10. nóvember 2016 Vel sóttur fundur um rafbíla Þéttsetið í Norðurljósasal Hörpu í morgun Um 200 manns sóttu vel heppnaðan fund Samorku, Íslandsbanka og Ergo í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni Hvar eru rafbílarnir?. Fjallað var meðal annars um raforkukerfið og undirbúning fyrir rafbílavæðingu, innviði og rafbílamarkaðinn eins og hann er í dag. Erindi fluttu þau Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá Orku náttúruinnar og Kári Auðun Þorsteinsson, viðskiptastjóri hjá Ergo. Þá voru fjörugar pallborðsumræður undir stjórn Hjartar Þórs Steinþórssonar forstöðumanns orkumála á fyrirtækjasviði Íslandsbanka, en í pallborði sátu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs Landsvirkjunar og Ágústa S. Loftsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun. Fundinum stjórnaði Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Pallborðsumræður Ávinningur rafbílavæðingar er ekki einungis góður fyrir umhverfið, heldur er einnig fjárhagslegur ávinningur, bæði fyrir samfélagið í heild sinni og einstaklinginn sjálfan. Ef 10% bílaflotans rafvæðist, sem er markmið stjórnvalda fyrir árið 2020, skilar það 5 milljarða gjaldeyrissparnaði á hverju ári sem annars færi í olíuinnflutning. Sú upphæð jafngildir rekstri allra leikskóla Reykjavíkurborgar í hálft ár. Með hverju prósenti sem rafbílum fjölgar hækkar þessi tala. Bíleigandinn sparar einnig allt að 200 þús krónur árlega í eldsneytiskaup með því að skipta yfir í rafbíl, sé miðað við meðalakstur. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fjallaði um dreifikerfi raforku með tilliti til rafbíla Margt þarf hins vegar að koma til. Ívilnanir stjórnvalda skipta miklu máli, sem og þróun verðlags á rafhlöðum og olíu, drægni bílanna og uppbygging innviða eins og hleðslustöðvum við heimili og hringinn í kringum landið og flutningskerfið. Þá er lítil reynsla enn af rafbílum og vegna þess að þeir eru enn um 15-20% dýrari en bensín- og díselbílar tekur nokkur ár fyrir kaupin að borga sig upp, sé miðað við sparnað á eldsneyti eingöngu. Það var mál manna að fundurinn hafi verið fræðandi og skemmtilegur og vill Samorka þakka öllum þeim sem komu, Íslandsbanka og Ergo fyrir samstarfið og visir.is sem sendu fundinn út beint á vefsíðu sinni. Upptökur af fundinum má sjá hér fyrir neðan. Því miður var erindi Tryggva Þórs hljóðlaust framanaf og því er upptakan ekki aðgengileg nema að hluta til, frá þeim tímapunkti að hljóðið komst í lag. Glærur Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK Hvar eru rafbílarnir- Tryggvi Þór Haraldsson-HD from Samorka on Vimeo. Hvar eru rafbílarnir? – Áslaug Thelma Einarsdóttir from Íslandsbanki on Vimeo. Kári Auðun Þorsteinsson from Íslandsbanki on Vimeo. Hvar eru rafbílarnir? – Panell from Íslandsbanki on Vimeo.