21. nóvember 2016 Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna atvinnulífsins Marel fékk Menntaverðlaun atvinnulífsins árið 2015 Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 2. febrúar 2017. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 12. desember nk. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2017, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið. Frekari upplýsingar um viðmið, verðlaunin og mat dómnefndar má finna á vef SA. Tilnefningar sendist í tölvupósti á sa@sa.is – eigi síðar en mánudaginn 12. desember nk. Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
18. nóvember 2016 Alþjóðlegi klósettdagurinn Klósettdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur 19. nóvember ár hvert á vegum UN Water frá árinu 2013. Honum er ætlað að minna á að ekki búa allir við þann lúxus að hafa salerni á heimili sínu, sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífslíkur fólks um allan heim. Salerni er mikilvægur þáttur í sterku hagkerfi. Þau bæta heilsu almennings, öryggi og sjálfsvirðingu, ekki síst fyrir stúlkur og konur. UN Water hefur það að markmiði að allir jarðarbúar hafi aðgang að salerni fyrir árið 2030. Á vef Sameinuðu þjóðanna um klósettdaginn koma fram athyglisverðar staðreyndir: Talið er að 2,4 milljarðar jarðarbúa búi við ófullnægjandi salernisaðstæður Einn af hverjum tíu jarðarbúa neyðist til að ganga örna sinna utandyra 315.000 börn deyja árlega vegna niðurgangs og vökvataps sem rekja má til óhreins vatns og ófullnægjandi hreinlætis Tapað vinnuframlag vegna veikinda, sem koma mætti í veg fyrir með betra hreinlæti, kosta margar þjóðir allt að 5% af landsframleiðslu En einnig gefur dagurinn tilefni til þess að minna á að klósett og klósettferðir er ekki feimnismál, eins og oft vill verða! Í ár vilja íslenskar fráveitur minna á það faglega starf sem unnið er til að allir geti notað klósettið áhyggjulaust og um leið minna á að ekki má henda hverju sem er í það. Veitur hafa látið framleiða nýja skemmtilega herferð, Blautþurrkan er martröð í pípunum, þar sem minnt er á að blautþurrkum á að henda í ruslið, ekki í klósettið. Sjá má sjónvarpsauglýsinguna hér fyrir neðan: Þá ræddi Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri hjá Veitum, málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Blautþurrkur leysast ekki auðveldlega upp og geta valdið tjóni ef þeim er hent í klósettið. Rör geta stíflast á heimilum með tilheyrandi vatnstjóni og kostnaði við viðgerðir og hreinsibúnaður í fráveitukerfinu vinnur ekki á þessum þurrkum og fer illa í glímunni við þær. Við bendum sérstaklega á að þó sumir framleiðendur taki fram á umbúðunum að blautþurrkurnar þeirra megi fara í klósettið þá er það ekki rétt. Þetta á að sjálfsögðu við um fleiri hreinlætisvörur: Blautþurrkur Bleiur Dömubindi Túrtappa Í ruslið með þetta allt – það er hundleiðinlegt að fást við afleiðingarnar ef það ratar í klósettið. Göngum vel um klósettið okkar – það er mikilvægur þáttur af okkar daglega lífi. Lesa má frekari upplýsingar á heimasíðu Alþjóðlega klósettdagsins.
14. nóvember 2016 Bjarni Már Júlíusson ráðinn framkvæmdastjóri ON Bjarni Már Júlíusson er nýr framkvæmdastjóri ON Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur gengið frá ráðningu Bjarna Más Júlíussonar í starf framkvæmdastjóra. Bjarni Már hefur verið forstöðumaður tækniþróunar ON frá því fyrirtækið tók til starfa í ársbyrjun 2014. Hann tekur við starfi framkvæmdastjóra frá og með deginum í dag, 14. nóvember 2016. Nánari upplýsingar um ráðninguna má sjá á vef ON.
10. nóvember 2016 Vel sóttur fundur um rafbíla Þéttsetið í Norðurljósasal Hörpu í morgun Um 200 manns sóttu vel heppnaðan fund Samorku, Íslandsbanka og Ergo í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni Hvar eru rafbílarnir?. Fjallað var meðal annars um raforkukerfið og undirbúning fyrir rafbílavæðingu, innviði og rafbílamarkaðinn eins og hann er í dag. Erindi fluttu þau Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá Orku náttúruinnar og Kári Auðun Þorsteinsson, viðskiptastjóri hjá Ergo. Þá voru fjörugar pallborðsumræður undir stjórn Hjartar Þórs Steinþórssonar forstöðumanns orkumála á fyrirtækjasviði Íslandsbanka, en í pallborði sátu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs Landsvirkjunar og Ágústa S. Loftsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun. Fundinum stjórnaði Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Pallborðsumræður Ávinningur rafbílavæðingar er ekki einungis góður fyrir umhverfið, heldur er einnig fjárhagslegur ávinningur, bæði fyrir samfélagið í heild sinni og einstaklinginn sjálfan. Ef 10% bílaflotans rafvæðist, sem er markmið stjórnvalda fyrir árið 2020, skilar það 5 milljarða gjaldeyrissparnaði á hverju ári sem annars færi í olíuinnflutning. Sú upphæð jafngildir rekstri allra leikskóla Reykjavíkurborgar í hálft ár. Með hverju prósenti sem rafbílum fjölgar hækkar þessi tala. Bíleigandinn sparar einnig allt að 200 þús krónur árlega í eldsneytiskaup með því að skipta yfir í rafbíl, sé miðað við meðalakstur. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fjallaði um dreifikerfi raforku með tilliti til rafbíla Margt þarf hins vegar að koma til. Ívilnanir stjórnvalda skipta miklu máli, sem og þróun verðlags á rafhlöðum og olíu, drægni bílanna og uppbygging innviða eins og hleðslustöðvum við heimili og hringinn í kringum landið og flutningskerfið. Þá er lítil reynsla enn af rafbílum og vegna þess að þeir eru enn um 15-20% dýrari en bensín- og díselbílar tekur nokkur ár fyrir kaupin að borga sig upp, sé miðað við sparnað á eldsneyti eingöngu. Það var mál manna að fundurinn hafi verið fræðandi og skemmtilegur og vill Samorka þakka öllum þeim sem komu, Íslandsbanka og Ergo fyrir samstarfið og visir.is sem sendu fundinn út beint á vefsíðu sinni. Upptökur af fundinum má sjá hér fyrir neðan. Því miður var erindi Tryggva Þórs hljóðlaust framanaf og því er upptakan ekki aðgengileg nema að hluta til, frá þeim tímapunkti að hljóðið komst í lag. Glærur Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK Hvar eru rafbílarnir- Tryggvi Þór Haraldsson-HD from Samorka on Vimeo. Hvar eru rafbílarnir? – Áslaug Thelma Einarsdóttir from Íslandsbanki on Vimeo. Kári Auðun Þorsteinsson from Íslandsbanki on Vimeo. Hvar eru rafbílarnir? – Panell from Íslandsbanki on Vimeo.
3. nóvember 2016 Hvar eru rafbílarnir? Íslandsbanki, Ergo og Samorka bjóða á morgunfund um rafbílavæðingu Íslands í Hörpu þann 10. nóvember. Rætt verður um þá innviði sem hér eru til staðar og hversu raunhæfir kostir rafbílar séu í dag og á komandi árum.
1. nóvember 2016 Málþing: Örplast í skólpi Vatns- og fráveitufélag Íslands, VAFRÍ, og Samorka halda opið málþing þann 15. nóvember um örplast í skólpi. Málþingi er haldið í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, og stendur frá 13.30-16. Málþinginu er ætlað að varpa ljósi á þá þekkingu sem til er um málefnið hér á landi, um upptök og afdrif örplasts í skólpi og mögulegum hreinsiaðferðum til verndar lífríkis í viðtaka skólps. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu má sjá á heimasíðu VAFRÍ.
31. október 2016 Samorka óskar eftir að ráða framkvæmdastjóra Samorka óskar eftir að ráða framkvæmdastjóra. Leitað er að reyndum leiðtoga sem býr yfir góðri samskiptafærni, frumkvæði og skipulögðum vinnubrögðum. Einstaklingi sem hefur það sem þarf til að starfrækja jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja. Intellecta hefur umsjón með ráðningunni og má sjá auglýsinguna um starfið á heimasíðu þeirra. Auglýsingin birtist fyrst í Fréttablaðinu laugardaginn 29. október. Helstu verkefni: Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri Ábyrgð á starfsemi Samorku gagnvart stjórn Innleiða og framfylgja stefnu og ákvörðunum stjórnar/aðalfundar Stuðla að og bera ábyrgð á góðum tengslum við aðildarfyrirtæki og rækta félags- og fræðslustarf Samskipti og upplýsingar Menntunar- og hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi Stjórnunarreynsla Þekking á starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja er kostur Þekking á umhverfismálum og nýtingu náttúruauðlinda er æskileg Góðir samskiptahæfileikar og færni í að tjá sig í ræðu og riti Góð tungumálakunnátta í íslensku og ensku, kostur að hafa einnig kunnáttu í Norðurlandamáli Aðrar upplýsingar: Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið. Nánari upplýsingar um starfið veita Ari Eyberg (ari@intellecta.is) og Þórður S. Óskarsson (thordur@intellecta.is) í síma 511 1225. Umsóknarfrestur er til og með 14. nóvember 2016. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og henni þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf. Farið verður með allar fyrirspurnir og umsóknir sem trúnaðarmál.
26. október 2016 Gústaf lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Gústaf Adolf Skúlason hefur sagt starfi sínu sem framkvæmdastjóri Samorku lausu. Gústaf hefur gegnt starfinu frá mars 2013 og þar áður starfi aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna frá ársbyrjun 2007. Hann mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til nýr tekur til starfa, og verða samtökunum innan handar fyrst um sinn í kjölfar þess. Stjórn og starfsfólk Samorku þakka Gústafi fyrir vel unnin störf í þágu íslenskra orku- og veitumála og óska honum velfarnaðar í framtíðinni. Starf framkvæmdastjóra Samorku verður auglýst á laugardag og er ráðningin í höndum Intellecta. Gústaf Adolf Skúlason, fráfarandi framkvæmdastjóri Samorku, á skrifstofu sinni. Gústaf segir tíma sinn hjá Samorku hafa verið afar ánægjulegan og lærdómsríkan. „Þessi áratugur í starfi á vettvangi Samorku hefur verið afar ánægjulegur og lærdómsríkur. Ég hef fylgst með og tekið þátt í miklum breytingum á starfsumhverfi og uppbyggingu þessara greina og átt ánægjulegt samstarf við mikinn fjölda af góðu fólki.“ Gústaf segir að orka og veituþjónusta séu forsendur alls atvinnulífs, heimilisreksturs og flestra okkar daglegu athafna í nútíma samfélagi. „Við getum verið þakklát fyrir okkar grænu orkulindir og heilnæma drykkjarvatn, en jafnframt verið stolt af þeim öflugu orku- og veitufyrirtækjum sem sjá um nýtingu þessara ríkulegu auðlinda og dreifingu gæðanna til landsmanna allra“, segir Gústaf. Helgi Jóhannesson, formaður Samorku, segir hafa verið afar ánægjulegt að vinna með Gústafi á vettvangi Samorku undanfarin ár. „Gústaf hefur staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri samtakanna og kann stjórn Samorku honum bestu þakkir fyrir óeigingjarnt og farsælt starf liðin ár.“
20. október 2016 Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust. Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi. Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda. Forsendur: Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun. Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun. Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda. Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.
13. október 2016 Menntun og mannauður: Starfsþjálfun í fyrirtækjum Fundaröðin Menntun og mannauður heldur áfram í Húsi atvinnulífsins fimmtudaginn 20. október frá kl. 8.30-10. Að þessu sinni verður kynning á TTRAIN (Tourism training) verkefninu, en það snýst um að mennta einstaklinga innan ferðaþjónustufyrirtækjanna og endurmennta þá sem fyrir eru. Sambærilegt verkefni hefur verið útfært fyrir verslunina á Íslandi þannig að það getur haft breiða skírskotun, þ.e.a.s. hentar ekki endilega einungis aðilum í ferðaþjónustu. Nánari upplýsingar og dagskrá má sjá á vef Samtaka atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni Menntun og mannauður sem mun standa til vors 2017.