Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita

Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar.

Nánari upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.

Jarðhitafélag Íslands styrkir háskólanema

Líkt og undanfarin ár styrkir Jarðhitafélag Íslands háskólanema í jarðhitatengdu námi til að sækja fjölþjóðlega jarðhitaráðstefnu, að þessu sinni 2 styrki um allt að kr. 300 þúsund hvor styrkur.

Niðurstaða stjórnar JHFÍ var sú að styrkina hlytu Elvar Bjarkason, doktorsnemi í jarðhitaverkefni við University of Auckland í Nýja Sjálandi og Sigrún Brá Sverrisdóttir, meistaranemi í orkuverkfræði við Háskólann í Reykjavík.

 

Auðlindagarður á Reykjanesi

Fimmtudaginn 28. maí s.l. var haldinn opinn kynningarfundur í Hörpu, um starfssemi Auðlindagarðsins á Reykjanesi. Flutt voru afar fróðleg erindi um þá fjölbreyttu starfssemi sem orðið hefur til á svæðinu og tengjast öll á einn eða annan hátt orkuvinnslu HS Orku. Þekktast af þessum fyrirtækjum er Bláa Lónið, en til viðbótar hefur orðið til flóra fyrirtækja sem öll eiga tilveru sína að þakka fjölbreyttri nýtingu jarðvarma á skaganum. Meðal þess sem kynnt var, er nýútkomin skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið GAMMA hefur gert um efnahags- og samfélagsleg áhrif Auðlindagarðsins. Til að kynna sér efni GAMMA-skýrslunar, smellið hér og til að kynna sér sögu og starfssemi Auðlindagarsins, þá smellið hér.