„Sjálfbærni er sjálfsögð“

Hvernig er sjálfbærni metin? Um þá spurningu fjallaði Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Ragnheiður sagði sjálfbærnihugtakið til þess að gera nýtt og um væri að ræða leiðarljós í alþjóðlegri umhverfisumræðu. Raunar væri þessi íslenska þýðing á enska hugtakinu sustainability ekki sú besta, haldbær þróun hefði verið betri þýðing sagði Ragnheiður, líkt og fleiri hafa bent á.

Ítarleg sjálfbærniverkefni
Ragnheiður fjallaði um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda og tók fram að hægt væri að nýta þær á annan hátt, þ.e. ekki sjálfbæran. Ekki mætti því rugla þessum hugtökum saman. Hún sagði frá ítarlegu sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar í tengslum við byggingu rekstur Fljótsdalsstöðvar og álversins á Reyðarfirði. Einnig fjallaði hún um ítarlegt alþjóðlegt sjálfbærnimat – HSAP matslykilinn – sem m.a. hefur verið framkvæmt á Hvammsvirkjunarverkefninu og á rekstri Blöndustöðvar. Að HSAP koma m.a. World Wildlife Fund, Oxfam o.fl. aðilar, en í úttektinni skoraði Blöndustöð einna hæst allra aflstöðva sem skoðaðar hafa verið. Hvammsvirkjunarverkefnið skoraði einnig mjög hátt, en þar var bent á að þótt samráð og samskipti við hagsmunaaðila hefðu verið mikil þá hefði ekki verið um nægilega skipulegt ferli að ræða.

Ragnheiður sagði Landsvirkjun hafa dregið ýmsan lærdóm af þessum sjálfbærniverkefnum og nú væri t.d. skýrt verklag við alla vöktun umhverfisþátta og verkefnin ekki hugsuð jafn staðbundið og stundum áður.

Mælingar á sjálfbærni styrkja reksturinn
Ragnheiður sagði að lokum að hægt væri að mæla sjálfbærni. Hún grundvallaðist hins vegar á samráði, og mælingar og vöktun væru til þess fallin að styrkja reksturinn. Hún sagði sjálfbærnina því sjálfsagða.

Erindi Ragnheiðar: Sjálfbær þróun