Samkaup og Gentle Giants handhafar menntaverðlauna atvinnulífsins

Samkaup er menntafyrirtæki ársins 2022. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið og hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 1400. Í rekstri verslana á dagvöru-markaði felast margar áskoranir þar sem grunnurinn að gæðum og góðri þjónustu er fjölbreytni og sveigjanleiki til að uppfylla fjölþættar þarfir viðskiptavinanna í öllum byggðum landsins.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Ljóst er að Samkaup leggur mikinn metnað í vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri uppbyggingu starfsfólks þar sem lögð er áhersla á tækifæri þess til að eflast og þroskast bæði persónulega og í starfi. Í þessu skyni er unnið jöfnum höndum með skipulagða fræðslu innan fyrirtækisins en einnig í samstarfi við ytri fræðsluaðila þar sem starfsfólk getur stundað nám með vinnu og um leið skapað sér grunn til áframhaldandi náms síðar meir. Mikilvægt er að Samkaup veita starfsfólki sérstakan stuðning í þessu skyni.

Með því að styrkja einstaklinga til starfsþróunar er einnig lagður grunnur að framtíðar leiðtogum innan fyrirtækisins og menntunarstig innanfyrirtækisins hækkar sem aftur skilar sér í eftirsóknarverðum vinnustað, starfsánægju og jákvæðu viðhorfi starfsfólk til þeirra færni sem mikilvæg er í kaupmennsku, þjónustu og verslunarrekstri almennt. Mjög jákvætt er að sjá þá áherslu sem lögð er á fjölbreyttar menntaleiðir innan fyrirtækisins sem ná til breiðs hóps starfsfólks sem einnig miðlar þekkingunni á milli vinnustöðva innan fyrirtækisins.

Ánægjulegt er að sjá að frá því Samkaup vann menntasprota atvinnulífsins árið 2020 hefur uppbyggingarstarfinu verið haldið áfram með þeirri niðurstöðu að Samkaup eru menntafyrirtæki ársins 2022. Markvissar mælingar fara fram á árangri í þjálfun og þróun starfsmanna sem staðfesta jákvæða og mjög sterka stöðu í fræðslu og þjálfunarmálum innan Samkaupa.

Ljóst er að Samkaup gera sér grein fyrir því að mannauðurinn er mikilvægasta auðlind fyrirtækja og blómstri hún blómstrar fyrirtækið.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Jóhanna Sigríður Svavarsdóttir, mannauðsstjóri, Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri og Daniel Annisius, aðstoðarframkvæmdastjóri Gentle Giants.

Gentle Giants – Hvalaferðir á Húsavík er menntasproti ársins 2022. Einn lykilþáttur sprotans er samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu innan sem utan fyrirtækja auk nýsköpunar í fræðslu innan fyrirtækis eða í samstarfi aðra aðila.

Gentle Giants býður uppá hvalaskoðunarferðir og aðrar sjótengdar upplifanir á Skjálfandaflóa. Í flotanum eru níu bátar, tveir eikarbátar og fimm hraðbátar og hefur fyrirtækið verið brautryðjandi á sínu sviði. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 50 starfsmenn (í hefðbundnu árferði). Gegnum árin hefur starfsmannavelta verið lítil hjá Gentle Giants og að því marki sem störf fylgja árstíðarbundnum sveiflum hefur sama starfsfólkið komið til starfa aftur og aftur. Þetta staðfestir að sú áhersla sem félagið hefur lagt á starfsmannamál og þar með fræðslu og þjálfunarmál hefur skipt miklu um vellíðan starfsfólksins.

Í ferðaþjónustu þar sem byggt er á notkun skipa og báta felst mikil áskorun þegar kemur að öryggismálum sem endurspeglast í fjölmörgum opinberum kröfum sem fyrirtækið og starfsfólk þess þarf að mæta. Gentle Giants hafa lagt gríðarlega mikla áherslu á að þessum kröfum sé mætt til hins ýtrasta og hvergi slakað á í þeim efnum. Unnar hafa verið vandaðar og yfirgripsmiklar handbækur, leiðbeiningar og þjálfunaráætlanir hér að lútandi sem tryggja öryggi jafnt starfsfólks og viðskiptavina.

Mikla athygli vekur sú áhersla sem Gentle Giants hafa lagt á fjölþætt samstarf við nærsamfélag sitt á sviði menntunar, fræðslu og rannsókna. Þannig hefur fyrirtækið verið í samstarfi um rannsóknir á sviði sjávarlíffræði með Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík og verið með doktorsnema í hlutastarfi því tengdu. Gentle Giants kom að stofnun nýrrar námsbrautar við Framhaldsskólann á Húsavík um leiðsögunám sem fékk góðar viðtökur og viðbrögð í nærsamfélaginu. Þá hefur fyrirtækið tekið þátt í að skapa sumarstörf fyrir grunnskólanemendur á svæðinu og skapa þannig áhuga þeirra á fjölbreyttum störfum í atvinnulífinu.

Ljóst er að Gentle Giants – Hvalaskoðun hafa lagt í mikla og áhugaverða vinnu á sviði mennta-, fræðslu- og þjálfunarmála innan fyrirtækisins en jafnframt tekið þátt í uppbyggingu á þessu sviði í samstarfi við aðila á svæðinu og sýnt mikilvæga samfélagslega ábyrgð sem hefur mikla þýðingu og sýnir hvernig slíkt samstarf felur í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir alla aðila.

Gentle Giants – Hvalaskoðun hefur þannig sýnt að sprotar og þróunar starf er gríðarlega mikilvægt til þess að treysta starfsgrundvöll fyrirtækja og skapa þeim mikilvægt samkeppnisforskot.

Öll erindi ársfundar Samorku 2022

Ársfundur Samorku 2022 var haldinn þriðjudaginn 15. mars í Hörpu undir yfirskriftinni Græn framtíð: Hvað þarf til?

Hér má finna öll erindi fundarins á myndbandsformi í þeirri röð sem þau voru flutt á fundinum.

Samantekt um orkuþörf og ávinning í loftslagsmálum má sjá hér:

Eyþór Árnason ljósmyndari fangaði stemninguna meðal gestanna á ársfundinum.

« af 4 »

Opnunarmyndband ársfundarins var glæsilegt að vanda.

Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku 2022

Fyrirtækið Alor hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Samorku fyrir að vera framúrskarandi sprota- og/eða nýsköpunarfyrirtæki á sviði orku- og veitumála.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála ásamt Valgeiri Þorvaldssyni stjórnarformanni Alor, Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur framkvæmdastýra, Rakel Evu Sævarsdóttur stjórnarkonu Alor og Páli Erland framkvæmdastjóra Samorku.
Ljósmynd: Eyþór Árnason.

Nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. var stofnað árið 2020 í því skyni að þróa, framleiða og markaðssetja umhverfisvænar álrafhlöður og -orkugeymslur. Í nýsköpuninni felst að stefnt er framleiðslu á álrafhlöðum af mismunandi stærðum, þ.e. frá litlum rafhlöðum og rafgeymum yfir í stórar orkugeymslur í gámastærðum.

Í orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbæra græna orku felast fjölmargar áskoranir og um leið tækifæri til þess að þróa lausnir sem styðja við nýtingu raforku á öllum sviðum. Bein nýting raforku er alltaf fyrsti kostur þar sem orkunýtni er hámörkuð og því mikilvægt að leita leiða til þess að aðgengi að orkunni sé sem best, á sem flestum stöðum og tímum og við ólíkar aðstæður. Þar gegna rafhlöður lykilhlutverki.

Nýsköpun sem leitar leiða til þess að framleiðsla rafhlaða verði umhverfisvæn, sjálfbær og þannig með endurvinnslumöguleikum er því gríðarlega spennandi enda ljóst að eftirspurn eftir rafhlöðum mun marg­faldast á næstu árum.

Að takast á við að þróa og prófa nýja tækni er því afar mikilvægt ekki síst í ljósi þess að rafhlöðuframleiðsla er í dag háð aðgengi að mörgum mjög takmörkuðum auðlindum og endurvinnsla takmörkunum háð.

Fulltrúar Alor taka við verðlaununum á ársfundi Samorku 15. mars 2022.

Með þetta í huga var niðurstaða dómnefndar nýsköpunarverðlauna Samorku að veita Alor ehf. verð­launin árið 2022 og hvetja þannig fyrirtækið til dáða í spennandi vegferð þeirra. Náist markmiðin er ljóst að um byltingu verður að ræða og því ákaflega ánægjulegt það styttist í að frumgerð rafhlöðutækninnar líti dagsins ljós.

Alls bárust átta tilnefningar og valdi dómnefnd fagaðila sigurvegara.

Orkuþörf: Forsendur og breytur

Á ársfundi Samorku í dag, sem bar yfirskriftina Græn framtíð: Hvað þarf til? voru tölur um orkuþörf fyrir jarðefnaeldsneytislaust Ísland kynntar.

Hér fyrir neðan má breyta forsendum greiningarinnar og sjá hvernig orkuþörfin breytist í takt við mismunandi aðstæður.

Í meðfylgjandi skjali má sjá hver orkuþörfin er miðað við mismunandi sviðsmyndir.

Hér má sjá upptökuna af erindi Samorku Græn framtíð: Hvað þarf til? á ársfundi samtakanna:

Tvö ný í stjórn Samorku

Þau Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum, og Steinn Leó Sveinsson hjá Skagafjarðarveitum tóku í dag sæti í stjórn Samorku á aðalfundi samtakanna í fyrsta sinn. Þá verður Kristín Linda Árnadóttir áfram fulltrúi Landsvirkjunar í stjórn Samorku næstu tvö árin.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar, formaður Samorku, Helgi Jóhannesson, Norðurorku, Tómas Már Sigurðsson, HS Orku og Sigurður Þór Haraldsson hjá Selfossveitum.

Þá tóku tveir nýir varamenn sæti í stjórn Samorku í dag. Aðalsteinn Þórhallsson hjá HEF Veitum og Jón Trausti Kárason hjá Veitum. Hörður Arnarson verður áfram varamaður Landsvirkjunar í stjórn til næstu tveggja ára. Þau Elías Jónatansson hjá Orkubúi Vestfjarða og Helga Jóhanna Oddsdóttir hjá HS Veitum sitja áfram sem varamenn.

Stjórn Samorku að loknum aðalfundi 15. mars 2022 er því þannig skipuð:

Formaður:
Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar

Meðstjórnendur:
Helgi Jóhannesson, Norðurorku
Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum
Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun
Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum
Steinn Leó Sveinsson, Skagafjarðarveitum
Tómas Már Sigurðsson, HS Orku

Varamenn:
Aðalsteinn Þórhallsson, HEF Veitum
Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða
Helga Jóhanna Oddsdóttir, HS Veitum
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Jón Trausti Kárason, Veitum

Þá var ályktun aðalfundar 2022 samþykkt. Þar kallar aðalfundur Samorku eftir því að næg raforka og heitt vatn verði tryggt til framtíðar, svo hægt verði að mæta fólksfjölgun, nýjum atvinnutækifærum, aukinni rafvæðingu samfélagsins, vályndu veðri og ekki síst metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum.

Í ályktunni kemur fram að orku- og veitufyrirtækjum landsins hafi verið ætlað stórt hlutverk í þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett í loftslagsmálum. Til þess að þau geti sinnt því hlutverki þurfi stjórnsýslan öll að styðja við þá vegferð, til dæmis með því að einfalda laga- og regluverk, tryggja orkuöryggi landsins með nægu framboði af grænni orku og að innan stjórnkerfisins verði sérþekking á orku- og veitumálum styrkt.

Ályktun aðalfundar 2022 í heild sinni (pdf)

Aukavél bætt við vegna Samorkuþings

Icelandair hefur bætt við flugi til og frá Akureyri vegna Samorkuþings. Fullbókað var orðið í hefðbundið áætlunarflug og því hefur verið brugðist við.

Icelandair hefur bætt við vél sem fer frá Reykjavík kl. 8.30 mánudagsmorguninn 9. maí og frá Akureyri þriðjudaginn 10. maí kl. 17.30. Dagskrá hefst kl. 10 á mánudeginum og lýkur um kl. 16 á þriðjudeginum, svo þessar tímasetningar passa mjög vel fyrir Samorkuþingsgesti.

Við hvetjum alla þá sem ætla sér að fljúga norður vegna þingsins að tryggja sér sæti sem fyrst.

Hér má skrá sig á þingið:

  Vinsamlegast hakið í allt sem við á:

  Ég mæti á Samorkuþing 2022 - 49.000 kr.
  Sýnendur hakið hér í stað efra box
  Ég mæti á netagerð fyrir nýliða og ungt fólk í geiranum á Bryggjunni - ókeypis
  Hátíðarkvöldverður - 17.900 kr.
  Hátíðarkvöldverður maka - 17.900 kr.
  Ég vil grænkeramáltíð
  Maki vill grænkeramáltíð
  Makaferð - 12.500 kr.

  Nafn maka (fyrir nafnspjald)

  Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2022

  Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

  Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á ársfundi samtakanna 15. mars. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin verða afhent.

  Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðherra, afhendir verðlaunin.

  Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Tæknilausnum fyrir orku- og veitugeirann eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

  Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

  Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

  Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

  Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 24. febrúar. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

  Laki Power hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku þegar þau voru afhent í fyrsta sinn árið 2021.