Styrkir til jarðhitaleitar

Ákveðið hefur verið að ráðast í átak í jarðhitaleit og frekari nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Átakinu er ætlað að styðja við
loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar, sem og markmið í orkumálum í fjármálaáætlun 2024-
2028; um tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn, aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í
orkubúskap Íslands og jöfnun orkukostnaðar á landsvísu.

Átakið miðar að því að veita stuðning við verkefni sem hafa það að markmiði að hefja nýtingu
jarðhita til almennrar húshitunar, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til
húshitunar. Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatn
sem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlæga
varmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar.

Áhersla er lögð á að styrkja verkefni þar sem nokkur þekking á jarðhita viðkomandi svæðis er
fyrir hendi og snúa þá að því að hefja nýtingu eða frekari rannsóknum með vísan í fyrri
niðurstöður.

Umsóknafrestur er til 3. júlí 2023.  

Til ráðstöfunar eru 450 m.kr.  

Orkusjóði hefur verið falin umsjón með auglýsingu og umsýslu styrkjanna. Umsóknir skulusendar til Orkusjóðs í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: https://gattin.os.is  

Hér má finna reglur um Jarðhitaleitarstyrki

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Mikilvægt framfaraskref fyrir byggðina í Hornafirði var stigið á dögunum þegar Hitaveita Hornafjarðar var formlega tekin í notkun.

Lagningu nýrrar hitaveitu fyrir Höfn og hluta Nesja er nú að ljúka. Heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var hleypt á stærstan hluta Hafnar síðastliðinn vetur en nú hefur dreifikerfi verið lagt í þann hluta sem áður var með beina rafhitun. Nú eiga því allir íbúar Hafnar möguleika á því að tengjast hitaveitunni.

Hluti hópsins við borholuhús RARIK í Hoffelli.

Síðustu áratugi hefur verið rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta hitaveitu á Höfn og voru ¾ húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn sem nýtt var í dreifikerfi veitunnar. Síðustu ár hefur verð á ótryggðri raforku hækkað verulega og framboð á henni verið mikilli óvissu háð. Því var forsenda fyrir óbreyttum rekstri fjarvarmaveitunnar ekki lengur fyrir hendi.

Matthildur Ásmundsdóttir bæjarstjóri, Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri og Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK.

Hitaveita Hornafjarðar er í eigu RARIK sem hefur sett mikla vinnu og fjármuni í leit að heitu vatni á undanförnum árum. Skipulögð leit að virkjanlegum jarðhita í Austur Skaftafellssýslu hefur staðið yfir frá því upp úr 1990 og hafa verið boraðar samtals 54 rannsóknaholur og fimm 1100 til 1750 metra djúpar vinnsluholur í landi Hoffells. Frá 1992 til 2002 kostuðu sveitarfélagið Hornafjörður og Orkustofnun jarðhitaleitina en RARIK kom að verkefninu 2002. Fram til 2006 voru boraðar 33 rannsóknaholur en eftir að RARIK keypti jarðhitaréttindin í Hoffelli 2012 hefur verið boruð 21 rannsóknahola til viðbótar og áðurgreindar fimm vinnsluholur.

Nánari upplýsingar um nýju hitaveituna í Hornafirði má sjá á heimasíðu RARIK.

Nýsköpun í hitaveitu verðlaunuð

Verðlaunahafar saman á sviðinu

Alþjóðlegu hitaveituverðlaunin Global District Energy Climate Awards voru afhent í sjötta sinn á Hilton Reykjavík Nordica í gær, samhliða ráðstefnunni Sustainable District Energy Conference. Samtökin Euroheat and Power standa fyrir verðlaununum og í þetta sinn í samstarfi við voru vinningshafar valdir í samstarfi við Alþjóðaorkumálastofnunina (IEA) og markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

Fjölmargar tilnefningar bárust alls staðar að úr heiminum sem áttu allar það sameiginlegt að vera framlag til að bæta hitaveitu í nærsamfélagi sínu og skipta yfir í endurnýjanlega orku úr jarðefnaeldsneyti til að hita eða kæla húsnæði.

Fimm hitaveituverkefni voru verðlaunuð og tóku fulltrúar fyrirtækjanna við verðlaununum við hátíðlega athöfn í gær. Nánari upplýsingar um verkefnin og verðlaunahafana má sjá á heimasíðu Euroheat and Power.

Framtíð og möguleikar hitaveitu á SDEC 2019 í Reykjavík

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti við opnun hennar í morgun.

Alþjóðlega hitaveituráðstefnan SDEC 2019, Sustainable District Energy Conference, var sett á Hilton Reykjavik Nordica í morgun.

Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska orkuklasann.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin Global District Energy Climate Awards veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin Euroheat & Power og EGEC (European Geothermal Energy Concil) sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

Orkan sem fer í húshitun er um 50% allrar orkunotkunar í löndum Evrópusambandins og ríður því á að skipta út jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa til að kynda og kæla húsnæði. Ráðstefnan er vettvangur fyrir umræðu um hvernig skal unnið að því, fjármögnun verkefna á sviði hitaveitu og tæknilegar útfærslur.

Umfangsmikil dagskrá er í boði um stöðu og framtíðarmöguleika hitaveitu í heiminum, en dagskrána má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

 

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku á SDEC 2019

 

Ráðstefnugestir á opnunarmálstofu SDEC 2019

Þeistareykjavirkjun hlaut gullverðlaun IPMA

Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hefur hlotið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga – IPMA Global Project Excellence Award. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Meginstef verðlaunanna í ár var sjálfbærni.

Þeistareykjavirkjun hlaut verðlaunin í flokknum „Large-Sized Projects“ – stór verkefni. Úrskurður dómnefndar tilgreinir sem helstu styrkleika verkefnisins framúrskarandi samskipti við hagsmunaaðila á undirbúnings- og framkvæmdastigi og samhentan verkefnishóp með áherslur á öryggis- og umhverfismál, í anda stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi.

Verðlaunin þykja mikill heiður fyrir Landsvirkjun og alla þá sem að verkefninu komu; starfsfólk, ráðgjafa og verktaka.

Um IPMA-verðlaunin
Hin alþjóðlega IPMA-verðlaunahátíð fór nú fram í 18. skipti og var haldin í Mexíkó í ár. Yfir 250 fagmenn á sviði verkefnastjórnunar, hvaðanæva að úr heiminum, sóttu hátíðina. Landsvirkjun sendi inn umsókn um að taka þátt í samkeppninni í mars á þessu ári og í framhaldinu kom hingað til lands fimm manna sendinefnd á vegum IPMA til að taka verkefnið út. Í úttektinni fólst meðal annars heimsókn á verkstað og ítarleg samtöl við innri og ytri hagsmunaaðila verkefnisins.

Um Þeistareykjastöð
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöðin sem Landsvirkjun hefur byggt frá grunni en hún samanstendur af tveimur 45 MW vélasamstæðum og er því alls 90 MW. Frá upphafi hönnunar og undirbúnings að uppbyggingu stöðvarinnar var meginmarkmiðið að reisa hagkvæma og áreiðanlega aflstöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru. Rekstur stöðvarinnar hefur gengið vel og er virkni búnaðar umfram væntingar.
Frumkvæði að nýtingu náttúruauðlindarinnar á Þeistareykjum kom frá heimamönnum, en sveitarfélög og íbúar stofnuðu Þeistareyki ehf. árið 1999. Landsvirkjun kom fyrst að verkefninu árið 2005 en hefur frá árinu 2011 haft forgöngu um undirbúning og framkvæmd þess.
Rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum teygja sig áratugi aftur í tímann. Við mat á umhverfisáhrifum var miðað við allt að 200 MW virkjun á svæðinu, en núverandi verkefni var um byggingu 90 MW virkjunar í tveimur áföngum. Framkvæmdir stóðu í rúm þrjú ár.
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð í heimi sem metin hefur verið samkvæmt drögum að nýjum GSAP-matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (Geothermal Sustainability Assessment Protocol). Niðurstöður matsskýrslunnar gáfu til kynna að undirbúningsferlið við Þeistareykjastöð hafi almennt fallið vel að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun samkvæmt sjálfbærnisvísum lykilsins. Af þeim 17 vísum sem metnir voru fengu 11 þeirra hæstu einkunn sem lykillinn veitir, eða „proven best practice.“ Þá þykir verkefnið til fyrirmyndar m.a. hvað varðar samskipti og samráð við hagsmunaraðila og nýtingu á jarðhitaauðlindinni.

Heitt vatn fundið í Súgandafirði

Leit á vegum Orkubús Vestfjarða að auknum jarðhita að Laugum í Súgandafirði hefur nú borið árangur. Talsvert magn af heitu vatni streymir inn í borholuna á 940 metra dýpi og er það yfir væntingum. Holan er orðin 971 metra djúp, en ekki liggur fyrir enn hvert lokadýpið verður, þar sem reiknað er með að bora eitthvað dýpra.

Þetta kemur fram á vef Orkubús Vestfjarða.

Mynd frá Orkubúi Vestfjarða af loftdælingu þann 25. ágúst.

30 seklítrar af 63 gráðu heitu vatni

Mælingar og prófanir á næstu tveimur mánuðum munu leiða í ljós hvers vænta má af holunni til lengri tíma litið. Skammtímamælingar gefa þó til kynna talsvert meira magn en úr eldri vinnsluholu Orkubúsins. Fullsnemmt er að fullyrði nákvæmlega um magnið, en fyrstu vísbendingar gefa til kynna að um geti verið að ræða a.m.k. 30 l/sek. eða þrefalt til fjórfalt það magn sem eldri holan gaf. Hitastigið er núna 63°C og er reiknað með að það fari í a.m.k 67°C.

Allt bendir því til að hægt verði að nota jarðhitavatn eingöngu til að hita húsnæði á Súgandafirði, en í dag er þar rekin rafkynt hitaveita sem nýtir jarðhitaorku að hluta til.

Kostnaður á þriðja hundrað milljóna

Ellefu rannsóknarholur voru boraðar á árunum 2016 til 2018, til að ákveða staðsetningu á vinnsluholunni, en áður höfðu farið fram rannsóknir og rýni á eldri gögnum.

Vænta má að heildarkostnaður við verkefnið verði á þriðja hundrað milljónir króna. Þar er um að ræða kostnað við rannsóknir, borun á rannsóknarholum, úrvinnslu gagna og undirbúning og borun vinnsluholu.

Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sér um borun vinnsluholunnar og notar til verksins borinn „NASA“.

 

Orkustefna er leiðarljós

Aðalfundur Samorku, sem haldinn var 6. mars 2019 á Grand hótel Reykjavík, ályktaði um orkustefnu:

Á sama tíma og heimurinn stendur frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum er ljóst að tækifæri Íslendinga til jákvæðra aðgerða eru einstök. Landið er ríkt af auðlindum sem gerir okkur kleift að ganga bjartsýn inn í næstu orkuskipti.

Sem aldrei fyrr er samfélag okkar, heimili, atvinnurekstur og þjónusta, grundvallað á orku. Orku- og veitufyrirtækin reka samfélags¬lega mikilvæga innviði sem jafnframt eru grunnur að rekstri annarra mikilvægra innviða.

Skýr stefnumörkun í orkumálum er því afar mikilvæg og fagnaðarefni að vinna við orkustefnu sé nú hafin hjá ríkistjórn Íslands.

Orkustefna þarf að tryggja orkuöryggi landsmanna, nægt framboð af orku sem uppfyllir þarfir þjóðarinnar, að hér sé skilvirkt og hagkvæmt regluverk og traustir orkuinnviðir. Hafa þarf í huga að orkuöryggi snýr bæði að raforku og heitu vatni.

Orkustefna þarf að styðja við að orkuframleiðsla verði áfram ein af grunnstoðum efnahags- og samkeppnishæfni þjóðarinnar um leið og hún gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Orkustefna þarf þannig að vera skýrt leiðarljós inn í sjálfbæra framtíð.

Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri ON

Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur ráðið Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Berglind hefur gengt starfinu tímabundið frá því í september síðastliðnum en það var auglýst laust til umsóknar í byrjun þessa árs.
Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún var ráðin til Orku náttúrunnar á árinu 2017 sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaða og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.

Orka náttúrunnar er stærsta orkufyrirtæki landsins á sviði jarðvarma og vinnur rafmagn og heitt vatn í virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði auk raforkuvinnslu í Andakílsárvirkjun. ON er þjónustufyrirtæki með viðskiptavini um allt land og býður heimilum og fyrirtækjum eingöngu upp á vottaða endurnýjanlegra orku.

Fyrirtækið er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi og rekur 50 hlöður fyrir rafbílaeigendur um allt land. Árleg velta fyrirtækisins nemur um 20 milljörðum króna og starfsfólk er liðlega 80 talsins. Formaður stjórnar ON er Hildigunnur H. Thorsteinsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveita Reykjavíkur fær 2 milljarða styrk

Hellisheiðarvirkjun

Orkuveita Reykjavíkur (OR) ásamt samstarfsaðilum hefur hlotið ríflega tveggja milljarða króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Styrkurinn er til verkefnisins GECO, sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita. OR leiðir þetta samstarfsverkefni 18 fyrirtækja og stofnana víðs vegar að úr Evrópu.

Markmið GECO (Geothermal Emission Control) er að þróa jarðhitavirkjanir með sem allra minnsta losun koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsvetnis (H2S) byggða á CarbFix verkefninu sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun.

Gróðurhúsalofti breytt í grjót

CarbFix-aðferðin, stundum nefnd Gas í grjót, felst í að leysa koltvíoxíð og brennisteinsvetni upp í vatni og dæla þeim djúpt niður í basaltberglögin við Hellisheiðarvirkjun. Þar losna efni úr basaltinu sem bindast lofttegundunum og mynda stöðugar steintegundir, t.d. silfurberg og glópagull, innan tveggja ára. CO2 og H2S er þannig steinrunnið í berggrunninum til frambúðar. Þessi aðferð er ódýrari en hefðbundnar hreinsunaraðferðir á þessu jarðhitalofti og leiðir til langtímabindingar þess.

Með GECO verkefninu verður CarbFix aðferðin þróuð enn frekar og henni beitt víðar. Auk Íslands verður hún prófuð á Ítalíu, í Tyrklandi og í Þýskalandi.

Þá verða einnig þróaðar aðferðir sem stuðla að hagnýtingu jarðhitalofttegunda. Unnið verður að enn umhverfisvænni og sparneytnari aðferðum við hreinsun koltvíoxíðs með hagnýtingu í huga og þannig auka tekjumöguleika við jarðhitanýtinguna.

Hlutu brautryðjendaverðlaun Women in Geothermal

Frá afhendingu viðurkenningarinnar. F.v. Andy Blair, formaður WING samtakanna, Dr. Bryndís Brandsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Marta Rós Karlsdóttir, sendiherra WING á Íslandi.

Alþjóðlegu samtökin WING (Women in Geothermal) veittu á dögunum Dr. Bryndísi Brandsdóttur jarðeðlisfræðingi og Dr. Árný Erlu Sveinbjörnsdóttur jarðfræðingi og jarðefnafræðingi brautryðjendaverðlaun fyrir framlag þeirra til rannsókna og þróunar á jarðhita á Íslandi sem og innblástur þeirra til kvenna í jarðhita. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar veitti verðlaunin fyrir hönd WING.

Dr. Bryndís Brandsdóttir hefur tekið virkan þátt í að auka þekkingu á skjálftavirkni og uppbyggingu jarðskorpunnar við Ísland í samvinnu við fjölda erlendra háskóla og stofnana. Rannsóknir hennar hafa meðal annars snúið að jarðskjálftum, staðsetningu kvikuhólfa og uppbyggingu jarðskorpu í virkjum eldfjallakerfum.

Dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir á langan og farsælan rannsóknarferil að baki. Rannsóknir hennar á samsætum í grunnvatni hafa lagt mikið af mörkum til jarðhitarannsókna, en þær geta sagt til um uppruna og forsögu jarðhitavatns og aukið þannig skilning á samsetningu, hegðun og uppruna jarðhitakerfa.

Er þetta í annað skipti sem WING veitir íslenskum konum viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf í jarðhitarannsóknum en markmið samtakanna er að vekja athygli á möguleikum kvenna til menntunar, starfa og framgangs innan jarðhitageirans ásamt því að auka sýnileika þeirra. Áður hlutu verðlaunin þær Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur og Dr. Hrefna Kristmannsdóttir, jarðfræðingur, fyrir sín framlög til nýtingu jarðhita á Íslandi.