Útflutningsbanni íslenskra upprunaábyrgða aflétt

AIB (Association of Issuing Bodies) hefur úrskurðað að Ísland uppfylli allar kröfur upprunaábyrgðarkerfis þess og verður ekki gripið til frekar ráðstafana gagnvart Landsneti eða íslenskum upprunaábyrgðum. Óvissu um sölu íslenskra upprunaábyrgða er því aflétt án fyrirvara. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt er á heimasíðu AIB.

AIB stöðvaði í lok apríl á þessu ári sölu á íslenskum upprunaábyrgðum vegna gruns um tvítalningu (double counting) þeirra hér á landi. Banninu var aflétt skömmu síðar með fyrirvara um úrbótaáætlun Landsnets og Orkustofnunar á upprunaábyrgðakerfinu. Eftir ítarlega gagnaöflun og greiningarvinnu er niðurstaðan sú að Ísland uppfylli allar kröfur og er málinu því lokið.

Á heimasíðu Stjórnarráðsins er vitnað í Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þar sem hann segir niðurstöðu AIB alls ekki koma á óvart, enda í samræmi við niðurstöður Orkustofnunar og hinnar þýsku stofnunar UBA.

„Það eru gríðarlega mikilvægt að það sé búið að aflétta þessari óvissu gagnvart okkar innlendu fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra, innlendra sem erlendra. Það er ljóst, það sem við vissum vel að það var aldrei brotalöm í löggjöf eða framfylgd þeirra hér á landi sem er að fullu leyti í samræmi við reglur annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Því kom bannið á sínum tíma mjög á óvart og að okkar mati óþarflega harkalegt inngrip byggt á veikum grunni eins og niðurstaðan leiðir bersýnilega í ljós.“