105 hleðslustöðvar fyrir rafbíla bætast við

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla.

16 verkefni hljóta styrk, samtals að fjárhæð 201 m.kr. Af styrkþegunum 16 eru samtals 6 sveitarfélög. Auk þeirra er þar að finna orkufyrirtæki, söluaðila eldsneytis og fleiri aðila.

Með þessum verkefnum verður hægt á næstu tveimur árum að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Um er að ræða bæði hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar, eða 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar. Þar með verða 105 nýjar hleðslustöðva byggðar upp á tímabilinu.

Í dag eru 13 hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla á landinu, sem allar koma frá Orku náttúrunnar. Orka náttúrunnar hefur verið í forystu uppbyggingar hraðhleðslustöðva og hlaut rúmlega 57 milljón króna styrk að þessu sinni til að halda henni áfram. Fyrir styrkféð hyggst fyrirtækið byggja upp 14 nýjar hraðhleðslustöðvar og fjórar hefðbundnar, bæði á eigin vegum og í samstarfi við aðra. Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá á heimasíðu Orku náttúrunnar.

Dreifingu allra 105 stöðvanna á landsvísu má sjá á myndinni en einnig á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ásamt frekari upplýsingum.

 

hledslustodvar

 

Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin er stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). Miðar verkefnið að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu til að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.