Orku- og veitufyrirtæki fá viðurkenningu Jafvægisvogarinnar

HS Orka, Landsvirkjun, Norðurorka, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur hlutu öll viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu, í gær. Viðurkenninguna hljóta þau fyrirtæki, sveitarfélög og opinberir aðilar sem náð hafa að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum.

Alls fengu 89 fyrirtæki, sveitarfélög og opinberir aðilar viðurkenninguna í ár sem er metfjöldi. Lista yfir alla viðurkenningarhafa má finna á heimasíðu FKA.

Að Jafnvægisvoginni standa, auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.

Nýjar lausnir fyrir nýja tíma

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, skrifar:

Nýsköpunarverðlaun Samorku voru veitt í þriðja sinn á dögunum. Um árleg verðlaun er að ræða, þar sem óskað er eftir tilnefningum frá framúrskarandi fyrirtækjum sem vinna að orku- og veitutengdum lausnum eða nýta orku, heitt vatn, neysluvatn eða fráveitu í sinni nýsköpun. Að þessu sinni hlutu fjögur fyrirtæki tilnefningu sem hafa ólík tengsl við orku- og veitustarfsemi.

Verðlaunin féllu í hlut fyrirtækisins Atmonia, sem þróar róttæka og sjálfbæra tækni til að nýta efnahvata við rafefnafræðilega framleiðslu á ammóníaki án losunar gróðurhúsalofttegunda. Ammoníak er nauðsynlegt efni í áburðarframleiðslu og tryggir matvælaöryggi víða um heim. Einnig er hugsanlegt að nýta ammoníak sem rafeldsneyti á skip og flugvélar.

Mikilvægt er að hvetja fyrirtæki eins og Atmonia til dáða, því það er til mikils að vinna takist þeim ætlunarverk sitt að framleiða ammoníak á umhverfisvænan hátt. Hefðbundin framleiðsla ammóníaks veldur nú 1-2% af útblæstri koltvísýrings í heiminum. Þá má gera ráð fyrir að talsvert dragi úr útblæstrinum til viðbótar takist að nýta ammoníak í stað jarðefnaeldsneytis.

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Íslensk orku- og veitufyrirtæki hafa sýnt það í verki að þau leggja rækt við nýsköpun og hafa fært fram lausnir og hugvit sem vekur athygli og á erindi langt út fyrir landsteinana. Nægir að nefna bindingu koltvísýrings, beinan stuðning við nýsköpun í öllum landshlutum og starfsemi auðlinda- og jarðhitagarða þar sem myndaður er grundvöllur fyrir enn betri sjálfbæra nýtingu og frumkvöðlastarf. 

Nú sem aldrei fyrr þarf nýsköpun á vettvangi orku- og veitumála að vera í forgrunni, enda er orku- og veitugeirinn lykilaðili í því að af orkuskiptum geti orðið og Ísland haldi forystu sinni sem græn þjóð. Rétt eins og aðrar atvinnugreinar þarf orku- og veitugeirinn nýjar lausnir fyrir nýja tíma og þarf að þróast í takt við tækniframfarir, hagnýtingu gervigreindar og frekari nútímavæðingu.

Þá þarf að virkja sem flest til góðra verka, því stóru verkefni orkuskiptanna verða ekki leyst á borði orku- og veitufyrirtækjanna einum saman. Metnaðarfull, skilvirk og góð umgjörð að frjóu umhverfi þarf að vera til staðar af hálfu stjórnvalda þar sem hugvit, þróun og framtak fólks og fyrirtækja getur dafnað.

Efla þarf iðn- og verknám og nám í raungreinum til þess að við eigum mannauð og þekkingu til að takast á við þær róttæku breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í orku- og veitustarfsemi á næstu tveimur áratugum eða svo. Nýtt, fullkomið og verðugt húsnæði undir starfsemi Tækniskólans, sem boðað er er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, mun marka nýtt skeið í menntamálum.

Mikilvægi nýsköpunar fyrir orku- og veitustarfsemi er ótvírætt og rétt að minna reglulega á það. Með henni verður lagður grunnur að því ná loftslagsmarkmiðum og skipta út mengandi eldsneyti fyrir græna sjálfbæra orku. 

Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 27. september 2023.

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 13. október 2023. Verðlaunin verða veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 21. nóvember í Hörpu.

Nánar um forsendur dómnefndar

Tekið er við tilnefningum* hér á meðfylgjandi umsóknarformi. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. 

Dómnefnd velur úr tilnefningum en til að tilnefning teljist gild þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og rökstuðningur þarf að fylgja.

Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hverjum flokki en einnig er hægt að tilnefna fyrirtæki fyrir báða flokka.

*Einungis er hægt að tilnefna skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins. 

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Tilnefna fyrirtæki

Skráning á Umhverfisdag atvinnulífsins

Atmonia hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023

Atmonia fékk í dag Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023. Verðlaunin voru afhent á opnum fundi sem bar yfirskriftina Hugvit / Hringrás / Árangur og fjallaði um mikilvægi orku- og veitutengdrar nýsköpunar.

Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups og talsmaður dómnefndar og Guðbjörg Rist framkvæmdastjóri Atmonia við afhendingu verðlaunanna í dag.

Hér má sjá myndband um sigurvegara Nýsköpunarverðlaunanna 2023.

Nýsköpunarfélagið Atmonia var stofnað árið 2016 af Agli Skúlasyni, Helgu Dögg Flosadóttur og Arnari Sveinbjörnssyni með það að markmiði að þróa róttæka og sjálfbæra tækni til að nýta efnahvata við rafefnafræðilega framleiðslu á ammóníaki án losunar gróðurhúsalofttegunda.

Ammoníak er mikilvægt fyrir áburðarframleiðslu, en áburður tryggir matvælaöryggi um allan heim. Hins vegar er sú aðferð sem notuð er til framleiðslunnar mjög mengandi og veldur 1-2% af koltvísýringsútblæstri af mannavöldum í heiminum. Þessi nýja tækni hefur möguleika á að umbylta því. Þá er einnig hægt að nýta ammoníak sem rafeldsneyti á stærri farartæki.

Tækni Atmonia er einkaleyfavarin sem ber vott um nýnæmi hennar.

Við mat dómnefndar var horft til ýmissa þátta eins og nýnæmis, samsetningu teymis, verðmætis fyrir Ísland, markaðstækifæra, verðmætis m.t.t. loftslagsmála og nýtingu orku, vatns og hliðarstrauma fyrir verkefnið.

Það er mat dómnefndar að verkefni Atmonia mæti mjög vel lýsingu Samorku á nýsköpunarverðlaununum og þeim þáttum sem hér voru nefndir.  Dómnefndin var einróma í mati sínu og telur að framgangur verkefnisins geti haft afar jákvæð og þýðingarmikil áhrif.  

Má þar nefna nýtingu hreinnar innlendrar orku fyrir eldsneytis- og áburðarframleiðslu, minnkun kolefnislosunar, auknar útflutningstekjur og minni innflutning erlendra afurða.  Verkefnið getur einnig nýst víða annars staðar og aukið hróður íslenskrar tækni erlendis. 

Það er von dómnefndar að Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023 verði Atmonia hvatning til enn frekari sigra á spennandi vegferð fyrirtækisins.

Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarverðlaun Samorku eru afhent. Fyrri handhafar eru Laki Power (2021) og Alor (2022).

Katrín Helga ráðin lögfræðingur Samorku

Katrín Helga Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin lögfræðingur Samorku.

Katrín Helga hefur fjölbreytta reynslu á sviði lögfræði, úr atvinnulífinu og af opinberri stjórnsýslu. Frá 2000 til 2014 starfaði hún í lögmennsku, einkum á sviði fjármála- og fyrirtækjalögfræði og var meðeigandi á lögmannsstofunni BBA Legal. Frá 2013-2018 starfaði hún við kennslu á  Bifröst m.a. á sviði kröfuréttar og í stjórnarháttum fyrirtækja. Katrín kemur til Samorku frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, þar sem hún var starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur síðastliðin tvö ár.  

Samhliða föstum störfum hefur Katrín Helga setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Katrín hóf störf hjá Samorku í dag, 1. september.

Full orkuskipti möguleg árið 2050

Fullum orkuskiptum verður ekki náð árið 2040 eins og markmið stjórnvalda segja til um samkvæmt nýrri raforkuspá sem Landsnet gaf út í gær, 24. ágúst 2023. En góðu fréttirnar eru þær að við getum enn orðið jarðefnaeldsneytislaus árið 2050, að því gefnu að allt vinni saman; markaðurinn, uppbyggingin, ábyrg notkun og takmörkun á umhverfisáhrifum.

Svandís Hlín Karlsdóttir framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunarsviðs hjá Landsneti og og Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti eru viðmælendur þáttarins í dag. Við ætlum að ræða nýju raforkuspána og þörfina á nýrri nálgun og nýrri hugsun í orkumálum þjóðarinnar til framtíðar.

Hægt er að skoða raforkuspá Landsnets hér.

Hagfræðin hennar ömmu og auðlindanýting í Svartsengi

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi eru lykilorð í orku- og veitugeiranum um allan heim um þessar mundir, en fyrir Alberti Albertssyni eru þetta einfaldlega ný orð yfir hagfræðina hennar ömmu. Að bera nægilegan kærleik í brjósti fyrir því sem jörðin gefur okkur að ekkert fari til spillis. Þessa hugmyndafræði drakk Albert í sig frá blautu barnsbeini og nýtti í gegnum áratuga starfsferil á Suðurnesjunum, fyrst hjá Hitaveitu Suðurnesja og síðar hjá HS Orku, þar sem þetta leiðarljós var virkjað í Auðlindagarðinum sem gengur út á þekkingarmiðlun og fullnýtingu auðlindastrauma.

Albert, sem er nýsestur í helgan stein, er gestur þáttarins að þessu sinni og við ræðum um hvernig veganestið frá ömmu hefur verið lykilatriði í auðlindanýtingu í Svartsengi.

Lokun vegna sumarleyfa

Skrifstofa Samorku verður lokuð dagana 17. júlí – 7. ágúst. Hægt er að ná í starfsfólk með því að senda póst á samorka@samorka.is.

Skrifstofan opnar að nýju þriðjudaginn 8. ágúst.

Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2023

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á sérstökum nýsköpunarviðburði í haust og verður dagsetning kynnt innan skamms. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin verða afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 20. ágúst. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2022.

Blámi í stafni orkuskipta fyrir vestan

Hagkerfi Vestfjarða er algörlega háð jarðefnaeldsneyti. Lífið snýst að miklu leyti um sjávarútveg, en svo eru ferðaþjónusta og skemmtiferðaskip í mikilli sókn og samfélagið reiðir sig á vöruflutninga inn og út af svæðinu. Fyrir Þorstein Másson, framkvæmdastjóra Bláma, er þetta ekkert annað en tækifæri til sóknar í notkun grænnar orku.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. 

Þorsteinn Másson er viðmælandi þáttarins og við förum yfir víðan völl um samfélag í örum vexti, ávinning af orkuskiptum fyrir vestan og mikilvægi þess að efla mannauð og þekkingu fyrir orkuskiptin á svæðinu og á Íslandi öllu.