Tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði – fundur Landsvirkjunar

Landsvirkjun boðar til fundar um tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði fyrir íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Sérþekking á orkumálum hér á landi er nú með því mesta sem þekkist í heiminum og sífellt koma fram nýir aðilar sem byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem safnast hefur á liðnum áratugum. Fundurinn verður haldinn miðvikudagsmorguninn 21. október á Hótel Natura.

Sjá dagskrá og skráningu hér á vef Landsvirkjunar.

Nýr staðall um jarðbindingu háspennuvirkja

Samorka vill vekja athygli á því að Staðlaráð Íslands hefur gefið út í íslenskri þýðingu staðalinn ÍST EN 50522, Jarðbinding háspennuvirkja. Staðalinn kemur í stað ÍST 170 Háspennuvirki fyrir riðspennu yfir 1 kV, ásamt staðlinum ÍST EN 61936-1 Power installations exceeding 1 kV a.c. – Part 1: Common rules.

Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Staðlaráðs Íslands: Smellið hér

 

Áttin – sameiginleg gátt starfsmenntasjóða, morgunverðarfundur

Þriðjudaginn 20. október verður haldinn morgunverðarfundur í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, þar sem fjallað verður um sameiginlega gátt starfsmenntasjóða – Áttina. Um er að ræða hluta fundaraðar SA og aðildarfélaga um menntun og mannauð en á fundi þann 17. nóvember verður fjallað um mannauð og framleiðni.

Nánar á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Búrfellsvirkjun stækkuð um 100 MW

Landsvirkjun hefur ákveðið að stækka Búrfellsvirkjun um 100 MW og er áætlað að framkvæmdir hefjist á vormánuðum.

Stækkunin mun nýta vatn sem í dag rennur framhjá núverandi stöð. Framhjárennslið er aðallega yfir sumarmánuðina og mun stækkunin því aðeins framleiða orku hluta ársins. Uppsett afl hennar mun hins vegar nýtast allt árið um kring til að auka rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins.

Framkvæmdin fellur ekki undir rammaáætlun þar sem um stækkun virkjunar er að ræða. Þá er framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. úrskurði Skipulagsstofnunar.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Boðaðar skerðingar á afhendingu dregnar til baka

Landsvirkjun hefur ákveðið að draga til baka boðaðar takmarkanir á afhendingu rafmagns til viðskiptavina samkvæmt sveigjanlegum samningum í ljósi bættrar miðlunarstöðu eftir mikið innrennsli í miðlunarlón í september.

Septembermánuður var mjög hlýr á landinu öllu og höfðu hlýindin mikil áhrif á innrennsli til miðlana. Miðlunarlón eru þó enn ekki full fyrir veturinn og veðurfar yfir vetrarmánuðina mun ráða því hvort takmarka þurfi afhendingu í byrjun næsta árs.

„Sjálfbærni er sjálfsögð“

Hvernig er sjálfbærni metin? Um þá spurningu fjallaði Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Ragnheiður sagði sjálfbærnihugtakið til þess að gera nýtt og um væri að ræða leiðarljós í alþjóðlegri umhverfisumræðu. Raunar væri þessi íslenska þýðing á enska hugtakinu sustainability ekki sú besta, haldbær þróun hefði verið betri þýðing sagði Ragnheiður, líkt og fleiri hafa bent á.

Ítarleg sjálfbærniverkefni
Ragnheiður fjallaði um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda og tók fram að hægt væri að nýta þær á annan hátt, þ.e. ekki sjálfbæran. Ekki mætti því rugla þessum hugtökum saman. Hún sagði frá ítarlegu sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar í tengslum við byggingu rekstur Fljótsdalsstöðvar og álversins á Reyðarfirði. Einnig fjallaði hún um ítarlegt alþjóðlegt sjálfbærnimat – HSAP matslykilinn – sem m.a. hefur verið framkvæmt á Hvammsvirkjunarverkefninu og á rekstri Blöndustöðvar. Að HSAP koma m.a. World Wildlife Fund, Oxfam o.fl. aðilar, en í úttektinni skoraði Blöndustöð einna hæst allra aflstöðva sem skoðaðar hafa verið. Hvammsvirkjunarverkefnið skoraði einnig mjög hátt, en þar var bent á að þótt samráð og samskipti við hagsmunaaðila hefðu verið mikil þá hefði ekki verið um nægilega skipulegt ferli að ræða.

Ragnheiður sagði Landsvirkjun hafa dregið ýmsan lærdóm af þessum sjálfbærniverkefnum og nú væri t.d. skýrt verklag við alla vöktun umhverfisþátta og verkefnin ekki hugsuð jafn staðbundið og stundum áður.

Mælingar á sjálfbærni styrkja reksturinn
Ragnheiður sagði að lokum að hægt væri að mæla sjálfbærni. Hún grundvallaðist hins vegar á samráði, og mælingar og vöktun væru til þess fallin að styrkja reksturinn. Hún sagði sjálfbærnina því sjálfsagða.

Erindi Ragnheiðar: Sjálfbær þróun

„Tilgangslaus umræða um umhverfisvernd“

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hefur lengi fylgst náið með umræðum um loftslagsmál, haldið um þau fjölþjóðlegar ráðstefnur o.fl., einkum í tengslum við verkefni sitt Earth 101. Í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins fjallaði Guðni um hlýnun jarðar, súrnun sjávar, stóraukna orkunotkun mannkyns sem er langmest í formi jarðefnaeldsneyta, alltof hægt vaxandi hlut endurnýjanlegra orkugjafa o.fl. Guðni dró upp dökka mynd af stöðu og horfum í loftslagsmálum og mögulegum áhrifum yfirvofandi loftslagsbreytinga á líf jarðar.

Orkan og umhverfisumræðan
Þá fjallaði Guðni um hinu íslensku umhverfisverndarumræðu og hlutverk atvinnulífsins, ekki síst orkufyrirtækjanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu hafa skilað mörgu jákvæðu í gegnum tíðina. Hins vegar væri stóra verkefnið á sviði umhverfisverndar augljóslega á vettvangi loftslagsmálanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu iðulega skauta framhjá loftslagsmálunum. Sem slík væri hún því í raun tilgangslaus.

Guðni nefndi að margir talsmenn umhverfisverndar á Íslandi legðust gegn uppbyggingu orkuvera og orkukrefjandi iðnaðar. Hins vegar týndu sumir þeirra til ferðaþjónustuna sem einhvers konar valkost í staðinn, til tekjuöflunar fyrir íslenskt samfélag. Þessi umræða skautaði hins vegar framhjá losun koltvísýrings frá farþegaflugi og öðrum samgöngum og færði þannig ábyrgðina einfaldlega út í heim, náttúruverndarbaráttan þar yrði að takast á við stóra verkefnið – loftslagsmálin.

Verkefni Íslands og orkufyrirtækjanna
Loks hvatti Guðni íslensk orkufyrirtæki til að setja sér skýra stefnu, manifesto, um það hvers kyns atvinnulíf þyrfti til að hér yrðu reistar frekari virkjanir. Ísland ætti að senda þau skilaboð að hingað gæti græn atvinnustarfsemi sem lítið eða ekkert losaði af gróðurhúsalofttegundum leitað til að fá aðgang að grænni orku. Guðni sagði Ísland vera of lítið til að geta breytt heiminum, en við gætum hins vegar sent út skýr og táknræn skilaboð sem mögulega hefðu jákvæð áhrif víða, og jafnvel laðað hingað í kjölfarið allt öðru vísi og hugsanlega verðmætari fjárfesta en við værum að gera í dag.

Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti Erindi Guðna Elíssonar, fyrri hluti (PDF 20 MB)

Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti (PDF 21 MB)