RARIK fagmeistari Samorku 2024

Lið RARIK bar sigur úr býtum í Fagkeppni Samorku á Fagþingi raforku sem haldið var á Hótel Örk í Hveragerði 23. – 24. maí.

Kampakátt lið RARIK ásamt forstjóra og aðstoðarforstjóra

Keppt var í fjórum þrautum; Samsetningu á lágspennustreng, tengingu inn á götuskáp, tengingu inn á mæli og svo hið sívinsæla stígvélakast. Alls tóku sex lið þátt í keppninni sem voru frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða.

Sex voru í dómnefnd, einn frá hverju þátttökufyrirtæki fyrir sig, fékk það vandasama verkefni að skera úr um sigurvegara í hverri þraut.

Veitt voru verðlaun fyrir bestu frammistöðu í hverri grein. Lið RARIK vann keppni um lágspennustreng, Lið HS Veitna var hlutskarpast í tengingu inn á götuskáp, Veitur tengdu best inn á þriggja fasa mæli og þá kastaði lið RARIK stígvélinu lengst. Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir tilþrif ársins, sem lið Landsnet hlaut og stuðningslið ársins sem RARIK átti.

Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK og er því Fagmeistari Samorku 2024. Liðið varði þar með titilinn frá árinu 2019 í raforkutengdum þrautum, en er líka Fagmeistari í veitutengdum þrautum frá því í fyrra.

Hér fylgja nokkrar skemmtilegar frá stórskemmtilegri keppni, en fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Samorku.

Handagangur í öskjunni
Lið Orkubús Vestfjarða
Liðið frá Norðurorku ásamt forstjóra og samstarfsfólki
Stígvélakast í fullum gangi
Sigurkastið
Lið RARIK í keppnistjaldinu