18. nóvember 2017 Þeistareykjavirkjun gangsett Ráðherrarnir gagnsetja virkjunina með samskiptum við stjórnstöð Landsnets og vaktmann á Þeistareykjum í gegnum TETRA-kerfið. 17. aflstöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum var gangsett í dag við hátíðlega athöfn. Um er að ræða þriðju jarðvarmastöð fyrirtækisins, en fyrir eru Kröflustöð og gamla gufustöðin í Bjarnarflagi. Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni. Þeistareykjastöð verður 90 MW. Hún er reist í tveimur 45 MW áföngum og var vélasamstæða 1 gangsett í dag og tengd við flutningskerfi Landsnets. Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, gangsettu virkjunina í sameiningu. Hörður Arnarson forstjóri sagði í ávarpi sínu að framkvæmdin hefði tekist vel og lögð hefði verið mikil áhersla á samskipti og samráð og umhverfis- og öryggismál. Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra að um þjóðhagslega hagkvæman virkjunarkost væri að ræða, sem myndi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og hafa jákvæð áhrif í víðtækum skilningi. Mikil áhersla er lögð á varfærna uppbyggingu og nýtingu jarðvarmans á svæðinu, en fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MW virkjun á svæðinu. Uppsetning á vélasamstæðu 2 er nú í fullum gangi og er stefnt að því að orkuvinnsla hennar hefjist í apríl 2018. Nánari upplýsingar um sögu virkjunarinnar má sjá á vef Landsvirkjunar.
29. september 2017 Orka náttúrunnar tilnefnd sem besta græna vörumerkið Orka náttúrunnar er tilnefnd til alþjóðlegu CHARGE vörumerkjaverðlaunanna sem besta vörumerkið í flokki grænnar orku. ON er eina íslenska fyrirtækið sem tilnefnt er í flokknum og keppir þar við fjögur erlend vörumerki. Besta vörumerkið að mati fjölmennrar alþjóðlegrar dómnefndar verður útnefnt 10. október næstkomandi. Orka náttúrunnar hefur vakið athygli fyrir uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og hefur fjöldi þeirra margfaldast eftir að fyrirtækið setti á laggirnar hraðhleðslustöðvar víðs vegar um Reykjavík og landið allt. Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaðar ON, segir alla afar stolta af tilnefningunni. „Þarna eru margir kallaðir en fáir útvaldir og það er frábært að fá hvatningu af þessu tagi í þeim mikilvægu verkefnum sem ON vinnur að. Við höfum hvatt eindregið til rafbílavæðingar hér á landi – bæði í orði og í verki – og vörumerki ON er orðið óaðskiljanlegt þeirri þróun. Rafbílabyltingin getur orðið eftirmynd hitaveitubyltingarinnar sem var góð fyrir umhverfið, góð fyrir veskið og góð fyrir orkusjálfstæði þjóðarinnar. Fyrir það vill ON standa og tilnefningin gefur til kynna að við séum á réttri braut“, segir Áslaug Thelma í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Vörumerkjaverðlaun CHARGE verða afhent á samnefndri ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október. Orka náttúrunnar varð til í ársbyrjun 2014 eftir lögbundna aðgreiningu sérleyfis- og samkeppnisþátta í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. ON rekur þrjár virkjanir, selur rafmagn til um helmings landsmanna og aflar um helmings heita vatnsins í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
15. ágúst 2017 Sylvía Kristín Ólafsdóttir ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar Landsvirkjunar Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar. Hlutverk jarðvarmadeildar á orkusviði er að annast aflstöðvar Landsvirkjunar á sviði jarðvarma og vindorku þannig að þær skili tilgreindu hlutverki sínu. Deildin ber ábyrgð á rekstri, eftirliti og viðhaldi þessara orkuvirkja og leggur áherslu á öryggi og hagkvæmni, umhverfismál og samstarf við nærsamfélag. Sylvía hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015 sem forstöðumaður tekjustýringar á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði. Áður starfaði hún hjá höfuðstöðvum Amazon í Evrópu fyrst við rekstur og áætlanagerð um innviði vöruhúsa víðs vegar um Evrópu. Þaðan fór Sylvía í Kindle deild fyrirtækisins og sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur. Áður starfaði Sylvía m.a sem forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía situr í stjórn Ölgerðarinnar og Orkufjarskipta. Sylvía er gift Kjartani Björgvinssyni og eiga þau tvö börn.
15. ágúst 2017 Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík. Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári. Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg. Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna. Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.
27. mars 2017 Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns EIMUR, í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf, efnir til hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra með áherslu á nýtingu heita vatnsins í Vaðlaheiðargöngum. Um er að ræða almenna hugmyndasamkeppni og hún er öllum opin. Engar skorður eru settar varðandi það hverskonar nýting er lögð til, því ætlunin er að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um hvernig nýta má lághitavatn. Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar, þar af nema fyrstu verðlaun ekki lægri upphæð en 1.500.000 kr. Allar nánari upplýsingar um keppnina má finna á heimasíðu EIMS. Aðdragandi keppninnar er sá að í febrúar árið 2014 komu bormenn verktaka Vaðlaheiðarganga inn á vatnsæð í göngunum sem er um 46°C heit. Nú hefur komið í ljós að hitastig og vatnsmagn virðist nokkuð stöðugt og ljóst að þarna er um töluverða auðlind að ræða sem í dag rennur ónýtt út i sjó. Sambærilegar ónýttar lághitaauðlindir liggja víðsvegar um svæðið og verður þess vegna einnig opið á að skila inn hugmyndum um nýtingu þeirra.
3. febrúar 2017 Viðskiptavinir ON ánægðastir Starfsfólk ON fagnar niðurstöðu Ánægjuvogarinnar Orka náttúrunnar hlaut í dag viðurkenningu sem það raforkusölufyrirtæki í landinu sem býr við mesta ánægju viðskiptavina sinna. Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON tók við viðurkenningarskjali þessa efnis þegar niðurstaða Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 voru kynntar. Bjarni Már sagði við það tækifæri að fyrirtækið legði sérstaka áherslu á gagnlega upplýsingagjöf í öllum samskiptum við viðskiptavini og tiltók þá nýjung að nú geta rafbílaeigendur sótt sér upplýsingar um stöðu hraðhleðslustöðva ON í gegnum smáforrit fyrir farsíma. Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að gera samræmdar og óháðar mælingar á ánægju viðskiptavina og gera niðurstöðurnar opinberar. Mælingar eru einnig gerðar á nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á ánægjuna, svo sem ímynd, mati viðskiptavina á gæðum og tryggð viðskiptavina við viðkomandi fyrirtæki. ON og áður Orkuveita Reykjavíkur hafa tekið þátt í Íslensku ánægjuvoginni um árabil. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækin lenda í fyrsta sæti í þessari keppni um ánægðustu viðskiptavinina. Orka náttúrunnar, sem er eitt af þremur dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, selur rafmagn um allt land. Rafmagnið er framleitt, ásamt heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið, í virkjunum ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. ON tók til starfa 1. janúar 2014 og er því nýorðið 3ja ára gamalt.
1. febrúar 2017 Ný bók um jarðhitalöggjöf Lögmannsstofan BBA hefur gefið út handbókina „Geothermal Transparency Guide“. Í bókinni er veitt yfirsýn yfir helstu atriði jarðhitalöggjafar er varða rannsóknir, nýtingu og framleiðslu á raforku með jarðhita í 16 löndum, þ.m.t. á Íslandi. Löndin sem fjallað er um í bókinni eiga það sammerkt að nýta jarðhita til raforkuvinnslu nú þegar eða hafa möguleika og áhuga á slíkri nýtingu. Markmið útgáfunnar er að auka gagnsæi og þekkingu á lagaumhverfi umræddra ríkja hvað varðar aðgang að auðlindum og önnur réttindi og skyldur aðila, bæði opinberra aðila og einkaaðila. Við vinnslu bókarinnar fékk BBA til liðs við sig lögfræðistofur í hverju ríki fyrir sig til að geta lýst regluverki jarðvarma í hverjum stað. Handbókin er án endurgjalds og má finna á heimasíðu BBA og einnig eftir óskum á bókarformi. Nánari upplýsingar beinist til ritstjóra bókarinnar, Hörpu Pétursdóttur, í netfangið harpa@bba.is.
17. janúar 2017 Umhverfisvæn raforkuframleiðsla á Íslandi Aðeins 22% allrar raforku í OECD ríkjum er framleitt með endurnýjanlegum hætti. Á Íslandi er þetta hlutfall 99,99% . Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Tölur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60% rafmagns í OECD ríkjum er framleitt með jarðefnaeldsneyti, 18% með kjarnorku, 14% með vatnsafli og loks rúmlega 8% með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, en jafnframt má sjá hlutfallslega aukningu í jarðvarma, vindi, sól og fleiru. Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73% af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26%. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu. Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir.
6. október 2016 Nýjar víddir jarðvarmans á haustfundi JHFÍ Haustfundur JHFÍ verður haldinn fimmtudaginn 13. október næstkomandi, frá 15:00-16:30. Fundurinn verður haldinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur, að Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík. Þema fundarins er „Nýjar víddir jarðvarmans“ og kaffi og meðlæti er í boði OR. Dagskrá: 15:00 – 15:05 Setning fundarins Kristín Vala Matthíasdóttir, formaður Jarðhitafélags Íslands 15:05 – 15:10 Úthlutun á styrk JHFÍ 15:10 – 15:15 Ávarp fundarstjóra Fulltrúi frá Konum í Orkumálum 15:15 – 15:30 Vistferilsgreining á rafmagni og heitu vatni frá Hellisheiðarvirkjun Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda, Orku Náttúrunnar 15:30 – 15:45 CarbFix verkefnið: Kolefnisbinding á jarðhitasvæðum Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, doktorsnemi í jarðefnafræði, Háskóla Íslands 15:45 – 15:55 Uppfærsla á þrívíðu hugmyndalíkani af jarðhitasvæðinu í Kröflu Unnur Þorsteinsdóttir, jarðfræðingur, ÍSOR 15:55 – 16:05 Efnisval og prófanir á húðunarefnum fyrir Jarðhitahverfla Helen Ósk Haraldsdóttir, meistaranemi, Háskóla Íslands 16:05 – 16:20 Role of multidisciplinary geothermal exploration for drilling, monitoring and modelling Maryam Khodayar, jarðfræðingur, ÍSOR 16:20 – 16:30 Lokaorð fundarstjóra og fundarslit
23. september 2016 Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%. Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi. Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI). Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega. Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.