Húshitunarkostnaður langlægstur í Reykjavík

Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.

Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

 

Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Styrkir til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur

Jarðhitafélag Íslands veitir í ár háskólanemum, í fögum tengdum jarðhita, styrk til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrknum er ætlað að nýtast til að greiða ferða- og uppihaldskostnað og/eða ráðstefnugjöld.

Um er að ræða 2 styrki til framhaldsnema í háskólanámi (MS/Ph.D) að upphæð allt að kr. 300.000 fyrir hvern styrk. Stjórn félagsins mun velja styrkþega úr hópi umsækjenda.

Eftirtalin atriði geta orðið til að styrkja einstakar umsóknir:
– Umsækjandi verði með erindi eða annað slíkt hlutverk á viðkomandi ráðstefnu.
– Nám umsækjanda sé komið vel á veg.
– Umsækjandi sé í fullu námi.
– Lokaverkefni umsækjanda eða efni erindis geti haft hagnýtt gildi hérlendis.
– Umsækjandi búi að starfsreynslu tengdri jarðhitanýtingu.
– Umsækjandi sé félagsmaður í Jarðhitafélagi Íslands.

Umsóknum um styrki fyrir árið 2016 ber að skila til Sigurjóns Norberg Kjærnested, ritara stjórnar Jarðhitafélagsins, í netfangið sigurjon@samorka.is (eða með pósti til Sigurjóns á skrifstofu Samorku, merkt v. Jarðhitafélags Íslands, Borgartúni 35, 105 Reykjavík), eigi síðar en mánudaginn 12. september 2016. Umsóknum fylgi upplýsingar um námsferil, efni og stöðu lokaverkefnis eða ráðgerðs erindis á ráðstefnu, hagnýtt gildi verkefnis hérlendis, starfsreynslu tengda jarðhitarannsóknum eða -nýtingu ef við á, ásamt upplýsingum um þá ráðstefnu sem viðkomandi hyggst sækja.

Samanburður á hagkvæmni virkjanakosta

Virkjunarkostir landsmanna eru fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu, nýtingu og fleira. Vatnsaflsvirkjanir hafa almennt verið ódýrari í stofnkostnaði á hvert uppsett megavatt (MW) en á móti hafa jarðhitavirkjanir skilað hærri nýtingu. Flókið getur verið að leggja mat á hagkvæmni þegar um ólíka kosti er að ræða.

Samorka leggur hér fram aðferðarfræði og útreikning á mismunandi hagkvæmni virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga rammaáætlunar. Aðferðarfræðin kallast LCOE, eða Levelized Cost of Energy. Hún er vel þekkt á alþjóðavettvangi í skýrslum um orkumál þó að ekki hafi hún verið notuð hingað til hér á landi. Með LCOE er hægt að nota „sömu mælistiku“ í samanburði ólíkra virkjunarkosta. Skýrsluna vann Kristján B. Ólafsson, rekstrarhagfræðingur.

Í fyrirliggjandi skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem nú er í umsagnarferli, var einungis tekið tillit til niðurstaðna frá faghópum 1 og 2, sem fjalla um náttúru- og menningarminjar og auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Ekki er stuðst við niðurstöður frá faghópum 3 og 4, sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagsleg áhrif af virkjanakostum. Að mati Samorku vantar mikið upp á ef ekki er tekið tillit til þeirra þátta. Þeir ættu að vera mikilvægur hluti af heildarmyndinni líkt og sjónarmið náttúruverndar og annarrar nýtingar á borð við ferðaþjónustu.

Skýrslan sýnir að allt að alls getur munað tugum, jafnvel yfir hundrað milljörðum króna, á samanlögðum stofnkostnaði við virkjanakosti í núgildandi nýtingarflokki annars vegar og ef valdir væru hagkvæmustu kostirnir hins vegar. Hún sýnir einnig að árlegur kostnaður við orkuframleiðslu er mörgum milljörðum króna meiri við kosti í núverandi orkunýtingarflokki en við hagkvæmustu uppröðun.  Að sjálfsögðu koma fleiri sjónarmið en hagkvæmni virkjanakosta við sögu við röðun virkjunarkosta. Samorka ítrekar hins vegar áherslu á mikilvægi þess að jafnframt verði horft til hagkvæmni, sem og efnahags- og samfélagslegra áhrifa við röðun virkjunarkosta.

Samorka vonast til að skýrslan varpi ljósi á hvernig meta má hagkvæmni mismunandi virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga rammaáætlunar. Aðferðafræði LCOE getur komið að góðu gagni við frekari úrvinnslu, stefnumörkun og röðun virkjunarkosta.

Uppfærsla 11. júlí: Því miður skiluðu töflur á síðu 12 og 13 sér ekki rétt inn í skýrsluna. Uppfærða útgáfu af henni má finna hér:  LCOE skýrsla (PDF 2 MB)

Koltvísýringi breytt í stein á tveimur árum

Hægt er að binda koltvísýring sem steintegund í basaltberglögunum við virkjun ON á Hellisheiði að 95 prósentum á tveimur árum en ekki öldum eða árþúsundum eins og áður var talið. Þetta kemur fram í grein í Science, sem er eitt útbreiddasta og þekktasta vísindatímarit heims. Greinin fjallar um CarbFix loftslagsverkefnið sem unnið hefur verið að við jarðgufuvirkjun Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007. Sjá nánar hér á vef ON.

Nýgengi krabbameina ekki hærra hér en í grannlöndum

Að gefnu tilefni vill Samorka minna á gagnrýni á rannsóknir Aðalbjargar Kristbjörnsdóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum, Thors Aspelund og Vilhjálms Rafnssonar, prófessora við Læknadeild HÍ, um tengsl á milli tíðni krabbameina og lengdar búsetu í sveitarfélögum sem nota jarðhitavatn á Íslandi og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum á síðustu árum.

Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri ÍSOR og Helgi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í krabbameinslækningum við HÍ, sem eru meðal færustu fræðimanna þjóðarainnar á sviði jarðeðlisfræði og krabbameinslækninga, hafa ítrekað bent á ágalla við umræddar rannsóknir í gegnum tíðina. Meðal annars er aðferðafræðin gagnrýnd, bent á ósamræmi í vali á háhitasvæðum og að finna megi aðrar þekktar skýringar á aukinni tíðni tiltekinna krabbameina.

Ef notkun á hitaveituvatni yki áhættuna á að fá krabbamein, mætti búast við að nýgengi krabbameina væri hærra á Íslandi en í grannlöndunum, þar sem um 90% landsmanna hafa hitaveitu. Svo er ekki. Krabbameinsáhættan er áþekk á Íslandi og honum Norðurlöndunum, bæði fyrir öll krabbamein og þau einstöku krabbamein sem tiltekin eru í rannsóknum Aðalbjargar, Thors og Vilhjálms.

Íslenskar jarðvísindakonur heiðraðar

Hrefna Kristmannsdóttir og Ragna Karlsdóttir hlutu á dögunum brautryðjendaverðlaun alþjóðasamtakanna Women in Geothermal, WING, fyrir framlag sitt til útbreiðslu jarðhitanotkunar í heiminum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti þeim verðlaunin í móttöku samtakanna á jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference, sem fram fór í Reykjavík dagana 26. -28. apríl.

Hrefna var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi í jarðfræði. Það gerði hún frá Oslóarháskóla árið 1970. Hún átti langan starfsferil sem jarðefnafræðingur á Orkustofnun og átti þátt í að þróa efnafræðilegar aðferðir við mat á jarðhitaholum sem nú er beitt við allar slíkar boranir. Hrefna hefur verið mikilvirk á vísindasviðinu og skrifað um 100 greinar sem birst hafa í vísindatímaritum.

Ragna Karlsdóttir er jarðeðlisfræðingur sem einnig starfaði lengi hjá Orkustofnun og nú síðari ár hjá ÍSOR. Þar hóf hún störf árið 1970 og hefur komið að rannsóknum, líkanagerð og auðlindamati á öllum þeim háhitasvæðum sem nýtt eru hér á landi og flestum lághitasvæðunum með einhverjum hætti.

Báðar hafa þær Ragna og Hrefna komið að starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem rekinn er hér á landi.

WING eru samtök sem hvetja til framgangs kvenna innan jarðhitageirans, styðja við konur sem þar starfa og leitast við að gera störf þeirra á þeim vettvangi sýnilegri. Samtökin voru stofnuð 2013.

Móttaka WING var haldin í félagi við Konur í orkumálum, sem eru samtök kvenna sem starfa við orkumál á Íslandi. Þau samtök eru líka ný af nálinni.

Auk iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði Andrea Blair, forseti WING, samkomuna.
 

 

Ísland án jarðhita?

Ísland án jarðhita?

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Margfalt hærri reikningur fyrir húshitun. Engin snjóbræðsla í gangstéttum, gervigrasvöllum, eða bílastæðum. Engar knattspyrnuhallir. Miklu dýrara innlent grænmeti og/eða afar lítil innlend grænmetisframleiðsla. Fáar sundlaugar og litlar. Langar sturtuferðir mikill lúxus. Gluggar lítið opnaðir á veturna. Margfalt fleiri olíutankar. Margföld losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi.

Um 700 manns frá 46 löndum sóttu nýafstaðna ráðstefnu jarðhitaklasans í Hörpu, þar sem sumt af framangreindu kom fram þegar fyrirlesarar reyndu að sjá fyrir sér Ísland án nýtingar jarðhitaauðlindarinnar. Ljóst er að lífskjör væru hér mun lakari í hefðbundnum efnahagslegum skilningi. Hið sama má segja um ýmis lífsgæði sem okkur þykja sjálfsögð í dag.

Einn Landsspítali á ári
Saga jarðhitanýtingar til húshitunar nær yfir 100 ár hérlendis. Mikið átak var gert í uppbyggingu hitaveitna í kjölfar olíukreppunnar snemma á áttunda áratugnum, en þá var olía víða notuð við húshitun hérlendis. Samanburðurinn við olíu er þess vegna áhugaverður. Ef við værum almennt að nýta olíu til húshitunar í dag, í stað jarðhitans, þyrfti að flytja hér inn olíu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Það er vel ríflega nýr Landsspítali. Á hverju ári. Að auki værum við í stað grænnar orkunýtingar að losa gróðurhúsalofttegundir á við alla losun Kaupmannahafnar og helmingi betur.

Milljón á ári per heimili
Ef við horfum á tölurnar út frá beinum kostnaði hvers heimilis, að frádregnum dæmigerðum húshitunarkostnaði hérlendis, væri viðbótarkostnaðurinn um ein milljón króna á ári á dæmigert heimili. Milljón á ári.

Tölurnar hér að framan miðast við þá forsendu að við værum að nýta jafn mikla orku með brennslu olíu og jarðhitinn skilar okkur í dag. Auðvitað er sú forsenda umdeilanleg. Við myndum áreiðanlega nota miklu minni orku, en þó gegn mun hærri kostnaði. Húsin væru ekki jafn hlý. Sturtuferðirnar styttri og jafnvel færri. Knattspyrnulandsliðin okkar ekki að ná sama árangri. Andrúmsloftið mengað af olíureyk. Og lífskjörin verri.

 

Gagnagrunnur fyrir sérfræðinga í jarðhita

Alþjóðajarðhitasambandið, IGA, hefur komið á fót sérstökum miðlægum gagnagrunni fyrir sérfræðinga í jarðhita. Gagnagrunninum var ýtt úr vör á IGC 2016 ráðstefnunni í Hörpu í gær. Gagnagrunninum, sem kallast Expert Pool, er ætlað að auðvelda fyrirtækjum eða alþjóðasamtökum að leita að sérfræðingum, starfsfólki eða ráðgjöfum í málefnum jarðhita og þannig einnig bjóða upp á starfstækifæri fyrir alla þá sem starfa í geiranum.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir slíkum vettvangi aukist hjá IGA og ætti þessi nýi gagnagrunnur að vera gott tækifæri fyrir íslenska sérþekkingu í jarðhitageiranum, sem er með þeirri bestu sem gerist í heiminum. Hægt er að skrá sig í grunninn á heimasíðu Alþjóðajarðhitasambandsins.