29. október 2024 Hvað er fráveita? Starfsemi fráveitu felur í sér að flytja frárennsli heimila og atvinnustarfsemi, regnvatn eða bráðinn snjó út í viðtaka, með viðkomu í hreinsistöð þar sem við á. Það er mikið verk að tryggja að rekstur fráveitukerfa sé í góðu lagi og er að mörgu að huga. Þannig geta ýmis efni sem losuð eru í fráveitukerfi haft slæm áhrif á lagnir og tækjabúnað, og þar með möguleg slæm áhrif á umhverfi og heilsufar fólks. Hið mikilvæga verkefni fráveitna er að gera þetta sem allra best, til gagns fyrir umhverfi landsins, íbúana og samfélagið allt. Til að vernda gæði sjávar við Ísland kveða reglur á um að skólp skuli vera hreinsað áður en því er veitt í viðtaka. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávarins í kringum Ísland.
1. mars 2017 Ársskýrsla Landsvirkjunar komin út Ársskýrsla Landsvirkjunar 2016 er komin út. Í ár eru árs- og umhverfisskýrslur fyrirtækisins í fyrsta sinn sameinaðar og þar með birtist grænt bókhald fyrirtækisins nú í ársskýrslunni, ásamt annarri ítarlegri umfjöllun um umhverfismál. Með ársskýrslunni er leitast við að auðvelda almenningi að kynna sér fyrirtækið; afkomu þess, umhverfisvöktun og aðra starfsemi. Þetta er fjórða árið í röð sem ársskýrslan kemur eingöngu út á rafrænu formi, en skýrslurnar hafa fengið fjölda tilnefninga og verðlaun fyrir hönnun hér á landi og erlendis. Slóðin á skýrsluna er slóðin er arsskyrsla2016.landsvirkjun.is. Sem fyrri ár eru í skýrslunni fjölmörg myndbönd, til dæmis um framkvæmdir við Þeistareyki og Búrfellsvirkjun, virkjunarkosti og auðlindir. Þá má einnig lesa ávarp forstjóra og stjórnarformanns.
30. nóvember 2016 Ísland trónir á toppnum Ísland stendur sig best allra þjóða þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Hér á landi er hlutfallið 99,99% og er mun hærra en í öðrum Evrópulöndum, að Noregi frátöldum þar sem hlutfallið er tæp 98%. Að sama skapi skipar Ísland neðsta sætið þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) við rafmagnsframleiðslu er borið saman. Þar er hlutfallið 0,01%, hérlendis, en hjá rétt um helmingi samanburðarlanda er hlutfallið um og yfir 50%. Á heimsvísu snýst baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda einkum að því að minnka losun frá orkuframleiðslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar nýju tölur staðfesta sterka stöðu Íslands. Eins og sjá má standa Eistland, Pólland og Holland frammi fyrir verðugu verkefni þegar kemur að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, en hlutfall kola, gass og olíu er þar í kringum 90%.