Gústaf lætur af störfum sem framkvæmdastjóri

Gústaf Adolf Skúlason hefur sagt starfi sínu sem framkvæmdastjóri Samorku lausu. Gústaf hefur gegnt starfinu frá mars 2013 og þar áður starfi aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna frá ársbyrjun 2007. Hann mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til nýr tekur til starfa, og verða samtökunum innan handar fyrst um sinn í kjölfar þess.

Stjórn og starfsfólk Samorku þakka Gústafi fyrir vel unnin störf í þágu íslenskra orku- og veitumála og óska honum velfarnaðar í framtíðinni.

Starf framkvæmdastjóra Samorku verður auglýst á laugardag og er ráðningin í höndum Intellecta.

 

Gústaf Adolf Skúlason, fráfarandi framkvæmdastjóri Samorku, á skrifstofu sinni.
Gústaf Adolf Skúlason, fráfarandi framkvæmdastjóri Samorku, á skrifstofu sinni.

Gústaf segir tíma sinn hjá Samorku hafa verið afar ánægjulegan og lærdómsríkan.

„Þessi áratugur í starfi á vettvangi Samorku hefur verið afar ánægjulegur og lærdómsríkur. Ég hef fylgst með og tekið þátt í miklum breytingum á starfsumhverfi og uppbyggingu þessara greina og átt ánægjulegt samstarf við mikinn fjölda af góðu fólki.“

Gústaf segir að orka og veituþjónusta séu forsendur alls atvinnulífs, heimilisreksturs og flestra okkar daglegu athafna í nútíma samfélagi.

Við getum verið þakklát fyrir okkar grænu orkulindir og heilnæma drykkjarvatn, en jafnframt verið stolt af þeim öflugu orku- og veitufyrirtækjum sem sjá um nýtingu þessara ríkulegu auðlinda og dreifingu gæðanna til landsmanna allra“, segir Gústaf.

Helgi Jóhannesson, formaður Samorku, segir hafa verið afar ánægjulegt að vinna með Gústafi á vettvangi Samorku undanfarin ár.

Gústaf hefur staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri samtakanna og kann stjórn Samorku honum bestu þakkir fyrir óeigingjarnt og farsælt starf liðin ár.“