HM í endurnýjanlegri orku

Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku

Til þess að ná árangri í þarf að setja markmið og vinna markvisst að þeim. Það gildir líka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Sara Björk er ein af fremstu íþróttamönnum landsins og veit að að árangur kostar mikla vinnu. Það er sönn ánægja að hún gangi til liðs við heimsmeistaramótið í endurnýjanlegri orku.

Heimsmeistaramótið í endurnýjanlegri orku er átak sem sett var á laggirnar í Noregi til að vekja athygli á nauðsyn þess að skipta út skaðlegum orkugjöfum fyrir endurnýjanlega og sjálfbæra orku og auka hlutfall grænnar orku í heiminum. Heilbrigð samkeppni milli þjóða þykir skemmtileg leið til að vekja athygli á þessum markmiðum. Þar skoraði hin norska Ada Hegerberg, fyrsti Gullskóhafi kvenna í knattspyrnu, á aðrar þjóðir að taka þátt og keppast um að verða heimsmeistarar í endurnýjanlegri orku. Við tökum þeirri áskorun! Og það er engin önnur en liðsfélagi hennar, Sara Björk, sem svarar kallinu.

 

Ísland í góðri stöðu

Eins og staðan er í dag stendur Ísland framarlega í framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nánast eingöngu með endurnýjanlegum hætti, eða 99,9%. Hér á myndinni sést úr hvaða orkugjöfum græna rafmagnið okkar kemur.

Ísland er ekki bara fremst í flokki hvað varðar framleiðslu á endurnýjanlegri orku, heldur einnig heildarnotkun hennar. Á myndinni hér fyrir neðan sést greinilega hvernig endurnýjanlegir orkugjafar hafa tekið yfir frumorkunotkun Íslendinga á ótrúlega skömmum tíma. Eins og staðan er núna er um 85% af allri orku sem er notuð á Íslandi framleidd á endurnýjanlegan hátt.

En eins og sést notum við ennþá eitthvað af jarðefnaeldsneyti. Í hvað er það notað?  Svarið er nokkuð einfalt: Í samgöngur.

Orkuskipti stórt tækifæri

Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu auk þess að hlífa loftslaginu við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum.

Hvernig verðum við sjálfbær í orkunotkun? Er það yfirhöfuð hægt?

Það er hægt að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er í samgöngur innanlands út fyrir græna orku. Það er sjálfsagt markmið í landi sem er svo framarlega í framleiðslu á endurnýjanlegri orku að verða sjálfbært í orkuframleiðslu og -notkun.

Hversu mikið þarf til af orku fer eftir því hversu hratt við förum í orkuskipti. Gott er að miða við opinbert markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum fyrir árið 2030 og skoða fleiri sviðsmyndir miðað við það ár.

Það þarf 300 MW til að skipta út nægilegu jarðefnaeldsneyti í samgöngum fyrir hreina, innlenda orkugjafa til að standast skuldbindingar Parísarsamningsins.

Úr niðurstöðum orkuskiptagreiningar Samorku 2020.

Ef horft er til þess að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er innanlands í samgöngum, þ.e.a.s. í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir 2030 þarf um 1200 MW, eða 9 TWst á ári. Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Niðurstöður orkuskiptagreiningar Samorku frá 2020.

Það sparar heilmikla fjármuni að fara í orkuskipti í samgöngum.

 

Það kostar auðvitað fjármuni að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum, en þær borga sig til langframa.