Styrkir til fráveituframkvæmda – upplýsingafundur

Samorka í samstarfi við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga halda kynningarfund fyrir fráveitur.

Fundurinn er fjarfundur á Teams.

Fundurinn hefst kl. 10:30 og gert ráð fyrir að hann standi í rúmlega klukkustund.

Dagskrá
1. Tækifæri og áskoranir í uppbyggingu fráveitukerfa – reynslusögur o.fl. –
Fjóla Jóhannesdóttir formaður Fráveitufagráðs Samorku og sérfræðingur í fráveitum hjá Veitum

2. Tæknilegur undirbúningur fráveituframkvæmda – Reynir Sævarsson fyrirliði umhverfisteymis EFLU

3. Styrkir til fráveituframkvæmda – upprifjun á fyrirkomulagi styrkveitinga, umsóknarferlinu, gagnaskilum o.s.frv.
Styrkveitingar næsta árs o.fl. – Hafsteinn Pálsson frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

4. Fyrirspurnir og umræður

Vinsamlegast skráið ykkur á fundinn á forminu hér fyrir neðan.

 

 

AFLÝST: Desemberfundur 2021

DESEMBERFUNDUR SAMORKU 2021 HEFUR VERIÐ SLEGINN AF

Desemberfundur Samorku verður haldinn þann 2. desember 2021 milli kl. 15 og 17 á Icelandair hótel Natura.

Ítarleg dagskrá verður birt síðar, en ætlunin er að halda áfram að kynna viðamikið starf í ráðum og hópum Samorku. Við fáum að heyra frá nokkrum ráðum og hópum og hvaða viðfangsefni þau hafa verið að fást við.

Þegar dagskrá lýkur ætlum við að gæða okkur á jólapinnamat og drykkjum og eiga vonandi gott spjall áfram.

Verð á fundinn: 6.500 kr.

Fundurinn er eingöngu ætlaður starfsfólki aðildarfélaga Samorku.

Menntamorgnar: Á gervigreind heima í menntakerfinu?

Menntamorgnar atvinnulífsins eru nú komnir á fullt skrið og er annar fundur haustsins haldinn undir yfirskriftinni Á gervigreind heima í menntakerfinu?

Fundurinn fer fram 4. nóvember kl. 8:30-9:30 í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35. Boðið verður upp á morgunkaffi. Menntamorgnar atvinnulífsins eru samstarfsverkefni SA og aðildarsamtaka.

Í dag er gervigreind alls staðar. Við heyrum um hana í leik og starfi en hinn raunverulegi kraftur hennar er okkur oft hulinn. Fyrr en síðar mun hún hafa veigamikil áhrif á líf okkar allra en miklum breytingum fylgir oft mikil óvissa. Þetta erindi byrjar á að ræða almennt um grunnhugtökin í gervigreind en skoðar hana svo sérstaklega með augum kennara sem velta fyrir sér hvernig menntakerfi framtíðarinnar gæti litið út.

Hinrik Jósafat Atlason mun leiða okkur í allan sannleikann um ofangreint á menntamorgni 4. nóvember. Hinrik er framkvæmdastjóri og stofnandi Atlas Primer sem bætir aðgengi að námsefni með því að nýta m.a. gervigreind og máltækni til sjálfvirknivæðingar í menntakerfinu. Undanfarin átta ár hefur hann starfað við Háskólann í Reykjavík sem stundakennari við viðskiptadeild og tölvunarfræðideild. Hinrik er með M.Sc. gráðu í gervigreind og B.Sc. gráðu í tölvunarfræði.

Skráning á fundinn:
https://sa.is/frettatengt/vidburdir/menntamorgnar-a-gervigreind-heima-i-menntakerfinu

Facebook live: https://fb.me/e/1p8lJxfrU

Sjónvarp atvinnulífsins: https://vimeo.com/638741444

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Mikilvægt framfaraskref fyrir byggðina í Hornafirði var stigið á dögunum þegar Hitaveita Hornafjarðar var formlega tekin í notkun.

Lagningu nýrrar hitaveitu fyrir Höfn og hluta Nesja er nú að ljúka. Heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var hleypt á stærstan hluta Hafnar síðastliðinn vetur en nú hefur dreifikerfi verið lagt í þann hluta sem áður var með beina rafhitun. Nú eiga því allir íbúar Hafnar möguleika á því að tengjast hitaveitunni.

Hluti hópsins við borholuhús RARIK í Hoffelli.

Síðustu áratugi hefur verið rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta hitaveitu á Höfn og voru ¾ húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn sem nýtt var í dreifikerfi veitunnar. Síðustu ár hefur verð á ótryggðri raforku hækkað verulega og framboð á henni verið mikilli óvissu háð. Því var forsenda fyrir óbreyttum rekstri fjarvarmaveitunnar ekki lengur fyrir hendi.

Matthildur Ásmundsdóttir bæjarstjóri, Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri og Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK.

Hitaveita Hornafjarðar er í eigu RARIK sem hefur sett mikla vinnu og fjármuni í leit að heitu vatni á undanförnum árum. Skipulögð leit að virkjanlegum jarðhita í Austur Skaftafellssýslu hefur staðið yfir frá því upp úr 1990 og hafa verið boraðar samtals 54 rannsóknaholur og fimm 1100 til 1750 metra djúpar vinnsluholur í landi Hoffells. Frá 1992 til 2002 kostuðu sveitarfélagið Hornafjörður og Orkustofnun jarðhitaleitina en RARIK kom að verkefninu 2002. Fram til 2006 voru boraðar 33 rannsóknaholur en eftir að RARIK keypti jarðhitaréttindin í Hoffelli 2012 hefur verið boruð 21 rannsóknahola til viðbótar og áðurgreindar fimm vinnsluholur.

Nánari upplýsingar um nýju hitaveituna í Hornafirði má sjá á heimasíðu RARIK.

Orkufyrirtækin gera samstarfssamning um varnir gegn netglæpum

Aðildarfyrirtæki Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja, sem eiga aðild að netöryggisráði Samorku og norska fyrirtækið KraftCert hafa gert með sér samstarfssamning um varnir og viðbúnað fyrir netöryggi. Netöryggi er ein stærsta áskorun stjórnenda í dag og samstarfið styrkir orku- og veitufyrirtæki landsins enn frekar í baráttunni gegn stafrænum glæpum.

Aðildarfyrirtæki Samorku flokkast undir mikilvæga innviði sem samfélagið allt reiðir sig á. Því er áríðandi að innan þeirra sé hugað vel að netöryggi svo hægt sé að verjast mögulegum tölvuárásum á orkukerfi landsins.

Innan Samorku hefur verið starfrækt Netöryggisráð í nokkur ár sem samanstendur af sérfræðingum frá stærstu aðildarfyrirtækjum samtakanna. Með samstarfinu við KraftCert verður netöryggi styrkt enn frekar á vettvangi orkugeirans.

Markmið samstarfsins er að auka áfallaþol byggt á áhættumati og áhættugreiningum sem varða net- og upplýsingaöryggi fyrirtækjanna. Samningurinn felur í sér varnir og viðbúnað gegn netglæpum og upplýsingaöryggi. Einnig felur hann í sér þjálfun, æfingar og rekstrarráðgjöf þegar kemur að netöryggi orku- og veitufyrirtækja á Íslandi.

KraftCert var stofnað árið 2014 af stærstu orkufyrirtækjunum í Noregi og er sjálfstætt félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni. Félagið er leiðandi fyrirtæki í netöryggismálum, viðbrögðum og vörnum gegn netglæpum í heiminum. Þar að auki hefur KraftCert viðtæka sérþekkingu á netöryggi orku- og veitufyrirtækja og er því ávinningurinn á samstarfssamningum mikill fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki og geri þeim kleift að vera hluti af alþjóðlegu samstarfi þegar kemur að netöryggismálum.

 

Tölum um orkuþörf

Páll Erland skrifar:

Samkvæmt orkustefnu sem unnin var í þverpólitísku samstarfi á Ísland að verða jarðefnaeldsneytislaust árið 2050. Það er metnaðarfullt markmið sem myndi halda okkur fremst í röð þjóða heims í loftslagsmálum. Umræðan um orkuskipti snýst því ekki eingöngu um að skipta bílaflota landsmanna út fyrir rafbíla, heldur um að við hættum alfarið að nota jarðefnaeldsneyti á öllum sviðum samfélagsins.

Það væru góðar fréttir fyrir umhverfið og loftslagið að ná þessu markmiði. Jarðefnaeldsneytislaust Ísland sparar mikinn útblástur sem svo býr til betri lífsskilyrði fyrir fólk, dýr og náttúru. Að auki er það eftirsóknarvert því það sparar mikinn gjaldeyri sem myndi annars fara í að borga fyrir eldsneytið sem við flytjum inn. Þá eru ótalin tækifærin til að búa til nýjar tekjur fyrir þjóðarbúið með því að framleiða grænt rafeldsneyti til útflutnings.

Óhjákvæmilegt er að ræða hver orkuþörfin er fyrir orkuskipti og jarðefnaeldsneytislaust Ísland og hvaðan græna orkan sem á að koma í stað jarðefnaeldsneytis eigi að koma. Markmiðin hafa verið sett og nú er tíminn fyrir málefnalega umræðu um hvernig þeim verður náð.

Það er jákvætt að forsvarsfólk í orku- og veitumálum, sem þekkir vel til málaflokksins og stýrir fyrirtækjum sem leggja sig fram við að þjóna samfélaginu öllu, setji fram sjónarmið um samspil markmiða stjórnvalda og orkuþarfar. Á það jafnt við um tölulegar staðreyndir, reynslu af því laga- og reglugerðarumhverfi sem gildir um orkumál og hvernig unnt sé að ná markmiðunum innan þess tímaramma sem settur hefur verið. Um er að ræða mikilvægt innlegg í upplýsta samfélagsumræðu.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa það hlutverk, ásamt stjórnvöldum, að stuðla að orkuöryggi og þar með nægu framboði af rafmagni og heitu vatni fyrir samfélagið – ekki bara núna, heldur til allrar framtíðar. Þau viðfangsefni sem blasa við eru fjölmörg; dafnandi samfélag sem kallar á sífellt meiri orku fyrir heimili og fyrirtæki, vaxandi þörf fyrir útflutningstekjur og vel launuð störf, græna nýsköpun, orkuskipti í samgöngum til að uppfylla Parísarsamninginn fyrir 2030 og svo jarðefnaeldsneytislaust Ísland fyrir 2050. Verkefnið er að uppfylla þörf fyrir græna orku sem þetta kallar á með sem minnstum áhrifum á landið okkar. Lausnin felst í orkusparnaði, bættri orkunýtni, öflugri orku- og veituinnviðum og aukinni framleiðslu grænnar orku.

Vinnum þetta saman.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 13. október 2021. 

Menntamorgnar: Hæfni í atvinnulífinu

Menntamorgnar atvinnulífsins fara af stað aftur 7. október næstkomandi og hefst fyrsti fundur haustsins klukkan 8:30. Boðið verður upp á morgunkaffi en áætlað er að fundinum ljúki kl. 9:30. Menntamorgnar eru samstarfsverkefni SA og aðildarsamtaka.

Fundurinn ber yfirskriftina Hæfni í atvinnulífinu … Hver ber ábyrgð á henni?

Sigríður Guðmundsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) í upphafi árs 2021. Sigríður hefur starfað um árabil í ýmsum mannauðs- og fræðslumálum m.a. sem fræðslu- og mannauðsstjóri Eimskips, ráðgjafi hjá Attentus – Mannauður og ráðgjöf og sem grunnskólakennari.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er að stærstum hluta í eigu SA og ASÍ og hefur það hlutverk að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið formlegu námi úr framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína. Þessu hlutverki sinnir FA með því að greina, meta og þróa leiðir og aðferðir til að auka hæfni á vinnumarkaði í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar og atvinnulífi um allt land.

Í síbreytilegum heimi þar sem tækni og nýsköpun skipta sífellt meira máli hefur sjaldan verið mikilvægara að viðhalda hæfni og þekkingu í samræmi við kröfur atvinnulífsins. Sigríður ætlar í spjalli sínu að fara yfir verkfæri sem FA hefur þróað og geta nýst atvinnulífinu til aukinnar hæfniþróunar.

Hröð tækniþróun eykur möguleikana á sveigjanlegum, skilvirkum og hagkvæmum valkostum þegar kemur að þessari fræðslu þar sem rafrænt námsumhverfi er í forgrunni. Með rafrænu námsumhverfi skapast lausnir og tækifæri fyrir öll fyrirtæki en ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki sem og fyrirtæki á landsbyggðinni.

Morgunfundirnir eru frábær leið til að vera með puttann á púlsinum í fræðslu og símenntun fyrirtækja.

Skráning á fundinn fer fram á heimasíðu SA.

Nýir umræðuþættir um orkuskipti

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og málefnum orkuskipta.

Á þriðjudögum og fimmtudögum verður boðið upp á fróðlega umræðuþætti þvert á atvinnugreinar. Þættirnir eru sýndir í þriðjudaga og fimmtudaga frá 10:00 – 10:30 í Sjónvarpi atvinnulífsins á netinu og Facebook live.

Samorka ríður á vaðið í fyrsta þætti á morgun þar sem Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi, fær til sín Kjartan Rolf Árnason, deildarstjóra kerfisstýringar hjá Rarik. Þau ræða vítt og breitt um orkuskipti og það hvernig landinn hleður. Hægt er að horfa á þáttinn hér fyrir neðan.

Einnig er hægt að sjá aðra þætti og fá áminningu í dagbók með því að skrá áhorf hér: https://sa.is/frettatengt/vidburdir/umhverfismanudur-atvinnulifsins-2021-dagskra

Umhverfismánuður: Hvernig hleður landinn? from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2021 verður haldinn miðvikudaginn 6. október í Hörpu Norðurljósum kl. 09:00-10:30.

Húsið opnar kl. 08:30 með morgunhressingu.

Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Í tengslum við daginn er allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi málefnum orkuskipta. Nánari dagskrá umhverfismánaðarins má sjá á heimasíðu SA.

Dagskrá umhverfisdagsins 6. október lýkur með afhendingu Umhverfisverðlauna atvinnulífsins og við tekur kaffi og tengslamyndun fyrir fundargesti til kl. 11:00.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel í umhverfismálum. Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verðlaun fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins. Venju samkvæmt afhendir forseti Íslands Umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Skráning á Umhverfisdag atvinnulífsins 2021 fer fram á heimasíðu SA.

Dagskrá:
Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

Setning
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Orkuskipti – Leiðin fram á við
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri

Orkuskipti Bílaleigu Akureyrar
Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Hölds ehf.

Orkuskipti í sjávarútvegi
Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum SFS

Vistvænni mannvirkjagerð
Sigrún Melax, gæðastjóri Jáverk ehf.

Fjármögnun orkuskipta – tækifærin og áskoranir frá sjónarhóli banka
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni Íslandsbanka

Í pallborðsumræðum taka þátt:
Bjarni Herrera, forstöðumaður sjálfbærni KPMG
Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur Ph.D. VSÓ og dósent við Háskóla Íslands
Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins:
Forseti Íslands afhendir viðurkenningu
fyrir umhverfisframtak ársins og til umhverfisfyrirtækis ársins.