29. september 2017 Orka náttúrunnar tilnefnd sem besta græna vörumerkið Orka náttúrunnar er tilnefnd til alþjóðlegu CHARGE vörumerkjaverðlaunanna sem besta vörumerkið í flokki grænnar orku. ON er eina íslenska fyrirtækið sem tilnefnt er í flokknum og keppir þar við fjögur erlend vörumerki. Besta vörumerkið að mati fjölmennrar alþjóðlegrar dómnefndar verður útnefnt 10. október næstkomandi. Orka náttúrunnar hefur vakið athygli fyrir uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og hefur fjöldi þeirra margfaldast eftir að fyrirtækið setti á laggirnar hraðhleðslustöðvar víðs vegar um Reykjavík og landið allt. Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaðar ON, segir alla afar stolta af tilnefningunni. „Þarna eru margir kallaðir en fáir útvaldir og það er frábært að fá hvatningu af þessu tagi í þeim mikilvægu verkefnum sem ON vinnur að. Við höfum hvatt eindregið til rafbílavæðingar hér á landi – bæði í orði og í verki – og vörumerki ON er orðið óaðskiljanlegt þeirri þróun. Rafbílabyltingin getur orðið eftirmynd hitaveitubyltingarinnar sem var góð fyrir umhverfið, góð fyrir veskið og góð fyrir orkusjálfstæði þjóðarinnar. Fyrir það vill ON standa og tilnefningin gefur til kynna að við séum á réttri braut“, segir Áslaug Thelma í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Vörumerkjaverðlaun CHARGE verða afhent á samnefndri ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október. Orka náttúrunnar varð til í ársbyrjun 2014 eftir lögbundna aðgreiningu sérleyfis- og samkeppnisþátta í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. ON rekur þrjár virkjanir, selur rafmagn til um helmings landsmanna og aflar um helmings heita vatnsins í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.