31. maí 2022 Mundu að velja þér raforkusala 27.06.2022: ATH: Aðeins þeir sem ekki hafa verið í viðskiptum við rafmagnssölufyrirtæki síðustu 90 daga þurfa að bregðast við og velja sér raforkusala sem fyrst. Hjá öðrum, sem hafa verið í samfelldum viðskiptum, fylgir raforkusamningur þegar flutt er. Ef þú ert að kaupa eign númer tvö (eða fleiri) þá þarf að velja sér raforkusala fyrir nýju eignina. Að velja sér raforkusala er mikilvægt. Rétt eins og neytendur þurfa að velja á milli tryggingafélaga og fjarskiptafyrirtækja til að kaupa þjónustu af, þá þarf að velja af hvaða sölufyrirtæki þú vilt kaupa rafmagn. Það er ábyrgð okkar, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að gera það strax og tekið er við nýrri fasteign. Að velja sér raforkusala er bæði einfalt og fljótlegt. Neytendur hafa val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa rafmagn, óháð búsetu. Hægt er að fara inn á heimasíður raforkusölufyrirtækis og ganga frá viðskiptasamningi. Söluaðilar rafmagns eru (í stafrófsröð): Fallorka HS Orka N1 Rafmagn Orka heimilanna Orka náttúrunnar Orkubú Vestfjarða Orkusalan Straumlind Ef ekki er gengið frá samningi við raforkusala verður lokað fyrir rafmagnið því dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að dreifa rafmagni inn á heimili og fyrirtæki ef slíkur samningur er ekki er til staðar. Ekki er opnað fyrir rafmagnið á ný fyrr en raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur einnig í sér kostnað fyrir neytandann. Hægt er að gera samanburð á raforkuverði á heimasíðu Orkuseturs og hjá Aurbjörgu. Samanburðurinn lítur ekki til þátta eins og mismunandi þjónustustigs. Hvernig veit ég hvort ég þurfi að velja? Og fyrir hvaða tíma?Ef þú hefur verið í viðskiptasambandi við raforkusala að undanförnu, færð reikninga og greiðir þá, þarftu ekki að velja þér raforkusala, ekki heldur ef þú flytur. En ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við sölufyrirtæki raforku síðastliðna 90 daga, t.d. ert að kaupa þína fyrstu íbúð eða þú ert í millibilsástandi á meðan þú skiptir um húsnæði, eða af einhverjum öðrum ástæðum þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti, þá er mikilvægt að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú kýst að vera í viðskiptum við og ganga til samninga um kaup á rafmagni. Einnig þarf að velja sér raforkusala ef þú ert að kaupa viðbótareignir við aðra sem þú átt fyrir. Ef þessu er ekki sinnt innan 30 daga frá notendaskiptum er dreifiveitum skylt samkvæmt lögum að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda, að undangenginni skriflegri viðvörun.
27. janúar 2022 Ný greining staðfestir spá um orkuskort Ný greining Landsnets um afl- og orkujöfnuð staðfestir þá niðurstöðu frá sambærilegri greiningu sem unnin var 2019 að orkuskortur verði viðvarandi vandamál á Íslandi næstu árin ef ekki verður brugðist skjótt við. Þetta byggir á þeirri spá um þróun eftirspurnar eftir raforku sem birt er í Raforkuspá Orkustofnunar og þeirri þróun í framleiðslu orku sem orðið hefur á síðustu árum og er fyrirsjáanleg yfir tímabil greiningarinnar sem nær til ársins 2026. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að nýjasta Raforkuspá geri ráð fyrir lægra álagi en sú sem miðað var við í greiningunni árið 2019 vegna áhrifa heimsfaraldursins. Líkur á aflskorti eru undir viðmiðum Landsnets á þessu ári en fara hækkandi eftir það. Þetta þýðir að ekki verði hægt að sinna eftirspurn eftir raforku yfir háálagstíma og skerði þurfi notendur í vaxandi mæli. Til að bregðast við þessari stöðu þurfa því að koma til nýjar orkuframleiðslueiningar, orkusparnaður t.d. með minnkun tapa, bætt nýting á núverandi virkjunum með uppbyggingu flutningskerfis eða þá með því að markvisst að draga úr raforkunotkun í kerfinu. Hvort sem ákveðið verður að fara eina leið fram yfir aðra eða ákveðið að gera allt sem að ofan er talið er mikilvægt að brugðist sé skjótt við til að lágmarka fjárhagslegt tjón sem hlýst af orkuskerðingum og losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis. Áætlanir hjá Landsneti um uppbyggingu flutningskerfisins hafa undanfarin ár tekið mið af þessari stöðu og miðast þær við að hægt verði að hámarka nýtingu virkjana á næstu árum, auðvelda tengingu nýrra orkuframleiðslueininga, auk þess að ná fram orkusparnaði með minnkandi töpum í flutningskerfinu. Að mati Landsnets er mikilvægt að uppbygging nýrrar kynslóðar byggðalínu gangi eftir áætlunum og óskilvirk ferli verði ekki til þess að tefja þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir. Skýrsluna má sjá hér.
26. apríl 2021 Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku Sara Björk, landsliðskona í knattspyrnu, tekur þátt í heimsmeistarakeppninni í endurnýjanlegri orku. Fetar hún í fótspor samherja síns hjá frönsku meisturunum Lyon, Ada Hegerberg, sem setti keppnina á vegum Energi Norge. Keppnin var sett af stað til að minna á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum og gera úr því góðlátlega keppni á milli landa. Samorka ákvað að taka áskorun Energi Norge og taka þátt. Ísland stendur vel að vígi í þessari heimsmeistarakeppni. Ísland framleiðir eingöngu endurnýjanlega orku, en jarðefnaeldsneyti er enn notað í samgöngur. Alls er 83% af allri orku sem notuð er innanlands endurnýjanleg. Það er hins vegar hægt að fara alla leið. Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu og loftslaginu hlíft við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum. Frekari upplýsingar um hvar Ísland stendur í orkumálum má sjá hér.
Laki Power hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku Nýsköpunarfyrirtækið Laki Power hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku á ársfundi samtakanna í dag. Á fundinum var fjallað um nýsköpun í orku- og veitugeiranum og voru verðlaunin ætluð framúrskarandi sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, Berglind Rán Ólafsdóttir stjórnarformaður Samorku, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Laka Power, Óskar Valtýsson, stofnandi Laka Power, Ósvaldur Knudsen, framkvæmdastjóri Laka Power og Einar Pétursson, rafmagnsverkfræðingur hjá Laka Power. Laki Power var stofnað árið 2015 til að þróa tæknibúnað sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma. Úrvinnsla gagnanna fer fram í skýjalausnum sem Laki Power hefur hannað og mun nú leggja áherslu á að þróa enn frekar með tilkomu styrks frá ESB upp á 335 milljónir króna, auk áherslu á að efla sölu- og markaðsstarf. Sex fyrirtæki hlutu tilnefningu til verðlaunanna sem öll eiga það sameiginlegt að byggja á tæknilausnum eða þjónustu fyrir orku- og veitugeirann eða nýta orku, heitt vatn, neysluvatn, fráveitu eða aðra auðlindastrauma til nýsköpunar. Auk Laka Power voru það fyrirtækin Atmonia, GeoSilica, Icelandic Glacial, Pure North Recycling og Sidewind sem tilnefnd voru. Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum fór yfir tilnefningarnar og útnefndi Laka Power sigurvegara. Í viðhengi er mynd frá afhendingu verðlaunanna. Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, Berglind Rán Ólafsdóttir stjórnarformaður Samorku, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Laka Power, Óskar Valtýsson, stofnandi Laka Power, Ósvaldur Knudsen, framkvæmdastjóri Laka Power og Einar Pétursson, rafmagnsverkfræðingur hjá Laka Power. Hér er skemmtilegt myndband um tæknilausn Laka Power, sem hefur þegar fengið staðfestingu á að sé einstök í heiminum með einkaleyfi.
9. desember 2020 Frændur vorir og Fraunhofer Frændur vorir og Fraunhofer er opinn fundur Landsvirkjunar um raforkukostnað stórnotenda á Íslandi. Viðskiptagreining landsvirkjunar mun leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Er það satt að stórnotendum rafmagns bjóðist betri kjör í Noregi en á Íslandi? Hverjar voru helstu niðurstöður í úttekt þýska rannsóknafyrirtækisins Fraunhofer á raforkukostnaði stórnotenda á Íslandi? Hverjar eru horfur á norrænum raforkumarkaði, Nord Pool, í bráð og til lengri tíma? Sérfræðingar viðskiptagreiningar, Dagný Ósk Ragnarsdóttir, Úlfar Linnet og Sveinbjörn Finnsson fjalla um niðurstöður úttektar Fraunhofer og stöðu og horfur á norrænum raforkumarkaði. Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, stýrir fundinum. Fundurinn hefst kl. 9 og er streymt á Facebook síðu Landsvirkjunar.
9. desember 2020 Línurnar lagðar fyrir framtíðina á rafrænum fundi Landsnets Í dag, miðvikudaginn 9. desember fór rafrænn fundur Landsnets um framtíð flutningskerfisins í loftið á www.landsnet.is/leggjumlinurnar . Þar hafa verið tekin saman fróðleg erindi og umræður um áskoranir í uppbyggingu flutningskerfis raforku og viðbrögð og eftirmála óveðursins sem skall á í desember í fyrra. Í einu myndbandinu er farið yfir þá viðbragðsáætlun sem fer í gang hjá Landsneti þegar vitað er að óveður mun skella á. Þar má sjá áhrifin af því þegar kerfi af þessari stærðargráðu verða fyrir verulegum áföllum. Í hringborðsumræðum um orkuöryggi og græna framtíð kom fram sú skoðun Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að óveðrið sýndi að veruleg þörf er á að hraða uppbyggingu orkukerfisins. Nú liggi fyrir hundruð tillagna um brýn verkefni sem ráðast þarf í. Þá skipti þessi uppbygging einnig máli hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi og græna framtíð í orkumálum. Með forsætisráðherra í umræðunum eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets. Í hinni hringborðsumræðunni er fjallað um uppbyggingu flutningskerfis og innviðauppbyggingu. Þar áréttar Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ólíðandi sé að brýnar framkvæmdir sem lúti að almannahagsmunum skuli stranda á skipulagsmálum. Ástandið sem skapaðist í óveðrinu sýni að átak sé nauðsynlegt. Ásamt Aldísi í umræðunni eru þátttakendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þar ræðir ráðherra um að stór og mikilvæg verkefni hafi tekið of langan tíma í uppbyggingu, verið sé að skýra verkferla og flýta sumum þeirra og augljóst sé að fjárfestingarþörfin er mikil. Á heimasíðu fundarins má sjá að auki ýmsa fróðleiksmola um flutningskerfi rafmagns.
1. desember 2020 Veitur snjallmæla mælakerfi raf-, hita- og vatnsveitu Veitur hafa gert samning við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf- hita- og vatnsveitu. Samningurinn hljóðar upp á um 2 milljarða króna og felur í sér kaup á mælum og hugbúnaðarkerfum ásamt aðlögun þeirra að rekstri Veitna. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn (NB-IoT) frá Iskraemeco, varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering og fjarskipti í gegnum kerfi Vodafone Ísland. Veitur áforma að innleiða snjallvædda mæla hjá öllum viðskiptavinum sínum á næstu árum og tengja við hugbúnaðarkerfi. Því fylgir ýmis ávinningur: • Viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn. • Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður viðskiptavinum því kleift að fylgjast betur með, stjórna notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta orkuna og varmann á hagkvæmari hátt. • Veitur munu fá upplýsingar um afhendingargæði við hvern mæli, spennu og hita, og geta nýtt þær upplýsingar til að stýra og forgangsraða viðhaldsverkefnum til að auka afhendingargæði. • Veitur munu geta þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti. Samningurinn leggur áherslu á sameiginleg markmið fyrirtækjanna tveggja, m.a. um snjalla og stafræna framtíð, aukna sjálfbærni og skilvirka þjónustu við viðskiptavini. Markmiðin ríma við þá framtíðarsýn er birtist í stefnum Veitna um hagnýtingu upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækisins, stöðugar umbætur í umhverfismálum og að það er framsækið þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum og virkni samfélagsins.
23. júní 2020 Bræðslurnar spöruðu 56,5 milljón lítra af olíu Fiskimjölsverksmiðjur umhverfisvænni og 83% rafvæddar Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samkomulag um að stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði. Rafmagn uppfyllir nú 83% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja og stefnt er að enn hærra hlutfalli á næstu árum. Átak Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sl. þrjú ár, 2017-2019, hækkaði þetta hlutfall úr 75%. Hlutfall rafmagns í orkukaupum fiskmjölsverksmiðjanna hefur þannig farið sívaxandi og hefur á tímabilinu sparað brennslu á 56,5 milljón lítrum af olíu. Við það minnkaði kolefnislosun fiskmjölsverksmiðjanna um 168 þúsund tonn, sem jafngildir akstri 36.295 fólksbíla á einu ári. Fiskmjölsframleiðendur hafa lengi stuðst bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni og keypt svokallað skerðanlegt rafmagn. Framboð á slíku rafmagni er hins vegar takmarkað og því hafa framleiðendur fiskmjöls þurft að reiða sig líka á olíu, með tilheyrandi mengun. Árið 2017 lýstu Landsvirkjun og FÍF (Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) því yfir að orkufyrirtækið myndi auka framboð á skerðanlegri raforku eftir föngum, en olía yrði áfram varaaflgjafi fiskmjölsframleiðenda. Þá bauð Landsvirkjun smásölum á raforkumarkaði að semja til lengri tíma en áður vegna áframsölu til fiskmjölsframleiðenda. Það varð fiskmjölsverksmiðjum hvati til að ráðast í þær fjárfestingar sem þurfti til að keyra framleiðsluna á rafmagni. Vel gekk að fylgja þessu eftir og hafa Landsvirkjun og FÍF því aftur lýst yfir að samskonar fyrirkomulag gildi til næstu þriggja ára. Sem fyrr er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu umhverfisvænni, draga úr losun CO2 og styðja þar með við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.
29. maí 2020 Landsvirkjun undirbýr vetnisframleiðslu Landsvirkjun undirbýr nú hugsanlega vetnisvinnslu og til að byrja með telur fyrirtækið hentugt að hefja slíka vinnslu við Ljósafossstöð. Landsvirkjun hefur kynnt þann möguleika fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. Við Ljósafoss yrði framleitt svokallað grænt eða hreint vetni, sem fæst með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum. Slík umhverfisvæn framleiðsla á vetni er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor. Starfsemin við Ljósafoss myndi rúmast í tæplega 700 fermetra byggingu, þar sem hægt væri að auka við framleiðslu eftir því sem eftirspurn yrði meiri, en sem dæmi gæti rafgreinir í fullri stærð notað allt að 10 MW af raforku til vetnisframleiðslu. Slík framleiðsla myndi nægja til að knýja bílaflota sem nemur a.m.k. öllum vögnum Strætó. Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, segir að vetni, rafhlöður og metan hafi mismunandi eiginleika, en þarfir notenda skipti mestu máli í vali á orkugjafa. „Vetnið telst auðvelt í vinnslu miðað við margt annað eldsneyti og starfsfólk Landsvirkjunar hefur þegar þá grunnþekkingu sem þarf til framleiðslunnar, þótt frekari þjálfunar sé þörf,“ segir hún. Það sé mikill á vetnisvinnslu að auðvelt er að stýra framleiðslunni. „Rafgreinar þola vel að kveikt sé og slökkt á vinnslunni í samræmi við eftirspurn, svo framleiðandinn getur hagað henni eftir þörfum markaðarins hverju sinni.“ 4% bílaflotans ábyrg fyrir 15% útblásturs Þegar öflug vetnisvinnsla er komin í gang felst í henni hvati fyrir ýmsa anga atvinnulífsins að huga að vistvænni rekstri. Þannig má t.d. benda á, að vöruflutningabílar eru eingöngu um 4% íslenska bílaflotans, en þeir bera hins vegar ábyrgð á 15% alls útblásturs, sem frá bílum stafar. Fjölmargar þjóðir hafa nú sett sér vetnisstefnu. Evrópusambandið og Japan hafa gefið út vetnisvegvísi og áforma stórtæka notkun vetnis í sínum orkukerfum. Vetnið má nýta í rafmagnsframleiðslu, iðnaðarferla, hitaveitu og sem orkugjafa í samgöngum. Ef vetnið er framleitt með endurnýjanlegri orku er það nánast kolefnislaust. Nánari upplýsingar má finna á vef Landsvirkjunar.
21. febrúar 2020 Sala upprunaábyrgða skaðar ekki ímynd Íslands Upprunaábyrgðir raforku hafa verið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um þær, en hins vegar hefur borið á grundvallar misskilningi um grunnatriði þeirra. Hér eru nokkrar staðreyndir um upprunaábyrgðir raforku og ástæður þess að Ísland tekur þátt. Kerfið er hluti af evrópskum loftslagsaðgerðum. Kerfið var sett á laggirnar til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku í Evrópu. Síðan þá hefur hlutfall vottaðrar endurnýjanlegrar orku í Evrópu fjórfaldast. Hlutfall grænnar orku er miklu hærra í þeim löndum sem taka þátt í kerfinu en standa utan þess og þeim fjölgar stöðugt. Upprunaábyrgðir eiga sinn þátt í þessari þróun. Það má teljast ábyrgt að taka þátt í slíkum loftslagsaðgerðum og myndi eflaust vekja athygli víða ef Ísland ákveddi að hætta þátttöku. Þær umbuna framleiðendum endurnýjanlegrar orku fjárhagslega. Til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku var framleiðsla hennar gerð eftirsóknarverðari með því að búa til opinbera vottun á hreinleika orku, upprunaábyrgðir, sem þyrfti að greiða aukalega fyrir. Upprunaábyrgð er staðfesting á því að ákveðið magn af grænni raforku hafi verið framleidd. Með kaupum á upprunaábyrgð hafi kaupandinn styrkt framleiðslu grænnar raforku. Um leið fær hann rétt á að segja að hann noti umrætt hlutfall grænnar orku. Án þess væri enginn hvati fyrir hann að kaupa upprunaábyrgðir. Tekjurnar af sölu upprunaábyrgða renna til framleiðanda orkunnar, þ.m.t. á Íslandi, í þeim tilgangi að umbuna fyrir framleiðslu grænnar raforku. Kaupendur upprunaábyrgða eru ekki að kaupa sér syndaaflausn. Helstu kaupendur upprunaábyrgða í Evrópu eru einstaklingar og fyrirtæki, ekki framleiðendur orku úr jarðefnaeldsneyti. Kaup á upprunaábyrgð breytir ekki neinu um kolefnisspor ákveðinnar framleiðslu eða gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að menga óáreitt. Þau þurfa enn að standa skil á minnkun útblásturs samkvæmt öðrum loftslagsaðgerðum í Evrópu. Ennfremur hafa upprunaábyrgðir engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsaðar til þess að búa til aukin verðmæti fyrir þá sem framleiða endurnýjanlega orku og stuðla þannig til hærra hlutfalli grænnar orku í heiminum. Mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag. Tekjur af sölu upprunaábyrgða voru meiri en einn milljarður árið 2019. Þessi upphæð er hrein viðbót við almennar tekjur af því að selja rafmagn. Það er því beinn ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fá þessar gjaldeyristekjur. Árlegar tekjur af sölu upprunaábyrgða ráðast af markaðsvirði hverju sinni og því gæti þessi upphæð farið upp í allt að fimm milljarða. Mikill ávinningur fyrir fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Öll heimili og langflest íslensk fyrirtæki fá upprunaábyrgð innifalda í sínum raforkukaupum. Þannig eru þær upprunaábyrgðir ekki seldar úr landi. Fyrir fyrirtæki sem starfa í útflutningi getur þetta gefið samkeppnisforskot á þeirra vörur í heimi þar sem krafa neytenda um sjálfbærni og umhverfisvitund verður sífellt háværari. Þau fyrirtæki sem ekki fá upprunaábyrgðir innifaldar í sínum raforkukaupum eru stórnotendur og þeim stendur til boða að semja um að kaupa þær sjái þeir ávinning í því. Ef Ísland hætti þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir gætu íslensk fyrirtæki ekki sýnt fram á grænan uppruna raforku sinnar, nema með því að kaupa upprunaábyrgð erlendis frá. Sala upprunaábyrgða úr landi skaðar ekki ímynd Íslands. Ekkert bendir til þess að þátttaka í kerfinu um upprunaábyrgðir skaði ímynd Íslands. Þvert á móti sýnir kerfið fram á að hér á landi er framleidd græn orka og það er staðfest með alþjóðlegri vottun. Kerfið um upprunaábyrgðir breytir engu um þá staðreynd að á Íslandi er eingöngu framleidd orka með endurnýjanlegum hætti. Þetta á við þrátt fyrir að við þurfum að sýna samsetningu orkuframleiðslu innan evrópska raforkumarkaðarins í uppgjöri sölu á upprunaábyrgðum, en sú samsetning hefur eingöngu þýðingu innan kerfisins um upprunaábyrgðir. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu föstudaginn 21. febrúar 2020. Algengar spurningar um upprunaábyrgðir og svör Dafnandi græn orka: Fræðslufundur um upprunaábyrgðir, upptökur af fyrirlestrum Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orku náttúrunnar Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Landsvirkjunar Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orkusölunnar