Umhverfisvæn raforkuframleiðsla á Íslandi

Aðeins 22% allrar raforku í OECD ríkjum er framleitt með endurnýjanlegum hætti. Á Íslandi er þetta hlutfall 99,99% . Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA).

Tölur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60% rafmagns í OECD ríkjum er framleitt með jarðefnaeldsneyti, 18% með kjarnorku, 14% með vatnsafli og loks rúmlega 8% með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, en jafnframt má sjá hlutfallslega aukningu í jarðvarma, vindi, sól og fleiru.

Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73% af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26%. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu.

Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir.