11. september 2024 Í samkeppni um vindinn Framtíðarsýnin er samfélag knúið áfram af 100% grænni orku. Jafnt og öruggt aðgengi allra að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði. Snjallt og sveigjanlegt orkukerfi þar sem engu er sóað. Þetta er bara brot af þeirri framtíðarsýn sem birtist okkur í Orkustefnu til ársins 2050. Hún er skýr, falleg og óumdeild. Leiðin þangað er hins vegar ekki bein og breið og fjölmörg mál sem þarf að leysa úr á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu á næstu árum. Mikil og snörp umræða hefur verið um vindorku undanfarnar vikur í tengslum við virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund og áform um uppbyggingu í vindorku víðar um land. Mörgum vex í augum hvaða áhrif vindorkuver munu hafa á náttúru og umhverfi á meðan aðrir hafa áhyggjur af því að erlendir aðilar komi að orkuframleiðslu á Íslandi, enn aðrir hafa áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er þá bara það helsta talið til. Þetta eru verkefni sem þarf að ræða og leysa. Mikilvæg skref hafa nú þegar verið stigin. Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024-2038 leggur áherslu á orkuskiptin, kolefnishlutleysi, uppbyggingu í grænni orku og þar með talið nýtingu vindorku. Við afgreiðslu Landsskipulagsstefnu á Alþingi greiddu 45 þingmenn henni atkvæði og enginn sagði „nei“. Stjórnvöld hafa sett markmið og undirgengist skuldbindingar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Alþingi mun á haustmánuðum taka til meðferðar í annað sinn þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í raun má segja að Alþingi, stjórnsýslan, atvinnuvegir landsins og almenningur allur sé á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi – rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur. Græna byltingin Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Græna byltingin í Evrópu er keyrð áfram í öflugu markaðshagkerfi þar sem kraftar samkeppninnar fá að njóta sín. Nýjum lausnum og leiðum við orkuöflun og orkunýtni fleygir enda fram víðast hvar. Meginstef grænu byltingarinnar er að Evrópa verði alfarið knúin grænni orku og virk samkeppni á raforkumarkaði tryggi hag neytenda og samkeppnishæfni álfunnar – rétt eins og framtíðarsýnin fyrir Ísland árið 2050 birtist okkur. Í nýútgefnum Raforkuvísum Orkustofnunar eru birtar tölur um áætlaðar fjárfestingar raforkugeirans fyrir árin 2024 – 2028. Þar kemur fram að heildarfjárfestingar fyrir þetta tímabil eru um 500 milljarðar. Það er því full ástæða til að sjá það sem fagnaðarefni að bæði innlendir og erlendir aðilar séu tilbúnir að koma að orkuframleiðslu hér á landi á næstu árum og áratugum. Orkan sem verður framleidd mun svo nýtast til að mæta framtíðarorkuþörf þjóðarinnar, bæði heimila landsins, fyrirtækja og iðnaðar. Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi. Rétt eins og kröftug samkeppni hefur leitt af sér nýjungar og lækkað vöruverð á öðrum mörkuðum – mun væntanlega það sama gerast á þessum markaði. Hvað með vind á hafi? Í umræðunni eru hugmyndir um fjölda annarra orkukosta og möguleika til orkuöflunar og orkunýtni, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna birtuorku, vindorku á hafi, virkjun sjávarfalla og kjarnorku. Þá fleygir fram tækni í tengslum við rafhlöðulausnir og orkunýtni. Víða í Evrópu er mikil uppbygging og þróun í gangi varðandi alla þessa orkukosti og orkutækni og væntanlega mun flest af því berast hingað til lands fyrr en síðar. Í dag er því þó þannig farið að það er langtum dýrara að framleiða rafmagn með vindorku á hafi og kjarnorku en með vind eða sól á landi. Verkefni um vindorku á hafi og kjarnorku verða því nánast eingöngu að veruleika í dag með miklum ríkisstyrkjum og stuðningi. Víðast hvar í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld sett skýrar áætlanir um hve mikið þurfi að auka grænorkuframleiðslu á næstu árum. Þá er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum gríðarlegum fjármunum varið af hálfu hins opinbera til að auka grænorkuframleiðslu til að tryggja orkusjálfstæði og orkuskiptin. Það er lykilatriði í áframhaldandi samkeppnishæfni samfélags okkar að öflugir fjárfestar og fyrirtæki sjái sér hag í að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og það geti farið fram án umfangsmikilla ríkisstyrkja. Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur Samorku skrifaði greinina, sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 11. september 2024.
4. september 2024 Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn Rafmagnsframleiðsla með vindi er þrautreynd og örugg leið til að framleiða rafmagn á umhverfisvænan og árangursríkan hátt. Í nágrannalöndum okkar stendur vindorka undir stórum hluta raforkuþarfar og áform eru um að hraða uppbyggingu hennar í nágrannalöndum okkar til að tryggja aukið framboð, raforkuöryggi og ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda í hverju landi fyrir sig. Á Íslandi liggja sömu verkefni fyrir. Við þurfum að tryggja raforkuöryggi heimila og fyrirtækja svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna og um leið þarf græna orku í orkuskiptin þar sem jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir græna orku s.s. í samgöngum. Vindorka er þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver hraðar en þekkist við nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru. Vindorka er því góð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Vandað til verka Vindorkuverkefni þurfa líkt og önnur að standast mjög strangar kröfur um rannsóknir og umhverfismat áður en þau geta hlotið leyfi. Má þar nefna rannsóknir á gróðurfari, fugla- og vatnalífi og fleira. Um 35 vindorkuverkefni eru til skoðunar í dag hér á landi sem eru mislangt komin í þessu ferli og engin vissa enn um hver þeirra verða að veruleika. Áhrif vindorkunýtingar eru fyrst og fremst sjónræn og því þarf að vanda staðarval vel. Vindmyllur geta verið ríflega 150 metra háar með spaða í hæstu stöðu og framleiða á bilinu 4-7 MW. Það er því hægt að raða upp ákveðnum fjölda eftir hagkvæmni og hentugleika á hverjum stað. Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár. Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig framleiðslu grænnar orku á sama svæði. Einnig er hægt að taka þær niður og færa svæðið sem næst fyrra horfi. Þannig bindur vindorkunýting ekki hendur framtíðarkynslóða. Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg. Í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verði lagt bann við að urða blöðin árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur. Sameiginlegur ávinningur Mikill ávinningur felst í því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Í dag notar íslenskt samfélag um milljón tonn af olíu á ári og það kostar okkur 100 milljarða á hverju ári! Með því að nota græna orku framleidda innanlands í stað innfluttrar olíu myndum við fá hreinna loft, meiri fjármuni í okkar sameiginlegu sjóði og aukið sjálfstæði frá öðrum þjóðum með því að vera sjálfum okkur nóg um orku. Af vindmyllum eru greidd fasteignagjöld sem renna til þess sveitarfélags sem það starfar í. Stjórnvöld hafa svo í hendi sér hvernig þau skipta á milli sveitarfélaga sem þannig verða til. Það er ekki einfalt verkefni að þróa og byggja upp orkuverkefni. Það er því fagnaðarefni að öflug, reynd fyrirtæki og einstaklingar, innanlands sem utan, sýni framþróun vindorku á Íslandi áhuga og séu tilbúin til að leggja í miklar fjárfestingar. Á heimasíðu Samorku má nálgast algengar spurningar um vindorku og svör og auk þess má hlusta á þáttinn Spurt og svarað um vindorku í hlaðvarpi Samorku, Lífæðar landsins, á öllum hlaðvarpsveitum. Höfundur greinarinnar er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Greinin birtist fyrst 4. september á visir.is.
28. ágúst 2024 Gróska í nýtingu birtuorku á Íslandi Sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki hér á landi eru áhugasöm um að nýta birtuorku (sólarorku) til eigin nota. Tæknin verður sífellt hagkvæmari og með betri rafhlöðutækni og meiri álagsstýringu fer birtuorka að verða raunhæfari kostur. Um allan heim er gríðarleg gróska í þessum geira og birtuorka er sístækkandi hluti af raforkuframleiðslu í fjölmörgum löndum. Á opnum tæknifundi Samorku í morgun var rætt um möguleika til nýtingar á sólarorku í raforkukerfi Íslands. Á fundinum tóku til máls þeir Bergur Haukdal, framkvæmdastjóri Netbergs, sem sagði frá þróun í smærri sólarorkuframleiðslu hér á landi. Hann talaði um vaxandi áhuga, til dæmis meðal bænda, til að setja upp sólarsellur en það þyrfti að bæta regluverkið hvað varðar að mata orkuna inn á kerfið. Þá talaði Ólafur Davíð Guðmundsson, tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni, meðal annars um hönnun birtuorkukerfa og rafhlöðutækni með hleðslustöðvum sem hafa gefið góða raun. Að lokum fór Kjartan Rolf Árnason, þróunarstjóri RARIK, yfir áskoranir dreifiveitna og tækifærin þegar kemur að birtuorku, en þar þarf að horfa til ýmissa tæknilegra þátta til að nýta þetta sem best. Upptaka af fundinum:
20. júní 2024 Hröð þróun til rafvæðingar Helmingur allrar raforku í heiminum verður framleidd úr vind- og sólarorku árið 2040 og hækkar upp í 70% árið 2050. Raforkuþörf heimsins tvöfaldast til ársins 2050 og raforka verður að langstærstum hluta kolefnishlutlaus sama ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu DNV, Energy Transition Outlook: New Power Systems. Í skýrslunni kemur fram að flutningskerfi raforku leiki algjört lykilhlutverk svo þetta geti orðið að veruleika. Flutningsgeta þeirra þurfi að tvöfaldast og innleiða þurfi nýjar lausnir til snjallvæðingar. Þá er einnig lögð áhersla á rafeldsneyti og orkugeymslur auk þess að endurskoða þurfi orkumarkaði svo þeir séu nægilega sveigjanlegir. DNV telur að samkeppnishæfni þjóða komi til með að ráðast af getuþeirra til að aðlagast þessum breyttu orkukerfum og aukinni raforkuþörf hratt og vel. Lesa má skýrslu DNV hér.
28. maí 2024 RARIK fagmeistari Samorku 2024 Lið RARIK bar sigur úr býtum í Fagkeppni Samorku á Fagþingi raforku sem haldið var á Hótel Örk í Hveragerði 23. – 24. maí. Kampakátt lið RARIK ásamt forstjóra og aðstoðarforstjóra Keppt var í fjórum þrautum; Samsetningu á lágspennustreng, tengingu inn á götuskáp, tengingu inn á mæli og svo hið sívinsæla stígvélakast. Alls tóku sex lið þátt í keppninni sem voru frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða. Sex voru í dómnefnd, einn frá hverju þátttökufyrirtæki fyrir sig, fékk það vandasama verkefni að skera úr um sigurvegara í hverri þraut. Veitt voru verðlaun fyrir bestu frammistöðu í hverri grein. Lið RARIK vann keppni um lágspennustreng, Lið HS Veitna var hlutskarpast í tengingu inn á götuskáp, Veitur tengdu best inn á þriggja fasa mæli og þá kastaði lið RARIK stígvélinu lengst. Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir tilþrif ársins, sem lið Landsnet hlaut og stuðningslið ársins sem RARIK átti. Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK og er því Fagmeistari Samorku 2024. Liðið varði þar með titilinn frá árinu 2019 í raforkutengdum þrautum, en er líka Fagmeistari í veitutengdum þrautum frá því í fyrra. Hér fylgja nokkrar skemmtilegar frá stórskemmtilegri keppni, en fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Samorku. Handagangur í öskjunni Lið Orkubús Vestfjarða Liðið frá Norðurorku ásamt forstjóra og samstarfsfólki Stígvélakast í fullum gangi Sigurkastið Lið RARIK í keppnistjaldinu
Fagþing raforku 2024 UPPSELT Á FAGÞING RAFORKU 2024. Skráning á biðlista er neðar í færslunni. Fagþing raforku verður haldið á Hótel Örk í Hveragerði 23. – 24. maí. Þar verður einnig nýr Fagmeistari Samorku krýndur í fagkeppninni og helstu birgjar og þjónustuaðilar orkugeirans verða með á sýningunni. Heimasíða fagþingsins er www.fagthing.is. Eins og síðustu ár notar Samorka ráðstefnuappið Whova til að halda utan um dagskrána og aðra upplýsingagjöf fyrir þátttakendur. Hægt er að leita að viðburðinum og skrá sig inn, en þátttakendur fá tilkynningu um lykilorð viðburðarins. Gisting á Hótel Örk er þegar fullbókuð. Við hvetjum gesti til að huga að annarri gistiaðstöðu og bendum stærri hópum á Hótel Selfoss. Hér fyrir neðan er skráning á biðlista eftir sæti á Fagþingið, því það gætu orðið einhverjar tilfærslur og forföll. Sætum verður úthlutað eftir tímaröð á skráningu. Hér er hægt að skrá á biðlista eftir plássi á þinginu og í hátíðarkvöldverði og skemmtun: Nafn Fyrirtæki Netfang (required) Ég óska eftir sæti á hátíðarkvöldverði og skemmtun 23. maí – 15.900 kr. Ég vil grænkeramatseðil. Hátíðarkvöldverður og skemmtun fyrir maka/gest – 15.900 kr. Maki/gestur vill grænkeramatseðil. This form uses Akismet to reduce spam. Learn how your data is processed. Δ
13. nóvember 2023 Útflutningsbanni íslenskra upprunaábyrgða aflétt AIB (Association of Issuing Bodies) hefur úrskurðað að Ísland uppfylli allar kröfur upprunaábyrgðarkerfis þess og verður ekki gripið til frekar ráðstafana gagnvart Landsneti eða íslenskum upprunaábyrgðum. Óvissu um sölu íslenskra upprunaábyrgða er því aflétt án fyrirvara. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt er á heimasíðu AIB. AIB stöðvaði í lok apríl á þessu ári sölu á íslenskum upprunaábyrgðum vegna gruns um tvítalningu (double counting) þeirra hér á landi. Banninu var aflétt skömmu síðar með fyrirvara um úrbótaáætlun Landsnets og Orkustofnunar á upprunaábyrgðakerfinu. Eftir ítarlega gagnaöflun og greiningarvinnu er niðurstaðan sú að Ísland uppfylli allar kröfur og er málinu því lokið. Á heimasíðu Stjórnarráðsins er vitnað í Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þar sem hann segir niðurstöðu AIB alls ekki koma á óvart, enda í samræmi við niðurstöður Orkustofnunar og hinnar þýsku stofnunar UBA. „Það eru gríðarlega mikilvægt að það sé búið að aflétta þessari óvissu gagnvart okkar innlendu fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra, innlendra sem erlendra. Það er ljóst, það sem við vissum vel að það var aldrei brotalöm í löggjöf eða framfylgd þeirra hér á landi sem er að fullu leyti í samræmi við reglur annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Því kom bannið á sínum tíma mjög á óvart og að okkar mati óþarflega harkalegt inngrip byggt á veikum grunni eins og niðurstaðan leiðir bersýnilega í ljós.“
15. júní 2022 Rammaáætlun afgreidd eftir níu ára bið Þriðji áfangi áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, var í dag afgreiddur á Alþingi. Níu ár eru liðin frá því að vinna verkefnisstjórnar hófst við þriðja áfanga, sem hefur ekki tekist að samþykkja fyrr en nú. Alþingi afgreiddi áfangann með nokkrum breytingum frá upprunalegri tillögu verkefnisstjórnar. Alls voru sjö kostir færðir í biðflokk. Fjórir þeirra voru áður í verndarflokki rammaáætlunar og þrír í nýtingarflokki. Vindorkukosturinn Búrfellslundur færðist í nýtingarflokk, en hann var áður í biðflokki. Þannig eru í fyrsta skipti vindorkukostir í nýtingarflokki gildandi rammaáætlunar. Um er að ræða Búrfellslund (120 MW) og Blöndulund (100 MW). Landsvirkjun er virkjunaraðili þeirra beggja.
31. maí 2022 Mundu að velja þér raforkusala 27.06.2022: ATH: Aðeins þeir sem ekki hafa verið í viðskiptum við rafmagnssölufyrirtæki síðustu 90 daga þurfa að bregðast við og velja sér raforkusala sem fyrst. Hjá öðrum, sem hafa verið í samfelldum viðskiptum, fylgir raforkusamningur þegar flutt er. Ef þú ert að kaupa eign númer tvö (eða fleiri) þá þarf að velja sér raforkusala fyrir nýju eignina. Að velja sér raforkusala er mikilvægt. Rétt eins og neytendur þurfa að velja á milli tryggingafélaga og fjarskiptafyrirtækja til að kaupa þjónustu af, þá þarf að velja af hvaða sölufyrirtæki þú vilt kaupa rafmagn. Það er ábyrgð okkar, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að gera það strax og tekið er við nýrri fasteign. Að velja sér raforkusala er bæði einfalt og fljótlegt. Neytendur hafa val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa rafmagn, óháð búsetu. Hægt er að fara inn á heimasíður raforkusölufyrirtækis og ganga frá viðskiptasamningi. Söluaðilar rafmagns eru (í stafrófsröð): Fallorka HS Orka N1 Rafmagn Orka heimilanna Orka náttúrunnar Orkubú Vestfjarða Orkusalan Straumlind Ef ekki er gengið frá samningi við raforkusala verður lokað fyrir rafmagnið því dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að dreifa rafmagni inn á heimili og fyrirtæki ef slíkur samningur er ekki er til staðar. Ekki er opnað fyrir rafmagnið á ný fyrr en raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur einnig í sér kostnað fyrir neytandann. Hægt er að gera samanburð á raforkuverði á heimasíðu Orkuseturs og hjá Aurbjörgu. Samanburðurinn lítur ekki til þátta eins og mismunandi þjónustustigs. Hvernig veit ég hvort ég þurfi að velja? Og fyrir hvaða tíma?Ef þú hefur verið í viðskiptasambandi við raforkusala að undanförnu, færð reikninga og greiðir þá, þarftu ekki að velja þér raforkusala, ekki heldur ef þú flytur. En ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við sölufyrirtæki raforku síðastliðna 90 daga, t.d. ert að kaupa þína fyrstu íbúð eða þú ert í millibilsástandi á meðan þú skiptir um húsnæði, eða af einhverjum öðrum ástæðum þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti, þá er mikilvægt að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú kýst að vera í viðskiptum við og ganga til samninga um kaup á rafmagni. Einnig þarf að velja sér raforkusala ef þú ert að kaupa viðbótareignir við aðra sem þú átt fyrir. Ef þessu er ekki sinnt innan 30 daga frá notendaskiptum er dreifiveitum skylt samkvæmt lögum að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda, að undangenginni skriflegri viðvörun.
27. janúar 2022 Ný greining staðfestir spá um orkuskort Ný greining Landsnets um afl- og orkujöfnuð staðfestir þá niðurstöðu frá sambærilegri greiningu sem unnin var 2019 að orkuskortur verði viðvarandi vandamál á Íslandi næstu árin ef ekki verður brugðist skjótt við. Þetta byggir á þeirri spá um þróun eftirspurnar eftir raforku sem birt er í Raforkuspá Orkustofnunar og þeirri þróun í framleiðslu orku sem orðið hefur á síðustu árum og er fyrirsjáanleg yfir tímabil greiningarinnar sem nær til ársins 2026. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að nýjasta Raforkuspá geri ráð fyrir lægra álagi en sú sem miðað var við í greiningunni árið 2019 vegna áhrifa heimsfaraldursins. Líkur á aflskorti eru undir viðmiðum Landsnets á þessu ári en fara hækkandi eftir það. Þetta þýðir að ekki verði hægt að sinna eftirspurn eftir raforku yfir háálagstíma og skerði þurfi notendur í vaxandi mæli. Til að bregðast við þessari stöðu þurfa því að koma til nýjar orkuframleiðslueiningar, orkusparnaður t.d. með minnkun tapa, bætt nýting á núverandi virkjunum með uppbyggingu flutningskerfis eða þá með því að markvisst að draga úr raforkunotkun í kerfinu. Hvort sem ákveðið verður að fara eina leið fram yfir aðra eða ákveðið að gera allt sem að ofan er talið er mikilvægt að brugðist sé skjótt við til að lágmarka fjárhagslegt tjón sem hlýst af orkuskerðingum og losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis. Áætlanir hjá Landsneti um uppbyggingu flutningskerfisins hafa undanfarin ár tekið mið af þessari stöðu og miðast þær við að hægt verði að hámarka nýtingu virkjana á næstu árum, auðvelda tengingu nýrra orkuframleiðslueininga, auk þess að ná fram orkusparnaði með minnkandi töpum í flutningskerfinu. Að mati Landsnets er mikilvægt að uppbygging nýrrar kynslóðar byggðalínu gangi eftir áætlunum og óskilvirk ferli verði ekki til þess að tefja þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir. Skýrsluna má sjá hér.