Faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli eftir röðun í nýtingarflokk

Ákvörðun um að raða tilteknum orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar þarf alls ekki að þýða að umrædd virkjun eigi eftir að rísa.

Að lokinni röðun í nýtingarflokk taka við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, skipulagsferli og ferli leyfisveitinga, kjósi eitthvert orkufyrirtæki að þróa umræddan orkukost áfram. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða.

Hið sama á við um röðun í verndarflokk rammaáætlunar. Sú röðun hefur í för með sér að hefja skuli undirbúning friðlýsingar gagnvart orkunýtingu á grundvelli laga um náttúruvernd eða á grundvelli þjóðminjalaga. Einnig þar er um að ræða vandað og lýðræðislegt stjórnsýsluferli.

Hér má sjá skema sem Samorka hefur fengið verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið Eflu til að taka saman, þar sem lýst er myndrænt umræddum stjórnsýsluferlum við virkjun jarðhita, en þeir eru nánast hinir sömu við virkjun vatnsafls. Líkt og sjá má geta slík ferli staðið yfir í fjölda ára, í kjölfar ákvörðunar um að þróa áfram tiltekinn orkukost.

Tillögu að drögum verkefnastjórnar má sjá á heimasíðu áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.