Í samkeppni um vindinn

Framtíðarsýnin er samfélag knúið áfram af 100% grænni orku. Jafnt og öruggt aðgengi allra að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði. Snjallt og sveigjanlegt orkukerfi þar sem engu er sóað. Þetta er bara brot af þeirri framtíðarsýn sem birtist okkur í Orkustefnu til ársins 2050. Hún er skýr, falleg og óumdeild. Leiðin þangað er hins vegar ekki bein og breið og fjölmörg mál sem þarf að leysa úr á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu á næstu árum. Mikil og snörp umræða hefur verið um vindorku undanfarnar vikur í tengslum við virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund og áform um uppbyggingu í vindorku víðar um land. Mörgum vex í augum hvaða áhrif vindorkuver munu hafa á náttúru og umhverfi á meðan aðrir hafa áhyggjur af því að erlendir aðilar komi að orkuframleiðslu á Íslandi, enn aðrir hafa áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er þá bara það helsta talið til. Þetta eru verkefni sem þarf að ræða og leysa.

Mikilvæg skref hafa nú þegar verið stigin. Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024-2038 leggur áherslu á orkuskiptin, kolefnishlutleysi, uppbyggingu í grænni orku og þar með talið nýtingu vindorku. Við afgreiðslu Landsskipulagsstefnu á Alþingi greiddu 45 þingmenn henni atkvæði og enginn sagði „nei“. Stjórnvöld hafa sett markmið og undirgengist skuldbindingar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Alþingi mun á haustmánuðum taka til meðferðar í annað sinn þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í raun má segja að Alþingi, stjórnsýslan, atvinnuvegir landsins og almenningur allur sé á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi – rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Græna byltingin

Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Græna byltingin í Evrópu er keyrð áfram í öflugu markaðshagkerfi þar sem kraftar samkeppninnar fá að njóta sín. Nýjum lausnum og leiðum við orkuöflun og orkunýtni fleygir enda fram víðast hvar. Meginstef grænu byltingarinnar er að Evrópa verði alfarið knúin grænni orku og virk samkeppni á raforkumarkaði tryggi hag neytenda og samkeppnishæfni álfunnar – rétt eins og framtíðarsýnin fyrir Ísland árið 2050 birtist okkur.

Í nýútgefnum Raforkuvísum Orkustofnunar eru birtar tölur um áætlaðar fjárfestingar raforkugeirans fyrir árin 2024 – 2028. Þar kemur fram að heildarfjárfestingar fyrir þetta tímabil eru um 500 milljarðar.

Það er því full ástæða til að sjá það sem fagnaðarefni að bæði innlendir og erlendir aðilar séu tilbúnir að koma að orkuframleiðslu hér á landi á næstu árum og áratugum. Orkan sem verður framleidd mun svo nýtast til að mæta framtíðarorkuþörf þjóðarinnar, bæði heimila landsins, fyrirtækja og iðnaðar.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi. Rétt eins og kröftug samkeppni hefur leitt af sér nýjungar og lækkað vöruverð á öðrum mörkuðum – mun væntanlega það sama gerast á þessum markaði.

Hvað með vind á hafi?

Í umræðunni eru hugmyndir um fjölda annarra orkukosta og möguleika til orkuöflunar og orkunýtni, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna birtuorku, vindorku á hafi, virkjun sjávarfalla og kjarnorku. Þá fleygir fram tækni í tengslum við rafhlöðulausnir og orkunýtni. Víða í Evrópu er mikil uppbygging og þróun í gangi varðandi alla þessa orkukosti og orkutækni og væntanlega mun flest af því berast hingað til lands fyrr en síðar. Í dag er því þó þannig farið að það er langtum dýrara að framleiða rafmagn með vindorku á hafi og kjarnorku en með vind eða sól á landi. Verkefni um vindorku á hafi og kjarnorku verða því nánast eingöngu að veruleika í dag með miklum ríkisstyrkjum og stuðningi. Víðast hvar í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld sett skýrar áætlanir um hve mikið þurfi að auka grænorkuframleiðslu á næstu árum. Þá er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum gríðarlegum fjármunum varið af hálfu hins opinbera til að auka grænorkuframleiðslu til að tryggja orkusjálfstæði og orkuskiptin.

Það er lykilatriði í áframhaldandi samkeppnishæfni samfélags okkar að öflugir fjárfestar og fyrirtæki sjái sér hag í að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og það geti farið fram án umfangsmikilla ríkisstyrkja.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur Samorku skrifaði greinina, sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 11. september 2024.

Álag og líðan

Að vinna við yfirvofandi ógn og mikla óvissu veldur talsverðu álagi. Hér heyrum við hvaða áhrif þetta hefur haft á starfsfólk og stjórnendur ræða um þá áskorun að halda utan um starfsfólkið við þessar aðstæður.
Myndband frá ársfundi Samorku 2024.

Upplifunin

Hlaupið undan rennandi hrauni, flautandi gasmælar, unnið undir vökulu auga sérsveitar og drónaflugs.
Að vinna við óvenjulegar aðstæður kallar á óvenjulegar upplifanir.

Björgun hitaveitu

Hraun rann á ógnarhraða yfir Njarðvíkuræðina með þeim afleiðingum að byggð á Reykjanesi varð heitavatnslaus í kuldanum í janúar. Með þrautseigju, elju og sameiginlegu átaki margra aðila tókst að koma nýrri lögn í gagnið á mettíma. Hér er sagt frá björgun hitaveitunnar við ótrúlegar aðstæður.

Undirbúningur fyrir jarðhræringar

Allt frá því að jarðhræringar hófust á Reykjanesi árið 2021 hefur staðið yfir mjög þétt samtal á milli orku- og veitufyrirtækjanna á svæðinu. Tíminn var nýttur í vísindastörf, prófanir, sviðsmyndagreiningar, uppfærslu á neyðaráætlunum og fleira.

Myndband frá ársfundi Samorku 2024.

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn

Rafmagnsframleiðsla með vindi er þrautreynd og örugg leið til að framleiða rafmagn á umhverfisvænan og árangursríkan hátt. Í nágrannalöndum okkar stendur vindorka undir stórum hluta raforkuþarfar og áform eru um að hraða uppbyggingu hennar í nágrannalöndum okkar til að tryggja aukið framboð, raforkuöryggi og ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda í hverju landi fyrir sig.

Á Íslandi liggja sömu verkefni fyrir. Við þurfum að tryggja raforkuöryggi heimila og fyrirtækja svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna og um leið þarf græna orku í orkuskiptin þar sem jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir græna orku s.s. í samgöngum.

Vindorka er þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver hraðar en þekkist við nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru. Vindorka er því góð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert.

Vandað til verka

Vindorkuverkefni þurfa líkt og önnur að standast mjög strangar kröfur um rannsóknir og umhverfismat áður en þau geta hlotið leyfi. Má þar nefna rannsóknir á gróðurfari, fugla- og vatnalífi og fleira. Um 35 vindorkuverkefni eru til skoðunar í dag hér á landi sem eru mislangt komin í þessu ferli og engin vissa enn um hver þeirra verða að veruleika.

Áhrif vindorkunýtingar eru fyrst og fremst sjónræn og því þarf að vanda staðarval vel. Vindmyllur geta verið ríflega 150 metra háar með spaða í hæstu stöðu og framleiða á bilinu 4-7 MW. Það er því hægt að raða upp ákveðnum fjölda eftir hagkvæmni og hentugleika á hverjum stað.

Líftími vindorkuvera er um 20-25 ár. Í einhverjum tilfellum hafa vindmyllur verið í notkun í allt að 35 ár. Að loknum rekstri þeirra er unnt að reisa nýjar samkvæmt nýjustu tækni eða uppfæra vélbúnað þeirra og auka þannig framleiðslu grænnar orku á sama svæði. Einnig er hægt að taka þær niður og færa svæðið sem næst fyrra horfi. Þannig bindur vindorkunýting ekki hendur framtíðarkynslóða.

Í Evrópu er lögð áhersla á að endurnýta efni úr vindmyllum sem teknar eru úr notkun og um 85-90% hennar er endurnýtanleg. Blöð í myllunum eru byggð úr koltrefjum og unnið er að því að gera þau fullendurnýtanleg. Í takt við breytta tíma hafa evrópsk vindorkufyrirtæki sett fram ákall um að í Evrópu verði lagt bann við að urða blöðin árið 2025. Þannig skuldbinda fyrirtækin sig til endurnýja að fullu aflagðar vindmyllur.

Sameiginlegur ávinningur

Mikill ávinningur felst í því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Í dag notar íslenskt samfélag um milljón tonn af olíu á ári og það kostar okkur 100 milljarða á hverju ári! Með því að nota græna orku framleidda innanlands í stað innfluttrar olíu myndum við fá hreinna loft, meiri fjármuni í okkar sameiginlegu sjóði og aukið sjálfstæði frá öðrum þjóðum með því að vera sjálfum okkur nóg um orku. Af vindmyllum eru greidd fasteignagjöld sem renna til þess sveitarfélags sem það starfar í. Stjórnvöld hafa svo í hendi sér hvernig þau skipta á milli sveitarfélaga sem þannig verða til.

Það er ekki einfalt verkefni að þróa og byggja upp orkuverkefni. Það er því fagnaðarefni að öflug, reynd fyrirtæki og einstaklingar, innanlands sem utan, sýni framþróun vindorku á Íslandi áhuga og séu tilbúin til að leggja í miklar fjárfestingar.

Á heimasíðu Samorku má nálgast algengar spurningar um vindorku og svör og auk þess má hlusta á þáttinn Spurt og svarað um vindorku í hlaðvarpi Samorku, Lífæðar landsins, á öllum hlaðvarpsveitum.

Höfundur greinarinnar er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Greinin birtist fyrst 4. september á visir.is.

Gróska í nýtingu birtuorku á Íslandi

Sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki hér á landi eru áhugasöm um að nýta birtuorku (sólarorku) til eigin nota. Tæknin verður sífellt hagkvæmari og með betri rafhlöðutækni og meiri álagsstýringu fer birtuorka að verða raunhæfari kostur.

Um allan heim er gríðarleg gróska í þessum geira og birtuorka er sístækkandi hluti af raforkuframleiðslu í fjölmörgum löndum. Á opnum tæknifundi Samorku í morgun var rætt um möguleika til nýtingar á sólarorku í raforkukerfi Íslands.

Á fundinum tóku til máls þeir Bergur Haukdal, framkvæmdastjóri Netbergs, sem sagði frá þróun í smærri sólarorkuframleiðslu hér á landi. Hann talaði um vaxandi áhuga, til dæmis meðal bænda, til að setja upp sólarsellur en það þyrfti að bæta regluverkið hvað varðar að mata orkuna inn á kerfið. Þá talaði Ólafur Davíð Guðmundsson, tæknistjóri rafmagns hjá Orkunni, meðal annars um hönnun birtuorkukerfa og rafhlöðutækni með hleðslustöðvum sem hafa gefið góða raun. Að lokum fór Kjartan Rolf Árnason, þróunarstjóri RARIK, yfir áskoranir dreifiveitna og tækifærin þegar kemur að birtuorku, en þar þarf að horfa til ýmissa tæknilegra þátta til að nýta þetta sem best.

Upptaka af fundinum:

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 6. september 2024. Verðlaunin verða veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fer fram 22. október.

Nánar um forsendur dómnefndar:

Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum en til að tilnefning teljist gild þurfa fyrirtæki að uppfylla sett viðmið og rökstuðningur þarf að fylgja.

Tilnefna þarf fyrirtæki sérstaklega undir hverjum flokki en einnig er hægt að tilnefna fyrirtæki fyrir báða flokka.

Athugið að einungis er hægt að tilnefna skráð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hægt er að tilnefna fyrirtæki hér.

Landsvirkjun var umhverfisfyrirtæki ársins 2023