Kristín Linda nýr stjórnarformaður

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, var í dag kjörin stjórnarformaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Hún tekur við af Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastýru Orku náttúrunnar. Þrjú ný taka sæti í stjórn Samorku; Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála, hjá HS Orku, Páll Erland, forstjóri HS Veitna, og Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar.  

Í stjórn Samorku sitja jafnframt áfram þau Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum, Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, og Steinn Leó Sigurðsson, sviðstjóri Veitu- og framkvæmdasviðs hjá Skagafjarðarveitum.

Þá voru þau Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, og Harpa Pétursdóttir, stjórnandi málefna haghafa og stjórnsýslu hjá Orku náttúrunnar, kjörin varamenn í fyrsta sinn. Fyrir eru Aðalsteinn Þórhallsson, Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, varamenn í stjórn.

Stjórn Samorku er því þannig skipuð að loknum aðalfundi 2023:

Aðalmenn:

Kristín Linda Árnadóttir, formaður stjórnar

Björk Þórarinsdóttir, HS Orku

Páll Erland, HS Veitum

Magnús Kristjánsson, Orkusölunni

Steinn Leó Sveinsson, Skagafjarðarveitum

Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum

Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum

Varamenn:

Aðalsteinn Þórhallsson, HEF

Eyþór Björnsson, Norðurorka

Harpa Pétursdóttir, Orka náttúrunnar

Jón Trausti Kárason, Veitum

Hörður Arnarson, Landsvirkjun

Fréttir

Sveitastelpan sem knýr framtíð loftslagsmála

Hér á landi er gróska fyrirtækja sem vinnur að orku- og veitutengdri nýsköpun og eitt þeirra er Alor, handhafi Nýsköpunarverðlauna Samorku árið 2022, sem vinnur að þróun nýrrar tegundar rafhlaðna.

Eftirspurn eftir rafhlöðum mun margfaldast á næstu árum, en gallinn er sá að þær sem við þekkjum í dag eru ekkert sérstaklega umhverfisvænar. Alor ætlar sér að breyta því.

Framkvæmdastýra Alor er Linda Fanney Valgeirsdóttir, menntaður lögfræðingur með nýsköpunarblóð í æðum sem nýlega lenti á lista StartUp Basecamp yfir konur sem knýja framtíð loftslagsmála í heiminum.

Í þætti dagsins ætlum við að kynnast henni aðeins betur og heyra meira um umhverfisvænu og sjálfbæru rafhlöðurnar sem fyrirtækið vinnur að.  

Lovísa Árnadóttir, þáttastjórnandi og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor.
Hlaðvarp
Nýtt af nálinni

Orkuveita Reykjavíkur hlaut Menntasprotann 2023

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins og Vaxtarsprotar OR hljóta Menntasprotann 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag.

Vaxtasprotar OR hljóta Menntasprotann 2023

Fulltrúar OR taka við Menntasprotanum í Hörpu í dag.

Orkuveita Reykjavíkur hlaut í morgun Menntasprotann árið 2023 fyrir verkefnið „vaxtarsprotar“ – leiðtogaþjálfun. Verkefnið er nýtt hjá OR og öllum dótturfélögum fyrirtækisins með það að markmiði að þróa vinnustaðina og breytta menningu til þess að takast betur á við síbreytilegt umhverfi og auknar kröfur og væntingar viðskiptavina.

Dótturfyrirtæki OR eru afar fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að vera innviðafyrirtæki með einum eða öðrum hætti. Þar er bæði verið að framleiða og selja orku, reka margar af mikilvægustu auðlindum landsins, byggju upp fjarskiptainnviði en einnig er lögð mikil áhersla á rannsóknir og nýsköpun á fjölbreyttum sviðum t.d. á sviði kolefnisföngunar og förgunar. Eitt af markmiðunum er að nýta leiðtoga þvert á verkefni og vinnustöðvar sem hluta af lærdómsferli leiðtogans en um leið kynna vaxtarsprotana úti í fyrirtækjunum.

„Í nútíma samfélagi þar sem sífelldar breytingar eru veruleikinn er mikilvægt að vinna að stöðugri nýsköpun og framþróun í þjónustu við viðskiptavini. Með verkefninu „vaxtarsprotar“ setti OR á dagskrá þjálfun starfsfólks í nýrri færni og vexti þar sem sveigjanleiki er aukinn og hraðar er hægt að bregðast við áskorunum, óvæntum uppákomum en síðast en ekki síst nýjum tækifærum.“ segir Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir mannauðsstýra OR.

Skapar virði fyrir vinnustaðinn 

Með vaxtarsprotanum fær starfsfólk tækifæri til þess að fá þjálfun til að draga fram sterkan umbótavilja og verkfæri til að hjálpa öðrum að vaxa og takast á við breytingar þar sem samskiptatæknin er lykill að árangri. Mikil ásókn er hjá starfsfólki að komast í þessa þjálfun sem stendur samanlagt í níu mánuði. OR leggur áhersla á að þjálfunin sé tengd við raunveruleg verkefni (e. learn by doing) og hefur þetta þjálfunarprógram hitt í mark og umsækjendur skipta tugum.

„Ferðalagið var ótrúlegt og lærdómskúrfan mín rauk upp í veldisvexti. Bæði lærði ég mikið inn á sjálfa mig og hvernig er árangursríkast að vinna með mig og annað fólk í kringum mig en ekki síst hvernig ég get skapað meira virði fyrir vinnustaðinn minn“.

Svona lýsir einn leiðtoginn sínu ferðalagi og árangrinum af þessu skemmtilega og spennandi verkefni. Verkefni sem byggir á framsýni, forvitni og tileinkun nýrra aðferða og tækni.

Verðlaunin voru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á Menntadegi atvinnulífsins í Hörpu í dag. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þvert á atvinnugreinar og var haldinn í tíunda sinn í ár. Menntaverðlaunin eru valin af dómnefnd úr fjölda tilnefninga og veitt þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála.

Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var Færniþörf á vinnumarkaði og hér má horfa á fundinn á upptöku.

Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins.
Fréttir

Spurt og svarað um vindorku

Það fer sjálfsagt ekki framhjá neinum að það er nokkuð vindasamt á Íslandi. Það þarf ekki að vera neikvætt, allavega ekki þegar kemur að því að nýta vind til framleiðslu á raforku.

Þrátt fyrir að nýting vindorku sé vel þekkt í nágrannalöndum okkar og þróunin hafi verið mjög hröð síðustu ár er umræða um nýtingu tiltölulega ný hér á landi og hvergi í heiminum eru gerðar jafnmiklar kröfur um rannsóknir og undirbúning fyrir vindorkuverkefni.

Í þættinum er farið yfir helstu vangaveltur um vindorkunýtingu með Helga Hjörvar, sem situr í sérfræðingahópi Samorku um vindorku og vinnur að þróun vindorkuverkefna hér á landi.

Hlaðvarp

Orku- og veitumál í brennidepli á árinu

Upplýsingafulltrúi Samorku skrifar:

Orku- og veitumál eru mikilvægur málaflokkur sem kemur við sögu í daglegu lífi landsmanna á hverjum einasta degi. Öflugt starfsfólk vinnur að því hörðum að færa heimilum og fyrirtækjum heitt og kalt vatn, rafmagn og góða fráveituþjónustu.

Stundum erum við þó minnt á að það dugir ekki alltaf til. Á árinu höfum við dæmi um bæði raforkuskort og skort á heitu vatni, sem hefur áhrif á fólk og fyrirtæki. En hvað veldur?

Gott aðgengi að orku er ekki sjálfgefið. Orkumál eru flókinn málaflokkur sem krefst þess að horft sé til lengri tíma, jafnvel áratuga fram í tímann. Langan tíma tekur að rannsaka, þróa og byggja nýja orkukosti. Ef við ætlum okkur eitthvað eftir 10-20 ár, þurfa stjórnvöld að veita tilskilin leyfi til þess með löngum og nægum fyrirvara.

Orkuöryggi og orkusjálfstæði hefur einnig fengið meira vægi eftir að hörmulegt stríð braust út í Úkraínu á árinu og áhrif þess birtast meðal annars í mikilli orkukrísu um alla Evrópu. Þó við séum að mörgu leyti í forréttindastöðu á Íslandi því við framleiðum sjálf langstærstan hluta þeirrar orku sem samfélagið þarf, þá eru allar samgöngur háðar innfluttri olíu og óljóst er um framboð af rafmagni, heitu vatni og rafeldsneyti í náinni framtíð.

Eins og laga- og regluverkið hefur þróast síðustu ár hefur það því miður ekki stuðlað að orkuöryggi í landinu til framtíðar litið. Rammaáætlun, með bæði nýjum raforkukostum og háhitasvæðum til hitaveitunýtingar, var loks afgreidd á árinu eftir að hafa velkst um í kerfinu í næstum því áratug, sem er alltof langur tími að bíða niðurstöðu um nýtingu eða vernd.

Á meðan fjölgar íbúum í landinu og atvinnulífið vex og blómstrar. Samkvæmt nýjum upplýsingavef Samorku, Samtaka iðnaðarins, Landsvirkjunar og EFLU, orkuskipti.is, sem opnaði á árinu, er 60% allrar orku sem notuð er á Íslandi heitt vatn sem nýtt er til húshitunar, baðlóna og annarrar neyslu. Samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060 mun eftirspurn atvinnulífsins eftir jarðvarma aukast mikið. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. En eins og kom í ljós nú undir lok ársins eru hitaveiturnar þegar margar hverjar í vandræðum með að anna núverandi eftirspurn þrátt fyrir að hafa unnið að aukinni heitavatnsöflun árum saman. Regluverkið um háhitasvæðin hefur tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum og auka þarf stuðning við jarðhitaleit á köldum svæðum.

Sviðsmyndir hvað varðar orkuþörf fyrir samfélagið voru kynntar í byrjun mars í nýrri skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lét vinna með tilliti til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið var að draga fram staðreyndir og upplýsingar á grundvelli faglegra sjónarmiða. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á það sem nemur rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.  

Að stjórnvöld setji metnaðarfull markmið í loftslagsmálum er eðlilegt í landi þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í allri orkunotkun er það hæsta í heimi. En það er samt sem áður stórt verkefni að að hætta að nota þau milljón tonn af jarðefnaeldsneyti sem við flytjum inn á hverju ári fyrir árið 2040 og uppfylla orkuþörfina með öðrum umhverfisvænni orkugjöfum. Til viðbótar þarf auðvitað að sinna almennri orkuþörf heimila og atvinnulífs. Ávinningurinn getur hins vegar verið mjög mikill. Samkvæmt nýrri greiningu EFLU á orkuskipti.is getur fjárhagslegur ávinningur orðið 1.400 milljarðar til ársins 2060 og orkusjálfstæði landsins væri tryggt.

En hvaðan orkan að koma sem á að skipta bensíni og olíu út? Sú nauðsynlega umræða er auðvitað þegar hafin, sem er jákvætt og mikilvægt er að fá sem flesta að borðinu. Flestir virðast sammála um að jarðefnaeldsneytislaust Ísland sé markmið sem er þess virði að vinna að þó að skiptar skoðanir séu um réttu leiðina að því.

Á árinu var vindorka rædd mikið enda hafa komið fram margar hugmyndir hér á landi um vindorkukosti til nýtingar og fyrstu vindlundirnir voru afgreiddir úr rammaáætlun. Að mati Samorku er vindorka eðlileg viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Hingað til hefur skort á fullnægjandi lagaumgjörð um vindorkunýtingu, en von er á tillögu frá stjórnvöldum snemma á næsta ári. Samorka hefur talað fyrir því að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. 

Þá verður þess vonandi ekki langt að bíða að rafeldsneytisframleiðsla ryðji sér til rúms hér á landi enda verður það nauðsynlegur orkugjafi eftir því sem orkuskiptum fleygir fram, þá fyrir stærri farartæki svo sem skip og flugvélar. Ísland er í einstakri stöðu til að framleiða grænt rafeldsneyti til eigin þarfa og ná þannig markmiðum um full orkuskipti með tilheyrandi verðmæta- og þekkingarsköpun.   

Rétt er að hafa í huga að græna orkan getur ekki skilað sér þangað sem hennar er þörf nema að öflugs flutnings- og dreifikerfis njóti við. Samorka hefur árum saman bent á að nauðsynlegt sé að styrkja uppbyggingu og viðhald þess svo orkuskiptin gangi vel fyrir sig og fjölbreytt atvinnuuppbygging geti blómstrað um allt land.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu hafa það hlutverk að sinna þörfum landsmanna um rafmagn, heitt og kalt vatn og fráveitu. Framundan eru spennandi verkefni í þessum málaflokkum. Við hvetjum alla til að kynna sér orku- og veitugeirann sem framtíðarstarfsvettvang. Nýjar niðurstöður úr könnun á líðan starfsfólks hjá 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins sýna að mikil starfsánægja, hátt menntunarstig og þekking einkenna geirann, en 90% starfsfólks er ánægt með starfið sitt sem er hærra en þekkist á almennum vinnumarkaði og 40% hefur unnið í 11 ár eða lengur. Þetta sýnir að það er vel þess virði að slást í hópinn!

Samorka óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við hlökkum til að eiga áfram líflegt samtal um orku- og veitumál árið 2023.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. janúar 2023.

Fréttir
Greinar

Litið um öxl um áramót

Fráfarandi framkvæmdastjóri skrifar:

Þegar við lítum yfirárið 2022 er ljóst að orku- og veitumál hafa verið í brennidepli. Válynd veður í byrjun árs, vatnsskortur í lónum og skortur á heitu vatni minnir á hve mikilvægt er að hafa orkuöryggi í forgangi og hve langt er frá því að lagaumgjörðin eins og hún hefur þróast síðustu árin stuðli að því.

Í byrjun mars var kynnt skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lét vinna með það að markmiði að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna í þessum mikilvæga málaflokki, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.

Markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 setur orku- og veitufyrirtækjum landsins fyrir ærið verkefni því það er hlutverk þeirra að sinna þörfum samfélagsins fyrir orku og orkuinnviði. Uppbygging orku- og veituinnviða tekur langan tíma og því þarf að sýna mikla framsýni og fyrirhyggju í þessum efnum. Þótt skiptar skoðanir séu um hvað framtíðin beri í skauti sér er ljóst að vaxandi samfélag, þróttmikið atvinnulíf og árangur í loftslagsmálum kallar á stóraukna eftirspurn eftir grænni orku og innviðauppbyggingu sem huga þarf að strax í dag. Ef eitthvað er þá er hraðinn í orkuskiptum nú þegar þannig að veiturnar þurfa að hafa sig allar við og enn er ekki fyrirséð hvaðan græna orkan í orkuskiptin á að koma. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og Alþingi ætla að gera það sem þarf til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir, meðal annars með því að gera orku- og veitufyrirtækjunum kleift að sinna sínu hlutverki nógu hratt og vel.

Nýting vindorku á Íslandi var mikið í sviðsljósinu á árinu og von er á tillögum að lagaumgjörð um hana í febrúar. Samorka hefur talað fyrir því að umgjörðin hér á landi greiði fyrir nýtingu hennar sem eðlilegri viðbót við græna orkuframleiðslu í þágu loftslagsmarkmiða, orkuskipta og orkusjálfstæðis. Umgjörðin þurfi að taka tillit til eiginleika vindorkunýtingar án þess að veittur sé afsláttur af því að taka tillit til náttúrunnar.

Nú undir lok ársins vakti Samorka athygli á stöðu hitaveitna um allt land sem margar hverjar eru komnar að þolmörkum með að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Gangi eftirspurnarspá Orkustofnunar til ársins 2060 eftir er hætta á að heitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Hitaveiturnar hafa í gegnum árin unnið sleitulaust að aukinni heitavatnsöflun en þar hefur regluverkið um háhitasvæðin tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum. Þá er mikilvægt að stuðningur við jarðhitaleit á svonefndum köldum svæðum verði aukinn til muna.

Ekki er hægt að gera upp árið án þess að minnast á orkukrísuna sem skapast hefur í orkumálum í Evrópu. Af henni þurfum við að draga lærdóm því orkuöryggi, orkusjálfstæði og hagstætt orkuverð er ekki sjálfgefið, ekki heldur hér á landi. Lykilatriðið er að tryggja nægt framboð af innlendri grænni orku (heitu vatni, rafmagni og rafeldsneyti) og byggja upp trausta innviði til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Við hjá Samorku treystum því að samtalið um orku- og veitumálin haldi áfram af krafti á nýju ári og að niðurstaða fáist í ýmis stór mál sem snerta allt samfélagið. Þar á meðal þarf að halda áfram stuðningi við uppbyggingu fráveitna um allt land ásamt því að eyða óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna og þeim heimiluð eðlileg arðsemi eigin fjár svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Eitt brýnasta verkefnið að mati Samorku er uppbygging og viðhald flutnings- og dreifikerfis raforku því aðeins með sterku, áfallaþolnu kerfi sem lágmarkar töp skilar græna orkan sér þangað sem hennar er þörf. Þar hefur flókin lagaumgjörð á ýmsan hátt staðið í vegi fyrir raunverulegum umbótum. Úr þessu þarf að bæta til þess að metnaðarfull markmið um orkuöryggi og árangur í loftslagsmálum verði að veruleika.

Í vetrarhörkum nú um hátíðarnar er rétt að minnast þess að í orku- og veitugeiranum vinnur öflugt starfsfólk sem vinnur hörðum höndum að því á hverjum einasta degi að færa fólki lífsgæðin sem felast í heita vatninu, heilnæmu drykkjarvatni, góðri fráveitu og grænu rafmagni. Oft eru verkefnin unnin við erfiðar aðstæður úti í óblíðri náttúru. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og ýmsar áskoranir er 90% starfsfólks ánægt í vinnunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar félagsins Kvenna í orkumálum, sem er töluvert meiri starfsánægja en gengur og gerist á vinnumarkaðnum. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem staðfesta svo sannarlega að það er gott að vinna í orku- og veitugeiranum enda horfum við björtum augum til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Innherja 2. janúar 2023.

Fréttir
Greinar
Óflokkað

Metnaðarfullt fræðslustarf fyrirtækja: Lykill að framsæknu atvinnulífi

Menntamorgnar atvinnulífsins fara af stað aftur 5. janúar næstkomandi 09:00 – 10:00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35.

Boðið verður upp á morgunkaffi. Menntamorgnar eru samstarfsverkefni SA og aðildarsamtaka.

Fundurinn ber yfirskriftina Metnaðarfullt fræðslustarf fyrirtækja – lykill að framsæknu atvinnulífi.

Dagskrá

 • Skrautfjöður eða strategískt markmið? Allt um tilnefningar til menntaverðlauna atvinnulífsins – Ásdís Eir Símonardóttir mannauðsstjóri Lucinity og forseti Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi
 • Menntasprotinn okkar – kærkomin viðurkenning og hvatning – Knútur Rafn Ármannsson eigandi og framkvæmdastjóri Friðheima
 • Menntaverðlaunin komin í hús – við settum okkur markmið – Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa
  Fundarstjóri er Kristín Lúðvíksdóttir, sérfræðingur hjá SFF.

Menntamorgunninn er hugsaður sem hvatning fyrir fyrirtæki og upptaktur að Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram 14. febrúar nk.

Skráning á fundinn og/eða fyrir streymi

Fréttir

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu. 

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

 • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
 • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
 • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
 • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

 • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
 • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.  Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Fréttir
Nýtt af nálinni

Opnunartími yfir hátíðar

Skrifstofa Samorku verður að mestu lokuð yfir jól og áramót. Starfsfólk er þó í fjarvinnu.

Starfsfólk Samorku óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fréttir

Finnur Beck ráðinn framkvæmdastjóri Samorku

Finnur Beck hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Finnur hefur verið forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku frá miðju ári 2021. Þar áður starfaði Finnur sem lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015 til 2020 og var um tíma settur forstjóri félagsins. Finnur hefur m.a. starfað sem héraðsdómslögmaður hjá Landslögum og hefur sinnt stundakennslu í lögfræði við Háskólann í Reykjavík á sviði fjármunaréttar, stjórnskipunarréttar og alþjóðlegs og evrópsks orkuréttar.

„Orku- og veitumálin eru mikilvægur málaflokkur sem snertir samfélagið allt. Framundan eru spennandi verkefni við að tryggja áfram heitt og kalt vatn, grænt rafmagn og góða fráveituþjónustu ásamt því að vinna með stjórnvöldum að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni með aðildarfélögum okkar og öflugu teymi Samorku “, segir Finnur.

Berglind Rán Ólafsdóttir, stjórnarformaður Samorku: „Finnur hefur umfangsmikla reynslu úr orku- og veitugeiranum. Hann þekkir einnig vel til Samorku, þjónustunnar við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja. Það er því fagnaðarefni að ganga frá ráðningu Finns sem framkvæmdastjóra.“

Finnur tekur þegar í stað við stöðu framkvæmdastjóra Samorku af Páli Erland.

Fréttir