu. Flestir virðast sammála um að jarðefnaeldsneytislaust Ísland sé markmið sem er þess virði að vinna að þó að skiptar skoðanir séu um réttu leiðina að því.

Á árinu var vindorka rædd mikið enda hafa komið fram margar hugmyndir hér á landi um vindorkukosti til nýtingar og fyrstu vindlundirnir voru afgreiddir úr rammaáætlun. Að mati Samorku er vindorka eðlileg viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Hingað til hefur skort á fullnægjandi lagaumgjörð um vindorkunýtingu, en von er á tillögu frá stjórnvöldum snemma á næsta ári. Samorka hefur talað fyrir því að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. 

Þá verður þess vonandi ekki langt að bíða að rafeldsneytisframleiðsla ryðji sér til rúms hér á landi enda verður það nauðsynlegur orkugjafi eftir því sem orkuskiptum fleygir fram, þá fyrir stærri farartæki svo sem skip og flugvélar. Ísland er í einstakri stöðu til að framleiða grænt rafeldsneyti til eigin þarfa og ná þannig markmiðum um full orkuskipti með tilheyrandi verðmæta- og þekkingarsköpun.   

Rétt er að hafa í huga að græna orkan getur ekki skilað sér þangað sem hennar er þörf nema að öflugs flutnings- og dreifikerfis njóti við. Samorka hefur árum saman bent á að nauðsynlegt sé að styrkja uppbyggingu og viðhald þess svo orkuskiptin gangi vel fyrir sig og fjölbreytt atvinnuuppbygging geti blómstrað um allt land.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu hafa það hlutverk að sinna þörfum landsmanna um rafmagn, heitt og kalt vatn og fráveitu. Framundan eru spennandi verkefni í þessum málaflokkum. Við hvetjum alla til að kynna sér orku- og veitugeirann sem framtíðarstarfsvettvang. Nýjar niðurstöður úr könnun á líðan starfsfólks hjá 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins sýna að mikil starfsánægja, hátt menntunarstig og þekking einkenna geirann, en 90% starfsfólks er ánægt með starfið sitt sem er hærra en þekkist á almennum vinnumarkaði og 40% hefur unnið í 11 ár eða lengur. Þetta sýnir að það er vel þess virði að slást í hópinn!

Samorka óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við hlökkum til að eiga áfram líflegt samtal um orku- og veitumál árið 2023.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. janúar 2023.

Litið um öxl um áramót

Fráfarandi framkvæmdastjóri skrifar:

Þegar við lítum yfirárið 2022 er ljóst að orku- og veitumál hafa verið í brennidepli. Válynd veður í byrjun árs, vatnsskortur í lónum og skortur á heitu vatni minnir á hve mikilvægt er að hafa orkuöryggi í forgangi og hve langt er frá því að lagaumgjörðin eins og hún hefur þróast síðustu árin stuðli að því.

Í byrjun mars var kynnt skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lét vinna með það að markmiði að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna í þessum mikilvæga málaflokki, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.

Markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 setur orku- og veitufyrirtækjum landsins fyrir ærið verkefni því það er hlutverk þeirra að sinna þörfum samfélagsins fyrir orku og orkuinnviði. Uppbygging orku- og veituinnviða tekur langan tíma og því þarf að sýna mikla framsýni og fyrirhyggju í þessum efnum. Þótt skiptar skoðanir séu um hvað framtíðin beri í skauti sér er ljóst að vaxandi samfélag, þróttmikið atvinnulíf og árangur í loftslagsmálum kallar á stóraukna eftirspurn eftir grænni orku og innviðauppbyggingu sem huga þarf að strax í dag. Ef eitthvað er þá er hraðinn í orkuskiptum nú þegar þannig að veiturnar þurfa að hafa sig allar við og enn er ekki fyrirséð hvaðan græna orkan í orkuskiptin á að koma. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og Alþingi ætla að gera það sem þarf til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir, meðal annars með því að gera orku- og veitufyrirtækjunum kleift að sinna sínu hlutverki nógu hratt og vel.

Nýting vindorku á Íslandi var mikið í sviðsljósinu á árinu og von er á tillögum að lagaumgjörð um hana í febrúar. Samorka hefur talað fyrir því að umgjörðin hér á landi greiði fyrir nýtingu hennar sem eðlilegri viðbót við græna orkuframleiðslu í þágu loftslagsmarkmiða, orkuskipta og orkusjálfstæðis. Umgjörðin þurfi að taka tillit til eiginleika vindorkunýtingar án þess að veittur sé afsláttur af því að taka tillit til náttúrunnar.

Nú undir lok ársins vakti Samorka athygli á stöðu hitaveitna um allt land sem margar hverjar eru komnar að þolmörkum með að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Gangi eftirspurnarspá Orkustofnunar til ársins 2060 eftir er hætta á að heitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Hitaveiturnar hafa í gegnum árin unnið sleitulaust að aukinni heitavatnsöflun en þar hefur regluverkið um háhitasvæðin tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum. Þá er mikilvægt að stuðningur við jarðhitaleit á svonefndum köldum svæðum verði aukinn til muna.

Ekki er hægt að gera upp árið án þess að minnast á orkukrísuna sem skapast hefur í orkumálum í Evrópu. Af henni þurfum við að draga lærdóm því orkuöryggi, orkusjálfstæði og hagstætt orkuverð er ekki sjálfgefið, ekki heldur hér á landi. Lykilatriðið er að tryggja nægt framboð af innlendri grænni orku (heitu vatni, rafmagni og rafeldsneyti) og byggja upp trausta innviði til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Við hjá Samorku treystum því að samtalið um orku- og veitumálin haldi áfram af krafti á nýju ári og að niðurstaða fáist í ýmis stór mál sem snerta allt samfélagið. Þar á meðal þarf að halda áfram stuðningi við uppbyggingu fráveitna um allt land ásamt því að eyða óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna og þeim heimiluð eðlileg arðsemi eigin fjár svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Eitt brýnasta verkefnið að mati Samorku er uppbygging og viðhald flutnings- og dreifikerfis raforku því aðeins með sterku, áfallaþolnu kerfi sem lágmarkar töp skilar græna orkan sér þangað sem hennar er þörf. Þar hefur flókin lagaumgjörð á ýmsan hátt staðið í vegi fyrir raunverulegum umbótum. Úr þessu þarf að bæta til þess að metnaðarfull markmið um orkuöryggi og árangur í loftslagsmálum verði að veruleika.

Í vetrarhörkum nú um hátíðarnar er rétt að minnast þess að í orku- og veitugeiranum vinnur öflugt starfsfólk sem vinnur hörðum höndum að því á hverjum einasta degi að færa fólki lífsgæðin sem felast í heita vatninu, heilnæmu drykkjarvatni, góðri fráveitu og grænu rafmagni. Oft eru verkefnin unnin við erfiðar aðstæður úti í óblíðri náttúru. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og ýmsar áskoranir er 90% starfsfólks ánægt í vinnunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar félagsins Kvenna í orkumálum, sem er töluvert meiri starfsánægja en gengur og gerist á vinnumarkaðnum. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem staðfesta svo sannarlega að það er gott að vinna í orku- og veitugeiranum enda horfum við björtum augum til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Innherja 2. janúar 2023.

Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?

Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku:

Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Það eru alls 43 TWst sem er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Á meðan nágrannalönd okkar kynda húsin sín að stórum hluta með innfluttu jarðefnaeldsneyti notum við heita vatnið okkar, sem er stór liður í því hversu langt við erum komin í að vera óháð öðrum þjóðum um orku.

Mikilvægi jarðhitans fyrir íslenskt samfélag lá ekki alltaf í augum uppi. Árhundruðum saman grunaði engan hversu mikill auður væri fólginn djúpt í jarðlögum undir landinu. Fyrst um sinn var jarðhitinn nýttur á stöku stað til þvotta og baða en eftir að við byrjuðum að leiða heitt vatn inn í húsin okkar fyrir um 100 árum varð efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur fljótt ljós.

Á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa góðan aðgang að heitu vatni sem hitaveitur landsins sjá um að færa okkur. Í dag eru vel yfir 90% húsa á Íslandi hituð með hitaveitu og allir þekkja lífsgæðin sem fylgja því að fara í góða sturtu, í heitt bað eða skella sér í sund.

Nú vitum við einnig hversu mikill ávinningurinn fyrir loftslagið er. Vegna nýtingu jarðhita til húshitunar höfum við komið í veg fyrir árlega losun 20 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er rúmlega fjórfalt það sem Ísland losar í dag.

Það er ekki sjálfgefið að búa að slíkri auðlind og geta nýtt hana. Það var mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og krafðist mikillar framsýni. Það krefst ekki síður mikillar vinnu að viðhalda þeim mikla árangri og ávinningi sem hitaveitan hefur fært okkur. Því þó að orkuskiptum í húshitun sé formlega lokið, þá þarf að viðhalda þeim í takt við vöxt samfélagsins.

Gert er ráð fyrir að íbúum á Íslandi hafi fjölgað um 22% árið 2050 miðað við árið 2021 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verði yfir 450.000. Hæsta spá Hagstofunnar gerir svo ráð fyrir að aukningin frá 2021 verði um 70% til ársins 2070 og verði þá rúmlega 625.000.

Þessi aukni mannfjöldi mun kalla á samsvarandi aukningu í notkun heits vatns. Samkvæmt jarðhitaspá Orkustofnunar hefur meðalnotkun heimila aukist jafnt og þétt síðustu ár, þrátt fyrir miklar framfarir í einangrun húsa og aukinnar notkunar gólfhita.

Hlutur atvinnulífs í eftirspurn eftir jarðvarma mun einnig aukast töluvert miðað við spá Orkustofnunar. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Spáin gerir ráð fyrir að þarfir atvinnulífsins taki fram úr jarðvarmanotkun heimila þegar fram líða stundir.

Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. Hitaveiturnar neyðist því til að leita sífellt lengra að nýjum vinnslusvæðum með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Auk þess er jarðhitaauðlindin viðkvæm og jarðhitasvæði sem henta til nýtingar eru ekki óþrjótandi. Það tekur ár og stundum áratugi að finna heppileg svæði til nýtingar, bora rannsóknarholur og rannsaka hver afkastageta svæðisins er. Eins og staðan er í dag eiga hitaveiturnar fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun og við blasir að til skerðinga getur komið í kuldaköstum þegar borholur hafa ekki undan.

Hitaveiturnar starfa í þágu viðskiptavina sinna og er því umhugað að nýta þær auðlindir og fjármuni sem þeim hefur verið treyst fyrir á sem bestan hátt. Við getum öll tekið þátt í því að fara vel með heita vatnið og þar með lágmarka umhverfisáhrif og kostnað. Ennfremur þurfa stjórnvöld að styðja við jarðhitaleit um allt land svo við getum haldið áfram að njóta þeirra forréttinda sem heita vatnið okkar er.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. nóvember 2022.

Tölum um orkuþörf

Páll Erland skrifar:

Samkvæmt orkustefnu sem unnin var í þverpólitísku samstarfi á Ísland að verða jarðefnaeldsneytislaust árið 2050. Það er metnaðarfullt markmið sem myndi halda okkur fremst í röð þjóða heims í loftslagsmálum. Umræðan um orkuskipti snýst því ekki eingöngu um að skipta bílaflota landsmanna út fyrir rafbíla, heldur um að við hættum alfarið að nota jarðefnaeldsneyti á öllum sviðum samfélagsins.

Það væru góðar fréttir fyrir umhverfið og loftslagið að ná þessu markmiði. Jarðefnaeldsneytislaust Ísland sparar mikinn útblástur sem svo býr til betri lífsskilyrði fyrir fólk, dýr og náttúru. Að auki er það eftirsóknarvert því það sparar mikinn gjaldeyri sem myndi annars fara í að borga fyrir eldsneytið sem við flytjum inn. Þá eru ótalin tækifærin til að búa til nýjar tekjur fyrir þjóðarbúið með því að framleiða grænt rafeldsneyti til útflutnings.

Óhjákvæmilegt er að ræða hver orkuþörfin er fyrir orkuskipti og jarðefnaeldsneytislaust Ísland og hvaðan græna orkan sem á að koma í stað jarðefnaeldsneytis eigi að koma. Markmiðin hafa verið sett og nú er tíminn fyrir málefnalega umræðu um hvernig þeim verður náð.

Það er jákvætt að forsvarsfólk í orku- og veitumálum, sem þekkir vel til málaflokksins og stýrir fyrirtækjum sem leggja sig fram við að þjóna samfélaginu öllu, setji fram sjónarmið um samspil markmiða stjórnvalda og orkuþarfar. Á það jafnt við um tölulegar staðreyndir, reynslu af því laga- og reglugerðarumhverfi sem gildir um orkumál og hvernig unnt sé að ná markmiðunum innan þess tímaramma sem settur hefur verið. Um er að ræða mikilvægt innlegg í upplýsta samfélagsumræðu.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa það hlutverk, ásamt stjórnvöldum, að stuðla að orkuöryggi og þar með nægu framboði af rafmagni og heitu vatni fyrir samfélagið – ekki bara núna, heldur til allrar framtíðar. Þau viðfangsefni sem blasa við eru fjölmörg; dafnandi samfélag sem kallar á sífellt meiri orku fyrir heimili og fyrirtæki, vaxandi þörf fyrir útflutningstekjur og vel launuð störf, græna nýsköpun, orkuskipti í samgöngum til að uppfylla Parísarsamninginn fyrir 2030 og svo jarðefnaeldsneytislaust Ísland fyrir 2050. Verkefnið er að uppfylla þörf fyrir græna orku sem þetta kallar á með sem minnstum áhrifum á landið okkar. Lausnin felst í orkusparnaði, bættri orkunýtni, öflugri orku- og veituinnviðum og aukinni framleiðslu grænnar orku.

Vinnum þetta saman.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 13. október 2021. 

Grænn hagvöxtur

Vel heppnuð endurreisn íslensks efnahagslífs að heimsfaraldri COVID-19 afstöðnum er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Störfum hefur fækkað verulega en skráð atvinnuleysi nam tæpum 11% í desember sl. Afkoma þjóðarinnar er verulega háð útflutningstekjum og því er fjölgun atvinnutækifæra óhjákvæmilega háð vexti og afkomu útflutningsfyrirtækja. Undir núverandi kringumstæðum er því nauðsynlegt að huga að umhverfi atvinnulífsins í því skyni að hlúa að útflutningsframleiðslu. Reynslan kennir okkur að með þeim hætti er unnt að skapa fyrirtækjum forsendur til skapa ný og fjölbreytt störf sem eru vel launuð. Það er m.ö.o. tímabært að stuðla að gjaldeyrissköpun og byggja upp samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja. Að heimsfaraldrinum frátöldum blasa við fleiri áskoranir sem einnig geta talist til tækifæra. Það færist í aukana að mengun og losun koltvísýrings hafi kostnað í för með sér í rekstri fyrirtækja, t.d. vegna reglubyrði, skatta og annarrar verðlagningar. Stærsta sjáanlega tækifæri íslenskra fyrirtækja felst því óhjákvæmilega í uppbyggingu á grænum grunni þar sem áhersla er lögð á atvinnustarfsemi byggða á grænum fjárfestingum. Á það við um fjárfestingar einkaaðila, hins opinbera og fyrirtækja í þess eigu. Með því að leggja rækt við að draga úr mengun og losun batnar nýting orku og auðlinda. Slík viðleitni kallar á mannvit og skapar þannig atvinnutækifæri. Með reynslunni eykst hæfni manna og fyrirtækja sem aftur bætir samkeppnisstöðu þeirra. Í því ljósi verður að teljast hyggilegt að stefnumótun beinist að tækifærum til grænnar atvinnusköpunar í öllum atvinnugreinum. Nýsköpun og þróun tæknilausna draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og lágmarka kolefnisspor fyrirtækja. Hagur allra batnar.

Með tímanum hefur orkuframleiðsla orðið æ mikilvægari þáttur. Orka leikur lykilhlutverk í samfélagi nútímans og hagvöxtur er samofinn beislun og nýtingu hennar. Í alþjóðlegum samanburði er sérstaða Íslands mikil þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í frumorkunotkun. Þökk sé því að hér á landi eru rafmagnið og heita vatnið af endurnýjanlegum uppruna. Þegar framangreint hlutfall árið 2019 er skoðað kemur í ljósi að á Íslandi nam það 85% en einvörðungu 19,7% í Evrópu og 26,6% í heiminum öllum. Íslendingar hafa náð eftirtektarverðum árangri við útskipti jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa. Við erum því í einstakri stöðu til að ganga lengra með því að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Ef við höldum rétt á spilunum getum við Íslendingar raunverulega orðið fyrirmynd annarra þjóða og slík ásýnd eykur ein og sér seljanleika innlendra vara og þjónustu.

Stjórnvöld í gjörvöllum heiminum leggja áherslu á orkuskipti og gera ráð fyrir að orkuskipti muni fyrr en varir ná til allra samgangna, á landi, á sjó og í lofti. Á þessum tímapunkti virðist sýnt að framleiðsla á svonefndu rafeldsneyti, orkugjöfum eða orkuberum, muni gegna lykilhlutverki. Eru þá ótalin önnur tækifæri svo sem framleiðsla á orkugeymslum, grænmeti og öðrum matvælum, þörungum o.fl. sem mun kalla á framboð sjálfbærrar og grænnar orku. Við eygjum tækifæri til útflutnings á bæði orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.

Á Norðurlöndunum er gert ráð fyrir að grænn vöxtur muni auka eftirspurn eftir raforku. Í Danmörku er áætlað að eftirspurnin muni tvöfaldast til ársins 2030, aukast um 35% í Noregi til ársins 2050, um þriðjung til ársins 2045 í Svíþjóð og um tæp 60% í Finnlandi til 2050. Samkvæmt sviðsmyndum raforkuspár 2020–2060 þarf að auka orkuframleiðslu til að mæta þörfum samfélagsins hér á landi. Sviðsmyndin „græn framtíð“ gerir ráð fyrir að orkuþörfin aukist um 37% en allt að 69% samkvæmt sviðsmyndinni „aukin stórnotkun“ 2019–2060.

Raforkukerfið er því forsenda efnahagslegra framfara. Ætla má að framtíðarnotendur verði virkir þátttakendur í orkuskiptum og þar með örlagavaldar þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum. Fjórða iðnbyltingin verður fyrst og fremst raforkudrifin, þar sem gagnaver, snjallvæðing og gervigreind munu leika lykilhlutverkin. Í þessu samhengi er því mikilvægt að horfa til framtíðar, leggja áherslu á orkuskipti og fullnýta þau tækifæri sem Íslandi standa til boða.

Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2021 og hana má finna á vb.is

Orkuskiptin minnka kolefnisspor Íslendinga

Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Samorku skrifar:

Þriðjungur af losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda árið 2018 var frá vegasamgöngum og er því stærsti einstaki losunarflokkurinn. Góður árangur í orkuskiptum í vegasamgöngum er því lykilatriði til að við stöndumst þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undir gengist.

Ávinningur orkuskiptanna einskorðast þó ekki við loftslagsmálin. Á ársfundi Samorku í september kom fram að miðað við að við uppfyllum markmið stjórnvalda um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 fela þau einnig í sér gjaldeyrissparnað upp á 20-30 milljarða. Óhætt er að fullyrða að ný og metnaðarfyllri markmið sem nú hafa verið kynnt auka þennan sparnað umtalsvert. Enn fremur er sparnaður heimilis við að aka á rafmagni í stað bensíns er um 400.000 kr. á ári sé tekið mið af kostnaði vegna orkunotkunar og viðhalds. Orkuskiptin hafa í för með sér minni staðbundna mengun frá útblæstri og minni losun sótagna, sem eru hættuleg umhverfinu og heilsu manna og dýra, auk þess sem neysludrifið kolefnisspor minnkar.

En hvað er neysludrifið kolefnisspor einstaklinga og af hverju skiptir máli að minnka það?

Til að útskýra málið frekar má taka sem dæmi brauðrist. Raforkunotkunin við að rista sér brauð, sem og förgun umbúða og brauðristarinnar sjálfrar í lok líftíma hennar, er það sem telur í kolefnisfótspori hennar ef við teljum á samsvarandi hátt og gert er í loftslagsbókhaldi Íslands. Semsagt, eingöngu það kolefnisfótspor sem hún veldur innan landamæra Íslands. Neysludrifið kolefnisfótspor er hins vegar heildarfótsporið; frá öflun hráefna og framleiðslu brauðristarinnar, hvar sem hún á sér stað í heiminum, auk flutninga hennar til landsins sem og notkun hennar hérlendis. Því er neysludrifna kolefnissporið oft á tíðum töluvert hærra en þegar aðeins er talið það sem gerist innan landamæranna.

Komið hefur fram að neysludrifið kolefnisspor meðal Íslendings er hátt, en hver einstaklingur er valdur að losun á rúmlega 10 tonnum af gróðurhúsaloftegundum árlega. Meirihluta þessarar losunar frá íslenskum heimilum má rekja til innfluttrar neysluvöru og spila innkaup og bruni jarðefnaeldsneytis þar stórt hlutverk. Orkuskiptin, ásamt breyttum ferðavenjum, eru tækifæri til að minnka neysludrifið kolefnisspor Íslendinga um allt að þriðjung og verða með því lægsta sem gerist í iðnríkjum . Það er vegna þess að umhverfisáhrif þeirrar orku sem nýtt er til að knýja ökutæki minnka verulega þegar framleiðsla orkunnar er með endurnýjanlegum hætti eins og á Íslandi. Með orkuskiptunum er því komið í veg fyrir mengun vegna framleiðslu jarðefnaeldsneytis erlendis sem og útblásturs við bruna þess í ökutækjum hérlendis. Þá er vert að draga það fram, að rannsóknir hafa leitt í ljós að notkun rafbíla hérlendis dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við notkun bensín- og dísilbíla vegna innlendu grænu orkunnar okkar, þrátt fyrir að framleiðsla ökutækjanna sé tekin með inn í jöfnuna .

Loftslagsbreytingar eru hnattrænn vandi og því skiptir máli að allir kappkosti við að leggja sitt af mörkum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem sú losun á sér stað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. desember 2020. 

 

[1] Jack Clarke, Jukka Heinonen, Juudit Ottelin. 2017. Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. Journal of Cleaner Production Volume 166, 10 November 2017, Pages 1175-1186

[1] Jack Challis Clarke. 2017. The carbon footprint of an Icelander: A consumption based assessment using the Eora MRIO database. Master’s thesis, Faculty of Civil and Environmental Engineering, University of Iceland, pp. 112

[1] Kevin Joseph Dillman, Áróra Árnadóttir, Jukka Heinonen, Michał Czepkiewicz and Brynhildur Davíðsdóttir. 2020. Review and Meta-Analysis of EVs: Embodied Emissions and Environmental Breakeven. Sustainability, 12(22), 9390.