29. maí 2020 Landsvirkjun undirbýr vetnisframleiðslu Landsvirkjun undirbýr nú hugsanlega vetnisvinnslu og til að byrja með telur fyrirtækið hentugt að hefja slíka vinnslu við Ljósafossstöð. Landsvirkjun hefur kynnt þann möguleika fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. Við Ljósafoss yrði framleitt svokallað grænt eða hreint vetni, sem fæst með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum. Slík umhverfisvæn framleiðsla á vetni er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor. Starfsemin við Ljósafoss myndi rúmast í tæplega 700 fermetra byggingu, þar sem hægt væri að auka við framleiðslu eftir því sem eftirspurn yrði meiri, en sem dæmi gæti rafgreinir í fullri stærð notað allt að 10 MW af raforku til vetnisframleiðslu. Slík framleiðsla myndi nægja til að knýja bílaflota sem nemur a.m.k. öllum vögnum Strætó. Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, segir að vetni, rafhlöður og metan hafi mismunandi eiginleika, en þarfir notenda skipti mestu máli í vali á orkugjafa. „Vetnið telst auðvelt í vinnslu miðað við margt annað eldsneyti og starfsfólk Landsvirkjunar hefur þegar þá grunnþekkingu sem þarf til framleiðslunnar, þótt frekari þjálfunar sé þörf,“ segir hún. Það sé mikill á vetnisvinnslu að auðvelt er að stýra framleiðslunni. „Rafgreinar þola vel að kveikt sé og slökkt á vinnslunni í samræmi við eftirspurn, svo framleiðandinn getur hagað henni eftir þörfum markaðarins hverju sinni.“ 4% bílaflotans ábyrg fyrir 15% útblásturs Þegar öflug vetnisvinnsla er komin í gang felst í henni hvati fyrir ýmsa anga atvinnulífsins að huga að vistvænni rekstri. Þannig má t.d. benda á, að vöruflutningabílar eru eingöngu um 4% íslenska bílaflotans, en þeir bera hins vegar ábyrgð á 15% alls útblásturs, sem frá bílum stafar. Fjölmargar þjóðir hafa nú sett sér vetnisstefnu. Evrópusambandið og Japan hafa gefið út vetnisvegvísi og áforma stórtæka notkun vetnis í sínum orkukerfum. Vetnið má nýta í rafmagnsframleiðslu, iðnaðarferla, hitaveitu og sem orkugjafa í samgöngum. Ef vetnið er framleitt með endurnýjanlegri orku er það nánast kolefnislaust. Nánari upplýsingar má finna á vef Landsvirkjunar.
21. febrúar 2020 Sala upprunaábyrgða skaðar ekki ímynd Íslands Upprunaábyrgðir raforku hafa verið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um þær, en hins vegar hefur borið á grundvallar misskilningi um grunnatriði þeirra. Hér eru nokkrar staðreyndir um upprunaábyrgðir raforku og ástæður þess að Ísland tekur þátt. Kerfið er hluti af evrópskum loftslagsaðgerðum. Kerfið var sett á laggirnar til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku í Evrópu. Síðan þá hefur hlutfall vottaðrar endurnýjanlegrar orku í Evrópu fjórfaldast. Hlutfall grænnar orku er miklu hærra í þeim löndum sem taka þátt í kerfinu en standa utan þess og þeim fjölgar stöðugt. Upprunaábyrgðir eiga sinn þátt í þessari þróun. Það má teljast ábyrgt að taka þátt í slíkum loftslagsaðgerðum og myndi eflaust vekja athygli víða ef Ísland ákveddi að hætta þátttöku. Þær umbuna framleiðendum endurnýjanlegrar orku fjárhagslega. Til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku var framleiðsla hennar gerð eftirsóknarverðari með því að búa til opinbera vottun á hreinleika orku, upprunaábyrgðir, sem þyrfti að greiða aukalega fyrir. Upprunaábyrgð er staðfesting á því að ákveðið magn af grænni raforku hafi verið framleidd. Með kaupum á upprunaábyrgð hafi kaupandinn styrkt framleiðslu grænnar raforku. Um leið fær hann rétt á að segja að hann noti umrætt hlutfall grænnar orku. Án þess væri enginn hvati fyrir hann að kaupa upprunaábyrgðir. Tekjurnar af sölu upprunaábyrgða renna til framleiðanda orkunnar, þ.m.t. á Íslandi, í þeim tilgangi að umbuna fyrir framleiðslu grænnar raforku. Kaupendur upprunaábyrgða eru ekki að kaupa sér syndaaflausn. Helstu kaupendur upprunaábyrgða í Evrópu eru einstaklingar og fyrirtæki, ekki framleiðendur orku úr jarðefnaeldsneyti. Kaup á upprunaábyrgð breytir ekki neinu um kolefnisspor ákveðinnar framleiðslu eða gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að menga óáreitt. Þau þurfa enn að standa skil á minnkun útblásturs samkvæmt öðrum loftslagsaðgerðum í Evrópu. Ennfremur hafa upprunaábyrgðir engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsaðar til þess að búa til aukin verðmæti fyrir þá sem framleiða endurnýjanlega orku og stuðla þannig til hærra hlutfalli grænnar orku í heiminum. Mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag. Tekjur af sölu upprunaábyrgða voru meiri en einn milljarður árið 2019. Þessi upphæð er hrein viðbót við almennar tekjur af því að selja rafmagn. Það er því beinn ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fá þessar gjaldeyristekjur. Árlegar tekjur af sölu upprunaábyrgða ráðast af markaðsvirði hverju sinni og því gæti þessi upphæð farið upp í allt að fimm milljarða. Mikill ávinningur fyrir fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Öll heimili og langflest íslensk fyrirtæki fá upprunaábyrgð innifalda í sínum raforkukaupum. Þannig eru þær upprunaábyrgðir ekki seldar úr landi. Fyrir fyrirtæki sem starfa í útflutningi getur þetta gefið samkeppnisforskot á þeirra vörur í heimi þar sem krafa neytenda um sjálfbærni og umhverfisvitund verður sífellt háværari. Þau fyrirtæki sem ekki fá upprunaábyrgðir innifaldar í sínum raforkukaupum eru stórnotendur og þeim stendur til boða að semja um að kaupa þær sjái þeir ávinning í því. Ef Ísland hætti þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir gætu íslensk fyrirtæki ekki sýnt fram á grænan uppruna raforku sinnar, nema með því að kaupa upprunaábyrgð erlendis frá. Sala upprunaábyrgða úr landi skaðar ekki ímynd Íslands. Ekkert bendir til þess að þátttaka í kerfinu um upprunaábyrgðir skaði ímynd Íslands. Þvert á móti sýnir kerfið fram á að hér á landi er framleidd græn orka og það er staðfest með alþjóðlegri vottun. Kerfið um upprunaábyrgðir breytir engu um þá staðreynd að á Íslandi er eingöngu framleidd orka með endurnýjanlegum hætti. Þetta á við þrátt fyrir að við þurfum að sýna samsetningu orkuframleiðslu innan evrópska raforkumarkaðarins í uppgjöri sölu á upprunaábyrgðum, en sú samsetning hefur eingöngu þýðingu innan kerfisins um upprunaábyrgðir. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu föstudaginn 21. febrúar 2020. Algengar spurningar um upprunaábyrgðir og svör Dafnandi græn orka: Fræðslufundur um upprunaábyrgðir, upptökur af fyrirlestrum Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orku náttúrunnar Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Landsvirkjunar Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orkusölunnar
23. janúar 2020 Framvarðasveit í fárviðri á degi rafmagnsins Hin ótrúlega atburðarás sem fór í gang í óveðrinu mikla sem gekk yfir landið í desember 2019 og afleiðingar þess voru til umfjöllunar á opnum fundi Samorku í morgun undir yfirskriftinni Framvarðasveit í fárviðri. Á fundinum var farið yfir hvað gerðist, til hvaða aðgerða var gripið til og sýndar myndir frá erfiðum aðstæðum sem vinnuflokkar frá orku- og veitufyrirtækjunum þurftu að vinna við til að koma rafmagni aftur á. Fundurinn var haldinn á degi rafmagnsins, sem haldinn er hátíðlegur á Norðurlöndum þann 23. janúar ár hvert, en tilgangur hans er að minna á mikilvægi rafmagns í lífi okkar og starfi. Óhætt er að segja að óveðurshrinan hafi rækilega minnt Íslendinga á hversu samofið rafmagnið er okkar daglega lífi og vakið upp spurningar um ástand raforkuinnviðanna. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, tilkynnti meðal annars um 230 milljóna aukningu til úrbóta í dreifikerfinu fyrir norðan. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets Malín Frid, línumaður hjá Veitum ásamt samstarfsmönnum sínum Upptökur af fundinum má nálgast hér fyrir neðan. Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku og fundarstjóri fundarins, bauð gesti velkomna og kynnti þau verkefni sem Samorka hefur áður stutt við í tilefni dags rafmagnsins; sólarorkulampa til Afríku. Dagur rafmagnsins: Opnun fundar – Lovísa Arnadóttir from Samorka on Vimeo. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, fór vel yfir atburðarás óveðursdagsins í máli og myndum. Hann sagði meðal annars frá því að 60 möstur, yfir hundrað staurar og um 50 þverslár brotnuðu og að hátt í hundrað manns hafi komið á verkefnum tengdum veðrinu. Að standa í storminum – Gudmundur Ingi Ásmundsson from Samorka on Vimeo. Glærur Guðmundar: Að standa í storminum Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fór einnig yfir atburðarásina frá sjónarhóli dreifikerfisins og tilkynnti um 230 milljóna aukningu fjármagns til endurbóta á dreifikerfinu fyrir norðan. Vegna galla í Powerpoint sýningu Tryggva á fundinum skekkjast einhver kort, hér má sækja kynninguna á pdf með réttri framsetningu: Þegar raforkukerfið brestur – Erindi TÞH á Opnum fundi Samorku 23. janúar 2020 – Lokaskjal Þegar raforkukerfið brestur – Tryggvi Þór Haraldsson from Samorka on Vimeo. Malín Frid er ekki staðalímynd iðnaðarmannsins. Hún er hins vegar handhafi titilsins Harðasti iðnaðarmaður landsins, eftir árlega kosningu á visir.is, og ein þeirra línumanna sem stóðu vaktina í óveðrinu fyrir norðan. Sögur úr loftlínunni – Malín Frid from Samorka on Vimeo. Glærur Malínar: Sögur úr loftlínunni Að lokum sagði Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, frá vinnu starfshóps stjórnvalda um úrbætur á innviðum en í mörg horn þarf að líta þar. Starfshópur stjórnvalda um úrbætur á innviðum – Benedikt Árnason from Samorka on Vimeo. Glærur Benedikts: Benedikt – kynning á opnum fundi Samorku 23. janúar 2020
14. janúar 2020 Orkusalan kolefnisjafnar eigin raforkuvinnslu Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðs ásamt Magnúsi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Orkusölunnar. Orkusalan skrifaði í dag undir staðfestingu þess að fyrirtækið kolefnisjafni nú eigin raforkuvinnslu. Kolefnisspor raforkunnar með tilliti til bindingar er því ekkert. Orkusalan er fyrsta fyrirtækið sem nær þessu markmiði hér á landi. Allur rekstur sem hlýst af starfsemi fyrirtækisins er einnig kolefnisjafnaður. Vinnsla á rafmagni veldur mismikilli losun, en öll raforka Orkusölunnar kemur frá vatnsaflsvirkjunum sem eru með losun í lágmarki miðað við aðrar vinnsluaðferðir. Orkusalan og EFLA verkfræðistofa hafa haldið utan um alla losun sem viðkemur starfsemi fyrirtækisins og hefur hún frá upphafi verið kolefnisjöfnuð með eigin skógrækt. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir að ákveðið hafi verið að fara skrefinu lengra og jafna alla losun sem hlýst af vinnslu raforkunnar. Skógur Orkusölunnar bindur alla losun sem hlýst af rekstri fyrirtækisins og vel rúmlega það og er umframbindingin nýtt til að jafna hluta af eigin raforkuvinnslu og hefur sú losun sem eftir stendur verið jöfnuð í samstarfi við Kolvið. „Við ætlum okkur að halda áfram að rækta skóginn á næstu árum og auka nýtingu skógræktarsvæðisins. Svæðið er einnig nýtt til útivistar allan ársins hring með þeirri fjölbreytni og skjóli sem skógurinn gefur. Eins munum við halda áfram að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna reksturs fyrirtækisins og vinnslu raforkunnar árlega“ segir Magnús Kristjánsson jafnframt í fréttatilkynningu frá Orkusölunni. Nánari upplýsingar um kolefnisjöfnun Orkusölunnar má finna á heimasíðu fyrirtækisins.
17. desember 2019 Ný skýrsla staðfestir takmörkun jarðstrengja Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið birtu í gær í samráðsgátt stjórnvalda skýrslu dr. Hjartar Jóhannssonar um mat á möguleikum þess að nýta jarðstrengi við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ráðuneytin kölluðu eftir þessari úttekt í samræmi við þingsályktun 26/148, frá júní 2018, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Helstu niðurstöður í skýrslunni eru samhljóða niðurstöðum sem Landsnet hefur birt um sömu mál. Skýrslan staðfestir að jarðstrengir á hærri spennu (132 kV og 220 kV) í flutningskerfinu eru takmörkuð auðlind. Í skýrslu dr. Hjartar segir orðrétt: “Út frá samanburði þeirra niðurstaðna sem kynntar eru í þessum kafla og niðurstaðna annarra sambærilegra greiningarverkefna, þar sem lengdatakmarkanir jarðstrengskafla innan íslenska flutningskerfisins eru greindar, má sjá að góður samhljómur er á milli niðurstaðnanna. Rennir það frekari stoðum undir áreiðanleika fyrri greininga og þessarar greiningar hvað varðar lengdatakmarkanir háspenntra jarðstrengja”. Meginniðurstaða verkefnisins eru þær að takmarkanir á lengd jarðstrengja á hæstu spennustigum flutningskerfisins leiðir það af sér að notkun svo stuttra jarðstrengskafla muni ekki hafa veruleg áhrif á afhendingaröryggi, raforkuverð, umhverfiskostnað eða byggðaþróun. Skýrslu dr. Hjartar má sjá í heild sinni hér: Jardstrengir
19. nóvember 2019 Upprunaábyrgðir: Lóð á loftslagsvogarskálar Aðsend grein í Morgunblaðið eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku: UPPRUNAÁBYRGÐIR: LÓÐ Á LOFTSLAGSVOGARSKÁLAR Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti. Þetta er staðreynd, sem þó skolast stundum til þegar uppgjör vegna upprunaábyrgða raforku, stundum kölluð græn skírteini, er birt einu sinni á ári. Því er rétt að skerpa aðeins á hvað upprunaábyrgðir eru, hver tilgangur þeirra sé og af hverju Ísland tekur þátt í kerfinu um þær. Hvað eru upprunaábyrgðir og hvernig virka þær? Upprunaábyrgðir raforku eru liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í Evrópu hefur verið gripið til ýmissa ráða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut endurnýjanlegrar orku. Til dæmis ívilnanir og skattlagning, langtíma tvíhliða samningar við raforkuframleiðendur og svo vottunarkerfi um uppruna raforku, eða upprunaábyrgðir. Með upprunaábyrgðum er græni þáttur framleiðslunnar gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð því hvort kaupandinn fái þetta tiltekna græna rafmagn í innstungurnar sínar. Það er til þess að hægt sé umbuna þeim sem framleiða græna orku óháð því hvar þeir eru staðsettir því það skiptir ekki máli í samhengi loftslagmála; það er sama hvaðan gott kemur. Fjárhagsleg umbun = arðbærari hrein orka Með því að beina fjármagninu til þeirra sem framleiða orku með endurnýjanlegum hætti verður sú orka arðbærari og getur frekar keppt við orku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, sem hingað til hefur verið ódýrari í framleiðslu. Raforkunotendur í Evrópu hafa kannski takmarkaðan aðgang að endurnýjanlegri orku í sínu heimalandi en geta þá stutt við framleiðslu á hreinni orku með því að borga aukalega í hverjum mánuði. Hér fara því saman hagsmunir græna raforkuframleiðandans og græna raforkukaupands. Sjái raforkunotandi ávinning í því að vísa í að hann noti rafmagn sem framleitt er á umhverfisvænan hátt getur hann vottað það með opinberum hætti með því að kaupa upprunaábyrgð. Rétt eins og með aðrar umhverfisvottanir þarf að greiða sérstaklega fyrir vottun á uppruna raforku. Engin kvöð er að kaupa slíka vottun; kerfið er valfrjálst fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Verðmæti orkunnar hámörkuð Hreinleiki orkunnar okkar eru verðmæti og auðlind út af fyrir sig. Kerfið um upprunaábyrgðir setur verðmiða á það. Ísland hefur augljósa hagsmuni af því að hámarka verðmæti hreinu orkunnar sem hér er framleidd og það markmið næst betur með því að selja þær upprunaábyrgðir, sem ekki seljast hér á landi, á alþjóðlegum markaði. Það skiptir máli fyrir heiminn allan að á Íslandi sé framleidd græn orka og því eðlilegt að við njótum ávinnings af því. Fjárhagslegur ávinningur Íslands er töluverður í þessu kerfi. Út frá markaðsvirði skírteinanna getur upphæðin sem íslenskir raforkuframleiðendur fá numið frá 0,5 – 5,5 milljörðum á ári. Árið 2018 voru hreinar tekjur af sölu íslenskra upprunaábyrgða í kringum 800 – 850 milljónir króna. Þar sem raforkuframleiðendur hér á landi eru að langstærstum hluta í eigu ríkisins hefur íslenskt samfélag beinan ávinning af sölu upprunaábyrgða og þessar umtalsverðu tekjur geta hjálpað til við að halda orkuverði hér lágu. Ávinningur fyrir íslensk fyrirtæki Upprunaábyrgðir fylgja með í raforkuverði til heimila á Íslandi og fyrirtækja á almennum markaði og ættu fleiri fyrirtæki að skoða hvers konar ávinning það gæti fært þeim á alþjóðlegum markaði. Vegna þátttöku okkar í kerfinu fá íslensk fyrirtæki aðgang að innlendum upprunavottunum, sem getur gefið samkeppnisforskot í heimi þar sem krafan um sjálfbæra virðiskeðju verður sífellt háværari. Fyrirtæki á Íslandi gætu ekki nýtt sér hreinleika orkunnar til að vekja athygli á sinni vöru nema með þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir, því vottunina þarf til. Ávinningur fyrir loftslagið Kerfið um upprunaábyrgðir hefur engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsað til þess að búa til auka fjármagn til þeirra sem framleiða endurnýjanlega orku. Þetta fjármagn getur skipt sköpum fyrir fjárfestingar í nýjum umhverfisvænum orkukostum og hjálpar því til við að koma fleiri slíkum á koppinn. Og það skilar árangri. Upprunaábyrgðir eiga þátt í því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í Evrópu fer hækkandi. Það eru góðar fréttir fyrir okkur öll. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2019
5. nóvember 2019 Græn skírteini tækifæri til að hámarka virði orkunnar Fræðslufundur Samorku um upprunaábyrgðir, eða græn skírteini, var haldinn á Icelandair Hótel Natura mánudaginn 4. nóvember. Upptökur af erindum má finna í þessari frétt. Upprunaábyrgðir raforku urðu til sem liður í því að vinna á móti loftslagsbreytingum með því að vera fjárhagslegur hvati til að byggja upp græna orkukosti í Evrópu. Þau ganga út á það að gera hreinleika orku að sérstökum verðmætum og sjái einstaklingar eða fyrirtæki ávinning í því að segjast nota hreina orku þurfi að borga markaðsvirði fyrir það. Upprunaábyrgðir eru innifaldar í raforkuverði til heimila og fyrirtækja á almennum markaði á Íslandi og getur það verið tækifæri til samkeppnisforskots á markaði, vegna þess að viðskiptavinir verða sífellt meðvitaðri um virðiskeðju framleiðslunnar. Á fundinum tóku til máls Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting, Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku og Alexandra Münzer framkvæmdastjóri Greenfact. Fundarstjóri var Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga hjá Íslandsbanka. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var meðal framsögumanna á fundinum. Mynd: Eyþór Árnason Halldór fór yfir loftslagsmál og loftslagsaðgerðir í stóru myndinni í upphafi fundar. Hann sagði meðal annars í erindi sínu að þörf væri á að verðleggja aðgang að andrúmsloftinu m.a. með viðskiptum með losunarheimildir, kolefnisbindingar og skattlagningu losunar. Þá væri mikilvægt að ná fram beinum aðgerðum til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og grænu skírteinin séu liður í því. ,,Öll vegferðin fram að 2050 skiptir máli. Að gera ekkert er dýrasti valkosturinn. Við þurfum alla verkfærakistuna til að endurskapa orkukerfi,“ sagði Halldór. Eyrún Guðjónsdóttir hjá Dóttir Consulting Mynd: Eyþór Árnason Eyrún talaði um þátttakendur og virkni kerfisins upprunaábyrgðir raforku þar sem kom fram að kaupendur grænna skírteina séu heimili og fyrirtæki í Evrópu, sem sækist eftir því að nota græna raforku. Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku hefði aukist mikið, og þar með viðskipti með græn skírteini. Sagði hún að sífellt fleiri lönd taki þátt í kerfinu um upprunaábyrgðir og hlutfall endurnýjanlegrar orkuvinnslu væri hærra í þeim löndum, sem sýnir að kerfið virkar. „Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera með grænu skírteinin til að geta sýnt fram á stuðning sinn við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku og geta notað það í sitt græna bókhald,“ sagði Eyrún á fundinum. Þá sagði hún að fyrirtæki í fjölmörgum geirum kaupi græn skírteini, bæði beint frá raforkuframleiðendum og í gegnum miðlara. Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi á Samorku, fjallaði um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi. Mynd: Eyþór Árnason Lovísa talaði meðal annars um fjárhagslegan ávinning Íslands sem væri töluverður í þessu kerfi og að líta eigi á það sem tækifæri til að hámarka verðmæti þeirra orku sem hér er framleidd. ,,Það skiptir máli fyrir heiminn allan að á Íslandi sé framleidd græn orka og því eðlilegt að við njótum ávinnings af því.“ Út frá markaðsvirði skírteinanna getur upphæðin sem íslenskir raforkuframleiðendur fá numið frá 0,5 – 5,5 milljörðum á ári, en árið 2018 voru tekjurnar af sölunni í kringum 800 – 850 milljónir króna. Í erindi hennar kom fram að sala grænna skírteina á Íslandi hefði engin áhrif á skuldbindingar Íslands eða annarra landa í loftslagsmálum og á Íslandi sé áfram framleidd raforka með endurnýjanlegum hætti. Alexandra Münzer frá Greenfact, greiningafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaði um upprunábyrgðir í Evrópu, fór yfir hvernig markaðurinn virkar og hvernig verð grænna skírteina hefur þróast í gegnum tíðina. Alexandra Münzer frá Greenfact greiningarfyrirtækinu fjallaði um markaðinn með upprunaábyrgðir Upptökur: Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson from Samorka on Vimeo. Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir from Samorka on Vimeo. The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer from Samorka on Vimeo. Eggert Benedikt Guðmundsson og Kamma Thordarson frá Grænvangi. Fundurinn var vel sóttur. Birta Kristín Helgadóttir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga Íslandsbanka stýrði fundinum. Gestir fundarins, meðal annars Páll Erland framkvæmdastjórji Samorku. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar Halldór Þorgeirsson og Eggert Benedikt Guðmundsson á spjalli í lok fundar. Upptaka af fundinum í heild sinni: Dafnandi græn orka – fræðslufundur um upprunaábyrgðir raforku from Samorka on Vimeo.
3. nóvember 2019 Upprunaábyrgðir raforku: Fræðslufundur Samorka býður til fræðslufundar um upprunaábyrgðir raforku, eða græn skírteini eins og þau eru oft kölluð. Tilgangur fundarins er að fjalla um tilurð og markmið kerfisins um upprunaábyrgðir, af hverju Ísland tekur þátt í því og hvaða ávinning þátttakan getur haft fyrir Ísland og raforkukaupendur hér á landi. Fundurinn hefst kl. 14 á Icelandair Hótel Natura og gert er ráð fyrir að hann standi í um 90 mínútur. Allir eru velkomnir á fundinn en skráningar er óskað. Þá verður fundinum einnig streymt á vef Samorku. Dagskrá: Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting Upprunaábyrgðir í íslensku samhengi – Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku Renewable Energy Certificates: The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer, framkvæmdastjóri Greenfact Fundarstjóri: Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar Íslandsbanka
3. nóvember 2019 Tómas Már ráðinn forstjóri HS Orku Tómas Már tekur við forstjórastól HS Orku um áramót. Tómas Már Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri HS Orku. Mun hann taka við starfinu frá og með næstu áramótum. . Tómas Már hefur starfað um árabil hjá Alcoa, þar sem hann gegndi stöðum forstjóra Alcoa á Íslandi, í Evrópu og Mið-Austurlöndum, og nú síðast frá 2014 stöðu aðstoðarforstjóra fyrir Alcoa Corporation. Áður starfaði Tómas sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Norðuráli. Tómas Már er menntaður umhverfisverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í skipulagsverkfræði frá Cornell-háskólanum í New York. Hann hefur setið í fjölda stjórna og var m.a. formaður Viðskiptaráðs frá 2009-2012, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011 og hefur verið í stjórn evrópskra álframleiðenda frá 2012.
29. maí 2019 Lið RARIK Fagmeistari Samorku 2019 Það var lið RARIK sem stóð uppi sem sigurvegari í Fagkeppni Samorku eftir æsispennandi keppni á milli níu liða! Framkvæmda- og tæknidagurinn er fyrsti dagur fagþings rafmagns sem haldið var í Reykjanesbæ dagana 22. – 24. maí. Dagurinn er sérstaklega ætlaður fagfólki í framkvæmdum. Eftir fyrirlestra um tækniþróun, öryggismál og fleira var keppt í ýmsum greinum, góðri blöndu af gamni og alvöru, eins og samsetningu á heimlagnarkapli, uppsetningu á búnaði í götuskáp, mælaskiptum og auðvitað stígvélakasti. Alls tóku níu lið þátt frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða og Gunnar Sigurðarson, eða Gunnar á völlum, lýsti því sem fram fór. Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK, sem hlýtur því titilinn Fagmeistari Samorku 2019.