Tökum réttu skrefin

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku skrifar:

Íslenskt samfélag og atvinnulíf byrjar árið 2024 í þröngri stöðu þegar litið er til orkubúskaps þjóðarinnar. Þá hafa jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga stefnt orkuöryggi íbúa á Suðurnesjum í hættu. Stjórnendur og starfsfólk HS Veitna, HS Orku og Grindavíkurbæjar, sem reka innviði á svæðinu, hafa sýnt ótrúlega elju og útsjónarsemi í að verja innviði og tryggja órofa framleiðslu og þjónustu. Sama gildir um Landsnet sem rekur þar flutningskerfi raforku.

Þrátt fyrir ítrekaðar vandaðar greiningar um hættu á orkuskorti og áralangar viðvaranir fyrirtækja í orkumálum virðist íslenskt samfélag nú hafa steytt á skeri. Í greinargerð með frumvarpi til neyðarlaga um raforku sem lagt var fram á Alþingi í desember er rakið hvernig eftirspurn eftir orku er nú meiri en öll raforkuframleiðslan getur staðið undir m.a. vegna stöðu í lónum. Mikilvæg fyrirtæki í íslensku atvinnulífi munu í vetur sæta skerðingum á orkuafhendingu sem leiðir til skertrar starfsemi og ný orkusækin verkefni geta við þessar aðstæður trauðla komist í framkvæmd. Við slíkar aðstæður blasir við efnahagslegt tjón fyrir íslenskt samfélag. Tjón sem hefði mátt með margs konar aðferðum hugsanlega afstýra.

Samfélagið stendur nú frammi fyrir því að þurfa að bregðast við orkuskorti sem líklega mun vara um nokkurt skeið. Í því felst m.a. að gera ráðstafanir til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja og koma á fót skilvirkni í viðskiptum með raforku. Í þessum aðstæðum er rétt að horfa til reynslu annarra ríkja og lítt skoðaðra tækifæra til að þróa raforkumarkaðinn enn frekar með þátttöku notenda, stórra sem smárra, sem vilja og geta dregið úr raforkunotkun þegar þörfin er mest. Markmið slíkra aðgerða þarf að vera jákvæð áhrif á neytendur, styðja við orkunýtni, styðja við orkuskipti, senda fjárfestingamerki til markaðarins og tryggja raforkuframboð með sem minnstum tilkostnaði.

Mikilvægt er að á árinu 2024 komist Ísland nær nágrannalöndum okkar í að búa orku- og veitufyrirtækjum umgjörð sem greiðir götu góðra verkefna á sviði orkumála. Margt mætti telja til en hér nægir að nefna fjögur meginatriði.

Í fyrsta lagi þarf að auka skilvirkni í stjórnsýslu og einfalda ferla vegna orkutengdra verkefna. Ísland mun ekki ná orkuskiptamarkmiðum á meðan verkefni á því sviði sofa inni hjá stjórnsýslustofnunum eða sæta ekki málsmeðferðarhraða sem tekur mið af mikilvægi þeirra. Í öðru lagi þarf að setja í lög reglur um einfalda og skilvirka meðferð vindorkukosta sem framsækin fyrirtæki hafa verið að þróa þrátt fyrir að löggjöf hér hafi litlu svarað um hvort eða hvernig þeir skuli afgreiddir. Fyrir tilstuðlan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafa birst tillögur starfshóps um einföldun á afgreiðslu vindorkukosta en á nýju ári bíður það Alþingis að koma slíku kerfi á. Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að ljúka vinnu um skattaumgjörð orkuvinnslu. Höfuðmarkmið þeirrar vinnu verður að vera  skattaumgjörð sem tekur mið af afkomu orkuvinnslu, tryggir jafnræði orkuvinnslufyrirtækja, heggur á hnút í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað þetta snertir og hefur ekki of neikvæð áhrif á fjárfestingar í orkuvinnslu. Í fjórða lagi þarf að fara fram heildarendurskoðun á rammaáætlun. Þó mikilvægt skref hafi verið stigið við afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar er ljóst að kerfið er of flókið, seinvirkt og ekki til þess fallið að orkufyrirtæki fari hratt af stað með hagkvæmustu verkefni þegar markaðsforsendur eru fyrir hendi eða fyrirsjáanlegar.

Á árinu 2024 munu orku- og veitufyrirtæki halda áfram að undirbúa íslenskt samfélag undir orkuskiptin og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Íslenskur orku- og veitugeiri hefur sjálfur sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og styður heilshugar við sama markmið stjórnvalda. Í loftslagsvegvísi atvinnulífsins er að finna margvíslegar aðgerðir þessara fyrirtækja og orkufyrirtæki eru raunar í fremstu röð í að þróa leiðir til að binda eða vinna með kolefni sem losað er í samfélaginu. Veitufyrirtæki munu halda áfram að þróa vatns- og fráveitur sem veita fólki og fyrirtækjum fyrsta flokks þjónustu en setja umhverfið í öndvegi.

Orku- og veitufyrirtæki munu á árinu 2024 halda áfram vinnu við að tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu aðgengi að öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum orku- og veituinnviðum.

Samorka óskar aðildarfyrirtækjum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2024.