Hrein orka fyrir alla

Hrein orka fyrir alla er markmið Evrópusambandsins með hreinorkulöggjöf sinni, sem oftast gengur undir nöfnunum hreinorkupakkinn eða fjórði orkupakkinn á Íslandi.

Helstu breytingarnar:

  • Meira af grænni orku
  • Bætt orkunýting
  • Hvatt til orkuskipta
  • Aukin neytendavernd
  • Eigin raforkuframleiðsla
  • Ný hátæknistörf
  • Tækifæri til nýsköpunar

Í pakkanum er lögð áhersla á að þau mikilvægu orkuskipti sem við öll stöndum frammi fyrir, frá mengandi orkugjöfum yfir í græna orku, séu góð fyrir neytendur, góð fyrir efnahagsvöxt, ný störf og síðast en ekki síst forsenda þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn.

Orkuskiptin eru verkefni sem einnig felur í sér tækifæri til nýsköpunar í tækniþróun, sem mikilvægt er að nýta, og nýjum hátæknistörfum. Með hreinorkupakkanum er stutt við þessi tækifæri um leið og sett eru fram markmið um aukna hlutdeild hreinnar orku fyrir alla, betri orkunýtingu og aukin réttindi neytenda. Lögð er áhersla á aðkomu allra; sveitarstjórna, ríkja og Evrópusambandsins í heild sinni.

Áfram er lögð áhersla á að ívilna þeim sem framleiða græna orku, bæði stórum framleiðendum en einnig og ekki síður að gefa neytendum kost á að framleiða orku til eigin nota, t.d. með vind- eða sólarorku, og/eða að þeir geti framleitt inn á raforkukerfið.

Áherslan á bætta orkunýtingu tekur jafnt til einstakra neytenda, t.d. með betri hönnun húsa og raftækja og notkun snjallmæla, en einnig betri flutnings- og dreifikerfum, samtengingu þeirra og snjallvæðingu. Jafnt aðgengi neytenda að hagkvæmri orku til húshitunar og/eða kælingar og orku fyrir ljós og raftæki er áfram eitt af grundvallaratriðum orkulöggjafar Evrópusambandsins.

Hreinorkulöggjöfin var formlega samþykkt af ESB vorið 2019 og samanstendur af nokkrum tilskipunum sem fela í sér breytingar og viðbætur við fyrri löggjöf sambandsins. Þar sem Ísland, ásamt Noregi, stendur utan ESB hefur hún ekki tekið gildi hér á landi en fer í hefðbundið innleiðingarferli í samræmi við ákvæði EES samningsins. Í ljósi sérstöðu Íslands og þar með hversu vel við stöndum í orkuskiptum með okkar hreinu raforku og hitaveitu er eðlilegt að innleiðingin taki mið af því og leiði til undanþága frá einstökum ákvæðum hennar. Innleiðingarferlið og viðræður vegna þessarar sérstöðu Íslands stendur nú yfir.

Þrátt fyrir að einstaka atriði löggjafarinnar eigi ekki endilega við hér á landi liggja samt sem áður sömu tækifæri fyrir Ísland eins og aðrar Evrópuþjóðir þegar kemur að orkuskiptum og þeim tækninýjungum og þekkingu sem hún býður upp á.

Nánari upplýsingar um hreinorkupakka ESB.