Katrín Helga ráðin lögfræðingur Samorku

Katrín Helga Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin lögfræðingur Samorku.

Katrín Helga hefur fjölbreytta reynslu á sviði lögfræði, úr atvinnulífinu og af opinberri stjórnsýslu. Frá 2000 til 2014 starfaði hún í lögmennsku, einkum á sviði fjármála- og fyrirtækjalögfræði og var meðeigandi á lögmannsstofunni BBA Legal. Frá 2013-2018 starfaði hún við kennslu á  Bifröst m.a. á sviði kröfuréttar og í stjórnarháttum fyrirtækja. Katrín kemur til Samorku frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, þar sem hún var starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur síðastliðin tvö ár.  

Samhliða föstum störfum hefur Katrín Helga setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Katrín hóf störf hjá Samorku í dag, 1. september.

Fréttir

Full orkuskipti möguleg árið 2050

Fullum orkuskiptum verður ekki náð árið 2040 eins og markmið stjórnvalda segja til um samkvæmt nýrri raforkuspá sem Landsnet gaf út í gær, 24. ágúst 2023. En góðu fréttirnar eru þær að við getum enn orðið jarðefnaeldsneytislaus árið 2050, að því gefnu að allt vinni saman; markaðurinn, uppbyggingin, ábyrg notkun og takmörkun á umhverfisáhrifum.

Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunarsviðs hjá Landsneti og og Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti eru viðmælendur þáttarins í dag. Við ætlum að ræða nýju raforkuspána og þörfina á nýrri nálgun og nýrri hugsun í orkumálum þjóðarinnar til framtíðar.

Hægt er að skoða raforkuspá Landsnets hér.

Hlaðvarp

Hagfræðin hennar ömmu og auðlindanýting í Svartsengi

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi eru lykilorð í orku- og veitugeiranum um allan heim um þessar mundir, en fyrir Alberti Albertssyni eru þetta einfaldlega ný orð yfir hagfræðina hennar ömmu. Að bera nægilegan kærleik í brjósti fyrir því sem jörðin gefur okkur að ekkert fari til spillis. Þessa hugmyndafræði drakk Albert í sig frá blautu barnsbeini og nýtti í gegnum áratuga starfsferil á Suðurnesjunum, fyrst hjá Hitaveitu Suðurnesja og síðar hjá HS Orku, þar sem þetta leiðarljós var virkjað í Auðlindagarðinum sem gengur út á þekkingarmiðlun og fullnýtingu auðlindastrauma.

Albert, sem er nýsestur í helgan stein, er gestur þáttarins að þessu sinni og við ræðum um hvernig veganestið frá ömmu hefur verið lykilatriði í auðlindanýtingu í Svartsengi.

Hlaðvarp

Lokun vegna sumarleyfa

Skrifstofa Samorku verður lokuð dagana 17. júlí – 7. ágúst. Hægt er að ná í starfsfólk með því að senda póst á samorka@samorka.is.

Skrifstofan opnar að nýju þriðjudaginn 8. ágúst.

Fréttir

Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2023

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á sérstökum nýsköpunarviðburði í haust og verður dagsetning kynnt innan skamms. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin verða afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 20. ágúst. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2022.

Fréttir
Nýtt af nálinni

Blámi í stafni orkuskipta fyrir vestan

Hagkerfi Vestfjarða er algörlega háð jarðefnaeldsneyti. Lífið snýst að miklu leyti um sjávarútveg, en svo eru ferðaþjónusta og skemmtiferðaskip í mikilli sókn og samfélagið reiðir sig á vöruflutninga inn og út af svæðinu. Fyrir Þorstein Másson, framkvæmdastjóra Bláma, er þetta ekkert annað en tækifæri til sóknar í notkun grænnar orku.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. 

Þorsteinn Másson er viðmælandi þáttarins og við förum yfir víðan völl um samfélag í örum vexti, ávinning af orkuskiptum fyrir vestan og mikilvægi þess að efla mannauð og þekkingu fyrir orkuskiptin á svæðinu og á Íslandi öllu.

Hlaðvarp

Samorka leitar að metnaðarfullum og kraftmiklum lögfræðingi

Samorka óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf lögfræðings samtakanna. Um er að ræða spennandi  starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða lögfræðitengd verkefni samtakanna á sviði orku- og veitumála, taka þátt í mótun starfsumhverfis orku- og veitugeirans, leiða mótun málefnastefnu Samorku og að eiga í miklum samskiptum við aðildarfélög, stjórnvöld og hagsmunaaðila samtakanna.

Helstu verkefni:

  • Yfirumsjón með lögfræðitengdum málefnum í starfsemi samtakanna
  • Lögfræðileg ráðgjöf um innra starf samtakanna og eftir atvikum til aðildarfélaga
  • Umsjón og eftirfylgni með samkeppnisréttaryfirlýsingu samtakanna
  • Ritari stjórnar
  • Ritun umsagna um orku- og veitutengd málefni til Alþingis og annarra stjórnsýslustofnana
  • Ritun og umsjón með samningum samtakanna
  • Vöktun á þróun Evrópulöggjafar um orku- og veitutengd málefni og fræðsla til aðildarfélaga
  • Þátttaka í mótun málefnastefnu Samorku ásamt framkvæmd og eftirfylgni með henni
  • Greinaskrif og framkoma á fundum og ráðstefnum
  • Samstarf við hagsmunaaðila, ráðuneyti og opinberar stofnanir
  • Umsjón með tilteknum fag- og málefnahópum sem starfa á vettvangi samtakanna

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Embættispróf eða grunn- og meistarapróf í lögfræði.
  • Lögfræðileg starfsreynsla á sviði orku- og veitumála, stjórnsýsluréttar, EES réttar, samkeppnisréttar eða umhverfis- og loftslagsréttar er kostur
  • Þekking og innsýn í lagaumhverfi og starfsemi orku- og veitugeirans er kostur
  • Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð
  • Færni og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Mjög góð hæfni í textagerð og reynsla af miðlun upplýsinga
  • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku

Umsóknarfrestur er til og með 26. júní 2023. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið. Farið verður með allar fyrirspurnir og umsóknir sem trúnaðarmál og þeim svarað að ráðningu lokinni.

Nánari upplýsingar um starfið veita Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is), Thelma Kristín Kvaran (thelma@intellecta.is) og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku (finnur@samorka.is).

Auglýsingin á Alfreð

Auglýsingin á heimasíðu Intellecta

Um Samorku:

Hjá Samorku starfar metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og samtökin eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins.

Stefna Samorku er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi og hagsmuni aðildarfyrirtækja og að samtökin njóti trausts almennings og stjórnvalda sem leiði til farsællar þróunar í orku- og veitumálum á Íslandi.

Samorka er samstarfsvettvangur aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar framundan í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin.

Fréttir

Auglýst eftir umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda

Opnað hefur verið fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til 1. september 2023. Þetta er í þriðja skipti sem fráveitustyrkir eru auglýstir til umsóknar.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Í fjárlögum vegna ársins 2023 er gert ráð fyrir að 600 m.kr. verði varið til þess að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda.

Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.

Kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum teljast ekki styrkhæf. Sama gildir um hefðbundið viðhald og endurbætur á eldri fráveitukerfum. Þó eru endurbætur á eldri kerfum styrkhæfar ef tilgangurinn með endurbótunum er að kerfin standist gildandi kröfur laga og reglugerða.

Styrkir

Styrkfjárhæð nemur að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði og að jafnaði aldrei lægri en 15%.

Umsóknir á eyðublaðavef Stjórnarráðsins

Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar um umsóknarferlið og skilyrði má finna á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Fráveita
Fréttir

Loftslagsvegvísir orku og veitna

Orku- og veitugeirinn hefur sett fram metnaðarfullar aðgerðir sem styðja við markmið stjórnvalda í umhverfis- og loftslagsmálum. Aðgerðirnar eru meðal þeirra 332 sem afhentar voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra á Grænþingi í Hörpu í gær.

Orku- og veitugeirinn gegnir lykilhlutverki þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmarkmiðum Íslands. Áframhaldandi aðgengi heimila og atvinnulífs að endurnýjanlegri orku og traustum innviðum er forsenda þriðju orkuskiptanna.

Í Loftslagsvegvísi orku og veitna eru lagðar fram fimm úrbótatillögur:

  • Laga- og regluverk þarf að styðja við orkuskiptin
  • Auka þarf samráð í málefnum tengdum geiranum
  • Tryggja þarf fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi orku- og veitugeirans
  • Hvata þarf fyrir almenning til að auka orkunýtni
  • Auka þarf aðgengi að gögnum hjá opinberum stofnunum

Hægt er að lesa nánar um úrbótatillögur og aðgerðir sem stuðla að samdrætti í losun GHL í ítarefni á heimasíðu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins.

332 tillögur um samdrátt í losun atvinnugreina

Ellefu atvinnugreinar hafa nú afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.   

Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:  
 
„Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt — stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna  með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til  að halda verkefninu áfram.”    
 

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að sett markmið náist. Ennfremur er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varðar regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti.   

Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á legg, en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum er að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir.  

Á Grænþingi í Hröpu í gær kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var: 

  • Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku 
  •  Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda
  •  Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni
  •  Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu
  •  Nýsköpun og rannsóknir
  •  Bætt hringrás

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa, sem hafa margir hverjir mælanleg markmið . Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.   

Hægt er að nálgast vegvísana inn á www.loftslagsvegvisar.is.