Ný greining staðfestir spá um orkuskort

Ný greining Landsnets um afl- og orkujöfnuð staðfestir þá niðurstöðu frá sambærilegri greiningu sem unnin var 2019 að orkuskortur verði viðvarandi vandamál á Íslandi næstu árin ef ekki verður brugðist skjótt við.

Þetta byggir á þeirri spá um þróun eftirspurnar eftir raforku sem birt er í Raforkuspá Orkustofnunar og þeirri þróun í framleiðslu orku sem orðið hefur á síðustu árum og er fyrirsjáanleg yfir tímabil greiningarinnar sem nær til ársins 2026. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að nýjasta Raforkuspá geri ráð fyrir lægra álagi en sú sem miðað var við í greiningunni árið 2019 vegna áhrifa heimsfaraldursins.

Líkur á aflskorti eru undir viðmiðum Landsnets á þessu ári en fara hækkandi eftir það. Þetta þýðir að ekki verði hægt að sinna eftirspurn eftir raforku yfir háálagstíma og skerði þurfi notendur í vaxandi mæli.

Til að bregðast við þessari stöðu þurfa því að koma til nýjar orkuframleiðslueiningar, orkusparnaður t.d. með minnkun tapa, bætt nýting á núverandi virkjunum með uppbyggingu flutningskerfis eða þá með því að markvisst að draga úr raforkunotkun í kerfinu.

Hvort sem ákveðið verður að fara eina leið fram yfir aðra eða ákveðið að gera allt sem að ofan er talið er mikilvægt að brugðist sé skjótt við til að lágmarka fjárhagslegt tjón sem hlýst af orkuskerðingum og losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis.

Áætlanir hjá Landsneti um uppbyggingu flutningskerfisins hafa undanfarin ár tekið mið af þessari stöðu og miðast þær við að hægt verði að hámarka nýtingu virkjana á næstu árum, auðvelda tengingu nýrra orkuframleiðslueininga, auk þess að ná fram orkusparnaði með minnkandi töpum í flutningskerfinu. Að mati Landsnets er mikilvægt að uppbygging nýrrar kynslóðar byggðalínu gangi eftir áætlunum og óskilvirk ferli verði ekki til þess að tefja þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir.

Skýrsluna má sjá hér.