20. janúar 2017 Norræna fráveituráðstefnan 2017: Kallað eftir erindum NORDIWA, norræna fráveituráðstefnan, verður haldin í Árhúsum í Danmörku dagana 10.-12. október 2017. Nú óskar skipulagsnefnd eftir útdráttum úr erindum. Útdrátturinn má eigi vera lengri en 600 orð á hálfri A4 blaðsíðu og skal vera á ensku. Tekið verður við innsendum útdráttum til og með 6. mars. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, umfjöllunarefni hennar, hvernig senda skuli inn erindi og önnur praktísk mál má á eftirfarandi PDF skjali: Nordiwa 2017: Call for abstracts (4,1 MB) og einnig á heimasíðu ráðstefnunnar.
17. janúar 2017 Umhverfisvæn raforkuframleiðsla á Íslandi Aðeins 22% allrar raforku í OECD ríkjum er framleitt með endurnýjanlegum hætti. Á Íslandi er þetta hlutfall 99,99% . Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Tölur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60% rafmagns í OECD ríkjum er framleitt með jarðefnaeldsneyti, 18% með kjarnorku, 14% með vatnsafli og loks rúmlega 8% með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, en jafnframt má sjá hlutfallslega aukningu í jarðvarma, vindi, sól og fleiru. Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73% af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26%. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu. Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir.
30. desember 2016 105 hleðslustöðvar fyrir rafbíla bætast við Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. 16 verkefni hljóta styrk, samtals að fjárhæð 201 m.kr. Af styrkþegunum 16 eru samtals 6 sveitarfélög. Auk þeirra er þar að finna orkufyrirtæki, söluaðila eldsneytis og fleiri aðila. Með þessum verkefnum verður hægt á næstu tveimur árum að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Um er að ræða bæði hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar, eða 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar. Þar með verða 105 nýjar hleðslustöðva byggðar upp á tímabilinu. Í dag eru 13 hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á landinu, sem allar koma frá Orku náttúrunnar. Orka náttúrunnar hefur verið í forystu uppbyggingar hraðhleðslustöðva og hlaut rúmlega 57 milljón króna styrk að þessu sinni til að halda henni áfram. Fyrir styrkféð hyggst fyrirtækið byggja upp 14 nýjar hraðhleðslustöðvar og fjórar hefðbundnar, bæði á eigin vegum og í samstarfi við aðra. Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá á heimasíðu Orku náttúrunnar. Dreifingu allra 105 stöðvanna á landsvísu má sjá á myndinni en einnig á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ásamt frekari upplýsingum. Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin er stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). Miðar verkefnið að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.
30. desember 2016 Góður árangur í fjármögnun hjá Landsneti Landsnet hefur gefið út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 200 milljónir bandaríkjadollara (22,9 milljarðar króna). Fjármögnunin er liður í því að tryggja félaginu fjármagn á hagstæðum kjörum til lengri tíma, breyta samsetningu lána og draga úr gengisáhættu. Bréfin eru að stærstum hluta með gjalddaga eftir tíu til tólf ár og bera að meðaltali 4,56% fasta vexti. Þau voru seld til alþjóðlegra fagfjárfesta í lokuðu útboði og munu ekki verða skráð í Kauphöll. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir þessa fyrstu erlendu skuldabréfaútgáfu Landsnets vera stórt skref og það sé ánægjulegt hvað fjárfestar sýndu félaginu mikið traust „Skuldabréfaútgáfan skilar okkur hagstæðari kjörum auk þess sem dregið er úr gengisáhættu en félagið tók upp dollar sem uppgjörsmynt í ársbyrjun. Þá er lánstíminn lengri en almennt hefur tíðkast í erlendum lántökum síðustu árin. Við erum fyrsta orkufyrirtækið á landinu til að fara þessa leið í fjármögnun og er ánægjulegt hvað kjörin sem okkur bjóðast eru hagstæð og móttökurnar góðar. Það er árangur mikillar og góðrar kynningar á bæði félaginu og Íslandi.“ Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.
14. desember 2016 Orkusalan gefur fyrsta Græna ljósið Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar, afhendir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, Græna ljósið. WOW air hlaut á dögunum viðurkenninguna Grænt ljós frá Orkusölunni fyrst allra fyrirtækja. Með viðurkenningunni er staðfest að öll raforkusala til WOW air er að fullu vottuð endurnýjanleg með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli. „Græn vottun getur skipt máli í viðskiptaumhverfinu og því felur ljósið í sér tækifæri fyrir viðskiptavini okkar til að aðgreina sig á markaðnum,“ segir Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar. „Með því að gefa Grænt ljós viljum við koma til móts við umhverfið. Það gerum við með því að hjálpa okkar viðskiptavinum við að auka samkeppnishæfni sína — um leið og þau styðja við vinnslu endurnýjanlegrar orku. Það er auðvitað eitthvað sem er okkur öllum í hag“. Nánari upplýsingar um Grænt ljós má sjá á heimasíðu Orkusölunnar. Kerfi upprunaábyrgða (stundum kallað græn skírteini) gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku, óháð notkuninni. Ísland er hluti af innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og þar með hluti af þessu kerfi, sem ætlað er að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum í krafti aukins hvata til orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum. Nánari upplýsingar um upprunaábyrgðir raforku.
2. desember 2016 Páll Erland ráðinn framkvæmdastjóri Samorku Páll Erland er nýr framkvæmdastjóri Samorku Páll Erland hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Páll hefur starfað í orku- og veitufyrirtækjum frá árinu 2001. Páll var meðal annars framkvæmdastjóri veitureksturs Orkuveitu Reykjavíkur í sjö ár og framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar frá því orkufyrirtækið var stofnað árið 2014. Þá hefur hann einnig setið í stjórn HS Veitna. Páll er með MBA frá Rockford University í Bandaríkjunum og BS í viðskiptafræði frá sama skóla. Páll hefur störf í ársbyrjun 2017. Hann tekur við starfinu af Gústaf Adolf Skúlasyni sem sagði starfi sínu lausu í október en gegnir því áfram þar til Páll tekur til starfa. Gústaf verður samtökunum jafnframt áfram innan handar fyrst um sinn.
2. desember 2016 Landsvirkjun og Advania gera rafmagnssamning Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar handsala nýjan rafmagnssamning fyrirtækjanna. Landsvirkjun og Advania hafa undirritað samning um afhendingu á rafmagni til gagnavers Advania á Fitjum. Samningurinn gerir Advania kleift að halda áfram að tryggja vöxt gagnaversreksturs fyrirtækisins og hefst afhending samkvæmt samningi fyrir árslok 2016. Orkan verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar fagnar komu Advania í hóp viðskiptavina fyrirtækisins og segir Ísland bjóða kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera, segir á vef Landsvirkjunar.
1. desember 2016 Jákvæð niðurstaða fyrir HS Orku HS Orku hf. hefur borist jákvæð niðurstaða í gerðardómsmálinu sem varðaði gildi orkusölusamnings milli HS Orku hf. og Norðuráls Helguvíkur ehf. Þetta kemur fram á heimasíðu HS Orku í dag. Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningurinn væri sökum tiltekinna kringumstæðna ekki lengur í gildi. Ennfremur var það niðurstaða gerðardómsins að lok samningsins væru ekki af völdum HS Orku og öllum gagnkröfum Norðuráls Helguvíkur ehf. í málinu var hafnað. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf., sagði af þessu tilefni: „Við erum ánægð að þetta langvinna mál sé nú að baki. Þessi niðurstaða mun gera okkur kleift að leita nýrra samningstækifæra á Íslandi án takmarkana eftir því sem ný orka verður til reiðu.“
30. nóvember 2016 Ísland trónir á toppnum Ísland stendur sig best allra þjóða þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Hér á landi er hlutfallið 99,99% og er mun hærra en í öðrum Evrópulöndum, að Noregi frátöldum þar sem hlutfallið er tæp 98%. Að sama skapi skipar Ísland neðsta sætið þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) við rafmagnsframleiðslu er borið saman. Þar er hlutfallið 0,01%, hérlendis, en hjá rétt um helmingi samanburðarlanda er hlutfallið um og yfir 50%. Á heimsvísu snýst baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda einkum að því að minnka losun frá orkuframleiðslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar nýju tölur staðfesta sterka stöðu Íslands. Eins og sjá má standa Eistland, Pólland og Holland frammi fyrir verðugu verkefni þegar kemur að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, en hlutfall kola, gass og olíu er þar í kringum 90%.
28. nóvember 2016 Góð rekstrarniðurstaða OR Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag. Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna. Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.