Óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna verði eytt

Hreint neysluvatn er einn af hornsteinum heilbrigðis og lífsgæða. Vatnið okkar er ein helsta auðlind landsins og aðgengi að því hér á landi er afar gott og gæði þess mikil.

Vatnsveitur á Íslandi sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða drykkjarvatni á sanngjörnu verði. Þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki noti mikið vatn er kostnaður vegna kaldavatnsnotkunar langlægstur hér á landi þegar höfuðborgir á Norðurlöndum eru bornar saman.

Sterkir og öruggir innviðir eru okkur mikilvægir og mikil sátt ríkir um uppbyggingu þeirra og rekstur. Til þess að vatnsveitur geti áfram sinnt hlutverki sínu til framtíðar þarf að tryggja vatnsveitum nægilegt fjármagn svo þær geti staðið undir rekstrinum og fjárfestingum til framtíðar. Það er meðal annars gert með því að innheimta þjónustugjald og mikilvægt er að það gjald endurspegli raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna.

Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“.

Eins og kunnugt er hefur komið upp ágreiningur um túlkun hugtaksins fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga og í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gengið út frá því að hann taki eingöngu til vaxtakostnaðar af lánum. Þetta er sérstakt í ljósi þess að enginn ágreiningur hefur verið um það hingað til að fjármagnskostnaður tekur bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigin fjár.

Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmæti núverandi vatnsgjalds byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð.

Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, s.s. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Hollandi svo einhver dæmi séu nefnd, er einnig gert ráð fyrir arði af rekstri í gjaldskrám vatnsveitna.

Mikilvægt er að eigendum vatnsveitna sé tryggð eðlileg arðsemi þess eigin fjár sem sett er í veitukerfin þannig að ekki sé hikað við að ráðast í fjárfestingar og úrbætur. Slíkir hagrænir hvatar til fjárfestingar tryggja að fyrirtækjum séu búin þau skilyrði að geta fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma.

Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku hafa lengi átt í viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins um gerð leiðbeininga um forsendur við gerð gjaldskrár vatnsveitna þannig að þær séu skýrar og þar með að þessi grundvallar skilningur á hugtakinu fjármagnskostnaður sé viðurkenndur og þeirri óvissu sem nú er uppi í rekstri vatnsveitna sé eytt.