Óvænt athygli á gróðurhús og hveralykt

Orkutengd ferðaþjónusta á Íslandi fékk óvænta kynningu á dögunum þegar Kim og Kourtney Kardashian létu sjá sig í Reykjavík öllum að óvörum ásamt rapparanum Kanye West.

Þær systur ásamt föruneyti gerðu sér ferð á tómatabýlið Friðheima í Reykholti í Biskupstungum. Fjölmargar fréttastofur hafa fjallað um heimsóknina þar sem þau skoðuðu tómataplöntur og býflugur og gæddu sér á afurðum þeirra. Hægt er að sjá umfjöllunina og myndbönd frá heimsókninni á eftirtöldum miðlum en listinn er ekki tæmandi: Daily MailEntertainment Tonight, E! Online, People, Hollywoodlife, US Magazine og fleiri.

Kim, Kourtney og félagar heimsóttu einnig Gullfoss og Geysi, en íslenska hveralyktin fékk alveg sérstaka umfjöllun þar sem Kim og eiginmaður hennar Kanye héldu að hún væri prumpulykt bílstjórans þeirra. Iceland Monitor á mbl.is hefur þó reynt að koma hinu rétta á framfæri.

Víst má ætla að ferðalag þeirra sé gríðarleg landkynning fyrir Ísland og ekki síst orkutengda ferðaþjónustu eins og Geysi og tómatabýlið Friðheima, því milljónir manna fylgjast grannt með systrunum Kim og Kourtney á samfélagsmiðlum. Á Instagram hefur Kim tæplega 68 milljónir fylgjenda og Kourtney 38 milljónir, á Twitter fylgja 44 milljónir Kim að og Kourtney 20 milljónir.

Kim Kardashian er ein stærsta stjarna sem sprottið hefur upp úr raunveruleikaþáttum í Bandaríkjunum og um heim allan. Þátturinn Keeping Up With The Kardashians hefur verið sýndur á sjónvarpsstöðinni E! við miklar vinsældir frá árinu 2007 og fjallar um líf hinnar litríku Kardashian fjölskyldu og Kim er þar ein sex systkina. Kim Kardashian hefur verið dugleg að halda sér í sviðsljósinu og þykir hafa gott viðskiptavit, en heildartekjur hennar voru um 53 milljónir dollara árið 2015. Hún er gift einum vinsælasta rappara í heimi, Kanye West, en ástæða heimsóknarinnar til Íslands er talin vera sú að hann ætli að taka upp tónlistarmyndband hér á landi. Einnig gæti ástæðan verið afmæli systur Kim, Kourtney, sem varð 37 ára í gær, 18. apríl.

En hver er eiginlega Kim Kardashian? Um það má lesa hér á mbl.is.