Allt um upprunaábyrgðir raforku

Tilgangur og virkni kerfis um upprunaábyrgðir raforku

Upprunaábyrgðir (græn skírteini) í hnotskurn

  • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og þar með vottunarkerfi um uppruna rafmagns.
  • Upprunaábyrgðir styðja við endurnýjanlega orkuframleiðslu og þar með sporna þær við hlýnun jarðar.
  • Án upprunaábyrgðar telst rafmagnið vera úr sameiginlegum orkupotti Evrópu. Þess vegna koma orkugjafar sem ekki eru notaðir á Íslandi, eins og til dæmis kjarnorka, fram á samantekt Orkustofnunar um uppruna raforku hér á landi.
  • Þú notar endurnýjanlega orku á Íslandi en til þess að fá hana vottaða sem slíka þurfa upprunaábyrgðir að fylgja.

ALGENGAR SPURNINGAR: 

Upprunaábyrgðir: Hvað er það?

  • Upprunaábyrgðir voru teknar upp til að sporna við hlýnun jarðar í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
  • Upprunaábyrgðir eru til þess að framleiðendur grænnar orku fái hærra verð fyrir hana – þannig verði meira framleitt af henni.
  • Upprunaábyrgðir eru staðfesting á að ákveðið magn rafmagns hafi verið framleitt á endurnýjanlegan hátt.
  • Upprunaábyrgðir votta rafmagnið með viðurkenndum hætti. Fyrir þá vottun þarf að greiða eins og aðrar alþjóðlegar vottanir. Engin skylda er til að kaupa þessa vottun, en einhverjir gætu séð hag í því að gera það.
  • Upprunaábyrgðir hafa hvorki áhrif á aðrar loftslagsaðgerðir sem miðast að því að minnka losun né á skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

Af hverju selja íslensk orkufyrirtæki upprunaábyrgðir? 

  • Viðskipti með upprunaábyrgðir hófust í Evrópu um aldamótin og hér á landi árið 2011.
  • Íslenskt rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þess vegna geta orkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir og haft af því tekjur.
  • Gjaldeyristekjurnar eru sífellt að aukast og voru um tveir milljarðar á síðasta ári. Miðað við markaðsverð um áramótin 2022-2023 gæti sala upprunaábyrgða skilað 20 milljörðum í tekjur, sé miðað við alla raforkuframleiðslu á Íslandi.

Af hverju er Ísland með þótt það sé ekki beintengt við Evrópu?

  • Samkvæmt lögum er Ísland hluti af evrópska orkumarkaðnum og er því hluti af reglugerðum, hvatakerfum og öðru í raforkuumhverfinu. Lögin um upprunaábyrgðir raforku voru innleidd árið 2008.
  • Upprunaábyrgðir eru í raun styrkjakerfi sem fólki og fyrirtækjum er frjálst að taka þátt í, óháð því hvort þessir aðilar geti í raun notað endurnýjanlega orku. Kerfið um upprunaábyrgðir er óháð afhendingu raforkunnar.
  • Hugsum okkur Evrópubúa sem vill kaupa endurnýjanlega orku en á ekki kost á því. Upprunaábyrgðir gefa honum kost á að styrkja umhverfisvæna orkuframleiðslu þótt hann fái ekki rafmagnið frá henni í innstungurnar hjá sér.

Tækifæri til að styðja við framleiðslu endurnýjanlegrar raforku

  • Kerfið gefur öllum kaupendum raforku á evrópska raforkumarkaðnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að styðja við góð verk, þar með talið á Íslandi. Upprunaábyrgðir raforku gera það að verkum að framleiðendur orku úr endunýjanlegum orkugjöfum fá auka fjármagn fyrir hana sem gerir framleiðslu hennar enn arðbærari. Þannig spila upprunaábyrgðir stórt hlutverk í útreikningi á arðsemi framleiðslu grænnar orku og gerir það að verkum að meira verður framleitt af henni á kostnað óumhverfisvænnar orku.
  • Fólk í Evrópu hefur misgóðan aðgang að endurnýjanlegri orku. Upprunaábyrgðir eru hugsaðar þannig að raforkukaupendur geti stutt við framleiðslu grænnar orku þó að þeir hafi ekki beinan aðgang að henni sjálfir.

Af hverju er kjarnorka á lista yfir uppruna raforku á Íslandi?

  • Það er vegna þess að þessir orkugjafar eru notaðir til rafmagnsframleiðslu í Evrópu og sýna þarf samsetningu allrar kökunnar í Evrópu í samantekt Orkustofnunnar.
  • Þegar upprunaábyrgð er seld til Evrópu færist endurnýjanleikinn af rafmagninu til landsins sem kaupir. Á móti tekur land seljandans við heildarsamsetningu orkuvinnslunnar eins og hún er í Evrópu. Svona þarf þetta að vera til að bókhaldið gangi upp.
  • Ástæða þess að kjarnorka birtist í samantekt um raforkuuppruna hér á landi er að upprunaábyrgð hefur verið seld til lands þar sem rafmagn er búið til úr kjarnorku.
  • Rafmagnið sem er framleitt á Íslandi er alveg jafn endurnýjanlegt og áður.

Hvar fæ ég upprunaábyrgð/græn skírteini?

Hægt er að fá vottað rafmagn frá söluaðilum á Íslandi og kaupendur geta óskað eftir að fá það staðfest með formlegum hætti.

Hér má lesa nánar um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi í skýrslu Environice sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2018.

Síðan hefur verið uppfærð. 

Mundu að velja þér raforkusala

27.06.2022:
ATH: Aðeins þeir sem ekki hafa verið í viðskiptum við rafmagnssölufyrirtæki síðustu 90 daga þurfa að bregðast við og velja sér raforkusala sem fyrst. Hjá öðrum, sem hafa verið í samfelldum viðskiptum, fylgir raforkusamningur þegar flutt er. Ef þú ert að kaupa eign númer tvö (eða fleiri) þá þarf að velja sér raforkusala fyrir nýju eignina.

Að velja sér raforkusala er mikilvægt.

Rétt eins og neytendur þurfa að velja á milli tryggingafélaga og fjarskiptafyrirtækja til að kaupa þjónustu af, þá þarf að velja af hvaða sölufyrirtæki þú vilt kaupa rafmagn. Það er ábyrgð okkar, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að gera það strax og tekið er við nýrri fasteign.

Að velja sér raforkusala er bæði einfalt og fljótlegt. Neytendur hafa val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa rafmagn, óháð búsetu. Hægt er að fara inn á heimasíður raforkusölufyrirtækis og ganga frá viðskiptasamningi.

Söluaðilar rafmagns eru (í stafrófsröð):

Ef ekki er gengið frá samningi við raforkusala verður lokað fyrir rafmagnið því dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að dreifa rafmagni inn á heimili og fyrirtæki ef slíkur samningur er ekki er til staðar. Ekki er opnað fyrir rafmagnið á ný fyrr en raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur einnig í sér kostnað fyrir neytandann.

Hægt er að gera samanburð á raforkuverði á heimasíðu Orkuseturs og hjá Aurbjörgu. Samanburðurinn lítur ekki til þátta eins og mismunandi þjónustustigs.

Hvernig veit ég hvort ég þurfi að velja? Og fyrir hvaða tíma?
Ef þú hefur verið í viðskiptasambandi við raforkusala að undanförnu, færð reikninga og greiðir þá, þarftu ekki að velja þér raforkusala, ekki heldur ef þú flytur.

En ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við sölufyrirtæki raforku síðastliðna 90 daga, t.d. ert að kaupa þína fyrstu íbúð eða þú ert í millibilsástandi á meðan þú skiptir um húsnæði, eða af einhverjum öðrum ástæðum þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti, þá er mikilvægt að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú kýst að vera í viðskiptum við og ganga til samninga um kaup á rafmagni. Einnig þarf að velja sér raforkusala ef þú ert að kaupa viðbótareignir við aðra sem þú átt fyrir. Ef þessu er ekki sinnt innan 30 daga frá notendaskiptum er dreifiveitum skylt samkvæmt lögum að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda, að undangenginni skriflegri viðvörun.

Spurt og svarað um vindorku

Nýting vindorku eykst sífellt í heiminum. Á Íslandi er nýting hennar frekar stutt komin. Umræða um nýtingu vindorkunnar á Íslandi verður sífellt meiri og henni fylgja ýmsar vangaveltur um kosti hennar og galla. Hér á eftir eru algengar spurningar um vindorku og svör.

Síðan er í uppfærð eftir því sem við á og því geta bæst við spurningar og svör.

Vindorka er sú raforka sem búin er til með vindmyllum.

Rafmagn er náttúrufyrirbæri sem byggir á hreyfingu hlaðinna agna og til að búa það til þarf að beisla hreyfiorku þessarra hlöðnu agna. Hlutir í kyrrstöðu hafa stöðuorku en hlutir á hreyfingu hafa hreyfiorku. Til að framleiða rafmagn notum við hreyfiorkuna til að snúa hverfli/túrbínu. Hægt er að snúa túrbínunni með hreyfiorku frá mismunandi orkugjöfum.

Í vatnsaflsvirkjunum er rennsli vatns og fallhæð nýtt til að snúa túrbínunni og framleiða rafmagn. Í jarðhitavirkjunum er það þrýstingur jarðhitagufunar sem snýr túrbínunni og vindurinn snýr túrbínunni í vindmyllum.

Eftirspurn eftir  sjálfbærri orku eykst stöðugt þar sem hún er lykilforsenda þess að takast á við loftslagsvandann og skipta þar með jarðefnaeldsneytinu út fyrir græna orku.

Ríki heims hafa búið til ýmsa hvata til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku, til dæmis að styðja beint við framleiðslu hennar eða með öðrum fjárhagslegum hvötum, en jafnframt með því að setja verðmiða á mengun með svonefndum losunarheimildum. Verð á losunarheimildum fer hækkandi þannig að samhliða eftirspurn eftir grænni orku er því einnig eftirspurn eftir hagkvæmri orku.

Vindorka er endurnýjanleg orka og með sífellt lægri stofnkostnaði er hún að festa sig í sessi sem samkeppnishæfur valkostur við jarðefnaeldsneyti án þess að þurfa fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera. Þess vegna fjölgar nú vindorkuverum víðs vegar um heiminn.

Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni en víða annars staðar. Framleiðsla vindorku hentar mjög vel með framleiðslu endurnýjanlegrar orku úr vatnsafli, sem er ráðandi hér á landi, þar sem hægt er að geyma vatn í lónum þegar vindurinn blæs en nýta vatnsaflið þegar vindskilyrði eru síðri. Vegna þess að stofnkostnaður við vindorkuver lækkar stöðugt verður vindorkan sífellt betri kostur til að svara eftirspurn eftir orku hér á landi og eykur líkur á hagstæðu og samkeppnishæfu orkuverði. Um leið er aukin framleiðsla grænnar orku tækifæri til að byggja upp sterkari iðnað og búa til verðmæt störf á Íslandi. Endurnýjanleg orka er þar að auki eftirsótt vara sem getur skilað Íslandi miklum gjaldeyristekjum og stuðlað að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.

Vindorkan hjálpar til við að svara áframhaldandi raforkuþörf, hvort sem það er þörf heimila og fyrirtækja til framtíðar, til að efla atvinnulíf og stuðla að nýjum, grænum störfum á Íslandi, en síðast en ekki síst til að fara í þriðju orkuskiptin þ.e. að skipta yfir í græna orku í öllum samgöngum, á landi, á sjó og í lofti og gera Íslands þar með 100% grænt.

Rétt er að minna á að raforka er á samkeppnismarkaði og því er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það fyrirfram í hvað orka frá einstökum orkukostum fer, en það er ljóst að framtíðin kallar á græna orku á öllum sviðum.

Áður en vindmyllur eru reistar verður að liggja fyrir samkomulag framkvæmdaaðila við eigendur þess lands sem þær verða reistar á. Landið getur ýmist verið í einkaeigu eða eigu opinberra aðila.

Til að fá heimild til að reisa og reka vindmyllu fer verkefnið í gegnum margvísleg skref í stjórnsýslunni. Segja má að sveitarfélög séu þar þýðingarmesta stjórnvaldið enda fara þau með skipulagsvald innan sinnan marka.

Á undirbúningsstigi fer framkvæmdin í gegnum umhverfismat á grundvelli laga nr. 106/2000. Í því mati er framkvæmdaaðila skylt að rannsaka og gera skilmerkilega grein fyrir verkefninu og umhverfisáhrifum s.s. áhrifum á náttúru og þá sem búa í umhverfi þess.

Framkvæmdin fer í gegnum skipulagsferli viðkomandi sveitarfélags og þarf að samrýmast bæði aðal- og deiliskipulagi. Ýmsar opinberar stofnanir veita umsagnir um skipulagstillöguna s.s. Umhverfisstofnun um náttúruvernd og mengunarmál og Minjastofnun Íslands um fornleifar og húsvernd. Skipulagsstofnun leiðbeinir sveitarfélögum við skipulagsgerð og staðfestir aðal- og svæðisskipulag.

Áður en framkvæmdir hefjast þarf framkvæmdaleyfi sveitarfélags að vera til staðar. Við útgáfu framkvæmdaleyfis er gætt að því að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög.

Orkustofnun veitir hið eiginlega leyfi, svokallað virkjunarleyfi, til að reisa og reka vindorkuver skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Orkustofnun er heimilt að setja skilyrði í leyfið.

Í núgildandi rammaáætlun sem samþykkt var 15. júní 2022 af Alþingi eru tveir vindorkunýtingarkostir í orkunýtingarflokki, annars vegar Búrfellslundur með uppsett afl 120 MW (440 GWst á ári) og Blöndulundur með uppsett afl 100 MW (350 GWst á ári).

Framkvæmdin sjálf tekur ekki langan tíma, eða um 1-2 ár eftir fyrirkomulagi framkvæmdar. Undirbúningur framkvæmdar tekur þó mun lengri tíma þar sem huga þarf að mörgum þáttum. Stunda þarf umfangsmiklar rannsóknir við undirbúning, gera umhverfismat á framkvæmdinni og hanna vindorkuverið. Framkvæmdin fer samhliða í gegnum alla nauðsynlega stjórnsýslu og leyfisveitingarferli. Framkvæmdaraðili þarf einnig að panta og fá afhentar vindmyllur frá framleiðanda.

Vindmyllur hafa almennt engin áhrif á frjálsa för fólks um landssvæði eftir að byggingartíma er lokið og vindorkuverið komið í rekstur. Algengt er að landbúnaður sé í góðu sambýli við vindmyllur. Dæmi eru um að landsvæði verði enn aðgengilegri en áður vegna þess að samhliða uppbyggingu vindmylla eru lagðir nýir vegir að viðkomandi svæðum. Einnig eru dæmi um að vindorkuver, eins og önnur framleiðsla grænnar orku, séu beinlínis aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Allar tegundir orkuvinnslu hafa einhver áhrif á umhverfi sitt, en framleiðsla endurnýjanlegrar orku er sú umhverfisvænsta. Kolefnisfótspor vindorkunýtingar snýr fyrst og fremst að framleiðslu á vindmyllunum sjálfum. Framleiðsla rafmagns með vindmyllum er kolefnishlutlaus og stuðlar einnig að minni losun gróðurhúsalofttegunda, sem svo stuðlar að betri lífsskilyrðum fyrir menn og dýr. Útreikningar benda til að kolefnisfótspor orkuframleiðslu með vindorku sé um 99% minna en kolaorkuvera, 98% minna en gasorkuvera og 75% minna en sólarorkuvera.

Áhrif vindmylla á fuglalíf hafa verið rannsökuð ítarlega víða erlendis og slík áhrif eru eitt af þeim atriðum sem höfð eru til hliðsjónar í leyfisveitingaferli vegna vindmylla. Rannsóknirnar hafa sýnt að margfalt algengara er að fuglar skaðist t.d. vegna aksturs bifreiða, vegna áflugs á hús, vegna katta og vegna efnanotkunar í landbúnaði heldur en vegna vindmylla. Vindmyllur eru því hlutfallslega almennt lítill áhættuþáttur fyrir fugla.

Í umhverfismati er farið ítarlega gegnum alla umhverfisþætti og þá jafnframt gerðar kröfur um ítarlegar rannsóknir og síðan mótvægisaðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifunum.

Vindmyllur gefa frá sér hljóð, aðallega vegna þess að vængir þeirra kljúfa loftið og eins getur heyrst suð. Þá kemur einnig snúningshljóð frá túrbínunni sjálfri sem er eins og lágt vélarhljóð.

Áætluð áhrif hljóðs eru tekin inn í leyfisferli vindorkuvers. Samkvæmt 11. kafla byggingareglugerðar um hljóðvist skulu byggingar og önnur mannvirki þannig hönnuð að heilsu sé ekki spillt af völdum hávaða. Enn fremur skal tryggt að fólk í næsta nágrenni geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði.

Undir vindmyllunni er hljóðið hæst en það dofnar hratt út eftir því sem fjær er farið. Í um 1,0-1,5 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu er hljóðstig komið niður fyrir þau mörk, 40 dB, sem skilgreind eru fyrir kyrrlát svæði utan þéttbýlis í reglugerð um hávaða, það er svæðum ætluðum til útivistar. 40 dB samsvara hefðbundnum ísskáp.

Við meiri vindhraða en 8 m/s er vindur orðinn ráðandi hljóðgjafi og því sé litið á 8 m/s sem versta tilvik við mat á áhrifum vindmyllanna á hljóðvist.

Með því að skipuleggja vel staðsetningu vindmylla er hægt að draga úr eða koma í veg fyrir hávaðamengun gagnvart byggð. Með tækniþróun og reynslu hefur náðst töluverður árangur í því að minnka hljóð frá þeim og sífellt er unnið að því að lágmarka þau enn frekar.

Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár.

Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar vindmyllur samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig græna orku sem framleidd er á sama svæði.

Þá er sá möguleiki fyrir hendi að þær séu teknar niður og svæðið fært sem næst fyrra horfi. Nýting vindorku er þannig afturkræf auðlindanýting og bindur ekki hendur framtíðarkynslóða.

Þegar líftími vindmylla rennur út eftir 20-25 ár frá uppsetningu þeirra eru þær jafnan teknar niður. Það ræðst af vilja landeigenda, virkjunaraðila og yfirvalda hvort nýjar vindmyllur séu þá settar upp eða svæði fært aftur sem næst fyrra horfi.

Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg.

Úr sér gengin vindmyllublöð hafa verið urðuð en í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verð lagt bann við slíkri urðun árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur.

Vindorkuframleiðsla á landi er langt komin með að geta verið fyllilega samkeppnishæf við aðra orkugjafa, en vindorkuframleiðsla á sjó á töluvert lengra í land.

Tæknin er ekki eins langt komin og kostnaðurinn þar af leiðandi miklu meiri sem hefur áhrif á verð orkunnar. Skilyrði fyrir vindmyllum á sjó eru einnig mismunandi eftir löndum og fer það eftir dýpt sjávarins. Á Íslandi er sjórinn djúpur og því er kostnaðarsamt að reisa vindmyllur þar. Að auki kostar meira að tengja og keyra orkuver á sjó en á landi og áhrif á fugla, fiskistofna og náttúru eru sambærileg og hjá vindorkuverum á landi.
Vindorkuframleiðsla á sjó verður sennilega sífellt hagkvæmari kostur þegar fram líða stundir en hvort hún verði raunhæfur kostur við Íslandsstrendur er óljóst.

HM í endurnýjanlegri orku

Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku

Til þess að ná árangri í þarf að setja markmið og vinna markvisst að þeim. Það gildir líka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Sara Björk er ein af fremstu íþróttamönnum landsins og veit að að árangur kostar mikla vinnu. Það er sönn ánægja að hún gangi til liðs við heimsmeistaramótið í endurnýjanlegri orku.

Heimsmeistaramótið í endurnýjanlegri orku er átak sem sett var á laggirnar í Noregi til að vekja athygli á nauðsyn þess að skipta út skaðlegum orkugjöfum fyrir endurnýjanlega og sjálfbæra orku og auka hlutfall grænnar orku í heiminum. Heilbrigð samkeppni milli þjóða þykir skemmtileg leið til að vekja athygli á þessum markmiðum. Þar skoraði hin norska Ada Hegerberg, fyrsti Gullskóhafi kvenna í knattspyrnu, á aðrar þjóðir að taka þátt og keppast um að verða heimsmeistarar í endurnýjanlegri orku. Við tökum þeirri áskorun! Og það er engin önnur en liðsfélagi hennar, Sara Björk, sem svarar kallinu.

 

Ísland í góðri stöðu

Eins og staðan er í dag stendur Ísland framarlega í framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nánast eingöngu með endurnýjanlegum hætti, eða 99,9%. Hér á myndinni sést úr hvaða orkugjöfum græna rafmagnið okkar kemur.

Ísland er ekki bara fremst í flokki hvað varðar framleiðslu á endurnýjanlegri orku, heldur einnig heildarnotkun hennar. Á myndinni hér fyrir neðan sést greinilega hvernig endurnýjanlegir orkugjafar hafa tekið yfir frumorkunotkun Íslendinga á ótrúlega skömmum tíma. Eins og staðan er núna er um 85% af allri orku sem er notuð á Íslandi framleidd á endurnýjanlegan hátt.

En eins og sést notum við ennþá eitthvað af jarðefnaeldsneyti. Í hvað er það notað?  Svarið er nokkuð einfalt: Í samgöngur.

Orkuskipti stórt tækifæri

Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu auk þess að hlífa loftslaginu við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum.

Hvernig verðum við sjálfbær í orkunotkun? Er það yfirhöfuð hægt?

Það er hægt að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er í samgöngur innanlands út fyrir græna orku. Það er sjálfsagt markmið í landi sem er svo framarlega í framleiðslu á endurnýjanlegri orku að verða sjálfbært í orkuframleiðslu og -notkun.

Hversu mikið þarf til af orku fer eftir því hversu hratt við förum í orkuskipti. Gott er að miða við opinbert markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum fyrir árið 2030 og skoða fleiri sviðsmyndir miðað við það ár.

Það þarf 300 MW til að skipta út nægilegu jarðefnaeldsneyti í samgöngum fyrir hreina, innlenda orkugjafa til að standast skuldbindingar Parísarsamningsins.

Úr niðurstöðum orkuskiptagreiningar Samorku 2020.

Ef horft er til þess að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er innanlands í samgöngum, þ.e.a.s. í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir 2030 þarf um 1200 MW, eða 9 TWst á ári. Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Niðurstöður orkuskiptagreiningar Samorku frá 2020.

Það sparar heilmikla fjármuni að fara í orkuskipti í samgöngum.

 

Það kostar auðvitað fjármuni að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum, en þær borga sig til langframa.

Hrein orka fyrir alla

Hrein orka fyrir alla er markmið Evrópusambandsins með hreinorkulöggjöf sinni, sem oftast gengur undir nöfnunum hreinorkupakkinn eða fjórði orkupakkinn á Íslandi.

Helstu breytingarnar:

  • Meira af grænni orku
  • Bætt orkunýting
  • Hvatt til orkuskipta
  • Aukin neytendavernd
  • Eigin raforkuframleiðsla
  • Ný hátæknistörf
  • Tækifæri til nýsköpunar

Í pakkanum er lögð áhersla á að þau mikilvægu orkuskipti sem við öll stöndum frammi fyrir, frá mengandi orkugjöfum yfir í græna orku, séu góð fyrir neytendur, góð fyrir efnahagsvöxt, ný störf og síðast en ekki síst forsenda þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn.

Orkuskiptin eru verkefni sem einnig felur í sér tækifæri til nýsköpunar í tækniþróun, sem mikilvægt er að nýta, og nýjum hátæknistörfum. Með hreinorkupakkanum er stutt við þessi tækifæri um leið og sett eru fram markmið um aukna hlutdeild hreinnar orku fyrir alla, betri orkunýtingu og aukin réttindi neytenda. Lögð er áhersla á aðkomu allra; sveitarstjórna, ríkja og Evrópusambandsins í heild sinni.

Áfram er lögð áhersla á að ívilna þeim sem framleiða græna orku, bæði stórum framleiðendum en einnig og ekki síður að gefa neytendum kost á að framleiða orku til eigin nota, t.d. með vind- eða sólarorku, og/eða að þeir geti framleitt inn á raforkukerfið.

Áherslan á bætta orkunýtingu tekur jafnt til einstakra neytenda, t.d. með betri hönnun húsa og raftækja og notkun snjallmæla, en einnig betri flutnings- og dreifikerfum, samtengingu þeirra og snjallvæðingu. Jafnt aðgengi neytenda að hagkvæmri orku til húshitunar og/eða kælingar og orku fyrir ljós og raftæki er áfram eitt af grundvallaratriðum orkulöggjafar Evrópusambandsins.

Hreinorkulöggjöfin var formlega samþykkt af ESB vorið 2019 og samanstendur af nokkrum tilskipunum sem fela í sér breytingar og viðbætur við fyrri löggjöf sambandsins. Þar sem Ísland, ásamt Noregi, stendur utan ESB hefur hún ekki tekið gildi hér á landi en fer í hefðbundið innleiðingarferli í samræmi við ákvæði EES samningsins. Í ljósi sérstöðu Íslands og þar með hversu vel við stöndum í orkuskiptum með okkar hreinu raforku og hitaveitu er eðlilegt að innleiðingin taki mið af því og leiði til undanþága frá einstökum ákvæðum hennar. Innleiðingarferlið og viðræður vegna þessarar sérstöðu Íslands stendur nú yfir.

Þrátt fyrir að einstaka atriði löggjafarinnar eigi ekki endilega við hér á landi liggja samt sem áður sömu tækifæri fyrir Ísland eins og aðrar Evrópuþjóðir þegar kemur að orkuskiptum og þeim tækninýjungum og þekkingu sem hún býður upp á.

Nánari upplýsingar um hreinorkupakka ESB.

Saga orkuskipta á Íslandi

Saga orkuskipta á Íslandi: Frá kolum og olíu í 100% endurnýjanlega orku

Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti og einnig eru notaðir endurnýjanlegir orkugjafar til að hita hús. Þetta hefur ekki alltaf verið svona.

Íslendingar hafa tvisvar gengið í gegnum orkuskipti; þau fyrri þegar hafist var handa við að framleiða rafmagn með vatnsafli og þau síðari þegar olíu var skipt út fyrir jarðhita til að hita hús.

Miðað er við að hér á landi hafi fyrst verið kveikt á rafmagnsljósaperu árið 1899, en þá var olíumótor Ísafoldar tengdur rafala. Árið 1904 hófst síðan rafmagnsframleiðsla í Hafnarfirði, þar sem Hamarskotslækurinn var virkjaður til ljósa fyrir almenna notendur.

Á næstu árum stofnsetti hvert sveitarfélagið af öðru rafveitur og var rafmagnið ýmist framleitt með olíu eða vatnsafli. Eftir síðari heimstyrjöldina var rafmagnsnotkun orðin almenn í þéttbýli í landinu og var þá farið að nota rafmagn til að knýja ýmsar vélar í iðnaði og í atvinnulífinu. Eftir 1960 rísa svo stærri vatnsaflsvirkjanir vítt og breitt um landið. Þróunin hefur verið býsna hröð og nú er raforkuframleiðslan í landinu ein sú umhverfisvænasta sem þekkist í heiminum.

Frumkvæði að rafvæðingunni kom frá athafnasömum einstaklingum, en færðist síðan að mestu til sveitarfélaganna og að lokum til ríkisins. Þannig má segja að raforkuiðnaðurinn sé í opinberri eigu, með einni undantekningu.

Það eru ekki nema fáeinir áratugir síðan Íslendingar nýttu olíu til að kynda húsin sín. Upphaf hitaveitu er gjarnan miðað við framtak tveggja frumkvöðla árin 1908 og 1909, sem veittu hveravatni heim að bæ sínum til upphitunar. Það liðu allnokkur ár þar til stærri samfélagslegar framkvæmdir hófust vegna hitaveitu, en árið 1930 var Laugaveitan tekin í notkun, sem var 3 km pípa úr þvottalaugunum í Laugardal í Reykjavík að Austurbæjarskóla. Mikið átak var gert í þróun hitaveitu hérlendis uppúr 1970, þegar heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði mikið.

Nú eru rúmlega 90% híbýla á Íslandi kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita. Einnig eru starfræktar nokkrar kyntar hitaveitur, þar sem oftast er notuð raforka sem orkugjafi. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita.

Nú blasa þriðju orkuskiptin við; að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum í græna, innlenda orkugjafa. Samkvæmt rannsókn HÍ og HR fyrir Samorku eru orkuskipti í samgöngum þjóðhagslega hagkvæm og mikill ávinningur fyrir umhverfið. Orkuskipti í samgöngum eru eitt stærsta tækifæri fyrir stjórnvöld á Íslandi að standast alþjóðlega samninga í loftslagsmálum.

Viðbrögð vegna COVID-19

COVID-19 faraldurinn reynir á fólk og fyrirtæki í landinu og um allan heim.

Aðildarfyrirtæki Samorku eru öll flokkuð sem samfélagslega mikilvægir innviðir sem öll önnur fyrirtæki og heimili í landinu nýta. Þeirra grunnhlutverk er að tryggja órofna framleiðslu, dreifingu og þjónustu vegna rafmagns, fráveitu, hitaveitu og vatnsveitu.

Frá því að fyrsta smit kórónaveirunnar greindist á Íslandi hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða hjá orku- og veitufyrirtækjunum og viðbragðsáætlanir virkjaðar. Má þar til dæmis nefna reglulega fundi neyðarstjórna, starfsfólk vinnur heiman frá, strangar reglur um samskipti og nálægð milli starfsfólks, lokað fyrir heimsóknir og annan ónauðsynlegan umgang við stjórnstöðvar, þrif aukin verulega og dregið úr heimsóknum á heimili fólks, til dæmis vegna bilana eða til að lesa af mælum.

Á vettvangi Samorku hefur Öryggisráð samtakanna fundað reglulega og miðlað upplýsingum og bestu mögulegu vinnubrögðum til starfsfólks aðildarfyrirtækja.

Allt er þetta gert til að verja stjórnstöðvar og virkjanarekstur og þannig tryggja grunnþjónustu við heimili og fyrirtæki í landinu.

Nánari upplýsingar um viðbrögð aðildarfyrirtækja Samorku:

Landsvirkjun: https://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/frett/ahersla-a-oryggi-og-trygga-raforkuvinnslu/

Landsnet: https://www.landsnet.is/default.aspx?pageid=fb9ebcdc-7017-11ea-9456-005056bc530c

Orkuveita Reykjavíkur: https://www.or.is/um-or/fyrir-fjolmidla/frettir/breytt-vinnulag-timum-heimsfaraldurs/

Nánari upplýsingar um viðbrögð vegna faraldurs COVID-19:

www.covid.is
www.almannavarnir.is
www.landlaeknir.is

Sala upprunaábyrgða skaðar ekki ímynd Íslands

Upprunaábyrgðir raforku hafa verið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um þær, en hins vegar hefur borið á grundvallar misskilningi um grunnatriði þeirra. Hér eru nokkrar staðreyndir um upprunaábyrgðir raforku og ástæður þess að Ísland tekur þátt.

Kerfið er hluti af evrópskum loftslagsaðgerðum. Kerfið var sett á laggirnar til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku í Evrópu. Síðan þá hefur hlutfall vottaðrar endurnýjanlegrar orku í Evrópu fjórfaldast. Hlutfall grænnar orku er miklu hærra í þeim löndum sem taka þátt í kerfinu en standa utan þess og þeim fjölgar stöðugt. Upprunaábyrgðir eiga sinn þátt í þessari þróun. Það má teljast ábyrgt að taka þátt í slíkum loftslagsaðgerðum og myndi eflaust vekja athygli víða ef Ísland ákveddi að hætta þátttöku.

Þær umbuna framleiðendum endurnýjanlegrar orku fjárhagslega. Til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku var framleiðsla hennar gerð eftirsóknarverðari með því að búa til opinbera vottun á hreinleika orku, upprunaábyrgðir, sem þyrfti að greiða aukalega fyrir. Upprunaábyrgð er staðfesting á því að ákveðið magn af grænni raforku hafi verið framleidd. Með kaupum á upprunaábyrgð hafi kaupandinn styrkt framleiðslu grænnar raforku. Um leið fær hann rétt á að segja að hann noti umrætt hlutfall grænnar orku. Án þess væri enginn hvati fyrir hann að kaupa upprunaábyrgðir. Tekjurnar af sölu upprunaábyrgða renna til framleiðanda orkunnar, þ.m.t. á Íslandi, í þeim tilgangi að umbuna fyrir framleiðslu grænnar raforku.

Kaupendur upprunaábyrgða eru ekki að kaupa sér syndaaflausn. Helstu kaupendur upprunaábyrgða í Evrópu eru einstaklingar og fyrirtæki, ekki framleiðendur orku úr jarðefnaeldsneyti. Kaup á upprunaábyrgð breytir ekki neinu um kolefnisspor ákveðinnar framleiðslu eða gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að menga óáreitt. Þau þurfa enn að standa skil á minnkun útblásturs samkvæmt öðrum loftslagsaðgerðum í Evrópu. Ennfremur hafa upprunaábyrgðir engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsaðar til þess að búa til aukin verðmæti fyrir þá sem framleiða endurnýjanlega orku og stuðla þannig til hærra hlutfalli grænnar orku í heiminum.

Mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag. Tekjur af sölu upprunaábyrgða voru meiri en einn milljarður árið 2019. Þessi upphæð er hrein viðbót við almennar tekjur af því að selja rafmagn. Það er því beinn ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fá þessar gjaldeyristekjur. Árlegar tekjur af sölu upprunaábyrgða ráðast af markaðsvirði hverju sinni og því gæti þessi upphæð farið upp í allt að fimm milljarða.

Mikill ávinningur fyrir fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Öll heimili og langflest íslensk fyrirtæki fá upprunaábyrgð innifalda í sínum raforkukaupum. Þannig eru þær upprunaábyrgðir ekki seldar úr landi. Fyrir fyrirtæki sem starfa í útflutningi getur þetta gefið samkeppnisforskot á þeirra vörur í heimi þar sem krafa neytenda um sjálfbærni og umhverfisvitund verður sífellt háværari. Þau fyrirtæki sem ekki fá upprunaábyrgðir innifaldar í sínum raforkukaupum eru stórnotendur og þeim stendur til boða að semja um að kaupa þær sjái þeir ávinning í því. Ef Ísland hætti þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir gætu íslensk fyrirtæki ekki sýnt fram á grænan uppruna raforku sinnar, nema með því að kaupa upprunaábyrgð erlendis frá.

Sala upprunaábyrgða úr landi skaðar ekki ímynd Íslands. Ekkert bendir til þess að þátttaka í kerfinu um upprunaábyrgðir skaði ímynd Íslands. Þvert á móti sýnir kerfið fram á að hér á landi er framleidd græn orka og það er staðfest með alþjóðlegri vottun. Kerfið um upprunaábyrgðir breytir engu um þá staðreynd að á Íslandi er eingöngu framleidd orka með endurnýjanlegum hætti. Þetta á við þrátt fyrir að við þurfum að sýna samsetningu orkuframleiðslu innan evrópska raforkumarkaðarins í uppgjöri sölu á upprunaábyrgðum, en sú samsetning hefur eingöngu þýðingu innan kerfisins um upprunaábyrgðir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu föstudaginn 21. febrúar 2020. 

Algengar spurningar um upprunaábyrgðir og svör

Dafnandi græn orka: Fræðslufundur um upprunaábyrgðir, upptökur af fyrirlestrum

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orku náttúrunnar

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Landsvirkjunar

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orkusölunnar

 

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðarbúið

Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur og kynnt var í Norræna húsinu í morgun.

 

F.v. Auður Nanna Baldvinsdóttir, stjórnarformaður Grænu orkunnar, Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ON, Brynhildur Davíðsdóttir, einn skýrsluhöfunda, Sigurður Páll Ólafsson, hagfræðingur á skrifstofu efnahagsmála, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson einn skýrsluhöfunda og Hlynur Stefánsson, einn skýrsluhöfunda taka við spurningum á fundinum í morgun

 

Í greiningunni var stuðst við fjórar mismunandi sviðsmyndir, hver og ein með mismunandi stjórnvaldsaðgerðir sem styðja við rafbílavæðingu og lagt var mat á hvaða leið myndi flýta sem mest fyrir rafbílavæðingunni og hver þeirra væri hagkvæmust.

Nið­ur­stöður sýna að hlut­fall hreinna raf­magns­bif­reiða (BEV: batt­ery-el­ect­ric vehicle) og tengilt­vinn­bif­reiða (PHEV: plug-in-hy­brid elect­ric vehicle) af bíla­flot­anum mun aukast á næstu ár­um. Hversu mikil aukn­ingin verður er mjög háð ákvörð­unum stjórn­valda og aðstæðum á mark­að, sam­kvæmt skýrsl­unni. Áhrif á afkomu ríkis­sjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða not­aðar til að hafa áhrif á orku­skipti í sam­göng­um. Til skemmri tíma fylgir raf­bíla­væð­ingu kostn­að­ur, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostn­aður lend­ir.

Fullt var út úr dyrum á kynningunni.

Rafbílavæðing ein og sér dugir þó ekki til þess að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum, verði þær að við þurfum að draga úr útblæstri um 40% miðað við árið 1990. Til viðbótar þurfi fleiri aðgerðir.

Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar (pdf, 5 MB)

Hér má sjá upptöku af fundinum: