Orkuskipti í samgöngum stærsta tækifærið

Í dag koma þjóðarleiðtogar saman í New York á Degi jarðar og undirrita Parísarsamkomulagið um sameiginleg markmið þjóða heimsins í loftslagsmálum.  Stóra tækifærið fyrir Ísland í loftslagsmálum er að skipta um orkugjafa í samgöngum þar sem hægt væri að koma í veg fyrir tæplega 20% af árlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi. En þrátt fyrir kjöraðstæður hvað varðar aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum er þróunin í orkuskiptum mjög hæg á Íslandi.

Ísland er fremst í flokki þjóða hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun og af því geta Íslendingar verið stoltir. Við ættum auðveldlega að geta vermt efsta sætið þegar kemur að notkun endurnýjanlegrar orku í samgöngum, því hér eigum við gnægð af henni. Svo er hins vegar ekki. Af nýskráðum bílum hér á landi eru aðeins tæplega 4% rafbílar. Til samanburðar má nefna að í Noregi eru tveir af hverjum þremur nýskráðum bílum vistvænir.

Heildarútblástur Íslands nemur 4,5 milljónum tonna á ári hverju og þar af er hlutur samgangna rétt um 18% af heild, eða 800 þúsund tonn. Það er öllum í hag, Íslendingum og heimsbyggðinni allri, að setja í forgang hér á landi að gera samgöngur umhverfisvænni.

Óvænt athygli á gróðurhús og hveralykt

Orkutengd ferðaþjónusta á Íslandi fékk óvænta kynningu á dögunum þegar Kim og Kourtney Kardashian létu sjá sig í Reykjavík öllum að óvörum ásamt rapparanum Kanye West.

Þær systur ásamt föruneyti gerðu sér ferð á tómatabýlið Friðheima í Reykholti í Biskupstungum. Fjölmargar fréttastofur hafa fjallað um heimsóknina þar sem þau skoðuðu tómataplöntur og býflugur og gæddu sér á afurðum þeirra. Hægt er að sjá umfjöllunina og myndbönd frá heimsókninni á eftirtöldum miðlum en listinn er ekki tæmandi: Daily MailEntertainment Tonight, E! Online, People, Hollywoodlife, US Magazine og fleiri.

Kim, Kourtney og félagar heimsóttu einnig Gullfoss og Geysi, en íslenska hveralyktin fékk alveg sérstaka umfjöllun þar sem Kim og eiginmaður hennar Kanye héldu að hún væri prumpulykt bílstjórans þeirra. Iceland Monitor á mbl.is hefur þó reynt að koma hinu rétta á framfæri.

Víst má ætla að ferðalag þeirra sé gríðarleg landkynning fyrir Ísland og ekki síst orkutengda ferðaþjónustu eins og Geysi og tómatabýlið Friðheima, því milljónir manna fylgjast grannt með systrunum Kim og Kourtney á samfélagsmiðlum. Á Instagram hefur Kim tæplega 68 milljónir fylgjenda og Kourtney 38 milljónir, á Twitter fylgja 44 milljónir Kim að og Kourtney 20 milljónir.

Kim Kardashian er ein stærsta stjarna sem sprottið hefur upp úr raunveruleikaþáttum í Bandaríkjunum og um heim allan. Þátturinn Keeping Up With The Kardashians hefur verið sýndur á sjónvarpsstöðinni E! við miklar vinsældir frá árinu 2007 og fjallar um líf hinnar litríku Kardashian fjölskyldu og Kim er þar ein sex systkina. Kim Kardashian hefur verið dugleg að halda sér í sviðsljósinu og þykir hafa gott viðskiptavit, en heildartekjur hennar voru um 53 milljónir dollara árið 2015. Hún er gift einum vinsælasta rappara í heimi, Kanye West, en ástæða heimsóknarinnar til Íslands er talin vera sú að hann ætli að taka upp tónlistarmyndband hér á landi. Einnig gæti ástæðan verið afmæli systur Kim, Kourtney, sem varð 37 ára í gær, 18. apríl.

En hver er eiginlega Kim Kardashian? Um það má lesa hér á mbl.is.

Helgi Jóhannesson nýr formaður Samorku

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku hf., var í dag kjörinn nýr formaður Samorku á aðalfundi samtakanna. Hann tekur við formennsku af Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sem lætur af stjórnarsetu. Að auki taka þrír nýir stjórnarmenn sæti í stjórn samtakanna, en kjörin voru þau Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf., Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna ohf. og Jóhanna Björg Hansen bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets hf., var endurkjörinn í stjórn eins og Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, situr jafnframt áfram í stjórn, kjörinn til tveggja ára á aðalfundi 2015.

Ásdís Kristinsdóttir, forstöðumaður Verkefnastofu hjá Veitum ohf., var kjörin nýr varamaður í stjórn sem og Guðbjörg Marteinsdóttir, fjármálastjóri RARIK ohf. Þá sitja Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar, og Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., áfram sem varamenn.

Auk Bjarna Bjarnasonar ganga úr stjórn þeir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna hf., Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða ohf. og Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK ohf.

Stjórn Samorku skipa því, að loknum aðalfundi 15. apríl 2016:

Aðalmenn:
Ásgeir Margeirsson, HS Orku hf.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti hf.
Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Reykjavíkur
Helgi Jóhannesson, Norðurorku hf., formaður stjórnar
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitum ohf.
Jóhanna B. Hansen, Mosfellsbæ

Varamenn:
Ásdís Kristinsdóttir, Veitum ohf.
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK ohf.
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf.

Ársfundur atvinnulífsins 7. apríl í Hörpu

Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni er yfirskrift ársfundar atvinnulífsins, sem haldinn verður í Hörpu fimmtudaginn 7. apríl. Fjölbreyttur hópur leggur orð í belg um peningamálin og starfsumhverfið, en sérstakur gestur er Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics.

Fundurinn er opinn öllum en skráningar er óskað.

Sjá nánar um dagskrá og skráningu á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli eftir röðun í nýtingarflokk

Ákvörðun um að raða tilteknum orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar þarf alls ekki að þýða að umrædd virkjun eigi eftir að rísa.

Að lokinni röðun í nýtingarflokk taka við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, skipulagsferli og ferli leyfisveitinga, kjósi eitthvert orkufyrirtæki að þróa umræddan orkukost áfram. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða.

Hið sama á við um röðun í verndarflokk rammaáætlunar. Sú röðun hefur í för með sér að hefja skuli undirbúning friðlýsingar gagnvart orkunýtingu á grundvelli laga um náttúruvernd eða á grundvelli þjóðminjalaga. Einnig þar er um að ræða vandað og lýðræðislegt stjórnsýsluferli.

Hér má sjá skema sem Samorka hefur fengið verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið Eflu til að taka saman, þar sem lýst er myndrænt umræddum stjórnsýsluferlum við virkjun jarðhita, en þeir eru nánast hinir sömu við virkjun vatnsafls. Líkt og sjá má geta slík ferli staðið yfir í fjölda ára, í kjölfar ákvörðunar um að þróa áfram tiltekinn orkukost.

Tillögu að drögum verkefnastjórnar má sjá á heimasíðu áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Hitaveitur spara 272 þús á hvern íbúa landsins árlega

Sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum fyrir árið 2014, eða 272 þúsundum á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn er í hreinum gjaldeyri, þar sem olía er flutt inn til landsins. 89 milljarðar eru 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2014.

Hitaveitur Íslendinga spara þar að auki mikla losun gróðurhúsalofttegunda því jarðvarmi er græn, endurnýjanleg orka sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti en svo er ekki með olíu og kol.

Nánari upplýsingar og fleiri tölur má sjá á vef Orkustofnunar, meðal annars sparnaðinn í sögulegu samhengi allt frá því að stigin voru fyrstu skrefin í nýtingu jarðvarma til húshitunar árið 1914.

Nýting og verndun vatns á morgunfundi

Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin bjóða til morgunverðarfundar á Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7, fimmtudaginn 31. mars. Fjallað verður um vatn af tilefni alþjóðlegum Degi vatnsins sem haldinn var hátíðlegur 22. mars.

Dagskrá fundarins:

Án vatns er enginn vinnandi vegur Sveinn Agnarsson, Háskóla Íslands

Að veita vatni Hólmfríður Sigurðardóttir, Orkuveitu Reykjavíkur

Verndun og nýting vatns: Siðferðislegar spurningar Skúli Skúlason, Háskólanum á Hólum

Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8 en dagskrá fundarins hefst 8.30. Áætluð fundarlok eru kl. 10. Fundargestir eru beðnir um að senda staðfestingu um þátttöku á netfangið skraning@vedur.is fyrir kl. 12 þann 30. mars.

Kynningarfundir um tillögur um flokkun virkjunarkosta

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar mun ganga frá drögum að tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta á miðvikudaginn, 30. mars. Til að auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum að kynna sér drögin efnir verkefnisstjórn til kynningarfunda, sem hér segir:

31.3. – Reykjavík, Kaldalón í Hörpu, kl. 14-16
6.4. – Grindavík, Gjáin, kl. 20-22
7.4. – Kirkjubæjarklaustur, fundarstaður ekki ákveðinn, kl. 16:30-18:30
7.4. – Selfoss, Hótel Selfoss, kl. 20:30-22:30
11.4. – Stórutjarnir, Stórutjarnaskóli, kl. 20-22
12.4. – Akureyri, Hamrar í Hofi, kl. 12-14
12.4. – Varmahlíð, Miðgarður, kl. 20-22
13.4. – Nauteyri við Ísafjarðardjúp, Steinshús, kl. 20-22
Á fundunum mun verkefnisstjórn kynna tillögudrögin og sitja fyrir svörum að kynningu lokinni. Boðið verður upp á kaffiveitingar (léttan hádegisverð á fundinum á Akureyri). Fundirnir eru öllum opnir og ekki er þörf á að skrá sig.

Á vef um rammaáætlun má finna upplýsingar um allt sem við henni kemur, meðal annars skilgreiningu á rammaáætlun og lög sem um hana gilda.